HÁKONAR  SAGA  AÐALSTEINSFÓSTRA




1. Hákon til konungs tekinn

Hákon Aðalsteinsfóstri var þá á Englandi er hann spurði andlát Haralds konungs föður síns. Bjóst hann þá þegar til ferðar. Fékk Aðalsteinn konungur honum lið og góðan skipakost og bjó hans för allveglega og kom hann um haustið til Noregs. Þá spurði hann fall bræðra sinna og það að Eiríkur konungur var þá í Víkinni. Sigldi þá Hákon norður til Þrándheims og fór á fund Sigurðar Hlaðajarls er allra spekinga var mestur í Noregi og fékk þar góðar viðtökur og bundu þeir lag sitt saman. Hét Hákon honum miklu ríki ef hann yrði konungur.

Þá létu þeir stefna þing fjölmennt og á þinginu talaði Sigurður jarl af hendi Hákonar og bauð bóndum hann til konungs. Eftir það stóð Hákon sjálfur upp og talaði. Mæltu þá tveir og tveir sín á milli að þar væri þá kominn Haraldur hinn hárfagri og orðinn ungur í annað sinn.

Hákon hafði það upphaf síns máls að hann beiddi bændur að gefa sér konungsnafn og það með að veita sér fylgd og styrk til að halda konungdóminum en þar í mót bauð hann þeim að gera alla bændur óðalborna og gefa þeim óðul sín er á bjuggu.

Að þessu erindi varð rómur svo mikill að allur búandamúgurinn æpti og kallaði að þeir vildu hann til konungs taka. Og var svo gert að Þrændir tóku Hákon til konungs um allt land. Þá var hann fimmtán vetra. Tók hann sér þá hirð og fór yfir land.

Þau tíðindi spurðust á Upplönd að Þrændir höfðu sér konung tekið slíkan að öllu sem Haraldur hinn hárfagri var, nema það skildi að Haraldur hafði allan lýð í landi þrælkað og áþjáð en þessi Hákon vildi hverjum manni gott og bauð aftur að gefa bóndum óðul sín, þau er Haraldur konungur hafði af þeim tekið. Við þau tíðindi urðu allir glaðir og sagði hver öðrum. Flaug það sem sinueldur allt austur til landsenda. Margir bændur fóru af Upplöndum að hitta Hákon konung, sumir sendu menn, sumir gerðu orðsendingar og jartegnir, allir til þess að hans menn vildu gerast. Konungur tók því þakksamlega.


2. Frá Hákoni konungi

Hákon konungur fór öndurðan vetur á Upplönd, stefndi þar þing og dreif allt fólk á hans fund, það er komast mátti. Var hann þá til konungs tekinn á öllum þingum. Fór hann þá austur til Víkur. Þar komu til hans Tryggvi og Guðröður bræðrasynir hans og margir aðrir er upp töldu harma sína þá er hlotið höfðu af Eiríki bróður hans. Eiríks óvinsæld óx æ því meir sem allir menn gerðu sér kærra við Hákon konung og heldur höfðu sér traust að mæla sem þótti.

Hákon konungur gaf konungsnafn Tryggva og Guðröði og ríki það sem Haraldur konungur hafði gefið feðrum þeirra. Tryggva gaf hann Ranríki og Vingulmörk en Guðröði Vestfold. En fyrir því að þeir voru ungir og bernskir þá setti hann til göfga menn og vitra að ráða landi með þeim. Gaf hann þeim land með þeim skildaga sem fyrr hafði verið, að þeir skyldu hafa helming skylda og skatta við hann. Fór Hákon konungur norður til Þrándheims er voraði hið efra um Upplönd.


3. Ferð Eiríks úr landi

Hákon konungur dró saman her mikinn í Þrándheimi er voraði og réð til skipa. Víkverjar höfðu og her mikinn úti og ætluðu til móts við Hákon. Eiríkur bauð og liði út um mitt land og varð honum illt til liðs því að ríkismenn margir skutust honum og fóru til Hákonar.

En er hann sá engi efni til mótstöðu í móti her Hákonar þá sigldi hann vestur um haf með því liði er honum vildi fylgja. Fór hann fyrst til Orkneyja og hafði þaðan með sér lið mikið. Þá sigldi hann suður til Englands og herjaði um Skotland hvar sem hann kom við land. Hann herjaði og allt norður um England.

Aðalsteinn Englakonungur sendi orð Eiríki og bauð honum að taka af sér ríki í Englandi, sagði svo að Haraldur konungur faðir hans var mikill vinur Aðalsteins konungs svo að hann vill það virða við son hans. Fóru þá menn í milli konunganna og semst það með einkamálum að Eiríkur konungur tók Norðimbraland að halda af Aðalsteini konungi og verja þar land fyrir Dönum og öðrum víkingum. Eiríkur skyldi láta skírast og kona hans og börn þeirra og allt lið hans það er honum hafði fylgt þangað. Tók Eiríkur þenna kost. Var hann þá skírður og tók rétta trú. Norðimbraland er kallað fimmtungur Englands. Hann hafði aðsetu í Jórvík þar sem menn segja að fyrr hafi setið Loðbrókarsynir.

Norðimbraland var mest byggt Norðmönnum síðan er Loðbrókarsynir unnu landið. Herjuðu Danir og Norðmenn oftlega þangað síðan er vald landsins hafði undan þeim gengið. Mörg heiti landsins eru þar gefin á norræna tungu, Grímsbær og Hauksfljót og mörg önnur.


4. Fall Eiríks konungs

Eiríkur konungur hafði fjölmenni mikið um sig, hélt þar fjölda Norðmanna er austan hafði farið með honum og enn komu margir vinir hans síðan af Noregi. Hann hafði land lítið. Þá fór hann jafnan í hernað á sumrum, herjaði á Skotland og Suðureyjar, Írland og Bretland og aflaði sér svo fjár.

Aðalsteinn konungur varð sóttdauður. Hann hafði verið konungur fjórtán vetur og átta vikur og þrjá daga. Síðan var konungur í Englandi Játmundur bróðir hans. Var honum ekki um Norðmenn. Var Eiríkur konungur eigi í kærleikum við hann og fóru þá þau orð um af Játmundi konungi að hann mundi annan höfðingja setja yfir Norðimbraland.

En er það spurði Eiríkur konungur þá fór hann í vesturvíking og hafði úr Orkneyjum með sér Arnkel og Erlend sonu Torf-Einars. Síðan fór hann í Suðureyjar og voru þar margir víkingar og herkonungar og réðust til liðs með Eiríki. Hélt hann þá öllu liðinu fyrst til Írlands og hafði þaðan lið slíkt er hann fékk. Síðan fór hann til Bretlands og herjaði þar. Eftir það sigldi hann suður undir England og herjaði þar sem í öðrum stöðum en allt lið flýði þar sem hann fór. Og með því að Eiríkur var hreystimaður mikill og hafði her mikinn þá treystist hann svo vel liði sínu að hann gekk langt á land upp og herjaði og leitaði eftir mönnum.

Ólafur hét konungur sá er Játmundur konungur hafði þar sett til landvarnar. Hann dró saman her óvígjan og fór á hendur Eiríki konungi og varð þar mikil orusta. Féllu mjög enskir menn og þar sem einn féll komu þrír af landi ofan í staðinn. Og hinn efra hlut dagsins snýr mannfallinu á hendur Norðmönnum og féll þar mikið fólk og að lyktum þess dags féll Eiríkur konungur og fimm konungar með honum. Þessir eru nefndir: Guttormur og synir hans tveir, Ívar og Hárekur. Þar féll og Sigurður og Rögnvaldur. Þar féll og Arnkell og Erlendur synir Torf-Einars. Þar varð allmikið mannfall af Norðmönnum en þeir er undan komust fóru til Norðimbralands og sögðu Gunnhildi og sonum hennar þessi tíðindi.


