Hann var fæddur rétt fyrir innan búðarborðið, hann séra Sölvi, svo það sýndist að forsjónin hefði ætlast til að hann yrði kaupmaður eins og pabbi hans. Séra Sölvi hefði líka verið handviss með að geta verið kaupmaður, eins þarfur, réttlátur, mannúðlegur og sannsýnn og kaupmenn almennt eru. En móðir hans var prestsdóttir, - það gerði strikið í reikninginn - og vildi eðlilega, að drengurinn yrði prestur, því það er líka lífvænleg staða og ekki svo örðug né vandasöm og margir halda, hún vissi það af reynslunni, dóttir hans séra Sölva sem var fjölda mörg ár prófastur, bara fyrir það hvað hann var ríkur og góður búmaður.Nú var séra Sölvi yngri orðinn prestur í dal einum upp til fjalla, var kominn vel í álnir bæði að löndum og lausafé, þótti af mörgum góður kennimaður og andríkur, þegar hann var með sjálfum sér. Einkum þótti hann sérlega heppinn með tækifærisræðurnar, það vildi líka oft svo til að líkræðurnar voru eftir þá menn, sem voru vel til þess kjörnir, að vera gylltir og lofaðir eftir dauðann.
Svo einn vetur á jólaföstunni, lagðist kýr í doða hjá prestinum, vinnumennirnir voru ekki heima; það var send stúlka út að Stekk, til Árna og hann beðinn að sækja meðul til homopatans - það var náttúrlega homopati í svo góðri sveit -. Árni var harðgjör maður, en ekki hraustur fyrir brjósti, brá líka undir eins við og hljóp á stað, færið var argvítugt, hann þurfti að kafa skíðalaus; sjálfur átti hann þau engin, og presturinn hafði ekki sent skíðin sín. Það var hálf önnur míla frá Stekk og þangað sem homopatinn var, og það munar um að kafa hálfa aðra mílu aftur og fram í fannfergi, fyrir þá sem eru óhraustir fyrir brjósti.
Árni var allur í svitalöðri þegar hann kom með meðulin, en það var kalt í frambaðstofunni prestsins, svo honum svalaði heldur fljótt, það setti að honum hroll meðan hann át brauðið og fiskinn. Árna gat hreint ekki hitnað á heimleiðinni, hafði aldrei fundist eins langt út að Stekk og þá; hann var lengi á leiðinni og bæjarleiðin var þó örstutt.
Frá þessum degi leit Árni aldrei glaðan dag, lagðist um jólin í brjóstveiki og í fyrstu viku þorrans var prestur sóttur til að þjónusta hann, en þegar til kom gat Árni aðeins dreypt á víninu, þurfti að herða sig til að koma niður oblátunni. Hann var svo sáraumur að hann velgdi við öllu sem hann átti að neyta. En Árni var harður fram í dauðann, með seinustu kröftum hafði hann það niður. Prestur fór strax og búið var, drakk bara sætt kaffi, stakk á sig þriggjapelaflösku sem konan gaf honum, reið í einum spretti heim, góðglaður og frískur, því færið var ágætt og vínið afbragð. Hálfum tíma eftir að prestur fór dó Árni.
