Það fór seint að hlýna um vorið eins og vant var. Fyrst kom páskahret, svo kóngsbænadagsbylur og loksins uppstigningardagshrina, en úr hvítasunnuhretinu varð ekkert það árið, því einmitt skömmu fyrir hvítasunnu fór að hlýna í veðrinu og gera stillur, og um sjálfa hátíðina var indælasta veður.Í kring um bæina og til og frá um túnin fóru að koma grænir blettir, og bændurnir í Staðarsveit fóru að tala um, að enn væri ekki loku fyrir skotið, að grasvöxturinn yrði bærilegur, þó vorið kæmi seint, og svo tóku þeir sér í staupinu, því siglingin var komin, og voru glaðir eftir boði prédikarans.
En hlýindin stóðu ekki nema nokkra daga.
Svo fór að smákólna aftur, og eitt kvöld horfðu margir til fjallanna fyrir ofan sveitina; þar voru hvítleit ský að læðast fram og aftur í hægðum sínum, eins og einhver vorkyrrð væri komin yfir þau; svo hnykluðust þau til og frá, eins og þau brygðu sér á leik, en hvar sem þau bar frá, svo að í fjöllin sást, var allt snjóhvítt undir þeim, og svo sleiktu þau sig sums staðar niður eftir hlíðunum og alls staðar voru tunguförin eftir þau hvít, snjóhvít. En niðri í byggðinni stóðu bændurnir og horfðu hryggir á snjóskýjaleikinn um fjallahlíðarnar; þeir voru að hugsa um litlar heybirgðir og margar skepnur, og svo duttu þeim í hug konur og börn, og -- enginn bóndi gekk glaður til rekkju það kvöld.
Daginn eftir var komið frost töluvert, fjöllin voru snjóhvít niður í byggð og allir grænu blettirnir í túnunum voru horfnir; allt vorlíf var slokknað á einni nóttu, nærri því eins og ungbarn, sem hefur enga hugmynd um gleðina sem verður þegar það lifnar eða sorgina þegar það deyr.
Svo kom kuldakast, stirt og harðneskjulegt; stundum þurrviðri með norðanhrinum, frosti á nóttum og kulda á daginn, og stundum kafaldshryðjur, sem af einhverri kuldaglettni gerðu stórar spildur í sveitinni alsnjóa, en gengu meinlausar fram hjá heilum jörðum.
Það var því ekki nema eðlilegt, þó Bergur á Hóli færi, þegar ein hryðjan var nýafstaðin og tún og engjar alhvítt hjá honum, en enginn snjóblettur sást hjá nágrönnum hans, að íhuga það, hvað heimsstjórnin gæti verið óskiljanleg eða jafnvel skrítin að leggjast nú á sig, sem minnst hafði efnin og minnst heyin, en látast ekki sjá nágranna sína, sem báðir voru efnamenn og áttu nóg hey. --
Svo fór veðráttan smátt og smátt að batna, og einn dag seint í júnímánuði var fótur og fit uppi í prestssetrinu Stað.
Bjarni Sveinsson, guðfræðikandídat, unnusti Bjargar, eina barns prófastsins, var kominn, veðurbarinn og útitekinn eftir ferðalagið.
Síra Þórður prófastur hafði tekið á móti honum á hlaðinu í nýja klæðisfrakkanum sínum, sem hann aldrei var í, nema þegar hann messaði heima á staðnum; á annexíunni lét hann gamla frakkann sinn duga. Svo hafði verið sent eftir bestu vinkonu Bjargar, sýslumannsekkjunni á Grund, næsta bæ við Stað, til þess að taka þátt í fögnuðinum yfir því, að búið var að heimta Bjarna heilan heim eftir ferðavolkið.
Og þó var þetta það minnsta, sem síra Þórður hafði gert til þess að gera þessa komu Bjarna Sveinssonar sjálfum honum og dóttur sinni sem ánægjulegasta.
Hann hafði sagt af sér prestsembætti og prófastsstörfum frá fardögum. Síðan hafði hann haldið almennan safnaðarfund í prestakalli sínu, og þaðan var sendur hraðboði til biskups með brennandi áskorun frá söfnuðinum um að sjá um, að Bjarni yrði í kjöri við prestskosninguna í Staðarprestakalli. Það hafði reyndar enginn lifandi maður í þeim sóknum séð Bjarna, hvað þá heldur meir, því Björg hafði lofast honum í Reykjavík, þegar hún var á kvennaskólanum. Þorgrímur gamli í Dal, hreppstjóri og ríkisbóndi, hafði líka á fundinum sagt það skýrt og skorinort, að enginn í prestakallinu þekkti þennan unga kandídat minnstu ögn, en sér þætti það hart, ef nokkur maður í prestakallinu neitaði prófastinum sínum blessuðum um bón, sem ef til vill yrði síðasta bónin hans, þegar hún væri þá ekki stærri en það að klóra bara nafnið sitt á lappa til biskupsins. Á þetta féllust líka flestir, nema Ingvar í Vík, bróðir síra Þorvalds í Ási, sem búinn var að sækja um Stað. Hann sagði upp í opið geðið á prófastinum, að sér dytti ekki í hug að vinna það fyrir mannahylli, hver sem í hlut ætti, að kjósa sér þann sálusorgara, sem enginn þekkti að neinu. En þeir urðu ekki nema örfáir, sem fylgdu honum og neituðu að skrifa undir skjalið til biskups. Og í söfnuðinum var honum lögð þessi aðferð hið versta út; allir töluðu um, hvað það væri illa gert að vera að angra prófastinn gamla, jafnheiðvirðan og elskaðan mann, og það af eintómri eigingirni, því ástæðan gat eðlilega ekki verið önnur fyrir Ingvari en sú, að reyna til að koma bróður sínum að.
Það er ekki gott að vita, hvort það var þetta bænaskjal til biskups eða andlegt atgervi Bjarna, sem olli því, að hann varð einn af þremur, sem söfnuðurinn í Staðarprestakalli fékk að kjósa um, af þeim sjö umsækjendum, sem um brauðið höfðu sótt.
Sumir gátu þess til, að það hefði gert nokkuð í þessu efni, að sú fregn var altöluð syðra og höfð fyrir satt, að sóknirnar í Staðarprestakalli væru einráðnar í að gerast utanþjóðkirkjusöfnuður og kjósa Bjarna fyrir prest sinn, ef neitað yrði um að fá að kjósa um hann. Enginn maður í Staðarprestakalli vissi neitt um þess konar samtök, og þegar það löngu síðar fréttist þangað, var þess almennt getið til, að prófasturinn gamli, sem var alþekktur og átti kunningja og vini á hverju strái, hefði laumað þessari frétt inn í höfuðstaðinn til þess að árétta bænarskjalið til biskups.
Hvernig sem í öllu þessu lá, færði Bjarni prófasti bréf frá biskupi um að halda prestskosningarfund í Staðarprestakalli, og þegar prófastur sá, að tengdasonur hans tilvonandi var einn af þremur í kjöri, hýrnaði furðulega yfir honum; hann var ekki í miklum efa um, gamli maðurinn, hver kosinn yrði.
Fréttin um ánægju prófastsins var ekki lengi að berast út úr stofunni, og hans gleði var gleði alls heimilisfólksins, enda þótti öllum vænt um Björgu, sem staðið hafði fyrir búi með föður sínum síðan móðir hennar dó.
Vinnukonurnar voru kátar og ánægðar vegna ungu húsmóðurinnar sinnar, og voru á leiðinni milli búrs og eldhúss að hvíslast á um, hvað Bjarni væri dæmalaust fallegur, og hvað honum hefði þótt vænt um stúlkurnar að sögn; vinnumennirnir voru að gera sér erindi fyrir stofugluggana, til þess að geta fengið færi á að skyggnast inn og sjá einhvern snefil af fríða tengdasyninum prófastsins. Og uppi á lofti hélt Þórunn gamla, kararniðursetningurinn, langa blessunarræðu í rúmi sínu.
En inni í hefðarstofunni á Stað sat fyrirfólkið og var að spjalla saman.
