TVÆR  SYSTUR


eftir Jón Trausta





Sigurlaug og Geirlaug hétu þær, voru alsystur, en ekki vitund líkar.

Báðar voru þær hnignar að aldri, þegar ég þekti þær. Sigurlaug var vinnukona á næsta bæ við mig og hafði verið þar í mörg ár.

Hann var ekki hjúasæll, bærinn sá, og Sigurlaug var stundum eina vinnukonan.

Orð lék á því, að hún ynni á við tvær vinnukonur, ynni karlmannaverk, ynni seint og snemma, sýknt og heilagt, og léti jafnan þarfir heimilisins sitja fyrir sínum eigin þörfum.

Margir hefðu þegið að fá slíka vinnukonu, en Sigurlaug gamla var ekki hneigð fyrir vistaskiftin.

Hitt vissu aðeins fáir, hve lítið henni var þakkað þetta mikla slit, þessi einstaka trúmenska. Húsmóðirin var að vísu ekki vond við hana, en hún talaði aldrei við hana, nema þegar hún sagði henni fyrir verkum.

Sigurlaug kærði sig heldur ekkert um það.

Marga grunaði, að hún mundi lítið kaup fá. Hitt vissu ekki nema kunnugir, að hún fékk alls ekkert kaup síðustu árin.

Hún átti það alt inni, að sagt var, og spurði aldrei um það. Hún fór aldrei í kaupstað, aldrei í kirkju, aldrei á aðra bæi, nema hún væri að leita að kúnum, Hún hafði ekkert við spariföt að gera. Hún fékk hálfslitin föt af húsmóður sinni og sleit þeim út frekar, á meðan þau héngu saman. Meira þóttist hún ekki þurfa. Enda gekk hún hneykslanlega illa til fara, miklu, miklu ver en hún þurfti að ganga.

Fáir gáfu henni gaum. Hún sneiddi hjá öllum og talaði aldrei orð við neinn, sem að garði bar, - gegndi varla kveðjum þeirra. Móðir mín var ein af þeim sárfáu, sem gáfu sig á tal við hana. Það var ekki fyrirhafnarlaust að toga úr henni svar.

Og þó var hún ekki lundill. Enginn vissi til, að hún skifti skapi.

Enginn varð þess var, að hún gleddist af neinu eða hrygðist af neinu. Henni virtist standa á sama um alt.

Tilfinningar hennar virtust dánar. Hún lifði aðeins vegna skyldunnar. Hugsaði um það eitt að vinna öðrum gagn, vinna, eins og þolinmótt dýr, á meðan þrótturinn entist.

Marga hefi ég séð fara hlífðarlaust með heilsu sína, en engan eins og hana.

Fótabúnaðurinn var oftast stagbættir skóræflar, sem ekki var dæmalaust að sjá á tærnar fram úr. Sokkarnir voru í göndli utan um öklana og pilsin skötubörðótt. Hálsinn var oftast ber, eða þá einhverri klútrýju hnýtt um hann. Skyrtan og treyjan flöktu frá bringunni; þar var slitið fram úr hverri neslu. Ermarnar héngu varla við bolina. Þannig gekk hún til fara jafnt í sumarhitum sem vetrarhörkum.

Það stoðaði ekkert, þótt húsmóðir hennar áminti hana um að gera við garmana sína; allir vissu, að hún kunni það. En hún gaf sér aldrei tíma til þess. Altaf kom hún auga á eitthvað, sem gera þurfti fyrir heimilið; þá varð hitt að sitja á hakanum.

Hún var veðurbitin í framan og sjaldan hrein. Andlitið var orðið hrukkótt og kinnfiskasogið, en það leyndi sér ekki, að það hafði verið frítt á yngri árum, munnurinn nettur, nefið beint og alt andlitsfallið samsvarandi. Augun voru dökkbrún og dálítið snerpuleg. En nú var kominn einhver kæruleysisbragur á allan svipinn; alt, sem lifði þar ennþá, faldi sig vandlega, ef eftir var leitað, alt - nema ambáttareinkennin.

Vöxturinn var orðinn boginn af langvinnu striti, en hún hafði verið grönn og mjúklega vaxin. Hárið var eitt af því, sem enn hefði getað prýtt hana. Það var tinnudökt, þétt og ekkert farið að grána. En það var í æfinlegri, ógreiddri flókabendu utan um höfuðið og hékk í lýjum niður um andlitið.

- Allir vissu, að Sigurlaug gamla hafði eitt sinn orðið móðir. Drengurinn hennar var nú upp kominn og hinn mannvænlegasti maður. Hann hafði lært að leika á orgel og stundaði það nú við sóknarkirkjuna. Allir í sveitinni höfðu heyrt hann leika á orgel - nema móðir hans, því að hún fór aldrei í kirkju.

