Það var á bæ einum um sumar, að fólk allt var á engjum nema húsfreyja; hún var heima og gætti bæjar með syni sínum á þriðja eða fjórða árinu. Sveinn þessi hafði vaxið og vel dafnað til þess tíma; altalandi var hann orðinn, skýr og efnisbarn eitthvert hið mesta. En með því konan átti um ýms bæjarstörf að annast auk sveinsins, varð hún að víkja sér frá honum litla hríð og fór út í læk, er var skammt frá bænum, að þvo mjólkurtrogin. Skildi hún barnið eftir á meðan í bæjardyrunum, og segir ekki af því, fyrr en konan kom aftur eftir drukklanga stund. Þegar hún yrðir á það, hrín það og æpir illilegar og ámáttlegar en hún átti von á, því áður var barnið mesta spektarbarn, þýðlynt og þægt. En nú fær hún ekki af því nema óhljóð ein og illhrinur.Líður svo nokkuð hér frá, að barnið mælir ekki orð frá munni, en var ákaflega keipótt og rellið, svo konan kunni ekkert lag á þessum háttaskiptum; það vex og ekki og lætur fíflslega mjög. Konan varð mjög angruð af þessu og tekur það ráð, að hún fer að hitta grannkonu sína, er þótti vera hyggin og margfróð, og segir henni frá hörmum þeim, sem sig hafi hent. Konan innir hana grannt eftir, hvað langt sé síðan, að barnið hafi tekið þessa fásinnu, og hvernig hún ætli það hafi atvikast. Móðir sveinsins segir henni allt af létta, eins og gengið hafði. Þegar grannkonan hin fróða hafði heyrt alla málavöxtu, segir hún: "Heldurðu ekki, góðin mín, að sveinninn sé umskiptingur? Því það er ætlun mín, að um hann hafi skipt, meðan þú gekkst frá honum í bæjardyrunum." "Ég veit ekki," segir hún, "eða geturðu ekki kennt mér ráð til að komast eftir því?" "Það mun ég geta," segir konan; "skaltu einhverntíma skilja barnið eftir eitt saman og láta einhverja nýlundu bera fyrir það, og mun það þá eitthvað mæla, er það sér engan í kring um sig. En þú skalt hlera til og vita, hvað því verður að orði. Þyki þér þá orðtök sveinsins undarleg og ískyggileg, skaltu strýkja hann vægðarlaust, unz eitthvað skipast um." Að svo mæltu skildu þær talið, og þakkaði móðir sveinsins grannkonu sinni heilræðin og fór heim síðan.
Þegar konan er heim komin, setur hún höldupott lítinn á mitt eldhúsgólf; síðan tekur hún sköft mörg, bindur hvert við enda annars, svo að efri endinn tók allt upp í eldhússtrompinn, en við hinn neðri batt hún þvöruna og lét hana standa í pottinum. Þegar hún hafði veitt þennan umbúnað í eldhúsinu, sótti hún sveininn og lét hann þar einan eftir verða; gekk hún þá úr eldhúsinu og stóð á hleri þar, sem hún sá gegnum dyragættina inn í eldhúsið. Þegar hún var fyrir litlu burtu gengin, sér hún, að barnið fer að vappa í kringum pottinn og virða hann fyrir sér með þvörunni í og segir síðan: "Nú em eg svo gamall sem á grönum má sjá, átján barna faðir í álfheimum, og hef eg þó aldrei séð svo langan gaur í svo lítilli grýtu." Fer þá konan aftur inn í eldhúsið með vænan vönd, tekur umskiptinginn og afhýðir hann lengi og óvægilega. Æpir hann þá ógurlega. Þegar konan hefur strýkt sveininn um hríð, sér hún, að ókunnug kona kemur inn í eldhúsið með sveinbarn á handlegg sér, fagurt og frítt; lét hún vel að því og segir við konuna: "Ójafnt höfumst við að; eg dilla barni þínu, en þú berð bónda minn." Að svo mæltu setur hún af sér sveininn, son húsfreyju, og verður hann þar eftir, en hefur karl sinn burtu með sér, og hurfu þau þegar. En sveinninn óx upp hjá móður sinni og varð efnismaður.
Netútgáfan - janúar 1997