Fyrsta saga:Í Biskupstungum (minnir mig) gengu menn á fjall um haust. Kom þar þá í fénu sauður einn hvítkollóttur sem enginn kannaðist við. Hann var so stór að stærstu sauðir aðrir gengu undir kviðinn á hönum. So var féð rekið í rétt og stóri sauðurinn með; allir furðuðu sig yfir sauð þessum; ekki er getið um mark á hönum. Þá er þetta erindi [22. í bragnum]:
- "Maður kom fram og mælti snjallt
- so mátti heyra fólkið allt:
- "Þekki ég þig og það er óvalt
- þú ert nú einn hjá lýðum."
- Forða hríðum, forða mér við hríðum."
Sagt er að maðurinn hafi komið á réttargarðinn og ekki talað orð til nokkurs manns, heldur einungis til sauðsins: "Og þú ert hér, Kollur Kollsson, versta skítseiðið úr Áradal. Ég átti von á þér í okkar góða dal og skipa ég þér að koma nú með mér aftur."
Lagði hann þá stöngina á bakið á sauðnum. En Koll brá so við að hann stökk upp úr réttinni og rann undan manninum. Fóru þeir so báðir leiðar sinnar og höfðu menn ekki meir af þeim að segja.
Önnur saga:Hana byrjar sona í bragnum [43. erindi]:
- "Steinku-Varði staulamann
- í stóra Borgarfirði vann;
- í draumi þóttist dratta hann
- dals í fögrum hlíðum.
- Forða hríðum, forða mér við hríðum."
So þóttist hann ganga í leiðslu þessari þar til hann kom að húsabæ; hann sá standa opnar dyr og gengur inn. Er þá fólk að ganga þar um beina og bera mat í stofu. Hann gengur so í stofuna og er þar fólki skipað á báða bekki.
Hann þykist þekkja hvar húsbóndinn mun vera, gengur fyrir hann og kveður hann eftir sið kristinna manna með ýmsum fleiri orðum og lukkuóskum. En þegar húsbóndinn heyrir guð nefndan og annað þess háttar þá skiptir hann litum og biður Varða að hafa ekki þetta orðtak í sínum híbýlum því hann hafi ekki þann átrúnað, segist hafa vitjað hans að gamni sínu og skuli hann setjast niður og fara að borða.
Þessu hlýddi Varði, sest niður og tekur til matar og fær sér til orða um Þór og Óðin og annan fornan átrúnað, við hvað bóndi gladdist og allir sem inni voru.
Var nú mesti glaumur og gleði í stofunni og þóttist Varði aldrei hafa setið aðra eins veislu. Þó er þess getið að helst hafi slátur verið á borðum. Leið so dagur að kvöldi og hættu menn við máltíð.
Varði þakkar bónda upp á heiðna vísu hvað hönum vel líkaði og var hinn glaðasti: Segir hann Varða að hann ætli að gefa hönum veturgamlan sauð til sannindamerkis að hann hafi vitjað hans og muni hann verða um haustið í næstu sauðarétt þar sem Varði eigi heima. Varði þakkar hönum innilega og spyr hann að marki á sauðnum, en bóndi segir hönum það og er það sona:
- "Netnálina nú skal tjá
- og níu bita eyranu á,
- hangandi fjöður og hófurinn hjá
- er heiðursmark hjá lýðum.
- Forða hríðum, forða mér frá hríðum."
- [59. erindi].
Vaknar nú Varði af leiðslu sinni og er hann þá heima í Borgarfirði.
Líður nú að hausti og kemur sauðurinn fyrir í réttunum með þessu litla marki. Alla furðar á vænleika hans og veit enginn hvör eiga mun.
Varði segir þá frá vitrun sinni. Verður hann þá eigandi sauðsins og sker hann, og var í hönum hálf vætt mörs og ekki lakari á holdið. Endar so þessa sögu.
Þriðja frásaga.Stúlka nokkur var í einu byggðarlagi, ég man ekki hvörju; mig minnir hún vera smalastúlka.
