SAGA  AF  ÁSMUNDI  Á  FJALLI



Maður hét Ásmundur, bóndason á Fjalli í Kolbeinsdal [í Skagafirði] - Sterkur var hann og fríður sýnum og virtist hvurjum manni vel. Oft gekk hann til Hóla og fékk að skoða bækur hjá skólapiltum; njósnaði hann um marga hluti er fróðleikur var í og lærði mikið í skólalærdómi þótt ekki væri hann reglulegur lærisveinn talinn.

Það bar til eitthvurt sinn að biskup þurfti að senda peninga til Skálholts; fékk hann til þess skólapilt er Sigurður hét. Þetta var um vetur og þótti illt að einn maður legði á fjöll. Sagði biskup Sigurði að kjósa sér mann til fylgdar, hvurn er hann vildi. Sigurður kaus Ásmund. Var leitað við hann um þetta og vildi [hann] gjöra það ef faðir hans leyfði. Var nú þetta borið upp við hann, en hann var mjög tregur. En af því Ásmundur vildi fara varð það um síðir að faðir hans leyfði það.

Búast þeir til ferðarinnar, héldu af stað og gekk greitt suður, luku erindum sínum í Skálholti, snéru síðan til baka. Á fjöllunum dimmdi veður; kom á þá drífa svo mikil að þeir villtust. Spur þá Ásmundur hvað til ráða væri.

Sigurður mælti: "Þar eru ráðin sem þú ert, ella eru engin."

"Þá er mitt ráð að við skiljum," mælti Ásmundur, "og mun hríð þessi af manna völdum, en ekki af náttúrunnar, og muntu brátt komast á rétta leið þá við erum skildir því mér mun önnur ferð ætluð."

Sigurður var næsta tregur til þessa, en þó varð að vera sem Ásmundur vildi. Bað Ásmundur hann flytja kveðju sína í byggðina og skildu síðan. Ei hafði Sigurður lengi gengið þá veður birti. Komst hann á rétta leið og hélt heim síðan, sagði tíðindin. Þegar faðir Ásmundar heyrði þau lagðist hann í rekkju af sorg eftir son sinn og taldi hann vera dauðan.

Ásmundur hélt áfram ferðinni, en ekki birti hríðin og ekki vissi hann hvurt hann hélt. Um síðir kom hann í dal einn, gekk eftir honum nokkra stund. Þá kom hann að bæ einum reisuglegum. Þetta var um kveld. Sér hann koma fram í dyr börn tvö stálpuð. Hann heilsar þeim. Þau tóku því. Biður hann þau skila til húsbónda að hann beiðist húsa um nóttina; hlupu þau inn.

Brátt kom út aldraður maður og ekki ófríður. Hann gengur að Ásmundi þegjandi, tekur hann glímutökum. Ásmundur var þreyttur, en verður þó að taka móti karli þó örðugt væri þar hann var í öllum vosklæðum. Sviptast þeir fast og lengi. Þóttist Ásmundur hafa nóg að verjast. Þó lauk svo glímunni að karl féll.

Ásmundur gaf honum líf og lét hann upp standa. Þá þrífur karl hann í annað sinn og heldur fastara en fyrr. Varð þeirra aðgangur bæði harðari og lengri en áður og þó féll karl um síðir. Enn gaf Ásmundur honum líf og leyfði upp að standa, en karl lét ekki bíða að taka til hans í þriðja sinn; var hann nú hinn ákafasti og þótti Ásmundi óvænlega horfa fyrir sér.

Í þessu bili kom stúlka fram í dyrnar með ljós. Ásmundur leit hana og þótti svo fögur að hann hugsaði meir um hana en glímuna. Neytti karl þess og felldi hann, en mælti síðan:

"Nú mun ég láta þig njóta sjálfs þín og gefa þér líf ef þú vilt þiggja."

Ásmundur kvaðst það þiggja mundi, "en falli mínu olli hin fagra mær er með ljósið kom."

Stendur þá Ásmundur upp og leiðir karl hann í baðstofu og er nú hinn kátasti svo sem ekkert hefði í skorist. Allt þótti Ásmundi þar lýsa þrifnaði og kurteisi. Hann sá gamla konu fríða sitja á palli og börnin er til dyranna gengu. Hann heilsar konunni. Tók hún því vel. Er honum síðan vísað til sætis og var hin fagra mey látin draga af honum klæðin. Síðan færði konan honum mat. Borðaði hann með góðri matarlyst, fékk síðan gott rúm að sofa í og þjónaði meyjan honum til sængur; litu þau hýrlega hvurt til annars. Nú leggst Ásmundur til svefns og svaf hann vel um nóttina.

