Það er upphaf sögu þessarar að í Skálholti var biskup. Er ei getið nafns hans. Vóru þá margir piltar í skóla þar. Vóru þeir heldur gáskafullir og auk þess að stnnda lærdóm þann er kenndur var í skólanum lögðu þeir sig eftir að nema ýmislegt kukl.So er mælt að biskup fóstraði ungling einn. Er ei getið nafns hans. Hann var mjög kær biskupi. Hnýsti hann mjög eftir breytni skólapilta og sagði fóstra sínum jafnan er þeir höfðust eitthvað ósæmilegt að. Komust piltar brátt að þessu og lögðu óþokka á hann. Gekk þetta so einn vetur; höfðu piltar mikinn hug á að fyrirkoma dreng þessum, en gátu ei sökum ótta við biskup komið neinu til leiðar ætlun sinni í því efni, og leið so veturinn.
En þegar piltar komu næsta haust saman í skólann vantaði einn sem von hafði verið á að koma mundi; var hann úr Hjaltadal. Tóku nú piltar það ráð að þeir buðu fyrr umgetnum fóstursyni biskups ærið gjald til þess að fara norður og verða vís hverju sætti að pilturinn var ei kominn. Lögðu þeir ríkt á við drenginn að fara ei annan veg en fjöll þá hann færi norður. Og með [því] að drengur girntist hið boðna fé hét hann að fara ef fóstri hans lofaði það.
Kom hann síðan að máli við fóstra sinn. En hann latti hann fararinnar. Kom þó so að biskup leyfir honum að fara. Beiddi þá drengur fóstra sinn að sjá um að hann næði því fé er honum hefði lofað verið.
Bjó þá biskup ferð fóstra síns það kostur var á best, en lét hann þó fara gangandi. Var hann þá átján vetra er hann byrjaði ferð sína. Hélt hann so norður og stefndi fjallsveg þar sem honum var sagt að skemmst væri af færum vegum. Og þegar hann hafði gengið lengi kom á hann illviðri með miklum snjógangi.
Villtist hann þá von bráðara, en hélt þó áfram þar til um síðir að hann hitti kotbæ fyrir sér. Barði hann þar að dyrum. Var það eftir langa bið að upp var lokið. Kom þar karl einn ófrýnilegur. Bað komumaður hann gistingar. En bóndi kvaðst ei mundi synja honum þess. Fóru þeir þá inn og bar bóndi grjót að hurðu. Stóð komumaður þá í dyrum á meðan.
En þegar bóndi hafði lokið starfa þeim fór hann inn og komumaður á eftir. Vóru löng göng og fór bóndi fyrr. En þegar komumanni fóru að leiðast göngin nam hann staðar, en bóndi hélt áfram.
Leið so langur tími að enginn vitjaði komumanns; kallaði hann þá upp og kvað óríflega tekið gestum þar eð hverki fengist ljós til að verka snjó af fötum eður knífur til þess þar eð hann sagðist ei vegna frosts í fötum sínum geta náð vasakníf sínum, og þar með að enginn byði sér ferðlúnum sæti eður neins konar hægindi sem ferðamanni þénaði.
Þegar hann hafði þetta mælt verður hann þess var [að] gengið er fram hjá honum og litlu síðar kemur gömul kona að framan með ljós í hendi. Sér þá komumaður að hann hefur staðið við baðstofudyr. Litast hann þá um og sér að baðstofa er lítil og ei fólk í henni utan bóndi sá er til dyra kom og kerling er ljósið bar og unglegur kvenmaður einn sem honum virtist ei með glöðu bragði. Karl sat á fleti einu. Ímyndaði hann sér að karl og kerling mundu húsráðendur vera. Vóru þau bæði mjög illileg.
Þegar komumaður hafði langa stund staðið sá hann að karl og kerling töluðu eitthvað hljótt sín á milli. Kveikir síðan kerling annað ljós og fara þau með það fram bóndi og húsfreyja.
