Maður hét Björn; hann var mikill fyrir sér og vígamaður og fyrir því lagðist hann út á merkur og skóga. Þegar fram í sótti þótti honum þar einsleg ævi sín og dauf; fór hann því og nam til sín kóngsdóttur úr næsta kóngsríki. Hún hét Ingibjörg. Hún varð nú að þýðast Björn hvort sem henni var það ljúft eða leitt og vera hjá honum í skála hans á skóginum.Liðu svo fram tímar að ekki bar til tíðinda fyrr en Ingibjörg varð léttari að meybarni undur fögru; hana kölluðu þau Helgu. Hún óx upp með foreldrum sínum og kenndi Ingibjörg henni bæði matartilbúning og alls konar saumaskap og hannyrðir svo það þótti afbragð. Björn átti lítið við uppeldi dóttur sinnar því hann var löngum úti á skógi að veiða dýr og fugla.
Þegar Helga var orðin 15 eða 16 vetra tók móðir hennar sótt og andaðist; var það mikill harmur fyrir Helgu því hvorki undi hún sér eftir fráfall móður sinnar ein heima í skálanum á daginn og þegar Björn var heima fann hún brátt að hann hafði óleyfilega ást á henni og vildi taka hana sér fyrir konu.
Þetta líf varð Helgu með öllu óbærilegt svo hún leitaði sér lags að komast burt úr skálanum til mannabyggða. Björn grunaði það að ekki mundi vera að trúa Helgu þaðan af og lagði því á hana taug og hnýtti öðrum endanum um rúmmarann sinn, en hinum utan um dóttur sína svo hún gat ekki leyst hann né losað sig. Þó hafði hún svo mikið svigrúm að hún gat gegnt öllu sem gera þurfti innan um skálann.
Einu sinni þegar Björn var háttaður eitt kvöld lést Helga hafa gleymt þvotti úti og fór eftir honum. Þegar hún kemur út rekur hún þoll í skálavegginn, hnýtir um hann festarendanum sem utan um hana var og segir: "Svaraðu fyrir mig orði ef mér liggur á."
Síðan tekur hún til fótanna og hleypur sinn blóðspreng í dauðans ofboði út í náttmyrkrið. En það er af Birni að segja að þegar honum fór að lengja eftir dóttur sinni kallar hann til hennar og skipar henni að koma inn.
Þá gegnir þollurinn fyrir hana og segir: "Ég kem senn."
En þó dróst það þangað til Björn varð óþolinmóður og kallar aftur, en enginn gegndi. Fer hann þá á fætur og fylgir tauginni út og sér hvernig í öllu liggur, en ekki leitar hann dóttur sinnar að heldur af því myrkrið var svo mikið og hann vissi ekkert hvert hún hafði haldið.
Nú víkur sögunni til Helgu að hún hleypur eins og fætur toga alla nóttina til morguns. Er hún þá stödd undir háum skíðgarði og svo af sér komin af þreytu að hún fleygir sér þar niður sem hún stóð og vaknaði ekki fyrr en komið var fram á dag.
Síðan gengur hún inn í skíðgarðinn og verður þess áskynja að hún var komin í kóngsríki eitt. Hún þekkir þar engan mann, en af tilviljun verður henni gengið þar inn sem matsveinn kóngsins var fyrir. Hún fær að vera hjá honum, en hjálpar honum aftur við eldastörf.
Þegar hún hafði séð um matinn einn dag og kóngur hafði bragðað hann fannst honum maturinn miklu ljúffengari og betri en hann hafði nokkurn tíma áður bragðað og spyr hver hafi matbúið fyrir sig í dag. Honum var sagt að matsveinn hans hefði gert það. Kóngur vildi ekki trúa því, en lét þó svo vera.
Í annað sinn vildi kóngur ekki með nokkru móti trúa því að sami matsveinn hefði búið til matinn sem því væri vanur og fór hann nú sjálfur að grennslast eftir því. Þó tókst matsveininum að fela Helgu svo að kóngur varð hennar ekki var því hún vildi ekki verða uppvís fyrir honum.
