HARALDAR  SAGA  HÁRFAGRA




1. Hér hefur upp sögu Haralds konungs hárfagra

Haraldur tók konungdóm eftir föður sinn. Þá var hann tíu vetra gamall. Hann var allra manna mestur og sterkastur og fríðastur sýnum, vitur maður og skörungur mikill. Guttormur móðurbróðir hans gerðist forstjóri fyrir hirðinni og fyrir öllum landráðum. Hann var hertogi fyrir liðinu.

Eftir líflát Hálfdanar svarta gengu margir höfðingjar á ríkið, það er hann hafði leift. Var hinn fyrsti maður Gandálfur konungur og þeir bræður Högni og Fróði, synir Eysteins konungs af Heiðmörk, og Högni Káruson gekk víða yfir Hringaríki.

Þá byrjar ferð sína Haki Gandálfsson út á Vestfold með þrjú hundruð manna og fór hið efra um dali nokkura og ætlaði að koma á óvart Haraldi konungi en Gandálfur konungur sat í Lóndum með her sinn og þar ætlaði hann að flytjast yfir fjörðinn á Vestfold.

En er það spyr Guttormur hertogi safnar hann her og fer með Haraldi konungi og vendir fyrst móti Haka upp á land og finnast þeir í dal nokkurum. Varð þar orusta og fékk Haraldur konungur sigur. Þar féll Haki konungur og mikill hluti liðs hans. Þar heitir síðan Hakadalur.

Eftir það venda þeir aftur, Haraldur konungur og Guttormur hertogi, en þá var Gandálfur konungur kominn á Vestfold. Og fara nú hvorir móti öðrum og er þeir finnast verður orusta hörð. Þaðan flýði Gandálfur konungur og lét mestan hluta liðs síns og komst við svo búið í ríki sitt.

Og er þessi tíðindi spyrja synir Eysteins konungs á Heiðmörk væntu þeir sér skjótt hers. Þeir gera orð Högna Kárusyni og Guðbrandi hersi og leggja stefnu sína á Heiðmörk á Hringisakri.


2. Fall Eysteinssona

Eftir þessar orustur fer Haraldur konungur og Guttormur hertogi og allt lið það er þeir fá og venda til Upplanda og fara mjög markleið. Þeir spyrja hvar Upplendingakonungar hafa lagt stefnu sína og koma þar um miðnætti. Og verða eigi varðmenn fyrr varir við en lið var komið fyrir þá stofu er inni var Högni Káruson og svo þá er Guðbrandur svaf í, og lögðu eld í hvoratveggju. En Eysteinssynir komust út með sína menn og börðust um hríð og féllu þar báðir, Högni og Fróði.

Eftir fall þessa fjögurra höfðingja eignaðist Haraldur konungur með kraft og framkvæmd Guttorms frænda síns Hringaríki og Heiðmörk, Guðbrandsdali og Haðaland, Þótn og Raumaríki, Vingulmörk, allan hinn nyrðra hlut.

Eftir það höfðu þeir Haraldur konungur og Guttormur hertogi ófrið og orustur við Gandálf konung og lauk með því að Gandálfur konungur féll í hinni síðustu orustu en Haraldur konungur eignaðist ríki allt suður til Raumelfar.


3. Frá Gyðu Eiríksdóttur

Haraldur konungur sendi menn sína eftir meyju einni er Gyða er nefnd, dóttir Eiríks konungs af Hörðalandi, hún var að fóstri á Valdresi með ríkum búanda, er hann vildi taka til frillu sér því að hún var allfríð mær og heldur stórlát. En er sendimenn komu þar þá báru þeir upp erindi sín fyrir meyna.

Hún svaraði á þessa lund að eigi vill hún spilla meydómi sínum til þess að taka til manns þann konung er eigi hefir meira ríki en nokkur fylki til forráða. "En það þykir mér undarlegt," segir hún, "er engi er sá konungur er svo vill eignast Noreg að vera einvaldi yfir sem hefir Gormur konungur að Danmörku eða Eiríkur að Uppsölum."

Sendimönnum þykir hún svara furðu stórlega og spyrja hana máls um hvar til svör þessi skulu koma, segja að Haraldur er konungur svo ríkur að henni er fullræði í. En þó að hún svari á annan veg þeirra erindum en þeir mundu vilja þá sjá þeir engan sinn kost til þess að sinni að þeir mundu hana í brott hafa nema hennar vilji væri til þess og búast þeir þá ferðar sinnar. En er þeir eru búnir leiða menn þá út.

Þá mælti Gyða við sendimenn, bað þá bera þau orð sín Haraldi konungi að hún mun því að einu játa að gerast eiginkona hans ef hann vill það gera fyrir hennar sakir áður að leggja undir sig allan Noreg og ráða því ríki jafnfrjálslega sem Eiríkur konungur Svíaveldi eða Gormur konungur Danmörku, "því að þá þykir mér," segir hún, "hann mega heita þjóðkonungur."


4. Heitstrenging Haralds konungs

Sendimenn fara nú aftur til Haralds konungs og segja honum þessi orð meyjarinnar og telja að hún er furðu djörf og óvitur og segja það maklegt að konungur sendi lið mikið eftir henni við ósæmd.

Þá svarar Haraldur konungur að eigi hefði þessi mær illa mælt eða gert svo að hefnda væri fyrir vert, bað hana hafa mikla þökk fyrir orð sín, "hún hefir minnt mig þeirra hluta," segir hann, "er mér þykir nú undarlegt er eg hefi eigi fyrr hugleitt."

Og enn mælti hann: "Þess strengi eg heit og því skýt eg til guðs þess er mig skóp og öllu ræður að aldrei skal skera hár mitt né kemba fyrr en eg hefi eignast allan Noreg með sköttum og skyldum og forráði en deyja að öðrum kosti."

Þessi orð þakkaði honum mjög Guttormur hertogi og lét það vera konunglegt verk að efna orð sín.


5. Orusta í Orkadal

Eftir þetta safna þeir frændur liði miklu og búa ferð sína á Upplönd og svo norður um Dali og þaðan norður um Dofrafjall. Og þá er hann kom ofan í byggðina þá lét hann drepa menn alla og brenna byggðina. En er fólkið varð þessa víst þá flýði hver er mátti, sumir ofan til Orkadals, sumir til Gaulardals, sumir á markir, sumir leituðu griða og það fengu allir þeir er á konungs fund komu og gerðust hans menn.

Þeir fengu enga mótstöðu fyrr en þeir komu til Orkadals. Þar var safnaður fyrir þeim. Þar áttu þeir hina fyrstu orustu við konung þann er Grýtingur hét. Haraldur konungur fékk sigur en Grýtingur var handtekinn og drepið mikið lið af honum en hann gekk til handa Haraldi konungi og svarði honum trúnaðareiða. Eftir það gekk allt fólk undir Harald konung í Orkdælafylki og gerðust hans menn.


6. Landsskipti og ríkisstjórn

Haraldur konungur setti þann rétt, allt þar er hann vann ríki undir sig, að hann eignaðist óðul öll og lét alla búendur gjalda sér landskyldir, bæði ríka og óríka. Hann setti jarl í hverju fylki, þann er dæma skyldi lög og landsrétt og heimta sakeyri og landskyldir og skyldi jarl hafa þriðjung skatta og skylda til borðs sér og kostnaðar. Jarl hver skyldi hafa undir sér fjóra hersa eða fleiri og skyldi hver þeirra hafa tuttugu marka veislu. Jarl hver skyldi fá konungi í her sex tigu hermanna en hersir hver tuttugu menn. En svo mikið hafði Haraldur konungur aukið álög og landskyldir að jarlar hans höfðu meira ríki en konungar höfðu fyrrum.

En er þetta spurðist um Þrándheim þá sóttu til Haralds konungs margir ríkismenn og gerðust hans menn.


7. Orusta í Gaulardal

Það er sagt að Hákon jarl Grjótgarðsson kom til Haralds konungs utan af Yrjum og hafði lið mikið til fulltings við Harald konung. Eftir það fór Haraldur konungur inn í Gaulardal og átti þar orustu og felldi þar tvo konunga og eignaðist síðan ríki þeirra en það var Gauldælafylki og Strindafylki. Þá gaf hann Hákoni jarli yfirsókn um Strindafylki.

Eftir það fór Haraldur konungur inn í Stjóradal og átti þar hina þriðju orustu og hafði sigur og eignaðist það fylki. Eftir það söfnuðust saman Innþrændir og voru komnir saman fjórir konungar með her sinn, sá einn er réð Veradal, annar réð fyrir Skaun, þriðji Sparbyggjafylki, fjórði af Eynni innri. Sá átti Eynafylki. Þessir fjórir konungar fóru með her í mót Haraldi konungi en hann hélt orustu við þá og fékk sigur en þessir konungar féllu sumir en sumir flýðu.

Haraldur konungur átti alls í Þrándheimi átta orustur eða fleiri og að felldum átta konungum eignaðist hann allan Þrándheim.


8. Haraldur vann Naumdælafylki

Norður í Naumudal voru bræður tveir konungar, Herlaugur og Hrollaugur. Þeir höfðu verið að þrjú sumur að gera haug einn. Sá haugur var hlaðinn með grjóti og lími og viðum ger. En er haugurinn var alger þá spurðu þeir bræður þau tíðindi að Haraldur konungur fór á hendur þeim með her. Þá lét Herlaugur konungur aka til haugsins vist mikla og drykk. Eftir það gekk Herlaugur konungur í hauginn með tólfta mann. Síðan lét hann kasta aftur hauginn.