En þegar þau eru fram farin fer komumaður á flet hjóna og fer að verka snjó af fötum sínum. Síðan fer hann að hátta þar. En kvenmaður sá er fyrr var getið segir honum að hann skuli ei hátta í rúm hjóna því þar muni illt af leiða og segir honum að vera vörum um sig. En hann kvað hana það öngu skipta. Háttaði hann síðan.
En þegar hann var nýháttaður komu þau inn karl og kerling. Bar karl exi mikla í annari hendi, en brýni í hinni. En kerling hélt á ljósinu í annari hendi, tréskál í hinni. Tveir steinar vóru á baðstofugólfi; var annar so lagaður að laut var í hann. Fór kerling að koma skálinni fyrir í laut þá er í steininn var, en bóndi settist á minni steininn og tók að brýna exina. Vóru þau að þeim starfa meðan hann vakti.
Síðan sofnaði hann og svaf til morguns. En þegar hann vaknaði voru þau karl og kerling að sama starfa. Fer komumaður þá á fætur og gekk út að sjá til veðurs, og var ei birt upp hríðin. Gekk hann síðan inn og bauð húsráðendum góðan dag. Tóku þau því.
Síðan segir komumaður við bónda að sér þyki líklegt að honum sé farið að leiðast axarbrýnslan og býður honum að hvíla hann þar eð hann þykist vita að bóndi muni ætla að brúka verkfæri það til að beina komumanni með; kvaðst hann heldur vilja að vel biti so fyrr tæki af. Þáði bóndi boðna þjónustu. Tók þá ferðamaður að brýna.
Og þegar hann hafði brýnt um hríð gekk hann að karli og sagði að bíta mundi nokkuð skár og kveðst reyna vilja. Heggur hann síðan á háls karli so af tók höfuðið. Slíka þjónustu veitti hann kerlingu. Tók hann síðan líkhami þeirra beggja og brenndi til ösku. Sá komumaður að stúlkan var mjög hrædd þegar hún sá aðfarirnar. Spurði hann hana hvert hún væri dóttir þeirra nýlátnu hjóna. En hún kvað það ei vera.
Sagði hún að fyrir þremur árum hefði hún ásamt öðru fólki úr Skagafirði farið á grasafjall og hefði hún í þoku villst frá því; hefði þá karl þessi fundið sig og flutt sig til bæjar síns. Hefði hann sagt að hún skyldi að kerlingu látinni verða kona hans og á þeim þremur árum hefði karl oft falað blíðuatlot hennar, þó forgefins. Kvaðst hún vera dóttir prests að Mælifelli. Sagði hún að karl hefði rænt og stolið af ferðamönnum, en myrt tvo sem hún til vissi. Spurði hún hver hann væri og hvernig stæði á ferðum hans. Sagði hann henni hið sanna frá ferðum sínum og heimkynnum.
Síðan gerir hann henni kosti þá að fara með sér í mjög óvissri lífsvon þar hann vissi ei hvert halda skyldi, líka í verstu illviðrum, og hann þóttist fyrir víst vita að hann væri talsvert villtur af þeim vegi sem hann hefði ætlað að fara, eður að öðrum kosti dvelja þar í bæ þeim sem þau í voru.
En hún kveðst heldur vilja með honum fara þó að hún vissi að hún samdægurs hlyti að deyja úti sakir þreytu eður illviðra. Sagðist hún ei heldur neitt vita hvert halda skyldi.
Voru þau þar eftir þrjá daga og bjuggust eftir því sem föng vóru á til fararinnar. Bjuggu þau til tjald úr rúmfatnaði, en tjaldtré úr einhverjum spýtum, lögðu síðan af stað. Og eftir langa mæðu komust þau á rétta leið, að þeim virtist, og þegar lengra kom þekkti hún stöðvar þær sem hinu vondi karl hafði tekið hana þá er hún villtist frá samferðafólki sínu eins og áður er frá sagt.