Eftir það fór Helga úr kóngsaðsetunni og kom sér í þjónustu hjá skraddara kóngsins. Svo bar við litlu síðar að kóngur stofnaði til stórveislu og ætlaði að hafa við ógnirnar allar og bjóða til sín öllu stórmenni í ríkinu; þar með lagði hann fyrir skraddarann að sauma handa sér þann dýrðlegasta klæðnað sem hann gæti.
Skraddarinn tekur þá til klæðagjörðarinnar og af því hann hafði orðið þess var að Helga var enginn bögubósi með nálinni lét hann hana sauma kóngsklæðin. Þegar þau voru búin þóttu þau þvílíkt afbragð að enginn þóttist hafa séð önnur slík, gulldregin með hverjum saum.
Þegar kóngi voru færð klæðin furðar hann stórlega á öllum frágangi þeirra og segir að það komi ekki til nokkurra mála að þetta sé eftir skraddarann sinn einsamlan, það þurfi enginn að segja sér, þessi klæði hafi enginn annar saumað en sá sem hafi matbúið áður handa sér rétti þá sem sér hafi þótt gómsætastir.
Tjáði nú ekki að telja kóngi hughvarf með það svo að hann gekk sjálfur rakleiðis til skraddarans og bauð honum að sýna sér þann sem hefði saumað klæðin sín seinustu því ekki hefði hann verið þar einn í ráðum. Skraddarinn þorði þá ekki annað en hlýða boði kóngs, sækir Helgu og sýnir kóngi hana. Kóngur verður forviða þegar hann sér hana og fellir þegar ástarhug til hennar. Hann spyr hana hvernig á henni standi og af hvaða bergi hún sé brotin. Hún svaraði honum fáu um það, en sagði að móðir sín hefði verið kóngsdóttir.
Kóngur hóf þá bónorð sitt til hennar og tók Helga því ekki fjarri, en þó með því skilyrði að hann tæki engan vetursetumann án síns vilja. Kóngur hét því. Síðan sneri kóngur veislunni í brúðkaupsdrykkju og jók það ekki lítið fögnuð kóngs og boðsmanna. Að veislunni lokinni voru allir út leystir með góðum gjöfum og fór hver heim til sín.
Með kóngi og drottningu tókust góðar ástir og þegar fram liðu stundir fór drottning að gildna undir belti. Var það þá einn dag að kóngur og hirðmenn hans flestir fóru út á skóg að skemmta sér, en drottning var heima því hún var ófrísk. Kemur þá stór maður vexti heldur skuggalegur með síðan hatt á höfði til kóngs og biður hann veturvistar.
Kóngur færist undan því, en hinn herti að því fastar. Þá segir kóngur honum að hann taki enga veturvistarmenn að drottningu sinni fornspurðri. Komumaður sagði það væri lítilfjörlegt fyrir kóng að hafa svo mikið konuríki að hann væri ekki bær að ráða fyrir henni eins manns vist vetrarlangt. Kóngur þoldi þá ekki frýjuorð komumanns og tók við honum til hirðvistar.
Þegar kóngur kom heim og menn voru komnir undir borð um kvöldið í höllinni kemur drottning þar og þekkir að þar er kominn Björn faðir sinn í því hún gengur til sætis síns. Henni hnykkti heldur en ekki við, en talaði þó fátt um.
Leið svo að þeim tíma sem hún skyldi verða léttari; voru þá fengnar til ljósmæður að vera hjá drottningu og fæðir hún tvö sveinbörn; og reifa ljósmæðurnar tvíburana, leggja þá upp í sængina hjá drottningu og halla sér svo út af.