5. Ferð Gunnhildarsona

En er þau Gunnhildur urðu þessa vör, að Eiríkur konungur var fallinn og hann hafði áður herjað land Englakonungs, þá þykjast þau vita að þeim mun þar vera eigi friðvænt. Búast þau þá þegar í brott af Norðimbralandi og hafa skip þau öll er Eiríkur konungur hafði átt, höfðu lið það og allt er þeim vildi fylgja og óf lausafjár er þar hafði saman dregist í sköttum á Englandi en sumt hafði fengist í hernaði. Þau halda liði sínu norður til Orkneyja og staðfestust þar um hríð. Þá var þar jarl Þorfinnur hausakljúfur sonur Torf-Einars. Tóku þá synir Eiríks undir sig Orkneyjar og Hjaltland og höfðu skatta af og sátu þar um vetrum en fóru í vesturvíking á sumrum, herjuðu um Skotland og Írland.

Þess getur Glúmur Geirason:

Hafði för til ferju
fróðr Skáneyjar góða
blakkríðandi bakka
barnungr þaðan farna.
Rógeisu vann ræsir,
rand-Ullr, á Skotlandi,
sendi seggja kindar
sverðbautinn her Gauti.

Dólgeisu rak dísar,
drótt kom mörg á flótta,
gumna vinr að gamni
gjóðum, írskrar þjóðar.
Foldar rauð og felldi
Freyr í manna dreyra
sunnr, á sigr um hlynninn,
seggi mækis eggjar.


6. Orusta á Jótlandi

Hákon konungur Aðalsteinsfóstri lagði undir sig allan Noreg þá er Eiríkur bróðir hans hafði brott flúið. Hákon konungur sótti hinn fyrsta vetur vestur í landið, eftir það norður í Þrándheim og sat þar. En fyrir þær sakir að eigi þótti friðlegt ef Eiríkur konungur leitaði vestan um haf með her sinn, sat hann fyrir því með lið sitt um mitt land í Firðafylki og Sogni, á Hörðalandi og Rogalandi.

Hákon setti Sigurð Hlaðajarl yfir öll Þrændalög svo sem hann hafði fyrr haft og Hákon faðir hans af Haraldi konungi hinum hárfagra.

En er Hákon konungur spurði fall Eiríks konungs bróður síns og það að synir Eiríks konungs höfðu ekki traust í Englandi þá þótti honum lítil ógn af þeim standa, fór þá með liði sínu á einu sumri austur í Vík.

Í þann tíma herjuðu Danir mjög í Víkina og gerðu þar oft mikinn skaða. En er þeir spurðu að Hákon konungur var þar kominn með her mikinn þá flýðu allir undan, sumir suður til Hallands en þeir er nær meir voru Hákoni konungi stefndu út á hafið og svo suður til Jótlands. En er Hákon konungur varð þessa var þá sigldi hann eftir þeim með allan her sinn.

En er hann kom til Jótlands og menn urðu við það varir þá draga þeir her saman og vilja verja land sitt og ráða til orustu við Hákon konung. Varð þar orusta mikil. Barðist Hákon konungur svo djarflega að hann var fyrir framan merki og hafði hvorki hjálm né brynju. Hákon konungur hafði sigur og rak flótta langt á land upp.

Svo kvað Guttormur sindri í Hákonardrápu:

Bifrauknum trað bekkjar
bláröst konungr árum.
Mætr hlóð mildingr Jótum
mistar vífs í drífu.
Svangæðir rak síðan
sótt Jálfaðar flótta
hrótgiljaðar hylja
hrafnvíns að mun sínum.


7. Orusta í Eyrarsundi

Síðan hélt Hákon konungur liði sínu sunnan til Selundar og leitaði víkinga. Hann reri með tvær snekkjur fram í Eyrarsund. Þar hitti hann ellefu víkingasnekkjur og lagði þegar til orustu við þá og lauk svo að hann hafði sigur og hrauð öll víkingaskipin.

Svo segir Guttormur sindri:

Álmdrósar fór eisu
élrunnr mörum sunnan
trjónu tingls á græna
tveim einum selmeina,
þá er ellefu allar
allreiðr Dana skeiðar
valsendir hrauð vandar,
víðfrægr að það síðan.


8. Hernaður Hákonar konungs í Danmörk

Eftir það herjaði Hákon konungur víða um Selund og rændi mannfólkið en drap sumt en sumt hertók hann, tók gjöld stór af sumum, fékk þá enga mótstöðu.

Svo segir Guttormur sindri:

Selund náði þá síðan
sóknheggr und sig leggja,
vals og Vinda frelsi
við Skáneyjarsíðu.

Síðan fór Hákon konungur austur fyrir Skáneyjarsíðu og herjaði allt, tók gjöld og skatta af landinu og drap alla víkinga hvar sem hann fann, bæði Dani og Vindur. Fór hann allt austur fyrir Gautland og herjaði þar og fékk þar stór gjöld af landinu.

Svo segir Guttormur sindri:

Skattgilda vann skyldir
skautjalfaðar Gauta.
Gullskýflir vann gjöflastr
geirveðr í för þeiri.

Hákon konungur fór aftur um haustið með lið sitt og hafði fengið ógrynni fjár. Hann sat um veturinn í Víkinni við áhlaupum ef Danir og Gautar gerðu þar.


9. Frá Tryggva konungi

Það haust kom Tryggvi konungur Ólafsson úr vesturvíking. Hafði hann þá áður herjað um Írland og Skotland.

Um vorið fór Hákon konungur norður í land og setti Tryggva konung bróðurson sinn yfir Víkina að verja fyrir ófriði og eignast slíkt af þeim löndum í Danmörku er Hákon konungur hafði hið fyrra sumarið skattgilt.

Svo segir Guttormur sindri:

Og sóknhattar setti
svellrjóðr að því fljóði
Ónars, eiki grónu,
austr geðbæti hraustan,
þann er áðr frá Írum
íðvandr um kom skíðum
salbrigðandi Sveigðis
svanvangs liði þangað.


10. Frá Gunnhildarsonum

Haraldur konungur Gormsson réð þá fyrir Danmörku. Honum líkaði stórilla það er Hákon konungur hafði herjað í land hans og fóru þau orð um að Danakonungur mundi hefnast vilja en það varð þó ekki svo bráðlega.

En er þetta spurði Gunnhildur og synir hennar, að ófriður var millum Danmerkur og Noregs, þá byrja þau ferð sína vestan. Þau giftu Ragnhildi dóttur Eiríks Arnfinni syni Þorfinns hausakljúfs. Settist þá enn Þorfinnur jarl að Orkneyjum en Eiríkssynir fóru í brott. Gamli Eiríksson var þá nokkuru elstur og var hann þó eigi roskinn maður.

En er Gunnhildur kom til Danmerkur með sonu sína þá fór hún á fund Haralds konungs og fékk þar góðar viðtekjur. Fékk Haraldur konungur þeim veislur í ríki sínu svo miklar að þau fengu vel haldið sig og menn sína. En hann tók til fósturs Harald Eiríksson og knésetti hann. Fæddist hann þar upp í hirð Danakonungs. Sumir Eiríkssynir fóru í hernað þegar er þeir höfðu aldur til og öfluðu sér fjár, herjuðu um Austurveg. Þeir voru snemma menn fríðir og fyrr rosknir að afli og atgervi en að vetratali.

