YNGLINGA  SAGA




1. Hér segir frá landaskipan

Kringla heimsins, sú er mannfólkið byggir, er mjög vogskorin. Ganga höf stór úr útsjánum inn í jörðina. Er það kunnigt að haf gengur frá Nörvasundum og allt út til Jórsalalands. Af hafinu gengur langur hafsbotn til landnorðurs er heitir Svartahaf. Sá skilur heimsþriðjungana. Heitir fyrir austan Asía en fyrir vestan kalla sumir Evrópu en sumir Eneu. En norðan að Svartahafi gengur Svíþjóð hin mikla eða hin kalda. Svíþjóð hina miklu kalla sumir menn eigi minni en Serkland hið mikla, sumir jafna henni við Bláland hið mikla. Hinn nyrðri hlutur Svíþjóðar liggur óbyggður af frosti og kulda, svo sem hinn syðri hlutur Blálands er auður af sólarbruna. Í Svíþjóð eru stórhéruð mörg. Þar eru og margs konar þjóðir og margar tungur. Þar eru risar og þar eru dvergar, þar eru blámenn og þar eru margs konar undarlegar þjóðir. Þar eru og dýr og drekar furðulega stórir. Úr norðri frá fjöllum þeim er fyrir utan eru byggð alla fellur á um Svíþjóð, sú er að réttu heitir Tanaís. Hún var forðum kölluð Tanakvísl eða Vanakvísl. Hún kemur til sjávar inn í Svartahaf. Í Vanakvíslum var þá kallað Vanaland eða Vanaheimur. Sú á skilur heimsþriðjungana. Heitir fyrir austan Asía en fyrir vestan Evrópa.


2. Frá Óðni

Fyrir austan Tanakvísl í Asíu var kallað Ásaland eða Ásaheimur en höfuðborgin, er í var landinu, kölluðu þeir Ásgarð. En í borginni var höfðingi sá er Óðinn var kallaður. Þar var blótstaður mikill. Það var þar siður að tólf hofgoðar voru æðstir. Skyldu þeir ráða fyrir blótum og dómum manna í milli. Það eru díar kallaðir eða drottnar. Þeim skyldi þjónustu veita og lotning allt fólk.

Óðinn var hermaður mikill og mjög víðförull og eignaðist mörg ríki. Hann var svo sigursæll að í hverri orustu fékk hann gagn og svo kom að hans menn trúðu því að hann ætti heimilan sigur í hverri orustu. Það var háttur hans, ef hann sendi menn sína til orustu eða aðrar sendifarar, að hann lagði áður hendur í höfuð þeim og gaf þeim bjannak. Trúðu þeir að þá mundi vel farast. Svo var og um hans menn, hvar sem þeir urðu í nauðum staddir á sjá eða landi, þá kölluðu þeir á nafn hans og þótti jafnan fá af því fró. Þar þóttust þeir eiga allt traust er hann var. Hann fór oft svo langt í brott að hann dvaldist í ferðinni mörg misseri.


3. Frá bræðrum Óðins

Óðinn átti tvo bræður. Hét annar Vé en annar Vílir. Þeir bræður hans stýrðu ríkinu þá er hann var í brottu.

Það var eitt sinn, þá er Óðinn var farinn langt í brott og hafði lengi dvalist, að Ásum þótti örvænt hans heim. Þá tóku bræður hans að skipta arfi hans en konu hans Frigg gengu þeir báðir að eiga. En litlu síðar kom Óðinn heim. Tók hann þá við konu sinni.


4. Ófriður við Vani

Óðinn fór með her á hendur Vönum en þeir urðu vel við og vörðu land sitt og höfðu ýmsir sigur. Herjuðu hvorir land annarra og gerðu skaða. En er það leiddist hvorumtveggjum lögðu þeir milli sín sættarstefnu og gerðu frið og seldust gíslar. Fengu Vanir sína hina ágæstu menn, Njörð hinn auðga og son hans Frey, en Æsir þar í mót þann er Hænir hét og kölluðu hann allvel til höfðingja fallinn. Hann var mikill maður og hinn vænsti. Með honum sendu Æsir þann er Mímir hét, hinn vitrasti maður, en Vanir fengu þar í mót þann er spakastur var í þeirra flokki. Sá hét Kvasir.

En er Hænir kom í Vanaheim þá var hann þegar höfðingi ger. Mímir kenndi honum ráð öll. En er Hænir var staddur á þingum eða stefnum, svo að Mímir var eigi nær, og kæmu nokkur vandamál fyrir hann þá svaraði hann æ hinu sama: "Ráði aðrir," kvað hann.

Þá grunaði Vani að Æsir mundu hafa falsað þá í mannaskiptinu. Þá tóku þeir Mími og hálshjuggu og sendu höfuðið Ásum. Óðinn tók höfuðið og smurði urtum þeim er eigi mátti fúna og kvað þar yfir galdra og magnaði svo að það mælti við hann og sagði honum marga leynda hluti.

Njörð og Frey setti Óðinn blótgoða og voru þeir díar með Ásum. Dóttir Njarðar var Freyja. Hún var blótgyðja. Hún kenndi fyrst með Ásum seið sem Vönum var títt. Þá er Njörður var með Vönum þá hafði hann átta systur sína því að það voru þar lög. Voru þeirra börn Freyr og Freyja. En það var bannað með Ásum að byggja svo náið að frændsemi.


5. Frá Gefjun

Fjallgarður mikill gengur af landnorðri til útsuðurs. Sá skilur Svíþjóð hina miklu og önnur ríki. Fyrir sunnan fjallið er eigi langt til Tyrklands. Þar átti Óðinn eignir stórar. Í þann tíma fóru Rúmverjahöfðingjar víða um heiminn og brutu undir sig allar þjóðir en margir höfðingjar flýðu fyrir þeim ófriði af sínum eignum. En fyrir því að Óðinn var forspár og fjölkunnigur þá vissi hann að hans afkvæmi mundi um norðurhálfu heimsins byggja.

Þá setti hann bræður sína Vé og Víli yfir Ásgarð en hann fór og díar allir með honum og mikið mannfólk. Fór hann fyrst vestur í Garðaríki og þá suður í Saxland. Hann átti marga sonu. Hann eignaðist ríki víða um Saxland og setti þar sonu sína til landsgæslu. Þá fór hann norður til sjávar og tók sér bústað í ey einni. Þar heitir nú Óðinsey í Fjóni.

Þá sendi hann Gefjun norður yfir sundið í landaleitan. Þá kom hún til Gylfa og gaf hann henni eitt plógsland. Þá fór hún í Jötunheima og gat þar fjóra sonu við jötni nokkurum. Hún brá þeim í yxnalíki og færði þá fyrir plóginn og dró landið út á hafið og vestur gegnt Óðinsey og er það kölluð Selund. Þar byggði hún síðan. Hennar fékk Skjöldur sonur Óðins. Þau bjuggu að Hleiðru. Þar er vatn eða sjár eftir. Það er kallað Lögurinn. Svo liggja firðir í Leginum sem nes í Selundi.

Svo kvað Bragi hinn gamli:

Gefjun dró frá Gylfa
glöð djúpröðul öðla,
svo at af rennirauknum
rauk, Danmarkar auka.
Báru yxn og átta
ennitungl, þar er gengu
fyr vineyjar víðri
valrauf, fjögur haufuð.

En er Óðinn spurði að góðir landskostir voru austur að Gylfa fór hann þannug og gerðu þeir Gylfi sætt sína því að Gylfi þóttist engi kraft til hafa til mótstöðu við Ásana. Mart áttust þeir Óðinn við og Gylfi í brögðum og sjónhverfingum og urðu Æsir jafnan ríkri.

Óðinn tók sér bústað við Löginn þar sem nú eru kallaðar fornu Sigtúnir og gerði þar mikið hof og blót eftir siðvenju Ásanna. Hann eignaðist þar lönd svo vítt sem hann lét heita Sigtúnir. Hann gaf bústaði hofgoðunum.

Njörður bjó í Nóatúnum en Freyr að Uppsölum, Heimdallur að Himinbjörgum, Þór á Þrúðvangi, Baldur á Breiðabliki. Öllum fékk hann þeim góða bólstaði.


6. Frá atgervi Óðins

Þá er Ása-Óðinn kom á Norðurlönd og með honum díar er það sagt með sannindum að þeir hófu og kenndu íþróttir þær er menn hafa lengi síðan með farið. Óðinn var göfgastur af öllum og af honum námu þeir allar íþróttirnar því að hann kunni fyrst allar og þó flestar.

En það er að segja fyrir hverja sök hann var svo mjög tignaður, þá báru þessir hlutir til. Hann var svo fagur og göfuglegur álitum þá er hann sat með sínum vinum að öllum hló hugur við. En þá er hann var í her þá sýndist hann grimmlegur sínum óvinum. En það bar til þess að hann kunni þær íþróttir að hann skipti litum og líkjum á hverja lund er hann vildi. Önnur var sú að hann talaði svo snjallt og slétt að öllum er á heyrðu þótti það eina satt. Mælti hann allt hendingum svo sem nú er það kveðið er skáldskapur heitir. Hann og hofgoðar hans heita ljóðasmiðir því að sú íþrótt hófst af þeim í Norðurlöndum. Óðinn kunni svo gera, að í orustu urðu óvinir hans blindir eða daufir eða óttafullir en vopn þeirra bitu eigi heldur en vendir en hans menn fóru brynjulausir og voru galnir sem hundar eða vargar, bitu í skjöldu sína, voru sterkir sem birnir eða griðungar. Þeir drápu mannfólkið en hvorki eldur né járn orti á þá. Það er kallaður berserksgangur.


7. Frá íþróttum Óðins

Óðinn skipti hömum. Lá þá búkurinn sem sofinn eða dauður en hann var þá fugl eða dýr, fiskur eða ormur og fór á einni svipstund á fjarlæg lönd að sínum erindum eða annarra manna. Það kunni hann enn að gera með orðum einum að slökkva eld og kyrra sjá og snúa vindum hverja leið er hann vildi og hann átti skip er Skíðblaðnir hét er hann fór á yfir höf stór en það mátti vefja saman sem dúk.

