HÆKKANDI  STJARNA


(1392 - 1405)


eftir Jón Trausta




FYRRI ÞÁTTUR: MILLI TVEGGJA HEIMA



1. kafli

"Haltu um höndina á mér, Dóra mín, þegar ég sef, - eða réttara sagt, þegar ég móka, - því að þetta er enginn svefn. Ó, ég er svo hrædd um, að ég deyi einhvern tíma í svefninum, - að ég sofni svo fast, að ég vakni aldrei aftur."

"Ég skal gera þetta, Stína mín. Ég skal sitja hjá þér og halda um höndina á þér, þegar þú sefur. En vertu nú ekki svona hrædd við það að deyja. Himnaríki stendur þér opið, ef þú deyrð. Þú ert ung og alsaklaus. Þú hefir verið hreinsuð af erfðasyndinni, og sjálf hefirðu enga synd drýgt. Heilagir englar eru yfir þér í vöku og svefni, og heilagir dýrlingar biðja fyrir þér hjá guði og guðs heilögu móður."

Stína hafði svo oft heyrt þessi sömu orð, að þau höfðu engin áhrif á hana lengur. "Ég vil lifa," mælti hún með dauðveikum rómi. "Elsku Dóra mín, biddu til guðs og helgra manna fyrir mér, að ég fái að lifa og mér megi batna."

Það þurfti ekki að áminna Halldóru um þetta. Hún gerði það daglega, gerði það svo að kalla í vöku og svefni. Með hverjum degi, sem leið, varð henni þessi dauðveiki og yfirgefni vesalingur kærari, og með hverjum degi bað hún heitara og innilegar fyrir því, að Kristínu mætti batna, og grét í hvert skipti, sem hún hugsaði til þess, að hún ætti að deyja. En hún hafði enga von um bænheyrslu, enga trú á því, að það væri svo mikið sem hugsanlegt, að óskir hennar yrðu uppfylltar. Jafnframt því, sem henni hafði verið falið að stunda Kristínu, hafði verið fyrir hana lagt að búa hana sem best undir dauðann, - leiða huga hennar frá þessu jarðneska lífi, sem hún átti hvort sem var ekki að fá að njóta, og beina honum inn í hið komanda líf. Þess vegna brýndi hún sí og æ fyrir Kristínu að óttast ekki dauðann, því að hún ætti góða heimvon.

Kristín var einkadóttir Björns riddara Einarssonar (Jórsalafara) og Solveigar Þorsteinsdóttur frá Urðum í Svarfaðardal. Hún var því ríkust og ættgöfugust allra kvenna á Íslandi, sonardóttir Grundar-Helgu og dótturdóttir Þorsteins hirðstjóra Eyjólfssonar, í allar ættir komin af konungum og stórhöfðingjum, - meira að segja af Ynglingum. Og hún var erfingi að lögum að einum þriðja hluta Vatnsfjarðarauðsins og Grundarauðsins í sameiningu. Margur hefði mátt ætla, að lífið brosti við slíkri heimasætu. En það var þó ekki lífið, heldur dauðinn, sem virtist liggja fram undan.

Í litlu loftherbergi í bænum í Vatnsfirði hafði verið búið um hana. Enginn umgekkst hana nema stúlkan, sem stundaði hana og var yfir henni svo að kalla dag og nótt, og heimilispresturinn, sem veitti henni síðustu þjónustu við og við, - bjó hana undir dauðann. Faðir hennar var sama sem aldrei heima, og móðir hennar kom mjög sjaldan til hennar, - bróðir hennar þó enn þá sjaldnar. Hvern dag var hún búin í rúminu eins og til brúðkaups. Hár hennar var greitt og borin í það dýrindis smyrsli. Ennisspöng úr skíru gulli var fest á höfuð henni. Guðvefjarslæða var lögð kringum höfuðið og látin bylgjast fagurlega út um koddann og sængina. Serkurinn var fannhvítur og gullsaumaður um hálsmál og handvegu. Hvílan var öll skrýdd og tjölduð eins og konungleg brúðarsæng. Hún var brúður, - brúður dauðans. Enginn vissi, hvenær hinn kaldi gestur mundi vitja hennar og taka hana í faðm sinn. En enginn efaðist um, að hann mundi koma, og það áður en langt liði.

Þegar Björn Einarsson var utan í þriðju ferð sinni, hafði hann - að dæmi annarra stórmenna - fundið stjörnumeistara og látið hann "stilla hóróskóp" barna sinna, sem bæði voru þá heima. Þau voru tvíburar, og hann gat sagt stjörnumeistaranum dag og stund, þegar þau fæddust. Stjörnumeistarinn reiknaði og reiknaði, vakti heilar nætur og rýndi og rýndi í hina bláu, leyndardómsfullu bók, sem breiðir sig út opna yfir höfðum okkar allra. Loks sagði hann, að annað barnið mundi deyja, áður en það næði fullum þroska, en hitt væri síhækkandi stjarna. Það mundi lifa lengi og af því mundi koma mikill ættbogi og margt ágætra manna.

Meira fékkst hann ekki til að segja. Allt annað en þetta var hjúpað órjúfanlegri þögn. Þennan spádóm skrifaði hann niður og staðfesti hann með innsigli sínu. Björn greiddi honum stórmannlega borgun fyrir ómakið. Og þegar hann kom heim úr þessari ferð, var Kristín dóttir hans orðin veik.

Hún hafði verið mesta efnisbarn allt fram yfir 10 ára aldur. Þá þyrmdi yfir hana með svo undarlegum hætti, að enginn þekkti sjúkdóm hennar. Hún varð máttvana, fékk við og við taugateygjur og þjáðist af svefnleysi. Lengi var svo, að af henni bráði, svo að hún gat verið á ferli, en brátt lagðist hún algerlega í rúmið.

Það var engum blöðum um það að fletta, að það var hún, sem spádómurinn átti við.

Eftir að hann varð kunnur heima, var hún talin sama sem dauð á heimilinu. Herbergi hennar var gröf, sem sólin skein þó enn þá inn í. Það lá afsíðis, langt frá öllum öðrum herbergjum, sem ætluð voru mönnum til bústaðar. Margsinnis dunaði hinn stórhýsti bær, höfðingjasetrið mikla og forna, af glaumi og gleðskap, en í kringum herbergi hennar var ætíð hljótt. Öllum öldum lífsins var vandlega bægt frá þessari heilögu gröf. Þeir, sem þangað áttu erindi, læddust á tánum og héldu niðri í sér andanum, til þess að trufla ekki síðustu værð hinnar dauðadæmdu heimasætu. Foreldrar hennar voru fyrir löngu búnir að sætta sig við dótturmissinn. Allir á heimilinu voru sannfærðir um forlög þessa fagra barns og búnir að leggja niður fyrir sér, hvernig þeir ættu að sýna henni sem mestan sóma og foreldrum hennar sem mesta hluttekningu. Aldrei var talað um annað við hana en dauðann og sæluna, sem hún ætti í vændum annars lífs. Flestir voru meira að segja samhuga um að óska, að þetta vesæla líf hennar mætti sem fyrst taka enda. Jafnvel foreldrar hennar voru farnir að þreytast á þessum endalausa drætti, sem varð á uppfyllingu stjörnuspádómsins. Þess vegna sinnti nú móðir hennar svo lítið um hana.

Kristín sjálf var eina manneskjan á heimilinu, sem ekki lagði trúnað á stjörnuspádóminn. Hún trúði því fastlega, að annaðhvort væri hann helber vitleysa eða þá að það í honum, sem spáði hamingju og langlífi, ætti við hana. Hún stóð alein uppi með þessa skoðun og fékk engu um þokað. Hún varð að hlusta með þolinmæði á allt þetta skraf um dauðann og una því að vera búin undir hann dags-daglega. Hún sá sér til mikillar sorgar, að þetta var orðin meira en trú manna, það var líka orðin ósk flestra. En hún hélt samt fast við sína skoðan. Hún vildi lifa og var einráðin í því að berjast gegn dauðanum af öllum mætti, þar til hún yrði yfirunnin.

Og allur hennar líkami tók sinn þátt í þessari baráttu. Hún óx og þroskaðist liggjandi í rúminu, var sælleg og holdug og kenndi sér einskis meins. Henni var skipað að liggja kyrri fyrir hvern mun, því að hún væri ólæknandi sjúk, og hún gerði ekkert annað en flýta sjálf fyrir dauða sínum með því að fara á fætur. Þessu trúði hún og bar alla mæðu hinnar löngu legu með frábærri þolinmæði. Hún kveið því mest, að dauðinn kynni að læðast að sér í svefni, svo að hún fengi ekki varið sig fyrir honum. Þetta varð orsök til þess, að hún þorði aldrei að sofna og hafði á sér stöðugan andvara. En einmitt svefnleysið hafði verið eitt af aðaleinkennum sjúkleika hennar. Nú varð þessi andvari, þessi stöðuga barátta hennar gegn svefninum - þessi hálfi svefn - annað eðli hennar, eða ef til vill aðalsjúkdómurinn. Þess vegna var hún máttlaus, blóðlaus og lystarlaus. Þess vegna var hún hvít og hörundsskær, eins og smábarn, svo að þó að hún væri holdug, voru vöðvarnir nærri því gagnsæir. Þess vegna lá hún iðulega í köldu svitabaði og fann til ósegjanlegrar þreytu, hvað lítið sem hún hreyfði sig í rúminu. Þess vegna dró af henni með degi hverjum, svo að nú varð ekki annað séð en stjörnuspádómurinn mundi rætast á hverri stundu.

"Dóra mín," mælti Kristín aftur með undur veikri röddu. "Ó, ég er svo hrædd um, að ég verði kviksett."

"Hvaða endemis vitleysa, barn! Hvernig getur þér dottið annað eins í hug?"

"Jú, ég er svo undur hrædd um þetta. Og ég kvíði svo undur mikið fyrir því. Hugsaðu þér, Dóra mín! Hugsaðu þér aðrar eins kvalir. Að liggja máttvana, stirð og köld og geta hvorki hreyft legg né lið, geta ekkert lífsmark gefið frá sér, og vera álitin dauð, - en vera glaðvakandi, við fulla meðvitund, og vita allt, sem við sig er gert, vita allt, sem sagt er og gert í kringum mann. - Elsku góða Dóra mín! Ég þoli ekki við, þegar ég hugsa um þetta."

"Hugsaðu ekki um það, góða Stína mín! - Gerðu það fyrir mig að hugsa aldrei um aðra eins fjarstæðu. Ég skal gæta þess, að þú verðir ekki grafin lifandi. Ég þekki og veit, hvernig þú getur legið tímunum saman, án þess hægt sé að vita, nema með stakri nákvæmni, að þú sért lifandi. Þú mátt reiða þig á það, að ég skal ekki líða nokkrum manni að hreyfa við þér, fyrr en alveg er víst, að þú sért skilin við. Treystirðu mér ekki til þess, elsku Stína mín?"

"Jú, Dóra mín, ég treysti þér. En ég er svo hrædd. Ég veit, að þú gerir allt svo vel, sem þú hefir vit á. En þér getur skjátlast, eins og öðrum manneskjum. - Og hugsaðu þér, ef ég vaknaði upp í gröfinni með alla þessa þungu mold ofan á mér. - - Elsku Dóra mín, ég er svo hrædd!"

"Þetta getur aldrei komið fyrir."

"Ég veit, að menn bíða þess með óþreyju, að ég deyi, - mamma og pabbi líka."

"Þetta máttu ekki segja, elsku Stína. Það er ljótt. Það er ljótt að hugsa annað eins um foreldra sína, - hvað þá heldur segja það."

"Þeim er vorkunn. Ég er búin að vera svo lengi veik. Það er von, að bæði þau og aðrir séu orðin þreytt á mér. Það er þreytandi manneskja, sem hvorki getur lifað né dáið. Er það ekki? - Þú ert orðin þreytt á mér líka, Dóra mín -."

"Nei, nei. - Langt frá!"

"Ég verð því ekki látin standa lengi uppi. - Menn flýta sér að hreinsa mig burt úr bænum eins og hvern annan óþverra, sem búinn er að vera þar allt of lengi."

Tárin runnu niður eftir barnslegum og fölum kinnunum. Halldóra gat ekki annað en farið að gráta með henni. Þegar þessi undarlegu óyndisköst komu að Kristínu, stóð hún jafnan ráðþrota. Hún var ekki fær um að tala um fyrir henni og sannfæra hana og hugga. Hún fann þennan vanmátt og grét yfir honum. Hún elskaði Kristínu svo innilega, að henni var ekkert þyngra en vita henni líða illa.

"En ég dey ekki, Dóra mín! - Ekki að þessu sinni. Ekki úr þessum sjúkdómi."

Þó að röddin væri veik, var í henni festa og afl, er hún sagði þetta. Og grátviprurnar á andlitinu urðu að föstum og einbeittum svip, nærri því myndugum.

"Ég læt dauðann aldrei taka mig - - ."

"Ósköp er að heyra, hvernig þú talar, elsku vina mín! Hvernig ættir þú að geta varist dauðanum, fremur en aðrar manneskjur? - Ef það er guðs vilji - - ."

"Hvers vegna ætti það að vera guðs vilji? - Hvers vegna hefir hann látið mig fæðast og komast fram á þennan aldur, ef ég á svo að deyja - áður en ég er eiginlega byrjuð að lifa? Nei, Dóra mín. Ég er sannfærð um, að ég á að lifa og mér á að batna, - hvað sem allir stjörnumeistarar í heiminum segja."

"Ég vildi, að guð gæfi, að ég gæti verið sannfærð um það sama," andvarpaði Halldóra, og tárin streymdu niður kinnarnar á henni. "En hugsaðu samt um lífið eins og það sé þegar á enda, og hugsaðu um sæluna og gleðina og dýrðina, sem þá tekur við. Það verða sungnar margar og heitar sálumessur fyrir sálu þinni; það mun pabbi þinn ekki láta spara. Þú kemur ekki við í hreinsunareldinum. Heilagir kerúbar bera þig á vængjum bænarinnar beint inn í dýrðina til guðs."

Halldóra fann sjálf huggun í orðum sínum; aldrei hafði hún hitt á háleitari og huggunarríkari orð. En á Kristínu virtust þau engin áhrif hafa.

Svipur hennar var orðinn glaðari og blíðari, og það var sem draumkenndar sælusýnir væru að fálma sig fram í huga hennar.

"Ég hugsa aldrei um sálumessur," mælti hún, "en ég hugsa því oftar um annan söng, enn þá yndislegri. Það eru brúðarljóðin. Ég heyri þau stundum sungin yfir mér í svefninum. Ég heyri stóru klukkurnar hringja einhvers staðar álengdar. Þær eru að kalla brúðina til vígslunnar. Sex smámeyjar ganga á eftir henni og halda uppi kápufaldi hennar. Á miðju kirkjugólfinu nemur hún staðar og leggur af sér allt sitt gull og silfur, áður en hún gengur innar. Inni í kórnum bíður brúðguminn hennar, maðurinn, sem hún elskar. Þau krjúpa bæði niður við gráturnar, fyrir framan krossinn helga, og taka aflausn synda sinna. Syndlaus og heilög eiga þau að ganga inn í hjónabandið, eins og hinir fyrstu foreldrar. Ilminn af brenndri myrru leggur fyrir vit þeirra, og hann boðar þeim, að nú séu þau sátt við guð, sátt við alla heilaga og sátt við allt á himni og jörðu; sælan og elskan og gleðin fylla þau, svo að þau svimar. Þau eru utan við sig af sælu, vita hvorki í þennan heim né annan, þegar presturinn lýsir blessun guðs yfir þeim. - Og þá hljómar brúðkaupsljóðið - - ."

Kristín lagði aftur augun meðan hún talaði, og svipur hennar skein af lífslöngun og gleði.

"Hugsaðu til þess, Dóra mín, hvað það væri sælt að eiga mann, - mann, sem elskaði mig og enga aðra. Ég er viss um, að ég á eftir að giftast, - kannske oftar en einu sinni. Mig dreymir alltaf tvo menn til skiptis. Ég hefi hvorugan þeirra séð, en nú þekki ég þá báða. - Nei, mig dreymir þá ekki, ég sé þá eins skýrt og ég sé þig. Þeir eru hvor öðrum ólíkir, en þeir elska mig, hvor í sínu lagi og hvor á sinn hátt. Ég er konan þeirra beggja og bíð eftir þeim í rúminu, þegar þeir eru ekki heima. Ég þrái þá með lífi og sál, eins heitt og nokkur kona getur þráð eiginmann sinn. En ég man aldrei eftir nema öðrum þeirra í einu í svefninum. Og svo koma þeir, - annar hvor þeirra. Þeir koma báðir á sama hátt að sænginni til mín. Hvor um sig veit, að ég þrái hann og bíð eftir honum, en hvorugur þeirra veit af hinum. Annar er ljóshærður, hinn dökkhærður. Annar er stór og karlmannlegur, líkur pabba. Hinn er mjúkvaxinn og fimlegur, líkur Þorleifi bróður mínum. Hvor þeirra, sem kemur, gengur beint að sænginni til mín, lýtur ofurhljótt ofan að mér til að kyssa mig. Ég læst sofa, þangað til varir okkar mætast. Þá er mér ómögulegt að dylja mig lengur. Kossinn brennur í öllum æðum mínum. Mig langar til að vefja handleggjunum utan um elskhugann og þrýsta honum ofan að mér með öllu afli mínu. Ég hreyfi handleggina, en þeir eru þungir eins og blý. Ég reyni samt að hreyfa þá, en við það hverfur sýnin. Þegar ég lýk upp augunum, finnst mér svipurinn líða burt frá sænginni eins og gufa. Þá liggur mér ætíð við að fara að gráta. - Hugsaðu til þess, Dóra mín, að finna nálægð elskhuga síns, finna hann koma til sín og kyssa sig, en vera svo máttvana, að geta ekki faðmað hann að sér og haldið honum í faðmi sínum. - Mig dreymir þetta oft, og ævinlega hugsa ég lengi um það á eftir. - Ég er viss um, að einhvern tíma rætist þessi draumur. Heldurðu það ekki líka, Dóra mín?"

"Þú ert búin að tala allt of mikið, elsku barn. Þú mátt ekki tala svona mikið í einu; þú þolir það ekki. Guð minn góður! Ef það skyldi nú flýta fyrir - -! Reyndu nú að sofna, elskan mín. Ég skal vaka hjá þér og halda um höndina á þér."

"Já, gerðu það, Dóra mín. En veistu það, að ég sef aldrei. Ég finn alltaf, að þú heldur um höndina á mér. Ég vakna undireins, ef þú sleppir henni. Svefninn minn er ekkert annað en leiðsla. Undireins og ég loka augunum, líð ég langt í burtu. Ég sé alla hluti eins og um hábjartan dag. Ég er búin að koma á alla þá staði í leiðslu, þar sem pabbi og mamma hafa komið á ferðum sínum. Einu sinni var ég á skipi innan um hafís. Þrjú önnur skip voru líka að basla við að komast gegnum ísinn. Ég sá blágræna jakana, mjallhvíta að ofan, vagga sér makindalega á hægri kvikunni, og sjóinn fullan af krapi á milli þeirra. Ég sá hundgæfa úthafsseli reka höfuðin upp úr sjónum og glápa stórum forvitnisaugum á skipið. Sumt voru kampamiklir rostungar með löngum höggtönnum. Sumir selirnir klifruðu eins og kettir upp á glerhála jakana. - Ég sá hvítt dýr, langt og loðið, með hrafnsvartar granir og lág eyru, ekki ósvipað gríðarstórum, rófulausum ketti, læðast með mjúkum skrefum um jakana, stinga sér í kaf stundum, koma upp aftur, klifra upp á ísinn, hrista af sér vatnið og vera þá skraufþurrt, eins og það hefði aldrei í sjóinn komið. Hvar sem það nálgaðist selina, hrukku þeir undan, eins og þeir sæju sjálfan óvininn. - Ég sá til lands. Það gnæfði gríðarhátt uppi yfir ísnum. Næst ströndinni voru snjóugir hamrar, með kolsvörtum eggjum upp úr fönnunum, himingnæfandi og hrikalegir. Á milli þeirra gengu fram helbláir jökulhamrar, - svo ferlegir, himinháir ísveggir, alveg þverhníptir, að enginn getur hugsað sér ægilegra. Á bak við þetta var síbreiða af fannhvítum jökli svo langt sem augað eygði, - endalaus, fannhvítur hryggur með öllum sjóndeildarhringnum, sléttur eins og hafsbrún, bjartur eins og nýstrokið lín. Sólin skein gegnum ískalda frostmóðu. Niður við sjóinn var allt óskýrt, loðið af óteljandi ísnálum; efra til fjallanna var allt skínandi bjart. - Loks komumst við öll í íslausan fjörð. Fagurgrænir dalir hurfu þar inn á milli jöklanna. Undarlegar mannkindur komu og tóku á móti skipinu. Á meðal þeirra voru nokkrir menn, sem við þekktum sem okkar eigin frændur. Þeir hrópuðu til okkar af fögnuði, þegar þeir sáu okkur - - - ."

