ANDRARÍMUR   OG   HALLGRÍMSRÍMUR



Vermenn að norðan voru eitt sinn á suðurferð; fengu þeir hríð mikla á fjöllunum svo þeir villtust og vissu ekki hvar þeir fóru. Komu þeir loks að hellisgjögri nokkru. Gengu þeir svo langt inn að ekki gætti vinds né úrkomu að utan. Þar létu þeir fyrirberast, kveiktu ljós og gjörðu síðan eld við mosa er þeir reyttu af steinum.

Tóku þeir nú að hressast og hlýna. Menn fóru nú að ráðgast um hvað hafa skyldi til skemmtunar. Vildu sumir kveða Andrarímur en sumir syngja Hallgrímssálma.

Fyrir innan sig sáu þeir dimmt gjögur og var eins og þar kæmi nýr krókur á hellinn. Þeir heyrðu þá að sagt var inni í myrkrinu:

"Andrarímur þykja mér fínar,
en Hallgrímsrímur vil ég ekki."

Þeir tóku þá að kveða Andrarímur sem mest máttu þeir. Hét sá Björn er best kvað. Gekk svo lengi um kvöldið. Þá er sagt inni í myrkrinu:

"Nú er mér skemmt en ekki konu minni; hún vill heyra Hallgrímsrímur."

Tóku menn nú að syngja sálmana og endist þá verr það er menn kunnu.

Þá var mælt: "Nú er konu minni skemmt en ekki mér."

Síðan var mælt: "Viltu sleikja innan ausu mína að launum, Kvæða-Björn?"

Hann játti því. Var þá stampur mikill á skafti réttur fram með graut í og gátu þeir allir varla ráðið við ausuna. Grauturinn var góður og ætilegur. Snæddu allir og varð gott af nema einn, hann þorði ekki. Síðan lögðust þeir til svefns og sváfu vel og lengi.

Daginn eftir fóru þeir að skoða til veðurs og var þá bjart og hreint veður. Vildu allir nú leggja af stað en sá sem ekki þorði að snæða um kvöldið svaf svo fast að hann varð ekki vakinn.

Þá mælti einn: "Það er betra að drepa lagsmann sinn en skilja hann svona eftir í tröllahöndum."

Sló hann þegar á nasir honum svo blóðið flaut niður um hann en þá vaknaði hann og gat svo komist burt með þeim félögum sínum. Komust þeir síðan heilir til mannabyggða.

Það hyggja menn að tröll þetta hafi heillað til sín konu úr sveit og að vermennirnir hafi notið hennar.


Netútgáfan - maí 1997