Á jólaaftan var það einu sinni að Melum í Hrútafirði að barið var að dyrum, og er komið var út stóð þar skrautbúin kona er beiddist gistingar. Þá bjó sýslumaður að Melum og sagði hann það heimilt. Hún var spurð að nafni og sagðist hún heita Bóthildur, en ekki vildi hún segja hvaðan hún kæmi eða hvaðan hún væri upprunnin. Hún var þar um nóttina og var ein heima er annað fólk gekk til tíða, en um morguninn er fólkið kom heim hafði það aldrei séð bæjarhús eins prýðileg, öll þvegin og sópuð og allt undirbúið er til þurfti að taka.Bauð sýslumaður henni þá þar að vera lengur og gjörðist hún ráðskona fyrir búi hans og fór henni það vel úr hendi. Næsta jólaaftan fór allt fólk til tíða nema Bóthildur, en þegar fólkið kom heim um morguninn sá það að hún var hrygg mjög og grátin, en ekki bar á því endrarnær.
Þriðju jólanóttina var hún ein eftir heima og langaði þá smaladreng sýslumanns er Guðmundur hét að vita hvað hún hefðist að, og gjörði sér upp veiki er hann var kominn á stað, og snéri heim aftur. Hann átti hulinhjálmsstein og tekur hann nú í hönd sér og gengur inn í baðstofu. Sér hann þá að hún býr sig í skart mikið og þykist hann aldrei hafa séð jafnfallegan búning. Síðan tekur hún grænt klæði upp úr kistu sinni og gengur út.
Guðmundur fer á eftir henni þangað til þau komu að vatni einu, þá breiðir hún klæðið á vatnið og stígur á. Guðmundur kemur sér á horn klæðisins og síga þau nú niður; þókti honum sem þau væðu reyk niður eftir jörðinni þangað til þau komu á völlu fríða. Þar leit hann standa borg fríða og háreista og kirkju með háum turni.
Bóthildur gengur til borgarinnar og var henni þar vel fagnað. Sá er Guðmundi sýndist þar æðstur og allir aðrir lutu tók hana í fang sitt og kyssti hana sem konu sína, og þrjú börn heilsuðu henni sem móður sinni. Allir urðu glaðir er þeir sáu Bóthildi og báðu hana vera velkomna.
Þar næst var gengið í kirkju og fór þar fram tíðagjörð eins og hjá kristnum mönnum. Börn Bóthildar gengu milli stóla og léku sér að þremur gullhringum, en hið yngsta missti sinn hring og fannst hann eigi, en því var svo varið að Guðmundur hafði tekið hann upp og geymdi hjá sér.
Þegar gengið var frá tíðum var setst til borðs og settist Bóthildur í hásæti hjá manni sínum. Var þar vel veitt og vel drukkið, en er leið að dægramótum stóð Bóthildur upp og kvað tímann vera kominn til að skilja. Urðu þá allir hryggir, en þó einkum maður hennar.
Kvaddi hún þá alla, en maðurinn gekk með henni á leið og taldi sér margar raunatölur að þeim væri samvistum synjað og að nú mundu þau sjást í seinasta sinnið. Síðan kvöddusi þau með miklum harmi.
Steig hún þá á klæðið og Guðmundur með og fóru upp sömu leið og áður. Gengur hún síðan heim að Melum og klæðir sig úr skrúðanum og tekur til starfa, og var hún búin að undirbúa allt eftir vanda er kirkjufólkið kom heim.
Guðmundur kemur þá líka heim og spyr sýslumaður hann hvar hann hafi verið. Hann kvaðst hafa verið að kanna neðri byggðir. Sýslumaður spyr hvernig á því stæði. Hann kvaðst hafa verið að fylgja ráðskonunni hans. Síðan segir hann upp alla söguna og hlýddi Bóthildur á á meðan, en að lyktum spyr hún hann hvort hann geti sýnt þess nokkur merki að hann segi hér satt frá. Dregur hann þá upp hringinn og sýnir henni.
Verður þá Bóthildur glöð og segir: "Þú hefur satt sagt og á ég þér mikið gott að launa. Ég var áður drottning í álfheimum þangað til valva ein lagði það á mig að ég skyldi hverfa og vera með mennskum mönnum og ekki fá að koma í álfheima nema á jólanóttina, og skyldi ég ekki úr þeim álögum leysast fyrr en einhver mennskur maður yrði svo djarfur að fara með mér ofan þangað. Nú hefur þú leyst mig úr álögum þessum og skal þér ríkmannlega launað."
Síðan kvaddi hún sýslumann og allt heimafólk og hvarf á burt. Nóttina eftir kom hún í draumi til Guðmundar og gaf honum ógrynni fjár og margar gersemar og lá það á koddanum hjá honum þá er hann vaknaði. Síðan keypti hann sér jörð, kvongaðist og varð hinn mesti gæfumaður.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - júlí 2000