Þess getur Glúmur Geirason í Gráfeldardrápu:

Austrlöndum fórst undir
allvaldr, sá er gaf skaldum,
hann fékk gagn að gunni,
gunnhörga slög mörgum.
Slíðrtungur lét syngva
sverðleiks reginn. Ferðir
sendi gramr að grundu
gullvarpaðar snarpar.

Eiríkssynir snerust þá og með her sinn norður í Víkina og herjuðu þar en Tryggvi konungur hafði her úti og hélt til móts við þá og áttu þeir orustur margar og höfðu ýmsir sigur. Herjuðu Eiríkssynir stundum í Víkina en Tryggvi stundum um Halland og Sjáland.


11. Fæddur Hákon hinn ríki

Þá er Hákon var konungur í Noregi var friður góður með búendum og kaupmönnum svo að engi grandaði öðrum né annars fé. Þá var ár mikið bæði á sjá og á landi.

Hákon konungur var allra manna glaðastur og málsnjallastur og lítillátastur. Hann var maður stórvitur og lagði mikinn hug á lagasetning. Hann setti Gulaþingslög með ráði Þorleifs spaka og hann setti Frostaþingslög með ráði Sigurðar jarls og annarra Þrænda þeirra er vitrastir voru. En Heiðsævislög hafði sett Hálfdan svarti sem fyrr er ritað.

Hákon konungur hafði jólaveislu í Þrándheimi. Hafði Sigurður jarl búið fyrir honum á Hlöðum. Hina fyrstu jólanótt ól Bergljót kona jarls sveinbarn.

Eftir um daginn jós Hákon konungur svein þann vatni og gaf nafn sitt og óx sveinn sá upp og varð síðan ríkur maður og göfugur. Sigurður jarl var hinn kærsti vinur Hákonar konungs.


12. Frá Eysteini illa

Eysteinn Upplendingakonungur, er sumir kalla hinn ríkja en sumir hinn illa, hann herjaði í Þrándheim og lagði undir sig Eynafylki og Sparbyggjafylki og setti þar yfir son sinn er hét ... En Þrændir drápu hann.

Eysteinn konungur fór annað sinn herför í Þrándheim og herjaði þá víða og lagði undir sig. Þá bauð hann Þrændum hvort þeir vildu heldur hafa að konungi þræl hans er hét Þórir faxi eða hund er Saur hét en þeir kuru hundinn því að þeir þóttust þá mundu heldur sjálfráða. Þeir létu síða í hundinn þriggja manna vit og gó hann til tveggja orða en mælti hið þriðja. Helsi var honum gert og viðjar af silfri og gulli. En þegar er saurugt var báru hirðmenn hann á herðum sér. Hásæti var honum búið og hann sat á haugi sem konungar og bjó í Eyjunni innri og hafði aðsetu þar sem heitir Saurshaugur. Það er sagt að honum varð að bana að vargar lögðust á hjörð hans en hirðmenn eggjuðu hann að verja fé sitt. Hann gekk af hauginum og fór þangað til sem vargarnir voru en þeir rifu hann þegar í sundur.

Mörg undur önnur gerði Eysteinn konungur við Þrændi. Af þeim hernaði og ófriði flýðu margir höfðingjar og mart fólk flýði óðul sín.

Ketill jamti sonur Önundar jarls úr Sparabúi fór austur um Kjöl og mikill mannfjöldi með honum og höfðu búferli sín með sér. Þeir ruddu markir og byggðu þar stór héruð. Það var síðan kallað Jamtaland.

Sonarsonur Ketils var Þórir helsingur. Hann fór fyrir víga sakir af Jamtalandi og austur yfir markir þær er þar verða og byggði þar og sótti þannug fjöldi manns með honum, og það er kallað Helsingjaland. Gengur það allt austur til sjávar. Helsingjaland byggðu Svíar allt hið eystra með hafinu.

En er Haraldur konungur hinn hárfagri ruddi ríki fyrir sér þá stökk enn fyrir honum fjöldi manns úr landi, Þrændir og Naumdælir, og gerðust þá enn byggðir austur um Jamtaland og sumir fóru allt í Helsingjaland. Helsingjar höfðu kaupferðir sínar til Svíþjóðar og voru þannug lýðskyldir að öllu en Jamtur voru mjög alls í millum og gaf engi að því gaum fyrr en Hákon setti frið og kaupferðir til Jamtalands og vingaðist þar við ríkismenn. Þeir sóttu síðan austan á hans fund og játuðu honum hlýðni sinni og skattgjöfum og gerðust hans þegnar því að þeir spurðu gott til hans. Vildu þeir heldur þýðast undir hans konungdóm en undir Svíakonung því að þeir voru af Norðmanna ætt komnir en hann setti þeim lög og landsrétt. Svo gerðu og allir Helsingjar þeir er æskaðir voru um Kjöl norðan.


13. Frá Hákoni konungi

Hákon konungur var vel kristinn er hann kom í Noreg. En fyrir því að þar var land allt heiðið og blótskapur mikill og stórmenni mart, en hann þóttist liðs þurfa mjög og alþýðuvinsæld, þá tók hann það ráð að fara leynilega með kristninni, hélt sunnudaga og frjádagaföstu. Hann setti það í lögum að hefja jólahald þann tíma sem kristnir menn og skyldi þá hver maður eiga mælis öl en gjalda fé ella og halda heilagt meðan öl ynnist. En áður var jólahald hafið hökunótt. Það var miðsvetrarnótt og haldin þriggja nátta jól.

Hann ætlaði svo, er hann festist í landinu og hann hefði frjálslega undir sig lagt allt land, að hafa þá fram kristniboð. Hann gerði svo fyrst að hann lokkaði þá menn er honum voru kærstir til kristni. Kom svo með vinsæld hans að margir létu skírast en sumir létu af blótum. Hann sat löngum í Þrándheimi því að þar var mestur styrkur landsins.

En er Hákon konungur þóttist fengið hafa styrk af nokkurum ríkismönnum að halda upp kristninni þá sendi hann til Englands eftir biskupi og öðrum kennimönnum. Og er þeir komu í Noreg þá gerði Hákon konungur það bert að hann vildi bjóða kristni um allt land. En Mærir og Raumdælir skutu þannug sínu máli sem Þrændir voru. Hákon konungur lét þá vígja kirkjur nokkurar og setti þar presta til.

En er hann kom í Þrándheim þá stefndi hann þing við bændur og bauð þeim kristni. Þeir svara svo að þeir vilja þessu máli skjóta til Frostaþings og vilja þá að þeir komi úr öllum fylkjum þeim sem eru í Þrændalögum, segja að þá munu þeir svara þessu vandmæli.


14. Frá blótum

Sigurður Hlaðajarl var hinn mesti blótmaður og svo var Hákon faðir hans. Hélt Sigurður jarl upp blótveislum öllum af hendi konungs þar í Þrændalögum.

