======================
Herra Jón biskup Þorkelsson kom eitt sinn til fundar við síra Eirík og ætlaði að vera við embætti hjá honum. Þeir fóru nú til kirkjunnar.En er þeir voru lítt á leið komnir þurfti Eiríkur að leysa brækur, en biskup beið hans á meðan. Þetta gekk aftur og aftur þar til biskupi leiddist og fór á undan presti. En er hann kom að kirkjudyrum þá kom síra Eiríkur ofan úr stólnum.
Þá segir biskup: "Bölvað óhræsi ertu, síra Eiríkur!"
Oft og mörgum sinnum beiddi biskup Vídalín Eirík að sýna sér kölska því hann heyrði sagt hann gæti það; sagði sér væri fýsn á að sjá hann, því hann sagðist hafa sagt svo mikið af honum sjálfur.
Síra Eiríkur færðist undan. En fyri þrábeiðni biskups þá lofar hann því. Þeir sátu í stofu og sat biskup öðrumegin við borðið, en prestur öðrumegin. Að stundu liðinni rifnar gólfið og sýnist biskupi þar koma upp þvílíkt ferlíki að hann fellur í öngvit fram á borðið, en prestur sló saltaranum í hausinn á því.
Sagði biskup svo síðan að hann hefði ekki of mikið af honum sagt.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - ágúst 2001