Allir í sveitinni höfðu séð hann - nema móðir hans, því að hann heimsótti hana aldrei.

Hann þótti einna glæsilegastur ungra manna í sveitinni, vel gefinn til sálar og líkama og hafði framast flestum betur. En jafnframt var gert orð á því, að mikið liti hann á sig. Flestum þótti hann sýna móður sinni litla rækt. Það var honum helst til afsökunar, að hann þekti hana ekki. Hann hafði ekki séð hana síðan hann var á hvítvoðungsaldri, og nú heyrði hann hennar ekki að öðru getið en því, að hún væri mesti ræfill sveitarinnar.

Sigurlaug spurði heldur aldrei um hann. En þegar gestir voru inni í herbergi húsbændanna og mintust á son hennar, þá kom það fyrir, að hún settist á fletið sitt í frambaðstofunni og hlustaði gaumgæfilega eftir hverju orði. Hún heyrði þá bæði gott og ilt um hann talað. Sjálfsagt hafa fáir veitt henni eftirtekt, - sumir kannske ekki vitað það, að þetta var móðir "organistans".

Ég sá hana því nær daglega, og mér mun seint líða hún úr minni. Ég man eftir henni, þegar hún var að fela sig fyrir gestunum - til þess að gera ekki heimilinu minkun. Ég man eftir henni, þegar mamma var að reyna að hafa upp úr henni, hvernig henni liði; það var altaf: vel, - henni var ekkert ilt, - ekkert kalt; hún var ekkert þreytt, - hana vantaði ekkert, - sem mennirnir gátu veitt henni. En svörin voru eins og upp úr svefni. Ég man eftir henni, þegar hún staulaðist heim götuna með þungar eldiviðarbyrðar á bakinu. Hún blánaði í framan af áreynslu og ætlaði að springa af mæði. Þá tylti hún sér á götubakkann og varp þunglega öndinni. Var byrðin hennar ekki of þung? - Nei. Var ekkert hægt að hjálpa henni? - Nei. Hún hæddi alla hjálp, alla vanheilsu, alla hlífð við sjálfa sig, allan heiminn, en beið aðeins eftir einu, - sem kom að lokum.

- - Hin systirin var harla ólík þessu.

Hún var gift bónda þar í sveitinni, sem hét Jón Baldvinsson.

Hún bar þess vott, að hún hafði átt hæga daga og lítið unnið. Hún var feitlagin, mjúkhent og makráð, gefin fyrir heimsóknir og heldrimannasamneyti. Hún var álíka málug og Sigurlaug var þögul, álíka værugjörn og Sigurlaug var vinnugefin og álíka framhleypin og Sigurlaug var feimin.

Hún var öll jafnhvítgrá yfirlitum, hrukkurnar eins og smáriðið net um alt andlitið, án þess að halda ákveðnum stefnum. Andlitið var sviplaus, óljós óskapnaður af fituhnyklum og smáhrukkum, síiðandi, símasandi, síhlæjandi. Hún hafði tamið sér öll svipbrigði og notaði þau eftir því, sem henni fanst koma sér best í hvert skifti, án þess að hirða um, hvort þau fóru henni vel eða illa. Þess vegna voru þessir fituhnyklar á stöðugri leit eftir verkefni - eins og öldugutlandi, sem enginn vindblær beinir í stefnu. Það bætti ekki heldur svipinn, að augabrýrnar voru fleðulegir fitukleppar og því nær hárlausir. Gárungar sögðu, að "geitur hefðu nagað af þeim hárin".

Þó leyndi það sér ekki, að Geirlaug hafði verið lagleg stúlka.

Geirlaug gerði sér allmikið far um að ganga vel til fara, en sá var hængur á því ráði, að altaf grisjaði í það gegnum yfirborðið, hversu þrifin hún var í raun og veru. Hún þvoði sér oft - en alveg á sama hátt og kötturinn; fituhnyklarnir gljáðu eins og þeir væru nýsleiktir, en hrukkurnar voru svartar í botninn; hendurnar voru hreinar, en ekki úlfliðirnir.

Geirlaug lét sér mjög ant um heldri húsfreyjur í sveitinni, heimsótti þær til skiftis og sat hjá þeim einn eða tvo daga um kyrt. Þó gætti hún þess vel að hafa sig á burt, áður en þær yrðu alt of leiðar á henni. Á þennan hátt varð hún mörgum ómissandi fréttaberi milli bæjanna og var sjaldan heima.