Um nóttina kemur Björn inn í sama herbergið sem drottning lá í; stingur hann ljósmæðrunum svefnþorn, en lætur þagnargull undir tungurætur drottningar, síðan tekur hann báða reifastrangana og sker þá á háls, en lætur hnífinn alblóðugan í hendurnar á dóttur sinni og mælir svo um að hún skuli ekki geta sleppt honum. Gat svo drottning hvorki tekið til höndunum né gefið neitt hljóð af sér.
Síðan fer Björn úr herbergi drottningar og þangað sem kóngur lá í fastasvefni. Af því Björn hafði komið sér í mjúkinn hjá kóngi frá því hann kom til hirðarinnar dirfðist hann að vekja kóng og biður hann að koma með sér. Kóngur var tregur til þess og spyr hvað um væri að vera. Björn sagði að honum mundi betra að vita hvað drottningu liði því sér hefði heyrst ófagur forgangur í herbergi hennar í nótt. Fór svo kóngur þangað með Birni.
Þegar þeir koma þar inn var sami frágangur þar á öllu sem fyrr er frá sagt og varð kóngi svo illt við þessa aðkomu að ekki verður orði að komið; enda sýndu merkin verkin þar sem drottning hélt á blóðugum hnífnum, en bæði börnin skorin á háls í sænginni hjá henni.
Björn vakti nú ljósmæðurnar og spurði þær hvernig þetta hefði að borið; en þær vissu ekki af neinu að segja, en drottning gat ekki talað vegna gullsins, því síður sagt frá framferði Bjarnar.
Björn réð nú kóngi til að láta drepa drottningu þegar hún frískaðist aftur og sagði að þetta væri ekki mannlegt æði og mætti kóngur ekki láta það viðgangast óhegnt. Kóngi þótti mikið fyrir þessu fyrir ástar sakir sem hann hafði á drottningu, en lét þó til leiðast að úrskurða hana dauðaseka fyrir fortölur Bjarnar.
Var þá farið að fá menn til að drepa drottningu, en enginn vildi verða til þess; svo var hún vinsæl orðin. Loksins keypti Björn til þess átta þræla að fara með hana út á skóg og brenna hana þar á björtu báli og lík beggja sveinanna með henni, en bað þá að taka gullið undan tungurótum hennar og færa sér.
Síðan fóru þrælarnir með drottningu eins og fyrir þá var lagt, viðuðu til bálsins og kveiktu í því. En þegar þeir ætluðu að taka drottningu og bera hana á bálið kom til þeirra kona; hún gekk á einum fæti og hafði járnlaup á höfði; hún setur af sér laupinn, gengur til þrælanna og spyr hvað þeir hafi fyrir stafni. Þeir segja sem var.
Kona þessi hefur engin orð við þá, en grípur hvern þeirra á fætur öðrum og fleygir þeim út á bálið og allt eins báðum reifaströngunum og brennir þá alla til kaldra kola.
Síðan gengur hún að drottningu, tekur þagnargullið undan tungurótum hennar og stingur hjá sér, en lætur Helgu sjálfa í laupinn og fer með hann burt með drottningu í á höfðinu til sjávar. Hún nemur þar ekki staðar, heldur leggur hún eins með laupinn á höfðinu á sjóinn og gengur langa leið þangað til hún kemur í ey eina sem var langt undan landi; þar hafði kóngur sauðfé sitt allt.
Einfætla (svo hét kerlingin) gekk kippkorn upp á eyna þangað til hún kom að jarðhúsi, þar gekk hún inn með laupinn og Helgu í, fyrst í gegnum heldur myrkt herbergi og ekki fagurt og síðan gegnum annað bjart og skrautbúið allt innan, og enn inn í hið þriðja; þar var og vel um búið og rekkja skrautleg mjög. Þar setur Einfætla af sér laupinn og segir við drottningu að hér verði hún nú að hírast fyrst um sinn og skuli hún nú hvíla sig og ganga til sængur. Helga gerir svo.