Prófasturinn gamli hafði furðulegt lag á því, þegar hann átti viðræður við menntaða menn, að benda ætíð umræðunum að einhverju alvarlegu efni, helst því, sem best gæti sýnt honum lundarlag og skoðanir þess, sem hann talaði við, ef hann þekkti hann ekki áður. Þegar hann var búinn að spyrja almæltra tíðinda úr höfuðstaðnum, fór hann að ganga um gólf og tala um hvað veðráttan hefði lengst af verið köld um vorið og hvað lífshagur hér á landi væri kaldranalega eintrjáningslegur. Hann sagði, að sér fyndist veðurlag og loftslag með ýmisskonar klakafargi setja sýnilegt mark á allan landslýðinn hér, gera hann staurslega stirðan og framkvæmdardaufan og kynlega einelskan að volæðinu.
Út úr því spunnust all-langar umræður. Menn greindi á um orsökina. Bjarni vildi ekki aðhyllast þá skoðun tengdaföður síns tilvonandi, að það væri loftslaginu að kenna, að menn hér á landi væru svona; hann sagði, að þessi stirðleiki og framkvæmdardeyfð væri engu öðru að kenna en óánægjunni með allt og alla, sem væri orðin eðli manna hér, og væri komin af því, að menntunin og menningin væri ekki búin að ryðja sér hér til rúms nema að hálfu leyti; mönnum hefði furðanlega heppnast að læra það af útlendingum að gera miklar kröfur til lífsins, en hitt hefðu menn átt bágra með að læra að koma efnahag landsins og atvinnuvegum í það horf, að landið gæti borið slíkar lífskröfur.
"Það getur það heldur aldrei", sagði prófasturinn gamli og hristi höfuðið, "okkar land er svo ólíkt öðrum löndum, að okkar menning verður að vera töluvert öðru vísi en annarra landa til þess að allir geti tekið þátt í henni".
"Það er ég líka hálfhræddur um, og þess vegna held ég, að langtum heilsusamlegra væri að reyna til að gera menn ánægðari en þeir eru, heldur en að vera að prédika fyrir þeim, að hér séu óteljandi auðsuppsprettur, en að illt stjórnarfyrirkomulag hamli mönnum að nota þær".
"Já, en það er hægra að taka frá mönnum ánægjuna, en að gefa þeim hana aftur".
"Getur verið, en eitt ráð held ég sé þó til. Ef nógu margir kenndu löndum okkar þann einfalda sannleik, að skylduræktin, byggð á kristindóminum sem grundvelli alls þess, sem gott er í mannlífinu, væri hin fremsta dyggð í hverri stétt og stöðu, og ef menn temdu sér skylduræktina í alvöru, þá er ég viss um, að meiri ánægja væri til hér á landi en nú er. Ég er viss um, að slíkar ræður hefðu árangur, því innst inni hjá hverjum manni er þó guðsmyndin, og hún hvetur fyrst af öllu til skylduræktar".
"Já -- þetta getur verið mikið falleg hugsun, en taktu nú eftir myndinni af honum Mynster þarna á veggnum; hún Bagga okkar hefur þurrkað af henni og reynt til að fága hana í mörg ár, og þó er myndin, eins og þú sérð, orðin stórskemmd; það kemur af dustinu og rakanum hérna í stofunni. Ég segi þér satt, að guðsmyndin í mörgum manni hefur enga Böggu til að fága sig og á þó við langtum meira dust og við miklu meiri raka að búa, heldur en er hérna í stofunni. Þú getur verið viss um, að guðsmyndinni er örðugt um flug, þegar aldurinn hleður á hana dusti og lífið þyngir hana með raka. -- En nú skulum við snúa okkur að kvenfólkinu. Ég er varla búinn að sýna þig sýslumannsfrúnni okkar. Hún er amtmannsdóttir, eins og þú veist, hefur verið lengi í Kaupmannahöfn og meðal annars lært þar ýmsar óprestslegar kenningar, sem hún dregur enga dul á; hún hefur líka verið í Reykjavík, en nú situr hún hérna á næsta bæ, skemmtir sér við að fara vel með skepnurnar sínar og lesa þýskar og enskar bækur -- allar mögulegar bækur, um heimspeki, hvað þá heldur annað, en það vill til að ég er ekki skriftafaðir hennar, því að hún hefur engan", sagði prófastur brosandi.
Sýslumannsfrúin sagði, að sér þætti ósköp vænt um að kynnast tilvonandi manni vinu sinnar, og sagði brosandi, að sér hefði þótt gleðilegt að heyra hann halda fram skylduræktinni, því að prestarnir núna hefðu varla tíma til að nefna neitt nema trúarfræði.
Svo sneri hún sér að prófastinum og sagði:
"En því látið þér okkur ekki heyra, hvaða dyggð í lífinu þér teljið fremsta; þér tókuð eitthvað svo dauflega í skylduræktina hjá Bjarna kandídat".
"Það gerði ég nú reyndar ekki, en mér er engin launung á því", sagði prófastur fremur alvarlegur, "að því lengur sem ég hef lifað, því betur hef ég sannfærst um, að eitt er hverjum kristnum manni nauðsynlegt, og ef ég ætti að binda alla mína löngu lífsreynslu í einu orði og leggja hana fyrir aðra til eftirbreytni, þá væri það orðið "fyrirgefðu". Fyrirgefningin er sú blessunarríkasta dyggð í lífinu, því hún veitir í einu bæði manninum sjálfum og öðrum frið og ánægju".
"Og ef ég ætti að segja, hver ég held að sé sú blessunarríkasta dyggð", sagði sýslumannsfrúin hálfbrosandi, "þá er það sú, að þykja aldrei vænt um neitt; þá hefur maður bæði frið við sjálfan sig og aðra eins og með fyrirgefningarreglu prófastsins, og á þá líka svo hægt með að fylgja skylduræktarlögmáli kandídatsins".
Svo hlógu þau öll dálítið að fyndni frú Önnu, og svo fór Björg að biðja hana að syngja, og hún tók gítar Bjargar niður af veggnum, stillti hann og fór svo að spila og syngja undir.
Það var fríð kona hún frú Anna; þó hún væri komin um þrítugt, var hún furðulega ungleg. Þær voru harla ólíkar vinurnar, hún og Björg. Anna var meðalhá vexti, fremur holdug, hafði dökkt hár, var móeyg og föl í andliti, og allar líkamshreyfingar hennar voru fullar yndis og mjúkleiks. Björg hafði ljóst hár, blá augu, var há vexti og grannvaxin, og þó líkamstilburðir hennar væru fremur stirðir og seinir, bauð hún einstaklega góðan þokka af sér, því að augnaráðið og allt viðmót var hýrt og blátt áfram.
Frú Anna hafði hreina og fallega rödd, og þegar hún var búin að syngja nokkur lög, hætti hún að syngja, og spilaði sönglaust á gítarinn eftir sínu höfði.
Bjarni hafði einstaklega mikið yndi af söng. Hann þóttist aldrei hafa heyrt spilað svo á gítar fyrr. Fingurnir litlu þutu, snjóhvítir og mjúkvaxnir, eftir strengjunum á víxl, svo skjótt sem leiftur bæri fyrir, og toguðu svo fram einhverja furðulega kynjatóna, fulla af sorg og söknuði, sem þyrluðust hver á annan, knúðust svo af einhverju samræmisalmætti til að tengjast saman og mynduðu svo einhvern ókleifan hring, sem alltaf varð stærri og stærri og sem eins og hrópaði einum rómi í himininn um óslökkvandi sorg.
Frú Anna hallaðist aftur á bak í hægindastólnum fram við gluggann, leit út og lét löngu og dökku augnahárin hálfskýla augunum.
Bjarni gat ekki haft af henni augun; hann horfði á fingurna litlu, handlegginn snjóhvítan og mjúkan, sem ermin togaðist upp eftir, og á fótinn, sem gægðist óvart út undan pilsinu á fótaskörinni.
Svo hætti hún allt í einu í miðju kafi, stóð upp, lagði frá sér gítarinn og bað prófastinn að láta nú leggja á hann Grána sinn, fór sjálf út til þess að líta eftir, hvernig það væri gert, fór svo í reiðföt sín, kvaddi og fór á bak, og Gráni skeiðaði með hana út túnið, yfir á melgötuna, sem lá að Grund.
