Læknirinn vaknaði við að kallað var á gluggann.Hann var orðinn alvanur því, að sofa bara með öðru auganu og búast ævinlega við að verða rifinn upp á hverri stund næturinnar.
Rétt á eftir riðu þeir báðir af stað, Þorleifur læknir og sá sem sendur var eftir honum.
Það var nýársnóttin fyrsta, og kafþykkt loft, svo hvorki sást til tungls né stjarna; veður var kyrrt og duttu annað veifið dauðafjúk úr lofti, lognsnjór nokkur og þúfnahlaup; sást varla hvar maður sté fæti sínum og var frámunalega seinfarið þó ekki væri fannfergið.
"Er færið svona helvítlegt alla leið, ekkert skárra þar fremra?"
"Nei, miklu meiri snjórinn - þeir lögðu á stað á skíðum; þar var ómögulegt að koma hesti við."
Hestarnir voru búnir að drekka úr læknum og síðan var haldið áfram.
"Í þessari andskotans ófærð og myrkri kemst maður ekkert; hann verður steindauður áður en ég kem."
"Meira þori ég ekki að bjóða hestunum meðan við erum í móadjöflunum."
"Ég býst við það hjálpi ekki; en ertu viss að rata - það væri nú ekki annað eftir en að hundvillast í alla nótt."
"Það vonast ég eftir, að ég hafi mig slysalaust heim, ef ekki versnar."
Þeir sem lækninn sóttu voru tilbúnir í Ámóti þegar hinir komu. Þorleifur drakk nýmjólk, annar fylgdarmaðurinn snaraði á sig hnakktöskunni; svo stigu allir á skíðin.
"Nú er klukkan átta, verðum við komnir klukkan ellefu frameftir ef ég duga að ganga?" Þorleifur stakk niður klukkunni.
"Það liggur mér við að vona," sagði annar fylgdarmaðurinn.
Þegar þeir áttu eftir rúma mílu heim að Stekkjarvelli, skall yfir sunnanveður með kafrenningi; skíðin þokuðust ekki móti veðrinu, svo þeir urðu að draga þau eftir sér, sá sem töskulaus var dró líka læknisskíðin; en þessi míla þreytti þá alla, staðþreytti lækninn, sem var óvanastur þeirra skíðagöngunni.
Loks komust þeir þó heim að prestsetrinu.
Þorleifur riðaði af þreytu þegar þeir komu inn í bæjardyrnar og meðan heimamenn drógu af honum snjóklæðin. Ljósið iðaði með marglitum geislabaug umhverfis, að honum sýndist, fyrst eftir að hann kom inn.
Svo jafnaðist það.
"Kvalahviðurnar óþolandi segir þú." Læknirinn beindi orðunum að prestinum meðan seinni sokkurinnn var dreginn af honum.
"Já, jafnt og stöðugt - ég er hræddur um að hann sé skaðmeiddur innvortis," svaraði séra Gissur.
Læknirinn fór rakleitt til sjúklingsins og fór að skoða hann sem nákvæmast; Gísli hlaut að æpa af kvöl við rótið. Það var, eins og menn vissu áður, brotinn hægri fóturinn ofan við hnéð. Umbúðirnar, sem við höfðu verið settar, voru að engu liði og blástur kominn í fótinn; en læknirinn fann líka, að tvö rifin voru brotin, og það helst rétt við hrygginn, þar mátti samt lítið koma við, Gísli þoldi það ekki.
Þorleifur talaði fátt, en fór að setja umbúðir við fótbrotið, svitinn hrundi niður eftir andlitinu og hendurnar voru óvanalega óstyrkar og riðandi, hann beit fast saman framtönnunum, og það sem hann skipaði þeim fyrir, sem hjálpuðu honum, var svo áhersluhart, undarlega þurrt og stutt, að sá maðurinn, sem dálítil kynni hafði haft af lækninum áður, leit undrandi til hans hvað eftir annað.
Kvölin rénaði í fætinum eftir umbúnað læknisins; en þess betur fann Gísli þá til þrautanna undir síðunni og fyrir brjóstinu.