Óðinn hafði með sér höfuð Mímis og sagði það honum mörg tíðindi úr öðrum heimum en stundum vakti hann upp dauða menn úr jörðu eða settist undir hanga. Fyrir því var hann kallaður draugadrottinn eða hangadrottinn. Hann átti hrafna tvo er hann hafði tamið við mál. Flugu þeir víða um lönd og sögðu honum mörg tíðindi. Af þessum hlutum varð hann stórlega fróður. Allar þessar íþróttir kenndi hann með rúnum og ljóðum þeim er galdrar heita. Fyrir því eru Æsir kallaðir galdrasmiðir.

Óðinn kunni þá íþrótt svo að mestur máttur fylgdi og framdi sjálfur, er seiður heitir, en af því mátti hann vita örlög manna og óorðna hluti, svo og að gera mönnum bana eða óhamingju eða vanheilindi, svo og að taka frá mönnum vit eða afl og gefa öðrum. En þessi fjölkynngi, er framið er, fylgir svo mikil ergi að eigi þótti karlmönnum skammlaust við að fara og var gyðjunum kennd sú íþrótt. Óðinn vissi um allt jarðfé, hvar fólgið var, og hann kunni þau ljóð er upp laukst fyrir honum jörðin og björg og steinar og haugarnir og batt hann með orðum einum þá er fyrir bjuggu og gekk inn og tók þar slíkt er hann vildi.

Af þessum kröftum varð hann mjög frægur. Óvinir hans óttuðust hann en vinir hans treystust honum og trúðu á kraft hans og á sjálfan hann. En hann kenndi flestar íþróttir sínar blótgoðunum. Voru þeir næst honum um allan fróðleik og fjölkynngi. Margir aðrir námu þó mikið af og hefir þaðan af dreifst fjölkynngin víða og haldist lengi. En Óðin og þá höfðingja tólf blótuðu menn og kölluðu goð sín og trúðu á lengi síðan.

Eftir Óðins nafni var kallaður Auðun og hétu menn svo sonu sína en af Þórs nafni er kallaður Þórir eða Þórarinn eða dregið af öðrum heitum til, svo sem Steinþór eða Hafþór eða enn breytt á fleiri vega.


8. Lagasetning Óðins

Óðinn setti lög í landi sínu, þau er gengið höfðu fyrr með Ásum. Svo setti hann að alla dauða menn skyldi brenna og bera á bál með þeim eign þeirra. Sagði hann svo að með þvílíkum auðæfum skyldi hver koma til Valhallar sem hann hafði á bál, þess skyldi hann og njóta er hann sjálfur hafði í jörð grafið. En öskuna skyldi bera út á sjá eða grafa niður í jörð en eftir göfga menn skyldi haug gera til minningar en eftir alla þá menn er nokkuð mannsmót var að skyldi reisa bautasteina og hélst sjá siður lengi síðan. Þá skyldi blóta í móti vetri til árs en að miðjum vetri blóta til gróðrar, hið þriðja að sumri. Það var sigurblót.

Um alla Svíþjóð guldu menn Óðni skatt, pening fyrir nef hvert, en hann skyldi verja land þeirra fyrir ófriði og blóta þeim til árs.

Njörður fékk konu þeirrar er Skaði hét. Hún vildi ekki við hann samfarar og giftist síðan Óðni. Áttu þau marga sonu. Einn þeirra hét Sæmingur.

Um hann orti Eyvindur skáldaspillir þetta:

Þann skjaldblætr
skattfæri gat
ása niðr
við járnviðju,
þá er þau mær
í Manheimum
skatna vinr
og Skaði byggðu.

Sævar beins
og sonu marga
öndurdís
við Óðni gat.

Til Sæmings taldi Hákon jarl hinn ríki langfeðgakyn sitt.

Þessa Svíþjóð kölluðu þeir Mannheima en hina miklu Svíþjóð kölluðu þeir Goðheima. Úr Goðheimum sögðu þeir mörg tíðindi.


9. Dauði Óðins

Óðinn varð sóttdauður í Svíþjóð. Og er hann var að kominn dauða lét hann marka sig geirsoddi og eignaði sér alla vopndauða menn. Sagði hann sig mundu fara í Goðheim og fagna þar vinum sínum. Nú hugðu Svíar að hann væri kominn í hinn forna Ásgarð og mundi þar lifa að eilífu. Hófst þá að nýju átrúnaður við Óðin og áheit. Oft þótti Svíum hann vitrast sér áður stórar orustur yrðu. Gaf hann þá sumum sigur en sumum bauð hann til sín. Þótti hvortveggi kostur góður. Óðinn var brenndur dauður og var sú brenna ger allvegleg. Það var trúa þeirra að því hærra sem reykinn lagði í loftið upp, að því háleitari væri sá í himninum er brennuna átti og þess auðgari er meira fé brann með honum.

Njörður af Nóatúnum gerðist þá valdsmaður yfir Svíum og hélt upp blótum. Hann kölluðu Svíar þá drottin sinn. Tók hann þá skattgjafar af þeim. Á hans dögum var friður allgóður og alls konar ár, svo mikið að Svíar trúðu því að Njörður réði fyrir ári og fyrir fésælu manna. Á hans dögum dóu flestir díar og voru allir brenndir og blótaðir síðan. Njörður varð sóttdauður. Lét hann og marka sig Óðni áður hann dó. Svíar brenndu hann og grétu allmjög yfir leiði hans.


10. Dauði Freys

Freyr tók þá ríki eftir Njörð. Var hann kallaður drottinn yfir Svíum og tók skattgjafar af þeim. Hann var vinsæll og ársæll sem faðir hans. Freyr reisti að Uppsölum hof mikið og setti þar höfuðstað sinn, lagði þar til allar skyldir sínar, lönd og lausan eyri. Þá hófst Uppsalaauður og hefir haldist æ síðan. Á hans dögum hófst Fróðafriður. Þá var og ár um öll lönd. Kenndu Svíar það Frey. Var hann því meir dýrkaður en önnur goðin sem á hans dögum varð landsfólkið auðgara en fyrr af friðinum og ári.

Gerður Gymisdóttir hét kona hans. Sonur þeirra hét Fjölnir. Freyr hét Yngvi öðru nafni. Yngva nafn var lengi síðan haft í hans ætt fyrir tignarnafn og Ynglingar voru síðan kallaðir hans ættmenn. Freyr tók sótt en er að honum leið sóttin leituðu menn sér ráðs og létu fá menn til hans koma en bjuggu haug mikinn og létu dyr á og þrjá glugga. En er Freyr var dauður báru þeir hann leynilega í hauginn og sögðu Svíum að hann lifði og varðveittu hann þar þrjá vetur. En skatt öllum helltu þeir í hauginn, í einn glugg gullinu en í annan silfrinu, í hinn þriðja eirpeningum. Þá hélst ár og friður.

Freyja hélt þá upp blótum því að hún ein lifði þá eftir goðanna og varð hún þá hin frægsta svo að með hennar nafni skyldi kalla allar konur tignar, svo sem nú heita frúvur. Svo hét og hver freyja yfir sinni eigu en sú húsfreyja er bú á. Freyja var heldur marglynd. Óður hét bóndi hennar. Dætur hennar hétu Hnoss og Gersemi. Þær voru fagrar mjög. Af þeirra nafni eru svo kallaðir hinir dýrstu gripir.

Þá er allir Svíar vissu að Freyr var dauður en hélst ár og friður þá trúðu þeir að svo mundi vera meðan Freyr væri á Svíþjóð og vildu eigi brenna hann og kölluðu hann veraldargoð, blótuðu mest til árs og friðar alla ævi síðan.


11. Dauði Fjölnis konungs

Fjölnir sonur Yngvifreys réð þá fyrir Svíum og Uppsalaauð. Hann var ríkur og ársæll og friðsæll. Þá var Frið-Fróði að Hleiðru. Þeirra í millum var heimboð og vingan. Þá er Fjölnir fór til Fróða á Selund þá var þar fyrir búin mikil veisla og boðið til víða um lönd.

Fróði átti mikinn húsabæ. Þar var gert ker mikið margra alna hátt og okað með stórum timburstokkum. Það stóð í undirskemmu en loft var yfir uppi og opið gólfþilið svo að þar var niður hellt leginum en kerið blandið fullt mjaðar. Þar var drykkur furðu sterkur. Um kveldið var Fjölni fylgt til herbergis í hið næsta loft og hans sveit með honum.

Um nóttina gekk hann út í svalar að leita sér staðar. Var hann svefnær og dauðadrukkinn. En er hann snerist aftur til herbergis þá gekk hann fram eftir svölunum og til annarra loftdura og þar inn, missti þá fótum og féll í mjaðarkerið og týndist þar.

Svo segir Þjóðólfur hinn hvinverski:

Varð framgengt,
þar er Fróði bjó,
feigðarorð,
er að Fjölni kom,
og sikling
svigðis geira
vogr vindlaus
um viða skyldi.


12. Frá Sveigði

Sveigðir tók ríki eftir föður sinn. Hann strengdi þess heit að leita Goðheims og Óðins hins gamla. Hann fór með tólfta mann víða um heiminn. Hann kom út í Tyrkland og í Svíþjóð hina miklu og hitti þar marga frændur sína og var í þeirri för fimm vetur. Þá kom hann aftur til Svíþjóðar. Dvaldist hann þá enn heima um hríð. Hann hafði fengið konu þá er Vana hét út í Vanaheimi. Var þeirra sonur Vanlandi.

Sveigðir fór enn að leita Goðheims. Og í austanverðri Svíþjóð heitir bær mikill að Steini. Þar er steinn svo mikill sem stórt hús. Um kveldið eftir sólarfall þá er Sveigðir gekk frá drykkju til svefnbúrs sá hann til steinsins að dvergur sat undir steininum. Sveigðir og hans menn voru mjög drukknir og runnu til steinsins. Dvergurinn stóð í durum og kallaði á Sveigði, bað hann þar inn ganga ef hann vildi Óðin hitta. Sveigðir hljóp í steininn en steinninn laukst þegar aftur og kom Sveigðir aldrei út.

