1.Þegar ég var á þrettánda ári var ég hjá móður minni á bæ í Norðurlandi. Þar var uppeldispiltur, litlu eldri en ég, Þorvaldur að nafni; þar var og bóndakona er hét Ólöf. Hún var þunguð.
Eina nótt dreymdi mig að mér þótti víkingar komnir að bænum og varð ég ákaflega hræddur. Ég þóttist sitja framan á palli og tvinna band niður fyrir. Þá heyrði ég gengið var inn göngin og opnuð baðstofuhurðin. Þar gekk inn hár maður fríður og kallmannlegur bjartur í andliti, stillilegur og einarðlegur og var sem andlitið lýsti ró og kaldlyndi.
Mér virtist ég þekkja manninn og væri það Grímur hóndi á Víkingavatni, en sá að það var þó ekki, og taldi efalaust þessi væri formaður víkinganna. Hann stóð við innan við baðstofudyrnar og hafði í hendi sverð skínandi bjart. Nú brá hann sverðinu og þó stillilega og hjó á hægri öxl mér. Klauf sverðið frá alla síðuna niður í hupp. Ég þóttist finna þegar sverðið kalt skar niður eftir kroppnum. Síðan með handleggnum féll frá og dró ég það og bjóst við dauða mínum.
Ég þóttist þreifa í sárið og fann lungun og innyflin. Nú fór ég að lesa bænir og góða sálma sem ég kunni, og vildi leggja mig út af til að deyja. Þó varð það ekki og talaði einhver um að skera frá síðuna í huppnum. Það var gjört og látið í kistil inn undir rúm og átti að flytja þetta af mér í kirkjugarð um næstu helgi.
Eftir þetta var ég á róli eins og ég gætti þess ekki að mig vantaði handlegg og síðu. Þá fann ég móður mína. Hún sat mjög kyrrlát með lotningarbragði á rúmi sínu.
"Gjörði víkingurinn þér nokkuð?" sagði ég.
"Ekki mikið," sagði hún, "hann hjó sverðinu í höfuðið á mér; það er stórt sár, en það grær áður en langt um líður."
Nú fann ég Þorvald lagsmann minn og sagði: "Gjörði víkingurinn þér nokkuð?"
"Hann ætlaði þrisvar að leggja mig í gegn," segir Þorvaldur, "en oddurinn kom ætíð í ennið; líttu á!"
Þá sá ég þrjá stingi á enninu og runnu blóðlækir úr þeim. Þorvaldur þótti mér hnugginn og fálátur.
Þá spurði ég um Ólöfu, því mér var vel við hana.
"Nefndu ekki ósköpin," segir Þorvaldur, "hvernig þeir ætluðu að fara með hana; þeir lögðu hana upp í rúm og ætluðu að rista sundur lífið og taka þaðan barnið. Ég vissi ei hvað til þess kom að þeir gjörðu það þó ekki."
Eftir þetta sá ég þó Ólöfu á róli, en hún var mjög föl og allir voru á heimilinu mjög fölir og hnuggnir. Mér var og alltaf illt fyrir hjartanu. Upp úr þessu vaknaði ég.
Þó ei sé mark að draumum var þvílíkt sem þessi draumur, sem mig dreymdi á jólaföstu, hefði nokkuð að þýða. Á fyrsta sunnudag í góu um veturinn drukknuðu af byttu við selanætur í blíðalogni faðir og elzti bróðir Þorvaldar, Hákon bóndi á Grjótnesi og Þorsteinn sonur hans, selur hvolfdi undir þeim, en annar bróðir Þorvaldar, yngri, hljóp á næsta bæ langan veg að fá hjálp þeim feðgum. Pilturinn hljóp svo ákaft að hann kostaðist og dó.
Um vorið lagðist Ólöf á barnsæng og komst í dauðann; loksins ól hún sveinbarn andvana og síðan stúlkubarn sem lifði og lifir enn.
Sama vorið lagðist móðir mín í lifrarveiki og andaðist seint um sumarið.
Til þessara viðburða ímyndaði ég mér á eftir að draumurinn hefði bent.
2.Sama vetur og mig dreymdi þenna langa draum þóttist ég eina nótt vera í rúmi mínu eins og ég var, til fóta móður minni. Ég þóttist líta fram í baðstofudyrnar og var lítil skíma af tungli. Þá þóttist ég sjá að maður gekk inn í björtum klæðum, bleikum eða hvítum, skósíðum, hár maður, bjartur að yfirlitum, undurfríður, og þótti mér einhver andleg ró, blíða og guðrækni skína á andlitinu. Mér fannst ég vita í svefninum þetta væri frelsarinn sjálfur. Á eftir honum gekk lægri maður mikið fríður og prúður eins og hann; það þótti mér vera engill eða postuli hans.
