DALBÚINN



Svo bar við eitt haust að framúrskarandi illar heimtur urðu í sveitum nokkrum og fýstu margir að gjörðar væri eftirleitir. Einkum fýsti þess vinnumaður einn; hann hét Kári. Skoraði hann á ýmsa til að fara með sér og varð einn maður til er lést mundi fara með honum. Þó dró hann alltaf úr ferðinni og leið svo fram á jólaföstu. Herti þá Kári á honum, en hann kvaðst þá ei fara þar svo mjög væri áliðið og færð ill, en allra veðra von.

Fer þá Kári og biður húsbónda sinn um það er hann þurfi til ferðar. Tjáði nú ekki að letja Kára og fór hann hvað sem hver sagði. Ekki vissi hann nú samt hvert halda skyldi, og er hann var úr byggð kominn fann hann fyrir sér hæðir og hálsa og tók hvor hæðin við af annari. Gekk hann eftir hæðum þessum lengi og varð engrar nýlundu var.

Loks kemur hann fram á hamra nokkra háa og þverhnípta. Þar sér hann dal einn stóran fyrir neðan og rennur á eftir dalnum. Sér hann að mikill fjöldi sauða gengur í dalnum og ullarbreiður miklar sýndust honum liggja með ánni.

Langar hann nú mjög til að komast ofan í dalinn, en getur ei því hamrarnir voru svo voðalega háir og brattir. Leitar hann þá fyrir sér og finnur loks einstigi; þar ræðst hann til og kemst með lagi niður og var það þó hættuför mikil.

En er hann var kominn ofan í dalinn sér hann þar bæ einn í miðjum dalnum. Bærinn var eigi stór, en þó snotur. Húskorn eitt stóð laust við bæinn.

Kári fer nú heim að bænum og ber að dyrum. Kemur þar út stúlka ein ungleg. Kári heilsar henni og tók hún því kurteislega. Kári segir þá að hann sé mjög ferðlúinn og beiðist þar gistingar. Hún segir að það muni hann fá og gengur inn, kemur svo út aftur og biður hann inn ganga. En er hann kom inn sá hann þar karl einn gamlan og eigi fleira manna. Er honum nú boðið að draga af sér vosklæði, en hann þiggur það ei að svo komnu. Fara þau nú bæði frá honum karlinn og stúlkan. Heldur hafði honum sýnst þau döpur í bragði og sorgbitin.

En er hann var einn orðinn inni fer hann að þreifa fyrir sér því myrkt var í húsinu, og vita hvers hann verði var. Finnur hann þá rúm nokkur og að dauður maður liggur í einu þeirra. Getur hann sér nú til að þar muni einhver hafa komið á undan sér og hafi þar drepinn verið og muni sér ætlað hið sama.

En er lítil stund var liðin koma þau aftur karlinn og stúlkan og hafa ljós með sér. Er þá settur matur fyrir hann og var það sauðaspað.

Hann segir þá að ef sér sé ætlað nokkurt grand hjá þeim muni best að gjöra það þegar í stað.

Karlinn segir að hann megi vera óhræddur um sig, "því engum ferðamanni sem hingað hefur komið hef ég mein gjört," segir karlinn, "enda hafa hér fáir komið. En það stendur nú svo á líki þessu að það er systir mín. Þegar við vorum ung vorum við í sveit; unntumst við mjög. Var ég þá látinn fara í skóla og um þær mundir varð systir mín þunguð af mínum völdum. Flúðum við þá hingað og áttum hér þrjú börn, en öll eru þau nú dáin nema stúlkan þessi er þú sér. Vildi ég nú biðja þig á morgun að hjálpa mér til að grafa líkið. Það sem ég nam í skóla hef ég kennt börnum mínum og vona ég að dóttir mín sé ei illa að sér eða miður uppfrædd en sveitastúlkur."

Kára þótti saga þessi merkileg. Sefur hann nú af um nóttina, en daginn eftir jarða þeir líkið við einstaka hús[ið], en það var bænahús dalbúans.

Karlinn spyr nú Kára hvaða ferð hann sé á. Kári segist hafa verið í eftirleit, "og hef ég enn enga sauði fundið nema þá sem hér eru í dalnum og þykir mér það undra-hópur."

Dalbúinn segir að það sé von, "því í haust sigraði ég hingað margt fé af afrétti og nú hef ég líka sigrað þig hingað. Var það tilgangur minn að ná hingað einhverjum þeim sem tæki að sér dóttur mína eftir minn dag. Ég á nú eftir tvö ár ólifuð og vildi ég að þú settir nú svo vel á þig leiðina hingað að þú rataðir hana aftur og kæmir þá hingað og tækir að þér dóttur mína, en jarðaðir lík mitt hjá þessu líki."

Dvaldi nú Kári þar nokkra stund. En er hann ætlar burtu segir dalbúinn að hann skuli taka það af sauðfénu með sér sem hann geti rekið. "Gengur það hér sjálfala," segir hann, "og hefur engi not af. Ullin sem þú sér liggja um dalinn eru reyfi sem ég hef ei komist yfir að hirða. Nú veit ég að þú átt örðugt með að reka margt fé einn og skal ég því ljá þér hund minn. Hann mun reka fyrir þig og fara rétta leið og skaltu einungis halda brautina á eftir. Þar sem hundurinn staldrar við þar skaltu hafa náttstaði. Þegar þú kemur að efsta bæ í byggð mun rakkinn snúa aftur og fara til mín."

Síðan kveður Kári stúlkuna og hét henni að koma aftur á ákveðnum tíma. Tekur hann nú sauði marga og rekur burtu, en karl fylgdi honum upp úr dalnum. Þar fær hann honum hund sinn og skilja þeir síðan með hinni mestu blíðu.

En er þeir voru skildir fer hundurinn og rekur allan fjárhópinn svo ekki þarf Kári að líta við honum og hafði hann nóg með að geta fylgt. Fór allt eins og karl hafði sagt og þegar hann kom að efsta bæ í byggð hljóp rakkinn til baka, og ætlaði Kári þó að halda honum.

Kári fekk nú mannahjálp til að reka fjárhópinn, en það voru sex hundruð sauða. Var þeim skipt milli þeirra er vantað hafði um haustið og bætti það í búi hjá mörgum. Þótti ferð Kára mjög góð orðin og vildu margir vita um ferð hans. En hann sagði fátt um hana og var oft hljóður.

Líða nú tvö ár. Þá fer Kári enn í óbyggðir og er hann kemur í dalinn finnur hann stúlkuna úti. Var hún þá hrygg mjög og sagði að faðir sinn væri nýdáinn. Kári fer nú inn með henni og dvelur þar nokkra stund. Grafa þau nú karlinn þar sem hann hafði fyrir mælt. Eftir það býst Kári til burtfarar; tók hann allt það fémætt sem hann gat með sér og stúlkuna.

Þegar heim kom í sveitina lét hann reyna stúlkuna hvernig hún væri að sér og reyndist hún vel. Sagði hann þá alla þessa sögu. Og er ei annað af honum sagt en það að hann átti stúlkuna og unntust þau mjög og voru samfarir þeirra góðar.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)

Netútgáfan - september 1998