Það var forn siður þá er blót skyldi vera að allir bændur skyldu þar koma sem hof var og flytja þannug föng sín, þau er þeir skyldu hafa meðan veislan stóð. Að veislu þeirri skyldu allir menn öl eiga. Þar var og drepinn alls konar smali og svo hross en blóð það allt er þar kom af, þá var kallað hlaut og hlautbollar það er blóð það stóð í, og hlautteinar, það var svo gert sem stökklar, með því skyldi rjóða stallana öllu saman og svo veggi hofsins utan og innan og svo stökkva á mennina en slátur skyldi sjóða til mannfagnaðar. Eldar skyldu vera á miðju gólfi í hofinu og þar katlar yfir. Skyldi full um eld bera en sá er gerði veisluna og höfðingi var, þá skyldi hann signa fullið og allan blótmatinn. Skyldi fyrst Óðins full, skyldi það drekka til sigurs og ríkis konungi sínum, en síðan Njarðar full og Freys full til árs og friðar. Þá var mörgum mönnum títt að drekka þar næst bragafull. Menn drukku og full frænda sinna, þeirra er heygðir höfðu verið, og voru það minni kölluð.

Sigurður jarl var manna örvastur. Hann gerði það verk er frægt var mjög að hann gerði mikla blótveislu á Hlöðum og hélt einn upp öllum kostnaði.

Þess getur Kormákur Ögmundarson í Sigurðardrápu:

Hafit maðr ask né eskis
afspring með sér þingað
fésæranda að færa
fets. Véltu goð Þjassa.
Hver muni vés við valdi
vægja kind um bægjast,
því að fúr-Rögni fagnar
fens. Vó gramr til menja.


15. Þing á Frostu

Hákon konungur kom til Frostaþings og var þar komið allfjölmennt af bóndum. En er þing var sett þá talaði Hákon konungur, hóf þar fyrst að það væri boð hans og bæn við bændur og búþegna, ríka og óríka, og þar með við alla alþýðu, unga menn og gamla, sælan og vesælan, konur sem karla, að allir menn skyldu kristnast láta og trúa á einn guð, Krist Maríuson, en hafna blótum öllum og heiðnum goðum, halda heilagt hinn sjöunda hvern dag við vinnum öllum, fasta og hinn sjöunda hvern dag.

En þegar er konungur hafði þetta upp borið fyrir alþýðu þá var þegar mikill kurr. Kurruðu bændur um það er konungur vildi vinnur taka af þeim og svo að við það mátti landið eigi byggja. En verkalýður og þrælar kölluðu það að þeir mættu eigi vinna ef þeir skyldu eigi mat hafa, sögðu og að það var skaplöstur Hákonar konungs og föður hans og þeirra frænda að þeir voru illir af mat, svo þótt þeir væru mildir af gulli.

Ásbjörn af Meðalhúsum úr Gaulardal stóð upp og svaraði erindi konungs og mælti: "Það hugðum vér bændur Hákon konungur," segir hann, "að þá er þú hafðir hið fyrsta þing haft hér í Þrándheimi og höfðum þig til konungs tekinn og þegið af þér óðul vor að vér hefðum þá höndum himin tekið, en nú vitum vér eigi hvort heldur er, að vér munum frelsi þegið hafa eða muntu nú láta þrælka oss af nýju með undarlegum hætti, að vér munum hafna átrúnaði þeim er feður vorir hafa haft fyrir oss og allt foreldri, fyrst um brunaöld en nú um haugsöld, og hafa þeir verið miklu göfgari en vér og hefir oss þó dugað þessi átrúnaður. Vér höfum lagt til yðar svo mikla ástúð að vér höfum þig ráða látið með oss öllum lögum og landsrétt. Nú er það vilji vor og samþykki bóndanna að halda þau lög sem þú settir oss hér á Frostaþingi og vér játuðum þér. Viljum vér allir þér fylgja og þig til konungs halda meðan einnhver er lífs bóndanna, þeirra er hér eru nú á þinginu, ef þú konungur vilt nokkuð hóf við hafa að beiða oss þess eins er vér megum veita þér og oss sé eigi ógeranda. En ef þér viljið þetta mál taka með svo mikilli frekju að deila afli og ofríki við oss þá höfum vér bændur gert ráð vort að skiljast allir við þig og taka oss annan höfðingja, þann er oss haldi til þess að vér megum í frelsi hafa þann átrúnað sem vér viljum. Nú skaltu konungur kjósa um kosti þessa áður þing sé slitið."

Að erindi þessu gerðu bændur róm mikinn og segja að þeir vilja svo vera láta.


16. Svör Sigurðar jarls

En er hljóð fékkst þá svaraði Sigurður jarl: "Það er vilji Hákonar konungs að samþykkja við yður bændur og láta aldrei skilja yðra vináttu."

Bændur segja að þeir vilja að konungur blóti til árs þeim og friðar svo sem faðir hans gerði. Staðnar þá kurrinn og slíta þeir þinginu.

Síðan talaði Sigurður jarl við konung að hann skyldi eigi fyrirtaka með öllu að gera sem bændur vildu, segir að eigi mundi annað hlýða: "Er þetta konungur, sem sjálfir þér megið heyra, vilji og ákafi höfðingja og þar með alls fólks. Skulum vér konungur hér finna til gott ráð nokkuð."

Og samdist það með þeim konungi og jarli.


17. Frá blótum

Um haustið að vetri var blótveisla á Hlöðum og sótti þar til konungur. Hann hafði jafnan fyrr verið vanur ef hann var staddur þar er blót voru að matast í litlu húsi með fá menn. En bændur töldu að því er hann sat eigi í hásæti sínu þá er mestur var mannfagnaður. Sagði jarl að hann skyldi eigi þá svo gera. Var og svo að konungur sat í hásæti sínu.

En er hið fyrsta full var skenkt þá mælti Sigurður jarl fyrir og signaði Óðni og drakk af horninu til konungs. Konungur tók við og gerði krossmark yfir.

Þá mælti Kár af Grýtingi: "Hví fer konungurinn nú svo? Vill hann enn eigi blóta?"

Sigurður jarl svarar: "Konungur gerir svo sem þeir allir er trúa á mátt sinn og megin og signa full sitt Þór. Hann gerði hamarsmark yfir áður hann drakk."

Var þá kyrrt um kveldið.

Eftir um daginn er menn gengu til borða þá þustu bændur að konungi, sögðu að hann skyldi eta þá hrossaslátur. Konungur vildi það fyrir engan mun. Þá báðu þeir hann drekka soðið. Hann vildi það eigi. Þá báðu þeir hann eta flotið. Hann vildi það og eigi og var þá við atgöngu.

Sigurður jarl segir að hann vill sætta þá og bað þá hætta storminum og bað hann konung gína yfir ketilhödduna er soðreykinn hafði lagt upp af hrossaslátrinu og var smjör haddan. Þá gekk konungur til og brá líndúk um hödduna og gein yfir og gekk síðan til hásætis og líkaði hvorigum vel.


18. Blótveisla á Mærini

Um veturinn eftir var búið til jóla konungi inn á Mærini. En er að leið jólunum þá lögðu þeir stefnu með sér átta höfðingjar er mest réðu fyrir blótum í öllum Þrændalögum. Þeir voru fjórir utan úr Þrándheimi: Kár af Grýtingi og Ásbjörn af Meðalhúsum, Þorbergur af Varnesi, Ormur af Ljoxu, en af Innþrændum: Blótólfur af Ölvishaugi, Narfi af Staf úr Veradal, Þrándur haka af Eggju, Þórir skegg af Húsabæ í Eyjunni innri. Þessir átta menn bundust í því að þeir fjórir af Útþrændum skyldu eyða kristninni en þeir fjórir af Innþrændum skyldu neyða konung til blóta.