Einn var þó sá bær í sveitinni, sem Geirlaug kom aldrei á. Það var bærinn, þar sem systir hennar átti heima.

Aldrei hittust þær systurnar, og aldrei spurðu þær hvor eftir annari.


Þessar systur áttu sér ofurlitla sögu. Hún hafði gerst fyrir mörgum árum og var nú farin að falla í fyrnsku.

Það var þegar þær voru báðar í blóma lífsins og Jón Baldvinsson líka.

Þær voru þá báðar laglegar stúlkur, en ekki voru þær líkari þá en nú.

Jón Baldvinsson var líka álitlegur maður, ljós yfirlitum, með ljóst hár og skegg og karlmannlega vaxinn. Margar stúlkur litu til hans hýrum augum um þær mundir, en Sigurlaug varð hlutskörpust þeirra allra.

Hún bar þá langt af systur sinni í áliti almennings, var hæglát og fáskiftin og kom sér ágætlega þar, sem hún var í vistum.

Geirlaug kom sér aftur á móti hvergi vel. Hún var ekki nærri því eins vinnugefin eins og systir hennar, þótti tilhaldssöm, sérhlífin og svörul og toldi sjaldan ár í vist.

Þau Sigurlaug og Jón Baldvinsson voru bæði vinnuhjú á sama heimili, þegar þau feldu hug hvort til annars og bundust heitorðum. Þau réðu sig þá bæði úr vistinni um vorið, tóku jarðarskika og reistu bú saman. Um sumarið ætluðu þau að gifta sig.

Efnin voru ekki mikil að vísu, en þó nokkur. Og Jón Baldvinsson var talinn fyrirhyggju- og dugnaðarmaður. Enginn þurfti heldur að óttast, að Sigurlaug mundi sundurdreifa fyrir honum.

Gömlu húsbændurnir báðu þeim allrar blessunar, þegar þau fóru frá þeim um vorið.

Húsmóðir Sigurlaugar kvaddi hana með tárum og bað hana að leita sín, ef hún þyrfti við. Hún kvaðst aldrei hafa haft aðra eins vinnukonu.

Búskapurinn byrjaði efnilega. Sigurlaug atundaði húsfreyjustörfin með sömu alúð og hún hafði áður stundað vinnukonustörfin. Hún var sívinnandi, en jafnan fálát og afskiftalaus um það, sem henni fanst sér ekki koma við, og kom sér vel við alla.

Þau Jón unnust hugástum. Bændurnir í sveitinni hugsuðu gott til framtíðarbúskapar þeirra. Það leyndi sér ekki, að þau mundu fremur verða veitandi en þurfandi.

- "Fremur veitandi en þurfandi". Þess vegna leitaði Geirlaug til þeirra, þegar hún gekk úr vistinni snemma um sumarið. Henni fanst systur sinni skylt að veita sér ásjá fyrst um sinn, úr því að hún var "fremur veitandi en þurfandi". Jóni Baldvinssyni fanst það líka.

Það var skömmu áður en þau ætluðu að láta byrja að lýsa.

Geirlaug var ekki búin að vera lengi á heimilinu, þegar hún tók að gera sig allheimaríka.

Hún heimtaði alt með frekju af systur sinni, sem hún gat í té látið. Jón mælti því bót. Í fyrstunni gerði hann það af gestrisni við systur unnustu sinnar.

Sigurlaug leit öðruvísi á þá rausn frá upphafi, en hafði þó hljótt um.

En Geirlaug gekk á lagið.

Hún gerði það eitt af verkunum, sem henni þóknaðist sjálfri. Á morgnana þvoði hún sér og greiddi í stað þess að fara í kvíarnar. Á daginn gerði hún sér hægt heima í bænum, gekk í bestu flíkunum sínum og masaði við gesti, á meðan systir hennar var önnum kafin úti og inni við og gaf sér engan tíma til að skifta klæðum.

Ókunnugum gat því ekki blandast hugur um, að Geirlaug hlyti að vera húsfreyjan, en hin vinnukona.

Þetta heimaríki Geirlaugar fór vaxandi með degi hverjum. Sigurlaug bar það með þolinmæði og Jón Baldvinsson hlynti að því.

Sambúðin fór dofnandi milli hjónaefnanna frá því, er Geirlaug kom á heimilið. Jón var fálátari við unnustu sína, og það fór að koma fyrir, að þeim bar ýmislegt á milli.

Það var hvorki mikið né alvarlegt framan af. En við hvert tækifæri þurfti Geirlaug að sletta sér fram í það og æfinlega á móti systur sinni.

Sigurlaug tók sér þetta nærri, en var þó hin vonbesta. Hún taldi stirðlyndi Jóns stafa af elju og áhyggjum og hélt, að það mundi hverfa síðar.

