SÉRA  EIRÍKUR  Í  VOGSÓSUM



Í Biskupstungum var eitt sinn kotkarl nokkur gamall og forn í skapi; lítt siðblendi hafði hann við alþýðu. Hann átti tvo hluti, er honum þóttu bestir af eigum sínum; það var bók, er ekki vissu aðrir menn, hvers innihalds var, og kvíga, er hann kappól.

Karl tók sótt mikla og sendi orð Skálholtsbiskupi og bað hann koma á sinn fund. Biskup brá við skjótt og hugði gott til að tala um fyrir karli og fer til fundar við hann.

Karl mælti: "Svo er mál með vexti, herra, að ég mun skjótt deyja, og vil ég áður biðja yður lítillar bónar." Biskup játti því. Karl mælti: "Bók á ég hér og kvígu, er ég ann mjög, og vil ég fá hvort tveggja í gröf með mér, ella mun verr fara."

Biskup segir, að svo skuli vera, því honum þótti ei örvænt, að karl gengi aftur að öðrum kosti. Síðan dó karl, og lét biskup grafa með honum bókina og kvíguna.

Það var löngu síðar, að þrír skólasveinar í Skálholti tóku fyrir að læra fjölkynngi. Hét einn þeirra Bogi, annar Magnús, þriðji hét Eiríkur. Sagt hafði þeim verið af karli og bók hans, og vildu þeir gjarnan eiga þá bók, fóru því til á einni nóttu að vekja upp karlinn, en enginn kunni að segja, hvar gröf hans var. Því tóku þeir það ráð að ganga á röðina og vekja upp hvern af öðrum. Fylla þeir nú kirkjuna af draugum, og kom karl ekki. Þeir koma þeim niður aftur og fylla kirkjuna í annað sinn og hið þriðja, og voru þá fá leiði eftir og karl ókominn.

Þegar þeir höfðu komið öllu fyrir aftur, vekja þeir þessa upp, og kom karl þá síðastur og hafði bók sína undir hendi sér og leiddi kvíguna. Þeir ráða allir á karl og vilja ná til bókarinnar, en karl brást við hart, og áttu þeir eigi annað að gjöra en verjast. Þó náðu þeir af bókinni framanverðri nokkrum hluta, yfirgáfu svo það eftir var og vildu koma fyrir þeim, er þá voru á kreiki, og tókst þeim það við alla nema karlinn. Við hann réðu þeir engu, og sótti hann eftir parti bókar sinnar. En þeir vörðust og áttu ærið að vinna. Gekk svo til dags. En er dagaði, hvarf karl í gröf sína, en þeir þuldu yfir henni fræði sín, og hefur karl ekki gjört vart við sig síðan.

En blöðin færðu þeir félagar sér í nyt og sömdu eftir þeim fjölkynngisbók þá, er Gráskinna er nefnd og lengi lá á skólahúsborði í Skálholti. Vann Bogi þar mest að, því hann lærði miklu mest.

Þeir félagar vígðust síðan til prestskapar; varð Eiríkur prestur á Vogsósum í Selvogi, en ekki eru nefndir staðir hinna. En það er frá þeim sagt, að Magnús gekk að eiga heitmey Boga. En er hann spurði það, fer hann til fundar við Magnús, og vissi Magnús það fyrir og það með, að ef Bogi sæi hann fyrri, væri það sinn bani.

Magnús gekk í kirkju og stóð að hurðarbaki og lét segja Boga, er hann reið í hlað, að hann væri í kór að gjöra bæn sína. Bogi gekk í kirkju og inn á gólf, og sér Magnús hann fyrri og fagnar honum nú vel. Hann tók því glaðlega, og er hann reið burt, fylgdi Magnús honum á veg.

Að skilnaði tekur Bogi upp pela og býður Magnúsi að súpa á. Hann tók við, tók úr tapann og skvettir í andlit Boga, en hann féll dauður niður. Fer Magnús síðan heim, og segir ekki fleira af honum.