Útþrændir fóru fjórum skipum suður á Mæri og drápu þar presta þrjá og brenndu kirkjur þrjár, fóru aftur síðan.

En er Hákon konungur og Sigurður jarl komu inn á Mærini með her sinn þá voru þar bændur komnir allfjölmennt.

Hinn fyrsta dag að veislunni veittu bændur honum atgöngu og báðu hann blóta en hétu honum afarkostum ella. Sigurður jarl bar þá mál í millum þeirra. Kemur þá svo að Hákon konungur át nokkura bita af hrosslifur. Drakk hann þá öll minni krossalaust, þau er bændur skenktu honum.

En er veislu þeirri var lokið fór konungur og jarl þegar út á Hlaðir. Var konungur allókátur og bjóst þegar í brott með öllu liði sínu úr Þrándheimi og mælti svo að hann skyldi fjölmennari koma í annað sinn í Þrándheim og gjalda Þrændum þenna fjandskap er þeir höfðu til hans gert.

Sigurður jarl bað konung gefa Þrændum þetta ekki að sök, segir svo að konungi mundi ekki það duga að heitast eða herja á innanlandsfólk og þar síst er mestur styrkur var landsins sem í Þrándheimi var.

Konungur var svo reiður að ekki mátti orðum við hann koma. Fór hann í brott úr Þrándheimi og suður á Mæri, dvaldist þar um veturinn og um vorið. En er sumraði dró hann lið að sér og voru þau orð á að hann mundi fara með her þann á hendur Þrændum.


19. Orusta á Ögvaldsnesi

Hákon konungur var þá á skip kominn og hafði lið mikið. Þá komu honum tíðindi sunnan úr landi, þau að synir Eiríks konungs voru komnir sunnan af Danmörk í Víkina og það fylgdi að þeir höfðu elt af skipum Tryggva konung Ólafsson austur við Sótanes. Höfðu þeir þá víða herjað í Víkinni og höfðu margir menn undir þá gengið.

En er konungur spurði þessi tíðindi þá þóttist hann liðs þurfa. Sendi hann þá orð Sigurði jarli að koma til sín og svo öðrum höfðingjum þeim er honum var liðs að von. Sigurður jarl kom til Hákonar konungs og hafði allmikið lið. Voru þar þá allir Þrændir þeir er um veturinn höfðu mest gengið að konunginum að pynda hann til blóta. Voru þeir þá allir í sætt teknir af fortölum Sigurðar jarls.

Fór Hákon konungur þá suður með landi. En er hann kom suður um Stað þá spurði hann að Eiríkssynir voru þá komnir á Norður-Agðir. Fóru þá hvorir í móti öðrum. Varð fundur þeirra á Körmt. Gengu þá hvorir af skipum og börðust á Ögvaldsnesi. Voru hvorirtveggju allfjölmennir. Varð þar orusta mikil. Sótti Hákon konungur hart fram og var þar fyrir Guttormur konungur Eiríksson með sína sveit og eigast þeir höggvaskipti við. Þar féll Guttormur konungur og var merki hans niður höggvið. Féll þar þá mart lið um hann. Því næst kom flótti í lið Eiríkssona og flýðu þeir til skipanna og reru í brott og höfðu látið mikið lið.

Þess getur Guttormur sindri:

Val-Rögnir lét vegnum
vígnestr saman bresta
handar vafs of höfðum
hlymmildingum gildir.
Þar gekk Njörðr af Nirði
nadds hámána raddar
valbrands víðra landa
vopnunduðum sunda.

Hákon konungur fór til skipa sinna og hélt austur eftir Gunnhildarsonum. Fóru þá hvorirtveggju sem mest máttu þar til er þeir komu á Austur-Agðir. Þá sigldu Eiríkssynir á haf og suður til Jótlands.

Þess getur Guttormur sindri:

Álmdrógar varð ægis
oft sinn, en þess minnumst,
barma öld fyr Baldri
bensíks vita ríkis.
Böðsækir hélt bríkar,
bræðr síns, og rak flæðu
undan allar kindir
Eiríks á haf snekkjum.

Síðan fór Hákon konungur norður aftur til Noregs en Eiríkssynir dvöldust þá enn í Danmörk langa hríð.


20. Lagasetning Hákonar konungs

Eftir þessa orustu setti Hákon konungur það í lögum um allt land með sjá og svo langt upp á land sem lax gengur ofarst, að hann skipaði allri byggð og skipti í skipreiður en hann skipti skipreiðum í fylki. Var þá ákveðið hversu mörg skip voru eða hversu stór skyldi út gera úr hverju fylki þá er almenningur væri úti og skyldi almenningur vera skyldur út að gera þegar er útlendur her væri í landi. Það skyldi og fylgja útboði því að vita skyldi gera á hám fjöllum svo að hvern mætti sjá frá öðrum. Segja menn svo að á sjö nóttum fór herboðið frá hinum synnsta vita í hina nyrstu þinghá á Hálogalandi.


21. Frá Eiríkssonum

Eiríkssynir voru mjög í hernaði í Austurvegi en stundum herjuðu þeir í Noreg svo sem fyrr er ritað. En Hákon konungur réð Noregi og var hinn vinsælasti. Var þá og árferð góð í landi og góður friður.


22. Ferð Eiríkssona til Noregs

Þá er Hákon hafði verið konungur í Noregi tuttugu vetur komu sunnan úr Danmörku synir Eiríks og höfðu allmikið lið. Það var mikið lið er þeim hafði fylgt í hernaði en þó var miklu meiri Danaher er Haraldur Gormsson hafði fengið þeim í hendur. Þeir fengu hraðbyri mikið og sigldu út af Vendli og komu utan að Ögðum, héldu síðan norður með landi og sigldu síðan dag og nótt.

En vitum var ekki upp skotið fyrir þá sök að sú var siðvenja að vitar fóru austan eftir landi en austur þar hafði ekki orðið vart við ferð þeirra. Það bar og enn til að konungur hafði viðurlög mikil ef vitar væru rangt upp bornir, þeim mönnum er kunnir og sannir urðu að því, fyrir þá sök að herskip og víkingar fóru um úteyjar og herjuðu og hugðu landsmenn að þar mundu fara synir Eiríks. Var þá vitum upp skotið og varð herhlaup um land allt en Eiríkssynir fóru aftur til Danmerkur og höfðu engan Danaher haft nema sitt lið. En stundum voru það annars konar víkingar. Varð Hákon konungur þessu mjög reiður er starf og fékostnaður varð af þessu en ekki gagn. Bændur töldu og að fyrir sína hönd er svo fór.

Og varð þessi sök til er engi njósn fór fyrir um ferð Eiríkssona fyrr en þeir komu norður í Úlfasund. Þeir lágu þar sjö nætur. Fór þá sögn hið efra um eiðið norður um Mæri en Hákon konungur var þá á Sunn-Mæri, í ey þeirri er Fræði heitir þar sem heitir Birkiströnd, að búi sínu og hafði ekki lið nema hirð sína og bændur þá er verið höfðu í boði hans.


23. Frá Agli ullserk

Njósnarmenn komu til Hákonar konungs og sögðu honum sín erindi, að Eiríkssynir voru með her mikinn fyrir sunnan Stað. Þá lét hann kalla til sín þá menn er þar voru vitrastir og leitaði ráðs við þá hvort hann skal berjast við sonu Eiríks, þótt liðsmunur sé mikill, eða skal hann fara norður undan og fá sér lið meira.