Þannig liðu nokkrar vikur, og samkomulagið fór stöðugt versnandi.

Geirlaug skipaði systur sinni fyrir verkum eins og vinnukonugarmi. Enginn hafði áður þurft að brýna Sigurlaugu til skylduverka sinna, enginn hafði hreytt til hennar ónotum fyrri. Hún var hvorutveggja óvön.

Fáleikar þeirra hjónaefnanna ágerðust.

Það var liðið langt fram yfir þann tíma, sem þau höfðu komið sér saman um að biðja prestinn að byrja að lýsa, en ekki var farið til þess enn. Sigurlaug hafði stöku sinnum spurt Jón eftir því eða mint hann á það með hægum orðum í einrúmi, en aldrei fengið annað svar en vöflur og síðast ónot í tilbót. Þá hætti hún því friðarins vegna.

Henni var þá farið að skiljast, hvert þetta bar.

Systir hennar lagði alt kapp á að leiða hug Jóns frá henni og að sjálfri sér. Og það hafði henni tekist alt of vel.

Sigurlaug grét yfir því mörgum tárum í einrúmi, en lét engan verða þess áskynja.

Henni skildist þetta, þegar hún hugsaði um það. Hún stóðst ekki samanburð við systur sína í augum unnustans.

Geirlaug var sælleg, mjallhvít á hörund og ólúin af vinnu. Hún var vel til fara, iðandi af kæti og fjöri og símasandi. Kossar hennar voru mýkri, faðmur hennar meira laðandi.

Sjálf var hún orðfá og alvarleg, sívinnandi, oft óhrein og illa til fara og oft þreytt. Andlit hennar var sólbrunnið og hendurnar snarpar af vinnu.

Kvalir afbrýðinnar gripu hug hennar, samfara gremjunni yfir skammsýni og skilningsleysi unnusta síns og sorginni yfir ótrygð hans.

En harma sína bar hún í hljóði.

Dáleikar þeirra Jóns og Geirlaugar voru nú orðnir svo miklir, að allir hlutu að taka eftir þeim.

Jafnframt veittust þau bæði að Sigurlaugu, sneru út úr hverju orði hennar, stríddu henni og hæddu hana á allar lundir og gerðu henni lífið að óbærilegri kvöl.

Sigurlaug reyndi þá að koma systur sinni burtu og fór fram á það við Jón. Hún reyndi með góðu að leiða honum fyrir sjónir, að Geirlaug hefði aðeins verið tekin þangað um tíma, á meðan hún væri að koma sér fyrir. Það hefði aldrei verið tilgangurinn, að hún ætti að setjast þar að og vera þeim til byrði upp frá þessu.

Jón tók þessu illa, brá Sigurlaugu um nísku og smásálarskap, sagði, að hún tímdi ekki að gefa systur sinni að éta, á meðan hún væri vegalaus.

Lengra varð ekki komist þá leiðina.

Þá minti hún Jón á, hvílíkt hneyksli stafaði af veru Geirlaugar þar á heimilinu, og hvort ekki mundi hentast að gera enda á því.

Við því brást Jón afarreiður og jós yfir hana ókvæðisorðum.

Loks reyndi hún að fylgja fram húsfreyjurétti sínum og skipaði systur sinni í burtu.

En það var of seint. Geirlaug var orðin henni ofjarl.

Í þessu heimilisstríði stóð Sigurlaug viku eftir viku. Sorgin og gremjan gengu svo hart að henni, að henni lá við að grípa til óttalegra örþrifaráða til að hefna sín.

Geirlaug sparaði ekki að ýfa sár hennar. Nú var hún komin að raun um, hversu máttvana hún var og hvað óhætt var að hafa í frammi við hana. Hvíldarlaust og miskunnarlaust storkaði hún systur sinni, hæddi hana og píndi, einkum þegar Jón heyrði til.

Sigurlaug bar þessa miklu hugraun með frábærri stillingu. Aldrei sást hún fella tár, - hún gerði það þeim mun meira í einrúmi.

Engum manni tjáði hún vandræði sín.

En lífið var henni svo þungbært, svo örvæntingarfult og óþolandi, að henni kom oft til hugar að svifta sig því sjálf.

En vitneskjan um það aftraði henni, að það var ekki aðeins líf hennar sjálfrar, sem hún fargaði, - heldur annað til.

Neisti vonar kviknaði hjá henni við þá hugsun, að ef til vill kynni að rætast úr þessu öllu, þegar faðirinn sæi barn sitt.

