ÉG  ER  ÁNÆGР ÉG  HEF  MITT



Það bar so við í Árkvörn í Fljótshlíð að vinnukona þar gekk út að Eyvindarmúla með barn sem hún átti, en þegar hún fór niðrettir fer barnið að benda upp í svonefnda Kapellulág og fer að segja: "Sko gullið mamma," en hún sér ekkert.

Hleypur barnið þegar upp í fyrnefnda lág og kemur með eitthvað í lófa sínum og er að sýna henni, en hún sér ekkert. Gengur hún so austrettir og upp á loft. Barnið er að sýna öllum í lófa sinn, en enginn sér neitt.

Líður so nokkur stund þangað til bláklædd kona kemur upp á loftið með opin skæri í hendinni og segir við móður barnsins að hún skuli bora augun úr barninu hennar ef hún láti það ekki fá sér það sem það hafi tekið frá sér og væri það silfurhnappur af svuntunni telpunnar sinnar.

Hún segir að hún viti ekki til að það hafi tekið nokkuð, en skipar því samt að sýna bláklæddu konunni í lófann á sér. Barnið gerir það, en þá hrifsar hún eitthvað úr lófa þess, en rýkur síðan ofan og út, en segir um leið og hún fór ofan: "Ég er ánægð, ég hef mitt."

Þá sagði barnið móður sinni að því hefði sýnst stag yfrum þvera lágina og hefði hangið á því mörg falleg föt og á sumum þeirra silfurhnappar, en það sagðist hafa tekið í einn og togað, en hann hefði þá slitnað af.

Lág þessi er austan við hól þann á túninu í Árkvörn sem ýmist hefur kallaður verið Álfahóll eða Kapelluhóll. Á hólnum er sagt að kapella hafi staðið frá Eyvindarmúla í katólskunni og stendur þar nú lambhús sem kapellan áður stóð, og fundist hefur þar nokkuð af mannsbeinum niðrí grundvellinum eitt sinn þegar gert var að húsinu.

Gata ein liggur framan í hólnum frá Eyvindarmúla beint að húsinu sem auðsjáanlega er gjörð af fornum mönnum og er kölluð Hólmfríðargata, og er forn sögn að húsfrú Hólmfríður Erlendsdóttir hafi látið gjöra götu þessa þegar hún bjó á Eyvindarmúla og hún hafi haldið mjög upp á kapellu þessa og gengið þangað á hvurjum morgni til bænargjörða. Endar so þessi saga.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - apríl 2000