BÓNDADÆTURNAR



Ekki alllangt frá konungsborg nokkurri bjó bóndi einn vel efnaður. Hann átti þrjár dætur. Var hin elsta tvítug, en hinar yngri, þó allar gjafvaxta.

Einhverju sinni er þær voru á gangi fyrir utan bæ föður síns þá sjá þær hvar konungur - er var ógiftur - kom með tveimur fylgdarmönnum; átti annar þeirra að hafa verið skrifari, en hinn skósmiður.

Þá segir sú elsta: "Ég vildi ekki óska mér meir en ég ætti skósmiðinn."

Sú næsta henni sagði: "En ég skrifarann."

Þá sagði sú yngsta: "En ég konunginn sjálfan."

Konungur sem heyrt hafði að þær voru eitthvað að tala segir við fylgdarmenn sína: "Ég vil fara til kvenmanna þessara og vita hvað þær hafa verið um að ræða; mér heyrðist ein segja: "konunginn sjálfan"."

Þeir svöruðu að það mundi ekki hafa verið merkilegt sem þær hefðu haft fyrir umtalsefni. Konungur segir þeir skuli nú til þeirra fara og ríða þeir nú allir samt til stúlknanna. Konungur spyr hvað þær hafi verið um að ræða þegar þeir hafi verið komnir nálægt þeim; fer nú svo að þær segja eins og verið hafði. Þá mælti konungur að svo skyldi einnig verða sem þær hefðu óskað, og það varð.

En þegar sú yngsta systirin var orðin drottning þá fóru hinar að líta óvildar- og öfundarauga til hennar og vildu fyrir hvern mun hrinda henni úr tigninni.

Þegar drottningin varð þunguð og komið var nærri þeim tíma þá hún skyldi barnið fæða, þá fengu þær því til vegar komið að þær sátu yfir henni. Þegar hún hafði barnið fætt þá sáu þær um að barnið var tekið og farið með það á burt, og átti eftir tilætlun þeirra að kasta því í díki eitt fyrir utan borgina sem haft var til að láta í saur og annan óþverra úr borginni.

Sá sem sendur var að framkvæma starf þetta lét barnið á bakkann, en karl einn sem um gekk fann það og bar heim til sín.

Systurnar létu nú í skarðið hjá drottningu hvolp einn sem þær útötuðu í blóði og sögðu síðan að drottning hefði átt hann. Konungur varð mjög hryggur við þessi tíðindi, en stillti þó harma sína.

Þannig fór í annað og þriðja sinn sem hún átti barn, og börnin lentu hjá hinum sama karli; voru það tveir synir og ein dóttir.

Karlinn lét gefa börnunum heiti og kallaði eldri sveininn Vilhjálm, en hinn Sigurð. Nafn stúlkunnar sem yngst var er óvíst.

Þegar drottning hafði átt þriðja barnið varð konungur afar reiður og bauð að setja hana í hús nokkurt hvar ljón var látið inni vera, en í stað þess að það rifi hana í sundur þá gaf það henni ætíð af því sem því var fært til að éta svo hún tórði þarna hjá því án þess nokkur þó vissi að hún væri á lífi.

Nú víkur sögunni til karlsins sem fóstraði börnin. Hvern sem hann hitti eða til hans kom spurði hann hvert hann vissi ekkert um börn þessi, en allir luku upp sama munni að þeir vissu ekkert.

Börnin uxu upp og voru mjög efnileg, en karlinn tók nú að gjörast mjög aldraður. Réði hann þá börnunum til að þau skyldu halda sama vana og hann hefði haft að reyna til að komast eftir ætt sinni. Eftir þetta andaðist karlinn og gjörðu börnin þá eins og þeim hafði verið boðið.

Einhverju sinni kom til þeirra gamall maður. Fréttu þau hann hins sama og aðra; hann kvaðst sjálfur ekki geta sagt þeim neitt um það, en gæti vísað þeim á þann er það vissi. Hann sagði að nokkurn veg þaðan í burt væri steinn einn stór og upp á honum sæti fugl sem bæði skildi og gæti talað mannamáli. Kvað hann þeim mundi best að finna hann, en þar á væri nokkurt vandhæfi því margir hefðu þangað farið, en enginn aftur komið. Konungabörn sagði hann að hefðu viljað vita fyrir forlög sín, en ekkert af þeim er komið hefði hefði haft það til að bera sem með þyrfti.