Hún villtist í þoku og gekk lengi þar til fyrir henni varð gil. Upp með því gili gekk hún; mig minnir hún vera á gangi í þrjú dægur þar til nokkuð létti í þokuna niður við gilið. Sér hún þá að hún er í einum þröngum dal, heldur nú áfram þar til hún sér tvo húsabæi sinn hvörumegin árinnar.
Hún gengur að þeim bænum sem fyrir henni var. Strax sem hún kemur að húsadyrum þá gengur út stúlka. Sú aðkomna heilsar henni og taka þær tal með sér. Segir hún henni [frá] villu sinni og biður hana ásjár.
Sú fyrirverandi segir: "Þú varst ekki með öllu lukkulaus að hitta fyrir þennan bæinn, því
- þú hefðir fengið vakk og vei
- hjá verri dalsins lýðum".
- [29. erindi]
Nú leiðir hún hana inn með sér í eitt kames eða klefa sem var öðrumegin bæjardyra. Þetta herbergi var fullt af ull og segir hún henni að hún verði að vera þar því hún vilji ekki að aðrir menn sjái hana, en segist ein hafa umgengni í þessu húsi, því móðir sín láti sig hafa ábyrgð á ullarverkum, "en nú er so á liðið sumar," segir hún, "að þér er ekki leggjandi héðan til byggða".
Gengur hún so í burtu og kemur aftur með mat handa henni. Staðfestist nú sú ráðagjörð þeirra að hún reyni að vera þar um veturinn og vinnur hún að ull eftir hinnar fyrirsögn. En hún lætur hana ekki bresta fæði og sat þar einatt hjá henni og sagði henni ýmsa háttsemi þar. Hún sagði henni að hún hefði beðið móður sína að skammta sér tvöfaldan mat í vetur, hún skyldi líka vinna móti tveimur.
Það var eitt sem byggðastúlkan heyrði til annara manna so sem segir í erindum þessum:
- Fyrst á morgna er fólk upp stóð
- fögur heyrði hún sungin ljóð:
- "Sé oss til ljúfskaps lukkan góð
- lagið með blóma blíðum.
- Forða hríðum, forða mér við hríðum.
- [32. erindi.]
- Skegg-Ávaldi, skjól vort blítt,
- skyggðu nú yfir landið þitt
- so aldrei verði héraðið hitt
- heims af byggða lýðum.
- Forða hríðum, forða mér við hríðum."
- [33. erindi.]
Byggðastúlkan sá þar stórar hrúgur af sauðabeinum og sagði hin henni að þar væri sá átrúnaður ef ekki væri brotið nokkurt sauðabein og þeim væri kastað í hrúguna þá stæði allt upp lifandi á sumardaginn fyrsta, það sem skorið væri á haustin og étið á vetrin so sem hér segir:
- [36. erindi.]
- "Ei skal brjóta bein úr sauð
- so bændur missi ei allan auð;
- dugir það vel fyrir daglegt brauð
- þó drepið sé oft og tíðum.
- Forða hríðum, forða mér við hríðum."
Nú leið so veturinn. Aldrei er getið um þar hefði komið snjór. Dalstúlkan sagði hinni helst mundi reynandi fyrir hana að komast í burtu, so enginn vissi, á sumardaginn fyrsta því þá væri ætíð haldin veisla að fagna sumrinu.
Á sumardagsmorguninn fyrsta heyrir byggðarstúlkan strax mikla sönga og annað hátíðlegt. Býst hún nú til ferðar og fylgir hin henni úr garði og segir henni að fylgja áðurnefndu gili þar til hún sæi til byggða.
Skiljast þær nú og þakkar byggðarstúlkan hinni allar velgjörðir. Fer hún so eftir áðursagðri tilvísun og kemst klaklaust til mannabyggða. Endar so þessa söguna.
Fjórða frásaga:Einu sinni var einn kaupamaður sem einhvörra orðsaka vegna varð seinn að fá sér vist til sumarvinnu því hvar sem hann leitaðist fyrir voru kaupamenn komnir fyrir. Hann verður nú óglaður af þessu og ríður einförum upp úr Hvítársíðu til fjalla og veit ekki sjálfur hvað hann ætlar.
