ÓLAFS  SAGA  KYRRA




1. Saga Ólafs konungs kyrra

Ólafur var einn konungur yfir Noregi eftir andlát Magnúss bróður síns. Ólafur var maður mikill á allan vöxt og vel vaxinn. Það er allra manna sögn að engi maður hafi séð fegra mann eða tígulegra sýnum. Hann hafði gult hár sem silki og fór afar vel, bjartan líkam, eygður manna best, limaður vel, fámálugur oftast og ekki talaður á þingum, glaður við öl, drykkjumaður mikill, málrætinn og blíðmæltur, friðsamur meðan hans ríki stóð.

Þess getur Steinn Herdísarson:

Lönd vill þengill Þrænda,
þat líkar vel skötnum,
öll við ærna snilli
eggdjarfr í frið leggja.
Hugnar þjóð það er þegna
þrályndr til friðmála
kúgar Engla ægir.
Ólafr borinn sólu.


2. Frá siðum Ólafs konungs

Það var siður forn í Noregi að konungshásæti var á miðjum langpalli. Var öl um eld borið. En Ólafur konungur lét fyrst gera sitt hásæti á hápalli um þvera stofu. Hann lét og fyrst gera ofnstofur og strá gólf um vetur sem um sumar.

Um daga Ólafs konungs hófust mjög kaupstaðir í Noregi en sumir settust að upphafi. Ólafur konungur setti kaupstað í Björgyn. Gerðist þar brátt mikið setur auðigra manna og tilsiglingar kaupmanna af öðrum löndum. Hann lét reisa þar af grundvelli Kristskirkju, hina miklu steinkirkju, og var að henni lítið gert en hann lét algera trékirkjuna. Ólafur konungur lét setja Miklagildi í Niðarósi og mörg önnur í kaupstöðum en áður voru þar hvirfingsdrykkjur. Þá var Bæjarbót hin mikla hvirfingsklokka í Niðarósi. Hvirfingsbræður létu þar gera Margrétarkirkju, steinkirkju.

Á dögum Ólafs konungs hófust skytningar og leiðsludrykkjur í kaupstöðum. Og þá tóku menn upp sundurgerðir, höfðu drambhosur lerkaðar að beini, sumir spenntu gullhringum um fótleggi sér og þá höfðu menn dragkyrtla, lás að síðu, ermar fimm alna langar og svo þröngvar að draga skyldi við handtugli og lerka allt að öxl upp, hávir skúar og allir silkisaumaðir en sumir gulllagðir. Mörg önnur sundurgerð var þá.


3. Frá hirðsiðum

Ólafur konungur hafði þá hirðsiðu að hann lét standa fyrir borði sínu skutilsveina og skenkja sér með borðkerum og svo öllum tignum mönnum þeim er að hans borði sátu. Hann hafði og kertisveina þá er kertum héldu fyrir borði hans og jafnmörgum sem tignir menn sátu upp. Þar var og stallarastóll utar frá trapisu er stallarar sátu á og aðrir gæðingar og horfðu innar í mót hásæti. Haraldur konungur og aðrir konungar fyrir honum voru vanir að drekka af dýrahornum og bera öl úr öndugi um eld og drekka minni á þann er honum sýndist.

Svo segir Stúfur skáld:

Vissi eg hildar hvessi,
hann var nýstr að kanna,
af góðum byr Gríðar
gagnsælan mér fagna,
þá er blóðstara bræðir,
baugum grimmr, að Haugi
gjarn með gylltu horni
gekk sjálfr á mig drekka.


4. Hirðskipan Ólafs konungs

Ólafur konungur hafði hundrað hirðmanna og sex tigu gesta og sex tigu húskarla, þeirra er flytja skyldu til garðsins það er þurfti eða starfa aðra hluti þá sem konungur vildi. En er bændur spurðu konung þess fyrir hví hann hefði meira lið en lög voru til eða fyrri konungar höfðu haft þá er hann fór á veislur þar sem bændur gerðu fyrir honum.