"Elsku Kristín mín, þú mátt ekki tala svona mikið. Þú ert orðin allt of þreytt."

"Já, já. Þú segir það satt, góða Dóra mín. Nú skal ég hætta. En - ég veit alltaf á hverri stundu, hvar pabbi er, þegar hann er ekki heima. Ég veit alltaf, hvort hann er heima á bæjum eða hann er á ferð. Er það ekki undarlegt? - Ég þekki ekki staðina, sem ég sé, en ég sé þá eins skýrt og ég sé hérna um herbergið. - Ég kom meira að segja oft til hans, þegar hann var erlendis. Ég sá hann oft í stórum borgum innan um fjölda manns. Ó, ég sá þá svo margt, sem aldrei hefir borið fyrir mig í vökunni. Er það ekki undarlegt?"

"Jú, víst er það undarlegt. Þetta er sjúkdómurinn þinn, elskan mín. Þetta er óeðlilegt og kemur aldrei fyrir nokkurn heilbrigðan mann. Reyndu nú að sofna, Stína mín. Ég skal vaka hjá þér og halda um höndina á þér."

"Já, og halda um höndina á mér. Því máttu aldrei gleyma."

"Nei, það geri ég ekki. Það máttu reiða þig á."

"Heyrðu, Dóra mín. Er það sálin, sem er á þessu flakki?"

"Ég veit það ekki, elskan mín."

"Þegar ég sef - eða móka eða ligg í dái og leiðslu, eða hvað sem þið viljið kalla það, og ég er samtímis á þessu flakki út um allan heim, þá er ég alltaf svo hrædd um, að ég finni ekki rúmið mitt aftur, og svo verði líkami minn tekinn og lagður í gröfina, eins og ég væri dáin, einmitt meðan ég væri að flýta mér heim aftur. En meðan þú heldur um höndina á mér, er alltaf eitthvert samband á milli okkar, hvar sem ég er, og þá get ég ævinlega horfið heim á einu augabragði. Er ekki þetta undarlegt?"

"Jú, víst er það undarlegt. Reyndu nú að sofa, elskan mín."

"Kannske dauðinn sé þannig og ekki öðru vísi? Kannske sálin sé á stöðugu flakki meðal mannanna, leitandi að líkama, sem allur er fúnaður sundur niðri í moldinni? - Kannske hún sjái og heyri allt, sem mennirnir hugsa og hafast að, en geti með engu móti gert sig skiljanlega, af því hana vantar líkama, - alveg eins og þegar ég er einhvers staðar hjá pabba og hann veit ekkert af mér? - Kannske ég sé í raun og veru oft búin að deyja, þó að ég hafi enn þá alltaf náð til líkamans, áður en hann var orðinn með öllu óhæfur til bústaðar fyrir sál? - Hver veit -? Eitt er undarlegast. Ég sé aldrei nokkra veru á þessu flakki, sem ég gæti búist við að hitta í hinu lífinu. Ég sé lifandi fólk, en aldrei dautt fólk. Ég sé aldrei engla eða helga menn, aldrei guðs móður, - ekkert af því, sem mér er fyrirheitið, að ég skuli fá að sjá eftir dauðann. Ég er alltaf einsömul og vinalaus á þessu flakki. - Ó, elsku Dóra mín. Ég kvíði svo undur mikið fyrir því að deyja. Ég er viss um, að dauðinn er svona. Mér líður alltaf svo illa, þegar ég sé einhvern eiga bágt og ég get ekki hjálpað honum nokkra vitund eða huggað hann. Ég kvíði alltaf fyrir því í leiðslunni að verða of lengi burtu frá líkamanum, svo að hann verði grafinn, en ég dæmd til ævinlegrar leiðslu, - ævinlegrar aðgerðarleysisskoðunar á lífi, sem ég engan þátt get tekið í."

"Talaðu ekki svona mikið, elskan mín. Gerðu það fyrir mig að reyna nú heldur að sofna."

"Elsku Dóra mín. Ég er viss um, að meðan þú heldur um höndina á mér, getur dauðinn ekki tekið mig í svefninum."


2. kafli

Í svefnlofti einkadótturinnar var ekki um annað talað en dauðann. En alls staðar annars staðar í bænum, úti og inni við, var ekki um annað talað en lífið, - lífið, ástina og hinar fegurstu framtíðarvonir.

Hraðboði var kominn fyrir fám dögum frá húsbóndanum, sem þá var staddur norður í Eyjafirði. Hraðboðinn var léttfær, hafði ekki annað að bera en ofurlítinn samanvafinn bókfellsstranga með viðfestum vaxinnsiglum. En svo hafði verið fyrir hann lagt að flýta för sinni allt hvað af tæki, fara dagfari og náttfari, að svo miklu leyti sem hann gæti, og umfram allt að vernda þennan litla bókfellsstranga eins og sjáaldur auga síns, því að hann væri dýrmætari en það, sem sendimaðurinn gæti valdið af gulli.

Nú var þessi bókfellsstrangi kominn réttum viðtakendum í hendur, og hann hafði meiri og mikilsverðari tíðindi að færa en nokkur maður í Vatnsfirði mundi eftir.

Hann færði þær fréttir, að Björn riddari Einarsson hefði valið Þorleifi syni sínum kvonfang norður í Eyjafirði, og Þorleifur skyldi bregða við fljótt og koma norður með tólf sveina til föruneytis, til að drekka festarölið.

Meira stóð þar ekki. Orð og efni var sem skammtað úr hnefa. Konuefnið var ekki nefnt á nafn. Ekkert getið um, hverrar ættar hún væri eða hvar hún ætti heima, hvort hún væri rík eða fátæk, fríð eða ófríð, ung eða gömul, mey eða ekkja. Þess þurfti ekki. Svo mikið var traust Björns Einarssonar hjá vinum hans og vandamönnum, að enginn maður var í augnabliks efa um, að hann hefði valið einkasyni sínum það gjaforð, sem honum væri samboðið og hann mætti vel við una. Hann mundi ekki hafa haft annað í huga en tryggja svo framtíðarhamingju hans sem mannlegum mætti var framast unnt.

Málið skýrðist eftir því, sem meira var skrafað um það, þó að hljótt væri skrafað. Nú kom það upp, yfir hverju Björn riddari hafði búið, er hann lagði á stað í langferð þessa. Hann hafði ekki látið hug sinn uppi við neinn, ekki einu sinni við konu sína. En undarlega hagaði hann ferðum sínum að þessu sinni. Fyrst hafði hann farið suður í Breiðafjarðardali og þaðan suður á land, að heimsækja hirðstjórann og biskupinn í Skálholti. Þaðan hafði hann farið austur um héruð og loks alla leið norður í Eyjafjörð, þar sem hann átti stóreignir og þar sem flestir og göfugastir frændur hans bjuggu. Nú lá allt opið fyrir um erindi hans. Í þessari ferð kom hann í öll helstu héruð landsins, einnig þar, sem hann var annars fátíður gestur, og gisti höfðingja, sem hann annars hafði lítil önnur kynni af en hafa séð þá á alþingi. Nú sá hann ekki einungis þá sjálfa, heldur einnig vini þeirra og skyldulið. Þar sem slíkur höfðingi var á ferð með marga sveina, var mönnum hvarvetna safnað á móti til mannfagnaðar og veglegrar viðtöku. Það, sem héruðin áttu til af fegurð og blóma, stóð hvarvetna við götu hans og heilsaði honum sem ríkasta og göfugasta höfðingja landsins. Þar var tækifæri til að litast um eftir góðum kvenkosti. En Björn riddari var konuvandur einkasyni sínum til handa. Ekki hafði hann fundið þá, er honum líkaði, fyrr en hann kom norður í Eyjafjörð til frænda sinna. Þar voru menn fyrir af Oddaverjaættum, Sturlungaættum, Skarðverjaættum og öðrum ágætustu ættum landsins, menn, sem erft höfðu annað og meira frá feðrum sínum en jarðir og lausafé, þó að ekki skorti það heldur. - Og þar var konuefnið.

Hver var hún? - Hver var hún? - Hver gat hún verið?

Bókfellsblaðið, sem lá sundurvafið fyrir húsfreyjunni og syni hennar og einkaráðunautum, varðist allra frétta í þessu efni. Þar voru aðeins fá orð í fullri meiningu, föðurlega myndug tilkynning og fyrirskipun, með venjulegar fyrirbænir og á-hendur-falningar í upphafi og niðurlagi, en annars var þar engu orði ofaukið. Eitt var víst, að honum þótti mikils um vert, að för sonar síns væri stórmannleg og riddaraleg, þar sem hann lagði beinlínis fyrir hann að hafa tólf sveina til fylgdar. Af því mátti ráða, að aðstandendur brúðarefnisins væru engin smámenni, svo að jafnvel veitti ekki af að taka á því, sem til væri, ef keppa skyldi við þá í metnaði. Þar sem svo var búið að stórlyndi og risnu, þurfti ekki að efa, að eitthvað væri til að leggja til búsins með brúðinni. Hér var því um ríkt og göfugt kvonfang að ræða. Nærri mátti geta, að slík heimasæta væri upp alin í kvenlegum menntum og sæmilegum siðum. Höfðingjum gast ekki að því á þeirri öld, að aðrar konur stæðu dætrum þeirra framar í kunnáttu og kvenlegri prýði. Fyrir útlitinu þurfti enginn kvíðboga að bera, þar sem konan var eyfirsk; eyfirskar konur báru af öllum öðrum konum að fegurð og blóma. Mest var um vert, að hún væri stórhuga, sómavönd og skörungur í lund, því að hún átti að verða höfðingjakona og halda uppi sæmd og risnu á stórbúi, hvort sem maður hennar væri heima eða heiman, stjórna mörgu fólki og vera fær um að standa í mörgum stórræðum. Fyrir þessum hæfileikum kvenna hafði Björn Einarsson allra manna gleggst auga. Ef til vill voru það slíkir húsfreyjuhæfileikar, sem hann hafði nú verið að leita að um land allt, samfara öðrum kostum, og loks fundið meðal frænda sinna í Eyjafirði. - Nei, hvernig sem málið var athugað, þurfti ekki að efa það, að Björn hefði valið vel. Konuefnið, sem Þorleifi var fastnað, var áreiðanlega besti kvenkostur landsins.

Þess vegna var boðskapurinn dýrmætari en það, sem sendimaðurinn hefði getað valdið af gulli. Auðvitað var ekki hægt að binda einkamálin fullum fastmælum, fyrr en hægt væri að leggja saman hendur hjónaefnanna sjálfra. Skiljanlegt var, að giftingarmenn slíkrar konu vildu ekki láta hafa sig að ginningarfífli, því að ekki mundi skortur á öðrum biðlum. Meira að segja höfðingi eins og Björn Einarsson varð að láta sér lynda að setja frestinn til fullra og órjúfanlegra festa svo stuttan sem framast var unnt. Þess vegna var fyrir Þorleif lagt að bregða við fljótt og ríða norður. Þetta hafði líka verið undirbúið þegar um haustið, því að Björn hafði svo fyrir lagt, áður en hann fór að heiman, að reiðhestar þeirra Vatnsfirðinga skyldu vera í eldi yfir á Langadalsströnd, svo að þeir væru heiðunum nær, ef fljótlega þyrfti til þeirra að taka. Sparaðist þá langur og erfiður krókur með því að fara sjóveg yfir Djúpið að Melgraseyri og taka þar hestana.

- Hver skyldi hún vera?

Það var fyrir löngu orðið hljóðbært í bænum í Vatnsfirði, hver tíðindi sendimaður Björns riddara hefði haft að færa, og allt heimafólkið stundi upp sömu spurningunni, án þess nokkur hefði von um að geta fengið henni svarað.

Forvitnin greip fólkið eins og næm hitasótt, bæði kvenfólkið og karlmennina. Þeir, sem kunnugir voru norður í héruðum, voru spurðir og spurðir, hver þeim þætti líklegust, - hvort þeir gætu ekki rennt grun í eða farið nærri um, hver sú útvalda mundi vera, - þessi hamingjusama manneskja, sem verða ætti framtíðarhúsfreyjan í Vatnsfirði. Og víst var ekki sparað að geta.

Þeir menn, sem ráðnir voru til fararinnar með Þorleifi, gátu varla á heilum sér tekið fyrir tilhlökkun. Það var sem ættu þeir sjálfir að ganga til brúðkaups. Fyrst var nú það, að vegsauki var talinn að förinni: Til fylgis "Vestfjarða-prinsinum" voru ekki aðrir valdir en fegurstu og hraustustu menn, á líku reki og hann sjálfur. Þeir áttu að fá að ríða í þéttum flokki, vel búnir að vopnum og klæðum, og þurftu ekkert annað að gera en þjóna honum og prýða för hans. Þeir áttu í vændum, að tekið væri á móti þeim sem höfðingjum, hvar sem þeir kæmu, og hvarvetna yrði þeim fagnað með gleðskap og veisluhöldum, dansi og drykkju með ungum og fögrum stúlkum. Og það, sem ekki var minnst um vert: Þeir áttu að fá að vita hið mikla leyndarmál á undan öllum öðrum, - hver hún væri.

Þorleifur riddaraefni var unglingur um tvítugt og hafði verið alinn upp í taumlausu eftirlæti og fullum skilningi á, hve mjög hann bæri af öðrum mönnum bæði að ættgöfgi og auðæfum. Allt hafði verið gert, sem hægt var, til að kenna honum vopnaburð og allar riddaralegar íþróttir, sem höfðingja máttu sæma, en annars fékk hann að mestu að lifa og láta eins og hann vildi. Þetta bar þann árangur, að hann varð snemma glæsimenni að vexti og limaburði, en þótti jafnframt ódæll og óvarfærinn, svo að hann taldi sér og sveinum sínum, - sem honum voru fengnir til fylgis og leikbræðralags, - hvað eina leyfilegt. Gekk þá oft skrautgirni hans og yfirgangur langt úr hófi fram og kom hart niður á mörgum saklausum. Var hann því almennt illa þokkaður af nábúum sínum. Báðu margir honum óbæna og spáðu honum því, að hroka hans væri hætt við falli. Þegar faðir hans var heima, hélt hann honum nokkuð í skefjum, en hann var sjaldan heima, og fékk þá riddaraefnið að leika lausum hala, því að fyrir móður sinni fór hann allra ferða sinna. Var ekki laust við, að margir kviðu því, er hann væri setstur að fullum ráðum í Vatnsfirði, óttuðust, að þar mundi oft verða agasamt og hann mundi reynast harður í kröfum og ágengur, enda mundi honum lítt á fé haldast. Aðrir báru von í brjósti um, að hann mundi stillast, er aldur færðist yfir hann, og margt gott þá koma fram í honum, eins og hann átti kyn til. Miklu skipti það og, hverja konu hann fengi og hver áhrif hún hefði á hann. Sjálfsagt hefir þetta engum manni verið ljósara en föður hans, og því var honum svo ríkt áhugamál að velja syni sínum sem best kvonfang og láta hann sem fyrst staðfesta ráð sitt. Nú flaug sú frétt út með Djúpinu á báðum löndum, að leggja ætti "oflátunginn frá Vatnsfirði" í hina gullnu hlekki og byrja að temja hann, þó að seint væri. Engum var þetta harmur. Meyjunum við Djúpið ekki heldur, því að engin þeirra hafði þorað að horfa svo hátt.

Fréttin að norðan kom yfir Þorleif eins og þruma úr heiðskíru lofti. Hún gerði hann hæglátan og hugsandi, - taman eins og lamb, í samanburði við það, sem hann var vanur að vera. Hann hafði alls ekki hugsað út í, að æskuleikar hans væru svo fljótt á enda. Honum lá spurningin þyngst á hjarta, hver hin útvalda væri, enda varðaði hann það mest af öllum. Hann hafði ekkert hugsað um það enn að staðfesta ráð sitt, en ekki kom honum nú annað til hugar en fylgja ráðum föður síns.

Síðan sendimaðurinn kom, gekk hann daga og nætur sem í sælum draumi og reyndi að gera sér hugmyndir um hina verðandi unnustu, - ríka, göfuga, vel mannaða og auðvitað fagra. Aðra stundina var hann gagntekinn af þeirri framtíðarhamingju, sem hans góði og ástríki faðir bjó honum; hina stundina var sem hann kviði fyrir því að láta nú frelsi sitt og æskugleði. Þessar tilfinningar skiptu honum svo á milli sín, að hann fékk hvorki notið svefns né matar og var varla mönnum sinnandi. Móðir hans og aðrir urðu að ganga að því að útbúa förina; hann gat ekkert fyrir henni hugsað.

Loks hafði þó sælutilfinningin sigrað til fullnustu, og Þorleifur hlakkaði allra manna mest til norðurfararinnar, - eins og líka var að vænta. Síðasta daginn, áður en leggja skyldi á stað, fékk hann varla við sig ráðið fyrir áhuga og ákafa.

Eitt var það, sem lengi hafði í kyrrþey dregið úr gleði þessa gæfusama unglings, þó að fáir yrðu þess varir. Honum var kunnugt um stjörnuspádóm þann, sem faðir hans hafði haft heim með sér úr síðustu utanför. Og þó að hann væri marga stund sannfærður um, eins og allir aðrir, að hrakspáin ætti við systur hans, fór því fjarri, að svo væri alltaf. Marga stund vaknaði efinn eins og nagandi ormur. Vel gat farið svo, þó að Kristín væri veik nú, að henni gæti batnað, en einhver óhamingja komið aftur fyrir hann. Hann var ekki úr allri hættu fyrir spádóminum, fyrr en hann hafði náð fullum þroska, sem enn vantaði mikið á. Hann gat ekki um þetta við nokkurn mann. - Nú, þegar hann átti að fara að giftast og elska og verða hamingjusamur, kom þessi efagirni enn á ný til að spýta eitri inn í hugsanir hans og sæludrauma. En nú var honum lífið kærara en nokkru sinni áður. Og löngunin til lífsins fæddi af sér trúna á gengi þess og eyddi efanum. Þegar hann nú jafnframt heyrði, að systur hans væri óðum að þyngja, sannfærðist hann betur og betur um það, að hið góða í spádóminum ætti við sig. - Hann væri hin síhækkandi stjarna. - -

Þegar allt var tilbúið, gekk Þorleifur til dyngju móður sinnar til að kveðja hana.

Hann var í skarlatsrauðum kyrtli og hafði yfir sér feld bláan, sem fóðraður var með hvítabjarnarskinni. Að neðan var hann í mjúkum skinnhosum, sem löguðu sig eftir öllum liðamótum. Skórnir voru úr leðri og bundnir með fannhvítum þvengjum, sem vafðir voru upp um kálfana og loks bundnir fyrir neðan hnén. Silfurdrifnir sporar voru spenntir á hælana. Beltið var búið gullnum skjöldum, gerðum af hinum mesta hagleik, og hékk við það hnífur í skeiðum, sem einnig var hin mesta gersemi. Sverðfetillinn lá upp um hægri öxlina og á ská niður um herðarnar og bringuna, undir feldinum. Hann var úr rósofnu klæði. Voru ofnar í hann myndir af skógardýrum á harðaspretti og veiðimönnum, sem eltu þau. Hvítir veiðifálkar renndu sér fram í bláu heiði yfir dýramyndunum. Sagt var, að þennan sverðfetil hefði Grundar-Helga lært að gera suður í París, er hún fór þangað með Birni syni sínum, og gefið honum hann. Sverðið hékk við fetilinn á vinstri hlið. Var það gamall erfðagripur úr ætt Oddaverja og fagurlega búið. Hjálm hafði hann á höfði. Lá dreki með þanda vængi eftir mön hjálmsins og gapti allgrimmilega uppi yfir miðju enninu. Niður undan hjálminum liðaðist hárið, ljósjarpt og mjúkt sem silki. Um báða úlfliði hafði hann gilda hringa og gullbaug á hverjum fingri. Í slíkum búningi var Þorleifur hinn fegursti og drengilegasti. Hann var rjóður í kinnum og bjartur yfirlitum, andlitið fagurskapað og augun blá og björt. Varirnar voru blóðrauðar, hæfilega þykkar og féllu fagurlega saman. Ekki var honum enn vaxin grön. Líktist hann því öllu fremur skjaldmey en riddara.

Móðir hans stóð upp á móti honum og heilsaði honum blíðlega:

"Ertu nú ferðbúinn að öllu, elsku barnið mitt?"

"Já, ég á ekkert eftir nema kveðja."

Solveig virti hann fyrir sér um stund og dáðist að því, hve fagur hann væri og glæsilegur. Aldrei hafði hann verið henni jafnkær sem nú. Aldrei hafði hún fundið til jafnmikillar gleði sem nú yfir því að eiga slíkan son. Hún gekk til hans og ætlaði að leggja hendurnar um háls honum, en hætti við það og strauk höndum um brjóst hans og axlir, eins og til þess að slétta úr hrukkum á fötunum.