Þegar Eiríkur á Vogsósum frétti þenna atburð, brá honum við og mælti: "Já, já, heillin góð" (það var vana ávarp hans), "allir vorum við þó börn hjá Boga."

Þó þeir félagar hefðu farið dult með fjölkynngislærdóm sinn, leið ekki á löngu, áður það komst í orð, að Eiríkur á Vogsósum væri göldróttur. Því boðaði biskup honum á sinn fund og sýndi honum Gráskinnu og bað hann gjöra grein fyrir, hvort hann kynni það, sem á henni væri.

Eiríkur fletti upp bókinni og mælti "Hér þekki ég ekki einn staf á," og það sór hann og fór heim síðan. Sagði hann svo síðan kunningja sínum, að hann þekkti alla stafi á bókinni nema einungis einn og bað hann segja frá því, þegar hann væri dauður, en ekki fyrr.

Margir yngissveinar fóru til Eiríks prests og báðu hann kenna sér. Hann reyndi þá með ýmsu móti og kenndi þeim, er honum sýndist. Meðal annarra var einn piltur, er falaði kennslu í galdri.

Eiríkur mælti: "Vertu hjá mér til sunnudags, og fylg mér þá til Krýsuvíkur; síðan skal ég segja þér af eða á."

Þeir ríða af stað á sunnudaginn, en er þeir koma út á sand, mælti Eiríkur: "Ég hef þá gleymt handbókinni; hún er undir koddanum mínum; farðu og sæktu hana, en ljúktu henni ekki upp."

Pilturinn fer og sækir bókina og ríður út á sand. Nú langar hann til að líta í bókina, og það gjörir hann. Þá koma að honum ótal púkar og spyrja: "Hvað á að gjöra, hvað á að gjöra?"

Hann svarar skjótt "Fléttið reipi úr sandinum."

Þeir setjast við, en hann heldur áfram og nær presti úti í hrauni. Hann tók við bókinni og mælti: "Þú hefur lokið henni upp." Pilturinn neitar því.

Þeir fara nú sem ætlað var. En á heimleiðinni sá prestur, hvar púkar sátu á sandinum. Þá mælti hann: "Vissi ég það, að þú laukst upp bókinni, heillin góð, þó þú neitir; en snjallasta ráð tókstu, og væri vert að kenna þér nokkuð." Er svo sagt, að hann hafi kennt honum.

Annan pilt, sem kennslu falaði, sendi prestur fram í Strandarkirkjugarð og kvaðst hafa skilið þar eftir glófa sína. Pilturinn fer og finnur glófana; en er hann vill taka þá, kvika fingurnir. Hann varð hræddur og fer aftur og segir presti. Hann mælti: "Farðu heim, heillin góð; þér get ég ekki kennt."

Einu sinni kom piltur til Eiríks og bað hann að kenna sér galdur. "Ég kann engan galdur, heillin góð," segir Eiríkur, "en vera máttu í nótt." Maðurinn þá það.

Þetta var um vetur. Á vökunni kemur prestur til piltsins og biður hann að festa tarfi sínum, sem hafi slitið sig upp. Pilturinn játar því og fer út í fjósið. Þar var langur ranghali inn að ganga, og lagði inn í hann daufa skímu. Hann heyrði, að tarfurinn lét illa og bölvaði í ákefð. Ei að síður fer pilturinn inn. En þegar hann kemur inn í ranghalann, sér hann tvo menn, og stóð sinn hvorum megin við veggina í ranghalanum. Þeir voru höfuðlausir og börðust með blóðugum lungunum. Piltinum varð bilt við og hrökk út aftur. Hljóp hann inn til Eiríks og sagði, að fjandinn væri laus í fjósinu hans og gæfi hann ekki um að ganga í greipar honum.

"Jæja, heillin góð," segir Eiríkur, "þá verður þú að fara burtu aftur á morgun."