Egill ullserkur er nefndur bóndi einn er þar var þá, gamlaður mjög, og hafði verið meiri og sterkari hverjum manni og hinn mesti orustumaður. Hann hafði lengi borið merki Haralds konungs hins hárfagra.

Egill svaraði ræðu konungs: "Var eg í nokkurum orustum með Haraldi konungi föður yðrum. Barðist hann stundum við meira liði, stundum við minna. Hafði hann jafnan sigur. Aldregi heyrði eg hann leita þess ráðs að vinir hans skyldu kenna honum að flýja. Munum vér og eigi það ráð gefa konungur því að vér þykjumst eiga höfðingja öruggan. Þér skuluð og eiga trausta fylgd af oss."

Margir aðrir studdu og þá þetta mál. Konungur sagði og svo að hann var þess fúsari að berjast með það er til fengist. Var það þá ráðið. Lét konungur þá skera upp herör og senda alla vega frá sér og lét draga lið saman, slíkt er hann fékk.

Þá mælti Egill ullserkur: "Það óttaðist eg um hríð er friður þessi hinn mikli var að eg mundi verða ellidauður inni á pallstrám mínum en eg vildi heldur falla í orustu og fylgja höfðingja mínum. Kann nú vera að svo megi verða."


24. Orusta við Fræðarberg

Synir Eiríks héldu norður um Stað þegar er leiði gaf. En er þeir komu norður um Stað þá spyrja þeir hvar Hákon konungur var og halda til móts við hann. Hákon konungur hafði níu skip. Hann lagðist norður undir Fræðarberg í Féeyjarsundi en Eiríkssynir lögðu að fyrir sunnan bergið. Þeir höfðu meir en tuttugu skip.

Hákon konungur sendi þeim boð og bað þá á land ganga, segir að hann hafði þeim völl haslað á Rastarkálf. Þar eru sléttir vellir og miklir en fyrir ofan gengur brekka löng og heldur lág. Gengu Eiríkssynir þar af skipum sínum og norður yfir hálsinn fyrir innan Fræðarberg og svo fram á Rastarkálf.

Egill mælti þá til Hákonar konungs, bað hann fá sér tíu menn og tíu merki. Konungur gerði svo. Gekk þá Egill með menn sína upp undir brekkuna.

En Hákon konungur gekk upp á völlinn með sitt lið, setti upp merki og fylkti og sagði svo: "Vér skulum hafa fylking langa svo að þeir kringi eigi um oss þótt þeir hafi lið meira."

Gerðu þeir svo. Varð þar orusta mikil og hin snarpasta. Egill lét þá setja upp merki þau tíu er hann hafði og skipaði svo mönnum þeim er báru að þeir skyldu ganga sem næst brekkunni og láta stundar hríð í millum hvers þeirra. Þeir gerðu svo og gengu fram með brekkunni sem næst svo sem þeir mundu vilja koma á bak þeim Eiríkssonum. Það sáu þeir er efstir stóðu í fylkingu Eiríkssona að merki mörg fóru óðfluga og gnæfuðu fyrir ofan brekkuna og hugðu að þar mundi fylgja lið mikið og mundi vilja koma á bak þeim, milli og skipanna. Gerðist þar þá kall mikið. Sagði hver öðrum hvað títt var. Því næst kom flótti í lið þeirra. En er það sáu konungarnir þá flýðu þeir. Hákon konungur sótti þá hart fram og ráku þeir flóttann og felldu lið mikið.


25. Frá Eiríkssonum

Gamli Eiríksson, þá er hann kom upp á hálsinn fyrir ofan bergið, þá snerist hann aftur og sá þá að ekki lið fór eftir meira en það er þeir höfðu áður barist við og þetta var prettur einn. Þá lét Gamli konungur blása herblástur og setja upp merki og skaut á fylking. Hurfu að því allir Norðmenn en Danir flýðu til skipanna.

En er Hákon konungur og hans lið kom að þá varð þar orusta í annað sinn hin snarpasta. Hafði þá Hákon konungur meira lið. Lauk svo að Eiríkssynir flýðu. Sóttu þeir þá suður af hálsinum en sumt lið þeirra opaði suður á bergið og fylgdi Hákon konungur þeim. Völlur sléttur er austan af hálsinum og vestur á bergið og þá hamrar brattir vestur af. Þá opuðu menn Gamla upp undan á bergið en Hákon konungur sótti að þeim svo djarflega að hann drap suma en sumir hljópu vestur af berginu og voru hvorirtveggju drepnir og skildist konungur svo fremi við er hvert barn var dautt.


26. Fall Gamla konungs

Gamli Eiríksson flýði og af hálsinum og ofan á jöfnu fyrir sunnan bergið. Þá sneri Gamli konungur enn í mót og hélt upp orustu. Kom þá enn lið til hans. Þá komu og allir bræður hans með miklar sveitir. Egill ullserkur var þá fyrir Hákonar mönnum og veitti harða atgöngu og skiptust þeir Gamli konungur höggum við. Fékk Gamli konungur sár stór en Egill féll og mart lið með honum.

Þá kom að Hákon konungur með þær sveitir er honum höfðu fylgt. Varð þá enn ný orusta. Sótti þá enn Hákon konungur hart fram og hjó menn til beggja handa sér og felldi hvern yfir annan.

Svo segir Guttormur sindri:

Hræddr fór hjörva raddar
herr fyr málma þverri.
Rógeisu gekk ræsir
ráðsterkr framar merkjum.
Gerra gramr í snerru
geirvífa sér hlífa,
hinn er yfrinn gat jöfra
óskkvánar byr mána.

Eiríkssynir sáu falla menn sína alla vega frá sér. Þá snúast þeir á flótta til skipa sinna en þeir er fyrri höfðu flúið á skipin, þá höfðu þeir út hrundið skipunum en sum skipin voru þá uppi fjöruð. Þá hljópu allir Eiríkssynir á sund og það lið er þeim fylgdi. Þar féll Gamli Eiríksson en aðrir bræður hans náðu skipunum og héldu brott síðan með það lið er eftir var og héldu síðan suður til Danmarkar.


27. Heygður Egill ullserkur

Hákon konungur tók þar skip þau er uppi hafði fjarað er átt höfðu Eiríkssynir og lét draga á land upp. Þar lét Hákon konungur leggja Egil ullserk í skip og með honum alla þá menn er af þeirra liði höfðu fallið, lét bera þar að jörð og grjót. Hákon konungur lét og fleiri skip upp setja og bera á valinn og sér þá hauga enn fyrir sunnan Fræðarberg.

Eyvindur skáldaspillir orti vísu þessa þá er Glúmur Geirason hældist í sinni vísu um fall Hákonar konungs:

Fyrr rauð Fenris varra
flugvarr konungr sparra,
málmhríðar svall meiðum
móðr, í Gamla blóði,
þá er óstirfinn arfa
Eiríks of rak, geira
nú tregr gæti-Gauta
grams fall, á sjá alla.

Hávir bautasteinar standa hjá haugi Egils ullserks.


28. Hersaga til Hákonar konungs

Þá er Hákon konungur Aðalsteinsfóstri hafði verið konungur í Noregi sex vetur og tuttugu, síðan er Eiríkur bróðir hans fór úr landi, þá varð það til tíðinda að Hákon konungur var staddur á Hörðalandi og tók veislu í Storð á Fitjum. Hafði hann þar hirð sína og bændur marga í boði sínu.