"Og þú ert ekki í pansara undir kyrtlinum, elsku barnið mitt. Hvers vegna gerirðu það?"

"Mér þykir hann of þungur og stirður, nú, er leggja skal í sjóferð, og of kaldur nú í vetrarkuldanum. En hann er með í förinni, og allir menn mínir eru harðstakkaðir undir kyrtlum."

"Vertu í honum sem oftast, barnið mitt. Treystu aldrei neinum manni of vel, ekki sveinum þínum heldur. Ein eldsnör hnífstunga í bakið eða brjóstið getur kostað lífið, þótt annars staðar á líkamanum verði hún aðeins að lítilli skeinu. Og sárið segir ekki frá, hver það greiðir. Gleymdu því ekki, að margir hata þig, því að marga hefirðu hart leikið, þótt enn sértu ungur, og marga hefir faðir þinn einnig hart leikið. Niðjar sumra þeirra eru nú sveinar þínir. Og gleymdu því ekki, að þótt ekkert væri til saka, öfunda þig margir af auðlegð þinni og yfirburðum, og ef til vill ekki síst af hamingju þeirri, er nú bíður þín. Hafðu það að ráðum móður þinnar að vera jafnan vakandi gegn svikráðum og illsku mannanna, sem svo margar sárar minningar hefir eftir látið í ættum okkar."

"Ég skal ekki gleyma því, elsku mamma."

"Ég veit, að þú ert góður og saklaus enn þá, þrátt fyrir öll æskubrekin. Hlýddu nú á ráð móður þinnar: Biddu nú hvern mann fyrirgefningar á öllu því, sem þú kannt að hafa misgert við hann, um leið og þú kveður hann. Það er engin minnkun að biðja aðra menn fyrirgefningar, jafnvel þó smælingjar séu; það hafa mestu menn heimsins iðulega gert. Auðmýkt er fagur förunautur riddaralegrar hreysti og hugprýði. Gakktu svo að lokum til kirkju og krjúptu á kné framan við líkneski hins blessaða Ólafs konungs, verndara okkar allra. Hann bað hvern mann í liði sínu fyrirgefningar, áður en hann lagði til orustunnar á Stiklastöðum. Taktu þér dýrðardæmi hans til fyrirmyndar. Með hreinum hug og hreinni samvisku, sáttur að fullu við guð og menn, ber hverjum manni að byrja svo mikilsverða ferð sem þín er nú. Biddu svo hinn heilaga Ólaf að leggja blessun sína yfir þig og biðja fyrir þér hjá guði sjálfum. Ég skal jafnan láta tvö kerti loga fyrir líkneski hans og önnur tvö fyrir líkneski heilagrar guðs móður, meðan þú ert í burtu. Og ég skal jafnan minnast þín í bænum mínum."

"Þakka þér fyrir, elsku mamma. Það er vel gert, því að ég gleymi oft sjálfur bænrækninni."

"Hafðu rósinkransinn minn með þér, elsku barn. Ég þarf hans ekki. Ég kann allar bænir mínar og man þær í réttri röð án hans. Hann er fögur prýði á riddarabúningi þínum. Krossinn heilagi er fegursta og dýrmætasta prýði hvers riddara."

Að svo mæltu tók Solveig tvíbrotinn rósinkrans af hálsi sér, með viðfestum silfurkrossi, og festi hann um háls syni sínum. Þorleifur lét hana gera þetta að vilja sínum, þó að hann hefði engar sérlegar mætur á þessum helgidómum og væri henni engan veginn samdóma um prýði krossins á hinum glæsilega riddarabúningi.

"Ætlar þú ekki að koma ofan að sjó með okkur, mamma, og sjá okkur leggja frá landi?"

"Nei, barnið mitt. Ég ætla að láta mér nægja að sjá til ykkar héðan að heiman, þegar þið haldið út fjörðinn. Er ekki gott sjóveður?"

"Jú, og afbragðsleiði. Beggja skauta byr þvert norður yfir Djúpið."

"Það er gott. Farið þið samt varlega."

"Illa væri mér í ætt skotið, ef ég væri hræddur á sjó í slíku veðri," mælti Þorleifur og hló við. "Pabbi hefir þrívegis siglt skipum sínum suður í lönd, en ég skyldi ekki þora við fimmtánda mann þvert yfir Ísafjarðardjúp."

"Ætlið þið á stóra skipinu?"

"Hvers vegna skyldum við fara að moka það bákn upp úr snjónum og safna mönnum til að setja það fram? - Nei, við förum auðvitað á litlu fleytunni. Hún er meira en nægilega stór til að bera okkur alla og það, sem við höfum meðferðis. Og henni geta tveir menn hæglega róið heim aftur."

"Jæja, barnið mitt. Þú þekkir þetta allt saman betur en ég."

"Já, móðir mín. Við höfum vit fyrir okkur."

"Heyrðu, elskan mín. Ætlarðu ekki að kveðja veslings systur þína, áður en þú ferð? Hugsaðu til þess, að þú sérð hana kannske aldrei framar, - og jafnvel sennilegast að svo verði."

"Jú, nú ætla ég upp í herbergið til hennar."

"Kveddu hana undur vel, og biddu hana fyrirgefningar, eins og alla aðra."

"Já, mamma. - Svo kem ég ofan til þín og kyssi þig að skilnaði."


3. kafli

Halldóra hafði rétt að mæla. Kristín hafði talað meira en hún var maður til. Eftir samtal þeirra seig á hana eitthvert undarlegt mók, sem engu líktist fremur en sjálfum dauðanum. Hún lá sem lík, ísköld á höndum og fótum, þó að æðardúnssængur væru allt í kringum hana, og stöm af köldum svita. Löngum stundum saman gat Halldóra ekki fundið, hvort lífæðin sló í úlfliði hennar eða hvort hún enn drægi andann.

Heimilispresturinn kom að vitja hennar. Það var hæglátur og alvarlegur maður, á efra aldri. Hann vitjaði Kristínar daglega, ekki svo mjög til að knýja út úr henni skriftir og syndajátningar, heldur til að mæla henni einhver huggunar- og vonarorð, biðja hana að bera böl sitt með þolinmæði og hugsa til þess, að því meira sem hún liði hérna megin, því alsælli yrði hún hinum megin. Í þetta skipti gat hann sparað sér allar slíkar áminningar. Kristín virtist enga minnstu hugmynd hafa um það, sem hann sagði. Hann lét sér því nægja að leggja hendur yfir hana og biðja í hennar nafni langrar bænar á latínu.

Þegar hann var að enda við bænina, var hurðin opnuð hægt, og Þorleifur, bróðir Kristínar, kom inn í herbergið. Hann fór ekki lengra að sinni en aðeins inn fyrir dyrnar. Þar stóð hann og beið meðan presturinn lauk bæninni og gerði krossmarkið yfir systur hans.

"Er hún dáin?" spurði Þorleifur undur hljótt.

"Ekki enn þá," svaraði presturinn um leið og hann sneri frá sænginni.

"Hvernig líður henni?"

"Ég veit það ekki. Hún getur víst ekkert sagt."

"Heldurðu, pater, að hún sé komin að dauða?"

"Það veit enginn nema guð. En fyrir manna sjónum er ekki líklegt, að hún lifi til morguns.

Að svo mæltu gekk presturinn út úr herberginu.

Við þessi síðustu orð prestsins dó út síðasti neistinn af efasemd í brjósti Þorleifs um það, að hann væri sá, er stjörnumeistarinn hafði spáð svo mikilli hamingju. En dýrkeypt var sú hamingja, er hún skyldi óhjákvæmilega þurfa að kosta líf einkasystur hans. Hann stóð um stund sem steini lostinn, og það lá við, að hann færi að biðja guð í huganum að skipta þessari fyrirheitnu, jarðnesku hamingju ofurlítið jafnar milli þeirra systkinanna. Honum gat ekki annað en runnið til rifja að sjá systur sína liggja þarna fyrir dauðans dyrum, nú er hann sveif sjálfur fyrir fullum seglum í opinn faðm hinnar fyrirheitnu hamingju.

Halldóra hafði heyrt, hvað presturinn sagði, um leið og hann fór út. Það svipti hana síðustu voninni. Síðustu stundirnar hafði hún ekkert gert annað en gráta og biðja til guðs og heilagra manna. Nú var sem hin sorglega vissa færði henni styrk og rósemi. Nú var ekki nema eitt eftir, sem hún gat gert: að vaka trúlega yfir Kristínu og halda um höndina á henni, eins og hún hafði beðið hana að gera, meðan nokkur minnsti vafi gæti verið á því, að hún væri fyrir fullt og allt skilin við lífið. Þó að hún væri fyrir löngu orðin þreytt af vökunum, ásetti hún sér hjartanlega að gera þetta, hversu lengi sem á því þyrfti að halda.

Herbergi Kristínar var ólíkt öðrum mannabústöðum. Það var líkast kirkjustúku, eða jafnvel grafstúku. Allt hafði verið borið þangað inn, sem minnti á dauðann, friðþæginguna og upprisuna, jafnvel úr sjálfri kirkjunni. Á veggnum hjá rúmi hennar hékk mynd af Kristi krossfestum. Myndin var skorin út í tré og máluð. Hún var hvort tveggja í einu, fögur og átakanleg. Höfuðið þyrnikrýnda hékk niður á brjóstið vinstra megin. Andlitið var afmyndað af kvölum. Blóðlækirnir undan þyrnibroddunum runnu niður um ennið, og undir augunum voru hálfþornuð tár. Handleggir og fótleggir voru teygðir svo, að allir vöðvar stóðu á þönum. Járngaddar voru reknir gegnum lófana og ristarnar, og sást á myndinni, hvernig beinin gliðnuðu sundur fyrir göddunum. Blóðið streymdi úr naglaförunum ofan um líkamann. Á hægri síðunni var gapandi sár með blóðfossi niður úr. Gagnvart þessari mynd var mynd af upprisunni. Þar stóð Kristur í hvítum klæðum, með merkisstöng í hendinni, bjartur og mildur yfirlitum, og steig ofan á hálsinn á einhverju ferlíki, sem minnti bæði á hund og mann; það var óvinur sálnanna. Í kringum Kristsmyndina var geislabaugur, og lagði alla geislana út frá honum sjálfum. Þeir virtust speglast í glyrnunum á kölska, sem lá þar gapandi af skelfingu og yfirunninn. Sú mynd megnaði lítið að hrinda áhrifum hinnar fyrri, sem gerð var með meiri trúleik og af meiri listarþroska. Aðrar myndir voru þar af píslarvætti helgra manna. Maríu með Jesú-barnið á arminum, o.s. frv. Allt hafði þetta verið borið inn í herbergi hinnar sjúku stúlku til að "hugga" hana og "glæða trú hennar", eða réttara sagt til að sætta hana við hugsunina um dauðann, sem beið hennar, og snúa huga hennar frá sorgum og fallvaltleik þessa einskis verða jarðlífs. Og til þess að árétta þetta allt saman, hafði verið látin hauskúpa upp úr kirkjugarðinum inn á borðið við rúmið hennar. Það var gert, þegar beygja þurfti harðsvíraðan veraldarhug undir vald og afl dauðans og kenna honum að horfa burtu frá heiminum, auðæfum hans og lystisemdum, og festa augun á því háleita og eilífa. Kristín hafði hljóðað upp yfir sig af skelfingu í fyrsta skipti, er hún sá þessa nýju sendingu. En henni var talin trú um, að þetta væri "heilagt symból", sem guð léti bera fyrir augu allra manna, svo að þeir gleymdu ekki fánýti þessa jarðneska blóma og minntust þess jafnan, að föðurland þeirra væri á himnum. Sælir væru þeir, sem aldrei misstu sjónar á þessu tákni dauðans og tortímingarinnar. Þessi hauskúpa starði nú holum augnatóftunum - ekki á Kristínu, sem virtist skilin við þennan synduga heim, þennan eymdar- og táradal, heldur á riddaraefnið glæsilega, sem stóð frammi við dyrnar, búinn til að hefja bónorðsför sína til efnuðustu og ágætustu stúlku landsins, með fyrirfram tryggðum árangri, - þennan unga mann, rjóða, fagra og blómlega, sem ljómaði af hamingjuþrá og lífslöngun, afli, fjöri og sjálfstrausti. Það var sem hauskúpan hvessti á hann tómar augnatóftirnar og væri að reyna að minna hann á, hve fallvölt væri hamingja heimsins og hvað að lokum yrði eftir af blóma alls holds.

Riddaraefninu leið ekki vel þessa litlu stund, sem hann stóð við þar inni og horfði á systur sína, sem lá köld og föl í mjallhvítri sænginni gagnvart honum. Það var sem einhver dauðagustur andaði á móti honum og læddist inn í meðvitund hans. Hann horfði hvorki á hauskúpuna né hinar hryggilegu myndir, en hann sá þær samt eins og út undan sér. Hryggilegasta myndin var systir hans sjálf. Og hann var ekki gerður svo af steini, að slík sjón hefði engin áhrif á hann.

"Sefur hún?" spurði hann Halldóru ofurlágt.

"Sefur - eða mókir, eða liggur í einhvers konar dvala eða dái. Ég veit það ekki. Svefninn hennar er aldrei öðru vísi en þetta."

Þorleifur færði sig nær rúminu, til að kyssa hana að skilnaði í svefninum.

Í því opnaði Kristín augun.

"Ég veit, að þú ert að fara og hvert þú ert að fara," mælti hún svo lágt, að varla heyrðist. "Það var fallega gert af þér að koma hingað og kveðja mig."

"Trúirðu því enn, elsku systir mín, að þú munir lifa mig?" mælti hann og reyndi að gera sig glaðlegan við hana, eins og hann væri að reyna að halda áfram einhverju gömlu efni, sem þau hefðu þráttað um sín á milli í gamni.

Kristín svaraði hægt og alvarlega og án þess að nokkur keimur af styggð eða angri væri í röddinni:

"Því hefi ég trúað til þessa, en nú má guð vita, hvort við eigum að sjást aftur."

Þorleifur hafði ekki búist við slíkri festu og ró í svarinu. Hann skildi það svo, að nú væri systir hans búin fyrir fullt og allt að yfirvinna allan ótta við dauðann og horfði jafnvel framan í hann sem kæran vin og lausnara. Hann gat engu orði upp komið. Hann laut ofan að systur sinni til að kyssa hana, og augu hans fylltust af tárum.

"Vertu sæll, elsku bróðir minn! Hver, sem kjör mín verða, óska ég þér alls góðs og ann þér með gleði þeirrar hamingju, sem - líklega - bíður þín."

Að svo mæltu vafði hún handleggjunum um háls bróður síns og þrýsti honum ofan að brjósti sér með meira afli en vænta hefði mátt af henni. Þorleifur skildi, að þetta var skilnaðarkoss hennar. Hún var nú loks sannfærð um það, að hann ætti að lifa og hún að deyja. Og hún tók sínu hlutskipti með hetjulegu jafnaðargeði.

Hann losaði sig bráðlega úr faðmlögum hennar og flýtti sér út úr herberginu.

"Ég heyrði allt, sem þið sögðuð í kringum mig," mælti Kristín við Halldóru, þegar hann var farinn. "En ég var sem fjötruð í rúminu. Mér var ómögulegt að hreyfa legg né lið, fyrr en bróðir minn kom að rúminu til mín. Þá var eins og fjötrarnir féllu af mér."

Hún þagði litla stund og bætti síðan við:

"Ég heyrði líka það, sem presturinn sagði um leið og hann fór út. - Ég er búin að heyra eitthvað þvílíkt svo oft, að það er fyrir löngu hætt að hrella mig. Ég missi ekki lífsvonina fyrir því. Þeir lifa oft lengst, sem með orðum eru deyddir."

- - Dagur var að kvöldi kominn, þegar Þorleifur og félagar hans voru loks tilbúnir. Þetta var um miðjan vetur og dagarnir stuttir. Eina bótin, að ekki var löng dagleið fyrir höndum þennan daginn, ekki lengra en þvert yfir Djúpið, að Melgraseyri.

Sunnanhláka hafði verið um daginn og nokkra daga að undanförnu. Skriðurnar í fjöllunum norðan við Djúpið voru farnar að blána, og hamrabeltin voru aðeins með hvítum rákum.

Í Vatnsfirði var lygnt, og stóð þar fram af. Svartar vindkyljur þutu eftir sjónum út eftir firðinum og hurfu í sortann úti fyrir. Ægilegir þokukúfar þöktu allan efri hluta fjallanna.

Beggja megin við múla þann, er Vatnsfjörður er framan í, stóð sinn rokstrengurinn út úr hvorum höfuðfirðinum, Mjóafirði og Ísafirði. Úti í Djúpinu runnu þeir saman. Þar þyrlaðist sjórinn saman í krappt öldurót, sem beljandi og freyðandi barst upp að norðurströnd Djúpsins. Heiman úr Vatnsfirði var ekkert að sjá annað en byr og blíðviðri.

Í rökkrinu lagði flokkurinn á stað úr bænum. - Þrettán vopnaðir og vel tygjaðir langferðamenn, og tveir menn aðrir, sem flytja áttu ferjuna heim aftur.

Skildir blikuðu og atgeirsoddar skinu. Sunnanvindurinn feykti til fögrum feldum og blés fellingar á dýr litklæði. Kæti og gáski var í hópnum. Hinir ungu menn stukku þúfu af þúfu og renndu sér fótskriðu á glerhálum svellunum ofan eftir túninu. Þeir réðu sér varla fyrir gleði.

Enginn var þó kátari og glaðari en formaður fararinnar, Þorleifur riddaraefni. Áhrifin, sem hann hafði orðið fyrir í herbergi systur sinnar, voru ekki lengi að viðrast af honum, er hann kom út. Hann söng við raust og hoppaði og kunni sér varla læti fyrir gleði, því að nú var hann að dansa frá ósköpum hins örlagaþrungna stjörnuspádóms í faðm "hinnar fyrirheitnu hamingju".

Hópurinn hljóp og stökk með gáska og glaumi fram að sjónum.

En í dyrunum heima stóð Solveig Þorsteinsdóttir og sveipaði að sér kápunni. Hún starði og starði á eftir hópnum, og oft fylltust augu hennar af tárum. Hún starði þangað til hún sá seglið koma upp og nærri því samstundis hverfa út í dökkvann yfir Djúpinu.


4. kafli

Hljótt var í bænum eftir brottför þeirra Þorleifs og manna hans, - óvanalega hljótt. Það voru mikil viðbrigði, er 15 ungir menn, sem daglega höfðu fyllt bæinn með glaumi og gleði, hurfu svo skyndilega. Og það var sem allt fólkið, er heima var eftir, sárþarfnaðist hvíldarinnar eftir allt það umstang, sem undirbúningur fararinnar hafði haft í för með sér. Nú var sem næturkyrrðin hefði fallið yfir bæinn löngu fyrr en venjulegt var.

Í herbergi Kristínar var þögnin dýpri og átakanlegri en nokkurs staðar annars staðar. Þar var hálfdimmt. Kertisljós, sem logaði á borðinu, blakti svo til af dragsúg frá glugganum, að það bráðnaði mestallt niður, án þess að bera nokkra verulega birtu. Halldóra var sem bundin við rúm hinnar sjúku stúlku og mátti ekki sleppa hendi hennar, því að það hafði hún beðið hana svo innilega um að gera ekki. Hún kom auga á margt, sem gera þurfti, meðal annars að hagræða ljósinu og taka af því skarið, en náði ekki til þess frá rúminu. Það var sem stæði hún á milli tveggja ljósa, sem bæði blöktu á bláskarinu, annað í rúminu, hitt á borðinu. Hún gat ekki sinnt nema öðru þeirra, um hitt varð að fara eins og fara vildi.

Hún var ekki viss um, hvort Kristín lægi í sínu vanalega dauðamóki eða væri þegar dáin. Höndin, sem hún hélt um, var köld og stöm og máttvana, eins og hún hafði oft verið síðustu dagana, en hún var ekki stirð og stirðnaði ekki. Hún fann engin æðaslög, sá brjóst hinnar sjúku ekkert bærast, og var oft í vafa um, hvort hún drægi enn þá andann. Hún sat hjá henni með stakri trúmennsku og hélt um höndina á henni, vakti með dæmalausri þolinmæði og beið eftir einhverri breytingu, vonlaus um það með öllu, að sú breyting yrði til nokkurra bóta, þegar hún kæmi. Hún var meira að segja ekki fyllilega viss um, hvort hún héldi í höndina á lifandi manneskju eða líki.