Er ei getið að þau hafi mætt illveðrum og ei getið ferða þeirra fyrr en þau komu norður til Skagafjarðar. Gisti hún þá á Starrastöðum. En hann hélt til Mælifells um kveld það eð sama er þau komu ofan til Skagafjarðar. Beiddist hann þar gistingar og var það strax til reiðu. Var hönum veittur þar enn besti beini.
En um kveldið kemur prestur upp á baðstofuloft hvar bæði gesturinn og vinnufólk sat að verki sínu. Heilsaði komumaður presti og tók hann því. Ekki spurði prestur komumann neinna tíðinda þó hann vissi hve langt hann væri að kominn og ekki talaði prestur orð, en fór síðan ofan.
Tók þá komumaður til orða. Kvað hann prest þann undarlegan þar eð hann spyrði ei tíðinda af ferðum langferðamanna eður úr fjarlægum héruðum. Kvað hann prest fremur fúllyndan og aldrei kvaðst hann hafa séð eins dauflátan prest.
Þótti vinnufólki hann tala fremur óvirðulega til prests og sagði að orsök til þungsinnis prests væri sú að hann hefði fyrir þremur árum síðan misst dóttur sína þannig að hún með öðru fólki hefði á grasafjall farið og tapast þar so enginn hefði til hennar síðan vitað. Hefði prestur þaðan af aldrei tekið gleði sína.
Komumaður kvaðst engin orsök verið hafa í hvarfi hennar og væri slíkt ómannlegt að láta saklausa gjalda. Fer síðan komumaður til rúms þess er honum var til vísað, var árla á fótum um morguninn eftir.
Vill hann þá hafa tal af presti. En honum var sagt að of snemmt væri að vekja hann. Kvað hann það lítt hent ferðamönnum að bíða langt á dag fram. Sagði fólk að hann skyldi ei burt fara fyrr en hann hefði þegið góðgjörðir.
Gegndi hann því lítið, en fór ofan að Starrastöðum. Sótti hann stúlku sína og fóru þau upp til Mælifells. Lét hann hana fara þar inn í hesthúskofa, gekk síðan til bæjar. Var þá prestur kominn á fætur.
Gekk þá komumaður til prests og bauð honum góðan dag og þakkaði honum góðan beina. Spur hann þá prest hvert hann vilji heldur launa fund þann eð hann fundið hafi eður gefa.
Þegir prestur litla stund, en svarar síðan: "Það eitt munt þú, hér alls ókunnur maður, fundið hafa að mér mun ei stór missa í vera og máttu það eiga."
Sækir þá komumaður stúlkuna út og fer með hana til föður hennar. Verður ei útskýrt hvur fagnaðarfundur varð milli þeirra. En þegar prestur var búinn að fagna dóttur sinni segir hann henni um tal þeirra, sitt og komumanns. Og segir hún að það var vilji sinn að eiga hann fremur öllum öðrum því hann hafi með sínum dæmafáa dugnaði frelsað líf sitt úr þeirri miklu hættu sem hún hefði í verið og hér er að framan rituð.
Og þó prestur þekkti ei mann þenna gaf hann góðfúslega eftir að ráð þau tækist. Var komumaður þar viku, fór síðan leiðar sinnar út til Hjaltadals og afhenti bréf þau er hann var sendur með, Og að meðteknu bréfi til baka fór hann fram til Mælifells og var þar enn viku um kyrrt og bjóst síðan til heimferðar. Sagði þá prestur að hann yrði á næsta vori að koma norður og vitja meyjarmálanna.
Fer hann nú leiðar sinnar, og segir ei af ferðum hans fyrr en hann kemur suður á fjöll. Koma þá á hann hin mestu illviðri. Veit hann þá ekki hvað hann fer þar til loks hann hittir fyrir sér bæ einn. Ber hann þar að dyrum og er fljótt upp lokið. Kemur maður til dyra og er sá við aldur. Komumaður biður hann gistingar.