Um morguninn er karl snemma á fótum og býður Ásmundi góðan dag. Klæðir hann sig og ganga þeir síðan út báðir; var þá bjart veður.

Karl mælti þá: "Vita skaltu að ég er föðurbróðir þinn, en kona mín er biskupsdóttir; varð hún þunguð eftir mig þá hún var heima. Sá ég því mitt óvænna og flúði því með hana í dal þennan. Litlu síðar ól hún dóttur og er það sú sama er ljósið bar í dyrnar. Hin börnin höfum við eignast síðan. Við gátum flutt með okkur eldsgögn, og fáar kindur átti ég er ég náði seinna. Enga höfum við rænt eður illa með farið á nokkurn hátt og hafa engir fundið oss. Nú veit ég hvað líður í sveitinni því ég átti einn trúan vin er mig fræddi um slíkt og líka hef ég lítið eitt kunnað, og hríðinni olli ég því ég vildi finna þig, en því tók ég svo illa móti þér í gærkveld að ég vildi prófa styrkleik þinn og þykir mér hann ærinn orðið hafa því vel vissi ég að þú varst þreyttur. Nú vildi ég að þú værir hér í vetur okkur til skemmtunar."

Ásmundur þáði boðið og var þar um veturinn. Skemmti hann sér við bóndadóttur; var þar ekki um talað af neinum.

Um vorið bjóst Ásmundur til heimferðar. Þá mælti karl: "Nú munum við hjónin eiga skammt eftir ólifað, en ég vildi biðja þig að sjá til að við yrðum greftruð eins og kristnir menn. Þá vil ég að þú gengir að eiga dóttur mína og mun ykkur það ekki fjærri skapi. Enn vil ég biðja þig að taka börn mín og útvega þeim fóstur og kennslu. En dóttir mín vona ég sé vel að sér í andlegum efnum og hin líka að því leyti sem aldur leyfir. Sjálfur mun ég smíða utan um líkhami okkar."

Að svo mæltu kvöddust þeir innilega og skildi Ásmundur við það fólk allt með harmi, hélt síðan heim eftir leiðsögn gamla mannsins; kemur nú að Fjalli, hitti móður sína; varð hún stórglöð að sjá hann lifandi, en segir að faðir hans lá í sorg eftir hann og kveðst vilja fara og bera sig að hressa hann með von um komu hans því ske mætti hann dæi af svo snöggum umskiptum sorgar og gleði. Hún fer inn og finnur hann að máli og spur hvurnig heilsu hans er varið. Hann segir hana ei betri en áður.

"Nú get ég fært þér góð tíðindi, sem eru að ég hef von um að sonur okkar lifi. Vildi ég að þú gætir orðið hressari ef ske mætti hann heimsækti okkur bráðum."

Við orð þessi lifnaði karl mikið og svo gat hún talið um fyrir honum að hann settist upp, og er hann var svo hress sem henni líkaði sótti hún Ásmund. Kom hann inn og heilsar föður sínum. Varð þar óumræðilegur fagnaðarfundur. Eftir þetta segir hann þeim allt af ferðum sínum og þótti föður hans mikið að heyra slíkt; hélt hann bróður sinn fyrir löngu dauðan.

Batnaði honum skjótt veikin og varð heill heilsu. Ásmundur fór nú heim til Hóla; var honum þar vel fagnað af Sigurði og öllum. Er hann síðan heima um hríð.

Eina nótt dreymir hann að frændi hans kom að honum og mælti: "Nú er mál að þú búir þig af stað og finnir mig, og fá þér góða menn til fylgdar og fararskjóta sem nægja."

Þegar Ásmundur vaknar segir hann föður sínum drauminn, fær sér menn og hesta og ríður í dalinn. Vóru þá hjónin nýlega önduð; höfðu börnin kistulagt þau. Tóku þeir líkin, börnin öll og allt er þeir máttu með komast úr bænum og fluttu heim að Fjalli; var það þó mjög löng leið.

Líkin vóru greftruð að Hólum og drakk Ásmundur erfi eftir hjónin. Eftir þetta giftist hann meyjunni er honum leist best á; vóru þeirra samfarir góðar. Börnin lét hann fá gott uppeldi og urðu þau bæði vænar manneskjur, en ei er þeirra hér framar getið.

Ásmundur bjó að Fjalli eftir föður sinn, en ekki veit ég að segja frá afkvæmi hans. Sumir segja að Sigurður giftist yngri systurinni, en bróður þeirra ætti systur Sigurðar. Ljúkum vér svo þessari sögu.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)

Netútgáfan - september 1998