Þeir gengu mjög stillt og stefndu að rúmi okkar móður minnar. Engillinn gekk að mér, laut ofan að mér og sagði: "Farðu barn mitt, í næsta rúm; frelsarinn vill tala við hana móður þína."
Frelsarinn stóð á meðan upp við rúmið. Ég þóttist bera óvenju lotningu fyrir þessum mönnum, skreið hægt ofan úr rúminu og í næsta rúm. Þá sá ég frelsarinn laut ofan að móður minni og talaði hljótt við hana litla stund. Síðan sneru þeir fram aftur og í því vaknaði ég eða ég mundi ei drauminn lengri.
Þenna draum sagði ég móður minni. Hún sagði: "Það verður fyrir dauða mínum, barn mitt."
3.Þegar ég var á Desjarmýri um fertugsaldur og átti barn í vændum dreymdi mig eina nótt ég þóttist staddur frá bænum á engjum skammt frá fólki mínu. Þar sýndist mér maður koma að mér með spjót í hendi; mér fannst ég hafa séð hann fyrr og væri það hinn sami víkingur sem hjó af mér handlegg og síðu þegar ég var tólf ára.
Hann gekk að mér þegjandi og lagði spjótinu gegnum mig í brjóstið, skildi við spjótið í sárinu, gekk burtu og sagði: "Oftar mun ég finna þig."
Nú þóttist ég finna ég mundi deyja, svo var mér illt. Ég kallaði á fólk mitt, settist upp við stein, kvaddi fólkið og bað það bera konu minni kveðju mína. Síðan bað ég einhvern piltanna að draga spjótið úr sárinu, en það vildi enginn gjöra. Þá töldum við víst að ég mundi deyja. Þegar enginn vildi draga út spjótið tók ég báðum höndum um skaftið sem stóð fram úr brjóstinu, og dró út spjótið. Í þessu vaknaði ég og var mér þá óglatt.
Um vorið eignaðist ég son sem ég missti vikugamlan og þótti mikið fyrir. Þá datt mér í hug draumurinn. Eftir þetta eignaðist ég fjóra sonu aðra í röð og dóu allir vikugamlir af sama sjúkdómi; þó dreymdi mig aldrei víkinginn. En hann sagði þegar mig dreymdi hann: "Oftar mun ég finna þig."
4.Ég var á Sauðanesi á Langanesi frá því ég var á þrettánda ári þangað til ég var á átjánda. Þar dreymdi mig nokkra drauma sem ég minnist, því það var líkt og þeir hefði verið spár þess sem síðan hefir komið fram við mig. Tvo af þeim skal ég segja hér:
Ég mun hafa verið á sextánda ári þegar mig dreymdi það að mér þótti spákelling eða valva koma að Sauðanesi. Mönnum þótti gaman að spyrja hana um örlög sín. Ég þóttist vera einn sem spurði hana.
Ekki man ég hvers ég spurði, eða hverju hún svaraði nema eitt: Ég spurði hana: "Hvenær heldurðu ég deyi?"
"Ef þú deyr ekki," segir hún, "þegar þú ert á sjötta ári um þrítugt, veit ég ekki hvenær þú deyr."
Ég man ekki drauminn lengri, en þó hégómlegt væri hafði ég oft í huga þetta og sagði síðar við konu mína ég mundi ei verða eldri en faðir minn, sem dó á þrítugasta og sjötta ári.
Svo liðu árin; ég minntist ei draumsins fyrr en ég var nærri fertugur. En það hafði komið fram við mig sumarið 1848 eða 9 þegar ég var á þrítugasta og sjötta ári að ég lenti í löngum og illum sjóhrakningi. Eftir það lagðist ég í banvænu taki og komst nærri dauða, en fyrir duglegar læknisaðgerðir og að dagarnir voru ekki uppi, lifnaði ég við, en lá allt sumarið eftir það og hefi aldrei orðið jafngóður. Datt mér þá í hug á eftir að þarna væri líkt og draumspá völvunnar hefði komið fram.