Klukkan var orðin fjögur um nóttina þegar Þorleifur loksins lagði sig til svefns, eftir að hafa skipað að vekja sig ef Gísla versnaði og að öðru leyti sagt þeim fyrir sem vöktu.
Séra Gissur svaf frá því klukkan tólf um kvöldið, föstum og værum svefni eftir dagsverkið sitt.
Prestskonan vakti yfir Gísla húsmanni og lækninum var vísað til annars rúmsins í hjónahúsinu.
Hann gat ekki sofnað strax; ofþreytan, áhyggjan um sjúklinginn og blóðólgan héldu vöku fyrir honum um stund.
En klerkurinn svaf og hraut og rumskaði aldrei.
Vökumennirnir þorðu ekki annað en vekja Þorleif á sjötta tímanum, Gísli hafði fengið eitt kvalakastið.
Það var ekki snemma sem þeir settust að morgunverði séra Gissur og Þorleifur; og þeir voru heldur ekkert sérlega líkir þar sem þeir sátu andspænis. Þorleifur hár og grannur og fölleitur, dráttaskýr í andliti, brúnamikill, dökkur á hár og skegg og hæruskotið hvort tveggja, beinaber og holdskarpur, hvasseygur og svaraskjótur. Hins vegar séra Gissur meðalmaður á hæð, gildvaxinn og selfeitur; bjarta, breiða andlitið var slétt, jafnt og mjúkt; fölrauða skeggið breiddist göfuglega niður á bringuna; skallinn aftur á hvirfil skein mjallhvítur og gljáandi, en hárkögurinn neðan við hrökk í ljóslitaða vingjarnlega smáhringa. Hann var bláeygur og augnatillitið fast og rótt; spangaljósu, stóru gleraugun, sem samsvöruðu svo sérlega vel þessu bjarta stillilega höfði, gerðu hann líka enn öldungslegri og bjartari.
"Hugsarðu til að fara nokkuð í dag?" Klerkurinn talaði hægt, var nærri því dragmæltur.
"Ekki mætti ég fara frá honum ef nokkuð væri hægt að liðsinna - en hvað á að segja - það lágu fjórir dauðvona í taugaveiki í Hákoti þegar ég fór og því má ég til."
"Veikin ekki útbreiðst samt?" Og séra Gissur færði stólinn sinn ósjálfrátt ofurlítið fjær.
"Ekki þegar ég fór."
Presturinn tók sér eitt staup úr vínflöskunni, skar sér vænan steikarbita, færði hann yfir á diskinn sinn, skar hann þar sundur í smábita, svo fór hann að tína bitana með gafflinum og fór að engu ótt. Þorleifur var áseilnastur við mjólkina og drakk stórum.
"Er hann fátækur, þessi Gísli?"
"Já, hann hefur aldrei átt nema fötin utan á sig og oftast reiðhest, en er þó ágætlega vinnandi."
"Einhleypur?"
"Já, því fer nú betur. - Ertu ekki hræddur um hann?"
"Lífið er í hangandi hári," Þorleifur talaði lágt og leit alvarlega til séra Gissurar.
"Þetta var voðabylta - hesturinn datt með hann hérna á hólnum og ofan á hann -- það var hrapallegt, í þetta sinn sýnist hestalán Gísla að hafa brugðist."
"Það verður að hafa verið - ég er hræddur um hann."
"Og guð veit hvernig hann er undirbúinn ef hann burtkallast."
Osturinn og brauðið ætlaði að hrökkva ranga leið ofan í lækninn; hann saup á mjólkurglasinu og það lagaðist.
"Hvað er um það?"
"Hann virðist vera einn af þessum efatrúarmönnum, sem alltaf fjölgar."
"Hm, ja, bara það?"
Borðhaldið var búið.
Gísli óskaði eftir að mega tala við lækninn, hann var með hressara móti.
Þorleif furðaði á þeirri ró, sem var yfir sjúklingnum; hann lá hvítfölur og starði alvarlega og rótt á hann.