En er konungur sat yfir dagverðarborði þá sáu varðmenn er úti voru að skip mörg sigldu sunnan og áttu eigi langt til eyjarinnar. Þá mælti hver við annan að segja skyldi konungi, að þeir hugðu að her mundi að þeim fara. En það þótti engum dælt að segja konungi hersögu því að hann hafði þar mikið við lagt hverjum er það gerði en það þótti þó ógeranda að konungur vissi eigi þetta. En þá gengur einnhver þeirra inn í stofuna og bað Eyvind Finnsson ganga út með sér skjótt, segir að hin mesta nauðsyn var á. Eyvindur gekk þegar er hann kom út þar er sjá mátti til skipanna.

Þá sá hann þegar að þar fór her mikill, gekk aftur þegar í stofuna og fyrir konung og mælti: "Lítil er líðandi stund en löng matmáls stund."

Konungur leit móti honum og mælti: "Hvað fer?"

Eyvindur kvað:

Blóðöxar týja beiða
brynþings fetilstinga,
oss gerast hneppt, hins hvassa
hefnendr, setuefni.
Heldr er vant, en eg vildi
veg þinn, konungur, segja,
fám til fornra vápna
fljótt, hersögu dróttni.

Konungur segir: "Ertu svo góður drengur Eyvindur að þú munt eigi hersögu segja nema sönn sé."

Lét þá konungur taka ofan borðið. Gekk hann þá út og sá til skipanna, sá þá að það voru herskip, mælti þá til manna sinna hvert ráð taka skyldi, hvort berjast skal með lið það er þeir hafa eða ganga til skipa og sigla norður undan.

"Er oss það auðsætt," segir konungur, "að vér munum nú berjast við liðsmun miklu meira en fyrr höfum vér átt og hefir oss oft þó þótt mikill misjafnaður liðs vors þá er vér höfum orustu átt við sonu Gunnhildar."

Menn veittu hér ekki skjótan úrskurð.

Þá segir Eyvindur:

Samira, Njörðr, enn norðar,
naddregns, hvötum þegni,
vér getum bili að bölva,
borðmærar skæ færa.
Nú er það er rekr á Rakna
rymleið flota breiðan,
grípum vér í greipar
gunnborð, Haraldr sunnan.

Konungur svarar: "Hraustlega er þetta mælt og nær skaplyndi mínu en þó vil eg heyra fleiri manna úrskurð um þetta mál."

En er menn þóttust skilja hversu konungur vildi vera láta þá svöruðu margir, sögðu að heldur vildu falla með drengskap en flýja fyrir Dönum að óreyndu, sögðu að oft höfðu þeir sigur fengið þá er þeir höfðu barist við minna lið.

Konungur þakkaði þeim vel orð sín og bað þá vopnast og svo gera menn. Konungur steypir brynju á sig og gyrðir sig með sverðinu Kvernbít, setur á höfuð sér hjálm gullroðinn, tekur kesju í hönd sér og skjöld á hlið. Þá skipar hann hirðinni í eina fylking og bóndum þar með og setti upp merki sín.


29. Frá fylking Eiríkssona

Haraldur Eiríksson var þá höfðingi yfir þeim bræðrum eftir fall Gamla. Þeir bræður höfðu þar her mikinn haft sunnan af Danmörku. Þar voru þá í liði með þeim móðurbræður þeirra, Eyvindur skreyja og Álfur askmaður. Þeir voru sterkir menn og hraustir og hinir mestu manndrápamenn. Eiríkssynir héldu skipum sínum til eyjarinnar og gengu á land upp og fylktu. Og er svo sagt að eigi væri minni liðsmunur en sex menn mundu vera um einn, að Eiríkssynir mundu fjölmennari.


30. Frá fylking Hákonar konungs

Hákon konungur hafði þá fylkt liði sínu og segja menn svo að konungur steypti af sér brynjunni áður orusta tókst.

Svo segir Eyvindur skáldaspillir í Hákonarmálum:

Bróður fundu þær Bjarnar
í brynju fara,
konung hinn kostsama,
kominn und gunnfána.
Drúptu dólgráar
en darraðr hristist.
upp var þá hildr um hafið.

Hét á Háleygi
sems á Hólmrygi
jarla einbani,
fór til orustu.
Gott hafði hinn göfgi
gengi Norðmanna
ægir Eydana,
stóð und árhjálmi.

Hrauðst úr hervoðum,
hratt á völl brynju
vísi verðungar,
áðr til vígs tæki.
Lék við ljóðmögu,
skyldi land verja
gramr hinn glaðværi,
stóð und gullhjálmi.

Hákon konungur valdi mjög menn í hirð með sér að afli og hreysti svo sem gert hafði Haraldur konungur faðir hans. Þórálfur hinn sterki Skólmsson var þar og gekk á aðra hlið konungi. Hann hafði hjálm og skjöld, kesju og sverð það er kallað var Fetbreiður. Það var kallað að þeir Hákon konungur væru jafnsterkir.

Þess getur Þórður Sjáreksson í drápu þeirri er hann orti um Þórálf:

Þar er böðharðir börðust
bands jódraugar landa,
lystr gekk her til hjörva
hnits í Storð á Fitjum,
og gimslöngvir ganga
gífrs hlémána drífu
nausta blakks hið næsta
Norðmanna gram þorði.

En er fylkingar gengu saman varð þar orusta óð og mannskæð. Og er menn höfðu skotið spjótum þá brugðu menn sverðum. Gekk þá Hákon konungur og Þórálfur með honum fram um merkið og hjó til beggja handa.

Svo segir Eyvindur skáldaspillir:

Svo beit þá sverð
úr siklings hendi
voðir Váfaðar
sem í vatn brygði.
Brökuðu broddar.
Brotnuðu skildir.
Glumruðu glymringar
í gotna hausum.

Tröddust törgur
fyr Týs og bauga
hjalta harðfótum
hausar Norðmanna.
Róma varð í eyju.
Ruðu konungar
skírar skjaldborgir
í skatna blóði.

Hákon konungur var auðkenndur, meiri en aðrir menn. Lýsti og af hjálminum er sólin skein á. Var vopnaburður mikill að honum. Þá tók Eyvindur Finnsson hött og setti yfir hjálm konungs.


31. Fall Eyvindar skreyju

Eyvindur skreyja kallaði þá hátt: "Leynist Norðmanna konungur nú eða hefir hann flúið eða hvar er nú gullhjálmurinn?"

Gekk Eyvindur þá fram og Álfur bróðir hans með honum og hjuggu til beggja handa og létu sem óðir eða galnir væru.

Hákon konungur mælti hátt til Eyvindar: "Haltu svo fram stefnunni ef þú vilt finna Norðmanna konung."

Svo segir Eyvindur skáldaspillir:

Baðat valgrindar vinda
veðrheyjandi Skreyju,
gumnum hollr né gulli,
Gefnar sinni stefnu,
"ef sökkspenni svinnan
sigrminnigr vilt finna,
fram haltu, njótr, að nýtum
Norðmanna gram, hranna."

Var þá og skammt að bíða að Eyvindur kom þar, reiddi upp sverðið og hjó til konungs. Þórálfur skaut við honum skildinum og stakraði Eyvindur við en konungur tók sverðið Kvernbít tveim höndum og hjó til Eyvindar ofan í hjálminn, klauf hjálminn og höfuðið allt í herðar niður. Þá drap Þórálfur Álf askmann.