Svo segir Þjóðólfur hinn hvinverski:

En dagskjarr
Durnis niðja
salvörðuðr
Sveigði vélti,
þá er í stein
hinn stórgeði
Dulsa konr
eftir dvergi hljóp,
og salbjartr
þeirra Sökmímis
jötunbyggðr
við jöfri gein.


13. Frá Vanlanda

Vanlandi hét sonur Sveigðis er ríki tók eftir hann og réð fyrir Uppsalaauð. Hann var hermaður mikill og hann fór víða um lönd. Hann þá veturvist á Finnlandi með Snjá hinum gamla og fékk þar dóttur hans Drífu. En að vori fór hann á brott en Drífa var eftir og hét hann að koma aftur á þriggja vetra fresti, en hann kom eigi á tíu vetrum.

Þá sendi Drífa eftir Huld seiðkonu en sendi Vísbur, son þeirra Vanlanda, til Svíþjóðar. Drífa keypti að Huld seiðkonu að hún skyldi síða Vanlanda til Finnlands eða deyða hann að öðrum kosti.

En er seiður var framiður var Vanlandi að Uppsölum. Þá gerði hann fúsan að fara til Finnlands en vinir hans og ráðamenn bönnuðu honum og sögðu að vera mundi fjölkynngi Finna í fýsi hans. Þá gerðist honum svefnhöfugt og lagðist hann til svefns. En er hann hafði lítt sofnað kallaði hann og sagði að mara trað hann. Menn hans fóru til og vildu hjálpa honum en er þeir tóku uppi til höfuðsins þá trað hún fótleggina svo að nær brotnuðu. Þá tóku þeir til fótanna. Þá kafði hún höfuðið svo að þar dó hann. Svíar tóku lík hans og var hann brenndur við á þá er Skúta heitir. Þar voru settir bautasteinar hans.

Svo segir Þjóðólfur:

En á vit
Vilja bróður
vitta véttr
Vanlanda kom.
Þá tröllkund
um troða skyldi
líðs grím-Hildr
ljóna bága,
og sá brann
á beði Skútu,
menglötuðr,
er mara kvaldi.


14. Dauði Vísburs

Vísbur tók arf eftir Vanlanda föður sinn. Hann gekk að eiga dóttur Auða hins auðga og gaf henni að mundi þrjá stórbæi og gullmen. Þau áttu tvo sonu, Gísl og Öndur. En Vísbur lét hana eina og fékk annarrar konu en hún fór til föður síns með sonu sína.

Vísbur átti son er Dómaldi hét. Stjúpmóðir Dómalda lét síða að honum ógæfu. En er synir Vísburs voru tólf vetra og þrettán fóru þeir á fund hans og heimtu mund móður sinnar en hann vildi eigi gjalda. Þá mæltu þeir að gullmenið skyldi verða að bana hinum besta manni í ætt hans og fóru í brott og heim. Þá var enn fengið að seið og siðið til þess að þeir skyldu mega drepa föður sinn. Þá sagði Huld völva þeim að hún mundi svo síða og það með að ættvíg skyldu ávallt vera í ætt þeirra Ynglinga síðan. Þeir játtu því. Eftir það söfnuðu þeir liði og komu að Vísbur um nótt á óvart og brenndu hann inni.

Svo segir Þjóðólfur:

Og Vísburs
vilja byrgi
sjávar niðr
svelgja knátti,
þá er meinþjóf
markar öttu
setrverjendr
á sinn föður,
og allvald
í arinkjóli
glóða garmr
glymjandi beit.


15. Dauði Dómalda

Dómaldi tók arf eftir föður sinn Vísbur og réð löndum. Á hans dögum gerðist í Svíþjóð sultur og seyra. Þá efldu Svíar blót stór að Uppsölum. Hið fyrsta haust blótuðu þeir yxnum og batnaði ekki árferð að heldur. En annað haust hófu þeir mannblót en árferð var söm eða verri. En hið þriðja haust komu Svíar fjölmennt til Uppsala þá er blót skyldu vera. Þá áttu höfðingjar ráðagerð sína og kom það ásamt með þeim að hallærið mundi standa af Dómalda konungi þeirra og það með að þeir skyldu honum blóta til árs sér og veita honum atgöngu og drepa hann og rjóða stalla með blóði hans, og svo gerðu þeir.

Svo segir Þjóðólfur:

Hitt var fyrr
að fold ruðu
sverðberendr
sínum drottni,
og landher
á lífs vanan
dreyrug vopn
Dómalda bar,
þá er árgjörn
Jóta dólgi
Svía kind
um sóa skyldi.


16. Dauði Dómars

Dómar hét sonur Dómalda er þar næst réð ríki. Hann réð lengi fyrir löndum og var þá góð árferð og friður um hans daga. Frá honum er ekki sagt annað en hann varð sóttdauður að Uppsölum og var færður á Fýrisvöllu og brenndur þar á árbakkanum og eru þar bautasteinar hans.

Svo segir Þjóðólfur:

Og eg þess oft
um yngva hreyr
fróða menn
um fregið hafðag,
hvar Dómar
á dynjanda
bana Hálfs
um borinn væri.
Nú eg það veit
að verkbitinn
Fjölnis niðr
við Fýri brann.


17. Dauði Dyggva

Dyggvi hét sonur hans er þar næst réð löndum og er frá honum ekki sagt annað en hann varð sóttdauður.

Svo segir Þjóðólfur:

Kveðkat eg dul,
nema Dyggva hrör
glitnis Gná
að gamni hefr,
því að jódís
úlfs og Narfa
konungmann
kjósa skyldi,
og allvald
Yngva þjóðar
Loka mær
um leikinn hefr.

Móðir Dyggva var Drótt, dóttir Danps konungs, sonar Rígs er fyrstur var konungur kallaður á danska tungu. Hans áttmenn höfðu ávallt síðan konungsnafn fyrir hið æðsta tignarnafn. Dyggvi var fyrst konungur kallaður sinna ættmanna en áður voru þeir drottnar kallaðir en konur þeirra drottningar en drótt hirðsveitin. En Yngvi eða Ynguni var kallaður hver þeirra ættmanna alla ævi en Ynglingar allir saman.

Drótt drottning var systir Dans konungs hins mikilláta er Danmörk er við kennd.


18. Frá Dag spaka

Dagur hét sonur Dyggva konungs er konungdóm tók eftir hann. Hann var maður svo spakur að hann skildi fuglsrödd. Hann átti spör einn er honum sagði mörg tíðindi. Flaug hann á ýmsi lönd.

Það var eitt sinn að spörinn flaug á Reiðgotaland á bæ þann er á Vörva heitir. Hann flaug í akur karls og fékk þar matar. Karl kom þar og tók upp stein og laust spörinn til bana.

Dagur konungur varð illa við er spörinn kom eigi heim. Gekk hann þá til sonarblóts til fréttar og fékk þau svör að spör hans var drepinn á Vörva. Síðan bauð hann út her miklum og fór til Gotlands. En er hann kom á Vörva gekk hann upp með her sinn og herjaði. Fólkið flýði víðs vegar undan. Dagur konungur sneri herinum til skipa er kveldaði og hafði drepið mart fólk og mart handtekið.

En er þeir fóru yfir á nokkura þar sem heitir Skjótansvað eða Vopnavað þá rann fram úr skógi einn verkþræll á árbakkann og skaut heytjúgu í lið þeirra og kom í höfuð konungi skotið. Féll hann þegar af hestinum og fékk bana.

Í þann tíma var sá höfðingi gramur kallaður er herjaði en hermennirnir gramir.

Svo segir Þjóðólfur:

Frá eg að Dagr
dauðaorði,
frægðar fús,
um fara skyldi,
þá er valteins
til Vörva kom
spakfrömuðr
spörs að hefna.

Og það orð
á austrvega
vísa ferð
frá vígi bar,
að þann gram
um geta skyldi
slönguþref
sleipnis verðar.


19. Frá Agna

Agni hét sonur Dags er konungur var eftir hann, ríkur maður og ágætur, hermaður mikill, atgervimaður mikill um alla hluti.

Það var eitt sumar er Agni konungur fór með her sinn á Finnland, gekk þar upp og herjaði. Finnar drógu saman lið mikið og fóru til orustu. Frosti er nefndur höfðingi þeirra. Varð þar orusta mikil og fékk Agni konungur sigur. Þar féll Frosti og mikið lið með honum. Agni konungur fór herskildi um Finnland og lagði undir sig og fékk stórmikið herfang. Hann tók og hafði með sér Skjálf dóttur Frosta og Loga bróður hennar. En er hann kom austan lagði hann til Stokksunda. Hann setti tjöld sín suður á fitina. Þar var þá skógur. Agni konungur átti þá gullmenið það er Vísbur hafði átt.

Agni konungur gekk að eiga Skjálf. Hún bað konung að gera erfi eftir föður sinn. Hann bauð þá til sín mörgum ríkismönnum og gerði veislu mikla. Hann var allfrægur orðinn af för þessi. Þá voru þar drykkjur miklar. En er Agni konungur gerðist drukkinn þá bað Skjálf hann gæta mensins er hann hafði á hálsi. Hann tók til og batt rammlega menið á háls sér áður hann gengi að sofa. En landtjaldið stóð við skóginn og hátt tré yfir tjaldinu það er skýla skyldi við sólarhita.

En er Agni konungur var sofnaður þá tók Skjálf digurt snæri og festi undir menið. Menn hennar slógu þá tjaldstöngunum en köstuðu lykkju snærisins upp í limar trésins, drógu þá síðan svo að konungur hékk næst uppi við limar og var það hans bani. Skjálf og hennar menn hljópu á skip og reru í brott.

Agni konungur var þar brenndur og er þar síðan kölluð Agnafit á austanverðum Taurinum vestur frá Stokksundi.

Svo segir Þjóðólfur:

Það tel eg undr,
ef Agna her
Skjálfar ráð
að sköpum þóttu
þá er gæðing
með gullmeni
Loga dís
að lofti hóf,
hinn er við Taur
temja skyldi
svalan hest
Signýjar vers.


20. Frá Alreki og Eiríki

Alrekur og Eiríkur hétu synir Agna er konungar voru eftir hann. Þeir voru ríkir menn og hermenn miklir og íþróttamenn. Það var siðvenja þeirra að ríða hesta, temja bæði við gang og við hlaup. Kunnu þeir það allra manna best. Lögðu þeir á það hið mesta kapp hvor betur reið eða betri hesta átti.