Síðan kemur Einfætla með tvo reifastranga og segir: "Hér eru nú báðir synir þínir heilir á hófi. Það er ekki séð að ég hafi sofið fastara um nóttina sem þú áttir sveina þessa en hann Björn bragðastakkur; því ég skipti um sveinana og lét í staðinn fyrir þá tvo hvolpa sem Björn skar á háls og öllum sýndust vera reifastrangar. Hef ég nefnt annan sveininn Sigmund, en hinn Sigurð. Munuð þið nú dveljast hér um stund, en ekki þarf kóngur að kippa sér upp við það þó fé hans týni tölunni því einhverju verður hann til að kosta."
Helga féll í stafi af feginleika yfir öllum þessum aðgjörðum Einfætlu og þakkaði henni með mörgum fögrum orðum frelsi sitt og sona sinna og vafði sig að sveinunum báðum.
Eftir þetta voru þau mæðgin í eynni hjá Einfætlu þangað til sveinarnir voru orðnir fimmtán ára og lifðu þau á hjörð kóngsins og var hún smátt og smátt að týna tölunni, enda lét kóngur sækja þangað sjálfur slátursfé eftir þörfum.
Björn varð eftir að drottning var frá æðsti ráðgjafi kóngs og vasaði mjög í völdum eftir vild sinni enda var kóngur æði talhlýðinn við hann. Þegar fimmtánda árið var að líða eftir hvarf drottningar þóttist Björn stundum sjá úr landi reyk úti í eynni og kom á tal við kóng að það mundi vera betra að grennslast eftir hvort ekki væru komnir þjófar á eyna því auk reykjarins sem sér sýndist þar úti á stundum gæti ekki hjá því farið að hjörð kóngsins fækkaði óðum og ósjálfrátt eftir því sem sér litist til. Kóngur bað hann senda þangað skip og menn og rannsaka eyna og svo gerði Björn.
En þegar skipið var komið á leiðina rak á storm svo mikinn að það týndist og allir sem á voru. Gerði Björn þá út annað skip og mannaði það vel, en allt fór á sömu leið. Gekk Björn nú enn til kóngs og sagði honum hvernig farið hefði og að ekki mundi annað tjá en að þeir færu báðir með marga menn út þangað.
Kóngur bað hann ráða og svo varð sem Björn vildi, að þeir kóngur fóru þangað með margmenni á vænu skipi og stóru. Fengu þeir þá enn volk mikið og ágjöf, en gátu þó komist slysalaust á land í eynni, en mjög hraktir og kaldir.
Þegar þeir voru komnir af skipi kemur þar Einfætla til þeirra ofan af eyju og býður kóngi með föruneyti sínu til heimkynna hennar. Kóngur þiggur það. Fer Einfætla svo á undan, en þeir á eftir og gengur Björn næst kóngi. Síðan lætur Einfætla þá fara inn í herbergið skuggalega sem fyrr er nefnt; þar setur hún kóng á fagran stól.
Síðan tekur hún svartan stól og ljótan, setur hann á aðra hlið kóngi og segir: "Komdu hérna, Björn bragðastakkur, og tylltu þér hjá kónginum, þú gengur næstur honum hvort sem er."
Björn leit óhýrt til Einfætlu og settist þó. Síðan settust aðrir fylgdarmenn kóngs þar utar frá.
Einfætla var hin gestbeinlegasta heima að hitta og veitti þeim af vild og gerði eld fyrir þeim. Hlýnaði þeim nú í hamsi og gerðist kóngur kátur af viðtökum þessum. Einfætla hófst þá upp úr eins manns hljóði og kvaðst vilja hafa þau laun af kóngi að hann segði henni ævisögu sína. Kóngur sagði það velkomið og sagði sögu sína til enda, en viknaði við þegar hann sagði frá óförum drottningar sinnar.
Þegar kóngur hafði lokið sinni sögu sagði Einfætla: "Segðu nú þína ævisögu, Björn bragðastakkur, næst kóngi; þú gengur næstur honum hvort sem er."