Þetta gekk allt svo fljótt og Bjarni hafði hugann svo fullan af gítarspilinu, að hann var nærri því í leiðslu, þangað til frú Anna skeiðaði út úr tröðunum.
"Hún er bæði fríð og gáfuð hún frú Anna", sagði prófasturinn, þegar hún var farin, "þótti þér hún spila vel?"
"Dæmalaust vel".
"Svo! Mér finnst alltaf einhver óviðkunnanlegur tryllingsskjálfti á öllu hennar spili. Hún er eitthvað öðru vísi en annað fólk. En skemmtileg er hún og lesin".
Svo fylgdi prófastur Bjarna til svefnherbergis hans við hliðina á stofunni og bauð honum góða nótt.
Og Bjarni fór að hátta, en gat ekki sofnað lengi fram eftir nóttinni, þó hann væri þreyttur eftir ferðina; hann var að hugsa fram og aftur um það, sem fyrir hann hafði borið um kvöldið.
Og þegar hann loksins sofnaði, þá dreymdi hann ekki um unnustu sína, heldur bara um sýslumannsekkjuna á Grund.
IIFrú Anna reið svo að segja í einum spretti heim að Grund, enda var vegurinn ekki nema stundarfjórðungsreið og svo að segja allur ein slétt melgata.
Þegar hún kom heim, stóðu nokkrir af vinnumönnunum hennar á hlaðinu; allir tóku ofan og ráðsmaðurinn stökk strax fram úr hópnum og fór að spretta af Grána, þegar frúin var komin af baki.
Svo fór hún inn í bæ og kom aftur með fulla mjólkurskál, og Gráni kom strax til hennar, stakk múlanum ofan í mjólkurskálina og sötraði hana í botn; síðan kippti hann hausnum upp allt í einu, svo mjólkurdroparnir hrutu af flipanum í allar áttir, og horfði á Önnu dálitla stund, og hún lagði vangann ofan á ennið á honum, klappaði honum nokkrum sinnum um hausinn og togaði hann svo með sér út í hlaðvarpann, og skildi þar við hann.
Síðan spurði hún ráðsmanninn eftir heimilisverkum, sagði honum að láta fólkið fara að hátta og gekk sjálf inn í svefnherbergið sitt, lítið en ofboð nett herbergi sem sneri fram á hlaðið.
Þegar hún var búin að láta rennigluggatjaldið niður, fór hún að afklæða sig, en hætti svo allt í einu í miðju kafi, settist á stól við náttborðið, studdi hönd undir kinn og einblíndi fram fyrir sig.
Svo stóð hún upp eftir góða stund og hélt áfram að afklæða sig, en þegar hún var komin upp í rúmið, ætlaði hún aldrei að geta sofnað; svo tók hún ljóðmæli Jónasar Hallgrímssonar, sem alltaf lágu á náttborði hennar, las í þeim hvert kvæðið á fætur öðru, þangað til mjúk og hlý kyrrð færðist yfir hugsanir hennar, og loksins sofnaði hún með Jónasar ljóðmæli liggjandi ofan á yfirsænginni sinni.
Það gekk mikið á á Stað þessa dagana fyrir prestskosninguna.
Flestir bændur í sveitinni gerðu sér eitthvað til erindis þangað, til þess að sjá tilvonandi tengdason prófastsins og tilvonandi sóknarprest sinn; þess vegna var alltaf fullt af gestum á Stað frá morgni til kvölds; prófasturinn gamli var alkunnur að gestrisni, en þessa dagana gekk hann nærri því fram af sér í því efni; hann fór snemma á fætur og starf hans frá morgni til kvölds var að sjá sóknarbændum sínum fyrir sem bestum veitingum og skemmta þeim svo að viðstaðan gæti orðið þeim sem allra ánægjulegust.
Á sama hátt var Björgu farið; hún var önnum kafin frá morgni til kvölds að gegna húsmóðurskyldum sínum og sjá gestunum fyrir beina.
Þess vegna bað hún vinkonu sína, frú Önnu, að koma svo oft yfir að Stað, sem hún gæti, og dvelja þar svo lengi á daginn, sem henni væri unnt, til þess að hafa ofan af fyrir unnusta sínum, sem hún gat ekki gefið sig við nema höppum og glöppum, en henni þótti svo framúrskarandi leitt, að honum þyrfti að leiðast fyrstu dagana á Stað.
Það var heldur ekki fjarri því, að Bjarna leiddist. Prófasturinn sýndi hann öllum þessum bændum og þeir gláptu á hann, hver eftir annan, nærri því eins og tröll á heiðríkju, en töluðu svo sem ekkert við hann, því þeir sneru nær því eingöngu ræðum sínum að prófastinum.
Og Björg sá, hvað unnustanum bjó í brjósti, og gat þess vegna með lagni sinni oft komið því svo fyrir, að Bjarni og Anna gátu tekið sig út úr.
Stundum fóru þau inn í herbergi Bjarna og fóru þar að spjalla saman um alla heima og geima, helst um skáldskap eða þá um sönglist, og það samtal endaði ætíð með því, að Anna fór að spila á gítar, og oftast nær söng svo annað hvort þeirra undir, því Bjarni söng prýðisvel líka.
Stundum fóru þau gangandi langar leiðir, helst upp í brekkurnar í Staðarhálsi, skammt fyrir ofan Stað; þaðan var fagurt útsýni yfir héraðið og út um allan sjó.
Í veðrið voru komin hlýindi með hægum skúrum á milli, svo vorgróðinn óx á hverri stundu.
Þau höfðu bæði mikið yndi af að sitja þarna í hálsbrekkunni og horfa yfir héraðið, virða fyrir sér þetta nýja líf fyrir neðan sig, sem alltaf var að vaxa og þróast, og taka eftir því hvernig vorið jók veldi sitt á hverjum degi með því að draga ljósgræna lífsblæju yfir sinuspildurnar, gulhvítar eftir veturinn og snjóinn.
Þegar þau einu sinni voru komin á stað frá bænum í slíka göngu, sagði Bjarni hálfbrosandi:
"Mér finnst að þessi sóknarbændur þarna í stofunni skoði mig eins og sauð í réttum, og þegar þeir horfa sem fastast á mig, finnst mér stundum að þeir á næsta augnabliki muni standa upp og fara að þreifa á síðunum á mér og bakinu til þess að ganga úr skugga um hvort þeir eigi að kaupa mig".
"Nei, þetta er nú eintómur hugarburður; þeir eru alráðnir í að kaupa yður".
"Alráðnir".
"Já, löngu alráðnir", -- svo sagði Anna honum hálfhlæjandi, að sér hefði þótt svo gaman að skylduræktarprédikuninni hjá honum fyrsta kvöldið á Stað; það væri ógnarhægt að tala um skyldurækt, þegar aðrir væru búnir að búa manni lífshreiður, svo maður þyrfti ekkert annað en að sitja þar eins og fugl á eggjum alla sína ævi og garga svo til vargsins fyrir utan, sem annað hvort ætti ill hreiður eða engin: "Skyldurækt, skyldurækt!" að búa sjálfum sér lífsstöðu með skyldurækt og samviskusemi, og heimta það sama af öðrum í öllum þeirra lífsferli, það væri annað. En nú hefði prófasturinn veitt honum erfðarétt á sálunum í Staðarprestakalli og léti þær fylgja dóttur sinni eins og ærnar í kvíunum og beljurnar á básunum. Prófasturinn hefði látið sóknarbændurna skrifa undir bænarskjalið til biskups, og svo léti prófasturinn þá líka kjósa hann, og af því honum væri svo tamt að fyrirgefa, þá "fyrirgæfi" hann þeim á eftir, eftir því sem sagt væri í sveitinni, allar þeirra skuldir, því hver einn einasti bóndi í sóknunum væri stórskuldugur honum, enda hefði hann heldur ekki heimt tekjur sínar af nokkrum manni síðan dóttir hans lofaðist Bjarna.