Konungur svarar svo: "Eigi fæ eg betur stýrt ríkinu og eigi er meiri ógn af mér en af föður mínum þótt eg hafi hálfu fleira lið en hann hafði en engi pynding gengur mér til þess við yður eða það að eg vilji þyngja kostum yðrum."


5. Dauði Sveins konungs Úlfssonar

Sveinn konungur Úlfsson varð sóttdauður tíu vetrum eftir fall Haraldanna. Þar næst var konungur í Danmörk Haraldur hein sonur hans fjóra vetur, þá Knútur sonur Sveins annar sjö vetur og er sannheilagur, þá Ólafur hinn þriðji sonur Sveins átta vetur, þá Eiríkur góði fjórði sonur Sveins konungs enn átta vetur.

Ólafur Noregskonungur fékk Ingiríðar dóttur Sveins Danakonungs en Ólafur Danakonungur Sveinsson fékk Ingigerðar dóttur Haralds konungs, systur Ólafs Noregskonungs.

Ólafur Haraldsson, er sumir kölluðu Ólaf kyrra en margir Ólaf bónda, hann gat son við Þóru Jónsdóttur. Sá var nefndur Magnús. Var sá sveinn hinn fríðasti sýnum og allmannvænn. Óx hann upp í hirð konungs.


6. Jartegnir Ólafs konungs

Ólafur konungur lét gera steinmusteri í Niðarósi og setti í þeim stað sem fyrst hafði verið jarðað lík Ólafs konungs og var þar yfir sett altarið sem gröftur konungs hafði verið. Þar var vígð Kristskirkja. Var þá og þannug flutt skrín Ólafs konungs og sett þar yfir altari. Urðu þar þá margar jartegnir.

En annað sumar eftir að jafnlengd þess er kirkjan hafði vígð verið þá var þar allfjölmennt. Það var Ólafsvökuaftan að blindur maður fékk þar sýn sína. En sjálfan messudaginn þá er skrínið og helgir dómar voru út bornir, skrínið var sett niður í kirkjugarðinn svo sem siðvenja var til, þá fékk sá maður mál sitt er lengi áður hafði mállaus verið og söng þá lof guði og hinum helga Ólafi konungi með mjúku tungubragði.

Kona var hinn þriðji maður er þannug hafði sótt af Svíþjóðu austan og hafði í þeirri för þolað mikla nauð fyrir sjónleysis sökum en þó treystist hún miskunn guðs og kom þar farandi að þeirri hátíð. Hún var leidd sjónlaus í musterið að messu um daginn en fyrr en tíðum var lokið sá hún báðum augum og var þá skyggn og bjarteyg en áður hafði hún verið blind fjórtán vetur. Fór hún þaðan með háleitum fagnaði.

Sá atburður gerðist í Niðarósi að skrín Ólafs konungs var borið um stræti að höfugt varð skrínið svo að eigi fengu menn borið fram úr stað. En síðan var skrínið niður sett og brotið upp strætið og leitað hvað þar var undir og fannst þar barnslík er myrt hafði verið og fólgið þar. Var það þá á brott borið en bætt aftur strætið svo sem áður hafði verið en borið skrín að vanda.


7. Dauði Ólafs konungs

Ólafur konungur sat oftlega í héraði að stórbúum er hann átti. En er hann var austur í Ranríki á Haukbæ að búi sínu þá tók hann sótt þá er hann leiddi til bana. Þá hafði hann verið konungur að Noregi sex vetur og tuttugu en hann var til konungs tekinn einum vetri eftir fall Haralds konungs. Lík Ólafs konungs var flutt norður til Niðaróss og jarðað að Kristskirkju þeirri er hann lét gera.

Hann var hinn vinsælsti konungur og hafði Noregur mikið auðgast og prýðst undir hans ríki.




Netútgáfan - nóvember 1999