Hrollaugur konungur fór upp á haug þann er konungar voru vanir að sitja á og lét þar búa hásæti konungs og settist þar í. Hann lét leggja dýnur á fótpallinn er jarlar voru vanir að sitja. Þá veltist Hrollaugur konungur úr konungshásætinu og í jarlssæti og gaf sér sjálfur jarlsnafn. Eftir það fór hann móti Haraldi konungi og gaf honum allt ríki sitt og bauð að gerast hans maður og sagði konungi alla sína meðferð. Þá tók Haraldur konungur sverð og festi á linda honum og hann hengdi skjöld á háls honum og gerði hann jarl sinn og leiddi hann í hásæti. Með því gaf hann honum Naumdælafylki að yfirsókn og setti hann þar jarl yfir.

Haraldur konungur fór þá aftur til Þrándheims og dvaldist þar um veturinn. Jafnan síðan kallaði hann heimili sitt í Þrándheimi. Þar setti hann hinn mesta höfuðbæ sinn sem Hlaðir heita.


9. Haraldur konungur hafði úti leiðangur

Þann vetur fékk Haraldur konungur Ásu dóttur Hákonar jarls Grjótgarðssonar og hafði Hákon jarl mestan metnað af konungi.

Um vorið réð Haraldur konungur til skipa. Hann hafði látið gera um veturinn dreka mikinn og allvel búinn. Þar skipaði hann á hirð sinni og berserkjum. Stafnbúar voru mest vandaðir því að þeir höfðu merki konungs. Aftur frá stafnrúmi til austrúms, það var kallað á rausn. Var þar skipað berserkjum. Þeir einir náðu hirðvist með Haraldi konungi er afreksmenn voru að afli og hreysti og alls konar atgervi. Slíkum einum voru þá skipuð herskipin því að hann átti þá góð völ á að kjósa sér hirðmenn úr hverju fylki. Haraldur konungur hafði her mikinn og mörg stórskip og margir ríkismenn fylgdu honum.

Þess getur Hornklofi skáld í Glymdrápu að Haraldur konungur hafði fyrr barist á Uppdalsskógi við Orkndæli en hann hefði leiðangur þenna úti:

Hilmir réð á heiði,
hjaldrskíðs þrimu, galdra
óðr við æskimeiða
ey vébrautar, heyja,
áðr gnapsalar Gripnis
gnýstærandi færi
rausnarsamr til rimmu
ríðviggs lagar skíðum.

Gerðist glamma ferðar
gný-Þróttr jöru, dróttar
helkannandi hlenna
hlymræks, um tröð glymja,
áðr út á mar mætir
mannskæðr lagar tanna
ræsinaðr til rausnar
rak vébrautar Nökkva.


10. kafli

Haraldur konungur fór út úr Þrándheimi og sneri suður á Mæri. Húnþjófur hét konungur er réð fyrir Mærafylki. Sölvi klofi er son hans. Þeir voru hermenn miklir. En sá konungur er réð fyrir Raumsdali er nefndur Nökkvi, móðurfaðir Sölva. Þessir höfðingjar drógu her saman er þeir spurðu til Haralds konungs og fara móti honum. Þeir hittust við Sólskel. Varð þar orusta mikil og hafði Haraldur konungur sigur.

Þessar orustu getur Hornklofi:

Þar svo að barst að borði
borðhölkvis, rak norðan,
hlífar valdr til hildar,
hregg, döglinga tveggja,
og allsnæfrir jöfrar
orðalaust að morði,
endist rauðra randa
rödd, dynskotum kvöddust.

Þar féllu báðir konungar en Sölvi komst við flótta undan. Lagði Haraldur konungur þá undir sig þessi tvö fylki og dvaldist þar lengi of sumarið og skipaði þar réttum með mönnum og setti þar forráðamenn og treysti sér fólkið. En of haustið bjóst hann að fara norður til Þrándheims.

Rögnvaldur Mærajarl sonur Eysteins glumru hafði þá of sumarið gerst maður Haralds konungs. Konungur setti hann höfðingja yfir fylki þessi tvö, Norð-Mæri og Raumsdal, og fékk honum þar styrk til, bæði af ríkismönnum og bóndum, svo og skipakost að verja landið fyrir ófriði. Hann var kallaður Rögnvaldur hinn ríki og hinn ráðsvinni og kalla menn að hvorttveggja væri sannnefni.

Haraldur konungur var um veturinn eftir í Þrándheimi.


11. kafli

En um vorið bjó Haraldur konungur her mikinn úr Þrándheimi og sagði að þeim her mundi hann stefna á Sunn-Mæri. Sölvi klofi hafði um veturinn legið úti á herskipum og hafði herjað um Norð-Mæri og drepið mart manna fyrir Haraldi konungi en rænda suma og brennt fyrir sumum og gert hið mesta hervirki, en stundum of veturinn var hann á Sunn-Mæri með Arnviði konungi frænda sínum. En er þeir spurðu að Haraldur konungur var á skip kominn og hafði her mikinn þá safna þeir liði og verða fjölmennir því að margir þóttust eiga að gjalda Haraldi konungi heiftir.

Sölvi klofi fór suður í Fjörðu á fund Auðbjarnar konungs er þar réð fyrir og bað hann liðs að hann skyldi fara við her sinn til styrks við þá Arnvið konung, "er þá eigi ólíklegt að vor ferð takist vel ef vér rísum allir í mót Haraldi konungi því að vér höfum þá ærinn styrk og má auðna ráða sigri. Hinn er annar kostur, og er það þó engi kostur þeim mönnum er eigi eru ótignari en Haraldur konungur, að gerast þrælar hans. Betri þótti föður mínum sá kostur að falla í bardaga í konungdómi sínum en ganga sjálfkrafa í þjónustu við Harald konung eða þola eigi vopn sem Naumdælakonungar gerðu."

Kom Sölvi svo ræðu sinni að Auðbjörn konungur hét ferðinni. Dró hann þá her saman og fór norður til fundar við Arnvið konung. Höfðu þeir þá allmikinn her. Þeir spurðu þá að Haraldur konungur var norðan kominn. Þeir hittust fyrir innan Sólskel.

Það var siðvenja er menn börðust á skipum að tengja skyldi skipin og berjast um stafna. Var þar svo gert.

Haraldur konungur lagði sitt skip móti skipi Arnviðar konungs. Varð sú orusta hin snarpasta og féll mart fólk af hvorumtveggjum. Og að lyktum varð Haraldur konungur svo reiður og óður að hann gekk fram á rausn á skipi sínu og barðist þá svo djarflega að allir frambyggjar á skipi Arnviðar konungs hrukku aftur til siglu en sumir féllu. Gekk þá Haraldur konungur upp á skip Arnviðar konungs. Leituðu þá menn Arnviðar konungs til flótta en sjálfur hann féll á skipi sínu. Þar féll og Auðbjörn konungur en Sölvi kom á flótta.

Svo segir Hornklofi:

Háði gramr, þar er gnúðu,
geira hregg við seggi,
rauð fnýsti ben blóði,
bengögl í dyn Sköglar
þá er á rausn fyrir ræsi,
réð egglituðr, seggir,
æfr gall hjör við hlífar,
hnigu fjörvanir, sigri.

Þar féllu af Haraldi konungi Ásgautur og Arnbjörn jarlar hans, og Grjótgarður og Herlaugur mágar hans, synir Hákonar jarls. Sölvi var síðan víkingur mikill langa hríð og gerði oftlega mikinn skaða á ríki Haralds konungs.


12. kafli

Eftir það lagði Haraldur konungur undir sig Sunn-Mæri. Vémundur bróðir Auðbjarnar konungs hélt Firðafylki og gerðist konungur yfir. Þetta var síðla of haustið og gera menn það ráð með Haraldi konungi að hann skyldi eigi fara suður um Stað á haustdegi. Þá setti hann Rögnvald jarl yfir Mæri hvoratveggju og Raumsdal. Hafði hann um sig mikið fjölmenni. Haraldur konungur sneri þá norður aftur til Þrándheims.

Þann sama vetur fór Rögnvaldur jarl hið innra og svo suður of Fjörðu. Hann hafði njósn af Vémundi konungi og kom um nótt þar sem heitir Naustdalur. Var Vémundur konungur þar á veislu. Rögnvaldur jarl tók hús á þeim og brenndi þar inni Vémund konung með átta tigu manna.

Eftir það kom Berðlu-Kári til Rögnvalds jarls með langskip alskipað og fóru þeir báðir norður á Mæri. Tók Rögnvaldur jarl skip þau er átt hafði Vémundur konungur og allt lausafé það er hann fékk. Berðlu-Kári fór norður til Þrándheims á fund Haralds konungs og gerðist hans maður. Hann var berserkur mikill.


13. kafli

Um vorið eftir fór Haraldur konungur suður með landi með skipaher og lagði undir sig Firðafylki. Síðan sigldi hann austur með landi og kom fram í Vík austur. Haraldur konungur setti eftir í Fjörðum Hákon jarl Grjótgarðsson og fékk honum Firðafylki að yfirsókn.

En er konungur var austur farinn þá sendi Hákon jarl orð Atla jarli hinum mjóva að hann skyldi fara braut úr Sogni og vera jarl á Gaulum sem hann hafði fyrr haft. En Atli sagði Harald konung hafa veitt sér Sygnafylki og kveðst því mundu halda til þess er hann fyndi Harald konung. Jarlarnir þreyta þetta með sér þar til er báðir safna her. Þeir hittast á Fjölum í Stafanesvogi og áttu mikla orustu. Þar féll Hákon jarl en Atli jarl varð sár til ólífis. Fóru menn hans til Atleyjar með hann og þar andaðist hann.