Nú slær yfir hann þoku. Kemur þá til hans maður ríðandi sem hann þekkir ekki; sá spyr kaupamann hvörnin á högum hans standi og því hann sé hér einn á ferð langt kominn frá mannabyggðum.
Kaupamaður segir hönum satt og rétt af sínu ástandi og hann viti ekki hvað hann ætti fyrir sig að taka. Sá aðkomni segir, þar sona væri ástatt fyrir hönum, hvört hann vildi ekki reyna að vera kaupamaður hjá sér í sumar.
Þessu tilboði tekur hann með þökkum án þess að spyrja hvar hinn ætti heima. Ríður nú sá aðkomni fyrir, en kaupamaður á eftir, lengi vel í þokunni þar til þeir koma í einn þröngan dal. Var þá létt upp niður við gilið sem féll eftir dalnum, en þoka gekk í hlíðum, og þótti kaupamanni þar fagurt um að litast. Koma þeir nú að vel byggðum húsabæ og segir hann kaupamanni að hann eigi þennan bæ.
Nú segir ekki frá öðru en kaupamaður var þar um sumarið og undi vel hag sínum. Ekki er sagt hvað þar var unnið.
En um haustið þegar að því leið að kaupamaður mundi fara í burtu þá kallar húsbóndinn hann fyrir sig og þakkar hönum góða þjónustu og segist vilja greiða hönum kaupið.
Fyrst vegur hann hönum út fjórar vættir af smjöri og segir hann þurfi þess þegar hann sé vermaður að vordögunum; so fær hann hönum fjögur húðarskinn og segir að skófrekt mun vera í fjörunni við sjóróðrana. Fjórar voðir fékk hann hönum; ekki er sagt hvað stórar þær voru. Hann segist líka fá hönum átta sauði veturgamla og með þetta verði hann að gjöra sig ánægðan.
Kaupamaður þakkar hönum forkunnar vel útlátin og segist vera ráðalaus að flytja þetta þar hann hafi ekki haft nema þann sem hann reið, en hinn segist skuli ljá hönum gráan klár eins og [85.] erindið útvísar:
- "Ljá skal ég þér lipran klár,
- en lösturinn finnst að hann er grár;
- ber hann ekki á bakinu sár
- né bilar í nokkrum stríðum.
- Forða hríðum, forða mér við hríðum."
og segir hann megi óefaður leggja þetta á hann, að hann beri það, en hann skuli taka það til vara að þegar hann komi þar sem hann til tekur á veginum fram til byggða, þar standi við götuna gamalt krosstré. Það segist hann búast við að Gráni fælist nema hann fari nokkuð af veginum so hann sjái það ekki. Kaupamaður lofar hönum því.
Síðan býst hann til ferða. Gráni er tekinn, lagður á reiðingur og varningurinn látinn á hann, en kaupamaður ríður sínum hesti. Sauðirnir hlaupa á götuna og renna sem alvanir rekstri. Húsbóndinn ríður með hönum á leið og segir hönum til vegar. Skiljast þeir so og kveðjast og fer hvör sína leið.
Kaupamanni gengur vel þar til hann nálgast þann stað sem von var á krosstrénu; þá sækir hann so mikill svefn að hann gleymir að víkja af götunni. Veit hann þá ekki fyrri til en Gráni kippir í tauminn og fælist og flýgur þar til klyfjarnar hrökka ofan og vildi so illa til að þær lentu í einu blautu feni, en Gráni fór sína leið aftur á götuna og hafði kaupamaður ekki meir af hönum.
Sagt er hann hafi náð öðru klyfinu og getað komið því til byggða, og öllum sauðunum hélt hann og skar þá þegar heim kom og voru fjórir fjórðungar í hvörjum fyrir sig. Þótti öllum þetta vera gott kaup þó hann missti það sem í fenið fór. Enda so allar þessar Áradalsfrásagnir sem í bragnum eru.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar - Textasafn Orðabókar Háskóla Íslands)
Netútgáfan - ágúst 1998