"Ég þoli það svo vel, að þér segið mér afdráttarlaust og eins og er, hvort hér er um líf eða dauða að gera; ég hef auðvitað elskað lífið, en þoli þó ofboð vel að stíga fetið yfir um."
Við þessu hafði Þorleifur ekki búist. Hann sá að Gísli var alveg með sjálfum sér, að honum var bláber alvara; hér var ekki hálfleiki eða undanfærsla nema til hins verra.
"Það er ekki hægt að segja yður neina vissu; ég sé það ekki. Síðumeiðslið er hættulegt; það þarf alla varkárni. - Ég vona, en óhræddur er ég ekki. Og því er verr og miður að ég má til með að fara heimleiðis í dag og þó nauðugur; mín bíða dauðvona sjúklingar heima."
"Já, við því er að búast, og þó hefði ég vijað hafa yður til að bækla upp á mig ef mögulegt væri -- En svo er ekki um það að tala; yðar verksvið er svo, að þér megið til að hlaupa milli þeirra, sem dauðvona eru og sjá að þér örsjaldan hafið tíma til að gera það sem þér þó gætuð. - Ég veit það er ekki sem hollast að tala, en mér er sama um það - eða það verður að hafa það - Mér er ómögulegt að þegja nú - skal gera það seinna."
Þorleifur stóð steinhissa; svona hafði hann ekki vanist að sjúklingar töluðu; hann þóttist sjá að Gísli taldi sér vísan dauðann, að hann vildi eitthvað segja, sem hann hafði byrgt inni áður.
"Þér megið tala, en aðeins áskil ég að þér talið hægt og hvílið yður; lífið hefur þó heldur yfirhönd ennþá sýnist mér."
"Ég vildi gjarna að séra Gissur væri hér líka og ekki aðrir - viljið þér gera það?"
Séra Gissur kom. Læknirinn gaf Gísla inntöku og settist á stól við rúmið; klerkurinn hafði strax tyllt sér niður á sessustólinn.
"Þér vitið það, séra Gissur, að ég hef ekki verið mjög messukær. Yður kann að hafa þótt það miður; heldur viljað hitt - en það verður ekki afturtekið... Ég ætlaði líka að segja nokkuð annað en að afsaka það. Sjáið þér til, mér hefur dottið margt í hug milli kastanna. Það hefði ekki verið vandinn á fyrir mig að ná prestsþjónustu; ekki þó ég hefði verið á fjarsta bænum í sókninni hvað þá á heimilinu; presturinn á ekki svo annríkt og umdæmið er ekki svo stórt; en það eru ekki margir nú farnir að ónáða prest til þess. En það var ekki hægt að ná lækni nema í ótíma og hann þarf að fara til annarra, sem líka eru að berjast við dauðann; hans umdæmi er of stórt, hann hefur of mikið að gera, en þér of lítið - mikils til of lítið -- ."
Gísli þagnaði, hann var orðinn þreyttur af að tala.
Séra Gissur sat rauður en eins kyrrlegur og vandi hans var til.
"Yður versnar er ég hræddur um, Gísli minn, við að reyna svona á yður; en eins og þér vitið, stendur meir á öðrum en mér með messurnar; - ég hef oft beðið til guðs, að það gæti breyst til batnaðar og vona það líka alltaf."
Læknirinn var búinn að gefa Gísla inntökuna og starði á klerkinn.
"Það er svo auðséð tímans tákn, að þýðingarlaust virðist að vera að berjast á móti því, að prestarnir hafa lítið að starfa. Fólkið vanrækir kirkju og kreddur, vill sjálft ráða hverju það trúir; aðhyllist ekki lengur í blindni leiðtogann, sálusorgarann. Sumir auðvitað nenna ekki til kirkju en eru þó trúmenn í orði kveðnu og meinilla við trúleysi og byltingar eins og eðlilegt er um þá. Svo eru mannfundir og samkomur miklu fleiri nú en var og þeir sem fara til að sýna sig og sjá aðra geta fullt svo vel fellt sig við samkomurnar. Hefði ekki "ballið" verið á gamlárskvöld er vísast það hefði orðið messufært á nýársdag. - Já, æskan þarf að leika sér, og enginn þarf að undrast það; en svo getur það heldur ekki ætlast til að því verði hælt fyrir kirkjurækni. - Það þarf fleiri lækna og færri presta. Það þarf að jafna verkinu milli þeirra; drepa ekki annan á erli og vosi en hinn úr offeiti eða leiðinda og iðjuleysis afleiðingum."