Svo segir Eyvindur skáldaspillir:

Varð Hákon,
Högna meyjar
viðr, vopnber,
er vega skyldi,
og sinn aldr
í odda gný
Freys áttungr
á Fjölum lagði.

Og þar, varð,
er vinir féllu
magar Hallgarðs
manna blóði
Stafaness
við stóran gný
vinar Lóðurs
vogr of blandinn.


14. kafli

Haraldur konungur kom liði sínu austur í Vík og lagði inn til Túnsbergs. Þar var þá kaupstaður. Haraldur konungur hafði þá verið í Þrándheimi fjóra vetur og komið ekki á þeirri stundu í Víkina.

Hann spurði þau tíðindi að Eiríkur Svíakonungur Emundarson hafði lagt undir sig Vermaland og hann tók skatta af öllum markbyggðum og hann kallaði Vestra-Gautland allt norður til Svínasunds og hið vestra allt með hafinu, það kallaði Svíakonungur allt sitt ríki og tók skatta af. Hann hafði þar sett jarl er kallaður var Hrani hinn gauski. Hann hafði ríki millum Svínasunds og Gautelfar. Hann var ríkur jarl.

Haraldi konungi var svo sagt frá orðum Svíakonungs að hann skyldi eigi fyrr létta en hann hefði svo mikið ríki í Víkinni sem fyrr hafði þar haft Sigurður hringur eða Ragnar loðbrók sonur hans, en það var Raumaríki og Vestfold allt út til Grenmars, svo og Vingulmörk og allt suður þaðan. Hafði þá um öll þessi fylki snúist til hlýðni við Svíakonung margir höfðingjar og mikið fólk annað.

Þetta líkaði stórilla Haraldi konungi og stefndi hann þing við bændur þar á Foldinni. Bar hann þá sakir á hendur þeim bóndum er hann kenndi landráð við sig. Bændur gerðu skyn fyrir, sumir guldu fé, sumir sættu refsingum. Fór hann svo um sumarið of það fylki.

Um haustið fór hann upp á Raumaríki og fór þar allt með sama hætti, að hann lagði undir sig það fylki. Þá spurði hann öndverðan vetur að Eiríkur Svíakonungur reið um Vermaland að veislum með hirð sína.


15. kafli

Haraldur konungur býr ferð sína austur um Eiðaskóg og kom fram í Vermalandi. Lét hann þar búa veislur fyrir sér.

Áki hét maður. Hann var ríkastur bóndi á Vermalandi og stórauðigur og þá gamall að aldri. Hann sendi menn til Haralds konungs og bauð honum til veislu. Konungur hét ferð sinni. Áki bauð Eiríki konungi og til veislu og lagði honum hinn sama stefnudag. Áki átti mikinn skála og fornan. Þá lét hann gera annan veisluskála nýjan og eigi minna og vanda að öllu. Hann lét þann skála tjalda allan nýjum búnaði en hinn forna skála fornum búnaði.

En er konungar komu til veislunnar var skipað Eiríki konungi í hinn forna skála og hans liði en Haraldi konungi í hinn nýja skála með sitt lið. Með sama hætti var skipað borðbúnaði öllum, að Eiríkur konungur og hans menn höfðu öll forn ker og svo horn og þó allvel búin en Haraldur konungur og hans menn höfðu öll ný ker og horn og búin vel. Voru þau öll líkuð og skyggð sem gler. Drykkur var hvortveggi hinn besti. Áki bóndi hafði verið fyrr maður Hálfdanar konungs.

En er sá dagur kom er veislan var öll bjuggust konungar til brautferðar. Voru þá reiðskjótar búnir. Þá gekk Áki fyrir Harald konung og leiddi með sér son sinn tólf vetra gamlan er Ubbi hét.

Áki mælti: "Ef þér konungur þykir nokkurar vináttu vert fyrir heimboðið þá launa það syni mínum. Hann gef eg þér til þjónustumanns."

Konungur þakkaði honum með mörgum fögrum orðum sinn fagnað og hét honum þar í mót fullkominni sinni vináttu. Síðan greiddi hann fram stórar gjafar er hann gaf konungi.

Síðan gekk Áki til Svíakonungs. Var þá Eiríkur konungur klæddur og búinn til ferðar og var hann heldur ókátur. Áki tók þá góða gripi og gaf honum. Konungur svarar fá og steig á bak hesti sínum. Áki gekk á leið með honum og talaði við hann. Skógur var nær þeim og lá þar vegurinn yfir.

En er Áki kom á skóginn þá spurði konungur hann: "Hví skiptir þú svo fagnaði með okkur Haraldi konungi að hann skyldi hafa af öllu hinn betra hlut? Og veistu að þú ert minn maður."

"Eg hugði," segir Áki, "að yður konungur og yðra menn mundi engan fagnað skort hafa að þessi veislu. En er þar var forn búnaður er þér drukkuð þá veldur það því að þér eruð nú gamlir. En Haraldur konungur er nú í blóma aldurs. Fékk eg honum af því nýjan búnað. En þar er þú minntir mig að eg væri þinn maður þá veit eg hitt eigi síður að þú ert minn maður."

Þá brá konungur sverði og hjó hann banahögg, reið braut síðan.

En er Haraldur konungur var búinn að stíga á hest sinn þá bað hann kalla til sín Áka búanda. En er menn leituðu hans þá runnu sumir þannug sem Eiríkur konungur hafði riðið. Fundu þeir þar Áka dauðan, fóru síðan aftur og sögðu konungi.

En er hann spyr þetta heitir hann á menn sína að þeir skulu hefna Áka búanda. Ríður þá Haraldur konungur þannug er áður hafði riðið Eiríkur konungur til þess er hvorir verða varir við aðra. Þá ríða hvorir sem mest mega til þess er Eiríkur konungur kemur á skóg þann er skilur Gautland og Vermaland. Þá snýr Haraldur konungur aftur á Vermaland, leggur þá land það undir sig en drap menn Eiríks konungs hvar sem hann stóð þá. Fór Haraldur konungur um veturinn aftur á Raumaríki.


16. Ferð Haralds konungs til Túnsbergs

Haraldur konungur fór um veturinn út til Túnsbergs til skipa sinna. Býr hann þá skipin og heldur austur yfir fjörðinn, leggur þá undir sig alla Vingulmörk. Hann er úti á herskipum allan veturinn og herjar á Ranríki.

Svo segir Þorbjörn hornklofi:

Úti vill jól drekka,
ef skal einn ráða,
fylkir hinn framlyndi
og Freys leik heyja,
ungr leiddist eldvelli
og inni að sitja,
varma dyngju
eða vöttu dúns fulla.

Gautar höfðu safnað fyrir allt um landið.


17. Orusta á Gautlandi

Um vorið er ísa leysti stikuðu Gautar Gautelfi, að Haraldur konungur skyldi eigi mega leggja skipum sínum upp í landið. Haraldur konungur hélt skipum sínum upp í elfina og lagðist við stikin, herjaði þá á bæði lönd og brenndi byggðina.

Svo segir Hornklofi:

Grennir þröng að gunni
gunnmárs fyr haf sunnan,
sá var gramr, og gumnum,
goðvarðr, und sig jörðu,
og hjálmtamiðr hilmir
hólmreyðar lét ólman
lindihjört fyr landi
lundprúðr við stik bundinn.

Síðan riðu Gautar með her mikinn og héldu orustu við Harald konung og varð þar allmikið mannfall og hafði Haraldur konungur sigur.

Svo segir Hornklofi:

Ríks, þreifst reiddra öxa
rymr, knáttu spjör glymja,
svartskyggð bitu seggi
sverð þjóðkonungs ferðar,
þá er, hugfylldra hölda,
hlaut andskoti Gauta,
hár var söngr of svírum,
sigr, flugbeiddra vigra.


18. Fall Hrana gauska

Haraldur konungur fór víða um Gautland herskildi og átti þar margar orustur tveim megin elfarinnar og fékk hann oftast sigur en í einni hverri orustu féll Hrani gauski. Síðan lagði Haraldur konungur land allt undir sig fyrir norðan elfina og fyrir vestan Væni og Vermaland allt. En er hann snerist þaðan í brott þá setti hann þar eftir til landsgæslu Guttorm hertoga og lið mikið með honum. En hann snerist þá til Upplanda og dvaldist þar um hríð, fór síðan norður um Dofrafjall til Þrándheims og var þar enn langar hríðir.

Hann tók þá að eiga börn. Þau Ása áttu sonu þessa: Guttormur var elstur, Hálfdan svarti, Hálfdan hvíti, þeir voru tvíburar, Sigröður hinn fjórði. Þeir voru allir upp fæddir í Þrándheimi með miklum sóma.


19. Orusta í Hafursfirði

Tíðindi þau spurðust sunnan úr landi að Hörðar og Rygir, Egðir og Þilir söfnuðust saman og gerðu uppreist, bæði að skipum og vopnum og fjölmenni. Voru þeir upphafsmenn Eiríkur Hörðalandskonungur, Súlki konungur af Rogalandi og Sóti jarl bróðir hans, Kjötvi hinn auðgi konungur af Ögðum og Þórir haklangur sonur hans, af Þelamörk bræður tveir, Hróaldur hryggur og Haddur hinn harði.

