FRÁ  ÖGMUNDI  Í  AURASELI

Frásögn Eiríks frá Brúnum



Það er oft talað mikið um í blöðunum búfræðinga og jarðabætur og sumir af þeim mönnum launaðir af landsins fé, en hér er saga af einum manni, sem hefur gert mestar og bestar jarðabætur og ég vil segja á heila landinu og fékk ekkert af opinberu fé, og veit ég ekki til, að neitt hafi verið ritað um hann nema einn lítill póstur í Þjóðólfi fyrir mörgum árum.

Þessi maður, er hér um ræðir, bjó í Fljótshlíðarhreppi í Breiðabólstaðarsókn, heldur efnugur og gestrisinn og vel þokkaður af öllum, er honum kynntust. Það var í mæli, að hann hafi átt dálítið kver og kunnað eitthvað í gömlum fræðum, er sagan hér með segir. Hann bjó á jörð, sem liggur að Þverá, er rennur fram með Hlíðinni, er var og er að gera landbrot á sumar jarðir og hans líka. En nokkuð var það, að áin hætti að brjóta land hans, og furðaði marga á því og var í mæli, að hann mundi eitthvað hafa spornað við henni, annað en það, sem vanalega er veitt með vötnum, nefnilega görðum og íhleðslum, en karl gerði það ekki.

Einhver maður kunnugur karli þessum sagði þetta Bjarna Árnasyni á Fitarmýri undir Eyjafjöllum. En svoleiðis stóð á hjá honum, að Markarfljót fór út úr sínum farveg og eyðilagði engjar og haga hjá honum og sex bændum öðrum, á Efri- og Syðri-Rotum, þremur Sandabæjum og Nýjabæ. Bjarni fer og finnur Ögmund (hann hét það) og tjáir honum vandræði sín með jörðina út af fljótinu. Bjarni átti jörðina og mikinn fénað.

Ögmundur sagðist lítið vita og ekkert geta ráðlagt honum; Bjarni er að mylkja karlinn, því að honum var ekki grunlaust, að hann mundi eitthvað geta, þar til Ögmundur segir: "Ég verð máske á ferð þar austur frá, og get ég litið eftir, hvernig fljótið liggur;" og Ögmundur bætir því við og spyr Bjarna um, hvort hann eigi gráan fresskött og grátt ullarreyfi.

Bjarni segir, að það muni vera til hjá sér. Svo kveður Bjarni hann og segist vonast eftir honum.

Litlu síðar kemur Ögmundur til Bjarna og segir, að hann sé búinn að líta yfir fljótið og að það hafi slæma stefnu að gera skaða.

Bjarni segir: "Jörðin er mér töpuð, ef að ekkert verður að gert, og ég vildi borga þeim manni vel, sem gæti hjálpað mér og frávent fljótinu."

Ögmundur segir: "Ef að ég gæti nokkuð, þá vil ég gera nokkra tilraun við fljótið; það verður varla verra en það er, og láttu mig fá köttinn og gráa reyfið."

Bjarni fær honum hvorutveggja, og lætur Ögmundur köttinn í poka og reyfið í hina skálmina og bindur svo pokann fyrir aftan sig, vill engan með sér, kveður Bjarna og ríður svo út að fljóti og fer þar af baki, gengur þar um aurana til og frá og teymir hestinn á eftir sér liðugan hálftíma og ríður svo heim til sín. Þetta var nokkuð langt frá bænum, en eygðist þó. Enginn vissi, hvað hann gerði við köttinn og reyfið, en eftir nokkra daga, innan viku, fór fljótið í sinn gamla farveg og hefur ekki skemmt Fitarmýrina síðan, nú í marga tugi ára, nema stöku sinnum í gaddköstum, að það hefur stíflast og hlaupið þá út af heim undir garða lítinn tíma og farið svo aftur frá, þegar þiðnar.

Sagt er, að Bjarni hafi glatt karlinn ærlega fyrir viðvikið. Nú fréttist þetta víða. Sumir trúðu því, að það væri Ögmundi að þakka, en sumir ekki, eins og oft er, en allir sáu, hvaða umbreytingum vatnið hafði tekið.

Fáum mílum austar undir Fjöllunum er vatn eða á, sem rennur á millum Lambafells og Þorvaldseyrar. Þessi á rann undir túngarðinum á Lambafelli og var búin að mölva hann niður og brjóta nokkuð af túninu og allar líkur til, að hún mundi eyðileggja túnið allt og svo engjar á eftir, er lágu út frá túninu.

Sjálfseignarbóndi Guðmundur Gíslason á Lambafelli fréttir frá Fitarmýri, bregður sér því út í Hlíð og finnur Ögmund og segir hann honum sín vandræði með jörðina, að hún liggi fyrir stórskemmdum.

