Einu sinni voru karl og kerling í koti sínu. Þau áttu einn son, en þótti ekkert vænt um hann. Ekki voru fleiri menn en þau þrjú í kotinu. Eina kú áttu þau karl og kerling; það voru allar skepnurnar. Kýrin hét Búkolla.Einu sinni bar kýrin, og sat kerlingin sjálf yfir henni. En þegar kýrin var borin og heil orðin, hljóp kerling inn í bæinn.
Skömmu seinna kom hún út aftur til að vitja um kúna. En þá var hún horfin. Fara þau nú bæði, karlinn og kerlingin, að leita kýrinnar og leituðu víða og lengi, en komu jafnnær aftur.
Voru þau þá stygg í skapi og skipuðu stráknum að fara og koma ekki fyrir sín augu aftur, fyrr en hann kæmi með kúna; bjuggu þá strák út með nesti og nýja skó, og nú lagði hann á stað eitthvað út í bláinn.
Hann gekk lengi, lengi, þangað til hann settist niður og fór að éta. Þá segir hann: "Baulaðu nú, Búkolla mín, ef þú ert nokkurs staðar á lífi."
Þá heyrir hann, að kýrin baular langt, langt í burtu.
Gengur karlsson enn lengi, lengi. Sest hann þá enn niður til að éta og segir: "Baulaðu nú, Búkolla mín, ef þú ert nokkurs staðar á lífi."
Heyrir hann þá, að Búkolla baular, dálítið nær en í fyrra sinn.
Enn gengur karlsson lengi, lengi, þangað til hann kemur fram á fjarskalega háa hamra. Þar sest hann niður til að éta og segir um leið : "Baulaðu nú, Búkolla mín, ef þú ert nokkurs staðar á lífi."
Þá heyrir hann, að kýrin baular undir fótum sér. Hann klifrast þá ofan hamrana og sér í þeim helli mjög stóran. Þar gengur hann inn og sér Búkollu bundna undir bálki í hellinum. Hann leysir hana undir eins og leiðir hana út á eftir sér og heldur heimleiðis.
Þegar hann er kominn nokkuð á veg, sér hann, hvar kemur ógnarstór tröllskessa á eftir sér og önnur minni með henni. Hann sér, að stóra skessan er svo stórstíg, að hún muni undir eins ná sér.
Þá segir hann: "Hvað eigum við nú að gera, Búkolla mín?"
Hún segir: "Taktu hár úr hala mínum, og leggðu það á jörðina."
Hann gjörir það. Þá segir kýrin við hárið: "Legg ég á, og mæli ég um, að þú verðir að svo stórri móðu, að ekki komist yfir nema fuglinn fljúgandi."
Í sama bili varð hárið að ógnastórri móðu.
Þegar skessan kom að móðunni, segir hún: "Ekki skal þér þetta duga, strákur. Skrepptu heim, stelpa," segir hún við minni skessuna, "og sæktu stóra nautið hans föður míns."
Stelpan fer og kemur með ógnastórt naut. Nautið drakk undir eins upp alla móðuna.
Þá sér karlsson, að skessan muni þegar ná sér, því hún var svo stórstíg.
Þá segir hann: "Hvað eigum við nú að gera, Búkolla mín?"
"Taktu hár úr hala mínum, og leggðu það á jörðina," segir hún.
Hann gerir það. Þá segir Búkolla við hárið: "Legg ég á, og mæli ég um, að þú verðir að svo stóru báli, að enginn komist yfir nema fuglinn fljúgandi."
Og undir eins varð hárið að báli.
Þegar skessan kom að bálinu, segir hún: "Ekki skal þér þetta duga, strákur. Farðu og sæktu stóra nautið hans föður míns, stelpa," segir hún við minni skessuna.
Hún fer og kemur með nautið. En nautið meig þá öllu vatninu, sem það drakk úr móðunni, og slökkti bálið.
Nú sér karlsson, að skessan muni strax ná sér, því hún var svo stórstíg.
Þá segir hann: "Hvað eigum við nú að gera, Búkolla mín?"
"Taktu hár úr hala mínum, og leggðu það á jörðina," segir hún.
Síðan segir hún við hárið: "Legg ég á, og mæli ég um, að þú verðir að svo stóru fjalli, sem enginn kemst yfir nema fuglinn fljúgandi."
Varð þá hárið að svo háu fjalli, að karlsson sá ekki nema upp í heiðan himininn.
Þegar skessan kemur að fjallinu, segir hún: "Ekki skal þér þetta duga, strákur. Sæktu stóra borjárnið hans föður míns, stelpa!" segir hún við minni skessuna.
Stelpan fer og kemur með borjárnið. Borar þá skessan gat á fjallið, en varð of bráð á sér, þegar hún sá í gegn, og tróð sér inn í gatið, en það var of þröngt, svo hún stóð þar föst og varð loks að steini í gatinu, og þar er hún enn.
En karlsson komst heim með Búkollu sína, og urðu karl og kerling því ósköp fegin.
Netútgáfan - febrúar 1998