En er Haraldur konungur varð þessa tíðinda vís þá dró hann her saman og skaut skipum á vatn, bjóst síðan með liðið og fer með landi suður og hafði mart manna úr hverju fylki. En er hann kemur suður um Stað þá spyr það Eiríkur konungur. Hafði hann þá og saman komið því liði er honum var von. Fer hann þá suður í móti því liði er hann vissi að austan mundi koma til fulltings við hann. Mættist þá herinn allur fyrir norðan Jaðar og leggja þá inn til Hafursfjarðar.

Þar lá þá fyrir Haraldur konungur með her sinn. Tekst þar þegar orusta mikil, var bæði hörð og löng. En að lyktum var það að Haraldur konungur hafði sigur en þar féllu þeir Eiríkur konungur og Súlki konungur og Sóti jarl bróðir hans. Þórir haklangur hafði lagt skip sitt í móti skipi Haralds konungs. Og var Þórir berserkur mikill. Var þar allhörð atsókn áður Þórir haklangur féll. Var þá hroðið allt skip hans. Þá flýði Kjötvi konungur og í hólma nokkurn þar er vígi var mikið. Síðan flýði allt lið þeirra, sumt á skipum en sumt hljóp á land upp og svo hið efra suður um Jaðar.

Svo segir Hornklofi:

Heyrðir þú í Hafrsfirði,
hve hisig barðist
konungr hinn kynstóri
við Kjötva hinn auðlagða.
Knerrir komu austan,
kapps um lystir,
með gínöndum höfðum
og gröfnum tinglum.

Hlaðnir voru þeir hölda
og hvítra skjalda,
vigra vestrænna
og valskra sverða.
Grenjuðu berserkir,
Gunnr var þeim á sinnum,
emjuðu úlfhéðnar
og ísörn glumdu.

Freistuðu hins framráða,
er þeim flýja kenndi,
allvaldr Austmanna,
er býr að Útsteini.
Stöðum nökkva brá stillir
er honum var styrjar væni.
Hlömmun var á hlífum
áðr Haklangr félli.

Leiddist þá fyr Lúfu
landi að halda
hilmi hinum hálsdigra,
hólm lét sér að skjaldi.
Slógust undir sessþiljur,
er sárir voru,
létu upp stjölu stúpa,
stungu í kjöl höfðum.

Á baki létu blíkja,
barðir voru grjóti,
Sváfnis salnæfrar
seggir hyggjandi.
Æstust austkylfur
og um Jaðar hljópu
heim úr Hafursfirði
og hugðu á mjöðdrykkju.


20. Haraldur konungur varð einvaldur að Noregi

Eftir orustu þessa fékk Haraldur konungur enga mótstöðu í Noregi. Voru þá fallnir allir hinir mestu fjandmenn hans en sumir flýðir úr landi og var það allmikill mannfjöldi því að þá byggðust stór eyðilönd. Þá byggðist Jamtaland og Helsingjaland og var þó áður hvorttveggja nokkuð byggt af Norðmönnum. Í þeim ófriði er Haraldur konungur gekk til lands í Noregi þá fundust og byggðust útlönd, Færeyjar og Ísland. Þá var og mikil ferð til Hjaltlands og margir ríkismenn af Noregi flýðu útlaga fyrir Haraldi konungi og fóru í vesturvíking, voru í Orkneyjum og Suðureyjum á vetrum en á sumrum herjuðu þeir í Noreg og gerðu þar mikinn landskaða. Margir voru þeir og ríkismenn er gengu til handa Haraldi konungi og gerðust hans menn og byggðu lönd með honum.


21. Frá börnum Haralds konungs

Haraldur konungur var nú einvaldi orðinn alls Noregs. Þá minntist hann þess er mærin sú hin mikilláta hafði mælt til hans. Hann sendi þá menn eftir henni og lét hana hafa til sín og lagði hana hjá sér. Þessi voru börn þeirra: Ólöf var elst, þá var Hrærekur, þá Sigtryggur, Fróði og Þorgils.


22. Kvonfang Haralds konungs

Haraldur konungur átti margar konur og mörg börn. Hann fékk þeirrar konu er Ragnhildur hét, dóttir Eiríks konungs af Jótlandi. Hún var kölluð Ragnhildur hin ríka. Þeirra sonur var Eiríkur blóðöx.

Enn átti hann Svanhildi dóttur Eysteins jarls. Þeirra börn voru Ólafur Geirstaðaálfur, Björn og Ragnar rykkill.

Enn átti Haraldur konungur Áshildi dóttur Hrings Dagssonar ofan af Hringaríki. Þeirra börn voru Dagur og Hringur, Guðröður skirja, Ingigerður.

Svo segja menn að þá er Haraldur konungur fékk Ragnhildar ríku að hann léti þá af níu konum sínum.

Þess getur Hornklofi:

Hafnaði Hólmrýgjum
og Hörða meyjum,
hverri hinni heinversku
og Hölga ættar
konungr hinn kynstóri
er tók konuna dönsku.

Börn Haralds konungs voru þar hver upp fædd sem móðerni áttu. Guttormur hertogi hafði vatni ausið hinn elsta son Haralds konungs og gaf nafn sitt. Hann knésetti þann svein og fóstraði og hafði með sér í Vík austur. Fæddist hann þar upp með Guttormi hertoga. Guttormur hertogi hafði alla stjórn landsins um Víkina og um Upplöndin þá er konungur var eigi nær.


23. Vesturferð Haralds konungs

Haraldur konungur spurði að víða um mitt landið herjuðu víkingar þeir er á vetrum voru fyrir vestan haf. Hann hafði þá leiðangur úti hvert sumar og kannaði eyjar og útsker en hvar sem víkingar urðu varir við her hans þá flýðu allir og flestir á haf út.

En er konungi leiddist þetta þá varð það á einu sumri að Haraldur konungur sigldi með her sinn vestur um haf. Kom hann fyrst við Hjaltland og drap þar alla víkinga þá er eigi flýðu undan. Síðan siglir hann suður til Orkneyja og hreinsaði þar allt af víkingum. Eftir það fer hann allt í Suðureyjar og herjar þar. Hann drap þar marga víkinga þá er fyrir liði réðu áður. Hann átti þar margar orustur og hafði oftast sigur. Þá herjaði hann á Skotland og átti þar orustur. En er hann kom vestur í Mön þá höfðu þeir áður spurt hvern hernað hann hafði gert þar í landi. Þá flýði allt fólk inn á Skotland og var þar aleyða af mönnum. Braut var og flutt allt fé það er mátti. En er þeir Haraldur konungur gengu á land þá fengu þeir ekki herfang.

Svo segir Hornklofi:

Menfergir bar margar
margspakr, Niðar varga
lundr vann sókn á sandi,
sandmens í bý randir,
áðr fyr eljanfróðum
allr herr Skota, þverri
lögðis seið, af láði
læbrautar varð flæja.

Í þessu bili féll Ívar sonur Rögnvalds Mærajarls. En í bætur þess gaf Haraldur konungur Rögnvaldi jarli er hann sigldi vestan, Orkneyjar og Hjaltland en Rögnvaldur gaf þegar Sigurði bróður sínum bæði löndin og var hann vestur eftir þá er konungur sigldi austur. Gaf hann áður Sigurði jarldóm.

Þá kom til lags við hann Þorsteinn rauður, sonur Ólafs hvíta og Auðar hinnar djúpúðgu. Þeir herjuðu á Skotland og eignuðust Katanes og Suðurland allt til Ekkjalsbakka. Sigurður jarl drap Melbrigða tönn, jarl skoskan, og batt höfuð hans við slagólar sér og laust á kykvavöðva sínum á tönnina er skagði úr höfðinu. Kom þar í blástur og fékk hann þar af bana og er hann heygður á Ekkjalsbakka. Þá réð löndum Guttormur sonur hans einn vetur og dó barnlaus. Síðan settust í löndin víkingar, Danir og Norðmenn.


24. Skorið hár Haralds konungs

Haraldur konungur var á veislu á Mæri að Rögnvalds jarls. Hafði hann þá eignast land allt. Þá tók konungur þar laugar og þá lét Haraldur konungur greiða hár sitt og þá skar Rögnvaldur jarl hár hans en áður hafði verið óskorið og ókembt tíu vetur. Þá kölluðu þeir hann Harald lúfu en síðan gaf Rögnvaldur honum kenningarnafn og kallaði hann Harald hinn hárfagra og sögðu allir er sáu að það var hið mesta sannnefni því að hann hafði hár bæði mikið og fagurt.


25. Göngu-Hrólfur útlægur ger

Rögnvaldur Mærajarl var hinn mesti ástvin Haralds konungs og konungur virti hann mikils. Rögnvaldur átti Hildi dóttur Hrólfs nefju. Synir þeirra voru þeir Hrólfur og Þórir. Rögnvaldur jarl átti og frillusonu. Hét einn Hallaður, annar Einar, hinn þriðji Hrollaugur. Þeir voru rosknir þá er hinir skírbornu bræður þeirra voru börn.

Hrólfur var víkingur mikill. Hann var svo mikill maður vexti að engi hestur mátti bera hann og gekk hann hvargi sem hann fór. Hann var kallaður Göngu-Hrólfur. Hann herjaði mjög í Austurvegu. Á einu sumri er hann kom úr víking austan í Víkina þá hjó hann þar strandhögg. Haraldur konungur var í Víkinni. Hann varð mjög reiður þá er hann spurði þetta því að hann hafði mikið bann á lagt að ræna innanlands. Konungur lýsti því á þingi að hann gerði Hrólf útlaga af Noregi.

En er það spurði Hildur móðir Hrólfs þá fór hún á fund konungs og bað friðar Hrólfi. Konungur var svo reiður að henni týði ekki að biðja.