Ögmundur tekur því hálfdauft og segir, að það sé ekki svo gott að fást við þessi óróavötn. Guðmundur drepur á, að hann hafi lagað Markarfljót. Ögmundur svarar því lítið, en svo talast til, að Ögmundur fer með honum austur og er hjá honum um nóttina.

Daginn eftir segir Ögmundur, að hann þurfi að hafa með sér gráan kött og grátt ullarhnak. Guðmundur fær honum hvorutveggja, og lætur hann það í poka, kisu í aðra skálmina, en reyfið í hina, og bindur svo fyrir aftan sig og svo á stað og Guðmundur með honum út á túnið. Ögmundur segir, að hann þurfi engan með sér; svo kveðjast þeir.

Guðmundur læðist þar inn í lambhús uppi í brekku til að sjá, hvað karli líður. Ögmundur fer út á miðja aurana og þar af baki og býr þar til dálitla steindrýlu og svo hverja af annarri þar suður eftir, fimm til sex, með nokkuð löngu millibili, í beinni stefnu. Þegar hann er búinn að því, fer hann á bak og ríður heim til sín. Ekki sagðist Guðmundur hafa séð, hvað hann gerði við köttinn eða ullina, og ekki hafði hann farið með það heim, því ekkert var í pokanum, er hann kom að Steinum á heimleið. Guðmundur sagði mér þetta sjálfur.

Fáum dögum seinna, eða einni viku, fór áin undan Lambafellstúninu út á miðja eyri. Þar, sem hann bjó til drýlurnar eða smávörður, þar rann hún í beinni stefnu eins og drýlurnar voru, og voru þær komnar í hana, og sagðist Guðmundur aldrei hefði trúað því, hefði hann ekki séð það, en vatnið rann þar. Þar voru eyrarnar hæstar, og sagði hann það auðsjáanlegt, að Ögmundur væri inni í einhverjum kúnstum, og áin hefur ekki skemmt túnið síðan, í 20-30 ár, og þótti Guðmundi mjög vænt um handtakið og var meinlaust við karlinn, því þetta var svo varanleg jarðabót. Guðmundur sagðist hafa margfengið fólk til að hlaða fyrir ána áður, en hún reif það jafnóðum aftur.

Svo kemur til sögunnar fjórða jarðabótin, ekki svo lítil eða óþörf. Skammt fyrir austan Lambafell er bær, sem heitir Rauðafell, og voru þar sex búendur á bænum og áttu tún og engjar saman í skákum. Vatnsfall rennur milli Rauðafells og Hrútafells, sem kallað er Kaldaklyfsá, og var hún búin að eyðileggja því nær allar engjar þeirra sex búenda á Rauðafelli; hún breiddi sig um slægjurnar sumar og vetur; þó að þeir væru að hlaða í hana, þá reif hún það jafnóðum úr sér aftur. Fjöldi var, sem ekki trúði því, að Ögmundur gæti veitt vötnum; þó voru menn innan um, sem trúðu því.

Þessum sex bændum kom saman um að fá karlinn og reyna, hvort það hefði nokkuð upp á sig, og sendu mann til Ögmundar, og hann átti að koma með hann, ef hann fengist til þess. Þeir sendu svo mann til hans að biðja hann að koma, og varð hann við bón þeirra og kom með manninum. Svo fóru þrír bændur inn að ánni að sýna honum, hvernig hún lá.

Daginn eftir fer karlinn einsamall með grátt fress í annarri pokaskálminni fyrir aftan hnakkinn og gráa ull í hinni. Eftir nokkurn tíma kemur karl aftur með tóman pokann og segir: "Þessi tilraun verður máske til einskis, því ánni hefur verið stefnt hingað frá Hrútafelli, en það er langt síðan, og ef það dugar ekki, sem ég hef nú gert, þá reyni ég ekki við hana aftur." Eftir að bændur höfðu borgað karli ríflega ferðina, fór karl heim, en litlu síðar fór áin burtu og hefur ekki komið þar eða gert ágang síðan, hér um bil í 30 ár.

Þegar þetta skeði, var áttatíu ára gömul kerling í Syðra-Hólakoti, sem sagði, að þegar hún var lítil stúlka á Hrútafelli, hefði hún heyrt talað um, að fyrir sitt minni hefðu Hrútafellsmenn fengið kunnáttukarl frá Skarðshlíð til ab koma þessari sömu á frá bænum; þetta vissi enginn nema kerlingin. Það er nokkuð ótrúlegt, að Ögmundur skyldi sjá þetta á ánni, en verður þó ekki rekið, því þar voru mörg vitni að og eru máske til enn, að Ögmundur sagði þetta.