Annar maður kom seinna í sömu erindum til Eiríks, sem hann lagði sömu þraut fyrir. Sá var ekki smeykur og sagði, þegar hann sá draugana: "Þið megið vera að ykkar vinnu, piltar, þó ég gangi snöggvast á milli ykkar." Batt hann svo tarfinn og gekk vel. Þegar hann fór út aftur, sá hann hvergi draugana. En þar sá hann trédrumba tvo, sem draugarnir höfðu verið. Þegar hann kom inn aftur, sagði Eiríkur: "Batstu tarfinn, heillin góð?"

"Ójá, víst batt ég hann," segir hinn.

"Sástu ekkert á leið þinni?" segir Eiríkur.

"Ekki get ég talið það," segir hinn. Eiríki líkaði þetta svo vel, að hann tók manninn og kenndi honum.


Einu sinni bað unglingsmaður séra Eirík að lofa sér að fara með honum eitt laugardagskvöld, er prestur hvarf frá bænum. Prestur skoraðist lengi undan því og sagði hann mundi ekki hafa mikil not af því. Maðurinn sótti því fastar á, og hét Eiríkur loksins að verða við bón hans einhvern tíma.

Nokkru síðar fer prestur og tekur manninn með sér. Þá var veður fagurt og bjart. Þeir gengu út á túnið að hól einum. Prestur slær sprota á hólinn. Lýkst hann þá upp, og kemur þar út kona roskin. Hún heilsaði Eiríki kompánlega og bauð honum inn. Þar kom og út stúlka ungleg, og bauð hún fylgdarmanni prests inn. Þeir gjörðu svo og komu í baðstofu. Hún var byggð á palli, og sat þar fjöldi manna allt í kring. Þeir Eiríkur sátu ystir við dyr öðrum megin og Eiríkur þó innar. Enginn talaði hér orð frá munni, og þótti fylgdarmanni prests það kynlegt. Konurnar gengu út báðar og komu inn aftur að lítilli stundu liðinni. Höfðu þær þá hníf og trog í hendi sér og gengu að hinum ysta manni hinum megin við dyrnar. Tóku þær hann og lögðu niður við trogið og skáru hann í það eins og kind. Síðan tóku þær þann næsta og svo hvern af öðrum eftir röðinni, og fór allt á sömu leið. Enginn reyndi til að verja sig, og allir þögðu. Ekki sást það á Eiríki, að hann kippti sér upp við þetta, en nóg þótti fylgdarmanni hans um. Sá hann, að þær mundu ekki ætla að hætta, kvensurnar, fyrr en allir væru skornir, því þegar þær komu að Eiríki, tóku þær hann og skáru eins og hina. Þá æpti maðurinn upp, tók til fótanna, hljóp á dyr og komst út.

Hljóp hann þá heim til bæjarins og þóttist eiga fótum fjör að launa. En þegar hann kom heim að bæjardyrum, stóð Eiríkur prestur í dyrunum og studdi hönd á dyradróttina. Hann brosti við, þegar hann sá manninn, og segir: "Því hleypur þú svona ákaflega, heillin?"

Maðurinn vissi ekkert, hvað hann átti að segja, því nú skammaðist hann sín, af því hann sá nú, að prestur mundi hafa gjört sér sjónhverfingu.

Þá segir Eiríkur: "Ég hugsaði það alténd, heillin góð, að þú mundir ekki mega sjá neitt."


Séra Eiríkur varaði bæði smala og aðra stráka í Selvogi við því að taka hesta sína í leyfisleysi og kvað þeim mundi gefast það illa, enda vöruðust allir smalar að snerta reiðhesta hans. Tveir drengir brugðu þó út af þessu. En jafnskjótt og þeir voru komnir á bak, tóku hestarnir undir sig sprett og stefndu rakleiðis heim að Vogsósum, og réðu drengir ekkert við þá. Þeir ætluðu þá að fleygja sér af baki, er þeir gátu ekki stillt hestana, en þess var ekki heldur kostur, því brækur þeirra voru fastar við hestbökin.

