Rík hjón voru eitt sinn á bæ í Loðmundarfirði; þau héldu tvo vinnumenn og tvær vinnukonur. Það var siður í þá daga að messað var á jólanótt og vildu þá sem flestir fara til kirkju og var oft ekki nema einn heima á bæ, og vildi það þá oft til að hann var horfinn er heim var komið.Nú bar svo til að á þessum bæ fer allt fólk til messu á jólanótt eina nema önnur vinnukonan var ein eftir heima. Þegar fólkið var á burt komið fer hún að lesa í bók við kertaljós.
Þegar hún er búin að lesa lítinn tíma sér hún hvar koma þrjú börn inn á baðstofugólfið og fara að leika sér. Hún lætur svo sem hún sjái þau ekki; svo færa þau sig upp á pallinn til hennar og leika sér þar hið glaðasta. Þau færðu sig alltaf nær henni og tóku smám saman höndunum í kjöltu stúlkunnar og potuðu fingrunum í ljósið eins og þau hefðu gaman af kertinu. Hún klappaði á höndurnar á þeim og var ógnar góð við þau; síðan tók hún kertið sem ljósið logaði á og skar það sundur í fjóra parta og gaf þeim sinn partinn hverju, en hélt einum sjálf. Hlupu þau þá í burtu hlæjandi.
Litlu síðar kom til hennar maður og settist á rúmið hjá henni, lét vel að henni og vildi kyssa henni og klappa og fá hana til fylgilags, en hún vildi hann ekki og var hin versta við hann svo hann fór í burtu svo búinn.
Strax þar eftir kom þar inn í baðstofuna bláklædd kona með kistil undir höndinni. Hún var mjög brosleit og hýr við kvenmanninn og heilsar henni og þakkar henni fyrir börnin sín og það sem hún hefði ekki gjört bón mannsins síns. Lauk hún nú opnum kistlinum, tók þar upp úr blá föt mikið falleg og vel til búin og gaf stúlkunni og sagði það vera borgun fyrir það sem hún hefði glatt börnin sín og bað hana láta það engan vita hvernig hún hefði eignast þau fyr en aftur önnur jól og bað fyrir henni að hún yrði mikið gæfusöm, og gekk í burt.
Um morguninn kom fólkið heim og var hún þá spurð að hvert ekkert hefði borið til tíðinda um nóttina, en hún kvað það ekkert hafa verið. Sumarið eftir bar svo við einn góðan veðurdag fór vinnukonan að breiða út föt sín; þá var konan stödd úti og sá þessi nýju föt sem álfkonan gaf henni. Henni þótti falleg fötin og skoðaði þau vandlega og spurði vinnukonuna að hvar hún hefði fengið þau, en hún vildi ekkert segja henni um það.
Konunni þótti fyrir við vinnukonuna og kveðst vel vita hvernig hún hafi fengið þau og muni það hafa verið þá er hún hafi verið heima á jólanóttina, "og skaltu ei vera heima aðra jólanótt". Vinnukonan sagði svo mætti vera og lét sér það vel líka.
Nú líður af sumarið og allt til jóla. Kemur þá þar að er fólk er að fara til messu á jólanóttina. Býðst þá konan að vera ein heima. Bóndi vill það ekki, en svo hlaut að vera sem konan vildi. Fóru nú allir til messu, en konan var eftir ein heima. Gjörir hún nú sem vinnukonan að hún fer að lesa í bók við kertaljós þegar fólkið er komið í burtu.
Að litlum tíma liðnum koma þrjú börn inn á gólfið og leika sér sem fyr. Konunni var ei um börnin og lítur til þeirra heldur reiðulega. Þau færðu sig upp á pallinn til hennar og léku nú hvað listugast, tóku höndum í kjöltu hennar, potuðu í kertið; varð hún þá ill í skapi, tók sér vönd og flengdi á höndur þeirra; þau hlupu burt með miklum gráti.
Þar á eftir kom kallmaður í baðstofuna og settist hjá henni, lét blítt að henni og vildi fá það hjá henni; hún lét allt eftir honum og var honum það besta hún kunni. Fór hann svo í burtu ánægður frá henni.
Litlu síðar kom kona mjög reiðugleg, gekk til konunnar og tók í hægri hönd henni og mælti: "Þetta mun vera höndin sem þú flengdir börnin mín með og klappaðir manninum og mæli ég um og legg á þig að þú fáir í hana ólíðandi kvalir og liggir með hljóðum þegar bóndi þinn kemur heim og enginn geti læknað hana og þú getir ekkert með henni gjört og loks visni hún og verði þér að bana."
Nú gekk huldukonan burt, en hin leggst upp í rúm sitt með veini og hljóðum.
Þegar fólkið kemur heim var ekki góð aðkoma fyrir bónda því þá mátti konan valla orð mæla fyrir kvölum. Spyr nú bóndi hana hvernig hún hafi fengið þetta og segir hún honum það allt.
Þegar vinnukonan heyrði sögu hennar sagði hún við konuna: "Hefðir þú farið sem ég fór þá hefði farið betur og þú fengið fötin eins og ég," - og sagði henni nú hvernig hún hefði að farið.
Iðraðist nú konan eftir að hún hefði ei breytt eins og vinnukonan, en það sat við það sem komið var og beið konan bana af handarmeini þessu.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - júlí 2000