"Læknarnir þyrftu fleiri, á því er ég með yður," sagði séra Gissur.
"Og ef þér hefðuð þjónað bæði hér og í Ásþingunum líka þá hefðuð þér haft meira að starfa, það hefði verið hæfilegt handa yður, þér hefðuð kannski verið holdskarpari en yður hefði liðið betur og haldið betur starfsþróttinum.--- Ég gat ekki á mér setið, að púðra þessari skoðun úr mér við ykkur. Vildi segja meira, en þoli það varla, - og svo býst ég við, að yður, prestur minn, finnist að ég, vesalingur, hafi annað þarflegra að hugsa. -- En þetta var nú efst - og svo vil ég þakka yður báðum fyrir að dvelja við rúmið mitt, og það við tómt mas."
*
Læknirinn komst af stað klukkan eitt um daginn; sagði prestskonunni fyrir um meðferð á Gísla; honum virtist hún nákvæmust og hyggnust við sjúklinginn.Ofnhitinn var sérlega notalegur í húsinu prestsins; hann hallaðist að stólbakinu og reykti rór og spaklegur.
Fylgdarmaður Þorleifs var ungur bóndasonur frá næsta bæ, skrafhreifinn og frálegur piltur.
Skíðafærið mátti heita allgott og þó nokkuð hart. Veður var heiðríkt og frostlegt.
Fyrstu tvær bæjarleiðirnar var þeim félögum fátt að orðum. Þorleifur var hugsandi um Gísla, bæði um hættuna, sem hann var í; sár yfir því að þurfa að fara svona fljótt frá honum, og svo það sem sjúklingurinn hafði talað við þá - það var ekki ný hugsun fyrir Þorleif - en hann hafði ekki búist við að dauðsjúkur maður færi að tala um þetta. Honum fór að verða forvitni á að þekkja betur til hans þessa Gísla.
Bóndasonur kunni ekki við að trana sér mjög fram og talaði því fátt, að fyrra bragði.
"Það mun hafa verið messað hjá ykkur um hátíðarnar?"
"Á jóladaginn var messað, ekki á annan og ekki um nýárið."
"Og ekki kalla ég það nú mikið, það hefur þó víst verið færi um jólin."
"Já, besta færi, en fólkið kom margt á jóladaginn, og svo ekki hina dagana."
"Þið hafið þó góðan prest."
"O-já, áheyrilegur prestur er hann; en sumum kann að þykja hann nokkuð værukær."
"Ef þið sækið svona messurnar, þá liggur beint við, að áhugi prestsins falli líka í værð á endanum."
"Ekki get ég borið á móti því að við sækjum ekki kirkju neitt kappsamlega, og séra Gissur er líka orðinn ofboð spakur sýnist mér."
"Hann var fjörmaður á skólaárunum og gat verið gárungi eins og ég og hver annar."
"Hann getur líka spaugað ennþá, en þykir gott að sitja á meðan."
Svo þögðu þeir um stund.
"Dálítið undarlegur mun hann vera, hann Gísli?"
"Hann hefur sínar skoðanir en varla getur mér fundist að hann sé sérvitur; það er satt að hann er ekki með þeim kirkjuræknari þó hann sé húsmaður hjá prestinum."
"Þér segið hann sé ekki messukær."
"Nei, það er hann ekki og presturinn hefur víst átyllu til að kalla hann efandi í þeim sökum."
"Það hefur verið laglegur maður sýnist mér."