"Þetta tjáir ekki," segir annar þeirra, "við verðum að losa okkur af hestunum, annars komumst við í hendurnar á honum séra Eiríki, og af því verðum við ekki öfundsverðir."

Síðan tekur hann upp hníf hjá sér og sker alla klofbótina úr brókum sínum og komst við það af baki. En hinn hafði annaðhvort ekki lag til að koma þessu bragði við eða hann þorði ekki að skemma brækur sínar. Hestarnir hlupu heim að Vogsósum, annar með strákinn æpandi, en hinn með bótina fasta á sér.

Prestur var úti, er hestarnir komu í hlaðið; strauk hann þá bótina af baki hins lausa hests, en sagði við drenginn, er reið hinum: "Það er ekki gott að stela hestunum hans Eiríks í Vogsósum. En farðu af baki og taktu aldrei oftar hesta mína leyfislaust. Lagsmaður þinn var úrræðabetri en þú, og ætti hann skilið, að honum væri sýndur stafur, því hann er laglegt mannsefni."

Nokkru síðar kom hann og til prests. Sýndi hann honum þá bótina og spurði, hvort hann þekkti hana. Pilturinn lét sér ekki bilt við verða og sagði presti eins og farið hafði. Prestur brosti og bauð honum til sín. Það þá hinn með þökkum. Var hann lengi hjá presti síðan og honum mjög fylgisamur, enda er sagt, að prestur hafi kennt honum margt í fornum fræðum.

Nýkvæntur bóndi í Vestmannaeyjum, ungur og efnilegur, missti konu sína á þann hátt, að einu sinni sem oftar fór hún snemma á fætur, en bóndi var í rekkju. Hún fór að lífga eldinn að vana, en var nú lengur burtu en hún var vön, svo að bónda leiddist. Fer hann þá á fætur og fer að gá að henni og finnur hana ekki í bænum. Þá fer hann út um kotin að spyrja að henni, en enginn hafði orðið var við hana þann morgun. Er hennar nú leitað með mannsöfnuði þann dag og hvern eftir annan, og finnst hún ekki.

Bónda varð svo mikið um hvarf hennar, að hann lagðist í rekkju og neytti hvorki svefns né matar. Liðu nú stundir fram, og var hann æ því aumari sem hann lá lengur, og féll honum það þyngst að vita ekkert, hvað konu sinni hefði orðið að bana, því vita þóttist hann, að hún mundi dauð vera, og líkast, að hún væri komin í sjóinn. Héldu menn, að bóndi mundi veslast upp og deyja, því hversu sem menn reyndu til að hugga hann, var honum æ þyngra.

Loksins kom einn kunningi hans til hans og mælti: "Ætli þú reyndir ekki til að fara á fætur, ef ég gæti ráðið þér það ráð, er von væri, að dygði til, að þú yrðir þess vísari, hvað orðið hefur af konu þinni?"

"Það vildi ég vinna til, ef ég gæti," mælti bóndi.

Maðurinn svarar: "Hresstu þig nú, og far á fætur, og nærðu þig; far síðan á land og út í Selvog til Eiríks prests á Vogsósum; bið hann að grennslast eftir, hvað orðið er af konunni."

Bóndi gladdist nokkuð við þetta, klæðist síðan og matast og hressist smám saman, þar til hann treystist að fara í land, og segir ekki af ferðum hans, fyrr en hann kemur að Vogsósum. Er Eiríkur þá úti og fagnar honum vel og spyr að erindum. Bóndi sagði sem var.

Eiríkur mælti: "Ekki veit ég, hvað orðið hefur af konu þinni; en ef þú vilt, þá vertu hér nokkra daga, og sjáum, hvað gjörist." Bóndi þekkist það.

Líða nú tveir dagar eða þrír. Þá lætur Eiríkur leiða heim hesta tvo gráa; annar var dáfallegur, en hinn ljótur og magur. Þann hest lét Eiríkur söðla handa sér, hinn handa bónda og mælti: "Við skulum ríða út á sand."

