======================
Einhvern tíma reið séra Eiríkur að heiman og piltur með honum. Þegar þeir voru komnir nokkuð áleiðis sagði prestur að hann hefði gleymt bauk sínum undir höfðalagi sínu og beiddi piltinn að ríða eftir honum ug flýta sér, en varaði hann við að taka tappann úr honum.Pilturinn reið heim og fann baukinn þar sem honum var til vísað. En þegar hann reið eftir presti kom að honum forvitni mikil að vita hvað í bauknum var, svo hann tók tappann úr. Sá hann þá ekki í heiðan himininn fyrir mýflugum og heyrði þessa suðu fyrir eyrum sér:
"Hvað á að gjöra, hvað á að gjöra?"
Piltur varð ekki ráðalaus og sagði: "Flétta reipi úr sandinum."
Að lítilli stundu liðinni kom mýflugnahópurinn aftur og sögðu: "Búið er það; hvað á að gjöra?"
"Fara í baukinn aftur," sagði pilturinn.
Gjörðu mýflugurnar svo, en hann lét tappann í hið fljótasta.
Skömmu síðar náði hann presti. Spurði hann þá piltinn hvort hann hefði gjört eins og fyrir hann var lagt, en pilturinn gekkst hreinlega við öllu og sagði hvað sér hefði orðið að ráði. Prestur sagði honum hefði farið vel úr því sem komið var, og kvað hann þess maklegan að honum væri sagt til stafs.
Þar er nú Hafnarskeið er árarnir rótuðu sandinum.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - ágúst 2001