Kristín hafði sagt, að hún væri hræddust um það af öllu, að hún yrði grafin lifandi. Síðan Halldóra hafði heyrt hana segja þetta, gat hún varla um annað hugsað. Ef Kristín yrði grafin lifandi, væri það engri manneskju meira að kenna en henni. Hún efaðist nú ekki um það lengur, að Kristín yrði grafin. En hún lét augun hvarfla frá einni dýrlingamyndinni til annarrar, meira að segja til frelsarans sjálfs, sem hékk á krossinum, og bað þær allar í sameiningu og hverja í sínu lagi, - bað þær grátandi - að afstýra þeirri skelfingu, að Kristín yrði grafin lifandi.

Úti var hlákustormurinn, og tungl óð í skýjum. Þegar dró fyrir það, var koldimmt; þegar frá því svipti, bar birtan að utan kertisglætuna ofurliði. Stöku sinnum tók vindurinn svo fast á, að hrikti í húsunum, og þegar élin komu, var sem harðar húðir væru dregnar yfir bæinn. Veðurdunurnar voru einu hljóðin, sem rufu þögnina í þessari lifandi manna gröf. Halldóra hlustaði á þær heldur en ekkert og reyndi að halda sér vakandi við þær. Annars fannst henni á hverri stundu sem svefninn mundi sigra sig og hún mundi velta út af við hliðina á Kristínu - eða líki hennar.

Hvað tímanum leið, vissi hún ekkert. Stundirnar voru óendanlega lengi að líða. Eftir hljóðleikanum í bænum að dæma, hlaut að vera komið fram í vökulok og allir að vera háttaðir.

Þá var það, að hún varð þess vör, að undarlegir kippir liðu um líkama Kristínar. Skelfingin, sem greip Halldóru, gerði hana glaðvakandi að nýju. Hún var sannfærð um, að nú væri Kristín að taka andvörpin.

Kippirnir héldu áfram nokkra stund. Það var sem væri hún að stríða við að vakna, en gæti það ekki - eða stríða við að deyja og gæti það ekki. Halldóra kraup niður við sængurstokkinn, yfirkomin af angist og kvíða. Hún var að berjast við sjálfa sig um það, hvort ekki væri réttast, að hún sleppti hendi Kristínar, til þess að hún gæti dáið. - Ef til vill var það eitt til fyrirstöðu.

En áður en hún framkvæmdi það, lauk Kristín upp augunum.

Hún reis upp til hálfs í rúminu og var auðsjáanlega ekki með fullu ráði. Hún skimaði allt í kringum sig, eins og til að átta sig á því, hvar hún væri.

Þetta hafði hún aldrei gert áður, að minnsta kosti ekki nú um langan tíma. Sú skelfilega hugsun greip Halldóru, að nú bættust nýjar hörmungar ofan á allar hinar fyrri: Kristín væri orðin vitskert.

Hún hljóðaði upp yfir sig af skelfingu og bað Kristínu í einhverju dauðans ofboði að vera rólega og leggja sig aftur niður.

Kristín hlýddi henni, en var þó enn ókyrr, eins og hún væri varla sjálfráð. Hjarta hennar barðist ákaft, og allur líkami hennar titraði eins og laufblað. Það leyndi sér ekki, að hún hafði vaknað upp frá ákafri hræðslu.

Smám saman sefaðist hún þó, hjartslátturinn minnkaði og taugatitringurinn fór dvínandi. Og nú dró hún andann þungt og reglulega. Svitinn, sem nú spratt út um hana, var ekki heldur hinn sami, kaldi dauðasviti, sem verið hafði að undanförnu. Hann var samfari lífs og hita. Það var sem blóðið brytist í stórum bylgjum um allar æðar hinnar sjúku stúlku. Hörund hennar roðnaði og augun fengu nýjan ljóma. Höndin, sem Halldóra hélt um, var ekki lengur hönd á líki, heldur líktist hún hönd á nýfæddu barni, sem dregið hefir að sér lífsloftið í fyrsta sinni.

Halldóra var enn ekki búin að ná sér eftir þá geðshræringu, sem hana hafði gripið. Hún vissi ekki, hverju hún mátti trúa um Kristínu: Var þetta dauðinn, sem var að koma með svona undarlegum hætti? - eða var það lífið og - vitfirringin?

Hún þorði ekki að yrða á Kristínu. En eftir litla stund yrti Kristín á hana.

"Nú er Þorleifur bróðir minn dáinn," mælti hún.

"Hvers vegna segirðu þetta, elsku barn?" spurði Halldóra forviða. "Ertu að tala óráð?"

En Kristín hélt fast við sitt.

"Þorleifur bróðir minn er dáinn," mælti hún hvað eftir annað. Halldóra var enn í efa um, hvort hún talaði þetta af fullri skynsemi.

"Þeir eru allir dauðir," bætti hún við. "Hann var sá síðasti."

"Hvers vegna segirðu þetta?" mælti Halldóra. "Hvernig veistu þetta?"

"Þér er óhætt að trúa mér, Dóra mín. Ég segi þér satt."

"Hvernig veistu þetta, elsku Stína mín? - Hefir þig dreymt, - eða ertu ekki með fullu viti?"

"Ég er með öllu því viti, sem ég hefi nokkurn tíma haft. Ég er vakandi og veit vel, hvað ég segi."

"Hvernig veistu þetta?"

Kristín hafði horft fram undan sér og eins og út í bláinn, á meðan hún hélt fram þessari undarlegu staðhæfingu. Nú sneri hún sér að Halldóru og horfði framan í hana, róleg og óttalaus, eins og hún átti að sér á bestu stundum veikinda sinna. Þar var enga truflun að sjá, ekkert, sem vott bæri um skort fullrar skynsemi.

"Ef ég á að segja þér þetta, Dóra mín," mælti hún, "þá verðurðu að lofa mér því að segja engri lifandi manneskju frá því, - láta það vera heilagt leyndarmál, sem fylgir þér í gröfina. Ég vil ekki láta fólki það eftir til að henda því á milli sín og hlæja að því sem hverju öðru rugli. Ég segi engri manneskju frá þessu, nema þér, og ef nokkur verður þess nokkurn tíma áskynja, þá verður það eftir þér. Viltu lofa mér þessu?"

"Já, Stína mín. Og þú mátt reiða þig á það loforð."

"Viltu gefa mér hönd þína upp á það?"

"Já, með gleði."

Kristín hugsaði sig enn um nokkra stund, eins og hún væri að gera sér hugsanir sínar skýrar og leita þeim að orðum. Síðan mælti hún:

"Ég veit ekki, hvort ég hefi verið lífs eða liðin í þessum síðasta höfga. Mér er þó nær að halda, að ég hafi verið skilin við. Sástu nokkur merki þess, Dóra mín, að ég væri lifandi?"

"Þau voru að minnsta kosti lítil. Ég var alltaf í vafa um það, hvort þú værir enn með lífi."

"Þakka þér fyrir það, Dóra mín, að þú slepptir aldrei hendinni á mér meðan á þessu stóð. Líklega hefði það kostað mig lífið. - Líklega hefðum við systkinin þá dáið bæði sömu nóttina. Og það hefði vesalings mamma ekki afborið. Ég skal muna þér þetta einhvern tíma seinna."

"Það þarftu ekki að hugsa um, Stína mín. Mér er það meira en nægileg gleði, ef ég hefi getað orðið þér að einhverju liði."

"Við skulum ekki tala um það að þessu sinni. Ég ætlaði að segja þér frá, hvað fyrir mig hefir borið síðustu stundirnar. - Aldrei hefi ég lifað undarlegri stundir. - Lifað, segi ég. Guð veit, hvernig því lífi hefir verið háttað. Ég sá allt, sem skeði, eins skýrt og það væri um hábjartan dag. Þar var ekkert, sem glapti mig, - ekkert náttmyrkur heldur. - Ég sá bátinn, þegar þeir lögðu frá landi hérna við lendinguna. - Ég sá það undireins, að hann var ofhlaðinn, - fimmtán menn og mikill farangur á jafnlítilli kænu. - Ó, mig langaði svo til þess að geta gert þeim þetta skiljanlegt, en gat það með engu móti. Þannig er líklega dauðinn. Maður sér og heyrir allt, en getur ekki talað við neinn, sem lifandi er. - Þegar þeir komu út í veðramótin á Djúpinu, þar sem stormstrengirnir út úr báðum fjörðunum mættust, fór undireins að gefa á hjá þeim. Allir, sem að því komust, urðu að standa í austri. Þorleifur bróðir minn sat við stýrið og stýrði fimlega undan öldunum, en það var ógerningur; þær voru svo krappar og komu sín úr hverri áttinni. Þeir höfðu allt seglið uppi og reyndu að láta bátinn vaða fram úr kvikunni, beittu honum sem best undan veðrinu, í þeirri von að ná einhvers staðar landi á norðurströndinni. En ekkert stoðaði. Veðrið harðnaði og sjórinn versnaði eftir því sem norðar kom í Djúpið. Loks fyllti með öllu og bátnum hvolfdi. Ég horfði á, þegar seglið seig í kaf, og heyrði angistarópin í mönnunum, sem skoluðust út í sjóinn. Sumir gripu dauðahaldi í eitthvað í bátnum og urðu svo innan í honum, þegar honum velti yfir um. - Engum skaut upp nema Þorleifi bróður mínum og mönnunum, sem áttu að fara með bátinn heim aftur. Allir hinir voru í brynjum og sukku eins og steinar. Annar maðurinn náði í bátinn og hangir þar enn, þó að hann sé nú liðið lík. En Þorleifur bróðir minn reyndi að synda til lands. Hann synti og synti og barðist um í sjórótinu með dæmalausri karlmennsku. Sverðið sitt losaði hann við sig á sundinu og allt annað, sem hann fékk með nokkru móti við sig losað. Bjarnarfeldurinn hans feyktist um öldurnar eins og sjávarfroða. - Loks náði hann upp í sker, sem var skammt undan landi. Þá var hann kominn svo að þrotum, að hann gat með engu móti komist lengra. Förukona gekk eftir fjörunni og ætlaði heim að Melgraseyri til gistingar. Hann sá hana og reyndi að kalla til hennar og gefa henni bendingu. Hún sá hann líka, en varð hrædd, hélt, að hún sæi sjóskrímsli, og tók til fótanna allt hvað hún orkaði. Hann reyndi enn að hrópa á eftir henni, en það var árangurslaust. Veðrið og sjórinn höfðu miklu hærra. - - Hugsaðu til þess, Halldóra mín, hvílíka hugarkvöl ég hefi liðið, að horfa uppá þetta allt saman, - horfa upp á bróður minn deyjandi og geta ekkert bjargað honum, ekki einu sinni verið honum til neinnar huggunar. Ég heyrði hann biðja fyrir sér hástöfum, þegar hann sá, að öll von var úti. Ég heyrði hann nefna pabba og mömmu á nafn og biðja þau grátandi að fyrirgefa sér allt, sem hann hefði illa gert. Ég heyrði hann andvarpa nafn mitt og biðja mig að fyrirgefa sér og biðja fyrir sér. - Ég heyrði hann gráta hástöfum af iðrun yfir minningunum um æskubrek sín og ákalla guð og menn um að fyrirgefa sér þau. Ég sá máttinn draga smám saman af honum og vissi, að hann var að dauða kominn. Ó, mig langaði svo undur mikið til að bjarga honum. Ég hafði enga ró. Ég þaut eins og hvirfilvindur, - ég vissi ekki hvert, til að reyna að leita honum einhverrar hjálpar. Ég var utan við mig af skelfingu. En jafnan kom ég til hans aftur; hvert sem ég þaut, gat ég með engu móti slitnað frá þessari hörmulegu sjón, að horfa upp á dauðastríð hans. Loks held ég, að hann hafi komið auga á mig, - en það var rétt um leið og hann gaf upp andann. - - Þá missti ég sjónar af honum - og fann um leið, að þú hélst um höndina á mér."

Kristín þagnaði og andvarpaði. Halldóra horfði þegjandi á hana, og þó að henni væri þetta allt saman óskiljanlegt, var hún ekki í minnsta vafa um, að Kristín segði hvert orð satt, að þetta hefði allt saman borið fyrir hana í svefninum eða leiðslunni. Hún lagði engan trúnað á það, að allt hefði gengið til, eins og Kristín sagði frá; hún vonaði fastlega, að þetta væri eins og aðrir marklausir draumórar; til allrar hamingju væri ekki von svo skelfilegra tíðinda. Hún lét þó ekki hug sinn uppi við Kristínu, því að hún sá, að hún trúði því hiklaust, að hún hefði séð allan þennan sorglega sannleika heiman úr hvílu sinni, og bráðum mundi þetta allt fá fulla staðfestingu. Það undraði hana mest af öllu, að aldrei hafði hún séð Kristínu jafnhraustlega og nú.

"Nú er ég viss um, að mér batnar, Dóra mín," mælti Kristín eftir nokkra þögn.

"Ég vildi, að guð gæfi, að svo yrði," andvarpaði Halldóra.

"Já, Dóra mín. Þú hefir lengi beðið fyrir því, að mér mætti batna. Nú færð þú bænheyrslu. Ég finn það á mér, að nú er batinn kominn yfir mig. Aldrei hefi ég fundið til slíkrar vellíðunar sem nú, síðan hjartslátturinn eftir skelfingarnar, sem fyrir mig höfðu borið, fór að jafna sig. Mér finnst ég vera á fáeinum augnablikum orðin allt önnur manneskja."

Halldóra horfði fast á hana og varð að viðurkenna, að þetta var satt.

"Heyrðu, Dóra mín," mælti Kristín og tók innilega um höndina á henni. "Nú er stjörnuspádómurinn leyndardómsfulli fram kominn, - hann er fram kominn öðru vísi en nokkurn mann grunaði, eins og allir aðrir spádómar. - Enginn skilur þá fyrr en eftir á. Ef til vill hefir stjörnuspekingurinn séð meira en hann sagði pabba frá, en talið hann hafa best af því að vita ekki meira. Hann sagði, að annað barnið mundi deyja áður en það næði fullum þroska. Hann sagði ekki, hvort barnið það væri eða hvernig þetta mundi atvikast. Hvorugt okkar Þorleifs hafði náð fullum þroska. - En engan mann grunaði, að hann - svo hraustur og fríður og efnilegur - mundi verða skammlífur. Allir héldu auðvitað, að það væri ég. Nú er sköpum skipt, Dóra mín. Hann er fallinn fyrir aldur fram. Og nú er það ég, sem spádómurinn á við. Ég - er "hin síhækkandi stjarna"."

"Ég er þreytt, Dóra mín, og nú langar mig til að sofna aftur. - En nú þarftu ekki að halda lengur um höndina á mér meðan ég sef. Nú er mér óhætt fyrir dauðanum. Nú læðist hann ekki að mér í svefninum - fyrst um sinn."

Halldóra sat hjá Kristínu enn um stund, eftir að hún var sofnuð, og gladdi sig við það, hve jafnt og rólega hún andaði í svefninum, - svo algerlega ólíkt því, sem áður hafði verið.


5. kafli

Daginn eftir sat Solveig húsfreyja í dyngju sinni og var harmþrungin mjög. Heimilispresturinn var þar hjá henni og reyndi að hugga hana og tala um fyrir henni.

Það voru komnar svo skýrar fregnir af slysinu, að ekki var um að villast.

Lík Þorleifs riddaraefnis var fundið í skeri skammt frá Melgraseyri. Förukona hafði komið þangað í rökkrinu. - Hún hafði séð undarlega sýn í skerinu, er hún fór þar fram hjá, en orðið hrædd og ekki þorað að líta við til sjá betur, hvað það væri. Og hún hafði ekki haft orð á þessu fyrr en komið var fram undir vökulok. Þá var undireins róið út í skerið, og fannst Þorleifur þar andaður.

Bátinn hafði rekið upp úti á Snæfjallaströnd, og hafði hann brotnað í spón í lendingunni. Eitt lík hafði rekið upp með honum, sem líklega hafði hangið í honum.

Bjarnarfeldur Þorleifs fannst einnig rekinn.

Annað en þetta vissi enginn maður um afdrif bátsins og þeirra fimmtán manna, er á honum voru.

Halldóru voru sagðar fréttirnar, eins og öðrum, jafnóðum og þær komu. Henni einni kom ekkert af þessu á óvart. En hún þagði vandlega og lét ekkert á sér merkja.

Kristín svaf enn. Aldrei hafði hún sofið jafnlengi og jafnrótt eins og þennan morgun. Heimilispresturinn hafði komið snöggvast inn til hennar, til að segja henni sorgartíðindin, ef hún skyldi hafa svo mikla rænu, að hún gæti hlýtt á þau. En þegar hann sá, hve vært hún svaf, lét hann hana njóta svefnsins, en varaði aðeins Halldóru við að segja henni nokkuð, þó að hún vaknaði.

Tíðindin voru þung fyrir fleiri en Solveigu. Allur bærinn bjó yfir gráti og kveinstöfum. Margir hinna ungu manna höfðu átt unnustur meðal þjónustukvennanna, sem enginn vissi af fyrr en nú, er þær fengu ekki dulið sig fyrir harmi út af missi þeirra. Aðrir áttu systur á heimilinu, og einn átti þar gamla og lasburða móður. Ekki mundi sorgin verða minni, er fréttin bærist heim á heimili þeirra af mönnum þessum, sem utan bæjar áttu heima - og þeir voru flestir - heim til foreldra þeirra og systkina. Öll Ísafjarðarsýsla mundi stynja af sorg yfir þessu hörmulega slysi. Það er hverri sýslu á Íslandi ofraun að missa fimmtán efnilegustu syni sína á einum degi.

Solveig húsfreyja var svo yfirkomin af harmi, að hún fékk varla afborið. Orð hins gamla og alvarlega vinar hennar og skriftaföður megnuðu lítið gegn slíkum ofurharmi. Hún grét að vísu ekki ákaft; hún reyndi eftir megni að stilla sig um það. En það var sem hjarta hennar mundi springa.

"Guðs vegir eru órannsakanlegir," mælti heimilispresturinn hægt og alvarlega. "Þið höfðuð valið syni ykkar besta hlutskiptið, sem þið höfðuð vit á. En hann hefir valið honum enn betra hlutskipti. Það er fagurt að deyja í broddi lífsins, - deyja ungur og óspilltur, hverfa úr morgunroða lífsins inn í dýrðarljóma eilífðarinnar, með barnslega, hreina samvisku og hjartað fullt af hamingjuvonum, - sem ef til vill hefðu aldrei átt að rætast. Heiðnir spekingar fundu þetta löngu fyrir daga kristninnar. Manstu eftir sögunni um tvíburana grísku? Þeir höfðu unnið lárviðarsveiginn við ólympisku leikana og voru taldir allra sveina sælastir. Samt voru þeir svo auðmjúkir, að þeir gengu sjálfir fyrir vagni móður sinnar til hofsins, þar sem hún færði þakkarfórnina. Móðir þeirra bað þá gyðjuna að gefa þeim að launum fyrir hreysti þeirra og sonarlega ástúð það hlutskipti, sem hún vissi, að þeim væri fyrir bestu, - betra en hún fengi sjálf óskað. Gyðjan lét þá sofna - og vakna aldrei aftur. - Besta hlutskiptið er ekki ætíð lífið, heldur dauðinn. Hann, sem sér bæði út yfir lífið og dauðann, sér það einnig, hvað hverjum og einum er fyrir bestu. Það er sagt að fornu, að sá, sem guðirnir elski, deyi ungur. - Guð hefir elskað son þinn, - og hans vegir eru órannsakanlegir."