Bóndi mælti: "Farið ekki á bak horgrind þessari; hann ber yður ekki."

Eiríkur lét sem hann heyrði það ekki. Ríða þeir nú af stað, en stormur var og regn mikið. Þegar þeir koma út fyrir ós, fer hinn horaði hestur að hvetja sporið, og dró fljótt undan. Bóndi reið eftir sem hann mátti, en Eiríkur hvarf honum brátt. Þó hélt hann áfram, þar til hann kom út undir Geitahlíð að steinum þeim, er Sýslusteinar heita og skilja Árness- og Gullbringusýslur. Þar er Eiríkur fyrir og hefur lagt bók allstóra ofan á hinn meiri steininn. Ekki kom dropi á hana, og ekki blakti blað í henni, þó bæði væri húðarrigning og ofviðri.

Eiríkur gekk andsælis kringum steininn og mælti eitthvað fyrir munni sér og segir síðan við bónda: "Taktu eftir, hvort þú sérð konu þína koma."

Kemur nú fjöldi fólks utan að steininum, og gekk bóndi hring úr hring fyrir hvern mann og fann ekki konuna. Hann segir Eiríki það. Hann mælti þá við fólkið: "Farið í friði, hafið þökk fyrir hérkomuna."

Þeir hverfa burt þegar. Eiríkur fletti nokkrum blöðum í bókinni, og fór nú allt sem fyrr. Reynir hann hið þriðja sinn, og fer það eins. Þegar flokkur þessi er burt farinn, mælti Eiríkur: "Var hún alls ekki í neinum hópnum?"

Bóndi kvað það ekki vera. Þá roðnar Eiríkur og mælti: "Nú vandast ráðið, heillin góð; hef ég nú stefnt hingað vættum öllum af jörð, úr jörð og úr sjó, sem ég man eftir."

Nú tekur hann kver úr barmi sínum, lítur í það og mælti: "Eftir eru hjónin í Háuhlíð." Hann leggur kverið ofan á bókina og gekk andsælis kringum steininn og tautar sem fyrr. Þá koma þau og bera glersal milli sín; í honum sér bóndi konu sína.

Eiríkur mælti við þau: "Illa gjörðuð þið að taka konuna frá manninum; farið aftur, og hafið óþökk fyrir starf ykkar, og gjörið slíkt ei oftar."

Þau fara þegar, en Eiríkur brýtur glersalinn, tekur konuna og bækurnar og fer á bak með allt saman.

Bóndi mælti: "Látið mig reiða konuna; hesturinn ber ykkur ekki bæði."

Eiríkur kvaðst mundi sjá fyrir því, fer af stað og hvarf austur í hraunið. Bóndi fer leið sína austur að Vogsósum, og er Eiríkur þar kominn, og um nóttina lætur hann konuna sofa í rúmi sínu, en sjálfur lá hann fyrir framan stokkinn. Að morgni bjóst bóndi til ferðar.

Eiríkur mælti: "Það er ekki ráðlegt að sleppa konunni við þig svona, og vil ég fylgja henni heim."

Bóndi þakkar honum. Fer prestur á bak hinum magra klár, setur konuna á kné sér og fer af stað. Bóndi fer eftir og vissi ekki fyrr til Eiríks en hann kom út í eyjar; þá er hann þar kominn með konuna. Háttar bóndi hjá henni um kvöldið, en Eiríkur vakti yfir henni næstu þrjár nætur.

Síðan mælti hann: "Ekki er víst, að öllum hefði þótt skemmtilegt að vaka þessar nætur og síst í nótt," enda var konunni óhætt héðan af. Meðan Eiríkur vakti yfir konunni, gaf hann henni drykk á hverjum morgni, og við það fékk hún aftur minnið, sem hún hafði áður alveg misst. Síðan fór Eiríkur heim og þá áður góðar gjafir af bónda.



Netútgáfan - janúar 1998