Þá kvað Hildur þetta:

Hafnið Nefju nafna,
nú rekið gand úr landi
horskan hölda barma.
Hví bellið því, stillir?
Illt er við úlf að ylfast
Yggs valbríkar slíkan,
muna við hilmis hjarðir
hægr, ef hann renn til skógar.

Göngu-Hrólfur fór síðan vestur um haf í Suðureyjar og þaðan fór hann vestur í Valland og herjaði þar og eignaðist jarlsríki mikið og byggði þar mjög Norðmönnum og er þar síðan kallað Norðmandí. Af Hrólfs ætt eru komnir jarlar í Norðmandí. Sonur Göngu-Hrólfs var Vilhjálmur, faðir Ríkarðar, föður annars Ríkarðar, föður Roðberts löngumspaða, föður Vilhjálms bastarðar Englakonungs. Frá honum eru síðan komnir Englakonungar allir.

Ragnhildur drottning ríka lifði síðan þrjá vetur er hún kom í Noreg. En eftir dauða hennar fór Eiríkur sonur þeirra Haralds konungs til fósturs í Fjörðu til Þóris hersis Hróaldssonar og fæddist hann þar upp.


26. Frá Svása jötni

Haraldur konungur fór einn vetur að veislum um Upplönd og lét búa sér til jólaveislu á Þoptum. Jólaaftan kom Svási fyrir dyr þá er konungur sat yfir borði og sendi konungi boð að hann skyldi út ganga til hans.

En konungur brást reiður við þeim sendiboðum og bar hinn sami maður reiði konungs út sem honum hafði borið inn boðin. En Svási bað bera eigi að síður annað sinn erindið og kvað sig vera þann Finninn er konungur hafði játað að setja gamma sinn annan veg brekkunnar þar.

En konungur gekk út og varð honum þess játsi, að fara heim með honum, og gekk yfir brekkuna með áeggjan sumra sinna manna þótt sumir lettu.

Þar stóð upp Snæfríður dóttir Svása, kvinna fríðust, og byrlaði konungi ker fullt mjaðar en hann tók allt saman og hönd hennar og þegar var sem eldshiti kæmi í hörund hans og vildi þegar hafa samræði við hana á þeirri nótt. En Svási sagði að það mundi eigi vera nema að honum nauðgum nema konungur festi hana og fengi að lögum en konungur festi Snæfríði og fékk og unni svo með ærslum að ríki sitt og allt það er honum byrjaði, þá fyrirlét hann.

Þau áttu fjóra sonu. Einn var Sigurður hrísi, Hálfdan háleggur, Guðröður ljómi, Rögnvaldur réttilbeini.

Síðan dó Snæfríður en litur hennar skipaðist á engan veg. Var hún jafnrjóð sem þá er hún var kvik. Konungur sat æ yfir henni og hugði að hún mundi lifna. Fór svo fram þrjá vetur að hann syrgði hana dauða en allur landslýður syrgði hann villtan.

En þessa villu að lægja kom til læknar Þorleifur spaki er með viti lægði þá villu fyrst með eftirmæli með þessum hætti: "Eigi er konungur kynlegt að þú munir svo fríða konu og kynstóra og tignir hana á dúni og á guðvefi sem hún bað þig. En tign þín er þó minni en hæfir og hennar í því að hún liggur of lengi í sama fatnaði og er miklu sannlegra að hún sé hrærð og sé skipt undir henni klæðum."

En þegar er hún var hrærð úr rekkjunni þá slær ýldu og óþefjani og hvers kyns illum fnyk af líkamanum. Var þá hvatað að báli og var hún brennd. Blánaði áður allur líkaminn og ullu úr ormar og eðlur, froskar og pöddur og alls kyns illyrmi. Seig hún svo í ösku en konungurinn steig til visku og hugði af heimsku, stýrði síðan ríki sínu og styrktist, gladdist hann af þegnum sínum en þegnar af honum en ríkið af hvorutveggja.


27. Frá Þjóðólfi úr Hvini

Eftir það er Haraldur konungur hafði reynt svik Finnunnar varð hann svo reiður að hann rak frá sér sonu sína og Finnunnar og vildi eigi sjá þá. En Guðröður ljómi fór á fund Þjóðólfs hins hvinverska fósturföður síns og bað hann fara með sér til konungs því að Þjóðólfur var ástvinur konungs. En konungur var þá á Upplöndum.

Þeir fara síðan. En er þeir komu til konungs síð aftans og settust niður utarlega og duldust. Konungur gekk á gólfinu og sá á bekkina en hann hafði veislu nokkura og var mjöður blandinn.

Þá kvað hann þetta fyrir munni sér:

Mjög eru mínir rekkar
til mjöðgjarnir bornir
og hér komnir hárir.
Hví eruð þér ævar margir?

Þá svaraði Þjóðólfur:

Höfðum vér í höfði
högg að eggja leiki
með vellbrota vitrum.
Voruma þá til margir.

Þjóðólfur tók ofan höttinn og kenndi konungur hann þá og fagnaði honum vel.

Þá bað Þjóðólfur konung að hann skyldi eigi fyrirlíta sonu sína "því að fúsir væru þeir að eiga betra móðerni ef þú hefðir þeim það fengið."

Konungur játaði honum því og bað hann hafa Guðröð heim með sér, svo sem hann hafði fyrr verið, en Sigurð og Hálfdan bað hann fara á Hringaríki en Rögnvald á Haðaland. Þeir gera svo sem konungur bauð. Gerðust þeir allir vasklegir menn og vel búnir að íþróttum.

Haraldur konungur sat þá um kyrrt innanlands og var friður góður og árferð.


28. Upphaf Torf-Einars, jarls í Orkneyjum

Rögnvaldur jarl á Mæri spurði fall Sigurðar bróður síns og það að þá sátu í löndunum víkingar. Þá sendi hann vestur Hallað son sinn og tók hann jarlsnafn og hafði lið mikið vestur. En er hann kom til Orkneyja þá settist hann í löndin. En bæði á haust og um vetur og um vor fóru víkingar um Eyjar, námu nesnám og hjuggu strandhögg. Það leiddist Hallaði jarli að sitja í eyjunum. Veltist hann þá úr jarldóminum og tók höldsrétt. Fór hann síðan austur í Noreg.

En er Rögnvaldur jarl spurði þetta lét hann illa yfir ferð Hallaðar, sagði að synir hans mundu verða ólíkir foreldri sínu.

Þá svaraði Einar: "Eg hefi lítinn metnað af þér. Á eg við litla ást að skiljast. Mun eg fara vestur til Eyja ef þú vilt fá mér styrk nokkurn. Mun eg því heita þér er þér mun allmikill fagnaður á vera að eg mun eigi aftur koma til Noregs."

Rögnvaldur segir að það líkaði honum vel að hann kæmi eigi aftur "því að mér er lítils von að frændum þínum sé sæmd að þér því að móðurætt þín öll er þrælborin."

Rögnvaldur fékk Einari eitt langskip og skipaði það til handa honum. Sigldi Einar um haustið vestur um haf. En er hann kom til Orkneyja þá lágu þar fyrir víkingar tveim skipum, Þórir tréskegg og Kálfur skurfa. Einar lagði þegar til orustu við þá og sigraðist en þeir féllu báðir.

Þá var þetta kveðið:

Þá gaf hann Tréskegg tröllum,
Torf-Einar drap Skurfu.

Hann var fyrir því kallaður Torf-Einar að hann lét skera torf og hafði það fyrir eldivið því að engi var skógur í Orkneyjum. Síðan gerðist Einar jarl yfir eyjunum og var hann ríkur maður. Hann var ljótur maður og einsýnn og þó manna skyggnastur.


29. Andlát Eiríks konungs Emundarsonar

Guttormur hertogi sat oftast í Túnsbergi og hafði yfirsókn allt um Víkina þá er konungur var eigi nær og hafði þar landvörn. Var þar mjög herskátt af víkingum en ófriður var upp á Gautland meðan Eiríkur konungur lifði Emundarson. Hann andaðist þá er Haraldur konungur hinn hárfagri hafði verið tíu vetur konungur í Noregi.


30. Dauði Guttorms hertoga

Eftir Eirík var konungur í Svíþjóð Björn sonur hans fimm tigu vetra. Hann var faðir þeirra Eiríks hins sigursæla og Ólafs föður Styrbjarnar.

Guttormur hertogi varð sóttdauður í Túnsbergi. Þá gaf Haraldur konungur yfirsókn ríkis þess alls Guttormi syni sínum og setti hann þar höfðingja yfir.


31. Dauði Rögnvalds Mærajarls

Þá er Haraldur konungur var fertugur að aldri þá voru margir synir hans vel á legg komnir. Þeir voru allir bráðgervir. Kom þá svo að þeir undu illa við er konungur gaf þeim ekki ríki en setti jarl í hverju fylki og þótti þeim jarlar vera smábornari en þeir voru.

Þá fóru til á einu vori Hálfdan háleggur og Guðröður ljómi með mikla sveit manna og komu á óvart Rögnvaldi Mærajarli og tóku hús á honum og brenndu hann inni við sex tigu manna. Þá tók Hálfdan langskip þrjú og skipaði og siglir síðan vestur um haf en Guðröður settist þar að löndum sem áður hafði haft Rögnvaldur jarl.

En er Haraldur konungur spurði þetta þá fór hann þegar með liði miklu á hendur Guðröði. Sá Guðröður engan annan sinn kost en gefast upp í vald Haralds konungs og sendi konungur hann austur á Agðir. En Haraldur konungur setti þá yfir Mæri Þóri son Rögnvalds jarls og gifti honum Ólöfu dóttur sína er kölluð var árbót. Þórir jarl þegjandi hafði þá ríki þvílíkt sem haft hafði Rögnvaldur jarl faðir hans.