Húsfreyjan leit hvasst á þennan gamla og trúa vin sinn og mælti fast og hiklaust, þó að röddin titraði af ekka og tárin hryndu eins og högl af augum hennar:

"Guðs vegir eru ekki órannsakanlegir, pater. Þú segir mér nú sem oftar það fallegasta, sem þú kannt, til að hugga mig í sorg minni, en þú segir mér ekki sannleikann. Þú trúir ekki sjálfur því, sem þú segir, og þess vegna eru orð þín innantóm og áhrifalaus. - Í þetta skipti eru guðs vegir ekki órannsakanlegir. Þú sérð tilgang hans, en þorir ekki að kannast við það fyrir mér. Þess þarf ekki. Ég sé hann líka sjálf. - Guð hefir lagt hönd sína á okkur hjónin til að auðmýkja okkur. Við höfum troðið vilja hans og boð undir fótum, og enginn hefir haft einurð á að segja okkur það, ekki skriftafaðir okkar heldur. Þorleifur heitinn var ekki alinn upp eins og vera bar. Við höfðum allt of mikið dálæti á honum. Honum var veitt það uppeldi, sem var langt umfram stöðu hans og efni. Hann var ekki bóndasonur, heldur prins. Minna var ekki að nefna en að hann yrði hirðstjóri yfir öllu Íslandi, riddari af aðli og handgenginn maður konungsins. - Hann var vaninn á það frá blautu barnsbeini, að allt lifandi skriði fyrir honum, smjaðraði fyrir honum og þóknaðist honum í öllu, og loks urðum við foreldrar hans að lúta höfði fyrir honum. Veslings systur hans var - mér liggur við að segja fórnað hans vegna. Hún hefir verið látin liggja vanhirt, og dauðanum í alls konar myndum stöðugt haldið fyrir augunum á henni. Enginn unglingur er svo góður að upplagi, að hann spillist ekki við slíkt uppeldi. Og Þorleifur minn var ekki eins saklaus og þú segir mér nú. Hann var mér góður, en hann mat að litlu ráð mín. Og hann var ekki öllum nágrönnum sínum góður. Enginn hafði hreinlyndi til að segja okkur foreldrum hans af æskubrekum hans, en við heyrðum kurrið og ískrið allt í kringum okkur. Björn riddari heyrði það líka, þó að hann væri enn þá meira blindaður af dálætinu á syni sínum en ég. Þetta er yfirsjónin, sem guð er nú að minna mig á, og þess vegna er gráturinn mér svo þungur. Við höfum öll saman lifað í lygum og táli, og aðrir hafa haldið þessum lygum við með ótal nýjum lygum, margfölsuðum og flæktum svikaljóma. Ef til vill hlakka nú allir menn kringum Ísafjarðardjúp yfir óförum okkar. Ef til vill sjá allir, nema við sjálf, hve makleg og verðskulduð þessi refsing er. Ef til vill þykir mönnum til vinnandi að láta fjórtán unga og röska menn til að losna við þessa landplágu, sem við ólum upp. Þetta er sannleikurinn, pater. Hann er beiskur, en ég þori þó að horfa beint í augun á honum, og Björn skal einnig sjá hann, er hann kemur heim. Honum verður sorgin þung, þyngri en mér, því að hann elskaði Þorleif um alla hluti fram og byggði allar framtíðarvonir sínar á honum. Öldruðum mönnum er hætta búin, er heimar þeirra hrynja svo skyndilega, og þá er hætt við, að þeir hrynji saman með þeim og verði að engu. Því verðum við að verja Björn riddara, pater. Ég - og þú átt að hjálpa mér til þess. En ljós skal sorgin verða honum út úr villunni og lífslygunum. Guð skal ekki leggja hönd sína á okkur til einskis."

Presturinn ætlaði að svara henni einhverju, en var truflaður áður en hann fengi byrjað. - Dyrunum var lokið hægt upp, og í gættinni stóð kvenmaður í skósíðum línkyrtli, hvítum, með gullspöng um ennið og brúðarslæðu yfir hárinu.

Solveig húsfreyja æpti upp yfir sig af ofboði. Hún hélt, að hún sæi vofu dóttur sinnar.

Kristín trítlaði á berum fótunum eldskjótt inn eftir gólfinu, féll á kné fyrir framan móður sína og lagði höfuðið í kjöltu hennar.

"Ég er orðin heilbrigð, elsku mamma!" mælti hún.

"Guð minn góður!" andvarpaði Solveig. "Hvað kemur til að þú gerir þetta? Ertu búin að missa vitið?"

"Ég er orðin heilbrigð, elsku mamma. - Ég vaknaði upp með andfælum í nótt eða gærkveldi, - ég vissi ekki, hvenær það var, vaknaði upp frá vondum draumum og fékk ákafan hjartslátt. Og upp úr honum batnaði mér allt í einu. - Ég veit ekki hvernig, en mér batnaði allt í einu. Ég sofnaði undur vært á eftir og hefi sofið síðan. Svefninn hefir styrkt mig, og ég kann mér ekki læti af gleði yfir því, hvað mér líður vel."

"Elsku barnið mitt. - Og ég, sem hélt, að ég hefði misst þig líka."

"Ég sá þetta á augabragði, þegar ég kom inn í svefnherbergi Kristínar áðan," mælti heimilispresturinn. "Hún svaf þá öðru vísi en hún hefir sofið áður. Mig grunaði þá, hvað gerst hafði, en taldi of snemmt að tala um það að sinni. - Nú sér þú, húsfreyja, hvort ég sagði ekki satt áðan. Vegir guðs eru órannsakanlegir. Hann hefir svipt þig syni þínum, en gefið þér aftur dóttur þína, sem enginn maður hugði líf í gærkveldi."

Að svo mæltu stóð hann á fætur og gekk út úr dyngjunni.

Þær mæðgurnar voru þar einsamlar eftir. - Solveig faðmaði að sér dóttur sína og gat um hríð engu orði upp komið. Loks mælti hún:

"Veistu, elskan mín, hvað komið hefir fyrir?"

"Já, elsku mamma mín. - Ég veit það allt saman."

"Hvernig veistu það? Hver hefir sagt þér það?"

Það kom hik á Kristínu. Hún horfði framan í móður sína um stund, áður en hún svaraði.

"Síðan ég vaknaði í morgun, hefi ég ekki heyrt annað en grát og kveinstafi. Halldóra var ekki inni hjá mér, þegar ég vaknaði, og hurðin á herberginu mínu stóð opin í hálfa gátt. Skammt frá mér hafði einhver leitað einverunnar til að gráta. Ó, mamma, ég hefi aldrei á ævi minni heyrt jafnsáran ekka. Lengra burtu heyrði ég einnig grátið í kyrrþey, og enn lengra burtu heyrði ég talað með grátstaf. Þá vissi ég, hvað hlaut að hafa komið fyrir. Ég þaut upp úr rúminu, til þess að vita, hvernig þér liði. Og á leiðinni hingað sagði vinnufólkið mér í flýti alla söguna."

Solveig lét sér þessa skýringu nægja og spurði einskis frekar um þetta efni.

"En að þú skyldir þora að hlaupa svona upp úr rúminu, elsku barn?"

"Það, sem ég heyrði, fékk svo mikið á mig, að ég réð mér ekki. Ég gleymdi sjálfri mér, - gleymdi því, að ég væri veik eða hefði nokkurn tíma verið veik. Ég gat ekki um neitt hugsað annað en þig. Ég mátti til að koma til þín og vita, hvernig þér liði."

"Elsku barnið mitt, guð gefi, að þú hafir ekki illt af því."

"Ég finn ekkert til, mamma. Ég er alveg heilbrigð. - Ofurlítið máttfarin og reikandi á fótunum. Ég tel það ekki. Það hverfur, þegar ég fer að verða meira á flakki."

"Það mundi verða mér þyngra en ég gæti borið, ef ég missti þig líka, - einkum nú, er mér finnst sem guð hafi gefið mér þig aftur."

"Gerðu þér engar sorgir út af því, elsku mamma. Nú á ég að lifa og verða þér til aðstoðar. - Mundu eftir því, að nú er stjörnuspádómurinn kominn fram. - Hann var ekki vitleysa. Nú er það ég, sem hann hefir spáð hamingju og velgengni."

"Mér til aðstoðar!" andvarpaði Solveig raunalega. "Mér veitir ekki af mikilli aðstoð. Það er mikið og þungt verk, sem fyrir okkur liggur, elskan mín, meira verk en mannlegir kraftar sýnast færir um að leysa af hendi. - Þú heyrðir grátinn og kveinstafina í bænum. En það er ekki þessi bær einn, sem nú byrgir grát og kveinstafi. Margir við Ísafjarðardjúp hafa nú um sárt að binda. Og í hverju ekka-andvarpi, hverri sorgarstunu, er Vatnsfjarðar minnst með hatri og heift og brennandi kröfu um skaðabætur. "Það lá að, að loks hefðist einhver bölvun af þessu skrautgjarna, óstýriláta riddaraefni, sem alinn var upp í svo hóflausri frekju," segja menn. Hver manneskja, sem við mætum héðan af, krefur okkur fullra bóta fyrir son sinn, festarmann eða frænda, - ekki með orðum eða lagakröfum, því að það vita allir, að ekki stoðar mikið gegn ríki Bjarnar riddara, heldur með augunum, með hugsunum og tilfinningum. - Fjórtán unga og efnilega menn eigum við að bæta fullum mannbótum, Stína mín, og fyrir hvern nægja ekki minna en þrenn manngjöld. Hvenær heldur þú, að við höfum lokið þeirri skuld að fullu? - Og þó verður þann að leggja óbættan, sem dýrastur var þeirra allra." -

"Hann ætla ég að bæta," mælti Kristín fjörlega.

Solveig hristi höfuðið:

"Þorleifur verður föður þínum aldrei að fullu bættur. Svo innilega elskaði hann einkason sinn. Allur heimurinn gæti ekki bætt honum hann."

"Hann ætla ég að bæta. - Ég ætla að hjálpa ykkur foreldrum mínum til að bæta alla hina, og halda því verki áfram, þegar ykkar missir við. En Þorleif bróður minn ætla ég einsömul að bæta pabba mínum. Þá heitstrengingu bið ég guð að heyra og hjálpa mér til að efna hana."

Solveig horfði fast í augu dóttur sinni og sá þar slíka festu og alvöru, að henni gekkst hugur við. Hún faðmaði dóttur sína upp að brjósti sér. Þær grétu báðar, - en gráturinn varð þó húsfreyjunni léttari en áður, því að drengileg heitstrenging ljómaði upp myrkur sorgarinnar.




SÍÐARI ÞÁTTUR: BRÚÐURIN Í VIÐEY


1. kafli

Tólf ár voru liðin síðan þeir atburðir gerðust, sem síðast var sagt frá. En á þeim tólf árum hafði mikið skeð og margt breytst. Ekkert tólf ára tímabil í sögu Íslands hefir skilið eftir jafnsárar og sorglegar minningar. Á þessu tólf ára skeiði kom sá gestur til Íslands, að enginn hefir komið slíkur. Það var svarti dauði. - Hvort sem hann hefir nú verið farþegi á skipi Hval-Einars eða einhvers annars farmanns, þá er það víst, að hann herjaði landið allt um tveggja ára skeið og skildi slíkan val eftir, að engin dæmi eru til annars eins. Svo segja fróðir menn, að fyrir það mannfall muni hafa verið hundrað þúsund tólfræð af mönnum hér á landi, en hinn svarti víkingur hafi aðeins eftir skilið um fjörutíu þúsund.

Deyjandi og dauðvona lá þjóðin eftir þetta voðalega áfall. Jarðirnar stóðu í eyði, og engir voru til að byggja þær. Jafnvel heilar sveitir voru nær aleyddar af mönnum. Margar ættir voru útdauðar með öllu, og margir höfðu misst allt skyldulið sitt. Það, sem eftir lifði, bjó að sorginni og hrellingunni, skalf enn af gusti dauðans, sem svo nærri því sjálfu hafði gripið.

En öll él birtir upp um síðir, og eftir svarta dauða birti fljótar en nokkurn hefði grunað. Og skinið var bjart, eins og þegar sólin hellir geislum sínum yfir regnvota jörðina. Í slíku skini greri lífið aftur ótrúlega fljótt. Mennirnir höfðu fallið, en fénaðurinn ekki. Þeir, sem eftir lifðu, höfðu nóg á að lifa, - nóg landrými og lausafé. Landnámið hófst að nýju, en í þetta skipti af alinnlendum stofni. Margir erfðu nú alla frændur sína og urðu við það stórauðugir, bæði að löndum og lausum aurum. Verkið var að vísu mikið og verkamennirnir fáir. En þeir, sem þar voru, sýndu dugnað og þrautseigju, - meiri dugnað og þrautseigju en áður hafði verið að venjast, og fleyttu öllu furðanlega yfir hina þyngstu örðugleika. Eins og gullið reynist í eldinum, svo reynist hið sanna manngildi á dögum hinna mestu hörmunga. Íslenska þjóðareðlið hefir af sér staðið margar og miklar hörmungar og jafnan færst í aukana, er mest hefir sorfið að. Því eigum við að þakka, að enn lifir íslensk þjóð. En eitt af mestu áföllunum, sem á því hafa skollið, er svarti dauði, og einna aðdáanlegust er sú manndáð, að fá þá við rétt. -

Þá var það einn fagran dag í júlímánuði sumarið 1405, að stofnað var til veislu í Viðey. Það var brúðkaupsveisla, og stóð hirðstjórinn sjálfur, Vigfús Ívarsson Hólmur, fyrir boðinu. Þrír landsfjórðungar lögðu þar saman, og vildi enginn öðrum eftir gefa að rausn og metnaði. Norðlendingafjórðungur lagði til brúðgumann. Var hann ekki tekinn af lakari endanum, því að hann var Þorleifur Árnason frá Auðbrekku í Hörgárdal, einhver auðugasti maður á Norðurlandi og jafnframt af göfugum ættum, sonarsonur Einars prests Hafliðasonar, þess er ritað hefir Laurentíusarsögu. - Sunnlendingafjórðungur lagði til mestu stórmenni veislunnar, svo sem Vilchin Skálholtsbiskup og hirðstjórann, einnig veislustaðinn, eina af fegurstu og búsældarlegustu jörðum landsins, með blómlegu munkaklaustri. Einnig meginhluta veislukostsins. En Vestfirðingafjórðungur lagði þó það til, sem best var af öllu, brúðina sjálfa, - kvenkost þann, er allt þetta var gert til að sæma og heiðra. Það var Kristín, dóttir Björns riddara Einarssonar í Vatnsfirði, ríkasta og ættgöfugasta kona landsins, sem nú var verið að gifta að öðru sinni. -

Það, sem drifið hafði á daga Kristínar síðan síðast var frá henni sagt, var í stuttu máli þetta: Haustið eftir vetur þann, er hún reis úr rekkju, eftir hið sviplega fráfall Þorleifs bróður hennar, var hún gefin einum hinum efnilegasta og auðugasta meðal ungra og ættgöfugra manna á Íslandi, Jóni Guttormssyni frá Stóra-Skógi í Dölum, bróður Lofts Guttormssonar á Möðruvöllum í Eyjafirði, sem seinna var nefndur hinn ríki. Voru þeir sonarsynir Orms Snorrasonar lögmanns, þess er var með Smið hirðstjóra í Grundarbardaga, og komnir af ætt Skarðverja. Bjuggu þau Jón og Kristín að Hvammi í Hvammssveit. - Svarti dauði kom þar við eins og víðar 1403, og eftir það var Kristín ekkja. En þá er fátt um biðla, ef ung og fögur kona við slík efni lifir lengi í ekkjudómi, og nú var Kristín aftur föstnuð þeim manni, sem að engu stóð fyrri manni hennar að baki og allra síst að auði.

Frá alþingi á Þingvelli við Öxará stefndi nú allt stórmenni landsins til Viðeyjar. Holtin og mýrarnar fyrir ofan Laugarnes og Klepp voru alskipuð hestum, og tjöldum var slegið á öllum fögrum blettum fram með sundinu. Úti í eyjunni var sem her manns hefði slegið búðum, því að tjald var við tjald umhverfis allt klaustrið. Bátar gengu viðstöðulaust yfir sundið og fluttu fólk og farangur fram og aftur. En inni á sundinu lágu fjögur hafskip, prýdd veifum á siglutrjánum, merkjum á stefnunum og skjöldum á borðstokkunum, að dæmi víkingaskipanna fornu. Það voru skip Björns Einarssonar riddara, sem flutt höfðu brúðina og sveit hennar að vestan og voru nú jafnframt búin til utanfarar. Svo stórhöfðinglegan skipakost átti enginn maður á Íslandi annar en Björn riddari Einarsson.

Meðal annarra, sem komu ofan af landi og beiddust fars út í eyna, var kona nokkur svipþung og raunaleg og lítið eitt roskin. Enginn, sem viðstaddur var, bar kennsl á hana. Ferjumenn virtu hana fyrir sér hátt og lágt, því að svo hafði verið fyrir þá lagt, að flytja ekki förufólk til eyjarinnar. Konan var í dökkum kyrtli, einlitum, og bar ekki annað skraut en bænafesti um hálsinn með viðhengdum silfurkrossi. Búningur hennar og útlit minnti fremur á abbadís en förukonu. Hún bauð að greiða fargjaldið fyrirfram, og tók hún það úr sjóði svo gildum, að allir máttu sjá, að hér var ekki förukona. Var henni þá veitt farið. Á leiðinni út í eyna var hún þungbúin og mælti ekki orð frá munni. Mátti sjá það á svip hennar, að hún hafði nýlega í einhverjar miklar raunir ratað, enda voru þeir margir um þessar mundir, sem bjuggu yfir ógrónum sárum eftir missi vina sinna og vandamanna.

Þegar báturinn lagði að bryggju við eyna, var þar fjölmenni fyrir, því að þar var skenkt á skálar til að bjóða þá velkomna, sem á land stigu. - Maður nokkur skrautbúinn, með flaksandi kápu á herðum sér, tók sig út úr hópnum, er hann sá bátinn lenda, og vatt sér fram á bryggjuna. Hann var haltur, en gekk þó hækjulaus og var eldsnar í öllum hreyfingum. Festi bar hann um hálsinn, og hékk við hana ofurlítil harpa með silfurstrengjum, sem minnti á, hver maðurinn væri.

Þegar hann kom að bátnum, mælti hann af munni fram og logaði af fjöri:

"Heil sértu, Halldóra! - Til heilla þú kemur. - Kristínu minni eru kærri fáar. Vant mundi gleði, ef værir þú fjarri. Velkomin til Viðeyjar! Hér er vinarhönd."

Það glaðnaði yfir Halldóru við þessa óvæntu kveðju. Hún tók hina framréttu hönd og studdi sig við hana upp úr bátnum.

"Líkur ertu sjálfum þér enn þá, Sigurður fóstri. Mikið hvað kætin og fjörið í þér endist. Þú hefir fengið einhverja glaðning í morgun."

Sigurður hoppaði upp, þó haltur væri, og réð sér varla fyrir fögnuði:

"Margt ber til gleði, mér og öðrum. Minni hefi ég drukkið Maríu og Péturs. Til hefi ég drukkið tignum mönnum, og ljóðum þá kvatt, sem lent hafa hér.

Skorta mundi á risnu hins ríka Bjarnar, vantaði mann í hans miklu sveit, sem í viðlögum varpað gæti kveðjum á menn í mjúkum háttum. - Heitstrengt hefi ég, Halldóra mín, heiðursdag þennan að helga ljóðum. Mæla það allt, sem ég mæli, í stuðlum, sumarlangan dag meðan sól er uppi."

"Þú þarft ekki mikinn umhugsunartíma."

"Rýrt væri hirðskáld hins ríka Bjarnar, mætti það ei daglangt mæla í ljóðum. Ugga með hundum ég ætti skilið, fyrir veislukost og vín af skálum, ef ég orðlaus uppi stæði og menn hendinga til einskis væntu.

Komdu nú, Halldóra. Heim til búða herra míns þig við hönd ég leiði. Hrind mér ekki frá þér, þótt ég haltur sé. Dýrra er heilt höfuð hraustum fótum.

Vel sé hinum vitra og vaska manni! Enginn er höfðingi honum meiri, enginn slíkt afbragð að atgervi og hreysti, enginn svo ríklyndur, enginn svo gjafmildur. - Manstu Vatnsfjörð, hinn mikla garð? Hvar sástu höfuðból höfðinglegra? Miklir skálar af máttarviðum. Háir stafnbjórar. - Hafskip fyrir landi.

Hvar ætti heldur heim að bjóða höfðingjum og konungum, er hingað kæmu? Hvar hljóma dýrri og drengilegri heiðurssögur höfðingjaættar?

Hér erum vér gestir; en gott er að sjá risnu slíka og ríkilæti. Dýrri veislu en dæmi eru til, háreistar tjaldbúðir, - hafskip fyrir landi.

Heyrðu, Halldóra. Háttu létta valdi ég ljóðum, svo lengur entist. Eld hafa kveikt í anda skáldsins veigar úr gullskálum frá garði mildings.

Sérðu þar tjaldþyrping tignarlega? Eitt er þar þó, sem af öllum ber. Efldur hvítabjörn inngangsins gætir. Þar býr hinn ríklyndi. Þangað áttu að fara. -

Hér skil ég við þig, - hendingar að vanda, orðspeki að deila við aðra gesti. Skorta má ei ljóð, þar skálar glymja. Heil vertu, Halldóra! Við hittumst aftur."

Halldóra hafði varla komist að til að segja orð, svo ótt bar Sigurður á, og áður en hún gat áttað sig, var hann þotinn frá henni og haltraði aftur ofan að lendingarstaðnum. Hún stóð sem höggdofa af undrun og horfði á eftir honum. Það var satt, sem hann sagði: Vínið hafði kveikt í honum eld, hann var allur eins og brennandi, gneistandi logi. Slíkur maður var skapaður fyrir gleðina. Hún brosti glaðlega á eftir honum, því einnig frá höfði hennar hafði hann megnað að dreifa sorgarskýjunum.

"Hætt er við, að hann fari að verða loðmæltur, þegar líður á daginn," mælti hún hálfhátt við sjálfa sig, um leið og hún sneri við og fór að litast um eftir því, sem hann hafði vísað henni á.