Svo sagði hann stæði á að sá sem upp vildi komast á steininn yrði að vera svo staðfastur að hann liti ekki aftur hvað sem hann heyrði því hver sem það gjörði yrði að steini og allt það er þeir hefðu meðferðis. Þessa stillingu kvað hann að hefði vantað hjá öllum, en væri hún, þá gæti hver og einn upp komist.

Ef nú einhver kæmist upp sagði hann að sá gæti lífgað hitt allt því á klettinum uppi væri pollur einn og lok yfir, á hverju fuglinn sæti; leyfði fuglinn hverjum sem til hans kæmist að taka af vatninu og dreifa því yfir þá sem að steinum hefðu orðið, og við það lifnuðu þeir aftur og yrðu eins og þeir áður voru.

Þetta virtist börnunum ekki mikil þraut, létu þó bræðurnir drjúgmannlegast, og þökkuðu þau karli fyrir sögu sína. Litlu þar á eftir leggur eldri bróðirinn Vilhjálmur á stað, en segir svo bróður sínum að ef þrír blóðdropar komi á hnífinn hans þegar hann borði einhvern tíma þá megi hann koma, því þá hafi farið fyrir sér sem hinum öðrum.

Hann heldur nú sem hann eftir gamla mannsins tilsögn vissi að leið lá, og er ei getið um för hans, en eftir hér um bil þrjá daga, svo sem svaraði ferð hans að steininum, þá kom blóðið á hníf Sigurðar. Honum brá mjög í brún og segir systur sinni að hann verði að leggja á stað, og gjörir sömu ráð fyrir við hana og bróðir hans hafði gjört.

Leggur hann nú á stað og fer allt á sömu leið. Þá leggur systirin á stað, kemur að steininum og sér þar í kring ótölulegan grúa af steinum alla vega mynduðum, sumir líkir kistlum, sumir skápum o.s.frv. Hún leggur að steininum og fer að klifrast; heyrir hún þá mjög mikið mannamál og þar á meðal þekkir hún róm bræðra sinna. Ei að síður gætir hún þess að líta ekki við og kemst upp á steininn.

Fær hún þá mikið hrós hjá fuglinum fyrir staðfestu sína og heitir henni að fræða hana um það er hún vilji. Henni verður fyrst fyrir að vilja lífga steinana og það fær hún. Bendir fuglinn henni á einn og segir að ef hún vissi hver þar væri þá mundi hún vilja koma af honum steinhamnum. -- Án þess að orðlengja það lífgar hún alla og þakka þeir henni lífgjöfina.

Því næst spyr hún fuglinn til hverra þau systkinin hafi ætt sína að rekja eða hverjir séu foreldrar þeirra. Fuglinn segir að þau séu börn konungsins í landinu og greinir frá hvernig systurnar hafi að farið þegar þau fæddust. Líka getur hann um við þau að móðir þeirra sé ennþá á lífi hjá ljóninu, en sé orðin nær dauða en lífi bæði af hryggð og skorti á öllu góðu.

Í steini þeim sem fuglinn hafði vísað henni á var hinn tíguglegasti konungsson. Hann leit strax ástarauga til lífgjafa síns og leist hverju vel á annað. Hafði hann einkum haft með sér það er var í hinum kistlamynduðu steinum; voru það kassar fullir með dýrgripi.

Eftir að fuglinn hafði frætt um það er menn girntust að vita, þá leggja systkinin á stað og þessi eini konungsson með þeim. Þau fara inn í borgina, fá sér verkfæri og brjóta gat á múrinn á húsi því hvar ljónið var inni.

Fundu þau þar móður sína í öngviti, því hún hafði hrædd orðið við aðgang þeirra að brjóta múrinn. Lifnaði hún samt við; færðu þau hana í almennileg föt og lögðu síðan að konungshöllinni og báðu sér orðlofs að tala við hann. Þetta veittist þeim, og þá segjast þau nú vera komin börnin hans með móður sína úr ljónsbælinu og láta hann vita allt sem fuglinn hafði frætt þau á.

Síðan var haldinn rannsóknarréttur yfir systrum drottningar; kom þá upp hið sanna. Var þeim þá kastað inn til sama ljónsins sem reif þær og tætti í sundur.

Drottningin komst nú í tign sína aftur; dóttirin átti þann mikla konungsson sem með systkinunum fór til borgarinnar og settist að ríkjum eftir föður sinn. Vilhjálmur giftist og tók við ríki eftir föður sinn látinn, en Sigurður giftist konungsdóttir úr öðru ríki og komst þar að eftir föður hennar. Lifðu síðan öll í lukku og velgengni.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)

Netútgáfan - desember 1998