32. Dauði Hálfdanar háleggs

Hálfdan háleggur kom vestur til Orkneyja og mjög á óvart og flýði Einar jarl þegar úr eyjunum og kom aftur þegar sama haust og kom þá óvart Hálfdani. Þeir hittust og varð skömm orusta og flýði Hálfdan og var það við nótt sjálfa. Lágu þeir Einar tjaldalausir um nóttina en um morguninn er lýsa tók þá leituðu þeir flóttamanna um eyjarnar og var hver drepinn þar er staðinn varð.

Þá mælti Einar jarl: "Eigi veit eg," segir hann, "hvort eg sé út á Rínansey mann eða fugl. Stundum hefst upp en stundum leggst niður."

Síðan fóru þeir þannug til og fundu þar Hálfdan hálegg og tóku hann höndum.

Einar jarl kvað vísu þessa um aftaninn áður hann lagði til orustu:

Sékat eg Hrólfs úr hendi
né Hrollaugi fljúga
dör á dæla mengi.
Dugir oss föður hefna.
En í kveld, þar er knýjum,
of kerstraumi, rómu,
þegjandi sitr þetta
Þórir jarl á Mæri.

Þá gekk Einar jarl til Hálfdanar. Hann reist örn á baki honum við þeima hætti að hann lagði sverði á hol við hrygginn og reist rifin öll ofan á lendar, dró þar út lungun. Var það bani Hálfdanar.

Þá kvað Einar:

Rekið hefi eg Rögnvalds dauða,
en réðu því nornir,
nú er fólkstuðill fallinn,
að fjórðungi mínum.
Verpið, snarpir sveinar,
því að sigri vér ráðum,
skatt vel eg honum harðan,
að Háfætu grjóti.

Síðan settist Einar jarl að Orkneyjum sem fyrr hafði hann haft. En er tíðindi þessi spyrjast í Noreg þá kunnu þessu stórilla bræður Hálfdanar og töldu hefnda fyrir vert og margir sönnuðu það aðrir.

En er Einar jarl spyr þetta þá kvað hann:

Eru til míns fjörs margir
menn, of sannar deildir,
úr ýmissum áttum
ósmábornir gjarnir.
En þó vita þeygi
þeir áðr mig hafi felldan,
hver ilþorna arnar
undir hlýtr að standa.


33. Sætt Haralds konungs og Einars jarls

Haraldur konungur bauð liði út og dró saman her mikinn og fór síðan vestur til Orkneyja. En er Einar jarl spurði að konungur var austan kominn þá fer hann yfir á Nes.

Þá kvað hann vísu:

Margr verðr sekr um sauði
seggr með fögru skeggi,
en eg að ungs í Eyjum
allvalds sonar falli.
Hætt segja mér höldar
við hugfullan stilli.
Haralds hefi eg skarð í skildi,
skala ugga það, höggvið.

Þá fóru menn og orðsendingar millum konungs og jarls. Kom þá svo að þar var á komið stefnulagi og finnast þeir sjálfir og festi þá jarl allt í konungs dóm. Haraldur konungur dæmdi á hendur Einari jarli og öllum Orkneyingum að gjalda sex tigu marka gulls. Bóndum þótti gjald of mikið. Þá bauð jarl þeim að hann mundi einn saman gjalda og skyldi hann eignast þá óðul öll í eyjunum. Þessu játuðu þeir mest fyrir þá sök að hinir snauðu áttu litlar jarðir en hinir auðgu hugðust mundu leysa sín óðul þegar er þeir vildu. Leysti jarl allt gjaldið við konung. Fór konungur þá austur eftir um haustið.

Var það lengi síðan í Orkneyjum að jarlar áttu óðul öll, allt þar til er Sigurður Hlöðvisson gaf aftur óðulin.


34. Kvonfang Eiríks konungs

Guttormur sonur Haralds konungs hafði landvörn fyrir Víkinni og fór hann með herskipum hið ytra. En er hann lá í Elfarkvíslum þá kom þar Sölvi klofi og lagði til bardaga við hann. Þar féll Guttormur.

Hálfdan svarti og Hálfdan hvíti lágu í víking og herjuðu um Austurveg. Þeir áttu orustu mikla á Eistlandi. Þar féll Hálfdan hvíti.

Eiríkur var að fóstri með Þóri hersi Hróaldssyni í Fjörðum. Honum unni Haraldur konungur mest sona sinna og virti hann mest.

Þá er Eiríkur var tólf vetra gamall gaf Haraldur konungur honum fimm langskip og fór hann í hernað, fyrst í Austurveg og þá suður um Danmörk og um Frísland og Saxland og dvaldist í þeirri ferð fjóra vetur. Eftir það fór hann vestur um haf og herjaði um Skotland og Bretland, Írland og Valland og dvaldist þar aðra fjóra vetur. Eftir það fór hann norður á Finnmörk og allt til Bjarmalands og átti hann þar orustu mikla og hafði sigur.

Þá er hann kom aftur á Finnmörk þá fundu menn hans í gamma einum konu þá er þeir höfðu enga séð jafnvæna. Hún nefndist fyrir þeim Gunnhildur og sagði að faðir hennar bjó á Hálogalandi er hét Össur toti.

"Eg hefi hér verið til þess," segir hún, "að nema kunnustu að Finnum tveim er hér eru fróðastir á mörkinni. Nú eru þeir farnir á veiðar en báðir þeir vilja eiga mig og báðir eru þeir svo vísir að þeir rekja spor sem hundar, bæði á þá og á hjarni, en þeir kunna svo vel á skíðum að ekki má forðast þá, hvorki menn né dýr, en hvatki er þeir skjóta til þá hæfa þeir. Svo hafa þeir fyrirkomið hverjum manni er hér hefir komið í nánd. Og ef þeir verða reiðir þá snýst jörð um fyrir sjónum þeirra en ef nokkuð kvikt verður fyrir sjónum þeirra þá fellur dautt niður. Nú megið þér fyrir engan mun verða á veg þeirra nema eg feli yður hér í gammanum. Skulum vér þá freista ef vér fáum drepið þá."

Þeir þekktust þetta að hún fal þá. Hún tók línsekk einn og hugðu þeir að aska væri í. Hún tók þar í hendi sinni og söri því um gammann utan og innan.

Litlu síðar koma Finnar heim. Þeir spyrja hvað þar er komið. Hún segir að þar er ekki komið. Finnum þykir það undarlegt er þeir höfðu rakið spor allt að gammanum en síðan finna þeir ekki. Þá gera þeir sér eld og matbúa. En er þeir voru mettir þá býr Gunnhildur rekkju sína. En svo hafði áður farið þrjár nætur að Gunnhildur hefir sofið en hvor þeirra hefir vakað yfir öðrum fyrir ábrýðis sakir.

Þá mælti hún: "Farið nú hingað og liggi á sína hlið mér hvor ykkar."

Þeir urðu þessu fegnir og gerðu svo. Hún hélt sinni hendi um háls hvorum þeirra. Þeir sofna þegar en hún vekur þá. Og enn bráðlega sofna þeir og svo fast að hún fær varlega vakið þá. Og enn sofna þeir og fær hún þá fyrir engan mun vakið þá og þá setur hún þá upp og enn sofa þeir. Hún tekur þá selbelgi tvo mikla og steypir yfir höfuð þeim og bindur að sterklega fyrir neðan hendurnar. Þá gerir hún bending konungsmönnum. Hlaupa þeir þá fram og bera vopn á Finna og fá hlaðið þeim, draga þá út úr gammanum.

Um nóttina eftir voru reiðarþrumur svo stórar að þeir máttu hvergi fara en að morgni fóru þeir til skips og höfðu Gunnhildi með sér og færðu Eiríki.

Fóru þeir Eiríkur þá suður til Hálogalands. Hann stefndi þá til sín Össuri tota. Eiríkur segir að hann vill fá dóttur hans. Össur játar því. Fær þá Eiríkur Gunnhildar og hefir hana með sér suður í land.


35. Frá sonum Haralds

Haraldur konungur var þá fimmtugur að aldri er synir hans voru margir rosknir en sumir dauðir. Þeir gerðust margir ofstopamenn miklir innanlands og voru sjálfir ósáttir. Þeir ráku af eignum jarla konungs en suma drápu þeir.

Haraldur konungur stefndi þá þing fjölmennt austur í landi og bauð til Upplendingum. Þá gaf hann sonum sínum konunganöfn og setti það í lögum að hans ættmanna skyldi hver konungdóm taka eftir sinn föður en jarldóm sá er kvensifur væri af hans ætt kominn. Hann skipti landi með þeim, lét hafa Vingulmörk, Raumaríki, Vestfold, Þelamörk. Það gaf hann Ólafi, Birni, Sigtryggi, Fróða, Þorgísli. En Heiðmörk og Guðbrandsdali gaf hann Dag og Hring og Ragnari. Snæfríðarsonum gaf hann Hringaríki, Haðaland, Þótn og það er þar liggur til. Guttormi hafði hann gefið til yfirsóknar frá Elfi til Svínasunds og Ranríki. Hann hafði hann sett til landvarnar austur við landsenda sem fyrr er ritað.

Haraldur konungur sjálfur var oftast um mitt land. Hrærekur og Guðröður voru jafnan innan hirðar með konungi og höfðu veislur stórar á Hörðalandi og Sogni.