Allt í kringum hana voru tjöld, og milli tjaldanna var prúðbúið fólk á gangi. Allir heldri menn voru í glæsilegum litklæðum og sumir í riddarabúningi, gyrtir sverðum. Þjónustumenn og unglingar voru á harðahlaupum milli tjaldanna, og þegar tjaldskörunum var lyft upp og um þær gengið, sást, að konur voru þar inni að skauta sér og skreyta sig á marga lund. Úr öllum áttum heyrðist ys og kliður, og hvert sem litið var, sást hvarvetna vottur umsvifa og annríkis.

Halldóra gekk hægt að tjaldi því, sem henni hafði verið vísað á. Það var auðþekkt, því að það bar af öllum öðrum tjöldum að stærð og prýði. Tveir alvopnaðir menn stóðu sinn hvorum megin inngangsins, gráir fyrir járnum og stífir eins og eintrjáningar, og studdust við atgeira sína. En við sjálfa tjaldskörina lá fullorðinn hvítabjörn, lagði trýnið fram á hrammana og lét sólina baka á sér belginn. Þegar Halldóra nálgaðist, hóf bjarndýrið höfuðið og hvessti á hana tinnudökk augun. Hún nam þá staðar og kallaði til varðmannanna, hvort þetta væri tjald Björns Einarssonar riddara. Þeir kváðu já við því og kváðu henni óhætt að ganga nær, því að björninn væri meinlaus sem hundur og mundi ekkert gera henni. Hún hikaði þó enn, því að henni leist dýrið allægilegt. En í sömu svipan var tjaldskörinni lyft upp, og aldraður maður kom fram í dyrnar. Það var Björn riddari Einarsson. Hann hafði heyrt það inn í tjaldið, hvað kallað var úti, og leit út til að vita, hver kominn væri.

"Eruð þér hræddar við nafna minn, kona góð? Það eru engir nema þeir, sem ekki þekkja hann. Hann horfir hvasst á þá, sem hann sér, að ókunnugir eru, og fáum mundi hent að komast fram hjá honum í illum hug, því að hann er mannglöggur. En hingað til hefir hann aldrei mann bitið. Honum þykir þér öðru vísi klæddar en hann á að venjast, að fólk sé í dag; en honum er undarlega í nöp við förufólk. - Leggðu þig nú niður, bangsi minn, og gerðu engum manni skelk."

Dýrið leit vingjarnlega upp á húsbónda sinn. Síðan hlýddi það, lagði hausinn fram á hrammana, eins og það hafði áður gert, og lokaði augunum.

Halldóra sá það, að Björn riddari þekkti hana ekki þegar í stað, enda hefði hún varla þekkt hann heldur, hefði hún ekki vitað, að hans væri þar von, svo mjög hafði hann látið á sjá frá því hún sá hann síðast. Hann var að vísu karlmannlegur og fríður á velli að sjá, eins og hann hafði áður verið, og bar höfuðið hátt og drengilega. En hár hans og skegg var tekið mjög að grána. Yfirliturinn var fölari og ekki eins hraustmannlegur og áður hafði verið. Hann var líka orðinn holdugri, bæði í andliti og annars staðar, en áður hafði verið, og sýndi það, að hann tamdi sér ekki lengur riddaralegar íþróttir, svo sem hann hafði gert í fyrri daga, og hafði einnig lagt af langar og erfiðar landferðir. Halldóra mundi eftir honum sem bjarthærðum og blómlegum manni, hverjum manni glæsilegri og fegurri, vöðvastæltum og bringubreiðum, efldum og fjörmiklum kappsmanni, sannri ímynd þess riddara, sem hvorki þekkir ótta né ámæli. Hann var virðulegri og höfðinglegri nú, stilltari og mildari, svo að svipur hans allur vakti lotningu og hlýðni. En hann hafði elst fyrir ár fram. -

"Þegar ég tók hann á ísnum í Ísafjarðardjúpi," mælti riddarinn, um leið og hann gekk út til Halldóru, og hafði enn hugann á hvítabirninum, "var hann ekki stærri en meðalsmalahundur. Ég lagði mömmu hans í gegn með spjóti, en hún ætlaði ekki að hætta við að ráðast á mig, þó að spjótið stæði þvert í gegnum hana við hjartað. Það var skap í þeirri móður! Menn mínir urðu að koma mér til hjálpar og reka í hana fleiri spjót, áður en hún félli. Nafni minn hefir enn þá ekkert sýnt sig líklegan til móðurhefnda við mig. Ég held hann sé búinn að gleyma öllu saman. Hann lærði snemma að fylgja mér eftir eins og hinir hundarnir, og nú held ég hann sé búinn að gleyma því, að hann sé björn, og telji sig með hundunum. - Sigurður fóstri hefir kennt honum að dansa, og sveinar mínir hafa kennt honum að glíma við sig, en sund hefir enginn þurft að kenna honum. - Hann kafar til botns og kemur upp með steina, sem varla eru við okkar hæfi. - Jæja, kona góð. Þér spurðuð eftir mér. Er nokkuð, sem ég get gert yður til þægðar? - En hvað er þetta? Eruð þér ekki Halldóra, sem lengi var hjá okkur?"

"Jú," mælti Halldóra og brosti raunalega. - "Kristín dóttir yðar sendi mér orð að koma hingað."

"Já, auðvitað. Þér eruð líka velkomnar. Ég minnist þess nú, að hún hefir spurt eftir yður. Ég var alveg búinn að gleyma yður. Nú er langt síðan við höfum sést. Ég þekkti yður ekki undireins. Þér hafið breytst mikið, síðan við vorum kunnug. Hvað er nú langt síðan? Ein ellefu eða tólf ár. Já, einmitt. Þér fóruð frá okkur, þegar Stína mín giftist fyrra manni sínum, og það var sama árið og Þorleifur minn - - . Jæja, minnumst ekki framar á það. Hver leiðbeindi yður hingað?"

"Sigurður fóstri."

"Sigurður fóstri, já, einmitt það, og skildi yður hér eftir einsamla úti á túni, án þess að fylgja yður fram hjá hvítabirninum."

"Það má ekki gefa honum að sök. - Hann hafði mörgum öðrum að sinna."

"Hann mun hafa verið orðinn sætkenndur, drengurinn?"

"Ekki var honum það enn til meins."

"Hélt hann enn áfram að tala í ljóðum?"

"Já," mælti Halldóra og brosti við. "Og meginið af því, sem hann kvað, var lof um yður, herra."

"Ég er hræddur um, að lofið verði farið að þynnast og hættirnir að ruglast undir sólsetrið. Það er gallinn á þessum blessuðum skáldum okkar, eins og þeir eru menn skýrir og skemmtilegir, að þeir kunna sér aldrei hóf við drykk. - En hvað hefir nú á daga yðar drifið, Halldóra mín, síðan þér fóruð frá okkur? Hefir yður búnast vel á kotinu, sem þér fenguð?"

"Guð hefir blessað efni mín. - En - -."

"Eitthvað hefir yður samt gengið á móti. Ég sé það á yður. Auðlegðin er góð, en hún stoðar lítið til gleði, þegar einhverjar aðrar raunir ber að höndum. Það þekki ég. Þér hafið eitthvað þungt að bera, Halldóra mín. Er ekki svo?"

Halldóra stillti sig um það, eins og hún gat, að láta sér hrynja tár.

"Ég var gift, eins og þér kannske vitið, og átti fjóra efnilega syni. - Nú er ég ekkja og - barnlaus."

"Drepsóttin hefir komið við hjá yður eins og fleirum."

"Já. Hún svipti mig öllu, sem ég átti. En því miður skildi hún sjálfa mig eftir."

"Veslings Halldóra! Þetta eru þyngri raunir en svo, að nokkur geti bætt þær annar en guð einn. Það veit ég líka, að þér vitið. Nú skal ég fylgja yður til Kristínar minnar. Hún mun hafa allan vilja á að gleðja yður eitthvað á þessum degi. Þess vegna hefir hún gert yður orð. Hún er inni í klaustrinu, - þó að hún sé ekki, sem betur fer, að búa sig undir klausturlifnað," bætti riddarinn við og brosti. "Ábótinn, sá heilagi maður, sem annars má aldrei kvenmann sjá, hefir boðið henni stofurnar sínar fyrir sjálfa hana og þjónustumeyjar hennar, og hún hefir þegið það. Nú skal ég ganga með yður þangað."

Þau gengu nú á stað heim til klaustursins. Á leiðinni mælti Björn riddari:

"Ég á langa ferð fyrir höndum. Minnist þér mín í bænum yðar, Halldóra mín, því að margt kann að mæta á svo langri leið. Þegar ég hraktist inn í Grænlandsísinn fyrir mörgum árum síðan og ekki var annað sýnna en ísinn mundi mola skip mín og sökkva okkur öllum til botns, gerði ég það heit til hins heilaga Jakobs, postula drottins, að ef hann leiddi mig og alla menn mína heilu og höldnu til Íslands aftur, skyldi ég fara pílagrímsför til grafar hans í Compostella á Spáni og gefa til kirkju þeirrar, sem þar er reist. Eins og yður er kunnugt, náðum við Grænlandi og komumst um síðir heilu og höldnu til Íslands aftur, en í þeirri för skeðu margir dásamlegir hlutir. Það var sem ísinn greiddi sig sjálfur í sundur fyrir skipum mínum, og það var sem selir og fuglar hændust að skipunum og byðu sig fram til að láta veiða sig. Við komum að Grænlandi, hlaðnir miklum veiðiföngum, og skrælingjarnir, sem við fyrst hittum fyrir, tóku okkur með slíkri gleði, að það var sem hefðu þeir þekkt okkur frá barnsaldri og alist upp við að sýna okkur alla hlýðni og trúmennsku. Þegar ég hitti þar hvíta menn, voru mér þegar fengnar til uppeldis tekjur af heilu héraði, eins og ég hefði þar völd af konungs hendi. Þegar út leit fyrir, að allar vistir mundu þrjóta, rak þar stóra reyði, með skutulmerki Ólafs vinar míns í Æðey. Allt kom þetta á svo undursamlegan hátt, að svo var sem hulin hönd stýrði því öllu. Ég hefi ekki enn þá borið gæfu til að efna heit mitt við Jakob postula. En nái ég nú fram til hinnar heilögu grafar í landinu helga, mun ég halda þangað á heimleiðinni. - Það er gott að gera slík heit, Halldóra mín. Þau auka manni styrk og þrek og eru manni ljós í mörgum raunum. Það er sem maður upp frá því finni jafnan til nálægðar hins heilaga manns, sem maður hefir kosið sér að vini og verndara og heitið á. Marga þunga stund hefi ég lifað síðan ég missti Þorleif minn, en jafnan, þegar sorgin hefir sorfið að mér, hefir verið sem hvíslað að mér: Vertu hughraustur, allir hlutir eiga enn að snúast þér til góðs, og enn áttu heit þitt óefnt við hinn heilaga Jakob postula. Tíminn hefir liðið og liðið og efndirnar dregist. Þegar Kristín mín var gift hið fyrra skiptið, var ég svo yfirkominn af sorg eftir Þorleif minn, að ég gat ekki til langferðar hugsað. Svo þegar ég fann mig aftur ferðafæran, kom drepsóttin. Fólk mitt hrundi niður unnvörpum. Vinir mínir og vandamenn líka. - Ótal vandamál bar að höndum, sem mér bar að greiða úr. Kristín mín varð ekkja, og ég þurfti að aðstoða hana með ráði og dáð. Fyrst nú, er ég sé hana gifta öðru sinni, finnst mér svo um hægjast fyrir mér, að ég geti til hinnar langþráðu ferðar hugsað."

Þau voru nú komin heim að klaustrinu og gengu beint til herbergja ábótans. Þar var fullt inni af prúðbúnum konum á ýmsum aldri. Meðal annarra sátu þar sex smámeyjar í drifhvítum kyrtlum, dragsíðum, með hárið greitt niður um axlirnar og gullna spöng um ennið. Þær voru svo feimnar, að þær gátu varla upp litið, og var sem feimnin ykist að miklum mun, er þær sáu riddarann í dyrunum. - Þær iðuðu þó í skinninu af þrá og eftirvæntingu og hefðu nauðugar látið stöðu sína, því að þær voru einar valdar úr stórum hóp jafnaldra sinna til að prýða hina fyrirhuguðu skrúðgöngu til kirkjunnar og frá henni sem brúðarmeyjar.

"Hingað má enginn karlmaður koma," sagði forstöðukonan sneglulega og vatt sér með miklum gust að dyrunum. Rostinn í henni minnkaði þó dálítið, er hún sá, að karlmaðurinn, sem við dyrnar stóð, var riddarinn sjálfur, faðir brúðarinnar. Hún vildi þá láta sýnast svo sem hún hefði sagt þetta í góðlátlegri glettni.

"Ég ætla nú ekki lengra, - þó að margt sé hér fagurt að sjá," mælti riddarinn brosandi. "En segið dóttur minni, að hér sé komin kona, sem langi til að sjá hana."

Forstöðukonan varð vandræðaleg.

"Brúðurin er inni í innri stofunni, svefnherbergi ábótans. Þar eru konur að búa hana. Okkur leyfist ekki að líta þar inn."

"Kallið þá í gegnum dyrnar - eða skráargatið, - eða vegginn, ef skráargatið er líka byrgt," mælti riddarinn og hafði gaman af vöflum þessarar gömlu siðsemdardrósar. Segið henni, að það sé vinkona hennar - og okkar allra, - sem hún hefir sjálf gert orð eftir. Ef þið komið ykkur ekki að þessu, skal ég gera það," og riddarinn gerði sig líklegan til að ganga mitt inn í kvennaskarann.

Forstöðukonan virti Halldóru fyrir sér hátt og lágt, vó hana og mældi með augunum. Síðan gekk hún þegjandi inn að dyrunum og gerði það, sem fyrir hana var lagt.

"Hver er það?" var svarað fyrir innan. Forstöðukonan leit spyrjandi fram í dyrnar.

"Segið henni, að ég heiti Halldóra," mælti Halldóra.

Forstöðukonan kallaði nú nafnið inn.

"Halldóra, Halldóra!" var kallað feginsamlega fyrir innan. "Hún er velkomin hingað inn til mín."

"Björn riddari leit brosandi til Halldóru, um leið og hann benti henni með hendinni, að nú væru henni dyrnar opnar. Halldóra rétti honum hönd sína og þakkaði honum innilega það vinsamlega lítillæti, sem hann hafði sýnt henni, og þá aðstoð, sem hann hafði veitt henni. Án hans fulltingis hefði hún fráleitt náð fundi Kristínar að þessu sinni.

"Við sjáumst seinna," mælti Björn riddari, um leið og hann kvaddi hæversklega og gekk út aftur. En Halldóru var gangurinn greiður inn til brúðarinnar.


2. kafli

"Seint koma sælir, og koma þó," mælti Kristín glaðlega og stóð upp á móti Halldóru svo skjótlega, að konurnar, sem voru að festa á hana höfuðdjásnið, hrukku frá henni. "Vertu velkomin, Halldóra mín! Ég var orðin hrædd um, að þú hefðir engin skilaboð fengið og mundir alls ekki koma. - Nú þarf ég ykkar ekki við lengur," mælti hún til kvennanna, sem verið, höfðu að búa hana. "Nú gerir Halldóra mín það, sem á vantar. Hún hefir áður búið mig til brúðkaups. - Þið megið fara. - Heyrið þið það?"

Konurnar litu illum augum á þessa þurrlegu, vaðmálsklæddu almúgakonu, sem tók nú brúðina úr höndum þeirra. Þær þorðu þó ekki að mæla móti Kristínu og gengu þegjandi burt úr herberginu. Kristín lét hurðina vandlega aftur á eftir þeim.

Búnaði brúðarinnar var að mestu lokið. - Skartið, sem hún bar, var meira en Halldóra hafði hugsað sér, að nokkur kona gæti borið í einu. Ennisspöngin var úr skíru gulli, mynduð sem hálf kóróna, og glitruðu í henni dýrindis steinar. Hálsmálið á kyrtlinum var allt saumað gullrósum með miklum hagleik, og niður um barminn lágu breiðir borðar, gullsaumaðir. Í dýru steinasörvi um hálsinn hékk gullkross. Var engin Kristsmynd á honum, en í hennar stað voru í krossinn greyptar þrjár svartar perlur. Beltið var úr gullnu silfri, sett saman úr þungum og þykkum stokkum, með sprota, sem náði allt í skaut niður. Á hvern stokk voru grafnar upphleyptar myndir, og skipti um myndir með hverjum stokk. Voru það helgra manna myndir, myndir úr helgisögum, biblíunni og gömlum ljóðum og ævintýrum, sem allar höfðu einhver tákn og einhvern lærdóm að geyma. Var beltið hinn mesti dýrgripur og gert af meira listfengi en nokkur maður þóttist fyrr hafa séð. Neðst á kyrtlinum var breiður bekkur af glitsaumuðum rósum. Ermar kyrtilsins voru stuttar og víðar og lagðar borðum fremst, líkum þeim, sem barmurinn var lagður með. Handleggirnir voru berir upp til axla, og voru gildir armhringar læstir bæði um upphandleggi og úlfliði og baugar á fingrunum með sjaldséðum steinum. Kápan var dragsíð og öll fóðruð innan með mjúkum safalaskinnum. Á henni var breiður kragi, sem náði allt í skaut niður, allur fóðraður með hvítum hermelín-skinnum, og sáust svartir rófubroddarnir koma fram til og frá í hvítri loðnunni, þéttri og mjúkri. - Halldóra var þess fullviss, að svo fagran og íburðarmikinn viðhafnarbúning hefði engin kona fyrr borið á Íslandi. Það var þó ekki búningurinn, sem mest gagntók huga hennar, heldur Kristín sjálf. Hún hafði ekki séð hana síðan hún giftist hið fyrra skiptið. Hvílíkur munur að sjá hana þá og nú. Henni var manna best kunnugt um, að Kristín hafði þá ekki enn verið með öllu heil heilsu, þó að hún teldi sjálfri sér og öðrum trú um, að svo væri. Hún hafði verið að kalla mátti borin úr sjúkrasænginni í hjónasængina og viljað það heldur en gjaforð hennar færist fyrir. Með veikum burðum hafði hún lagt á sig allt það umstang, sem undirbúningi brúðkaupsins fylgdi, og látið engan mann verða þess áskynja, að hún tæki það nærri sér. Halldóra hafði óttast það mest af öllu þá, að hún ætti ekki langt eftir ólifað. Enda hafði Kristín þá hvorki borið eins mikið skraut á brúðkaupsdegi sínum né heldur verið eins tíguleg. - Þá hafði hún verið barnung að aldri, nýlega orðin gjafvaxta að lögum, og enn var hún ung, þó að nú væru tólf ár liðin síðan. En vaxið hafði hún og þroskast á þessum tólf árum svo, að hún þekktist varla fyrir sömu manneskju. Nú var hún há og hnarreist sem valkyrja, fagurlega vaxin, full að vöngum, hæfilega holdug og að öllu hin hraustlegasta og föngulegasta. Barmurinn hvelfdist fagurlega undir gullsaumuðu borðunum, armarnir gullbentu voru bústnir og hörundsfagrir, og hálsinn var sívalur og mjallhvítur undir steinasörvinu fagra. Varirnar voru þykkar og blóðrauðar, og sá í mjallhvítar tennurnar, er hún brosti. Svipurinn var allur bjartur og glaðlegur, og gullspöngin yfir háu og fögru enninu - gullspöngin, hið eldgamla tákn frjálsborinnar konu, - jók honum mikilleik og gerði hann enn göfugmannlegri. Bláu augun, djúpu og skæru, loguðu af lífsgleði og sjálfstrausti, og þvert á móti gamalli venju um ekkjur, liðaðist hárið laust ofan um bakið og axlirnar, eins og það bryti af sér alla fjötra og hleypidóma, byði öllum gömlum kreddum byrginn. Eftir fornri venju meðal heldra fólks um öll Norðurlönd máttu aðeins hreinar meyjar bera slegið hár. Kristín vildi sýna, að hún væri hverri hreinni mey göfugri kvenkostur, þó að hún væri ekkja. Segja mátti hver það, er honum sýndist, en blær sá, er leið yfir Viðey þennan dag, skyldi leika að óbundnum lokkum hennar. Það var sem saltið vantaði í veislukostinn, ef Kristín frá Vatnsfirði hneykslaði engan á brúðkaupsdegi sínum.

"Vertu velkomin, Halldóra!" mælti Kristín enn einu sinni og tók glaðlega um báðar hendur hennar. "Þú starir á mig alveg höggdofa, eins og ég skyldi vera fallin niður af himni, og segir ekkert orð. Líst þér ekki sæmilega á mig þannig búna?"

"Víst ertu fögur og ríkmannleg, Kristín mín. - Svo fögur og ríkmannleg, að mér finnst ég standa frammi fyrir drottningu."