Bjarni staðnæmdist alveg hissa og einblíndi á Önnu, meðan hún var að tala, og þegar hún hætti, sagði hann:
"Hvað er þetta? Ég hef ekkert vitað um allt þetta. Prófasturinn skrifaði mér að sóknarbörn sín hefðu heyrt svo margt gott um mig, að þau hefðu beðið um að ég fengi að vera í kjöri. Og um það að prófasturinn ætli að láta sóknarbændurna kaupa mig fyrir skuldakvittanir hef ég aldrei heyrt eitt orð. Trúið þér mér til þess, frú Anna, að ég vilji byggja lífsstöðu mína á vef af undirferli og brögðum? Nei, lífsstaða mín er mér heilög og ég vil byggja hana á réttlæti og rækja hana með skyldurækt. Sé allt eins óhreint og þér segið í þessu kjöri mínu hér, þá segi ég prófastinum strax á morgun að ég sé ófáanlegur til að gefa kost á mér til prests hér".
"Fyrirgefið þér mér, ef ég hef misskilið yður. Ég hélt bara, að þér væruð eins og aðrir".
"Eins og aðrir?"
"Já, mér finnst einhver óhlutvendni ráða lögum og lofum hjá flestum mönnum, ekki einungis í viðskiptum heldur einnig í hugsunarhættinum öllum. Ég hef svo oft rekið mig á, að menn venja sig á að ljúga og hræsna fyrir sjálfum sér, þangað til þeir eru komnir upp á lag með að réttlæta fyrir sér hvert einasta verk, sem þeir gera, eða láta gera".
"Já, því er nú verr; syndin er rík í heiminum".
"Talið þér ekki um syndina. Syndin er einmitt eitt af skálkaskjólunum, sem menn skjótast í. Þeir telja sér trú um, að allt sé syndinni, meðfæddum breyskleika, erfðasyndinni, að kenna og þess vegna sé það eðlilegt og náttúrlegt, og þegar maður svo iðrist eftir verkið, einhvern tíma áður en maður deyr, þá sé allt búið".
"Svona megið þér ekki tala".
"Ég verð að tala eftir lífsreynslu minni".
"Má ég reyna að sannfæra yður um, að það séu til menn, sem elska sannleikann fölskvalaust?"
"Já, sannfærið þér mig um það, en nú má ég til að fara heim. Verið þér sælir og heilsið þér heim að Stað", og svo rétti hún honum höndina og hann tók í hana og hélt henni nokkuð lengi, þangað til hún kippti henni fremur hægt að sér.
"Þér vitið ekki, hvaða ánægju ég geri sjálfum mér með því að sannfæra einmitt yður um, að ég reyni til að elska sannleikann og gera það sem rétt er. Vitið þér það?"
Síðan rétti hann henni höndina aftur, en hún lét eins og hún sæi hana ekki og leit undan, kafrjóð í framan.
Svo leit hún allt í einu við, horfði á hann ofboð litla stund dökku augunum, ljómandi af blíðu og gleði, og rétti honum báðar hendurnar og sagði lágt:
"Ég veit það á -- á mér sjálfri".
Svo kippti hún allt í einu að sér höndunum, stökk burt, leit allra snöggvast um öxl sér, hýr og brosandi, og gekk svo hægt áfram, á leið heim að Grund. --
Þegar Bjarni var kominn inn í herbergi sitt um kvöldið, gat hann ekki fengið af sér að fara að hátta; hann gekk um gólf og var að hugsa um hverju hann hefði svarað prófastinum og unnustunni við kvöldverðinn, en hann gat eiginlega ekkert munað eftir um hvað hefði verið talað.
Svo gekk hann fram að glugganum og lauk honum upp; næturgolan þaut um andlit honum vorhlý og hressandi, og fyrir neðan túnið, rennislétt og skrúðgrænt, tók sjórinn við. Þar léku smábárur efst á mararfletinum, bulluðu og hossuðu sér á allar lundir, og skvettu sér svo í einhverjum æskugáska upp í fjöruna. Það var nærri því eins og þær hugsuðu sér að kitla smáhnullungana þar, langaði til að spreka þeim til og láta þá finna lífið og vorið; en svo hoppuðu þær aftur, eins og þær yrðu hræddar við hvað landið væri kalt og tilfinningarlaust að taka á.
Bjarni litaðist um; það var þéttbýli í kringum Stað; en allir þessir bæir voru eins og steinsofnaðir, og hann sá hundana liggja fram á lappir sínar í hlaðvörpunum, sofandi eins og allt annað.
Hann leit yfir að Grund; þilin blöstu við; hann gekk inn í stofuna og sótti kíkinn prófastsins, og í honum sá hann glöggt að einn glugginn á Grund var opinn, og honum sýndist ekki betur en að einhver lægi úti í honum.
Hann lagði frá sér kíkinn, fór út um gluggann, lét hann hægt aftur á eftir sér, hljóp svo dálítinn sprett frá bænum, fór svo að ganga hægara dálítið, en hljóp þó alltaf við fót eftir melgötunni að Grund.
Og þegar hann kom þangað sá hann að frú Anna lá úti í glugganum og horfði á hann, og hann gekk þegjandi að glugganum, nærri því utan við sig, rétti henni höndina og stökk inn um gluggann.
Svo stóðu þau dálitla stund og horfðu hvort á annað, alveg orðlaus.
"Ég vissi, að þú mundir koma; ég beið þín", sagði Anna í hálfum hljóðum.
Svo hljóp hann um hálsinn á henni, þrýsti henni að sér, kyssti hana á munninn, hárið, vangann, svo hún ætlaði varla að ná andanum, og svo hélt hann henni frá sér og horfði á hana kafrjóða og feimna, og svo þrýsti hann henni að sér aftur, og þegar hann loksins kom upp nokkru orði, sagði hann:
"Ég kem til þín af því að ég veit að hjá þér einni finn ég alla þá unun, sem mig hefur dreymt um, og kem til þín auðmjúkur--"
"Nei, þú kemur til mín eins og kóngssonurinn í þjóðsögunum, til að leysa mig úr álögunum".
"Úr álögunum?"
"Já, ég er, eða réttara sagt var, í álögum -- þú leysir mig".
"Hvernig get ég leyst þig úr álögum? -- hvaða álögum?"
"Það er löng saga", og svo leiddi hún hann að legubekknum og þau settust bæði niður, og hún tók aðra hönd hans og hélt henni fastri milli beggja litlu handanna sinna meðan hún var að tala: "Náttúran hefur gefið mér eldheita þrá eftir lukku. Og svo hefur mér ekki boðist annað en að fá einu sinni í æskunni að eiga gæfuna fáeina daga -- svo slokknaði allt eins og stjörnuhrap. Síðan hefur ævin ekki gefið mér neitt nema hjónaband, -- ofboð stutt, sem betur fór -- en eftir þessa æskusýn hef ég fundið hvernig hvert ár og hver dagur hefur hneppt mig í einhvern líkkistuþröngan dofakufl. Ég hef fundið lífið í mér, sárþráð einhverja augnabliksskímu af lukku og -- fundið svo bara hvernig kuflinn þrengdi að mér meir og meir. Og ég vissi að það var til ein lækning, blessuð sjálfsafneitunin, sem mennirnir telja það göfugasta og besta af öllu. Ég vissi að ef ég tryði því að þetta væri mér fyrir bestu, að líkkistukuflinn væri náðargjöf, og ef ég gæti sagt: guði sé lof, mér líður vel -- þá gæti ég gleymt kuflþrengslunum og dofnað upp róleg, þangað til enginn lífsneisti væri eftir í mér. En ég gat það ekki, ég get það aldrei. Sjálfsafneitunin drepur það, sem æðst er og göfugast í manneðlinu; hún er bara "morfin", kristilegt "morfin". En "morfin"svefn er ekkert líf, og ég elska lífið. Og svo komst þú og leystir mig úr dofakuflinum".
Bjarni einblíndi á hana, meðan hún var að tala; hann hafði aldrei séð svona fagran kvenmann, aldrei svona yndislega breytilegt andlit; geðshræringarnar þutu yfir það eins og leiftur og hver hugsun gaf því sinn svip og sitt líf.