5.Síðustu árin sem ég var á Sauðanesi þráði ég að komast burtu þaðan og breyta einhvern veginn lífsstefnu minni. Mun ég oft hafa hugsað um það og geta þær hugsanir hafa ráðið nokkru í draumleiðslu þeirri sem ég skal nú segja:
Út frá túni á Sauðanesi liggur torfbrú; á henni þóttist ég ganga eina nótt, en er ég kom út af henni leit ég kringum mig. Þá brá svo undarlega við að mér sýndist ég staddur í hólma í vatni skammt frá bænum sem heitir Markvatn. Þó þótti mér þessi hólmi þá furðu stór. Ég þóttist illa settur þarna bátlaus og hugsaði um, að hér mætti ég svelta í hel nema einhver sæi mig sem um færi og bjargaði mér. Þá varð mér litið á tanga í hólmanum. Þar sá ég konu, og dró net úr vatninu.
Ég gekk til hennar og bað hana hjálpa mér úr þessari kreppu. Hún varð stygg við og sagði: "Geturðu ekki farið á bæina?"
"Hvaða bæi?" sagði ég.
"Þarna," sagði hún og benti austur.
Þar sá ég þá bæ undir hlíð. Ekki vildi ég fara þangað. Þá sá ég konu á öðrum tanga, og dró net úr vatninu sem hin konan. Ég gekk til hennar og talaði við hana, en hún svaraði mér engu orði. Þá gekk ég enn til hinnar fyrri konu, en hún dró enn sama netið og kom þá loks ílstrengurinn og íllinn. Á strengnum sá ég voru tveir gullhringar og hugsaði ég þeir hefði verið látnir þar til að ginna silunga. Konan hýrnaði þegar hún sá hringina og greip til þeirra. Þá þóttist ég skilja hún mundi hafa veitt hringana.
Ég bað hana gefa mér annan hringinn. Hún neitaði því. "Þá muntu koma mér burtu úr þessari kreppu," sagði ég, "þar þú veiddir svona vel."
"Komdu þá," sagði hún og gekk undan mér suðaustur eftir hólmanum og að ferju. Hún hratt fram ferjunni og sagði mér að fara upp í. Konan hafði dregið báða hringana á hönd sér. Í því hún ýtti út ferjunni og hélt hendinni með hringunum á framkinnungnum, tók ég til handarinnar og dró af annan hringinn. Ekki varð konan ill við það, en talaði þó eitthvað sem ég mundi ekki. Ferjan rann yfir álinn að landi, en konan stóð eftir. Ég hratt ferjunni aftur til hennar og ætlaði nú heim til mín.
Þá þekkti ég þar ekki landslagið og fannst ég aldrei hafa komið í þá móa sem þar voru. Ég stóð við og hugsaði ég væri villtur og mundi vera kominn í ókunnuga sveit. Horfði ég þá allt í kringum mig. Langt þaðan vestur frá sá ég mikil tré og hugsaði það væri skógur og þó undarlega hár. Nú var ég viss um ég væri kominn í aðra sveit eða annað land og væri þetta einn af þeim skógum sem ég hefði heyrt getið um í sögum. Ég stefndi á skóginn.
Þegar ég nálgaðist hann sá ég þetta voru tré eins og skipamöstur og blæjur marglitar á hverju tré, þar í kringum fjöldi manna og sá ég það var iðja þeirra að klifra upp möstrin að ná einhverri blæjunni. Ég fór í hópinn, en brá illa við að ég þekkti engan manninn og skildi engan.
Datt mér þá í hug að ég mundi ekkert fá þar að eta, því þessir menn mundi ei vilja líða mig hjá sér. Þó minntist ég þess að ég var vel fær að klifra upp tré og siglur; svo ég hljóp að einu trénu og tók að klifra; mér gekk það furðu greitt og náði einni blæju. Þegar ég kom niður flykktust margir kringum mig eins og til að skoða blæjuna, en ég forðaðist að tala. Þá skildi ég þó eitthvað sem þeir töluðu. Í þessum sveim vaknaði ég.
Þó mest í þessari draumleiðslu virtist vera eins konar líking margs sem ég var að hugsa, því um þessar mundir hugsaði ég að sigla og læra einhverja handiðn og margt fleira þvílíkt, þá var eins og sumt væri ímynd þess sem seinna dreif á daga mína.
Ég fór átján ára á Austurland til að læra silfursmíði, en það varð úr að einn frændi minn taldi mig til að reyna bóknám. Það byrjaði ég á tuttugasta ári, fór svo vestur að Bessastöðum og lærði í skóla.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - júní 2001