Það var eitt sinn að þeir bræður riðu tveir frá öðrum mönnum með hina bestu hesta sína og riðu út á völlu nokkura og komu eigi aftur. Var þeirra leita farið og fundust þeir báðir dauðir og lamið höfuð á báðum en ekki vopn höfðu þeir nema bitlana af hestunum og það hyggja menn að þeir hafi drepist þar með.

Svo segir Þjóðólfur:

Féll Alrekr,
þar er Eiríki
bróður vopn
að bana urðu,
og hnakkmars
höfuðfetlum
Dags frændr
um drepast kváðu.
Fráat maðr áðr
eykja gervi
Freys afspring
í fólk hafa.


21. Frá Álfi og Yngva

Yngvi og Álfur voru synir Alreks er konungdóm tóku í Svíþjóð þar næst. Var Yngvi hermaður mikill og allsigursæll, fríður og íþróttamaður hinn mesti, sterkur og hinn snarpasti í orustum, mildur af fé og gleðimaður mikill. Af slíku öllu varð hann frægur og vinsæll.

Álfur konungur bróðir hans sat að löndum og var ekki í hernaði. Hann var kallaður Elfsi. Hann var maður þögull, ríklundaður og óþýður. Móðir hans hét Dageiður dóttir Dags konungs hins ríka er Döglingar eru frá komnir. Álfur átti konu er Bera hét, kvinna fríðust og skörungur mikill, gleðimaður hinn mesti.

Yngvi Alreksson var þá enn eitt haust kominn úr víkingu til Uppsala og var þá hinn frægsti. Hann sat oft við drykkju lengi um kveldum. Álfur konungur gekk oft snemma að sofa. Bera drottning sat oft á kveldum og hjöluðu þau Yngvi sín í millum. Álfur ræddi oft um, bað hana fara fyrr að sofa, sagði að hann vildi ekki vaka eftir henni. Hún svarar og segir að sú kona væri sæl er heldur skyldi eiga Yngva en Álf. Hann reiddist því mjög er hún mælti það oft.

Eitt kveld gekk Álfur inn í höllina þá er þau Yngvi og Bera sátu í hásæti og töluðust við. Hafði Yngvi um kné sér mæki. Menn voru mjög drukknir og gáfu engan gaum að er konungurinn kom inn. Álfur konungur gekk að hásætinu, brá sverði undan skikkju og lagði í gegnum Yngva bróður sinn. Yngvi hljóp upp og brá mækinum og hjó Álf banahögg og féllu þeir báðir dauðir á gólfið. Voru þeir Álfur og Yngvi heygðir á Fýrisvöllum.

Svo segir Þjóðólfur:

Og varð hinn
er Álfr um vó,
vörðr véstalls,
um veginn liggja,
er döglingr
dreyrgan mæki
öfundgjarn
á Yngva rauð.

Vara það bært
að Bera skyldi
valsæfendr
vígs um hvetja
þá er bræðr tveir
að bönum urðust
óþurfendr
um afbrýði.


22. Fall Hugleiks konungs

Hugleikur hét sonur Álfs er konungdóm tók yiir Svíum eftir þá bræður því að synir Yngva voru þá börn. Hugleikur konungur var engi hermaður og sat hann að löndum í kyrrsæti. Hann var auðigur mjög og sínkur af fé. Hann hafði mjög í hirð sinni alls konar leikara, harpara og gígjara og fiðlara. Hann hafði og með sér seiðmenn og alls konar fjölkunnigt fólk.

Haki og Hagbarður hétu bræður og voru ágætir mjög. Þeir voru sækonungar og höfðu lið mikið, fóru stundum báðir samt, stundum sér hvor. Margir kappar voru með hvorumtveggja þeirra.

Haki konungur fór með her sinn til Svíþjóðar á hendur Hugleiki konungi en Hugleikur konungur safnaði her fyrir. Þá komu til liðs við hann bræður tveir, Svipdagur og Geigaður, ágætir menn báðir og hinir mestu kappar. Haki konungur hafði með sér tólf kappa. Þar var þá Starkaður gamli með honum. Haki konungur var og hinn mesti kappi. Þeir hittust á Fýrisvöllum. Varð þar mikil orusta. Féll brátt lið Hugleiks. Þá sóttu fram kapparnir Svipdagur og Geigaður en kappar Haka gengu sex móti hvorum þeirra og urðu þeir handteknir. Þá gekk Haki konungur inn í skjaldborg að Hugleiki konungi og drap hann þar og sonu hans tvo.

Eftir það flýðu Svíar en Haki konungur lagði lönd undir sig og gerðist konungur yfir Svíum. Hann sat þá að löndum þrjá vetur en í því kyrrsæti fóru kappar hans frá honum og í víking og fengu sér svo fjár.


23. Dauði Guðlaugs konungs

Jörundur og Eiríkur voru synir Yngva Alrekssonar. Þeir lágu úti á herskipum þessa hríð alla og voru hermenn miklir. Á einu sumri herjuðu þeir í Danmörk og þá hittu þeir Guðlaug Háleygjakonung og áttu við hann orustu og lauk svo að skip Guðlaugs var hroðið en hann varð handtekinn. Þeir fluttu hann til lands á Straumeyjarnes og hengdu hann þar. Urpu menn hans þar haug eftir hann.

Svo segir Eyvindur skáldaspillir:

En Guðlaugr
grimman tamdi
við ofrkapp
austrkonunga
Sigars jó,
er synir Yngva
menglötuð
við meið reiddu.

Og náreiðr
á nesi drúpir
vingameiðr,
þar er víkur deilir,
þar er fjölkunnt
um fylkis hreyr
steini merkt,
Straumeyjarnes.

Eiríkur og Jörundur bræður urðu af verki þessu frægir mjög. Þóttust þeir miklu meiri menn en áður. Þeir spurðu að Haki konungur í Svíþjóð hafði sent frá sér kappa sína. Þá halda þeir til Svíþjóðar og draga síðan her að sér.

En er Svíar spyrja að Ynglingar eru þar komnir þá drífur ógrynni liðs til þeirra. Síðan leggja þeir í Löginn upp og halda til Uppsala á hendur Haka konungi en hann fer í móti þeim á Fýrisvöllu og hafði lið miklu minna. Varð þar mikil orusta. Gekk Haki konungur fram svo hart að hann felldi alla þá er honum voru næstir og að lyktum felldi hann Eirík konung og hjó niður merki þeirra bræðra. Þá flýði Jörundur konungur til skipa og allt lið hans.

Haki konungur fékk svo stór sár að hann sá að hans lífdagar mundu eigi langir verða. Þá lét hann taka skeið er hann átti og lét hlaða dauðum mönnum og vopnum, lét þá flytja út til hafs og leggja stýri í lag og draga upp segl en leggja eld í tyrvið og gera bál á skipinu. Veður stóð af landi. Haki var þá að kominn dauða eða dauður er hann var lagiður á bálið. Sigldi skipið síðan logandi út í haf og var þetta allfrægt lengi síðan.


24. Dauði Jörundar

Jörundur sonur Yngva konungs var konungur að Uppsölum. Hann réð þá löndum og var oftlega á sumrum í hernaði. Á einhverju sumri fór hann með her sinn til Danmerkur. Hann herjaði um Jótland og fór um haustið inn í Limafjörð og herjaði þar. Hann lá liði sínu í Oddasundi.

Þá kom þar með her mikinn Gýlaugur Háleygjakonungur, sonur Guðlaugs er fyrr var getið. Hann leggur til orustu við Jörund en er landsmenn urðu þess varir drífa þeir til öllum áttum bæði með stórum skipum og smám. Verður þá Jörundur ofurliði borinn og hroðið skip hans. Hljóp hann þá á sund og var handtekinn og leiddur á land upp. Lét þá Gýlaugur konungur reisa gálga, leiðir hann Jörund þar til og lætur hengja hann. Lýkur svo hans ævi.

Svo segir Þjóðólfur:

Varð Jörundr,
hinn er endr um dó,
lífs um lattr
í Limafirði,
þá er hábrjóstr
hörva sleipnir
bana Guðlaugs
um bera skyldi
og Hagbarðs
hersa valdi
höðnu leif
að hálsi gekk.


25. Dauði Auns konungs

Aun eða Áni hét sonur Jörundar er konungur var yfir Svíum eftir föður sinn. Hann var vitur maður og blótmaður mikill. Engi var hann hermaður. Sat hann að löndum.

Í þann tíma er þessir konungar voru að Uppsölum er nú var frá sagt var yfir Danmörku fyrst Danur hinn mikilláti, hann varð allgamall, þá sonur hans Fróði hinn mikilláti eða hinn friðsami, þá hans synir Hálfdan og Friðleifur. Þeir voru hermenn miklir. Hálfdan var eldri og fyrir þeim um allt. Hann fór með her sinn til Svíþjóðar á hendur Aun konungi og áttu þeir orustur nokkurar og hafði Hálfdan jafnan sigur, og að lyktum flýði Aun konungur í Vestra-Gautland. Þá hafði hann verið konungur yfir Uppsölum tuttugu vetur. Hann var og í Gautlandi tuttugu vetur meðan Hálfdan konungur var að Uppsölum. Hálfdan konungur varð sóttdauður að Uppsölum og er hann þar heygður. Eftir það kom Aun konungur enn til Uppsala. Þá var hann sextugur.

Þá gerði hann blót mikið og blét til langlífis sér og gaf Óðni son sinn og var honum blótinn. Aun konungur fékk andsvör af Óðni að hann skyldi enn lifa sex tigu vetra. Aun var þá enn konungur að Uppsölum tuttugu vetur.

Þá kom Áli hinn frækni með her sinn til Svíþjóðar, sonur Friðleifs, á hendur Aun konungi og áttu þeir orustur og hafði Áli jafnan sigur. Þá flýði Aun konungur í annað sinn ríki sitt og fór í Vestra-Gautland. Áli var konungur að Uppsölum tuttugu vetur áður Starkaður hinn gamli drap hann. Eftir fall Ála fór Aun konungur aftur til Uppsala og réð þá ríkinu enn tuttugu vetur.