Séra Sölvi jarðsöng Árna, og hélt eina þessa góðu líkræðu, sem honum var svo eiginlegt; á einum stað í ræðunni sagði hann: "Þér vitið allir, elskulegu syrgjendur, hve skyldurækinn Árni sálugi var, hve dyggilega hann stríddi í að ala önn fyrir sinni ástkæru konu og blessuðum börnunum fjórum, er hér sitja svipt forstöðu hans; þau sitja í síðasta sinni hjá elskuðum föður, og allir í þessu sorgarhúsi syrgja með þeim hinn sofnaða sæla meðbróður vorn. - En sorg móðurinnar og barnanna er þyngst og sárust, því hinn látni meðbróðir vor hafði orðið þeirrar náðar aðnjótandi að veita þeim alla elsku og aðstoð er hann átti til. Almáttugur guð veitti honum af einskærri náð sinni og mildi þrek til að vinna fyrir sér og sínum meðan dagur vannst. Fyrir sína ástkæru konu og elskuðu börn sleit hann lífskröftum sínum, fyrir þau vann hann með sinni einstöku elju, sparsemi, ráðdeild og sannri fyrirhyggju meira en hin hrörlega líkamsbygging vorr vesælla manna þolir. Ég segi naumast of mikið, þótt ég segi það, að hinn látni bróðir vor er hér hvílir, hafi af ást til eiginkonu og barna sinna; þeirri ást, er góður guð einn getur veitt, og vill veita, sínum trúu þjónum; lagt svo hart á sig, að fyrir það hafi hans ævistundir orðið færri en ella, því banamein hans var efalaust of mikil áreynsla og þreyta. Og sæl er sú minning fyrir hina sárhryggu ekkju hins liðna og blessuð börnin þeirra, að vita það, að guð veitti sínum dygga þjóni þá náð, að fórna svo að segja sjálfum sér fyrir þau sem hann elskaði heitast hér í heimi. - Já, guði einum og þríeinum sé lof og prís, fyrir allt sem hann lætur oss að höndum bera, hvort það er heldur blítt eða strítt."
Þegar ekkjan fór af stað um kvöldið, kallaði hún prest á einmæli og sagði við hann:
"Ég ætla að biðja yður, prestur minn góður, að segja mér hvað þér eigið hjá mér fyrir öll yðar ómök og fyrirhöfn, mig langar að borga það núna."
"Það er nú ekki stórvægilegt Anna mín, ég læt yður hafa það eins og yður sýnist, þér ætlið að hafa það eins og maðurinn yðar sálugi var vanur, ekki þurfti ég að eiga hjá honum með jafnaði. H-m. Hm - þér ráðið því alveg, það er ekki stórvægilegt."
"Hérna, prestur minn góður, eru fimm ríkisdalir sem ég ætla að biðja yður að þiggja, það er kannski of lítið fyrir allt sem þér hafið gert, en ég hef ekki meira til núna."
Anna kvaddi prest með tveimur alúðar kossum.
"Þakka yður fyrir, og guð veri ætíð með yður, Anna mín."
Séra Sölvi stakk dölunum í buxnavasa sinn, hægt og gætilega, kinkaði ofurlítið kollinum, svipurinn var sléttur og blíður. Börnin hennar Önnu komu og kvöddu. Presturinn kyssti þau innilega eitt eftir annað, stakk svo hægri hendinni niður í buxnavasann. - Örlítill hljómur. Þeir voru ekki hljóðlausir þessir fimm silfurdalir ekkjunnar á Stekk.
Nei, Árni á Stekk hafði aldrei hrokkið til við séra Sölva með að græða, hafði ekki roð við honum; kunni ekki lagið á því að klófesta dalina, fékk ekki svipað því eins vel borgaðar sínar ferðir og presturinn, hvernig sem hann gekk að sér og löðraði í svita. Hafði ekkert fyrir vínið sem hann veitti prestinum, ekkert fyrir þó hann léti svangan ferðamann fá væna flatköku og smjör og slátur með henni; slæddi aldrei í kringum það, hafði ekki nokkurn tíma hugkvæmst þess háttar, hafði svo gaman af að gefa, datt ekki greiðasala í hjartans hug, auk heldur að hann reyndi að ná í einkaleyfi til að selja.
En séra Sölvi náði í einskonar einkaleyfi, og kunni mætavel að nota það, kunni réttu tökin á skildingunum; honum varð fé úr öllu, gat með lagi fengið peninga fyrir eina teskeið af messuvíni og oblátuplentu.
Það var ekki til neins fyrir Árna á Stekk að reyna þetta við prestinn. Séra Sölvi strokaði sig greinilega áfram, var svo handviss; en Árni gat aldrei séð hvernig hann gæti komist á strikið, líklega fyrir það hvað hann var menntunarlaus.
Þetta var þaulreynt milli þeirra á lífsskeiðinu, klerkurinn fór á klára góðgangi fram úr Árna; eins og að drekka. Hann hafði líka byrinn á eftir sér; en því vék nú svo óþægilega við með Árna, að það var eins og hann þyrfti ævinlega að berja upp í vindinn.