Og þegar hún þagnaði, gat hann ekkert nema lotið niður að henni og sagt lágt og hlýlega:
"Skelfing, skelfing hefurðu mátt taka út. En nú byrjar ný tíð fyrir okkur báðum".
"Já, já, nú byrjar ný tíð, mig hryllir við öllu þessu gamla".
"Við skulum bara hugsa fram, fram í tímann".
Svo fóru þau að tala um, hvað mikið gagn mætti gera í félagslífinu, þegar unnið væri með samviskusemi, og hvað ógnarmörgu þyrfti að breyta þar í héraðinu og koma í nýtt horf, og hvað áríðandi væri að þreytast ekki, þó erfitt gengi í fyrstunni. Þeim kom saman um, að fyrst af öllu þyrfti að breyta hugsunarhætti manna, kenna þeim að dæma fordómalaust, og að hræsna ekki fyrir sjálfum sér eða réttlæta fyrir sér öll rangindi og ósannindi.
Skelfing fannst þeim ánægjulegt að hugsa til að ganga tvö saman að hverju verki, eiga saman hverja einustu hugsun og hafa saman ánægjuna af því að sjá hana þróast og vaxa eins og vorlíf og bera ávöxt í félaginu kringum þau.
Og svo horfðu þau hvort á annað og töluðu um ástina, þeirra eigin ást, hvað hún væri heit og hvað hún væri sterk, -- þessi gömlu orð, jafngömul mannkyninu og þó alltaf ný fyrir þá, sem tala þau í alvöru. -- -- --
Og sumarnóttin breiddi sig ástrík og mild yfir héraðið, þrýsti daggardropunum, himinskærum og frjóvgunarfullum, á hvert einasta strá, sem rétti höfuðið upp úr moldinni til að ná í vætuna, svo það gæti lifað, dró líknandi kyrrðarblæju yfir land og sjó, til þess að allt líf gæti hvílst og búið sig undir að njóta ljóssins næsta dag.
Og allar ár og lækir runnu með töfraværð í næturkyrrðinni, svo niðurinn suðaði um allt héraðið eins og draumhýr ánægjuboði.
IIIBjarni vaknaði seint morguninn eftir.
Hann lá dálitla stund kyrr í rúminu og var að rifja upp fyrir sér allt, sem gerst hafði um nóttina og daginn áður, og fylltist undursælli gleði, þegar hann hugsaði til Önnu. Hvað hún var öllum öðrum stúlkum, sem hann hafði þekkt, auðugri að ástarhita og fegurð, og hvað hún var framkvæmdardjörf og vitur.
Og -- þó -- fannst honum einhvern veginn eins og gleðin væri ekki óblandin; hann var nærri því hissa á, hvað menn hugsuðu lítið, þegar ástin gagntæki þá. Í gær hafði hann ekki hugsað minnstu ögn um unnustu sína og því síður um prófastinn, en í dag bar af þeim einhvern skugga á ánægju hans.
Hann þurfti að losast frá Stað sem allra fyrst, strax í dag, og fara svo alfarinn að Grund. Hvað hirti hann um þetta prestakall? Honum stóð alveg á sama um öll prestaköll í veröldinni. En hann þurfti að tala við prófastinn, þennan gamla ref, sem hafði ætlað að byggja honum lífsstöðu á eintómum vélabrögðum. Og svo þurfti hann að segja slitið við Björgu.
Hann fór að fara á fætur, hægt og seint, og líta út um gluggann yfir að Grund; svo renndi hann augunum fram á sjóinn og hafði gaman af að sjá, hvað Staðarhólminn var alþakinn fugli. Og þessi litli hólmi gaf af sér um 200 pund af dún. Skelfilegur arður af svona litlum bletti. Staðarbrauð var, ef til vildi, besta brauðið á landinu, tekjumikið, hægt og skemmtilegt. Öllu, öllu þessu kastaði hann frá sér fyrir Önnu.
Átti hún nú allt þetta skilið?
Jú, jú, hvernig gat nokkur efi leikið á því?
Svo stóð hann kyrr dálitla stund.
Hann sá að Björg kom út úr bæjardyrunum og fór að gefa hænsnunum. Hænurnar þutu til hennar hver í kapp við aðra, allar gargandi af gleði, og hún fleygði til þeirra korninu og strauk svo ánægjuhýr um bakið á þeim. Svo leit hún upp í gluggann, sá Bjarna og sagði: "góðan daginn", og hann tók undir, gekk frá glugganum og fór að hugsa um hvað andlitið á Björgu væri unglegt og góðmannlegt, allt eitt ánægjubros, sem bauð honum "góðan dag", og hann fór að velta fyrir sér í huganum hvað hún væri yndislega kvenleg hún Björg, ekki eins heit og eldfjörug og Anna, en þó svo mild og ánægjuhlý; það var varla annað hægt en að bera hlýtt þel til Bjargar.
Og nú átti hann að fara að segja henni upp. Það var ekki annað hægt. Hvað honum fannst þungt að þurfa að leggja sorgarsvip yfir þetta yndislega andlit. En hvað áttu allar þessar hugsanir að þýða? Elskaði hann kannske Björgu? Elskaði hann þá ekki Önnu? Eða elskaði hann þær báðar? Honum blöskraði að hugsa til þess, að það var nærri því eins og einhver heiðinglegur fjölkvænisandi yfir hugsunum hans. Honum fannst hann vera flæktur í eitthvert net, og það var eins og hann gæti hvergi komið skylduræktartilfinningu sinni að til að leysa úr netinu.
En hverjum var allt þetta að kenna? Hver hafði hrundið honum í þetta dý? Jú, hann sá það strax. Það var prófasturinn gamli. Allt þetta var engum að kenna nema honum. Hann hafði ætlað að koma honum að Staðarbrauði með vélum og brögðum, og sú frétt hafði dregið hug hans með gremju frá honum og dóttur hans líka. Prófasturinn sjálfur og enginn annar var orsök í því, ef dóttir hans, og það slík dóttir, missti alla lífslukku sína.
Hann var búinn að klæða sig og opnaði svo gluggann og leit út á túnið og fram í hólmann.
Hvað forsjónin hefði gert þetta Staðarbrauð dásamlega úr garði, hugsaði hann með sér.
Svo fór hann niður til prófastsins.
Prófastur var sestur að morgunverðinum og Bjarni settist niður líka til þess að sýna honum, hvað hann gæti verið kaldur og rólegur.
Prófastur var hinn glaðlegasti á svipinn og fór strax að spauga við hann um það hvað hann hefði verið mikið með frú Önnu daginn áður, og sagði:
"Varaðu þig á henni frú Önnu, hún er hættuleg; ég er nú reyndar ekki hræddur um þig, þegar Bagga mín er öðrum megin, en hættuleg er hún; mér liggur við að segja, að það sé eitthvert heiðinglegt töframagn yfir allri hennar fegurð, ytri og innri".
"Svo hafið þér reynt það?"
Prófastur þagði litla stund og horfði út um gluggann eins og hugsandi, og þegar hann fór aftur að tala, var málrómurinn nærri því raunalega alvarlegur:
"Já, Bjarni minn, ég hef reynt það, hún hefur töfrað mig, gamla manninn, svo að ég hef beðið hennar".
"Þér beðið hennar?"
"Já, en guð frelsaði mig".
"Frelsaði yður?"
"Já, hann lét hana neita mér hreint og beint; hún þvertók fyrir allt og sagði sér gæti aldrei þótt vænt um mig. Síðan hef ég aldrei getað fullþakkað guði að svona fór. Þegar frá leið fór ég að sjá að milli okkar gat engin ást orðið; hún er barn þessa heims en ég ekki; milli okkar er mikið djúp staðfest. Þó ég hafi gaman af að hún komi hérna til að skemmta aumingja Böggu minni í einverunni, þá eru í raun og veru ekki meiri samgöngur milli okkar innra eðlis og hennar eðlis en á milli heimsskautanna. Hún er af öðru sauðahúsi en við. Allur auðmýktarandi kristindómsins stendur henni eins fjarri og tunglið".
