BISKUPSDÓTTIRIN  Í  SKÁLHOLTI



Það var einu sinni biskup í Skálholti; hann átti dóttur sem Sigríður hét. Faðir hennar unni henni mjög enda var hún fríð sýnum og ágætlega að sér í öllum kvenlegum listum. Beiddu hennar margir menn, en hún tók engum.

Einu sinni var hún á gangi um vortíma úti, langt nokkuð frá bænum. Þá veit hún ekki fyrr til en til hennar ríða tólf menn. Einn af þeim tekur hana og lætur hana á bak fyrir aftan sig og ríða þeir svo allir á burtu langan veg þangað til þeir koma að einum kofa; þar stíga þeir af baki.

Sá sem hafði reitt Sigríði fer nú með hana í kofa þenna og segir við hana: "Hér áttu nú að vera, þú ert komin fram í fjöll, og ef þú leitast við að strjúka muntu verða drepin. Einnig verður þú að elda handa okkur og þjóna okkur, en líki okkur það ekki, máttu búast við hörðum hárborða."

Hún tekur nú til starfa og gengur allt vel. Nú líður að hausti og fara kofabúar að tala um að fá sér sveitafé til slátrunar. Þá er Sigríður eitt kvöld með ljós frammi í bæjardyrum.

Nú víkur sögunni til biskups; hann hafði lengi látið leita að dóttur sinni og eitt kvöld er hann sjálfur á gangi langt í burtu og sér hann þá álengdar ljós það sem dóttir hans heldur á, en vissi þó ekki hvaða ljós það var.

Hann heldur þá áfram og gengur á ljósið og kemst til dóttur sinnar. Hún fagnar vel föður sínum og segir að hann skuli forða sér sem fljótast því einn maður sé hér svo göldróttur að hann viti af honum, en á morgun fari hér allir í burtu og þá þætti sér vænt um ef hann gæti komið og talað við sig. Sigríður fer nú að hátta, en biskup fer í burtu,

Nú vakna kofamenn snemma næsta morgun og fara af stað. Að lítilli stundu liðinni kemur biskup og finnur dóttur sína.

"Nú eru fá ráð fyrir hendi," segir hún. "Að þriðja kvöldi hér frá skaltu samt koma hingað með menn," segir hún; "munu þá heimamenn hér hafa gengið víða um fjöll og verða því óvarir um sig. Þeir munu þá fara úr fötum, en ekki endrarnær, og skal ég þá sjá um að þeir verði ekki fljótir að klæða sig."

Hún sýnir honum rúm og segir honum að þann mann verði hann fyrst að drepa sem í því sofi því annars fari illa, hann sé galdramaður mikill og viti margt, og það mum hann vita að þau séu nú að tala saman. Biskup fer nú burt.

Kofamenn koma með fé heim að kvöldi og sá af þeim sem göldróttur var tekur nú Sigríði fyrir, atyrðir hana og lemur drjúgum; segist vita vel að hún hafi talað við föður sinn í dag, hún hafi svik í huga og gjöri hún þetta oftar, skuli hún drepin verða. Kofabúar sækja enn fé næsta dag. Þriðja daginn sækja þeir fé og koma að kvöldi; hafa þeir fengið í allt tólf hundruð fjár; var hundrað ætlað handa manni. Þeir eru þreyttir mjög, hátta nú og fara úr öllum fötum. Sigríður ber fram föt þeirra, snýr um annari erminni á hverri skyrtu og annari skálminni á hverjum nærbuxum og fer svo með fötin inn aftur.

Nú er að segja frá biskupi að þetta sama kvöld kemur hann með menn sína. Hann fer að kofamönnum í rúmunum; þeir verða seinir í fötin og geta biskupsmenn drepið þá alla nema galdramanninn; hann slapp undan. Þegar Sigríður veit það líður yfir hana hvað eftir annað. Hún raknar samt við og faðir hennar hughreystir hana og segir að henni muni verða óhætt meðan hann lifi.

Nú heldur biskup, menn hans og dóttir heim í Skálholt. Hann tók það sem fémætt var í kofanum og skipti því meðal fátækra nema fjallafénu, af því fékk hver er hann átti. Sigríður var nú í Skálholti með föður sínum, en það sáu menn að oft lá illa á henni og héldu menn að hún óttaðist galdramanninn, og þess biður hún föður sinn að taka engan mann til veturvistar nema því aðeins að hún viti af.