"Það þykir mér vænt um að heyra. Ég vildi, að fleirum fyndist það sama. Hvers vegna skyldi engin íslensk kona mega vera drottningar-ígildi? Er Ísland of fátækt og lítilmótlegt til að bera eina drottningu? - Ég vil vera drottning, Dóra mín, en ekki eins og hinar. Ég vil vera drottning, - en ekki fyrir það eitt að vera gift konungi. Ég vil bera af öllum konum, án þess nokkur hönd sé hreyfð til að bægja frá mér frjálsri samkeppni annarra kvenna. Ég vil vera allra kvenna auðugust og afla auðsins sjálf, án þess skattur sé lagður á nokkurn frjálsan mann til að bera að mér skraut og auðæfi. Ég vil stjórna sjálf ríki mínu, þótt lítið sé, en ekki vera háð neinu ríkisráði, dómþingum, lögþingum né lýðsamkomum. Ég vil vera drottning gleðinnar, friðarins og ánægjunnar og miðla öllum gleði og friði og ánægju."

"Því miður kem ég ekki til þín með gleðina, Kristín mín," mælti Halldóra raunalega.

"Það gerir ekkert til," gegndi Kristín rösklega. "Hér er nóg um gleði í dag, - kannske helst til mikið. Ég hefi frétt um allar raunir þínar, Dóra mín. Þess vegna gerði ég þér svo strengileg orð að koma hingað og koma á fund minn undireins, hvernig sem á stæði. Ég þakka þér fyrir, að þú varðst vel við þessum boðum. Ég sagði áðan, að það væri mesta gleði mín að miðla öðrum gleði. Hvern bæri mér fremur að gleðja en þig?"

"Gleðin kemur aldrei til mín framar, Kristín mín. Hún hefir dáið út með hamingjuvonum mínum, og allur jarðvegur fyrir hana er sviðinn og rótlaus."

"Vertu ekki svona myrksýn, Halldóra mín. Hver einasti maður, sem hér er í dag, hefir söknuð að bera eftir drepsóttina, en allir varpa þeim byrðum af sér - mín vegna - og gefa sig gleðinni á vald. Þú mátt til að gera það líka. Gera það í eitt skipti. Þá veitir þér léttara að gera það aftur. Ég hefi líka sorg að bera, en hún viðrast af mér á slíkum hamingjudegi sem þessum. Ég vil gleðja alla, sem í kringum mig eru. Ég veit, að erfiðast verður að gleðja þig. Þú ert svo trygglynd að upplagi, að þú getur engum þeim gleymt, sem þú hefir eitt sinn elskað. Gerðu það nú mín vegna að varpa af þér sorginni í dag."

"Ég skal reyna," mælti Halldóra, sýnu glaðari en áður. Gleði og fjör og góðleiki Kristínar gagntók hana svo, að henni hitnaði um hjartaræturnar.

"Líttu í kringum þig. Hér í Viðey er saman kominn fjöldi fólks af öllum stéttum, meðal annars allt mesta stórmenni landsins. Öllum þessum skrautbúna hóp karla og kvenna heldur hirðstjórinn veislu á kostnað föður míns og hefir lofað að láta ekkert til sparað, að veislan megi verða sem veglegust og mér til sem mestrar sæmdar. En pabbi hefir sjálfur fyrirhugað hverjum boðsmanni einhverja gjöf. Hver maður skal verða hér með gjöfum út leystur, að fornum, íslenskum stórmennasið. Höfðingjarnir eiga allir að fá stórgjafir, almúgamennirnir eitthvað smálegt til minja um, að þeir hafi verið hér. Enginn skal héðan fara gjafalaus. Sigurður fóstri á að rétta hverjum manni það, sem honum er ætlað, og ávarpa hann í ljóðum um leið. Auk þess hefir pabbi lagt fram þrjú hundruð í fríðu, til að gleðja með ölmusumenn þá, sem safnast að sundinu og ekki fá far út í eyna. Þorleifur hefir lagt fram tvö hundruð í sama skyni og ég eitt hundrað af mínu fé. En ekkert af þessu kemur mér við. Það dregur mig ekkert, sem ég legg fram, og ég hefi enga gleði af þessum gjöfum. Ég veit ekki, hvort þær lenda hjá verðugum eða óverðugum. Þakklætið fyrir þær nær ekki til mín, síst inn til hjartans. Það er ekki nema ein manneskja, sem mig verulega langar til að gleðja í dag, og það ert þú, Dóra mín."

"Ég sé, að þú stendur orðvana af undrun og heldur ef til vill, að mér sé ekki alvara. - Manstu, Dóra mín, þegar þú sast hjá mér dauðveikri, - vaktir yfir mér, baðst fyrir mér og hélst um höndina á mér? Heldurðu, að ég hafi gleymt því? Heldurðu, að ég geti nokkurn tíma gleymt því? - Allir höfðu gefið mig dauðanum, nema þú ein. Þú barðist um mig við dauðann með dæmalausri trúmennsku og þrautseigju, barðist við hann, þó að sú barátta væri með öllu vonlaus. Með þessu hlýja, trygga handabandi togaðir þú mig aftur til lífsins, hvenær sem dauðinn ætlaði að villa mig út úr heiminum. Síðan hafa hendur okkar aldrei að fullu slitnað í sundur. - Á ég að segja þér eitt, Dóra mín? Þú mátt ekki segja það neinum, enda hefi ég reynt þig svo að trúmennsku og þagmælsku, að ég veit, að þú gerir það ekki. Síðan ég var veik og þú sast hjá mér, hefi ég verið gersvipt allri draumagáfu - leiðslu eða fjarskyggni, eða hvað menn nú vilja kalla það, - aldrei orðið þess vör, nema einu sinni. Þá fannst mér í svefninum ég vera komin til þín á einhverjum ókenndum stað. Ég þekki ekki bæinn þinn, því að þó að ég hafi einu sinni átt hann, hefi ég aldrei þangað komið. Þar sastu einsömul og grátandi yfir fimm líkum, einu af fullorðnum karlmanni, en fjórum af drengjum á mismunandi aldri. Ég grét hástöfum, þegar ég vaknaði. Ég grét ekki jafnsárt, þegar dauðinn kom að rekkju sjálfrar mín. Ég sendi til þín til að vita, hvernig þér liði. Manstu eftir því? Sendimaðurinn sagði, að þú hefðir verið sinnulaus af sorg og þú hefðir varla getað við hann talað. - Svo óslítandi er sambandið milli okkar, Dóra mín, að gamall kvilli, sem mér er batnaður fyrir löngu, kemur yfir mig snöggvast, þegar þér líður illa, eins og lífæðar liggi á milli okkar. Þó furðarðu þig á, að ég hefi sent eftir þér á þessum hamingjudegi. Við erum nátengdari en nokkrar systur geta verið. Komdu, Dóra mín. Lofaðu mér að faðma þig að mér."

Halldóra lét fallast í faðm hennar og grét beisklega upp við hinn bjarta barm og hið dýrmæta brúðarskraut.

"Það gleður mig nærri því að sjá þig gráta. Gráturinn er eina lækningin við hinni þögulu sorg. Eftir grátinn léttir þér um hjartað, Dóra mín, en á brúðarbúningi mínum skína perlur, sem aldrei verða við fé keyptar. - Nú er ég komin að því, sem ég ætlaði að segja við þig, þegar ég sendi eftir þér og stefndi þér hingað. Allar þær gjafir, sem hér verður útbýtt að veislunni lokinni, eru of lítilfjörlegar handa þér, - þó að þær væru allar komnar saman í eitt. Enga manneskju langar mig svo til að gleðja í dag sem þig eina. Þess vegna átt þú að kjósa þér gjöf af mér. Ef jarðnesk manneskja er þess megnug, skal ég uppfylla ósk þína."

"Kjósa mér gjöf -?" mælti Halldóra með grátstaf og þurrkaði af sér tárin.

"Já, Halldóra mín. Og ef það er fjárhlutur, sem þú kýst þér, þarftu engan veginn að vera smátæk. Ég á yfir meiru að ráða nú en nokkru sinni áður, - ég sjálf, án þess að spyrja nokkurn mann ráða."

"Ég óska mér ekki meiri fjárhluts, Kristín mín. Ég er ekki fátæk. Ég hefi meira en nóg fyrir mig að leggja og hefi engum fyrir að sjá, nema sjálfri mér. Ef þú vilt gleðja mig með gjöfum, þá láttu einhvern vesaling njóta þeirra, sem verður á götu þinni."

"En get ég þá ekkert gert fyrir þig, ekki glatt þig í neinu, - ekki uppfyllt neina ósk þína?"

Halldóra brosti raunalega.

"Ég á ekki nema eina ósk til. Fengi ég hana uppfyllta, fullnægði hún öllum jarðneskum þörfum mínum."

"Og hver er hún?" spurði Kristín fljótlega.

"Að ég mætti koma til þín, þegar þú ert setst að búi í Vatnsfirði, og þjóna þér, það sem eftir er ævinnar."

"Ekki annað?" spurði Kristín, steinhissa.

"Nei, ekkert annað. Lífið hefir gefið mér öll gæði sín, og dauðinn hefir svipt mig þeim öllum. Ég hefi elskað og verið elskuð með trúmennsku, og ég hefi notið móðurgleðinnar í ríkum mæli. Nú er ég ekkja og einstæðingur. Hugur minn er orðinn heiminum fráhverfur og leitar þangað, sem ástvinir mínir eru fyrir. Þangað til ég fæ að safnast til þeirra, vil ég hverfa aftur til þeirra gæða, sem ég þekkti best áður en guð gaf mér þá. Ég vil aftur verða vinnukona. Ég vil aftur mega þjóna húsbændum, sem ég elska, með dyggð og árvekni. Það er eina lækningin, sem minni sjúku sál getur hlotnast hér í lífi, að vinna til trausts og velvildar og þakklætis góðra manna; vera mér þess meðvitandi, að ég inni af hendi skylduverk mín með trú og dyggð, leggist þreytt til svefns á hverju kvöldi, en með góða samvisku og fulla vissu um það, að ekkert hafi verið ógert látið, sem mér bar að gera. Þannig var ævi mín í Vatnsfirði fyrr á árum, og síðan mótlætið kom, hefir þetta verið heitasta ósk mín."

"Þetta er þó það minnsta, sem ég get gert fyrir þig."

"Ef þú gerir það, gerir þú mig svo glaða sem ég get orðið í þessu lífi."

"Ekki annað en þetta!" mælti Kristín og hló við. - "Ég hélt þú mundir biðja mig að gefa þér nýjan mann, - og svei mér ætlaði ég að reyna að gera það. Ég hefði haft einhver ráð! Ég hélt þig mundi langa til að giftast - eins og mig -, fá nýjan, góðan og ötulan mann heim í bæinn til þín og - sængina til þín, byrja að nýju búskap á jörðinni þinni og endurvinna þannig þá hamingju, sem þú hefir misst. - Allt þetta ætla ég að gera."

"Þú gleymir því, hvað ég er orðin gömul, Stína mín," mælti Halldóra og brosti. "Við erum ekki jafngamlar. Manstu ekki, að ég kallaði þig "elsku barn", þegar við vorum saman, og það fram á árið, sem þú giftist? Þú gafst mér manninn minn - óbeinlínis, um leið og þú gafst mér tólf hundraða jörð á fyrra brúðkaupsdegi þínum. Aldrei hefði svo vænn maður beðið mín, hefði ég verið umkomulaus þjónustustúlka. Þegar ég fór að vitja þessarar eignar minnar, var mér tekið í sveitinni eins og ég væri kona af háum stigum. Hvarvetna mætti ég hýrri augum en vant er að senda vinnukonum, og loks kom bónorðið. - Þessa jörð ætla ég nú að gefa til guðs þakka. Hún hefir skapað hamingju mína, og nú á hún að skapa mér frið, þegar ellin færist yfir mig. Ef þú tekur mig að þér, þarf ég ekki að leggja á borð með mér fyrst um sinn. Og fari svo, að ég missi heilsuna, þá er nú fleira, sem grípa mætti til, en þessi eina jörð."

"Nefndu ekki annað eins á nafn. Ef þú verður farlama, hvort sem það verður fyrr eða síðar, skal ég ala önn fyrir þér upp frá þessu. Eftir brúðkaupið förum við hjónin vestur í Vatnsfjörð, - því að pabbi gefur upp búið fyrir okkur, - og þá getur þú slegist í förina, ef þér er ekkert að vanbúnaði. - Þá skiljum við ekki framar. - Er þér í raun og sannleika nokkur gleði að þessu?"

Kristín þurfti ekki að spyrja. Gleðin, sem skein út úr andliti Halldóru, var svo sönn og einlæg, að hún þurfti engra orða við. Kristín hafði fengið þá ósk uppfyllta, að geta glatt hana.

"Jæja, Halldóra mín. Þetta er afgert, og nú tölum við um annað. - Hver var það, sem fylgdi þér hingað heim að dyrunum og fékk þér komið hingað inn? Ég heyrði, að það var einhver karlmaður."

"Það var faðir þinn."

"Faðir minn? Svo -?"

"Hann heyrði til mín af tilviljun fyrir utan tjald sitt og kom út til mín. Þegar hann þekkti mig, tók hann mér eins og gamalli vinkonu og talaði alúðlega við mig eins og jafningja sinn. - Hann fylgdi mér hingað og greiddi götu mína hingað inn."

Kristín þagnaði litla stund og mælti síðan:

"Heyrðu, Halldóra mín. - Minntist hann nokkuð á Þorleif heitinn bróður minn?"

"Hann nefndi hann að minnsta kosti þrisvar á nafn, þessa litlu stund, sem við töluðum saman."

"Vesalings pabbi. Hann hefir liðið mikið. - Nefndi hann mig nokkurn tíma?"

"Já, og ætíð hlýlega."

Kristín varpaði mæðilega öndinni.

"Þú vissir öll mín leyndarmál í gamla daga, Halldóra mín, og hefir varðveitt þau vel. Úr þessu er ég vís til að fara að hlaða á þig nýjum leyndarmálum. - Í þessi tólf ár hefir staðið barátta í kyrrþey milli mín og pabba. Ég strengdi þess heit við mömmu, að ég skyldi bæta honum upp sonarmissinn, - ég einsömul. Það var í mikið ráðist fyrir mig. Og ekki leit það efnilega út í fyrstu, því þegar hann kom heim um veturinn, var hann svo yfirkominn af harmi, að hann mátti varla fötum fylgja. - Hann harmaði Þorleif, en hann hataði mig. Hann hataði mig fyrir það, að stjörnuspádómurinn skyldi hafa rætst á þennan hátt. Auðvitað vissi hann, að það var ekki mér að kenna, en hatrið bitnaði samt á mér. Hann taldi sig barnlausan, þó að hann ætti eina telpu, sem þar að auki var talin heilsulaus. Öll viðleitni mín til að mýkja hann var gersamlega árangurslaus. Ég fékk ekki svo mikið sem að nálgast hann. Ég bað hann að lofa mér að ríða með honum til alþingis um sumarið. Nærri því var ekki komandi fyrr en mamma lofaði að fara líka. Þá þóttist hann þess fullviss, að hann þyrfti ekkert að sinna mér. - Í þeirri ferð sá Jón Guttormsson mig. Ekki var um það að spyrja, þegar menn vissu, að Björn Einarsson ætti gjafvaxta dóttur, hvort hana mundi biðla skorta. Það var spurt minna um hitt, hvernig þessi dóttir væri; ættgöfgin og auðurinn gerði hana nægilega útgengilega. - Þó að ég hefði verið krypplingur, mundi einhver biðill hafa fengist. Nú, ég var það nú ekki - þakkað veri guði. Útlit mitt spillti ekki beinlínis fyrir mér. Ég reyndi eins og ég gat að ýta við tilfinningum þessa ríka höfðingjasonar úr Dölunum, og sannarlega rann hann á agnið. Það hýrnaði dálítið yfir pabba, þegar hafið var bónorð til mín fyrir hans hönd. Þetta var það fyrsta, sem mér vannst á. - Svo fór ég að Hvammi, en pabbi og mamma voru barnlaus eftir í Vatnsfirði. Pabbi leitaði sér harmaléttis í því að auka höfðingsskap sinn sem mest. Hann hafði hirð um sig að dæmi stórhöfðingja og hélt hirðskáld. Hann ól upp bjarndýr og hafði það fyrir hund. Hann lét byggja hvert hafskipið eftir annað, sum hér, sum erlendis. - Hann var ekki ánægður, nema hann bæri af hverjum manni hérlendum að rausn og höfðingsskap. En ætíð, þegar hann reið til þings eða frá, gisti hann í Hvammi. Ég held, að honum hafi ekki þótt ég sem allra lökust húsfreyja, þó að aldrei léti hann orð falla um rausn mína. Hann sá efni okkar aukast árlega, og Jón heitinn varð besti vinur hans og máttugasti stuðningsmaður á þinginu. Þann vin hafði ég þó útvegað honum. Hann smámildaðist við mig. Svo kom drepsóttin og Jón andaðist. Þá sat ég uppi sem ung ekkja, með allan auðinn, og réð gjaforði mínu sjálf að landslögum. Nú færi ég honum annan tengdason, ekki fátækari, ættsmærri eða frændfærri en hinn var. Vald okkar og auður vex að mun við þennan ráðahag. Ég sé það á pabba um þessar mundir, að honum þykir ég hafa vel valið. En samt er ekki Þorleifur enn að fullu bættur. Enn má hann varla tvö orð tala, svo að ekki minnist hann sonarins. Þó held ég, að hann sé nú kominn á þá skoðun, að hann sé ekki með öllu barnlaus."

Kristín mælti þetta allt með fjöri og glaðleik, og var auðheyrt á henni, að henni var kært að hafa fundið manneskju, sem hún gat sagt þetta allt saman við. Halldóra hlýddi á og tók innilegan þátt í gleði hennar.

"Manstu eftir þeim dökkhærða og ljóshærða, sem ég sagði þér frá, að kæmu til mín í leiðslunni?" hélt Kristín áfram. "Nú eru þeir báðir komnir. Sá dökkhærði er kominn - og farinn, en sá ljóshærði gengur nú á undan mér í kirkjuna og bíður mín þar. Áður en þessi dagur er að kvöldi kominn, verðum við orðin hjón. Hefirðu séð hann? Hann er fríður og karlmannlegur - og mér þykir svo undur vænt um hann. Ég er viss um, að við eigum skap saman, og ég er viss um, að ég eignast börn, sem líkjast honum. - Ég held nærri því, að mig sé búið að dreyma fyrir því. - Stjörnuspádómurinn hefir spáð mér mörgum afkomendum og þar á meðal mörgu stórmenni. Engan mann hefi ég séð fyrr né síðar, sem ég vildi honum fremur kjósa til að vera faðir þessa fyrirheitna stórmennis. Er ég ekki sæl, Halldóra mín, að vera nú að ganga að eiga mann, sem ég hefi jafnmikla ást á?"

"Jú, þú ert sæl, Stína mín, og ég samgleðst þér hjartanlega, - hjartanlega! Það er sælt að elska og njóta þess, sem maður elskar. - Ég óska þess af öllu hjarta, að hamingja þín haldist."

Forstöðukonan kallaði nú inn um dyrnar og sagði, að hirðstjórinn væri kominn og biði eftir brúðinni.

"Bráðum," kallaði Kristín á móti. Síðan sneri hún sér að Halldóru og mælti hljótt: "Ég hefi masað af mér tímann og gleymt blessuðum hirðstjóranum. Hann á að leiða mig í kirkjuna. Það gerir ekkert til. Hann getur beðið ofurlitla stund. Við þurfum ekkert að flýta okkur. Það verður hvort sem er ekkert gert fyrr en ég kem. Biskupinn bíður í kirkjunni með alla presta sína. Þeir hafa allir ofboð gott af því að æfa sig ofurlítið í þolinmæði. - Ég á eftir að sýna þér skrautgripina mína. Fer ekki kyrtillinn minn sæmilega? Ég hefi sjálf saumað allar rósirnar, sem á honum eru. Þess vegna þykir mér einna vænst um hann af öllu, sem ég ber. Kápuna hefir amma mín átt, Helga á Grund. Spennurnar á henni eru gerðar úr kúlum af tveim riddaraskjöldum, sínum úr hvorri riddaraættinni, Eiríks Sveinbjarnarsonar og Lofts Hálfdánarsonar. Skjaldarmerki þeirra eru grafin á kúlurnar. - Þetta belti var í fyrstu gert handa Vilborgu Einarsdóttur, konu Eiríks riddara Sveinbjarnarsonar. Síðan hefir verið bætt í það mörgum stokkum, og í síðustu utanför lét pabbi gylla það upp. - Þennan armhring hefir Þórdís, dóttir Snorra Sturlusonar borið. - Ennisspöngina mína hefir átt Þóra, kona Lofts Sæmundssonar í Odda. Steinasörvið, sem ég ber um hálsinn, gaf einhver kardínáli suður í löndum pabba, en krossinn, sem við það hangir, er gjöf til mömmu frá Margrétu Danmerkurdrottningu. Hann einn er meira virði en allt annað skraut, sem ég á, því að svörtu perlurnar eru afar sjaldgæfar. Þennan spegil gaf sýrlenskur höfðingi í Jórsalaborg pabba. Umgerðin á honum er úr sedrusviði úr Líbanonsfjöllum, og myndirnar, sem á hana eru skornar, tákna hina sjö himna með plánetunum. Hálfmánalagið á sjálfri skuggsjánni táknar eitthvað heilagt í trú þeirra Múhameðstrúarmanna. - - En nú ætla ég að sýna þér höfðinglegustu og fágætustu gjöfina, sem ég á."