Eiríkur var með Haraldi konungi föður sínum. Honum unni hann mest sona sinna og virti hann mest. Honum gaf hann Hálogaland og Norð-Mæri og Raumsdal. Norður í Þrándheimi gaf hann yfirsókn Hálfdani svarta og Hálfdani hvíta og Sigröði.

Hann gaf sonum sínum í hverju þessu fylki hálfar tekjur við sig og það með að þeir skyldu sitja í hásæti skör hærra en jarlar en skör lægra en sjálfur hann. En það sæti eftir hans dag ætlaði sér hver sona hans en hann sjálfur ætlaði það Eiríki. En Þrændir ætluðu það Hálfdani svarta en Víkverjar og Upplendingar unnu þeim best ríkis er þar voru þeim undir hendi. Af þessu varð þar mikið sundurþykki enn af nýju milli þeirra bræðra.

En með því að þeir þóttust hafa lítið ríki þá fóru þeir í hernað, svo sem sagt er að Guttormur féll í Elfarkvíslum fyrir Sölva klofa. Eftir það tók Ólafur við því ríki er hann hafði haft. Hálfdan hvíti féll á Eistlandi. Hálfdan háleggur féll í Orkneyjum. Þeim Þorgísli og Fróða gaf Haraldur konungur herskip og fóru þeir í vesturvíking og herjuðu um Skotland og Bretland og Írland. Þeir eignuðust fyrst Norðmanna Dyflinni. Svo er sagt að Fróða væri gefinn banadrykkur en Þorgils var lengi konungur yfir Dyflinni og var svikinn af Írum og féll þar.


36. Dauði Rögnvalds réttilbeina

Eiríkur blóðöx ætlaði að vera yfirkonungur allra bræðra sinna og svo vildi og Haraldur konungur vera láta. Voru þeir feðgar löngum ásamt.

Rögnvaldur réttilbeini átti Haðaland. Hann nam fjölkynngi og gerðist seiðmaður. Haraldi konungi þóttu illir seiðmenn. Á Hörðalandi var sá seiðmaður er hét Vitgeir. Konungur sendi honum orð og bað hann hætta seið.

Hann svaraði og kvað:

Það er vá lítil,
að vér síðum,
karla börn
og kerlinga,
er Rögnvaldr síðr
réttilbeini,
hróðmögr Haralds
á Haðalandi.

En er Haraldur konungur heyrði þetta sagt þá með hans ráði fór Eiríkur blóðöx til Upplanda og kom á Haðaland. Hann brenndi inni Rögnvald bróður sinn með átta tigu seiðmanna og var það verk lofað mjög.

Guðröður ljómi var um veturinn með Þjóðólfi í Hvini fósturföður sínum á kynnisókn og hafði skútu alskipaða og vildi hann fara norður á Rogaland. Þá lögðust á stormar miklir en Guðröði var títt um ferð sína og lét hann illa um dvölina.

Þá kvað Þjóðólfur:

Fariða þér áðr fleyja
flatvöllr héðan batnar,
verpr Geitis vegr grjóti,
Guðröðr, um sjá stóran.
Vindbýsna skaltu, vísi
víðfrægr, héðan bíða.
Verið með oss, uns verði
veðr, nú er brim fyr Jaðri.

Guðröður fór sem áður hvað sem Þjóðólfur mælti. En er þeir komu fyrir Jaðar þá kafði skipið undir þeim og létust þar allir.


37. Fall Bjarnar kaupmanns

Björn sonur Haralds konungs réð þá fyrir Vestfold og sat oftast í Túnsbergi en var lítt í hernaði. Til Túnsbergs sóttu mjög kaupskip, bæði þar um Víkina og norðan úr landi og sunnan úr Danmörk og af Saxlandi. Björn konungur átti og kaupskip í ferðum til annarra landa og aflaði sér svo dýrgripa eða annarra fanga þeirra er hann þóttist hafa þurfa. Bræður hans kölluðu hann farmann eða kaupmann. Björn var vitur maður og vel stilltur og þótti vænn til höfðingja. Hann fékk sér gott kvonfang og maklegt. Hann gat son er Guðröður hét.

Eiríkur blóðöx kom úr Austurvegi með herskip og lið mikið. Hann beiddist af Birni bróður sínum að taka við sköttum og skyldum þeim er Haraldur konungur átti á Vestfold, en hinn var áður vandi að Björn færði konungi skatt eða sendi menn með. Vildi hann enn svo og vildi eigi af höndum greiða. En Eiríkur þóttist vista þurfa og tjalda og drykkjar. Þeir bræður þreyttu þetta með kappmælum og fékk Eiríkur eigi að heldur og fór brott úr bænum. Björn fór og úr bænum um kveldið og upp á Sæheim.

Eiríkur hvarf aftur, fór upp um nóttina á Sæheim eftir Birni, kom þar er þeir sátu yfir drykkju. Eiríkur tók hús á þeim en þeir Björn gengu út og börðust. Þar féll Björn og mart manna með honum. Eiríkur tók þar herfang mikið og fór norður í land.

Þetta verk líkaði stórilla Víkverjum og var Eiríkur þar mjög óþokkaður. Fóru þau orð um að Ólafur konungur mundi hefna Bjarnar ef honum gæfi færi á. Björn konungur liggur í Farmannshaugi á Sæheimi.


38. Sætt konunga

Eiríkur konungur fór um veturinn eftir norður á Mæri og tók veislu í Sölva fyrir innan Agðanes. En er það spurði Hálfdan svarti fór hann til með her og tók hús á þeim. Eiríkur svaf í útiskemmu og komst út til skógar við fimmta mann en þeir Hálfdan brenndu upp bæinn og lið allt það er inni var. Kom Eiríkur á fund Haralds konungs með þessum tíðindum.

Konungur varð þessu ákaflega reiður og safnaði her saman og fór á hendur Þrændum. En er það spyr Hálfdan svarti þá býður hann út liði og skipum og verður allfjölmennur og lagði út til Staðs fyrir innan Þórsbjörg. Haraldur konungur lá þá sínu liði út við Reinsléttu. Fóru þá menn milli þeirra.

Guttormur sindri hét einn göfugur maður. Hann var þá í liði með Hálfdani svarta en fyrr hafði hann verið með Haraldi konungi og var hann ástvinur beggja þeirra. Guttormur var skáld mikið. Hann hafði ort sitt kvæði um hvorn þeirra feðga. Þeir höfðu boðið honum laun en hann neitti og beiddist að þeir skyldu veita honum eina bæn og höfðu þeir því heitið.

Hann fór þá á fund Haralds konungs og bar sættarorð millum þeirra og bað þá hvorntveggja þeirra bænar og þess að þeir skyldu sættast en konungar gerðu svo mikinn metnað hans að af hans bæn sættust þeir. Margir aðrir göfgir menn fluttu þetta mál með honum. Varð það að sætt að Hálfdan skyldi halda ríki öllu því er áður hafði hann haft, skyldi hann og láta óhætt við Eirík bróður sinn.

Eftir þessi sögu orti Jórunn skáldmær nokkur erindi í Sendibít:

Harald frá eg, Hálfdan, spyrja
herðibrögð, en lögðis
sýnist svartleitr reyni
sjá bragr, hinn hárfagra.


39. Fæddur Hákon góði

Hákon Grjótgarðsson Hlaðajarl hafði alla yfirsókn í Þrándheimi þá er Haraldur konungur var annars staðar í landi og hafði Hákon mestan metnað í Þrændalögum af konungi.

Eftir fall Hákonar tók Sigurður sonur hans ríki og gerðist jarl í Þrándheimi. Hann hafði aðsetu á Hlöðum. Með honum fæddust upp synir Haralds konungs, Hálfdan svarti og Sigröður, en áður voru þeir undir hendi Hákoni föður hans. Þeir voru mjög jafnaldrar synir Haralds og Sigurður. Sigurður jarl fékk Bergljótar dóttur Þóris jarls þegjanda. Móðir hennar var Ólöf árbót dóttir Haralds hárfagra. Sigurður jarl var allra manna vitrastur.

En er Haraldur konungur tók að eldast þá settist hann oftlega að stórbúum er hann átti á Hörðalandi, á Alreksstöðum eða Sæheimi eða Fitjum, og á Rogalandi, að Útsteini og á Ögvaldsnesi í Körmt.

Þá er Haraldur konungur var nær sjöræðum gat hann son við konu þeirri er Þóra er nefnd Morsturstöng. Hún var æskuð úr Morstur. Hún átti góða frændur. Hún var í frændsemistölu við Hörða-Kára. Hún var kvinna vænst og hin fríðasta. Hún var kölluð konungsambátt. Voru þá margir þeir konungi lýðskyldir er vel voru ættbornir, bæði karlar og konur. Sá var siður um göfugra manna börn að vanda menn mjög til að ausa vatni eða gefa nafn.

En er að þeirri stefnu kom er Þóru var von að hún mundi barn ala þá vildi hún fara á fund Haralds konungs. Hann var þá norður á Sæheimi en hún var í Morstur. Hún fór þá norður á skipi Sigurðar jarls. Þau lágu um nóttina við land. Þar ól Þóra barn uppi á hellunni við bryggjusporð. Það var sveinbarn.

Sigurður jarl jós sveininn vatni og kallaði Hákon eftir föður sínum Hákoni Hlaðajarli. Sá sveinn var snemma fríður og mikill vexti og mjög líkur föður sínum. Haraldur konungur lét sveininn fylgja móður sinni og voru þau að konungsbúum meðan sveinninn var ungur.


40. Orðsending Aðalsteins konungs

Aðalsteinn hét þá konungur í Englandi er þá hafði nýtekið við konungdómi. Hann var kallaður hinn sigursæli og hinn trúfasti.