Þá gerði hann blót mikið og blótaði öðrum syni sínum. Þá sagði Óðinn honum að hann skyldi æ lifa meðan hann gæfi Óðni son sinn hið tíunda hvert ár og það með að hann skyldi heiti gefa nokkuru héraði í landi sínu eftir tölu sona sinna, þeirra er hann blótaði til Óðins. En þá er hann hafði blótað sjö sonum sínum þá lifði hann tíu vetur svo að hann mátti ekki ganga. Var hann þá á stóli borinn. Þá blótaði hann hinum áttunda syni sínum og lifði hann þá enn tíu vetur og lá þá í kör. Þá blótaði hann hinum níunda syni sínum og lifði þá enn tíu vetur. Þá drakk hann horn sem lébarn.

Þá átti Aun einn son eftir og vildi hann þá blóta þeim og þá vildi hann gefa Óðni Uppsali og þau héruð er þar liggja til og láta kalla það Tíundaland. Svíar bönnuðu honum það og varð þá ekki blót. Síðan andaðist Aun konungur og er hann heygður að Uppsölum. Það er síðan kölluð Ánasótt ef maður deyr verklaus af elli.

Svo segir Þjóðólfur:

Knátti endr
að Uppsölum
Ánasótt
Aun um standa,
og þrálífr
þiggja skyldi
jóðs aðal
öðru sinni.

Og sveiðurs
að sér hverfði
mækis hlut
hinn mjóvara,
er okhreins
áttunga rjóðr
lögðis odd
liggjandi drakk.
Máttit hár
hjarðar mæki
austrkonungr
upp um halda.


26. Frá lífláti Egils konungs

Egill hét sonur Auns hins gamla er konungur var eftir föður sinn í Svíþjóðu. Hann var engi hermaður og sat að löndum í kyrrsæti. Tunni hét þræll hans er verið hafði með Ána hinum gamla, féhirðir hans. En er Áni var andaður þá tók Tunni óf lausafjár og gróf í jörð. En er Egill var konungur þá setti hann Tunna með þrælum öðrum. Hann kunni því stórilla og hljóp í brott og með honum margir þrælar og tóku þá upp lausaféið er hann hafði fólgið. Gaf hann það mönnum sínum en þeir tóku hann til höfðingja. Síðan dreif til hans mart illþýðisfólk, lágu úti á mörkum, stundum hljópu þeir í héruð og rændu menn eða drápu.

Egill konungur spurði þetta og fór leita þeirra með liði sínu. En er hann hafði tekið sér náttstað á einni nótt þá kom þar Tunni með liði sínu og hljóp á þá óvara og drápu lið mikið af konungi. En er Egill konungur varð var við ófrið þá snerist hann til viðtöku, setti upp merki sitt en lið flýði mart frá honum. Þeir Tunni sóttu að djarflega. Sá þá Egill konungur engan annan sinn kost en flýja. Þeir Tunni ráku þá flóttann allt til skógar. Síðan fóru þeir aftur í byggðina, herjuðu og rændu og fengu þá enga mótstöðu. Fé það allt er Tunni tók í héraðinu gaf hann liðsmönnum sínum. Varð hann af því vinsæll og fjölmennur.

Egill konungur safnaði her og fór til orustu í móti Tunna. Þeir börðust og hafði Tunni sigur en Egill flýði og lét lið mikið. Þeir Egill konungur og Tunni áttu átta orustur og hafði Tunni sigur í öllum. Eftir það flýði Egill konungur landið og út í Danmörk á Selund til Fróða hins frækna. Hann hét Fróða konungi til liðs skatti af Svíum. Þá fékk Fróði honum her og kappa sína. Fór þá Egill konungur til Svíþjóðar en er Tunni spyr það fór hann í móti honum með sitt lið. Varð þá orusta mikil. Þar féll Tunni en Egill konungur tók þá við ríki sínu. Danir fóru aftur.

Egill konungur sendi Fróða konungi góðar gjafir og stórar á hverjum misserum en galt engan skatt Dönum og hélst þó vinfengi þeirra Fróða. Síðan er Tunni féll réð Egill konungur ríkinu þrjá vetur.

Það varð í Svíþjóðu að griðungur sá er til blóts var ætlaður var gamall og alinn svo kappsamlega að hann var mannýgur. En er menn vildu taka hann þá hljóp hann á skóg og varð galinn og var lengi á viðum og hinn mesti spellvirki við menn. Egill konungur var veiðimaður mikill. Hann reið um daga oftlega á markir dýr að veiða.

Það var eitt sinn að hann var riðinn á veiðar með menn sína. Konungur hafði elt dýr eitt lengi og hleypti eftir í skóginn frá öllum mönnum. Þá verður hann var við griðunginn og reið til og vill drepa hann. Griðungur snýr í móti og kom konungur lagi á hann og skar úr spjótið. Griðungur stakk hornunum á síðu hestinum svo að hann féll þegar flatur og svo konungur. Þá hljóp konungur á fætur og vill bregða sverði. Griðungur stakk þá hornunum fyrir brjóst honum svo að á kafi stóð. Þá komu að konungsmenn og drápu griðunginn. Konungur lifði litla hríð og er hann heygður að Uppsölum.

Svo segir Þjóðólfur:

Og lofsæll
úr landi fló
Týs áttungr
Tunna ríki.
En flæming
farra trjónu
jötuns eykr
á Agli rauð.

Sá er um austr
áðan hafði
brúna hörg
um borinn lengi,
en skíðlaus
Skilfinga nið
hæfis hjör
til hjarta stóð.


27. Frá falli Óttars konungs

Óttar hét sonur Egils er ríki og konungdóm tók eftir hann. Hann vingaðist ekki við Fróða. Þá sendi Fróði menn til Óttars konungs að heimta skatt þann er Egill hafði heitið honum. Óttar svarar svo að Svíar hefðu aldrei skatt goldið Dönum, segir að hann mundi og svo gera. Fóru aftur sendimenn. Fróði var hermaður mikill.

Það var á einu sumri að Fróði fór með her sinn til Svíþjóðar, gerði þar upprás og herjaði, drap mart fólk en sumt hertók hann. Hann fékk allmikið herfang. Hann brenndi og víða byggðina og gerði hið mesta hervirki.

Annað sumar fór Fróði konungur að herja í Austurveg. Það spurði Óttar konungur að Fróði var eigi í landinu. Þá stígur hann á herskip og fer út í Danmörk og herjar þar og fær enga mótstöðu. Hann spyr að safnaður mikill var á Selundi. Stefnir hann þá vestur í Eyrarsund, siglir þá suður til Jótlands og leggur í Limafjörð, herjar þá á Vendli, brennir þar og gerir mjög aleyðu.

Vöttur og Fasti hétu jarlar Fróða. Þá hafði Fróði sett til landvarnar í Danmörk meðan hann var úr landi. En er jarlar spurðu að Svíakonungur herjaði í Danmörk þá safna þeir her og hlaupa á skip og sigla suður til Limafjarðar, koma þar mjög á óvart Óttari konungi, leggja þegar til orustu. Taka Svíar vel í mót. Fellur lið hvorratveggja en svo sem lið féll af Dönum kom annað meira þar úr héruðum og svo var til lagt öllum þeim skipum er í nánd voru. Lýkur svo orustu að þar féll Óttar konungur og mestur hluti liðs hans. Danir tóku lík hans og fluttu til lands og lögðu upp á haug einn, létu þar rífa dýr og fugla hræin. Þeir gera trékráku eina og senda til Svíþjóðar og segja að eigi var meira verður Óttar konungur þeirra. Þeir kölluðu síðan Óttar vendilkráku.

Svo segir Þjóðólfur:

Féll Óttar
undir ara greipar,
dugandligr,
fyr Dana vopnum,
þann hergamr
hrægum fæti,
víðs borinn,
á Vendli sparn.

Þau frá eg verk
Vötts og Fasta
sænskri þjóð
að sögum verða,
að eylands
jarlar Fróða
vígfrömuð
um veginn höfðu.


28. Kvonfang Aðils konungs

Aðils hét sonur Óttars konungs er konungdóm tók eftir hann. Hann var lengi konungur og mjög auðigur. Var hann og nokkur sumur í víking. Aðils konungur kom með her sinn til Saxlands. Þar réð fyrir konungur er Geirþjófur hét en kona hans hét Ólöf hin ríka. Ekki er getið barna þeirra. Konungur var eigi í landinu. Aðils konungur og menn hans runnu upp til konungsbæjar og rændu þar. Sumir reka ofan hjörð til strandarhöggs. Hjarðarinnar hafði gætt ánauðigt fólk, karlar og konur, og höfðu þeir það allt með sér. Í því liði var mær ein undarlega fögur. Sú nefndist Yrsa. Fór þá Aðils konungur heim með herfang.

Yrsa var ekki með ambáttum. Brátt fannst það að hún var vitur og vel orðum farin og allra hluta vel kunnandi. Fannst mönnum mikið um hana og þó konungi mest. Kom þá svo að Aðils gerði brullaup til hennar. Var þá Yrsa drottning í Svíþjóð og þótti hún hinn mesti skörungur.


29. Dauði Aðils konungs

Helgi konungur Hálfdanarson réð þá fyrir Hleiðru. Hann kom til Svíþjóðar með her svo mikinn að Aðils konungur sá engan annan sinn kost en flýja undan. Helgi konungur gekk þar á land með her sinn og herjaði, fékk mikið herfang. Hann tók höndum Yrsu drottningu og hafði með sér til Hleiðrar og gekk að eiga hana. Þeirra sonur var Hrólfur kraki.

En er Hrólfur var þrevetur þá kom Ólöf drottning til Danmerkur. Sagði hún þá Yrsu að Helgi konungur, maður hennar, var faðir hennar en Ólöf móðir hennar. Fór þá Yrsa aftur til Svíþjóðar til Aðils og var þar drottning meðan hún lifði síðan. Helgi konungur féll í hernaði. Hrólfur kraki var þá átta vetra og var þá til konungs tekinn að Hleiðru.