Björn ygldist við þessa skipun, en þorði þó ekki annað en hlýða. Byrjaði hann svo sína sögu, en hallaði mjög til um frásögnina þegar hann var kominn að því sem hann vildi taka Helgu dóttur sína fyrir konu.
Þá segir Einfætla: "Nú lýgur þú Björn. Lyftu þér þá stóll."
Stóllinn sem Björn sat á fór þá allur að kvika og ypptast frá gólfinu svo Björn þorði ekki annað en segja satt frá. Aftur ætlaði hann að halla til um sagnirnar þegar hann kom þar að sem Helga átti tvíburana. En Einfætla hafði þá enn hinn sama formála sem áður og þorði hann þá ekki annað en segja satt frá öllu þegar fór að lofta undir stólinn.
Þegar hann hafði lokið sögu sinni segir Einfætla: "Lyftu þér nú stóll til fulls."
Færðist þá stóllinn á loft sem Björn sat á, en þar var undir ketill með vellandi biki og steyptist Björn á höfuðið niður í ketilinn. Sagði Einfætla að hann hefði lifað ærið lengi öðrum til ills.
Við þetta urðu allir hvumsa. En Einfætla biður kóng að koma með sér í næsta herbergi. Kóngur gerði svo; leiðir hún hann svo inn þangað sem Helga er með báðum sonum sínum og segir honum þar upp alla sögu. Kóngur varð frá sér numinn af fögnuði og faðmar nú Helgu og syni sína. En þau þakka öll Einfætlu frelsi og lífgjöf drottningar og sona þeirra.
Býður svo kóngur henni heim til hirðvistar hjá sér að lifa þar í sóma og eftirlæti. Einfætla þakkar honum gott boð þó hún ekki geti þáð það nú þegar, en biður kóng og drottningu að lofa sér að halda eftir hjá sér Sigmundi syni þeirra og láta þau það eftir henni.
Eftir það skilur kóngur, drottning og Sigurður við þau Einfætlu og Sigmund og fara heim með föruneyti þeirra.
Sigmundur undi vel við að verða eftir hjá Einfætlu og lét hún hann sofa hjá sér nóttina eftir. Sofnar þá Einfætla fljótt, en Sigmundur vakir nokkuð lengur; heyrir hann þá brest mikinn og fer að gá að hvað því valdi. Rís hann upp og sér að við brestinn hefur hamurinn færst niður af Einfætlu til fóta og að hjá sér liggur fríð og fögur mey.
Hann fer þá á fætur aftur, kveikir upp eld og brennir haminn, en stekkur vatni á þessa nýju lagskonu sína svo hún raknar við. Þakkar hún honum frelsi sitt þar sem hann hafi leyst sig frá þeim álögum stjúpu sinnar að hún skyldi hafa Einfætluhaminn og aldrei geta úr honum komist fyrr en einhver frumgetinn kóngsson yrði til að sofa hjá henni; segist hún vera kóngsdóttir og heita Svanborg.
Eftir það hétu þau hvort öðru tryggðum sín á milli og morguninn eftir kyntu þau bál mikið á eynni. Sást það úr landi og lét kóngur þegar fara til eyjarinnar; voru þau svo flutt til lands. Kóngur og drottning fögnuðu þeim fegins hugar og gerðu veislu á móti þeim. Að þeirri veislu gekk Sigmundur að eiga heitmey sína; fóru þau svo í það kóngsríki sem Svanborg var borin og barnfædd í og lifðu þar bæði vel og lengi. En Sigurður fékk sér kóngsdóttur annarstaðar og varð kóngur eftir föður sinn.
Og lýkur hér svo sögunni af Birni bragðastakk sem sumir kalla söguna af Einfætlu eða Lauphöfðu og enn aðrir söguna af Grástakk af því Björn hafði verið í gráum stakki þegar hann kom fyrst til kóngs á skóginum.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)
Netútgáfan - desember 1998