En sá neisti kulnaði út með öllu, þegar hún komst að því snemma um veturinn, að eins var ástatt fyrir systur hennar.

Þá tók hún þegjandi saman það helsta af eignum sínum - sem ekki voru miklar, - lagði það á bakið og gekk á stað, út í kafald og ófærð, - burt, burt frá þessu siðleysisbæli, og kom þangað aldrei framar.


Snemma um vorið ól Sigurlaug sveinbarn; nokkrum vikum síðar ól systir hennar einnig sveinbarn.

Tíðrætt varð um þessa atburði í sveitinni.

Enginn var svo ófróður að vita ekki, að hér var um hegningarlagabrot að ræða. Enginn var heldur í efa um, að þetta atferli ætti hegningu skilið. En enginn vildi verða til að kæra.

Presturinn og hreppstjórinn létust ekki sjá það, en til sýslumannsins komst það aldrei.

Menn vissu, að Jón Baldvinsson mundi einkum verða fyrir hegningunni, og aumkuðu hann. Sekur var hann að vísu, en mest um léttúð og ósjálfstæði. önnur persóna í þessum hryggilega leik fanst mönnum miklu sekari; en hana mundi hegningin ekki hitta eins og hún ætti skilið.

Sigurlaug hafðist við hjá gömlu húsbændum sínum yfir veturinn. En þegar hún var orðin heil eftir barnsburðinn, kom hún sér fyrir í húsmensku á öðrum bæ. Hún vildi ekki vera vinum sínum til byrði.

Barnið var hraust og efnilegt og henni til mikillar ánægju. Það var eini geislinn, sem eftir var af ástarsælu hennar, eina vonin, sem bjargast hafði á land af skipreikanum.

Erfitt var að sjá á henni nokkra breytingu. Hún var lítið fálátari en hún hafði verið. Þeir einir, sem voru henni nákunnugir, tóku eftir því, að eitthvað braust um í hug hennar.

Hún stundaði barnið dag og nótt og vann með það í fanginu fyrir lífi sínu. Þá sýndi það sig best, að hún gat tekið höndunum til gagns einnig í sæti sínu.

En stundum kom það fyrir, að hún sat aðgerðalaus í þungum hugsunum, svo þungum, að hún heyrði ekki, þó að barnið gréti.

Við og við komu þá tár fram í augu hennar. Hún reyndi að stöðva þau með hörku, en gat það ekki. Þau hrutu eina og högl af hvörmunum ofan á barnið.

Við það kom hún jafnan til sjálfrar sín.

Hún var þá að hugsa um horfnar hamingjustundir og dánar vonir.

Þessi gæði voru glötuð fyrir fult og alt. Þótt hún gæti barið fram rétt sinn gegn Jóni Baldvinssyni, var henni það fullljóst, að sambúð þeirra mundi aldrei verða giftudrjúg.

En hana langaði til að hefna sín. Hana langaði til að sýna þeim hjónaleysunum, hvernig hún hefði ráð þeirra í hendi sér, ef hún vildi beita sér.

Og rétti barnsins vildi hún síst sleppa.

Ef til vill hefir ráðið lengi legið fullþroskað í hug hennar, áður en hún framkvæmdi það.


Einn sunnudag snemma um sumarið átti að lýsa til hjónabands með þeim Geirlaugu og Jóni Baldvinssyni. Það var búið að lýsa fyrstu lýsingu.

Það var um sama leyti sumars og lýsingar áttu að byrja með þeim Sigurlaugu og Jóni ári áður.

Fólk streymdi til kirkjunnar, því að allir viasu, að messa mundi síður bregðast, fyrst lýsingar stóðu yfir.

Hjónaefnin voru sjálf í kirkju, og Geirlaug var ákaflega upp með sér af þeirri athygli, sem kirkjufólkið veitti henni.

En þegar menn voru komnir í kirkjuna og forsöngvarinn var byrjaður að belja sálminn, kom Sigurlaug í kirkjuna.

- Hún hafði leynt sér í laut fyrir utan túngarð, þar til búið var að samhringja. Þá hafði hún gengið heim að bænum. Barn sitt bar hún á handleggnum.

Hún fann prestskonuna að máli, sem þá var ekki farin í kirkju, og bað hana fyrir barnið, á meðan hún væri í kirkjunni.

Prestskonan tók bón Sigurlaugar ljúfmannlega, en horfði undrandi á hana, eins og hún vildi lesa út úr henni, hvað hún hefði í hyggju.

Sigurlaug hraðaði sér í kirkjuna, til þess að forðast spurningar hennar. -

Fáir tóku eftir Sigurlaugu, þegar hún kom í kirkjuna. En Geirlaug tók eftir henni og varð litverp. Hana grunaði, að lítið gott mundi sér af komu hennar standa.