Aðils konungur átti deilur miklar við konung þann er Áli hét hinn upplenski. Hann var úr Noregi. Þeir áttu orustu á Vænis ísi. Þar féll Áli konungur en Aðils hafði sigur. Frá þessi orustu er langt sagt í Skjöldunga sögu og svo frá því er Hrólfur kraki kom til Uppsala til Aðils. Þá söri Hrólfur kraki gullinu á Fýrisvöllu.

Aðils konungur var mjög kær að góðhestum. Hann átti hina bestu hesta í þann tíma. Slöngvir hét hestur hans en annar Hrafn. Þann tók hann af Ála dauðum og var þar undir alinn annar hestur er Hrafn hét. Þann sendi hann til Hálogalands Goðgesti konungi. Þeim reið Goðgestur konungur og fékk eigi stöðvað áður hann féll af baki og fékk bana. Það var í Ömd á Hálogalandi.

Aðils konungur var að dísablóti og reið hesti um dísarsalinn. Hesturinn drap fótum undir honum og féll og konungur af fram og kom höfuð hans á stein svo að hausinn brotnaði en heilinn lá á steininum. Það var hans bani. Hann dó að Uppsölum og er þar heygður. Kölluðu Svíar hann ríkan konung.

Svo segir Þjóðólfur:

Það frá eg enn
að Aðils fjörvi
vitta véttr
um viða skyldi
og dáðgjarn
af drasils bógum
Freys áttungr
falla skyldi.

Og við aur
ægir hjarna
bragnings burs
um blandinn varð,
og dáðsæll
deyja skyldi
Ála dólgr
að Uppsölum.


30. Fall Hrólfs kraka

Eysteinn hét sonur Aðils er þar næst réð Svíaveldi. Á hans dögum féll Hrólfur kraki að Hleiðru. Í þann tíma herjuðu konungar mjög í Svíaveldi, bæði Danir og Norðmenn. Voru margir sækonungar þeir er réðu liði miklu og áttu engi lönd. Þótti sá einn með fullu mega heita sækonungur er hann svaf aldrei undir sótkum ási og drakk aldrei að arinshorni.


31. Dauði Sölva konungs

Sölvi hét sækonungur, sonur Högna í Njarðey, er þá herjaði í Austurveg. Hann átti ríki á Jótlandi. Hann hélt liði sínu til Svíþjóðar. Þá var Eysteinn konungur á veislu í héraði því er Lófund heitir. Þar kom Sölvi konungur á óvart um nótt og tók hús á konungi og brenndi hann inni með hirð sína alla.

Þá fer Sölvi til Sigtúna og beiðir sér konungsnafns og viðurtöku en Svíar safna her og vilja verja land sitt og varð þar orusta svo mikil að það er sagt að eigi sleit á ellefu dægrum. Þar fékk Sölvi konungur sigur og var hann þá konungur yfir Svíaveldi langa hríð til þess er Svíar sviku hann og var hann þar drepinn.

Svo segir Þjóðólfur:

Veit eg Eysteins
enda fólginn
lokins lífs
á Lófundi,
og sikling
með Svíum kváðu
jóska menn
inni brenna.

Og bitsótt
í brandnói
hlíðar þangs
á hilmi rann,
þá er timbrfastr
tóftar nökkvi,
flotna fullr,
of fylki brann.


32. Dráp Yngvars konungs

Yngvar hét sonur Eysteins konungs er þá var konungur yfir Svíaveldi. Hann var hermaður mikill og var oft á herskipum því að þá var áður Svíaríki mjög herskátt, bæði af Dönum og Austurvegsmönnum. Yngvar konungur gerði frið við Dani, tók þá að herja um Austurvegu.

Á einu sumri hafði hann her úti og fór til Eistlands og herjaði þar um sumarið sem heitir að Steini. Þá komu Eistur ofan með mikinn her og áttu þeir orustu. Var þá landherinn svo drjúgur að Svíar fengu eigi mótstöðu. Féll þá Yngvar konungur en lið hans flýði. Hann er heygður þar við sjá sjálfan. Það er á Aðalsýslu. Fóru Svíar heim eftir ósigur þenna.

Svo segir Þjóðólfur:

Það stökk upp
að Yngvari
Sýslu kind
um sóað hefði
og ljóshömum
við lagar hjarta
her eistneskr
að hilmi vó,
og austmar
jöfri sænskum
Gymis ljóð
að gamni kveðr.


33. Frá Önundi konungi

Önundur hét sonur Yngvars er þar næst tók konungdóm í Svíþjóð. Um hans daga var friður góður í Svíþjóð og varð hann mjög auðigur að lausafé. Önundur konungur fór með her sinn til Eistlands að hefna föður síns, gekk þar upp með her sinn og herjaði víða um landið og fékk herfang mikið, fer aftur um haustið til Svíþjóðar. Um hans daga var ár mikið í Svíþjóðu. Önundur var allra konunga vinsælstur.

Svíþjóð er markland mikið og liggja þar svo eyðimerkur að margar dagleiðir eru yfir. Önundur konungur lagði á það kapp mikið og kostnað að ryðja markir og byggja eftir ruðin. Hann lét og leggja vegu yfir eyðimerkur og fundust þá víða í mörkunum skóglaus lönd og byggðust þar þá stór héruð. Varð af þessum hætti land byggt því að landsfólkið var gnógt til byggðarinnar. Önundur konungur lét brjóta vegu um alla Svíþjóð, bæði um markir og mýrar og fjallvegu. Fyrir því var hann Braut-Önundur kallaður. Önundur konungur setti bú sín í hvert stórhérað á Svíþjóð og fór um allt landið að veislum.


34. Upphaf Ingjalds illráða

Braut-Önundur átti son er Ingjaldur hét. Þá var konungur á Fjaðryndalandi Yngvar. Hann átti sonu tvo við konu sinni. Hét annar Álfur en annar Agnar. Þeir voru mjög jafnaldrar Ingjalds. Víða um Svíþjóð voru í þann tíma héraðskonungar. Braut-Önundur réð fyrir Tíundalandi. Þar eru Uppsalir. Þar er allra Svía þing. Voru þar þá blót mikil. Sóttu þannug margir konungar. Var það að miðjum vetri.

Og einn vetur, þá er fjölmennt var komið til Uppsala, var þar Yngvar konungur og synir hans. Þeir voru sex vetra gamlir, Álfur sonur Yngvars konungs og Ingjaldur sonur Önundar konungs. Þeir efldu til sveinaleiks og skyldi hvor ráða fyrir sínu liði. Og er þeir lékust við var Ingjaldur ósterkari en Álfur og þótti honum það svo illt að hann grét mjög, og þá kom til Gautviður fóstbróðir hans og leiddi hann í brott til Svipdags blinda fósturföður hans og sagði honum að illa hafði að farið og hann var ósterkari og óþróttkari í leiknum en Álfur sonur Yngvars konungs. Þá svaraði Svipdagur að það væri mikil skömm.

Annan dag eftir lét Svipdagur taka hjarta úr vargi og steikja á teini og gaf síðan Ingjaldi konungssyni að eta og þaðan af varð hann allra manna grimmastur og verst skaplundaður.

Og er Ingjaldur var roskinn þá bað Önundur konu til handa honum, Gauthildar dóttur Algauta konungs. Hann var sonur Gautreks konungs hins milda, sonar Gauts er Gautland er við kennt. Algautur konungur þóttist vita að hans dóttir mundi vel gift ef hún væri syni Önundar konungs, ef hann hefði skaplyndi föður síns, og var send mærin til Svíþjóðar og gerði Ingjaldur brullaup til hennar.


35. Dauði Önundar

Önundur konungur fór milli búa sinna á einu hausti með hirð sína og fór þangað sem kallað er Himinheiður. Það eru fjalldalir nokkurir þröngvir en há fjöll tveim megin. Þá var mikið regn en áður hafði snæ lagt á fjöllin. Þá hljóp ofan skriða mikil með grjóti og leiri. Þar varð fyrir Önundur konungur og lið hans. Fær konungur bana og mart lið með honum.

Svo segir Þjóðólfur:

Varð Önundr
Jónakrs bura
harmi heftr
und Himinfjöllum,
og ofvæg
Eistra dólgi
heift hrísungs
að hendi kom,
og sá frömuðr
foldar beinum
Högna hrörs
um horfinn var.


36. Brenna að Uppsölum

Ingjaldur sonur Önundar konungs var konungur að Uppsölum. Uppsalakonungar voru æðstir konunga í Svíþjóð þá er þar voru margir héraðskonungar. Frá því er Óðinn var höfðingi í Svíþjóð voru einvaldshöfðingjar, þeir er að Uppsölum sátu, um allt Svíaveldi til þess er Agni dó en þá kom ríkið fyrst í bræðraskipti, svo sem fyrr er ritið, en síðan dreifðist ríki og konungdómur í ættir, svo sem þær greindust, en sumir konungar ruddu marklönd stór og byggðu þar og jóku þannug ríki sitt. En þá er Ingjaldur tók ríkið og konungdóm voru margir héraðskonungar sem fyrr er ritið.

Ingjaldur konungur lét búa veislu mikla að Uppsölum og ætlaði að erfa Önund konung föður sinn. Hann lét búa sal einn, engum mun minna eða óveglegra en Uppsalur var, er hann kallaði sjö konunga sal. Þar voru í ger sjö hásæti. Ingjaldur konungur sendi menn um alla Svíþjóð og bauð til sín konungum og jörlum og öðrum merkismönnum. Til þess erfis kom Algautur konungur, mágur Ingjalds, og Yngvar konungur af Fjaðryndalandi og synir hans tveir, Agnar og Álfur, Sporsnjallur konungur af Næríki, Sigverkur konungur af Áttundalandi. Granmar konungur af Suðurmannalandi var eigi kominn. Þar var sex konungum skipað í hinn nýja sal. Var þá eitt hásæti autt, það er Ingjaldur konungur hafði búa látið. Öllu liði því er til var komið var skipað í hinn nýja sal. Ingjaldur konungur hafði skipað hirð sinni og öllu liði sínu í Uppsal.