Bjarni fann, að það var einhver snefill af sannleik í þessum orðum um Önnu, kristileg auðmýkt var henni ekki eiginleg. En því var nú prófasturinn að dæma? Honum var nær að hugsa um sínar eigin gerðir, og hann sagði ofboð rólega:
"Ég ætlaði að tala við yður um þennan undirbúning undir prestskosningu, sem þér kvað hafa gert hér. Ég hef ekki heyrt það fyrri en í gær. Annars hefði ég sagt yður það fyrr, að ég tek ekki á móti prestsembætti hér fyrst þér hafið látið sóknarbörnin biðja um að ég yrði í kjöri hér, og fyrst þér neyðið þau síðan með skuldum þeirra við yður til að kjósa mig".
"Hvað -- hvað -- er þetta? Hver hefur getað blindað þig svona? Hver hefur getað ofið þennan vef af ósannindum?" Og röddin skalf í prófastinum; svo þagði hann dálitla hríð.
Bjarni horfði á prófastinn og vissi ekki, hvað hann átti að segja. En prófasturinn byrjaði aftur og röddin var róleg, nærri því angurvær:
"Nei, ég hef góða samvisku fyrir því, að ég hef í engu vikið frá vegi réttlætisins til að koma þér hér að. Ég á bráðum að fara heim og standa reikningsskap af mínum verkum, og ég trúi því og veit það, að prestskosningin hérna á morgun verður mér ekki til áfellis í dómnum. Tölum nú rólega um þetta allt, ég sé að þú ert eitthvað æstur í hug, kannske eitthvert þessa heims barn hafi reynt til að eitra þína guðelskandi sál, tölum nú rólega, dæm þú mig og okkar mál allt, elsku Bjarni minn, þegar ég er búinn að tala, þínum dómi vil ég glaður hlíta, en verum báðir umfram allt hógværir eins og kristnum sæmir og fordómalausir -- gerðu svo vel, hérna eru ný egg úr hólmanum okkar. -- Það er satt, eins og þú veist, að sóknarbörnin hér hafa beðið um þig, en alveg af frjálsum vilja; ég hef á engan hátt neytt þau til þess. Átti ég að banna þeim að biðja um þig? Þau hafa kannske ímyndað sér að mér væri kærast að þið Björg tækjuð hér við öllu eftir mig, og hafa svo, þegar þau nú höfðu heyrt getið um þína miklu hæfileika og hvað þér væri sýnt um prestsskap -- slíkt fréttist -- viljað sýna mér eitthvert elskumerki fyrir fjörutíu ára sálusorg hér í sóknunum. En átti ég að banna þeim það? Er mér sem guðs þjóni skipað að standa gegn góðverkum? Þetta var góðverk, sem þeir ætluðu að sýna mér í elli minni og þó vinna sjálfum sér og guðsríki gagn með sama verkinu. Var þetta nú ókristilegt?"
Bjarni gat ekki haft augun af þessum gamla, hvíthærða öldung, sem talaði svo rólega og bróðurlega við hann, ungan manninn, sem hafði kastað ákæru beint í nasir honum, talaði svo hógværlega, þó hann væri saklaus, og svaraði öllu með kristilegri auðmýkt. Bjarni gat ekki sagt neitt, þegar hann hætti, nema:
"Ég er hræddur um, að hér sé misskilningur í tafli og að ég verði að biðja yður að fyrirgefa." --
"Nei, nei, ekkert að fyrirgefa -- gerðu svo vel, má ég ekki bjóða þér þennan nýja lax hérna úr henni Staðará -- aumingja Björg mín, hún hefur meðal margs annars lag á að bera vel og laglega á borð, og allt sem hér er á borðinu eru bara landsnytjar á Stað, nema brauðið. Guði sé lof, hún fær efnilegan og -- það sem meira er um vert -- hún fær vandaðan mann. -- En elsku Bjarni minn," og prófasturinn lagði hlýlega höndina ofan á handlegginn á tengdasyni sínum tilvonandi, "nú skulum við halda áfram. Þú nefndir mútur, eða hvað ég á að kalla það -- skuldirnar. Hér verður nú prestur kosinn á morgun, og ég segi þér það satt, að mér dettur ekki í hug að bjóða nokkrum manni fé til að kjósa þig, en ég ímynda mér samt, að þú verðir kosinn. Hef ég nokkurt vald til að banna sóknarbörnum mínum að kjósa þig? Og er það nú syndsamlegt, þó ég, eftir kosninguna -- taktu eftir, eftir að búið er að kjósa -- hver sem kosinn verður og hver sem annars hefði orðið kosinn -- gefi sóknarbörnum mínum upp þessar lítilvægu skuldir, sem þeir standa í við mig? Mér hefur aldrei dottið í hug, trúðu mér til þess, að láta kröfur um vesala peninga verða endinn á fjörutíu ára sambúð í trú og kærleika við þann söfnuð, sem guð hefur trúað mér fyrir. Mér finnst líka, að þessi lítilfjörlega uppgjöf gæti orðið einhverjum upphvatning til þess að gera meðbræðrunum gott og temja sér miskunnsemi."
Bjarni stóð upp frá borðinu og tók í hönd prófasti:
"Ég bið yður fyrirgefningar á orðum mínum, ég -- ég hef ekki verið frískur í gær og í nótt, en nú ætla ég að ganga út, leita einverunnar og koma svo til yðar aftur."
Og prófasturinn lagði höndina á öxlina á honum:
"Já, leitaðu einverunnar, elsku sonur minn; láttu þar þinn endurfædda anda leita ljóssins."
Og Bjarni gekk ofan að sjó og settist þar.
Hvað honum fannst mikið um þennan prestaöldung, fullan mildi og kærleika. Hvað mikil lífsreynsla og kristileg hógværð lýsti sér ekki í orðum hans? Bjarni fann vel, hvað margt og mikið hann gat lært af honum. Skelfileg gæfa væri það að stíga sín fyrstu spor á sálusorgaraveginum undir hans handleiðslu. Hvað hann hafði verið fljótur að leysa úr þessari ósannindaflækju, sem Anna hafði ofið um hann, og hvað allt þetta hafði verið illgirnislegt af Önnu.
Prófasturinn hafði rétt fyrir sér með hana eins og annað; hún var bara þessa heims barn; hún fyrirleit mennina, það hafði hann svo oft heyrt á orðum hennar, og færði öll þeirra orð og verk á versta veg, af því hún var sjálf full af hroka og þekkti ekkert til auðmýktar kristindómsins.
Hennar ást gat ekki borið neina gæfu að garði, og þegar hann fór að hugsa um það betur, fannst honum líka, að það hefði eiginlega ekki verið ást, sem hefði stýrt ferð sinni nóttina fyrr, heldur eitthvert æði, einhver syndsamleg trylling. Ástin, sú rétta og hreina ást, var ekkert algleymisæði, heldur bara himneskur friðarylur, hlýjandi og gleðjandi.
Nei, hann elskaði ekki frú Önnu, og hafði aldrei elskað hana.
Hvað honum stóð mikill stuggur af öllum þessum ástarósköpum nóttina fyrir.
En -- hann mundi glöggt eftir því -- hann hafði aldrei lofast henni, lofun hafði ekki einu sinni verið nefnd á nafn. Hvað það var ókvenlegt af Önnu að taka karlmanni svona fljótt, svona alveg skilmálalaust. Hann hafði meira að segja aldrei beðið hennar -- það hafði allt gengið í einhverjum óhemjuskap og öllum ástarreglum verið sleppt.
Hann lofaði guð fyrir, að hann væri þó alveg óháður og óbundinn frú Önnu; hún hafði enga kröfu til hans og hann ekki til hennar; þau voru alveg skilin að skiptum.
Hann var rólegur þegar hann gekk heim og var að hugsa um það á leiðinni hvað ættingjaelskan væri fögur og hvað mikla gæfu hún færði mönnunum. Ef hann yrði kosinn daginn eftir þá var það þó óbeinlínis og að nokkru leyti að þakka hinum fyrirhuguðu tengdum við prófastinn gamla, sem söfnuðurinn elskaði svo heitt að maklegheitum. Ættingjaelskan var fögur, hún var mannelskan í sinni fegurstu og fullkomnustu mynd.