Sigurlaug tók sér sæti framarlega í kirkjunni. Þar sat hún niðurlút og lét lítið á sér bera. Aðeins þá, sem næstir henni sátu, fór að gruna, að hún byggi yfir einhverju, sem hún þyrfti að hleypa í sig hörku til að framkvæma.

Geirlaug gaf henni stöðugt auga.

Að lokinni ræðunni var von á lýsingunni. Fólkið hélt niðri í sér andanum og hlustaði.

"Lýsist í annað sinn til hjónabands með heiðarlegum - - -". Presturinn hálfjaplaði orðið.

Ókyrðaralda fór um alla kirkjuna. Það líktist hlátri, sem kæfður er í fæðingunni, eða óbeitardæsi, sem ekki mætti hafa hátt.

Geirlaug leit gremjulega alt í kringum sig, en kom ekki auga á neinn af þeim, sem gerði þessi fáheyrðu helgispjöll.

Þegar lýsingunni var lokið, varð dauðaþögn í kirkjunni. Geirlaug horfði angistaraugum á systur sína. Sigurlaug varð þess vör, en gaf því engan gaum.

En rétt eftir að presturinn hafði slept síðustu orðum lýsingarinnar: "Viti nokkur meinbugi" o. s. frv., stóð Sigurlaug upp úr sæti sínu.

Geirlaug nábliknaði í framan.

Nú hvíldu augu alls safnaðarins á Sigurlaugu. Hún stóð keik framan við sætið, bar höfuðið hátt og horfði djarflega upp til prestsins. Röddin titraði varla, þegar hún byrjaði að tala; hún var fastmælt og skýrmælt.

Hún lýsti meinbugum, - kvað Jón Baldvinsson vera trúlofaðan sér og föður að barni sínu. Þeirri trúlofun væri óslitið enn.

Að því búnu settist hún niður aftur.

Menn störðu á hana með undrun og aðdáun. Enginn þóttist hafa séð hana jafnfríða og djarflega, enginn hafði haldið, að hún ætti til slíkan skörungsskap.

Geirlaug hljóðaði upp yfir sig og hné niður; henni lá við aðsvifi.

Presturinn gamli stóð sem steini lostinn uppi í "pontunni"; annað eins hneyksli hafði aldrei komið fyrir í söfnuði hans.

Geirlaug froðufeldi af heift, og Jón Baldvinsson skalf af ótta við það, að hún mundi fá flog.

Blessunin af stólnum fór í hálfgerðum handaskolum. En svo jafnaði söfnuðurinn sig á sálminum.

Skömmu seinna stóð Sigurlaug á fætur og gekk út. Hún var óstyrk og reikaði ofurlítið, þegar hún gekk fram eftir gólfinu.

Hún sótti barnið sitt inn í bæinn og hélt svo á stað. Þegar fólkið kom úr kirkjunni, var hún öll á burt.


Einn daginn í vikunni þar á eftir komu gestir að heimsækja Sigurlaugu.

Það voru þeir presturinn og Jón Baldvinsson.

Þeir komu til að gera enda á "þessu leiðindamáli", eins og presturinn komst að orði. Eða með öðrum orðum: þeir komu til að leita sátta og samkomulags við Sigurlaugu, til þess að gifting þeirra Jóns og Geirlaugar gæti haldið áfram.

Sigurlaug tók á móti þeim með sama jafnaðargeði og henni var eiginlegt. Enginn sá á henni, hvort henni féll koma þeirra betur eða ver.

Heimilisfólkið sá, að þeir mundu eiga erindi við hana eina, og rýmdi úr baðstofunni.

Jón Baldvinsson skalf á beinunum. Hann hafði orðið svo skelkaður í kirkjunni, að hann vildi nú alt til vinna að sættast við Sigurlaugu.

Presturinn hafði orð fyrir þeim báðum. Hann var þýður í máli og innilegur, eins og hann var vanur.

Hann byrjaði með löngum inngangi um "kristilega þolinmæði", "kærleika" og "föðurlega forsjón á himnum", sem "útbýtti kjörum mannanna". Sigurlaug hlustaði á það alt saman með mestu þolinmæði.

Svo fór hann hægt og hægt að komast að efninu. Hann ávítaði Sigurlaugu með "kristilegri hógværð" fyrir það að hafa gripið til þessa úrræðis, án þess að ráðfæra sig við "sálusorgara" sinn, og fór um það mörgum orðum, hversu "hneyksli í söfnuðinum" væru skaðleg fyrir safnaðarlífið.