Það var siðvenja í þann tíma, þar er erfi skyldi gera eftir konunga eða jarla, þá skyldi sá er gerði og til arfs skyldi leiða sitja á skörinni fyrir hásætinu allt þar til er inn væri borið full það er kallað var bragafull. Skyldi sá þá standa upp í móti bragafulli og strengja heit, drekka af fullið síðan. Síðan skyldi hann leiða í hásæti það sem átti faðir hans. Var hann þá kominn til arfs alls eftir hann.

Nú var svo hér gert að þá er bragafull kom inn stóð upp Ingjaldur konungur og tók við einu miklu dýrshorni, strengdi hann þá heit að hann skyldi auka ríki sitt hálfu í hverja höfuðátt eða deyja ella, drakk af síðan af horninu.

Og er menn voru drukknir um kveldið þá mælti Ingjaldur konungur til Fólkviðar og Hulviðar sona Svipdags að þeir skyldu vopnast og lið þeirra sem ætlað var um kveldið. Þeir gengu út og til hins nýja sals, báru þar eld að og því næst tók salurinn að loga og brunnu þar inni sex konungar og lið þeirra allt og þeir er út leituðu, þá voru skjótt drepnir.

Eftir þetta lagði Ingjaldur konungur undir sig öll þessi ríki er konungar höfðu átt og tók skatta af.


37. Kvonfang Hjörvarðs

Granmar konungur spurði þessi tíðindi og þóttist hann vita að honum mundi slíkur kostur hugaður ef hann gyldi eigi varúð við.

Það sama sumar kemur liði sínu Hjörvarður konungur er Ylfingur var kallaður til Svíþjóðar og lagði í fjörð þann er Myrkvafjörður heitir. En er Granmar konungur spyr það sendir hann menn til hans og býður honum til veislu og öllu liði hans. Hann þekktist þetta því að hann hafði ekki herjað á ríki Granmars konungs. Og er hann kom til veislunnar þá var þar fagnaður mikill.

Og um kveldið er full skyldi drekka þá var það siðvenja konunga, þeirra er að löndum sátu eða veislum er þeir létu gera, að drekka skyldi á kveldum tvímenning, hvor sér karlmaður og kona svo sem ynnist, en þeir sér er fleiri væru saman. En það voru víkingalög þótt þeir væru að veislum að drekka sveitardrykkju. Hásæti Hjörvarðs konungs var búið gagnvart hásæti Granmars konungs og sátu allir hans menn á þann pall. Þá mælti Granmar konungur við Hildigunni dóttur sína að hún skyldi búa sig og bera öl víkingum. Hún var allra kvinna fríðust.

Þá tók hún silfurkálk einn og fyllti og gekk fyrir Hjörvarð konung og mælti: "Allir heilir Ylfingar að Hrólfs minni kraka" og drakk af til hálfs og seldi Hjörvarði konungi.

Nú tók hann kálkinn og hönd hennar með og mælti að hún skyldi ganga að sitja hjá honum. Hún sagði það ekki víkinga sið að drekka hjá konum tvímenning. Hjörvarður lét þess vera meiri von að hann mundi það skipti á gera að láta heldur víkingalögin og drekka tvímenning við hana. Þá settist Hildigunnur hjá honum og drukku þau bæði saman og töluðu mart um kveldið.

Eftir um daginn er þeir konungar hittust Granmar og Hjörvarður þá hóf Hjörvarður upp bónorð sitt og bað Hildigunnar. Granmar konungur bar þetta mál fyrir konu sína Hildi og aðra ríkismenn og sagði að þeim mundi vera mikið traust að Hjörvarði konungi. Og nú varð rómur að og þótti þetta öllum ráðlegt og lauk svo að Hildigunnur var föstnuð Hjörvarði konungi og gerði hann brullaup til hennar. Skyldi þá Hjörvarður konungur dveljast með Granmar konungi fyrir því að hann átti engan son til ríkis að varðveita með sér.


38. Orusta Ingjalds konungs og Granmars

Það sama haust safnaði Ingjaldur konungur sér liði og ætlar á hendur þeim mágum. Hann hefir her af öllum þeim ríkjum er áður hafði hann undir sig lagt. Og er þeir spyrja það mágar safna þeir liði í sínu ríki og kemur til liðs við þá Högni konungur og Hildir sonur hans er réðu fyrir Eystra-Gautlandi. Högni var faðir Hildar er átti Granmar konungur.

Ingjaldur konungur gekk á land með öllum her sínum og hafði lið miklu meira. Sígur þá saman orusta og er hörð. En er litla hríð hafði barist verið þá flýja þeir höfðingjar er réðu fyrir Fjaðryndalandi og Vestur-Gautum og af Næríki og Áttundalandi og allur sá her er af þeim löndum hafði farið og fóru til skipa sinna. Eftir þetta var Ingjaldur konungur staddur nauðulega og fékk sár mörg og komst við þetta á flótta til skipa sinna en þar féll Svipdagur blindi fóstri hans og synir hans báðir, Gautviður og Hulviður.

Ingjaldur konungur fór aftur við svo búið til Uppsala og undi illa sinni ferð og þóttist það finna að honum mundi vera her sá ótrúr er hann hafði úr sínu ríki, því er hann fékk með hernaði.

Eftir þetta var ófriður mikill millum Ingjalds konungs og Granmars konungs. Nú er langar hríðir hafði þannug fram farið komu vinir beggja því við að þeir sættust og lögðu konungar stefnu með sér og hittust og gerðu frið millum sín, Ingjaldur konungur og Granmar konungur og Hjörvarður konungur mágur hans. Skyldi friður sá standa millum þeirra meðan þeir lifðu þrír konungar. Var það bundið eiðum og tryggðum.

Eftir um vorið fór Granmar konungur til Uppsala að blóta sem siðvenja var til móti sumri að friður væri. Féll honum þá svo spánn sem hann mundi eigi lengi lifa. Fór hann þá heim í ríki sitt.


39. Dauði Granmars konungs

Um haustið eftir fór Granmar konungur og Hjörvarður konungur mágur hans að taka veislu í ey þeirri er Sili heitir að búum sínum. Og þá er þeir voru að veislunni kemur þar Ingjaldur konungur með her sinn á einni nótt og tók hús á þeim og brenndi þá inni með öllu liði sínu. Eftir það lagði hann undir sig ríki það allt er átt höfðu konungar og setti yfir höfðingja.

Högni konungur og Hildir sonur hans riðu oft upp í Svíaveldi og drápu menn Ingjalds konungs, þá er hann hafði sett yfir það ríki er átt hafði Granmar konungur mágur þeirra. Stóð þar langa hríð mikil deila millum Ingjalds konungs og Högna konungs. Fékk Högni konungur þó haldið sínu ríki fyrir Ingjaldi konungi allt til dauðadags.

Ingjaldur konungur átti tvö börn við konu sinni og hét hið eldra Ása en annað Ólafur trételgja, og sendir Gauthildur kona Ingjalds konungssveininn til Bófa fóstra síns í Vestra-Gautland. Hann var þar upp fæddur og Saxi sonur Bófa er kallaður var flettir.

Það er sögn manna að Ingjaldur konungur dræpi tólf konunga og sviki alla í griðum. Hann var kallaður Ingjaldur hinn illráði. Hann var konungur yfir mestum hlut Svíþjóðar. Ásu dóttur sína gifti hann Guðröði konungi á Skáni. Hún var skaplík föður sínum. Ása olli því er hann drap Hálfdan bróður sinn. Hálfdan var faðir Ívars hins víðfaðma. Ása réð og bana Guðröði búanda sínum.


40. Dauði Ingjalds illráða

Ívar hinn víðfaðmi kom á Skáni eftir fall Guðröðar föðurbróður síns og dró þegar her mikinn saman, fór síðan upp á Svíþjóð. Ása hin illráða var áður farin á fund föður síns. Ingjaldur konungur var þá staddur á Ræningi að veislu er hann spurði að her Ívars konungs var þar nær kominn. Þóttist Ingjaldur engan styrk hafa til að berjast við Ívar. Honum þótti og sá sýnn kostur, ef hann legðist á flótta, að hvaðanæva mundu fjandmenn hans að drífa. Tóku þau Ása það ráð er frægt er orðið að þau gerðu fólk allt dauðadrukkið. Síðan létu þau leggja eld í höllina. Brann þar höllin og allt fólk það er inni var með Ingjaldi konungi.

Svo segir Þjóðólfur:

Og Ingjald
ífjörvan trað
reyks rösuðr
á Ræningi
þá er húsþjófr
hyrjar leistum
goðkynning
í gegnum steig.

Og sá urðr
allri þjóðu
sjaldgætastr
með Svíum þótti,
er hann sjálfr
sínu fjörvi
fræknu fyrstr
um fara vildi.


41. Frá Ívari víðfaðma

Ívar víðfaðmi lagði undir sig allt Svíaveldi. Hann eignaðist og allt Danaveldi og mikinn hlut Saxlands og allt Austurríki og hinn fimmta hlut Englands. Af hans ætt eru komnir Danakonungar og Svíakonungar, þeir er þar hafa einvald haft.

Eftir Ingjald illráða hvarf Uppsalaveldi úr ætt Ynglinga, það er langfeðgum mætti telja.


42. Frá Ólafi trételgju

Ólafur sonur Ingjalds konungs, þá er hann spurði fráfall föður síns þá fór hann með það lið er honum vildi fylgja því að allur múgur Svía hljóp upp með einu samþykki að rækja ætt Ingjalds konungs og alla hans vini. Ólafur fór fyrst upp á Næríki en er Svíar spurðu til hans þá mátti hann ekki þar vera. Fór hann þá vestur markleiði til ár þeirrar er norðan fellur í Væni og Elfur heitir. Þar dveljast þeir, taka þar að ryðja mörkina og brenna og byggja síðan. Urðu þar brátt stór héruð. Kölluðu þeir það Vermaland. Þar voru góðir landskostir. En er spurðist til Ólafs í Svíþjóð, að hann ryður markir, kölluðu þeir hann trételgju og þótti hæðilegt hans ráð.

Ólafur fékk þeirrar konu er Sölveig hét eða Sölva dóttir Hálfdanar gulltannar vestan af Sóleyjum. Hálfdan var sonur Sölva Sölvarssonar Sölvasonar hins gamla er fyrstur ruddi Sóleyjar. Móðir Ólafs trételgju hét Gauthildur en hennar móðir Ólöf dóttir Ólafs hins skyggna konungs af Næríki. Ólafur og Sölva áttu tvo sonu, Ingjald og Hálfdan. Hálfdan var upp fæddur í Sóleyjum með Sölva móðurbróður sínum. Hann var kallaður Hálfdan hvítbeinn.