Og þegar hann fór að hugsa betur um, fannst honum að þetta land væri öðrum fremur gætt svo miklu af þess konar mannelsku. Það var nærri því eins og skyldleika og mægða kærleikinn bæri veldissprotann í hverri sveit og hverju héraði á blessaðri ættjörðinni. Hvað honum fannst þetta land hafa guði mikið og margt að þakka, þó það væri nokkuð kalt og hrjóstugt.
Hann gekk heim og inn í svefnherbergi sitt og settist þar.
Hvað honum var rótt innanbrjósts eftir að hann var búinn að finna friðinn við sjálfan sig. Honum fannst allt gott og göfugt í sál sinni vakna til nýs lífs, þegar hann var búinn að sigra allar þessar óhreinu æsingar, sem hann hafði verið í seinasta sólarhringinn.
Svo tók hann bréfsefni á borðinu og ritaði á:
Stað, 26. júní 1887. Háttvirta frú!
Ég flýti mér að láta yður vita, að ég hef verið svo heppinn að komast að raun um, að allar sögur um óhlutvendni prófastsins, að því er prestskosninguna hér snertir, eru gripnar úr lausu lofti. Ég veit að þér, sem hugsið svo vel um alla menn, hafið ánægju af að frétta það. Ég býst ekki við að njóta þeirrar ánægju að sjá yður, hvorki heima hjá yður eða hér fyrst um sinn, því ef forsjónin ætlar mér þá náð að verða kosinn hér sálusorgari á morgun, þá hefi ég svo mikið að hugsa og hér verður svo mikið umstang, að ekki er að búast við að nokkur tími verði afgangs til annars. Ég get heilsað yður frá unnustu minni elskulegri og frá okkar göfuga prófastsöldung.
Með virðingu Bjarni Sveinsson. Hann las bréfið yfir tvisvar sinnum, brosti svo rólega og lagði það innan í umslag; hann hafði gaman af að orða vel bréf, og þetta fannst honum svo stutt og segja þó allt, sem segja þyrfti.
Svo fór hann til prófastsins og bað hann að lána sér dreng með bréf til sýslumannsfrúarinnar á Grund.
Prófasturinn gamli sendi dreng á stað með bréfið og sagði lágt, en brosandi, við Bjarna: "Nú er þá allt búið?"
"Já, nú er allt búið".
Og svo tóku þeir höndum saman, fast og lengi, og horfðu með virðingu og með ást hvor á annan.
IVSíra Erlendur, nágrannaprestur síra Þórðar prófasts, stýrði prestskosningunni á Stað.
Reyndar gegndi síra Þórður prófastsstörfum ásamt prestsstörfunum í prestakalli sínu enn til bráðabirgða, en hafði sett síra Erlend í sinn stað við prestskosninguna, því hann sagðist ekki vilja láta ætla sér það að hafa áhrif á kosninguna með því að stýra henni.
Það kom múgur og margmenni að Stað kosningardaginn, nærri því allir bændurnir í sóknunum og allar kosningarbærar konur, og auk þess margt fylgdarlið af unga fólkinu.
Enginn af þeim, er í kjöri voru, var við staddur nema Bjarni Sveinsson.
Síra Erlendur sat fyrir miðju borði í hefðarstofunni og jafnóðum og sóknarnefndarmennirnir, sem sátu við annað borð þar út frá, kölluðu upp nöfn kosningarbærra sóknarmanna, gengu þeir fram, staðnæmdust við borðið gegnt síra Erlendi og sögðu hvern þeir kysu, og sóknarnefndarmennirnir færðu allt jafnóðum inn í lista sína.
Síra Þórður prófastur sat við endann á borðinu, sem síra Erlendur sat við, leit ekki við nokkrum kjósanda og lét eins og kosningin skipti sig alls engu.
Hann var að blaða í dálítilli aflangri bók í blárri kápu, og hélt á bláum blýanti, sem hann var að leika sér að.
En sóknarbændurnir þekktu bókina í bláu kápunni mjög vel, og hver, sem gekk fram til að kjósa, leit til prófasts og bláu bókarinnar, og það kom svolítið hik á suma, því alltaf stóð nafnið á kjósandanum efst á blaðsíðunni í bláu bókinni með skýrum stöfum, og þar fyrir neðan stóðu smáleturslínur og aftast töludálkur beint niður, og prófasturinn lét bláa blýantinn fylgja með tölunum í dálkinum, eins og hann væri í hugsunarleysi eða sér til dægrastyttingar að leika sér að því að leggja þessar tölur saman. Og þegar kjósandinn var búinn að kjósa Bjarna Sveinsson, þá sló prófasturinn tvö strik í kross með bláa blýantinum yfir alla blaðsíðuna.
Og allir kusu Bjarna Sveinsson og blái blýanturinn sló alltaf krossstrikin.
En þegar Jónas á Melum kom fram, kaus hann síra Brynjólf á Felli, einn af þeim þremur, er í kjöri voru.
Prófasturinn sat eins rólegur og áður og leit ekki upp; þegar hann heyrði hver kosinn var, horfði hann út um gluggann og sló ekkert strik með blýantinum bláa. Það var eins og hann væri farinn að hugsa um allt annað en töludægrastyttinguna.
Svo kom Ingvar í Vík fram.
Hann leit til bláu bókarinnar og sá nafnið sitt standa efst á blaðsíðu, og blaðsíðan var þétt skrifuð og útskrifuð, og prófasturinn fletti blaðinu við og þeim megin stóð nafn Ingvars líka efst, og sú blaðsíðan var líka útskrifuð, og neðst í töludálkinum sýndist Ingvari ekki betur en að tölustafirnir væru þrír í röð.
"Ingvar Jónsson, hvern kjósið þér?"
"Ég kýs -- kýs -- Bjarna Sveinsson".
Og prófasturinn leit í fyrsta sinn upp, leit á Ingvar brosandi, og brosið var milt og föðurlegt. Svo plokkaði hann hægt og hægt blaðið upp úr bláu bókinni, reif það hægt í þverstrimla og þverstrimlana í smáhluti, og fleygði svo öllu í bakkann á gólfinu.
Síðastur af kjósendunum var Össur í Skál. Hann var dálítið hýr, karltötrið, þegar hann kom fram til að kjósa.
"Ég kýs þann sem blessaður prófasturinn minn vill, ég kýs hann Björn hérna, tilvonandi tengdason prófastsins". " Kjósið þér Bjarna Sveinsson?"
"Já, svo heitir hann, já ég kýs hann, hann og engan annan".
Prófastur leit til hans mjög alvarlega:
"Ég hef engan vilja látið í ljósi í því efni, Össur minn, þú átt að kjósa þann sem þú trúir best fyrir þinni sálarheill, þann einan og engan annan".
"Jú, öldungis eins og þér segið -- alveg rétt -- þér segið alltaf satt, elsku prófastur minn".
"Hvern kjósið þér þá?" spurði síra Erlendur.
"Ég kýs tengdason prófastsins, hann og engan annan -- hana nú -- ég er búinn að segja það -- margsegja það".
Þegar kosningunni var lokið, lýsti síra Erlendur yfir því, að kandídat Bjarni Sveinsson væri kosinn með 53 atkvæðum. -- -- -- -- -- --
Frú Anna hafði farið venju fremur seint á fætur og um nónbilið lét hún leggja á Grána sinn; hún sagðist ætla að ríða fram í Grundardal að gamni sínu, eins og hún oft var vön á sumrin.
Hún reið hart fram dalinn.
Gráni skildi ekkert í henni; hún gaf honum aldrei tíma til að mása, hún lét hann fara á stökki yfir Grundará eins og um melgötu, og hún sló í hann þegar hann stökk, og sló líka í hann þegar hann skeiðaði; hann reisti eyrun og lagði þau á víxl og þaut svo áfram í loftinu, en vissi í rauninni ekkert, hvaðan á sig stóð veðrið.
Þegar komið var fram að fossinum í Grundará fór hún loksins af baki Grána, lafmóðum.
