ÁRNI  LÖGMAÐUR  ODDSSON



Árni lögmaður Oddsson var eitt sinn á ferð um vetur, og hagaði svo til, að afdalur nokkur var á leið hans. Tveir bæir voru í dal þessum, annar neðanvert, en hinn framar. Lögmaður hafði heyrt, að greiðamaður mikill byggði í neðri bænum, efnaður vel, en í hinum bænum bjó auðugur bóndi, allra manna sínkastur og verstur við snauða menn. Dagur var að kvöldi kominn, er lögmaður kom í dalinn, og reið hann því heim að neðri bænum við þriðja mann. Hann beiddist þar gistingar, og tók bóndi honum tveim höndum og mönnum hans.

Þá er lögmaður hafði dvalið nokkra stund hjá bónda, sagði hann, að sig langaði til að fara til næsta bæjar, því að hann hefði heyrt, að lítið orð færi af beinleika bónda þess, er þar byggi, en hann kvaðst vilja reyna sjálfur, hvað hæft væri í orðrómi þessum. Bað hann bónda að lána sér fatnað sem fátæklegastan og slapahatt og var það gert. Lagði lögmaður nú af stað í þessum búningi með staf í hendi, en menn hans urðu eftir. Þótti bónda vænt um þessa fyrirtekt lögmanns, því að þeim nágrönnunum samdi alllítt.

Lögmaður barði að dyrum, er hann kom til bæjarins, og kom stúlka fram.

Gesturinn beiddist húsa, en bóndi kom fram í því og kvaðst enga landhlaupara hýsa. Hafði hann um það mörg orð og ill. Gesturinn sótti málið því fastara og fór svo, að hann fylgdi bónda inn. Fátt var þar manna. Settist gesturinn á bálk einn lítinn og beið þar. Eftir nokkra stund var farið að skammta fisk, og fékk hver alllítið. Meðan stóð á máltíð þessari, kastaði húsfreyja dálkstirtlu til gestsins, en hann tók við og stakk henni hjá sér. Húsfreyja gat þess, að hann væri ekki svangur, þar sem hann nagaði ekki stirtluna, en smér væri þar ekki aflögu. Gesturinn kvaðst hafa matazt á næsta bæ. Bóndi spurði, því hann hefði þá ekki gist þar. Lögmaður svaraði, að þar hefðu verið þrír gestir fyrir. Bóndi spurði gestinn, hvort hann væri ekki landhlaupari, en hann neitaði því. Gesturinn spurði nú húsfreyju, hvort hún vildi ekki, heillin góð, að hann héldi á einhverju. Hún kvaðst ekki vita það , því að hún sagðist halda, að orðtækið mundi rætast á honum: Lítið mun gagn að göngukonuverki. Samt kastaði hún til hans sokkum og bað hann að hnuðla neðan við þá, en núa samt ekki gat á þá. Gesturinn gat þess, að sokkarnir væru þurrir, en húsfreyja svaraði: "Ég held þú getir þá vætt þá þarna í koppnum."

Lögmaður hnuðlaði nú um hríð, en ekki er þess getið, hve vel honum gekk þófið. Þá er fólk gekk til rekkna, kastaði húsfreyja gæruskinnssnepli til gestsins, og lá hann á því um stund, en er ljós höfðu verið slökkt, kom stúlkan, er komið hafði til dyranna, til gestsins og laumaði að honum fiskstykki með smérbita milli roðs og fisks. Hún breiddi og hempugarm ofan á hann.

Lögmaður fór áður en dagaði og hélt til neðri bæjarins, en er fólk fór á fætur í efri bænum og gesturinn var horfinn, sagði bóndi, að svo mundi hafa verið, sem sig hefði grunað, að gestur þessi mundi hafa verið þjófur og landhlaupari.

Þá er komið var úr fjósinu, sagði hann, að nyt kúa sinna væri minni en vant væri og mundi gesturinn hafa sogið þær.

Þá er nokkuð var liðið á morguninn, reið Árni lögmaður upp til efri bæjarins með förunauta sína. Bóndi gekk út berhöfðaður með skemmulykil sinn í hendi, er hann vissi, að lögmaður var kominn þangað, og bað hann að sýna það lítillæti að hafa þar viðdvöl nokkra. Lögmaður þá það. Bóndi bauð honum þegar brennivín og setti pottflösku á kistuna hjá lögmanni, en hann kvaðst aldrei drekka mikið í köldu veðri og frosti. Lögmaður tók nú að ræða um harðindin og um það, að umferð væri mikil. Bóndi játti því og sagði, að einn af þessum bölvuðum umrenningum hefði verið hjá sér í nótt. Hann hefði þó hlaupið burt fyrir dag og sogið áður kýrnar, hefði þó verið tínt svo í hann í gærkvöld, að hann hefði hlotið að vera ósvangur. Kallaði hann slíkt lagaleysi og sagði, að full þörf væri á að refsa honum.

Lögmaður bauð nú öðrum förunaut sínum að sækja ferðatösku sína, tók úr henni dálksstirtluna og lagði á kistuna og svo fiskstykkisspilið, er stúlkan hafði gefið honum. Lét lögmaður kalla hana til sín og fékk henni fiskstykkið, en hún tók við því og var mjög feimin. Sagði lögmaður, að hún gæti orðið góð kona, ef hún væri þar eigi lengur. Hann sneri sér nú að bónda og ávítaði hann fyrir lygar hans og ódrengskap. Bauð hann honum að greiða þegar í stað fullan mund stúlkunnar, þótt hún væri ekki dóttir hans, fyrir illyrði við sig og lygar á sig, því að það kom nú upp úr kafinu, að gesturinn hafði enginn annar verið en lögmaður, þótt hann hefði tekið á sig annarlegt gervi. Bóndi þorði ekki annað en að láta svo vera, sem lögmaður vildi, en hann tók stúlkuna með sér, gifti hana síðan vel frá sér og gaf henni góðan mund auk þess, sem bóndi hafði orðið að láta af hendi.



(Þjóðsögur Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - janúar 2000