"Fremur hefur það nú þótt, en þó hann sé prýðilega vinnandi og besti smiður hefur hann aldrei kært sig um að safna saman fjármunum. Það liggur samt æðimikið fé í bókum hjá honum."
"Hann er víst ekki svo mjög hræddur við dauðann."
"Það held ég ekki sé; mig grunar að honum líki ekki allskostar lífið hérna megin."
Á vökunni komu þeir að Ámóti, borðuðu þar og drukku mjólk og kaffi. Lögðu af stað þaðan um háttatíma, báðir ríðandi. Í sunnanveðrinu hafði örrifið og var allgott hestfæri þar norður frá. Dálítil rönd af tungli lýsti, stjörnurnar glóuðu og breiður norðurljósavöndur titraði og bragaði upp yfir Sauðafelli.
Morguninn eftir, þegar bóndason var búinn að sofa svo sem þrjá tíma, vaknaði hann, læknirinn var horfinn úr rúminu frá honum; kominn til taugaveiku sjúklinganna í Hákoti.
Bóndason klæddi sig þó það væri heldur aðgönguhart.
Þá kom Þorleifur.
"Bágt er að frétta úr Hákoti; hún er rétt skilin við konan, og ég tel hann frá líka hann Sigurð. - Það verður erfitt fyrir blessuð börnin."
Kaffið var borið til þeirra. Svo fór læknirinn að taka til meðul, en bóndason gekk út.
Honum varð reikað að veitingahúsinu eftir að hafa morgnað sig. Þar náði Þorleifur honum.
"Mikið helvíti er ég lurkum laminn, ég get varla gengið fyrir strengjum og harðsperru -- Við skulum fá okkur einn bitran hjá honum Jóni hérna."
Bóndason var til með það.
Þeir gengu inn í litlu stofuna og heilsuðu veitingasalanum.
"Tvo bittera," Þorleifur varpaði sér niður á stólinn. "Mannmargt hjá þér núna?"
"O nei, - þeir halda hérna til samt ennþá blessaðir prestarnir. Ég vildi gjarna þeir færu að komast heim - en þeir segja ekki liggi neitt á. Ekki þar fyrir, góðir reikningsmenn eru það."
"Hvaða helvítis drasl. -- Umfram allt verður að koma þeim heimleiðis ef samfylgd fæst. -- Hann séra Fróði gæti orðið með þér fyrst frameftir." Þorleifur sneri sér að bóndasyni.
"Já, en ekki má ég bíða."
Veitingasalinn og Þorleifur fóru að finna þá kumpána.
"Séra Fróði vill gjarna verða þér samferða; er nú að klæða sig. - Um að gera að allt geti gengið sem fyrst." Læknirinn hneigði sig fyrir veitingasalanum og fór.
Rétt þegar þeir voru komnir út fyrir húsið kom ríðandi maður með berbakaðan hest, sem hljóp við hlið hans.
Þeir stóðu við og maðurinn heilsaði þeim. Erindið var að sækja lækninn til konu í barnsnauð.
"Hestfæri?" kallaði læknirinn um leið og hann hljóp heim. "Fáið þér kjafttuggu handa hestunum, ég er strax til."
Bóndason fylgdist með, til að taka meðulin handa Gísla.
"Góði, hlauptu suður eftir og skilaðu til Jóns að drífa séra Bóas upp, að hann geti orðið samferða -- ég er til að fimm mínútum."
Eftir rúmar tíu mínútur riðu þeir þrír norðureftir allt hvað klárarnir gátu þanið sig.
Og hálftíma þar eftir reið bóndason suður eftir og séra Fróði með honum.
Það ætlaði að ganga tregt, að hann færi svo fljótt; honum fannst ekkert liggja á.
En bóndason aftók að bíða lengur.
Veitingasalinn bað þá að fara í guðsfriði; bóndason gekk út og steig á bak.
Séra Fróði varð að taka ístaðið líka, eða þá að tapa samfylgdinni; en þegar hann var kominn á bak sló hann klárinn sinn tilvalið högg og hleypti um leið á roksprett.