Einum vetri áður en ég var formaður reri ég hjá þeim formanni er Marteinn hét, og var það einn dag að við kómum innan úr Ólafsvík; var þá veður allgott en ís lá allt út á Rif því norðanveður höfðu gengið áður. En þá við kómum út á Sand fóru allir að róa; við rérum einnig. En þá lítið var liðið á daginn tók að kula austan; rak þá ís fyrir landið allt út á Brimnes, en þegar komið var undir kvöld snéri vindurinn sér til vestur-útsuðurs og þrengdi ísinn þá enn meir að landinu.Skip sem ég var á og tvö önnur komust eftir langa mæðu í Krossavík og var þá komið undir dagsetur, en hin skipin sigldu í ísinn, en komust ekkert áfram nema sem vindurinn bar, að ólendingum hingað og þangað. Eitt af þessum komst að Sandaflögum, en þá fólkið var búið að bjarga sér ruddist ís svo yfir það svo það fór í spón.
Og annað skip frá Keflavík komst undir land fyrir innan Höskuldsá. Gátu sex menn bjargað sér af því, en skipið tók út aftur með þremur mönnum hvurjir allir fóru í sömu búð og eg var. Var formaður sá er Önundur hét sem nú er dauður fyrir tveimur árum. Hafði hann náð landi milli Keflavíkur og Höskuldsár. Var þar allmikil ísskör.
Sendi hann þá til okkar sér til hjálpar, en nær við kómum til skipsins var þar illt til hjálpar nema með mannsöfnuði. Var ég þá sendur inn í Keflavík að fá fólk til hjálpar. Mjög var liðið á nóttu, en þá ég kom inn undir Keflavík kom einhvur undarleg sjón yfir mig því mér sýndist margir menn standa fyrir framan mig.
Þótti mér þá vænkast ráðið; kalla ég því til þeirra og segi: "Piltar góðir, hjálpið okkur að bjarga skipi hér fyrir utan," en þeir gegndu ekki.
Í annað sinn talaði ég til þeirra: "Blessaðir piltar verið þið ekki svo óguðlegir að hjálpa okkur ekki," en þeir þögðu og enn nú segi ég til þeirra:
"Miklir andskotans menn megi þið vera, að þið viljið ekki hjálpa þegar svo mikið liggur við og ekki svo mikið þið talið."
Í því leit ég undan; sá ég þá ekkert nema kolamyrkur; kom þá nokkur ótti í mig. Fór ég svo til skipsins aftur, hvurju við loksins gátum bjargað með mikillri mæðu.
Einn morgun þegar ég var formaður á Sandi gekk ég fyrir afturelding ofan á sjóarbakka að sjá eftir sjóveðri. Sýndist mér þá maður vera í austurkleifinni á Brekkunum. "Guð gefi þér góðan dag lagsmaður þegar hann kemur," segi ég, en hann þagði.
"Því ertu hérna svona snemma á fótum eða heldurðu verði sjóveður í dag?" en hann svaraði öngvu.
Kom þá nokkur ótti yfir mig og hljóp heim. En um morguninn þegar bjart var orðið gekk ég þangað til að sjá hvurt þar væri nokkur för því lausamjöll var, en þar sáust engin deili til að nokkur hefði verið.
Það skeði og svo á einum vetri þegar ég var þar að skip frá Gufuskálum varð að snúa frá lendingu vegna brims. Lenti það á Sandi hvar skipið varð að bíða í viku vegna óveðráttu.
Eitt kvöld varð okkur gengið ofan á bakka að gá að hvurt skipum væri óhætt því hroðaveður var. Ólafur sálugi Þorbjörnsson var einn af þessum. Varð okkur þá litið til skipanna. Sýndist okkur þá öllum sem þar vóru, níu menn komnir að skipunum. Gengu þeir í kringum hvurt skip og var sem þeir væru nákvæmlega að gæta að einhvurju. Loksins kómu þeir að skipinu frá Gufuskálum. Fóru þeir þar allir upp í og skipuðu sér á þótturnar.
Eftir það sótti formaðurinn skip sitt og skömmu þar á eftir fór það í sjóinn í lendingunni með níu manns.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - ágúst 2000