Hann sendi menn til Noregs á fund Haralds konungs með þess konar sending að sendimaður gekk fyrir konung. Hann selur konungi sverð gullbúið með hjöltum og meðalkafla og öll umgerð var búin með gulli og silfri og sett dýrlegum gimsteinum.

Hélt sendimaðurinn sverðshjöltunum til konungsins og mælti: "Hér er sverð er Aðalsteinn konungur mælti að þú skyldir við taka."

Tók konungur meðalkaflann og þegar mælti sendimaðurinn: "Nú tókstu svo sem vor konungur vildi og nú skaltu vera þegn hans er þú tókst við sverði hans."

Haraldur konungur skildi nú að þetta var með spotti gert en hann vildi einskis manns þegn vera. En þó minntist hann þess sem hans háttur var að hvert sinn er skjót æði eða reiði hljóp á hann, að hann stillti sig fyrst og lét svo renna af sér reiðina og leit á sakar óreiður. Nú gerir hann enn svo og bar þetta fyrir vini sína og finna þeir allir saman hér ráð til, það hið fyrsta að láta sendimenn heim fara óspillta.


41. Ferð Hauks til Englands

Annað sumar eftir sendi Haraldur konungur skip vestur til Englands og fékk til stýrimann Hauk hábrók. Hann var kappi mikill og hinn kærsti konungi. Hann fékk í hönd honum Hákon son sinn.

Haukur fór þá vestur til Englands á fund Aðalsteins konungs og fann hann í Lundúnum. Þar var þá boð fyrir og veisla virðileg. Haukur segir sínum mönnum þá er þeir koma að höllinni hvernug þeir skulu hátta inngöngunni, segir að sá skal síðast út ganga er fyrstur gengur inn og allir standa jafnfram fyrir borðinu og hver þeirra hafa sverð á vinstri hlið og festa svo yfirhöfnina að eigi sjái sverðið. Síðan ganga þeir inn í höllina. Þeir voru þrír tigir manna. Gekk Haukur fyrir konung og kvaddi hann. Konungur biður hann velkominn. Þá tók Haukur sveininn Hákon og setur á kné Aðalsteini konungi. Konungur sér á sveininn og spyr Hauk hví hann fer svo.

Haukur svarar: "Haraldur konungur bað þig fóstra honum ambáttarbarn."

Konungur varð reiður mjög og greip til sverðs er var hjá honum og brá svo sem hann vildi drepa sveininn.

"Knésett hefir þú hann nú," segir Haukur. "Nú máttu myrða hann ef þú vilt en ekki muntu með því eyða öllum sonum Haralds konungs."

Gekk Haukur síðan út og allir hans menn og fara leið sína til skips og halda í haf er þeir eru að því búnir og komu aftur til Noregs á fund Haralds konungs og líkaði honum nú vel því að það er mál manna að sá væri ótignari er öðrum fóstraði barn.

Í þvílíkum viðskiptum konunga fannst það að hvor þeirra vildi vera meiri en annar og varð ekki misdeili tignar þeirra að heldur fyrir þessar sakir. Hvortveggi var yfirkonungur síns ríkis til dauðadags.


42. Skírður Hákon

Aðalsteinn konungur lét skíra Hákon og kenna rétta trú og góða siðu og alls konar kurteisi. Aðalsteinn konungur unni honum svo mikið, meira en öllum frændum sínum, og út í frá unni honum hver maður er hann kunni. Hann var síðan kallaður Aðalsteinsfóstri. Hann var hinn mesti íþróttamaður, meiri og sterkari og fríðari en hver maður annarra. Hann var vitur og orðsnjallur og vel kristinn.

Aðalsteinn konungur gaf Hákoni sverð það er hjöltin voru úr gulli og meðalkaflinn en brandurinn var þó betri. Þar hjó Hákon með kvernstein til augans. Það var síðan kallað Kvernbítur. Það sverð hefir best komið til Noregs. Það átti Hákon til dauðadags.


43. Leiddur Eiríkur til ríkis

Haraldur konungur var þá áttræður að aldri. Gerðist hann þá þungfær svo að hann þóttist eigi mega fara yfir land eða stjórna konungsmálum. Þá leiddi hann Eirík son sinn til hásætis síns og gaf honum vald yfir landi öllu.

En er það spurðu aðrir synir Haralds konungs þá settist Hálfdan svarti í konungshásæti. Tók hann þá til forráða allan Þrándheim. Hurfu að því ráði allir Þrændir með honum.

Eftir fall Bjarnar kaupmanns tók Ólafur bróðir hans ríki yfir Vestfold og til fósturs Guðröð son Bjarnar. Tryggvi hét sonur Ólafs. Voru þeir Guðröður fóstbræður og nær jafnaldrar og báðir hinir efnilegstu og atgervimenn miklir. Tryggvi var hverjum manni meiri og sterkari.

En er Víkverjar spurðu að Hörðar höfðu tekið til yfirkonungs Eirík þá tóku þeir Ólaf til yfirkonungs í Víkinni og hélt hann því ríki. Þetta líkaði Eiríki stórilla.

Tveim vetrum síðar varð Hálfdan svarti bráðdauður inn í Þrándheimi að veislu nokkurri og var það mál manna að Gunnhildur konungamóðir hefði keypt að fjölkunnigri konu að gera honum banadrykk. Eftir það tóku Þrændir Sigröð til konungs.


44. Dauði Haralds konungs

Haraldur konungur lifði þrjá vetur síðan er hann hafði Eiríki gefið einvald ríkisins, var þá á Rogalandi eða á Hörðalandi að stórbúum er hann átti. Eiríkur og Gunnhildur áttu son er Haraldur konungur jós vatni og gaf nafn sitt, sagði svo að sá skyldi konungur vera eftir Eirík föður sinn.

Haraldur konungur gifti flestar dætur sínar innanlands jörlum sínum og eru þaðan komnar miklar kynkvíslir.

Haraldur konungur varð sóttdauður á Rogalandi. Er hann heygður á Haugum við Karmtsund. Í Haugasundi stendur kirkja en við sjálfan kirkjugarðinn í útnorður er haugur Haralds konungs hins hárfagra. Fyrir vestan kirkjuna liggur legsteinn Haralds konungs, sá er lá yfir legi hans í hauginum og er steinninn hálfs fjórtánda fets langur og nær tveggja alna breiður. Í miðjum hauginum var leg Haralds konungs. Þar var settur steinn annar að höfði en annar að fótum og lögð þar hellan á ofan en hlaðið grjóti tveim megin utan undir. Þeir steinar standa nú þar í kirkjugarðinum er þá voru í hauginum og nú var frá sagt.

Svo segja fróðir menn að Haraldur hinn hárfagri hafi verið allra manna fríðastur sýnum og sterkastur og mestur, hinn örvasti af fé og allvinsæll við sína menn. Hann var hermaður mikill öndverða ævi.

Og þýða menn það nú að vitað hafi um tré það hið mikla er móður hans sýndist í draumi fyrir burð hans, er hinn neðsti hlutur trésins var rauður sem blóð en þá var leggurinn upp frá fagur og grænn, að það jartegndi blóma ríkis hans. En að ofanverðu var hvítt tréið. Þar sýndist það að hann mundi fá elli og hæru. Kvistir og limar trésins boðuðu afkvæmi hans er um allt land dreifðist og af hans ætt hafa verið jafnan síðan konungar í Noregi.


45. Fall Ólafs og Sigröðar

Eiríkur konungur tók allar tekjur þær sem konungur átti um mitt land hinn næsta vetur eftir andlát Haralds konungs en Ólafur austur um Víkina en Sigröður bróðir þeirra hafði allt um Þrændalög. Eiríki líkaði þetta stórilla og fóru þau orð um að hann mundi með styrk eftir leita við bræður sína ef hann mætti fá einvaldsríki yfir landi öllu svo sem faðir hans hafði gefið honum.

En er Ólafur og Sigröður spyrja þetta þá fara sendimenn milli þeirra. Því næst gera þeir stefnulag sitt og fer Sigröður um vorið austur til Víkur og finnast þeir Ólafur bræður í Túnsbergi og dvöldust þar um hríð.

Það sama vor býður Eiríkur út liði miklu og skipum og snýr austur til Víkur. Eiríkur konungur fékk svo mikið hraðbyri að hann sigldi dag og nótt og fór engi njósn fyrir honum.

Og er hann kom til Túnsbergs þá gengu þeir Ólafur og Sigröður með lið sitt austur úr bænum á brekkuna og fylktu þar. Eiríkur hafði lið miklu meira og fékk hann sigur en þeir Ólafur og Sigröður féllu þar báðir og er þar haugur hvorstveggja þeirra á brekkunni sem þeir lágu fallnir. Eiríkur fór um Víkina og lagði undir sig og dvaldist þar lengi sumars. Tryggvi og Guðröður flýðu þá til Upplanda.

Eiríkur var mikill maður og fríður, sterkur og hreystimaður mikill, hermaður mikill og sigursæll, ákafamaður í skapi, grimmur, óþýður og fálátur. Gunnhildur kona hans var kvinna fegurst, vitur og margkunnig, glaðmælt og undirhyggjumaður mikill og hin grimmasta. Þau voru börn þeirra Eiríks og Gunnhildar: Gamli var elstur, Guttormur, Haraldur, Ragnfröður, Ragnhildur, Erlingur, Guðröður, Sigurður slefa. Öll voru börn Eiríks fríð og mannvæn.




Netútgáfan - ágúst 1999