Nú líða mörg ár; margir menn biðja Sigríðar, en hún tekur engum og segist aldrei ætla að giftast.

Eitt haust kemur maður nokkur vel búinn í Skálholt; hann var íslenskur, en kom þó utanlands frá. Hann átti fjármuni mikla er hann hafði með sér og biður biskup veturvistar. Biskup gjörir það og ljær honum geymsluhús. Þegar nokkur tími er liðinn af vetrinum leggst maður þessi veikur og liggur lengi og hætt og getur enginn læknað hann. Loksins gefur biskup sig á tal við hann, spyr hvað að honum gangi og hvort hann muni ekki geta hjálpað honum. Maðurinn segir að helst muni hann geta hjálpað sér af öllum. Biskup spyr með hverju móti.

"Mig langar til að eiga dóttur þína," segir maðurinn, "og fái ég von um það mun mér bráðum batna."

Biskup lofar honum góðu um þetta. Nú fer manninum að batna. Biskup kemur að máli við dóttur sína um að eiga mann þenna, en hún tekur því mikið fjarri.

Hann segir að þetta sé fásinna af henni að neita svona hverjum manni; "ekki lifi ég alltaf hjá þér," segir hann, "og þegar ég dey þá ertu aðstoðarlaus eftir."

Hún tekur þessu mjög dauflega og segist engan mann vilja eiga og síst þenna. Biskup kveðst nú ekki lengur líða henni þetta, segist muni taka af henni ráðin og skuli hún eiga þenna mann. Biskup segir manninum að brúðkaup þeirra skuli bráðum verða því mál þetta skuli ganga fyrir sig. Maðurinn kveðst nú vilja haga sér í þessu á nokkurn annan veg en venjulegt sé, kveðst vilja byggja sér hús og í því vilji hann sofa hjá konu sinni fyrstu nóttina. Hann byggir nú sjálfur hús bæði mikið og fagurt.

Að því búnu gjörir biskup bæði góða og fjölmenna veislu og er brúðurin döpur mjög og grætur oft. Þó skipta menn sér ekki af því og líður svo veislan.

Þá fylgir biskup hjónunum í hið nýja hús. Þar er rúm uppbúið og skipar bóndi konu sinni að fara að hátta. Þau hátta þar, en biskup gengur heim og læsir húsinu.

Þá mælir bóndi þungum orðum til konu sinnar. "Ég er nú sá maður," segir hann, "sem þú ætlaðir að láta drepa í bænum á fjöllunum forðum. Þú drapst alla lagsmenn mína og ætlaðir ekki að láta mig sleppa. Það er því að maklegleikum þó ég nú kvelji úr þér lífið, enda skal ég gjöra það."

Hún leggur hönd um háls honum og biður hann að gefa sér líf, en hann kvað nei við því; "skal ég nú reka þig í gegn með ellefu heitum járnfleinum," segir hann, "og þeim tólfta skal ég stinga í gegnum hjartað fyrir þá sök að þú ætlaðir að drepa mig."

Þá mælti hún: "Fyrst ég fæ ekki að lifa þá lofaðu mér að biðjast fyrir áður en ég dey."

Þegar hún er að biðjast fyrir opnast húsveggurinn hjá rúminu og þar hleypur hún út og í myrkrið. Hún heyrir að maður hennar kemur á eftir með miklum hljóðum og loksins leggst hún undir holan bakka. Hann leitar, en finnur ekki.

Snemma um morguninn kemur biskup í húsið og finnur manninn; segir hann biskupi að hún hafi horfið frá sér í nótt og fjallaþjófar hafi líklegast stolið henni.

Biskup trúir því, verður angurvær mjög og grætur sáran; safnar hann þá mönnum og leitar sjálfur. Bráðum finnur biskup dóttur sína og segir hún honum alla málavexti. Þegar allir eru heim komnir lætur biskup taka manninn og pína úr honum lífið með sama móti og hann ætlaði að gjöra konu sinni.

Eftir það giftist Sigríður vænum manni; fór það allt vel og þótti hún jafnan merkileg og væn kona.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)

Netútgáfan - september 1998