Sigurlaug þagði og hlustaði, eins og verið væri að lesa gamalkunnan húslestur.

Loks spurði hann Sigurlaugu, hvort hún gerði þá kröfu á hendur Jóni Baldvinssyni, að hann héldi heit sín við hana.

Sigurlaug svaraði fast og ákveðið: "Nei".

Í þessu eina, stutta orði lá svo djúp og innileg fyrirlitning, að það smaug gegnum merg og bein.

Þar næst spurði presturinn, hvort hún vildi þá leyfa honum að giftast systur hennar eða hverri annari, sem honum þóknaðist.

"Nei".

Nú vandaðist málið. Það var einmitt þetta leyfi, sem þeir voru komnir til að sækja.

Presturinn fór nú að semja um sættir. Jón þagði og lagði alt mál sitt í hans forsjá.

En Sigurlaug sá það vel, að hér réð hún ein sættum. Ráð hennar hafði vel gefist.

Loks varð það að sættum, að Sigurlaug gæfi honum þetta leyfi gegn því, að hann sæi barninu fyrir uppeldi að öllu leyti, þar til það væri fært um að sjá um sig sjálft.

Jafnframt tók hún það fram, að hún vildi ekki vita barnið heima hjá systur sinni; hann yrði annaðhvort að gefa með því til hennar eða koma því fyrir á góðu heimili, þar sem því væri vel borgið.

Presturinn tók þetta að sér til samkomulags og tilnefndi stað langt burtu þaðan, sem Sigurlaug þekti af afspurn og gerði sig ánægða með. Hann tók líka á sjálfan sig ábyrgð á því, að Jón héldi sættina.

Með þessari sætt voru óskir Sigurlaugar uppfyltar. Hún krafðist einskis sjálfri sér til handa; það var framtíð barnsins, sem hún vildi tryggja. Og hún efaði ekki, að því mundi líða betur á góðu heimili en hjá henni.

Þessi sáttmáli var gerður skriflega. Jón skrifaði undir hann með skjálfandi hendi; Sigurlaug handsalaði prestinum nafn sitt, því að hún var ekki skrifandi. Vottar voru tilkvaddir, og auk þess skrifaði presturinn undir sem ábyrgðarmaður frá Jóns hendi.

Þegar þessu var lokið, setti að Sigurlaugu grát mikinn. Hún hafði beitt sjálfa sig hörku, meðan á samningunum stóð; nú gat hún ekki stilt sig lengur. Enginn hafði heyrt hana gráta jafnbeisklega. Það var sú tilhugsun að þurfa að slíta barnið sitt frá sér, sem féll henni þyngst.

- Presturinn tók barnið heim til sín nokkrum vikum seinna og hafði það hjá sér fyrsta árið, þar til því yrði komið þangað, sem því var ætlað fóstur. Við sama tækifæri var barnið skírt og hlaut nafnið Baldvin.

Eftir það sá Sigurlaug aldrei barn sitt.


Það var þessi Baldvin, sem nú var orðinn forsöngvari og "organisti" við kirkjuna, þar sem móðir hans hafði barist fyrir rétti hans og farsæld.

Hann hafði fengið gott uppeldi og aflað sér góðrar tilsagnar í list sinni. Nú átti hann heima hjá föður sínum. Hálfbróðir hans og systrungur var einnig hinn mannvænlegasti maður og því nær jafnaldri hans, og urðu þeir brátt mjög samrýndir.

- En líf Sigurlaugar var sem innibyrgt upp frá því hún kvaddi barn sitt. Engan geisla hamingju eða ánægju lagði þangað inn framar. Það varð kalt og kyrt eins og gröfin.

Það varð að gröf sorga hennar og minninga.

Hún varð þá aftur vinnukona og var það jafnan síðan, lengst af á sama heimilinu, - þar sem sagt var frá henni í byrjun sögunnar. Í vinnukonustöðunni hafði henni liðið best, og þess vegna valdi hún þá stöðu aftur.

Hún varð altaf meira og meira ómannblendin og sneiddi hjá öllum mönnum. Og eftir því, sem árin færðust yfir hana, varð einveruþráin annað eðli hennar.

Aldrei fór hún í kirkju framar, aldrei sást hún á mannamótum, aldrei talaði hún um raunir sínar við nokkra manneskju. Sjálf gleymdist hún svo að kalla öllum almenningi, og saga hennar hætti að vera umtalsefni.

Framan af spurði hún stöku sinnum um drenginn, og meðan presturinn lifði, kom hún til hans ofurlitlum peningasendingum árlega, sem áttu að fara til drengsins. Presturinn sendi það til húsbónda drengsins, og hann hélt því saman. Þegar Baldvin var upp komin, varð honum þetta drjúgur styrkur til að læra það, sem hann var hneigður fyrir.