Kveðst fyrirverandi ei vanur að úthýsa og segir undrum gegna að hann skyldi vera so heppinn að ná húsaskjóli í so vondu veðri. Fara þeir síðan inn. Lætur bóndi aftur og ber grjót að hurðu og var hann bæði hraðvirkur og hraustlegur í handatiltektum. Ganga þeir síðan inn göng.
Segir bóndi að þar í dyrum sé hross sem hann eigi. Fer hann þá inn göngin þar til hann sér til annarar handar sér ljósglóru. Lítur hann þar í kofa hvar kerling situr við eld. Var pottur á hlóðum, en kerling kynti. Lítur hann á hlóðasteini hjá kerlingu mannshendi eina. Gaf hann sig ekki að því og gekk nokkuð lengra eftir bónda. Þá verður hann þess var að hestur stendur í göngunum. Biður hann þá bónda um ljós. Gjörir bóndi það.
Þegar komumaður sér hestinn segir hann: "Þú ert þá þarna Skóla-Skjóni."
En þegar hann var búinn að sleppa orðinu segir hann: "Ég held það sé þó ekki hann."
Bóndi spyr hvert hann þykist kenna hest þann. En hann neitar því. Hafa þeir síðan nokkur orð um hestinn. Vilja þeir þá skoða hvert hann væri geltur; vóru báðir að þukla eftir því sinn hverjumegin hestsins.
Fer þá komumaður yfir bak hestinum og ofan yfir bónda og vurðu allharðar sviptingar þeirra. En so lauk að bóndi féll. Lét þá komumaður kné fylgja kviði og hætti ei fyrr við en bóndi var allur.
Snarast komumaður þá að kerlingu sem hafði þó áður komið að viðskiptum þeirra, en þorði ei fyrir ógnunum komumanns að veita manni sínum. Veitti hann henni sömu þjónustu og manni hennar, brenndi þau síðan til ösku, litast síðan um í kotinu; finnur hann þá fatnað sem hann þekkir að átt hefur skólapiltur sá úr Hjaltadal er átti að koma um haustið í Skálholtsskóla. Fann hann þar líka bækur og reiðtygi og þekkti sömuleiðis hestinn.
Dvaldi hann þar þrjá daga, fór síðan leiðar sínnar. Hafði hann með sér hestinn og allar færur þess dauða skólapilts og gekk honum ferðin greiðlega. Kemur hann til Skálholts og fagnar biskup vel fóstra sínum og þykist hann úr helju heimtan hafa.
Segir hann biskupi hið ljósasta af ferðum sínum. En fyrir piltum gat hann ei um meyjarmálin. Þótti þeim ei betur að hann kom aftur og rengdu þeir mjög hann hefði fjöll farið. Vann hann þeim þá eið að so hefði verið sem hann sagði. Vildu þeir tregðast við að greiða hið lofaða fé. En með aðgangi biskups hlutu þeir að láta það. Síðan beiddi hann biskup að mennta sig um veturinn eftir föngum hvað hann og gjörði.
Síðan um vorið gjörði biskup hann vel frá sér og fór hann norður til Mælifells. Var þá prestur búinn að losa Starrastaði handa honum. Setti hann þar bú og var prestur búinn að ráða honum hjón og yrkja jörðina eftir þörfum. Var hann það sumar ógiftur, en um haustið gekk hann að eiga dóttir prests. Gjörði prestur vel við hann.
Varð hann síðan með merkustu bóndum í Skagafirði, metinn af öllum er hann þekktu, hinn ötulasti í öllum mannraunum og mesti bjargvættur sveitarinnar. Var hann álitinn mjög fjölvís og kom hvervetna fram þar betur gegndi. Unntust þau hjón til ellidaga, en ei er getið barna þeirra. Og endar so þessi frásaga.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)
Netútgáfan - september 1998