Einu sinni voru hjón á bæ. Þau voru vel við efni. Tvö börn áttu þau, son og dóttur. Dóttir þeirra hét Guðrún, og var þá sextán ára, er saga þessi hefst. Hún var fríð kona og öllum góðum kostum búin, sem mey máttu prýða. Urðu margir til þess að biðja hennar, en hún vísaði öllum á bug og kvaðst eigi mundu svo ung manni heitast.Skammt frá bæ þeirra hjóna bjuggu fátæk hjón, sem áttu fjölda barna. Elzti son þeirra hét Sigþór. Hann var tólf ára og þá svo fríður og efnilegur, að hann átti engan sinn líka í þeirri sveit. En fyrir fátæktar sakir urðu foreldrar hans að láta hann fara burtu til þess að hafa ofan af fyrir sér. Bauðst faðir Guðrúnar þá til að taka hann fyrir smala. Var það að undirlagi dóttur hans. Tekur nú Sigþór við fjárgeymslu hjá bónda um sumarið, og ferst honum það vel.
En það bar við á einu kvöldi, að ærnar komu einar heim á stöðul, en Sigþór eigi sem vant var. Er þá farið að leita hans, og finnst hann loks daginn eftir í gili einu djúpu. Lá hann þar í stórgrýtisurð, fótbrotinn á öðrum fæti og mátti sig hvergi hræra. Var hann svo borinn heim. En af því að brotið var mikið og svo langt um liðið, bólgnaði fóturinn upp, og var hann af tekinn um kné.
Lá drengurinn rúmfastur það, sem eftir var sumars og fram á vetur. Þá komst hann úr rúminu fyrir góða aðhjúkrun bóndadóttur, og greri sárið að mestu. En eftir það varð hann að hoppa á einum fæti og styðjast við hækjur. Var hann þá kallaður einfætti smaladrengurinn, og hentu margir jafnaldrar hans gaman að honum, þegar hann varð að hrökklast á einum fæti með hækjur sínar. Hafði hann hina mestu raun af þessu líkamslýti sínu og grét oft í einrúmi yfir því, þótt hann skildi eigi til fullnustu, hvað það hefði að þýða fyrir framtíð hans.
Guðrún bóndadóttir var honum bezt allra á heimilinu og svo bróðir hennar, sem þó var nokkru eldri. Um sumarið eftir átti Sigþór litli að reyna að vera hjá ánum á daginn, en sonur bónda fylgdi honum með þær í hagann á hverjum morgni. Oft veittist honum erfitt að hemja ærnar, en hann möglaði aldrei, hversu þreyttur sem hann var, svo að allir héldu, að honum væri hjásetan leikur einn. -
Einn dag, skömmu eftir fráfærur, gekk Sigþór litla venju fremur illa að hemja ærnar fyrri hluta dagsins, svo að hann var örmagna af þreytu. En þegar á daginn leið, fóru ærnar að spekjast. Settist hann þá niður undir stórum steini, sem kallaður var Dvergasteinn. Stóð sá steinn einn sér á holti í nánd við þann stað, þar sem Sigþór var vanur að sitja ærnar. Hann var líkur í lögun litlu húsi, og hafði Sigþór gaman af að dvelja þar öllum stundum, sem hann gat, og kallaði hann bæinn sinn. Hann hafði líka heyrt talað um dverga, sem byggju í steinum, og honum fannst það ekki ólíklegt, að dvergar kynnu að búa í þessum steini, fyrst hann hét Dvergasteinn.
- Þarna sat nú Sigþór litli og var að hugsa um dvergana, hvort þeir mundu vera til eða hvort þeir mundu geta búið í þessum steini. Og af því að hann var svo lúinn, þá sofnaði hann undir steininum. Dreymir hann þá, að lítill maður í hvítum klæðum kemur til hans, og heldur á gullsprota í annarri hendinni.
Hann heilsar Sigþóri og er vingjarnlegur í máli við hann og segir: "Langar þig til þess að vita, hvort nokkrir búa í Dvergasteini?"
Sigþór játar því. Þá réttir litli maðurinn að honum gullsprotann og segir, að hann skuli slá með honum þrjú högg á steininn móti sólu, muni þá einhver koma út, ef nokkur búi í steininum. Drengurinn þykist taka við sprotanum, og í því vaknar hann. Finnur hann þá ljómandi haglega gerðan gullsprota við hlið sér og man allan drauminn.
Hann undrast vitrun þessa og langar til að reyna sprotann, en er þó hálfsmeykur. Loks ber hann þrjú högg á steininn með sprotanum, þeim megin, sem vissi á móti sól. Opnast steinninn þá samstundis, og Sigþór sér koma út úr honum sama litla manninn í hvítu klæðunum, sem hann hafði séð í draumnum. Hann verður þá ákaflega hræddur og fær engu orði upp komið.