Síðar hætti Sigurlaug þessu, og eftir það spurði hún aldrei um kaup.

Hún vann af ósjálfráðri þörf til að vinna, til að hafast eitthvað það að, sem dreifði hugsunum hennar. Þess vegna hneigðist hún helst að stritvinnu. Enda sýndu hendurnar á henni, að þeim hafði ekki verið hlíft.

Inni við fanst henni óheillafylgjur sínar, minningarnar, ganga úr gröfunum og sækja að henni. Þá hafði hún engan frið.

Þannig smáþroskaðist með árunum það ástand, sem fyr er lýst: - tilfinningarleysið fyrir eigin þörfum, en einstakur næmleiki fyrir skyldunni, - undarleg misskifting sálargáfnanna.

Loks kom að því, að hún hlaut það, sem hún lengi hafði þráð í kyrþey: hið eilífa algleymi.


Samfarir þeirra Jóns og Geirlaugar urðu hinar verstu. Það var farið að brydda á því áður en þau giftust, en þó hafði Geirlaug vit á að sitja á sér á meðan hjónabandið var að komast á. Úr því sá hún enga ástæðu til þess.

Jón var í raun og veru mesti geðprýðismaður og umbar lengi dutlunga hennar og ókosti. En svo má brýna deigt járn, að bíti. Jón bar harma sína í hljóði, en þegar hann var ölvaður, náðu þeir valdi yfir honum. Þá var úti um friðinn á heimilinu.

Ofdrykkja Jóns og ósamlyndi hjónanna fór hvorttveggja í vöxt. Eitt sinn kom það fyrir, að mótbýlismaðurinn varð til þess að bjarga Geirlaugu undan hnífnum. Jón ætlaði þá að drepa hana.

Þetta atvik notaði Geirlaug ósleitilega til að vinna bug á Jóni. Og jafnframt því sem vínnautnin veiklaði líkama hans, beygði sektarmeðvitundin sál hans og gerði hann smátt og smátt að síiðrandi syndara, hræddum og auðmjúkum, sem Geirlaug átti alls kostar við.

Ekki áttu þau fleiri börn á lífi en dreng þann, sem áður er á minst. Geirlaug drotnaði einvöld í sínum hluta kotsins og beitti valdinu ómjúklega, þar til Baldvin settist þar að og þeir bræðurnir og systrasynirnir gerðu stjórnarbyltingu á heimilinu. Þó hélt hún jafnan valdi sínu yfir Jóni.

- - - Þessi hópur stóð yfir moldum Siguriaugar; þar voru ekki heldur margir aðrir.

Geirlaugu hafði fundist það ósæmilegt að fylgja ekki systur sinni til grafar.

Presturinn hélt enga líkræðu. Enginn hafði beðið hann um það.

Geirlaug stóð og bændi sig, með hendurnar fyrir andlitinu, - en gaut augunum út um greiparnar við og við, til að sjá, hvað hinum liði.

Sorgarsvipurinn á andliti hennar var ekkert viðvaningsverk.

Jón Baldvinsson var hljóður og viðutan. Hugur hans reikaði meðal atburða löngu liðinna daga, þegar vilji hans var frjáls, þegar hann átti kost á að velja og hafna og verða sjálfur smiður hamingju sinnar. Slíkar stundir verða ekki endurteknar. Tveimur mannslífum hafði hann gerspilt, sínu og hennar. Hann laut fram yfir gröfina. Feginn hefði hann nú heldur viljað leggjast við hlið Sigurlaugar niðri í moldinni en fylgjast með Geirlaugu sinni heim í kotið. - En hann þorði ekki fyrir nokkurn mun að láta bera á tilfinningum sínum.

Baldvin var sá eini, sem syrgði. Hann var fölur sem nár, þegar hann byrjaði jarðarfararsálminn, og röddin skalf. Hann hafði aldrei fundið til þess fyr en nú, að hann ætti móður. Óljós söknuður greip hann og jafnframt meðvitundin um það, að hann hefði reynst þessum vesaling, sem nú var verið að jarða, ræktarlítill sonur.

Skjálftinn í röddinni ágerðist, og rauðir dílar komu fram á fölum kinnunum. Loks varð hann að hætta að syngja, og tárin streymdu ofan kinnarnar.

Hann vissi það ekki sjálfur, og fáir þeirra, sem við voru, að einmitt nú, þegar sorgin hafði strokið allan yfirlætissvip af andliti hans, kom það best í ljós, hversu mjög hann líktist móður sinni.




Netútgáfan - september 1999