Svo segir Eyvindur skáldaspillir:

Veit eg, að beit hinn bitri
byggving meðaldyggvan
búlka skíðs úr báðum
benvöndr konungs höndum.
Ófælinn klauf Ála
éldraugr skarar hauga
gullhjöltuðum galtar,
grandaðr Dana, brandi.

Eftir fall þeirra bræðra gekk Hákon konungur svo hart fram að þá hrökk allt fólk fyrir honum. Slær þá í lið Eiríkssona felmt og flótta því næst en Hákon konungur var í öndverðri sinni fylking og fylgdi fast flóttamönnum og hjó títt og hart. Þá flaug ör ein er fleinn er kallaður og kom í hönd Hákoni konungi upp í músina fyrir neðan öxl.

Og er það margra manna sögn að skósveinn Gunnhildar sá er Kispingur er nefndur hljóp fram í þysinum og kallaði: "Gefið rúm konungsbananum," og skaut fleininum til Hákonar konungs.

En sumir segja að engi viti hver skaut. Má það vel og vera því að örvar og spjót og alls konar skotvopn flugu svo þykkt sem drífa.

Fjöldi manns féll af Eiríkssonum, bæði á vígvellinum og á leið til skipanna og svo í fjörunni og fjöldi hljóp á kaf. Mart komst á skipin, allir Eiríkssynir, og reru þegar undan en Hákonar menn eftir þeim.

Svo segir Þórður Sjáreksson:

Varði varga myrðir
vítt, svo skal frið slíta,
jöfur vildu þann eldast,
öndvert fólk, að löndum.
Starf hófst upp þá er arfi,
ótta vanr á flótta,
gulls en gramr var fallinn,
Gunnhildar kom sunnan.

Þrótt, var sýnt þá er settust
sinn róðrs við þröm stinnan,
maðr lét önd og annar
ófár, búendr sárir.
Afreks veit það er jöfri
allríkr í styr slíkum
göndlar Njörðr, sá er gerði,
gekk næst, hugins drekku.


32. Dauði Hákonar konungs

Hákon konungur gekk út á skeið sína, lét þá binda sár sitt en þar rann blóð svo mjög að eigi fékk stöðvað. Og er á leið dag þá ómætti konung. Sagði hann þá að hann vill fara norður á Alreksstaði til bús síns.

En er þeir komu norður að Hákonarhellu þá lögðu þeir þar að. Var þá konungur nær lífláti. Kallaði hann þá á vini sína og segir þeim skipan þá er hann vill hafa á um ríkið. Hann átti dóttur eina barna er Þóra hét en engan son. Hann bað þá senda þau orð Eiríkssonum að þeir skyldu konungar vera yfir landi en hann bað af þeim virkta vinum sínum og frændum.

"En þótt mér verði lífs auðið," segir hann, "þá mun eg af landi fara og til kristinna manna og bæta það er eg hefi brotið við guð en ef eg dey hér í heiðni þá veitið mér hér gröft þann er yður sýnist."

Og litlu síðar andaðist Hákon konungur þar á hellunni sem hann hafði fæddur verið.

Hákon konungur var svo mjög harmaður að bæði vinir og óvinir grétu dauða hans og kölluðu að eigi mundi jafngóður konungur koma síðan í Noreg. Vinir hans fluttu lík hans norður á Sæheim á Norður-Hörðaland og urpu þar haug mikinn og lögðu þar í konung með alvæpni sitt og hinn besta búnað sinn en ekki fé annað. Mæltu þeir svo fyrir grefti hans sem heiðinna manna siður var til, vísuðu honum til Valhallar.

Eyvindur skáldaspillir orti kvæði eitt um fall Hákonar konungs og svo það hversu honum var fagnað. Það eru kölluð Hákonarmál og er þetta upphaf:

Göndul og Skögul
sendi Gautatýr
að kjósa um konunga,
hver Yngva ættar
skyldi með Óðni fara
og í Valhöllu vera.

Bróður fundu þær Bjarnar
í brynju fara,
konung hinn kostsama,
kominn und gunnfána.
Drúptu dólgráar
en darraðr hristist.
upp var þá hildr um hafið.

Hét á Háleygi
sems á Hólmrygi
jarla einbani,
fór til orustu.
Gott hafði hinn göfgi
gengi Norðmanna
ægir Eydana,
stóð und árhjálmi.

Hrauðst úr hervoðum,
hratt á völl brynju
vísi verðungar,
áðr til vígs tæki.
Lék við ljóðmögu,
skyldi land verja
gramr hinn glaðværi,
stóð und gullhjálmi.

Svo beit þá sverð
úr siklings hendi
voðir Váfaðar
sem í vatn brygði.
Brökuðu broddar.
Brotnuðu skildir.
Glumruðu glymringar
í gotna hausum.

Tröddust törgur
fyr Týs og bauga
hjalta harðfótum
hausar Norðmanna.
Róma varð í eyju.
Ruðu konungar
skírar skjaldborgir
í skatna blóði.

Brunnu beneldar
í blóðgum undum.
Lutu langbarðar
að lýða fjörvi.
Svarraði sárgymir
á sverða nesi.
Féll flóð fleina
í fjöru Storðar.

Blendust við roðnar
und randar himni.
Sköglar veðr léku
við skýs um bauga.
Umdu oddláar
í Óðins veðri.
Hneig margt manna
fyr mækis straumi.

Sátu þá döglingar
með sverð um togin,
með skarða skjöldu
og skotnar brynjur.
Vara sá her
í hugum og átti
til Valhallar vega.

Göndul það mælti,
studdist geirskafti:
"Vex nú gengi goða,
er Hákoni hafa
með her mikinn
heim bönd um boðið."

Vísi það heyrði
hvað valkyrjur mæltu
mærar af mars baki.
Hyggilega létu
og hjálmaðar sátu
og höfðust hlífar fyr.

"Hví þú svo gunni," kvað Hákon,
"skiptir, Geir-Skögul?
Vorum þó verðir gagns frá goðum."
"Vér því völdum," kvað Skögul,
"er þú velli hélst
en þínir fjendr flugu."

"Ríða við skulum,"
kvað hin ríka Skögul,
"græna heima goða
Óðni að segja,
að nú mun allvaldr koma
á hann sjálfan að sjá."

"Hermóðr og Bragi,"
kvað Hroptatýr,
"gangið í gegn grami,
því að konungr fer,
sá er kappi þykir,
til hallar hinig."

Ræsir það mælti,
var frá rómu kominn,
stóð allr í dreyra drifinn:
"Illúðigr mjög
þykir oss Óðinn vera.
Sjáum vér hans um hugi."

"Einherja grið
skalt þú allra hafa.
Þigg þú að ásum öl.
Jarla bági,
þú átt inni hér
átta bræðr," kvað Bragi.

"Gerðar vorar,"
kvað hinn góði konungr,
"viljum vér sjálfir hafa.
Hjálm og brynju
skal hirða vel.
Gott er til gers að taka."

Þá það kynntist,
hve sá konungr hafði
vel um þyrmt véum,
er Hákon báðu
heilan koma
ráð öll og regin.

Góðu dægri
verðr sá gramr um borinn,
er sér getr slíkan sefa.
Hans aldar
mun æ vera
að góðu getið.

Mun óbundinn
á ýta sjöt
Fenrisúlfr fara,
áðr jafngóðr
á auða tröð
konungmaðr komi.

Deyr fé.
Deyja frændr.
Eyðist land og láð.
Síst Hákon fór
með heiðin goð,
mörg er þjóð of þéuð.




Netútgáfan - september 1999