"Ég er dvergurinn í Dvergasteini. Hvað viltu mér?" segir dvergurinn.
En þegar hann sá, hve drengurinn var hræddur, tók hann í höndina á honum og spurði hann vingjarnlega, hvort hann vildi ekki koma inn í steininn sinn, hann skyldi þá gefa honum nýjan fót við stúfinn sinn, svo að enginn gæti séð mun á fótum hans.
Þegar drengurinn heyrði þetta, fékk hann aftur kjarkinn og lét dverginn leiða sig inn í steininn. Hann hafði svo oft heyrt getið um það, að dvergarnir væru góðir læknar, og vildi allt til vinna að fá fótinn sinn aftur.
Þegar hann kemur inn í steininn, sér hann þar lítil, en snotur húsakynni, og sitja þar tvær litlar stúlkur, en þó önnur miklu minni og hafði hann aldrei séð svo lítið barn. Dvergurinn sagði honum, að þær væru konan sín og dóttir þeirra og að hann yrði nú að vera þar hjá þeim um tíma, ef hann ætti að fá fótinn sinn aftur.
Sigþór játar því fúslega, en segir, að sér þyki fyrir því, að fólkið muni verða hrætt um sig, ef hann komi ekki heim um kvöldið. Dvergurinn segir honum þá, að hann skuli friða fólkið, og biður hann að vera áhyggjulausan. Er Sigþór nú þarna í steininum um daginn, og leika stúlkurnar við hann, en dvergurinn fer eitthvað burtu, og sér Sigþór hann ekki um daginn.
Um kvöldið, þegar Sigþór ætlar að fara að sofa í rúminu, sem litlu stúlkurnar höfðu búið upp handa honum, kemur dvergurinn inn með gullbikar og gefur honum að drekka úr honum. Sofnar hann þá undir eins og vaknar ekki fyrr en um miðjan dag daginn eftir. Finnur hann þá einhvern mun á veika fætinum, en getur ekki hreyft hann.
Dvergurinn situr þar hjá honum á rúminu og biður hann vera ekki of bráðlátan, því að nú verði hann að liggja í rúminu langan tíma. Lætur Sigþór sér það vel líka, því að hann var þá ekkert orðinn hræddur við dvergana, og litlu stúlkurnar voru svo undur góðar við hann.
Nú víkur sögunni heim á bæinn. Ærnar komu heim einar um kvöldið, en Sigþór ekki. Þá var farið að leita, en hann fannst hvergi, sem von var.
En um nóttina dreymir Guðrúnu bóndadóttur, að til hennar kemur lítill maður í hvítum klæðum og segir: "Vertu ekki hrædd um hann Sigþór litla, hann kemur bráðum aftur."
Síðan fær hann henni gullhring, og tekur hún við honum og dregur á fingur sér. Þegar hún vaknaði um morguninn, mundi hún drauminn og sér þá hringinn á hendi sér. Hana furðar þetta og tekur hún af sér hringinn og sér, að innan í hann er grafið nafnið Sigþór, fullum stöfum í völvu-rúnum. Hún geymir hringinn eins og helgan dóm og lætur engan vita um hann, en segir heimilisfólkinu drauminn að öðru leyti. Verður mönnum þá hughægara, og er ekki leitað að drengnum eftir þetta.
En að mánuði liðnum kemur Sigþór heim og er þá heilfættur og gengur sem aðrir menn. Þótti öllum þetta hið furðulegasta kraftaverk, og sagði drengurinn, með hverjum hætti það hefði orðið. Eftir það er hann þar hjá þeim hjónum til fullorðins ára. Óx fótur sá, sem dvergurinn hafði gefið honum, jafnt og hinn, og sást eigi annað á honum en ör um hné. Var Sigþór hinn gervilegasti maður.
Jafnan fór vel á með þeim Guðrúnu bóndadóttur, og þar kom, að Sigþór bað hennar. Var það auðsótt mál við hana, og vildi faðir hennar eigi á móti mæla vilja hennar. Þá sýndi hún öllum hringinn, sem dvergurinn hafði gefið henni, nóttina eftir að Sigþór hvarf, er hann var læknaður.
Þótti þá sem dvergurinn mundi svo hafa til ætlazt, að Sigþór einn nyti hennar. Eftir þetta giftast þau, og lifðu bæði til elli í farsælu hjónabandi. Lýkur svo sögu þessari.
(Þjóðsagnasafnið Gríma)
Netútgáfan - desember 2000