Svo kemur til sögunnar fimmta og síðasta vatnsfallið, sem hann átti við, austur í Mýrdal í Skaftafellssýslu, er heitir Hafursá. Hún setti sig út úr sínum farvegi yfir engjar á mörgum bæjum: Steig, Skeiðflöt, Hvolabæjum þremur, Ketilsstöðum og Hryggjum. Þessum öllum bændum kom saman um að fá karlinn Ögmund, og varð til þess Einar bóndi Runólfsson í Steig að sækja karlinn fulla þingmannaleið, og kom Ögmundur með honum og fékkst við ána með sömu tækjum og aðferð sem áður er sagt, og þegar hann er búinn að eiga við hana og láta kisu innan í ullarhnakinu í ána og ljúka upp gamla kverinu sínu (eins og strákurinn á Vogsósasandi), þá tók hann Einari og þeim sterkan vara fyrir því, ef áin færi burtu og þó að það yrði lítil læna eftir í farveginum, að þá skyldu þeir ekki snerta neitt við að hlaða í hana; máske að allt yrði þá ónýtt.

Að svo mæltu fór Ögmundur heim. Að fáum dögum liðnum fór áin úr farveginum, nema lítil spræna var eftir. En skömmu seinna brutu nokkrir af bændum út af boðorðum karls og tepptu í þessa sprænu; litlu síðar kemur áin með alefli í sprænuna í farveginn aftur, svo verkið varð ónýtt fyrir óhlýðni bænda.

Presturinn, sem þá var á Felli, ávítaði sóknarbændur sína fyrir heimsku og hégómaskap að vera að sækja mann langar leiðir í þessa vitleysu. Prestur skrifar svo hæðnisgrein um bændur og Ögmund og setur hana í "Þjóðólf". Ögmundur las svo greinina í blaðinu og skrifar strax bréf Einari í Steig og biður hann að láta prestinn á Felli heyra bréfið; í því höfðu verið þrjú vers úr Passíusálmunum ("Ókenndum þér, þótt aumur sé", - ég man ekki hin).

Einar fékk bréfið og sýnir presti, og hafði hann orðið fár og fámæltur við. Nokkrum dögum eftir að prestur las bréfið, skeði sá undarlegi atburður um miðnætti á Felli, að áin Klifandi, sem rennur á milli Fells og Sólheima, setur sig í gegnum grasi og mosavaxna stórgrýtiseyri, sex álna háa, og heim á bæinn Fell með óskapa vatnsgangi, skriðu og aur, svo vatnsbunur komu upp úr sumum gólfum í innanbæjarhúsunum. Fólkið klæddi sig og varð hrætt og prestur þó hræddastur og hélt þetta vera afleiðingar af bréfinu. Túnin skemmdust stórmikið.

Prestur sótti strax um annað brauð og fór þaðan á næsta vori, og hefur enginn prestur viljað eða þorað að búa þar síðan, þar til í fyrra eða 1892, en Fell var búið að vera í háa tíð prestsetur áður.

Ég hef talað við tvo kvenmenn, sem voru til heimilis á Felli, þegar þetta skeði, og sögðu þær, að margt hefði verið óvanalega undarlegt þá nótt á Felli, og sögðust hvorki vilja né geta sagt frá því eins og það var leiðinlegt. Þetta var greind og skikkanleg prestsekkja og dóttir hennar, sem sögðu mér þetta.

Nú er búin vatnsveitingasagan hans Ögmundar míns. Hún endar með því, að hann veitti ánni Klifandi kringum og inn í bæinn Fell í Mýrdal.

Eitt dálítið spaugilegt atriði er eftir enn hjá karli. Í Austur- Landeyjum var gömul kona, er oftast nær lá undarlega veik annaðhvort missiri, og var í mæli, að eitthvað fylgdi henni. Svo sálaðist hún, og þá var farið til Ögmundar og hann beðinn að vera við útförina. Hann varð við bóninni og stakk gamla kverinu í vasa sinn, en þar átti ekki við grái kötturinn.

Konan átti þrjú börn uppkomin. Karl forbannaði þeim að fara með líkinu til kirkju og lét taka kistuna út um gaflhlaðið, og sjálfur fór hann ekki, heldur var hann heima eitthvað að mausast og var hinn kátasti um kvöldið yfir borðum, því hann var gáfaður, ræðinn og skemmtilegur. Þegar hann fór og kvaddi, sagði hann fólkinu, að héðan af mundi ekki bera á neinum undarlegheitum, hvorki dag né nótt, enda varð heldur aldrei vart við nein undarlegheit þar á eftir.



Netútgáfan - janúar 1998