Kristín gekk að ofurlitlu, silfurbúnu skríni, sem þar stóð, og bar að því lykil, sem hún bar á sér.

"Þessu skríni fær enginn maður að ljúka upp, nema ég sjálf, og ég hefi lagt svo fyrir, að það skuli leggja óopnað í gröfina hjá mér. Gettu upp á, hvað í því er. - Nei, það þarftu ekki að reyna. Þú getur aldrei upp á því. Það er spegill, sem mér þykir vænna um en nokkurn annan spegil. Líttu á. - Kannastu við þetta?"

Hún opnaði skrínið, og Halldóra hrökk aftur á bak, því að í skríninu lá - hauskúpan, sem verið hafði á borðinu hjá Kristínu, þegar hún lá veik.

"Ég æpti upp yfir mig af skelfingu, þegar ég sá hana fyrst. Nú eru mér fáir hlutir dýrmætari. Eftir að ég kom á fætur, gleymdu allir henni. En ég mundi eftir henni. - Hún er gjöf frá dauðanum. Hann er öllum höfðingjum voldugri, - eins og við höfum séð núna síðustu árin, - en hann á þó ekki annað til að gefa en þetta. Ég hefi verið trúlofuð honum, eins og þú veist, - trúlofuð honum, eins og lög gera ráð fyrir, með frænda og vina ráði. Við höfum sagt sundur með okkur, en erum þó enn þá góðir vinir. Einhvern tíma seinna vitjar hann festanna til mín, og því seinna, sem hann kemur, því velkomnari verður hann. - Þegar hamingja mín er mest, lít ég í þennan spegil. Hann heldur huga mínum frá því að ofmetnast."

"Hirðstjórinn bíður," var kallað við dyrnar.

"Já, nú kem ég," mælti Kristín og læsti skríninu í skyndi. - "Leggðu yfir mig kápuna, Halldóra mín."


3. kafli

Þegar Kristín kom fram í fremri stofuna til þjónustukvenna sinna, varð þar heldur en ekki uppi fótur og fit. Allar þurftu þær að skoða hana hátt og lágt, og fæstar gátu stillt sig um að taka á henni, eins og þær væru að fullvissa sig um, að þær sæju manneskju, sem væri hold og blóð eins og þær. Allar stóðu þær orðlausar af undrun, og ekkert heyrðist annað en aðdáunar-andvörp. - Forstöðukonan leit einna skarpast eftir því, að allt væri nú eins og það ætti að vera utan á brúðinni. Það var sem gæti hún ekki varist ríkum grun um það, að þessi fátæklega klædda alþýðukona, sem hún gaf illt auga, hefði glapið brúðina svo, að hún hefði gleymt einhverju áríðandi, eða jafnvel gerst helst til fingralöng eftir einhverjum af dýrgripum hennar. - Þegar hún fann enga ástæðu til umkvörtunar, stjakaði hún öllum stúlkunum frá brúðinni, en lét litlu telpurnar, sem vera áttu brúðarmeyjar, raða sér upp á bak við brúðina, tylla gómunum teprulega að kápufaldi hennar og halda honum uppi. Brýndi hún þá að lokum heldur alvarlega fyrir þessum litlu meyjum, hvernig þær ættu nú að ganga, svo að best færi á, á eftir brúðinni, og bera uppi kápufald hennar, og loks í kirkjunni, er hún kæmi inn að altari, taka við kápunni af henni, en leggja hana svo aftur yfir hana, er hún gengi út. Telpurnar játuðu öllum þessum lærdómi, blóðrjóðar af feimni.

Fyrir utan stofudyrnar stóð hirðstjórinn og beið brúðarinnar. Hann var í mesta viðhafnarbúningi sínum, sem vænta mátti, er hann hafði valist til slíkrar virðingar. Var hann í lifrauðum kyrtli úr silkiflosi, mjög búnum og gullsaumuðum, gyrtur logagylltu belti, og hékk við það gullbúið sverð. Að neðan var hann í aðskornum silkihosum, sem féllu fast að öllum vöðvum, með silfurspennta skó og gyllta spora. Kápan hékk laus yfir herðarnar og var fóðruð með dýrum loðskinnum. Á höfði bar hann húfu úr heiðbláu silkiflosi, og blakti á henni stór, drifhvít strútsfjöður. Hann laut brúðinni hæversklega á hirðmannavísu og bauð henni arm sinn til stuðnings.

Það var sem sólin hefði skreytt Inn-nesin fegursta skrúða sínum þennan dag, brúðkaupinu í Viðey til virðingar. Öllum þeim regnskýjum, sem sumarlangt þekja að jafnaði þennan mesta illviðra-afkima veraldarinnar, var svipt hátíðlega til hliðar, og láð og lögur baðaðist í blíðu og heitu sólskini. Fjöllin undir sól að sjá stóðu sveipuð myrkblárri hitamóðu, og Esjan að baki brúðfararinnar, sem sólin skein beint framan á, skipti fagurlega litum. Uppi á landi skinu græn túnin í grýttum holtunum, eins og auð og frjósöm rjóður í skógi, þar sem allir stofnarnir voru af steini. Blærinn, sem andaði, var á norðan, - hreinn og andsvalur fjallablær, kominn langa leið norðan af auðu íshafinu, yfir heiðar og jökla, og hafði skilið síðasta sorann eftir á Skarðsheiðinni. Hann náði varla ofan á sjóinn í hlé við eyna. Þar speglaðist sólin í blíðlygnu sundinu, og skip Bjarnar riddara lágu sem greypt í gler. - En það fegursta og göfugasta, sem sólin skein á í Viðey þennan minnisstæða dag, var brúðurin sjálf. Fyrst er hún kom út í sólskinið, naut fegurð hennar og prýði sín til fulls. Dýrgripir þeir, sem hún bar, stráðu geislum út frá henni, og af augum hemnar var sem stæðu geislar ástúðar og alúðar, hamingju og hjartanlegrar manngæsku, göfuglyndis og höfðingsskapar.

Mannfjöldinn hafði skipað sér í tvær raðir, beggja megin við þá götu, sem brúðinni var ætlað að ganga til kirkjunnar. Þar var hverjum manni nákvæmlega til rúms skipað. Næst dyrunum stóðu þeir, sem næstir brúðinni áttu að ganga. Var það faðir brúðarinnar, ættingjar hennar, þeir er við voru, og aðrir virðingamenn. Síðan skyldi bætast við brúðfylgdina frá báðum hliðum, þannig að þeir, sem fjarst stóðu klausturdyrunum, yrðu síðastir til inngöngu í kirkjuna, - ef þar yrði þá nokkurt rúm fyrir þá.

Klausturbræðurnir höfðu ráðstafað því svo, brúðinni til virðingar, að himinblátt klæði var breitt á götu hennar alla leið frá klausturdyrunum út að kirkjudyrunum, svo að hvergi stigi hún á bera jörð. Voru hinir yngstu í klaustrinu og þeir, sem lægstir voru að vígslum, látnir annast það. Röktu þeir sundur hvern klæðisstrangann af öðrum fram undan fótum brúðarinnar og föruneytis hennar, en aðrir stráðu á klæðið laufguðum víðikvistum.

Þegar brúðurin hóf göngu sína frá klausturdyrunum, kváðu við klukkurnar í stöpli klausturkirkjunnar. Voru þær tólf að tölu, mismunandi að stærð og hljómi, og gerðu allmikinn hávaða. Var hringingin að heyra sem fjörugur hljóðfærasláttur. Hinar meiri koparklukkur drundu undir með þungum og alvarlegum hreim, máttugar og dimmar eins og dómsbásúnur, en yfir þeim hringdu bjöllurnar ótt og títt, með hvellum og gjöllum hljómi. Var sem tónarnir hoppuðu þar og lékju sér, eins og vatnshögl í gosbrunni. Allt rann að lokum saman í hljómþýðan, hrífandi klið, sem snart menn töfrasprota og kveikti í þeim líf og gleði.

Brúðförin þokaðist hægt og hátíðlega áfram, aðeins fet fyrir fet. En þegar hún var komin miðja leið til kirkjunnar, gengu út úr kirkjunni sex menn, klæddir skósíðum munkakuflum, en að ofan skrýddir messuskrúða eftir vígslum og virðingum. Þegar þeir mættu brúðinni, röðuðu þeir sér til beggja handa og hófu brúðsöng á latínu, með upplyftum höndum. Var sem brúðförin gengi þar undir hvelfingu af blessandi munkahöndum. - Í kirkjudyrunum stóð Vilchin biskup í öllum biskupsskrúða, með bagal og mítur, og ábótinn hjá honum. Þegar brúðurin hafði náð þangað við hlið hirðstjórans, tók biskupinn undir hönd hennar hinum megin, og leiddu þeir - mestu valdamenn landsins - hana á milli sín inn eftir kirkjugólfinu. Þá stóð kirkjupresturinn frá Skálholti alskrýddur fyrir háaltari, með tvo messudjákna sér til aðstoðar, því að sú virðing hafði fallið honum í skaut að vígja saman brúðhjónin.

Á miðju kirkjugólfinu hneigði öll brúðfylgdin sig djúpt fyrir krossinum með blóðugri mynd frelsarans, sem hékk yfir kórdyrum. Því næst var brúðurin leidd til innsta sætis hægra megin, en beint þar gagnvart hafði brúðgumanum verið fylgt til sætis. Það var síðasti áfangastaðurinn inn í hið allra-helgasta, þar sem þau áttu að leggja hendur saman, skiptast á hringum og allur prestaskarinn að leggja blessun sína yfir samband þeirra.

Klausturbræðurnir komu nú inn frá dyrum skrúðhússins og skipuðu sér í kórinn. Altarisbjöllum var hringt, reykelsiskerum var veifað, og hið heilaga, eldgamla brúðarljóð frá dögum gamla testamentisins, borið fram af sterkum og vel æfðum munkaröddum, fyllti kirkjuna af hátíðlegum hreimi. -


4. kafli

Brúðkaupsveislunni í Viðey var svo sem ekki lokið á einum degi. Í marga daga var setið þar að drykkju og alls konar mannfagnaði. Þó kom þar að lokum, að veislan var á enda, og boðsgestirnir fóru annaðhvort hver heim til sín eða fóru að sinna öðru.

- Eitthvað tveim vikum eftir veisluna lágu skip Bjarnar riddara Einarssonar ferðbúin inni í Hvalfirði. Þangað höfðu þau verið flutt, til þess að hægra væri að draga að þeim varninginn, sem utan átti að flytja. Þurfti að flytja hann til skipanna af eignum Bjarnar og vandamanna hans um Borgarfjörð og Dali og víðar að, því að víða stóð fé þeirra fótum. Einnig þurfti að flytja álitlegan farangur til skipanna austan úr Skálholti, því að Vilchin biskup tók sér og föruneyti sínu far hjá riddaranum.

Þrjú hin smærri skipin voru þegar tilbúin og lögð frá landi. Héldu þau hægt út fjörðinn og biðu þess að verða höfðingjaskipinu samflota út úr firðinum.

Hafskipinu hafði verið lagt að landi þar, sem aðdýpi var gott, svo nálægt sem það gat flotið að skaðlausu. Voru festar til lands úr báðum stöfnum, en miðskipa var tildrað upp bryggju á land. Allur farangur var á skip borinn og búið að gera þiljur vatnsheldar. Menn voru önnum kafnir við að svipta tjöldum þeim, er sett höfðu verið á landi, og kveðjast. Loks gekk Vilchin biskup um borð með klerka sína. Hann nam staðar á bryggjunni og bað fyrir skipinu með upplyftum höndum. Síðan steig hann á skip og gekk til lyftingarinnar. Þar næst gekk föruneyti Bjarnar riddara á skip. Sigurður fóstri bar á skipið hörpu þá hina fögru, sem átt hafði Grundar-Helga og fleiri í ætt riddarans. Var hann hinn glaðasti og lék við hvern sinn fingur, svo að vænta mátti, að ekki mundi ljóð skorta, er tóm gæfist á að hlýða.

Skammt frá bryggjunni stóðu þau hjónin, Kristín og Þorleifur, og Halldóra hjá þeim. Kristín var nokkru fölari en hún hafði verið á brúðkaupsdegi sínum, en svipmikil og sköruleg sem ætíð. Sveipaði hún feldinum fast upp að vöngum sér, og bar því meira á andlitsbjartleik hennar. Áður en Björn riddari gengi um borð, gekk hann til þeirra til að kveðja þau.

"Hér er, dóttir mín, bókfell, sem ég vil fela þér til geymslu," mælti hann og rétti Kristínu samanvafinn stranga með við hengdum innsiglum. "Það er erfðaskrá mín, og má ekki opna hana fyrr en öll von er úti um það, að ég komi til Íslands aftur."

"Þá vona ég, að hún verði ekki opnuð fyrr en þú opnar hana sjálfur," mælti Kristín.

Björn riddari brosti þreytulega:

"Það er langt héðan til Jórsala, dóttir mín, og víða þarf við að koma. Margt getur að höndum borið á svo langri leið. - Geymdu bréfið vandlega, hvað sem öðru líður. Það var gert hér í morgun, og mætir menn settu fyrir það innsigli sín ásamt mér. Fylgdu því fast fram, dóttir, að allt, sem þar stendur, verði haldið, ef það kemur undir þín ráð."

"Já, faðir minn. Það skal ég gera."

"Komi ég aftur og beri gæfu til að opna þetta bréf sjálfur, geri ég kannske aðra skipun á um eitthvað. Nú er of snemmt að gera ráð fyrir því. - Einhvern veginn leggst það þó í mig, að ég eigi beinin að bera hérna í Hvalfirði. Mér hefir hann löngum fagur fundist. En hugboði einu skyldi enginn maður treysta. Færi svo, er réttast að flytja mig í Skálholt til greftrunar, þó að ég hafi áður kosið mér legstað í Vatnsfjarðarkirkju."

"Ég skal einnig hafa það hugfast."

"Vertu nú sæl, og guð sé með þér!"

"Vertu sæll, elsku pabbi minn, og guð fylgi þér! Heilsaðu elsku mömmu hjartanlega, sem ég vona, að þú hittir í Noregi," mælti Kristín um leið og hún minntist við föður sinn. Síðan bætti hún við í lægri róm: "Og þegar þú kemur aftur, ætla ég að vera búin að bæta þér Þorleif að fullu."

Björn riddari hristi höfuðið og mælti raunalega:

"Það getur þú aldrei, dóttir mín."

"Segðu það ekki, pabbi. Mundu það, að ég er hækkandi stjarna. - Ég á enn eftir að hækka."

Björn riddari svaraði engu. Hann flýtti sér að kveðja tengdason sinn, og svo Halldóru, og gekk síðan fram á bryggjuna.

"Hvar er nafni þinn?" kallaði Kristín á eftir honum. "Ætlarðu ekki að hafa hann með þér?"

"Ég ætlaði að reyna að stelast frá honum," mælti riddarinn. "Það er erfitt að fæða jafnstórt dýr úti á hafi, og biskupinn og menn hans eru hræddir við björninn. Ég gaf honum heilan kindarskrokk að fást við, og hann er nú hér fyrir ofan leitið. Verði hann eftir, vona ég að þú annist hann, og verði hann illur viðfangs, lætur þú drepa hann. - En muni hann eftir mér og nái í skipið, tek ég það sem fyrirboða góðrar ferðar."

Björn gekk nú um borð, og voru festar leystar. Skipið seig hægt frá landi fram á fjörðinn. Byrlítið var við landið, svo að segl komu ekki að haldi, og varð að róa skipið fram á fjörðinn undir byrinn. Veður var hið blíðasta.

Þegar ró komst á á þilfarinu, greip Sigurður fóstri til hörpunnar og söng undir við raust. - Mjúkir og mildir tónar endurómuðu frá fjöllunum beggja megin fjarðarins.

Hann söng kvæði það, sem hér fer á eftir:

Blær af heiðunum bröttum líður,
blæs í voðina hvíta.
Fjörðurinn blikar blár og fríður,
bjart er til hafs að líta.
     Fögur eruð þið, Íslands fjöll,
     þótt ykkur vinurinn hafni.
     Borgirnar frægu brosa mér fyrir stafni.

Uppi á strönd er brugðið búðum,
breikkar sund frá landi.
Hafsins glampar hoppa á súðum,
hert er á hverju bandi.
     Fögur eruð þið, Íslands fjöll,
     þótt ykkur vinurinn hafni.
     Borgirnar frægu brosa mér fyrir stafni.

Blárra hnúka hringur lítur
hátt og kveðju sendir.
Snæfells-ásinn ítur, hvítur,
yst við djúpið bendir.
     Fögur eruð þið, Íslands fjöll,
     þótt ykkur vinurinn hafni.
     Borgirnar frægu brosa mér fyrir stafni.

Hafið laðar, lokkar, dregur,
lyftist bjart í hilling.
Breiddur er gamall víkingsvegur
vonanna sólskinsgylling.
     Fögur eruð þið, Íslands fjöll,
     þótt ykkur vinurinn hafni.
     Borgirnar frægu brosa mér fyrir stafni.

Strendur fyrir handan hefjast,
helgaðar kærum sögum;
ódauðlegum orðstír vefjast
frá okkar feðra dögum.
     Fögur eruð þið, Íslands fjöll,
     þótt ykkur vinurinn hafni.
     Borgirnar frægu brosa mér fyrir stafni.

Lundar fyrir handan hefjast
helgaðir guðdómssögum.
Tignir í skýjum turnar vefjast,
titra af klukknaslögum.
     Fögur eruð þið, Íslands fjöll,
     þótt ykkur vinurinn hafni.
     Borgirnar frægu brosa mér fyrir stafni.

Hugurinn lengra, lengra flýgur
léttur á himins vindum.
Fram úr blárri fjarlægð stígur
fjöld af þráðum myndum.
     Fögur eruð þið, Íslands fjöll,
     þótt ykkur vinurinn hafni.
     Borgirnar frægu brosa mér fyrir stafni.

Jórsalir hefjast hátt í ljóma.
Hóglega Jórdan niðar.
Hlýlega býður heilaga Róma
heim til gleði og friðar.
     Fögur eruð þið, Íslands fjöll,
     þótt ykkur vinurinn hafni.
     Borgirnar frægu brosa mér fyrir stafni.

Heilaga móðir, götu greið oss
gröfina helgu' að finna.
Heilagi Jakob, heila leið oss
til heilagra beina þinna.
     Fögur eruð þið, Íslands fjöll,
     þótt ykkur vinurinn hafni.
     Borgirnar helgu brosa mér fyrir stafni.

Ómurinn af söngnum fór dvínandi eftir því sem skipið fjarlægðist. Loks dó hann út með öllu, og ekkert heyrðist til skipsins annað en áratökin.

Þá heyrðist skerandi ýlfur sem í hundi. - Bjarndýrið kom í löngum stökkum yfir leitið og henti sér í sjóinn. Þreklegur, hvítur haus, með kolsvörtum grönum, risti sjóinn út að skipinu, og bráðum sást langur og loðinn búkur, með alla hramma útþanda, klifra upp skipshliðina. Björn riddari tók á móti nafna sínum við borðstokkinn og klappaði honum vingjarnlega. Bangsi hristi af sér vatnið á borðstokknum og stökk svo inn á þilfarið.

Það var harpa Sigurðar fóstra, sem hafði kallað hann frá hinni ljúffengu máltíð.

Kristín horfði á eftir skipinu, og augu hennar fylltust af tárum. Ekki minntist hún þess, að faðir hennar hefði minnst við hana fyrr en nú. Nokkuð var hún því á veg komin til að bæta honum sonartjónið. Löngum hafði hún ferðast með honum í huganum langt út í lönd. Nú hafði henni staðið ferðin til boða, en hún hafnað henni til að njóta ástar sinnar og heimilishamingju, og - ef guð vildi unna henni þess - fullkomna heit sitt. Það síðasta, sem hún sá til skipsins, var það, að Sigurður fóstri sló hörpuna á þilfarinu og björninn dansaði.

Þá þurrkaði hún af sér tárin, sneri sér að manni sínum og mælti glaðlega:

"Nú höldum við heim í Vatnsfjörð og tökum við búi og mannaforráðum. Þar bíður okkar mikið verk." -




Netútgáfan - ágúst 1999