43. Brenndur inni Ólafur trételgja

Það var mikill mannfjöldi er útlagi fór af Svíþjóð fyrir Ívari konungi. Þeir spurðu að Ólafur trételgja hafði landskosti góða á Vermalandi og dreif þannug til hans svo mikill mannfjöldi að landið fékk eigi borið. Gerðist þar hallæri mikið og sultur. Kenndu þeir það konungi sínum, svo sem Svíar eru vanir að kenna konungi bæði ár og hallæri.

Ólafur konungur var lítill blótmaður. Það líkaði Svíum illa og þótti þaðan mundu standa hallærið. Drógu Svíar þá her saman, gerðu för að Ólafi konungi og tóku hús á honum og brenndu hann inni og gáfu hann Óðni og blétu honum til árs sér. Það var við Væni.

Svo segir Þjóðólfur:

Og við vog,
hinn er viðjar..,
hræ Ólafs
hofgyldir svalg,
og glaðfjálgr
gervar leysti
sonr Fornjóts
af Svía jöfri.
Sá áttkonr
frá Uppsölum
lofða kyns
fyr löngu hvarf.

Þeir er vitrari voru af Svíum fundu þá að það olli hallærinu að mannfólkið var meira en landið mætti bera en konungur hafði engu um valdið. Taka nú það ráð að fara með herinn allan vestur yfir Eiðaskóg og koma fram í Sóleyjum mjög á óvart. Þeir drápu Sölva konung og tóku höndum Hálfdan hvítbein. Þeir taka hann til höfðingja yfir sig og gefa honum konungsnafn. Lagði hann þá undir sig Sóleyjar. Síðan fór hann með herinn út á Raumaríki og herjar þar og fékk fylki það af hernaði.


44. Frá Hálfdani

Hálfdan hvítbeinn var konungur ríkur. Hann átti Ásu dóttur Eysteins hins harðráða Upplendingakonungs. Hann réð fyrir Heiðmörk. Þau Hálfdan áttu tvo sonu, Eystein og Guðröð. Hálfdan eignaðist mikið af Heiðmörk og Þótn og Haðaland og mikið af Vestfold. Hann varð gamall maður. Hann varð sóttdauður á Þótni og var síðan fluttur út á Vestfold og heygður þar sem heitir Skæreið í Skíringssal.

Svo segir Þjóðólfur:

Það frá hver,
að Hálfdanar
sökkmiðlendr
sakna skyldu,
og hallvarps
hlífi-Nauma
þjóðkonung
á Þótni tók.
Og Skæreið
í Skíringssal
of brynjálfs
beinum drúpir.


45. Frá Ingjaldi

Ingjaldur bróðir Hálfdanar var konungur í Vermalandi en eftir dauða hans lagði Hálfdan konungur Vermaland undir sig og tók skatta af og setti þar jarla yfir meðan hann lifði.


46. Dauði Eysteins konungs

Eysteinn sonur Hálfdanar hvítbeins er konungur var eftir hann á Raumaríki og á Vestfold, hann átti Hildi dóttur Eiríks Agnarssonar er konungur var á Vestfold. Agnar faðir Eiríks var sonur Sigtryggs konungs af Vindli. Eiríkur konungur átti engan son. Hann dó þá er Hálfdan konungur hvítbeinn lifði. Tóku þeir feðgar Hálfdan og Eysteinn þá undir sig alla Vestfold. Réð Eysteinn Vestfold meðan hann lifði.

Þá var sá konungur á Vörnu er Skjöldur hét. Hann var allmjög fjölkunnigur. Eysteinn konungur fór með herskip nokkur yfir á Vörnu og herjaði þar, tók slíkt er fyrir varð, klæði og aðra gripi og gögn búanda og hjuggu strandhögg, fóru í brott síðan.

Skjöldur konungur kom til strandar með her sinn. Var Eysteinn konungur þá í brottu og kominn yfir fjörðinn og sá Skjöldur segl þeirra. Þá tók hann möttul sinn og veifði og blés við. Þá er þeir sigldu inn um Jarlsey sat Eysteinn konungur við stýri. Skip annað sigldi nær þeim. Báruskot nokkuð var í. Laust beitiásinn af öðru skipi konung fyrir borð. Það var hans bani. Menn hans náðu líkinu. Var það flutt inn á Borró og orpinn haugur eftir á röðinni út við sjá við Vöðlu.

Svo segir Þjóðólfur:

En Eysteinn
fyr ási fór
til Býleists
bróður meyjar,
og nú liggr
und lagar beinum
rekks löðuðr
á raðar broddi,
þar er élkaldr
hjá jöfur gauskum
Vöðlu straumr
að vogi kemr.


47. Dauði Hálfdanar konungs

Hálfdan hét sonur Eysteins konungs er konungdóm tók eftir hann. Hann var kallaður Hálfdan hinn mildi og hinn matarilli. Svo er sagt að hann gaf þar í mála mönnum sínum jafnmarga gullpeninga sem aðrir konungar silfurpeninga en hann svelti menn að mat. Hann var hermaður mikill og var löngum í víkingu og fékk sér fjár. Hann átti Hlíf dóttur Dags konungs af Vestmörum. Holtar á Vestfold var höfuðbær hans. Þar varð hann sóttdauður og er hann heygður á Borró.

Svo segir Þjóðólfur:

Og til þings
þriðja jöfri
Hveðrungs mær
úr heimi bauð,
þá er Hálfdan
sá er á holti bjó,
norna dóms
um notið hafði.
Og buðlung
á Borrói
sigrhafendr
síðan fálu.


48. Dauði Guðröðar

Guðröður hét sonur Hálfdanar er konungdóm tók eftir hann. Hann var kallaður Guðröður hinn mikilláti en sumir kölluðu hann veiðikonung. Hann átti þá konu er Álfhildur hét, dóttir Alfarins konungs úr Álfheimum, og hafði með henni hálfa Vingulmörk. Þeirra sonur var Ólafur er síðan var kallaður Geirstaðaálfur. Álfheimar voru þá kallaðir millum Raumelfar og Gautelfar.

En er Álfhildur var önduð þá sendi Guðröður konungur menn sína vestur á Agðir til konungs þess er þar réð fyrir. Sá er nefndur Haraldur hinn granrauði. Skyldu þeir biðja Ásu dóttur hans til handa konungi en Haraldur synjaði. Komu sendimenn aftur og sögðu konungi sitt erindi. En nokkurri stundu síðar skaut Guðröður konungur skipum á vatn, fór síðan með liði miklu út á Agðir, kom mjög á óvart og veitti upprás, kom um nótt á bæ Haralds konungs. En er hann varð var við að her var kominn á hendur honum þá gekk hann út með það lið sem hann hafði. Varð þar orusta og liðsmunur mikill. Þar féll Haraldur og Gyrður sonur hans. Tók Guðröður konungur herfang mikið. Hann hafði heim með sér Ásu dóttur Haralds konungs og gerði brullaup til hennar. Þau áttu son er Hálfdan hét.

En þá er Hálfdan var veturgamall, það haust fór Guðröður konungur að veislum. Hann lá með skipi sínu í Stíflusundi. Voru þar drykkjur miklar. Var konungur mjög drukkinn. Og um kveldið er myrkt var gekk konungur af skipi en er hann kom á bryggjusporð þá hljóp maður að honum og lagði spjóti í gegnum hann. Var það hans bani. Sá maður var þegar drepinn.

En um morguninn eftir er ljóst var þá var maður sá kenndur. Var það skósveinn Ásu drottningar. Duldi hún þá ekki að það voru hennar ráð.

Svo segir Þjóðólfur:

Varð Guðröðr
hinn göfugláti
lómi beittr,
sá er fyr löngu var,
og umráð,
að ölum stilli,
höfuð heiftrækt
að hilmi dró.

Og launsigr
hinn lómgeði
Ásu ár
af jöfri bar,
og buðlungr
á beði fornum
Stíflusunds
um stunginn var.


49. Dauði Ólafs konungs

Ólafur tók konungdóm eftir föður sinn. Hann var ríkur maður og hermaður mikill. Hann var allra manna fríðastur og mestur vexti. Hann hafði Vestfold því að Álfgeir konungur tók þá undir sig Vingulmörk alla. Setti hann þar yfir Gandálf konung son sinn. Þá gengu þeir feðgar mjög á Raumaríki og eignuðust mestan hlut þess ríkis og fylkis.

Högni hét sonur Eysteins hins ríka Upplendingakonungs. Hann lagði þá undir sig Heiðmörk alla og Þótn og Haðaland. Þá hvarf og undan þeim Guðröðarsonum Vermaland og snerust þeir þá að skattgjöfum til Svíakonungs.

Ólafur var þá á tvítugsaldri er Guðröður konungur andaðist. En er Hálfdan konungur bróðir hans gekk til ríkis með honum þá skiptu þeir Vestfold með sér. Hafði Ólafur hinn vestra hlut en Hálfdan hinn innra. Ólafur konungur hafði að Geirstöðum aðsetu. Hann tók fótarverk og andaðist þar af og er hann heygður á Geirstöðum.

Svo segir Þjóðólfur:

Og niðkvísl
í Noregi
þróttar Þrós
of þróast náði.
Réð Ólafr
ofsa forðum
víðri grund
of Vestmari.

Uns fótverkr
við Foldar þröm
vígmiðlung
of viða skyldi.
Nú liggr gunndjarfr
á Geirstöðum
herkonungr
haugi ausinn.


50. Rögnvaldur heiðumhæri

Rögnvaldur hét son Ólafs er konungur var á Vestfold eftir föður sinn. Hann var kallaður heiðumhæri. Um hann orti Þjóðólfur hinn hvinverski:

Það veit eg best
und blám himni
kenninafn,
svo að konungr eigi,
er Rögnvaldr
reiðar stjóri,
heiðumhæri
of heitinn er,
og mildgeðr
markar drottinn.




Netútgáfan - ágúst 1999