TÓLF  MENN  OG  TRÖLL  Á  AFRÉTTI



Það var einu sinni að tólf menn fóru að safna afrétt og það eru ekki nafnkenndir nema tveir, og hét annar Þórður en annar Jón. Þessi Jón var haldið að mundi vera tveggja maki, en það vissi enginn hvað þessi Þórður var sterkur. Það var so skipt so í leitum, tveir og tveir saman eins og plagar að vera. Þórður og Jón voru saman. So fóru þeir allir.

So þegar þeir koma Þórður og Jón þangað sem þeir ötluðu að hafa náttstað, þar var enginn kominn, urðu þar um nóttina, og morguninn fara þeir í leitirnar og þeir sjá ekkert af mönnunum. So eru þeir í göngu allan daginn og hittu öngan til kvölds og fara að leita sér að bóli. En þá villast þeir og eru að villast alla nóttina og allan daginn til kvölds; þá koma þeir að hellirsdyrum; þeir berja á dyr.

Það kemur tröllskessa til dyranna; þeir biðja hana að lofa sér vera. Þeir fá það. Hún leiðir þá í hellir og þar er eitt rúm og þar eiga þeir að liggja í, og hún gefur þeim að borða og so skellir hún í lok. Þar er solítil smuga.

Þórður spyr Jón hvort hann treysti sér til að hlaupa á hurðina ef þyrfti. Hann segir hann gæti það ekki. Þórður segir þeir skulu látast sofa núna fyrst.

So þegar dálítil stund er liðin er lokið upp hurðinni og þá er tekið á hjartanu á Jóni og er sagt: "Þessi hefur blautt hjarta" og so var tekið á Þórði og sagt: "Þessi hefur hart hjarta."

Og so fara að þeir að klæða sig; þá sér Þórður um smuguna hvar kemur kall með öxi og kelling með skál og strákur með öxi. Þá stekkur Þórður á hurðina og mölvar hana upp og stekkur út, en kelling stekkur í dyrnar og strákur og seta attur og eru so að skrattast inni, en Þórður gat náð af kallinum öxi og drap hann og komst upp í bergið og þá kemur kellingin og strákurinn út, og hann hugsar að þá muni þau vera búin að klára Jón.

Hann hugsar þau muni drepa sig því strákur er orðinn so æfur; þangað til hann getur drepið þau og tekur þau og setur hausinn við rassinn. So fer hann með ljós í húsið sem þeir lágu í; so hann gengur inn í hellirinn og þar eru so litlar dyr sem hann verður að skríða á maganum inn um.

Þá sér hann þar alla ofan í; so fer hann og brennir tröllin, fer so heim í sveit og þá eru sótt líkin og jörðuð, og tekið so sem fémætt var, en hitt brennt, og so er farið aftur. Þórður varð aldrei jafngóður.

Og endar so þessi saga.



(Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar)

Netútgáfan - október 1999