BÓNDI  VEKUR  UPP  DRAUG



Þegar séra Vigfús sem var í Aðalvík, sonur séra Benediktar sem var prestur í Vestmanneyjum, var stúdent og var til veru á einhverjum kirkjustað þá hafði það verið venja hans að ganga út í ljósaskiptunum á vetrinn þegar fólkið svaf í myrkrinu. Torfkirkja hafði verið þar eins og alstaðar á þeim dögum. Hafði þakið ekki verið slegið um sumarið og því mikil sina á kirkjunni.

Eitt kvöld í heiðskíru veðri og tunglskini hafði hann verið að ganga um út á hlaði. Þá sá hann hvar maður kom ríðandi. Hann furðar það að hann skuli vera svona seint á ferð og getur ekki vitað hvað hann muni vilja.

Séra Vigfús fer nú inn í kirkjugarðinn og felur sig í sinunni á kirkjuþakinu. Hann sér þegar hinn nálægist að þetta er einn sveitarbóndinn. Þegar bóndi er kominn af baki gengur hann í kirkjugarðinn og skimar sig um hvert hann sjái nokkurn, og þegar hann sér engan þá fer hann að nusa úr hverju leiði og loksins kemur hann að einu leiði nýgröfnu. Hann nusar þar af og að því búnu fer hann að fremja særingarþulur sínar; en ekkert skildi hann af því sem bóndi fór með af öllum sínum fítonsanda nema það að hann fór með öfugt faðirvor.

Eftir tímakorn sér hann að moldin fer að ókyrrast og því næst sér hann að upp úr gröfinni kemur kista og innan úr henni sprettur upp maður; hann var í línhjúp. Bóndi færir hann úr hjúpnum og því næst karar hann hann (sleikti náfroðuna af hönum með tungunni).

Að því búnu ræðst bóndi á drauginn og eftir harðan atgang þá féll draugsi og að því búnu fara þeir heimleiðis. En svo hafði bóndi mikið við félaga sinn að hann gekk sjálfur, en lét draugsa ríða.

Þegar sr. Vigfús kom inn var hann náfölur, en ekki vildi hann segja hvað hann hefði séð fyrr en daginn eftir.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - mars 2001