Einu sinni var barn á öðru ári nýfarið að tala. Sýndist því móðir sín ganga fyrir hól í túninu; elti það hana þangað til hóllinn varð milli bæjarins og barnsins. Elti það þá konu þá er fyrir því fór, inn í hólinn.Þetta var stúlkubarn og ólst það upp hjá hinni öldruðu konu þangað til það var þrettán ára. Mjög var álfkonan góð við stúlkuna, kenndi hún henni mjög margt gott til munns og handa. Lærði hún þar sálma og söngva er tíðkuðust í landinu, en marga fleiri, og voru þeir að vísu andríkir, en frábrugðnir og undarlegir.
Aldrei varð stúlkan vör við fleiri en konu þessa og undi hún sér vel hjá henni, en minntist þess þó eins og í þoku að hún hafði verið annarstaðar.
Að þessum tíma liðnum tók álfkonan sótt er hana leiddi til bana. Þakkaði hún þá stúlkunni dygga þjónustu og kvað henni nú vera hollast að fara til foreldra sinna, sagði hún að þeir mundu kannast við hana og hún mundi giftast, bjargast vel og verða vel látin.
Ýmsa menjagripi gaf álfkonan henni að skilnaði og þar á meðal fald einn með líni. Sagði álfkonan að hvenær sem að faldinum yrði mundi hún eiga skammt eftir ólifað. Síðan kvöddust þær með virktum.
Stúlka þessi varð hinn mesti lánsmaður. Giftist hún vænum og auðugum manni, bjó lengi með honum og átti margt barna. Voru þau öll námsmenn miklir.
Á gamalsaldri var hún einn góðan haustdag til altaris með manni sínum og faldaði hún þá álfkonunaut. Um kvöldið þegar frá kirkju var komið tók hún faldinn af sér til að læsa hann niður. Sá hún þá að faldlínið var rifið.
Hún kallaði þá mann sinn og börn til sín og sagði þeim þessa sögu og gaf þeim góð ráð og áminningar, gekk síðan til sængur og sofnaði, en vaknaði aldrei aftur.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - apríl 2000