Fyrir 38 árum bjó á Þóroddsstöðum við Hrútafjörð bóndi nokkur er Bjarni hét og var Daníelsson. Hann var listamaður og góður smiður, af öllum vel metinn. Hann drukknaði á Hrútafirði ásamt fimm mönnum er hann sókti húsavið norður til Broddaness.Hann lét eftir sig ekkju er Guðbjörg heitir og tvo sonu sem heita Davíð og Alexander, báðir lifandi enn það ég veit. Davíð þessi var áseti hjá Birni Bjarnarsyni frá Kolbeinsá er síðar bjó á Ásmundarnesi.
Ekkjan Guðbjörg giftist aftur og átti mann er Helgi hét; þau áttu og börn saman, hvurra hér er ei getið, en so bar við einn sumartíma öndverðan eitt kvöld að fólk fór til stekkjar eftir vanda so ei var á kreiki heima utan bóndinn Helgi sem oftast var þó inni hjá konu sinni sem lá á barnssæng.
Börnin vóru úti að leik sínum og skemmtunum og er ei fremur um það getið þar til stekkjarfólkið kom heim. Saknaði það brátt eins barnsins úr hópnum og var það Davíð er fyr var nefndur.
Var þá strax um kvöldið safnað mönnum eftir að búið var að spyrja börnin um ef þau vissu nokkuð um hið hvorfna þar eð þau vóru öll ung, á líkum aldri sem Davíð er var á fjórða árinu. Var það árangurslaust. Var það gott um menn til leitar, einkanlega á Reykjum sem þar er næstur bær, bæði af heimamönnum og líka sundskólapiltum er þar voru að sundi um þessar mundir.
Byrjuðu þeir leitina um kvöldið tólf saman eða fleiri út og suður og einnegin upp á hálsi, nl. Hrútafjarðar, og gekk það lengi næturinnar áður þeir hvurfu heim við so búið. Var þá margrætt um slíkt, en enginn vissi hvað helzt skyldi bragðs taka. Leið svo nóttin að ei varð að gjört.
Svo hittist á að ákvarðað var þennan sama dag skyldi gjörast vegabót á Hrútafjarðarhálsi, hvurju líka varð framgengt. En er þeir vóru komnir nálægt vestur á miðjan hálsinn fundu þeir, nefnilega vegabótamennirnir, barn berhöfðað og berhent þar ráfandi.
Þeir fóru strax til þess að reyna til að veita því aðhjúkrun, en það þáði lítið og talaði ekki heldur neitt eða hljóðaði. Tók það einkum að sér gamall maður frá Búrfelli, Jón að nafni. Hann gaf því brennivín, við hvað það hresstist nokkuð.
Kom mönnum saman um að fara til bæja þangað strax er stytzt væri sem virtist að Þóroddsstöðum, en enginn þekkti hvaðan barnið mundi vera eða eiga heima.
Fór hann því með skyndi til bæjarins enda þekktist barnið skjótt, og varð fagnaðarfundur (sem nærri má geta) og þegar barnið var spurt að orsökinni, hvar fyrir það hefði farið þetta, sagði það að það hefði verið að elta hana mömmu sína og hvíta lambið.
Fleira gat það ekki sagt um ferð sína, ekki heldur hvurnin það komst yfir ána sem rennur eftir hálsinum og heitir Sveðjustaðaá sem þá var þó mikil af leysingu. Þar um ályktaði fólk þetta hefði verið álfkona.
(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)
Netútgáfan - apríl 2000