Hún kastaði frá sér svipunni og leit ekki við Grána, og Gráni horfði þó á hana og vonaðist eftir að fá einhver vinarhót fyrir hlaupin. Er hún óánægð með mig? hugsaði hann.
Frú Anna gekk fram að fossinum.
Hann var bæði hár og breiður og veltist í silfurskæru perlulöðri fram af bjarginu niður í hringiðuna hyldjúpa og kolgræna, og hringiðan greip alla löðurstraumana, sogaði þá í sig, fleygði þeim svo upp aftur, velti þeim fyrir sér og togaði þá á allar lundir eins og til að vita, hvort nokkurt lið væri í þeim, og slengdi þeim svo frá sér, og perlurnar þutu dálítinn spöl niður eftir ánni, brustu svo og urðu að engu.
Frú Anna settist á steinhellu, sem lá alveg fram að hringiðunni fyrir neðan fossinn.
Hún lét úðann úr fossinum ýra í andlit sér og yfir sig alla.
Hún fleygði öðrum vettlingnum sínum út í hringiðuna og iðan sogaði hann í sig og kastaði honum svo frá sér, og hann rann niður eftir allri á og hún horfði á eftir honum.
Svo beygði hún sig niður og dýfði hendinni dálítið niður í vatnið. Hvað það var ískalt.
Það fór um hana hrollur, svo hún fór að þrýsta betur að sér pilsinu.
Hún sat þarna lengi, lengi.
Svo stóð hún upp.
Hvað henni fannst lífselskan í manneðlinu einhvern veginn vesöl og nærri því fyrirlitleg. Maðurinn gat verið kominn að dauða af lífsþreytu og ekki haft nokkra von um neina breytingu, -- fundið dofakuflinn þrengja að öllu lífsrúmi og andrúmi, og elskað þó lífið eða viljað ekki missa það -- þorað þó ekki að deyja.
Hún fór á bak Grána og reið heim á leið, hægt og hægt, fót fyrir fót.
Hún reyndi til að vekja sér ánægju með því að litast um í dalnum. Hvað henni fannst mikil yndisfegurð í hverri einustu bugðu í ánni, og hvað hann var skrítinn þessi leikur í straumiðunni kring um steinana, sem stóðu upp úr, til að toga þá með. Og upp um hlíðarnar sá hún eitthvað nýtt við hvern hól, hverja brekku og hverja laut, einhverja nýja fegurð, sem hún hafði aldrei tekið eftir áður.
Hvað vorið var máttugt til að leiða fram líf og fegurð. Fyrir skemmstu hafði hana líka dreymt um vor og sumar fyrir sjálfa sig, en -- hvað hennar vordraumur var stuttur.
Þegar frú Anna kom heim á stöðulinn var verið að mjólka, og þegar hún reið fram hjá, litu ærnar hennar við og horfðu jórtrandi á hana, og mjaltakonurnar heilsuðu henni með mestu lotningu.
Hvað henni þóttu ærnar fallegri en mjaltakonurnar í óhreinu druslunum, og jórtrið í ánum hjartanlegri heilsun en sleikjurómurinn í mjaltakonunum.
Var það þó, ef til vildi, ekki hreinasta ánægjan í lífinu að fara vel með skepnurnar sínar og horfa á hvað þeim liði vel?
Eitt gat maður verið viss um, þær lugu ekki -- þær vantaði málið. -- -- --
Á Stað var mikið um glaum og gleði.
Eftir kosninguna bauð prófastur öllu sóknarfólkinu, sem komið var, að bíða eftir dagverði og skemmta sér svo fram eftir kvöldinu.
Svo var slegið upp veislu á Stað; þar var nóg til af öllu, en húsrúmið var þó heldur þröngt, þó húsakynnin væru stór, meðan verið var að borða. Þegar farið var að drekka toddý á eftir fundu menn minna til slíks.
Þegar langt var liðið á kvöldið, gekk Bjarni einn út, fór niður að sjó, settist þar og fór að hugsa.
Honum fannst, að forsjónin hefði nú sýnt sér svo mikla náð, að það væri skylda sín að reyna að prófa sjálfan sig.
Það var einkum þetta æðisfát, sem aldrei skyldi verið hafa, við hana frú Önnu, sem hann var að leita að rótum til.
Eiginlega var þetta allt henni að kenna, eins og við var að búast af trúarlitlu eða trúarlausu heimsbarni. En hann sjálfur -- var hann saklaus? Nei -- nei; reyndar hafði þessi lygi um aðfarir prófastsins í prestskosningarmálinu vakið alla hans meðfæddu og af kristindóminum skerptu réttlætistilfinningu til slíkrar gremju, að allt hans sálarlíf komst í einhverja æsing. En -- hann gat ekki neitað því -- það gerði nokkuð til líka, að honum hafði fundist gert einhvern veginn lítið úr sér með öllu þessu bjástri til að koma sér að, sem allir höfðu átt að vera látnir vita af nema hann; hafði fundist farið með sig eins og barn, sem ekki var sjálfbjarga, og við þetta hefði virðingin fyrir prófastinum orðið að einhverjum blindum uppreistarþjósti í sér. Og svo kom fegurð Önnu til, einhver voðaleg fegurð, hræðilega holdleg og töfrandi. Og þar við bættist líka vorið, heillandi og tryllandi öll skilningarvit. Hvað það gat verið hættulegt, vorið, fyrir mannlegan breyskleika; í stað þess að menn ættu að drekka alla þessa fegurð inn í sálina sem lifandi lofgerð um skaparann, væri svo hætt við að líkaminn drykki það inn í sig til að efla skilningarvita tilfinningar, sem væru svo syndum spilltar og þyrftu að stýrast af endurfæddum anda.
Hann grúfði höfuðið í höndum sér, bað fyrir sér heitt og innilega, og lét auðmýktaranda kristindómsins gagntaka sig svo allan, að hann fann, að hann var í dýpsta skilningi bara duft og aska, ónýtur þjónn, sem hafði látið sitt spillta manneðli, knúið af vortilfinningum og uppreistaranda, kasta sér út í syndastrauminn.
Hann var þakklátur fyrir frelsunina og hvað hann lofaði heitt betrun.
Unnustan var að leita hans og fann hann loksins, þar sem hann sat í guðræknishugleiðingunum, og sagði honum frá því ánægð og glöð, að faðir sinn ætlaði að láta þau taka við öllu búinu eins og það stæði, með 200 ám og 12 kúm.
Hvað honum fannst hún yndishýr, unnustan, full af ástartryggð og búskaparumhyggju; í augum hans var hún fullkomin ímynd prestskonu í sveit; hvað henni færi vel að standa í búri, líta eftir í fjósi, og gefa svo hænsnunum á milli, og bera á borð fyrir bóndann sinn! Og svo fór hann að hugsa um alla þessa mjólk úr 12 kúm, og var að velta fyrir sér, hvort hann ætti að drekka flóaða mjólk á morgnana og nýmjólk á kvöldin, eða nýmjólk á morgnana og flóaða mjólk á kvöldin.
Hann tók yfir um unnustuna og faðmaði hana að sér með afskammtaðri blíðu og varaðist að kyssa hana; hann vildi ekki láta neitt jarðneskt trufla sálaránægju sína á þessari hátíðlegu sjálfsprófunarstund.
Svo kom prófasturinn til þeirra:
"Þið eru illa fjarri. Hann Þorgrímur gamli í Dal var að mæla fyrir skál okkar þriggja og sagði að við værum trúin, vonin og kærleikurinn fyrir þetta prestakall. Hann sagði að ég væri trúin, Bagga mín kærleikurinn og þú vonin, Bjarni minn. Það er kannske nokkuð mikið sagt", sagði prófasturinn gamli og brosti við, "en það er ósköp fallega sagt, af því það var meining í því, fölskvalaus meining. Blessuð, komið þið nú heim". -- Svo fóru þau öll á stað, Björg gekk í miðið og leiddi föður sinn til annarrar handar og unnustann til hinnar, og þau gengu heim öll þrjú, trúin, vonin og kærleikurinn -- í Staðarprestakalli.