SNÆFRÍÐAR  ÞÁTTUR

Dægurfluga úr Örlygsdal


eftir Þorgils gjallanda





Í Langá er jökulvatn; hún er mikið vatnsfall og stríðstreym og ill yfirferðar; framan frá öræfajöklum fellur hún fyrst um blásið land og eldrunnið, síðan um afrétti og loks um byggðir og síðan í hafið.

Gljúfur er á löngu svæði, sem áin hefur brotið og sorfið sumar og vetur, öld eftir öld; í þeim gljúfrum allra syðst er Hvítifoss: Áin steypist í einu lagi fram af geysiháu og þverhníptu bergi, mjallhvít og drunandi, vellur dynjandi niðri í hylnum svo grár úðamökkurinn líður upp eftir og gerir gljúfrið skuggalegt og hráslagarakt alla leið að bergbrúnum. Fossinn er ægilegur og þó forkunnar fagur. Sá sem stendur við fossinn mun varla fá varist seiðmagninu sem í honum býr; þar mun honum skiljast hvað dró hugi manna í grárri heiðni, til þess að trúa að undir slíkum fossum byggi mikill vættur, hræðilegur og myrkur - en þó laðandi og seiðginnandi meðan hann var að töfra mennina til sín niður í djúpið, í myrkrið og dauðann.

Skammt vestan við er Kjarrdalurinn, sem liggur frá suðvestri til norðausturs, að ánni. Hamrar eru að dalnum víða, sums staðar háir og veggbrattir; með köflum lágir og ávalari; ofan í dalinn má komast með hesta á tveim stöðum, að sunnan, þar sem lægst er, og foksandurinn hefur slétt og jafnað leiðina, og í einstiginu að norðan, nær miðjum dalnum, þar er best að fara og götuslóði troðinn.

Dalur þessi er ekki langur og því síður breiður; undirlendið lítið en breytilegt er þar og sérkennilega fagurt. Skógkjarrið vex í brekkunum, lágvaxið og sígrænt á börkinn; innan um það vex blágresi og fáséð fjallablóm, þróttug og litfögur. Lækir og lindir spretta upp hér og þar og hvannstóðið með þeim flestum, bæði mikið og fagurt í gróindunum.

Neðan við kleifina, í dalbotninum, stóð reyniviðarhrísla; hún var vöxtulegri en allur annar viður í dalnum; ávallt sérkennilega falleg en fegurst þó með hvítu blómin, og þróttmest sýnum þegar rauðu berin glituðu við haustsólinni.

Fyrst tóku fjallgangnamenn eftir þessum tveim stöðum og fegurð þeirra; þeir greindari og næmari sögðu frá því heima í byggð; vöktu forvitni unglinganna; gleðilöngun og ferðahug þeirra framgjarnari, þetta bjó um sig í hugunum, óx og braust loksins út í skemmtiferð flokks karla og kvenna.

Ísinn var brotinn, orðstír fossins og dalsins barst víðar og meir yfir. Útlendir menn fóru að sjá tröllaukinn fossinn, og sumir, sem höfðu glögga leiðsögumenn, komu við í dalnum og þótti kynlegur og dásnotur gróðurinn í litla dalnum á grjótunum. Menn úr byggðunum fóru að fara tíðar og oftar til "Fossins" - það hét ætíð svo - en flestir komu þó við í Kjarrdalnum líka; þar var friðurinn svo mildur og fegurðin ljúf eftir hrikarödd fossins og hamfara hvítfyssið.

Þorleifur á Gilsstöðum var einn af þeim mönnum, sem mikið hafði fundist til um afbrigðin í afréttinum; og mörgum sagt frá þeim, jafnöldrum sínum, körlum og konum, og með því leitt hugi ungmennanna að því, sem þarna væri fýsilegt að sjá.

Þá var hann ungur maður; en tíminn líður og mennirnir eldast; nú bjó Þórleifur með þrem börnum sínum góðu og gagnsömu búi og átti jörðina skuldlitla. Ósk var tvítug og elst barnanna; yngri voru þeir Húnn og Héðinn. Móðirin andaðist þegar Ósk var tólf ára gömul. Fyrst bjó Þórleifur með ráðskonu, nú stóð Ósk fyrir búinu með honum.

Þegar þáttur þessi byrjar hafði margt æskumanna riðið að Hvítafossi. Þorleifur og Ósk fóru frá Gilsstöðum; Eiríkur og Snæfríður frá Örlygsstöðum, þau voru börn Geirs sýslumanns, hann tuttugu og fimm ára og hún tuttugu og fjögurra. Ekki verða fleiri taldir, með því þeir koma lítið við þátt þennan; tuttugu menn voru í flokknum, fjörugir og hraustir, bæði karlar og konur. Flest úr nyrðri hluta sveitarinnar.

Svo var ferð hagað að flokkurinn kom að Hvítafossi stundu eftir nón; "Þá er fossinn fegurstur, ef bjart er veður og sólin skín," sagði Þorleifur og hann var ráðnastur og kunnastur því hvað best hentaði; allir aðrir voru innan við þrítugt; hann leit út fyrir að vera fjörutíu og þriggja til sex ára gamall. Knálegur maður og drengilegur í bragði; fár í fjölmenni en kátur og ræðinn í kunnugra hópi; skapmikill og þó löngum allvel stilltur um það sem raun var í. Ekki beit ellin mjög á Þorleif og var hann þó snarpur verkmaður og harðfylginn í öllu starfi.

"Ekki vil ég dvelja lengur við fossinn en tvo tíma; það er nóg til að hressa sig og sjá hann; veðrið er ákjósanlegt, en þeir eiga samt illt vesalings hestarnir okkar; sveittir og bundnir saman. Í dalnum er stundarhagi og þar má sleppa þeim; þar vil ég dvelja lengur ef ykkur finnst ég sé of óþolinn og eirðarlaus." Þorleifur gekk fram á bergið og horfði í flauminn. Við vinstri hlið hans stóð Ósk, Snæfríður hægra megin; hver tók sér stöðu eftir því sem rúmið vannst, forvitni og hugur hvatti; allir þögðu langa stund. Ósk stóð fast hjá föður sínum og eftir litla stund hallaðist hún nær, hann lagði höndina yfir hana; hún var varla óttalaus; bergið virtist skjálfa undir fótum manna. Snæfríður hallaðist einnig nær, líkt og hún leitaði stuðnings, engin hönd lagðist yfir hana, þó gafst hann; hugur styrkir hug í slíkri náveru þegar vildin er vakandi og fús.

"Ekki lengur í bráðina," Þorleifur nam orðin og fetaði frá, þær fylgdu honum og síðan allir aðrir, hann sá að Ósk var föl og Snæfríður þó bleikari. Draumljúf augu mættu sjónum hans, öðruvísi en áður var vant, engin gletta og ekkert hlæjandi sást þar nú.

"Hann Ljótur í djúpinu var að kveða mig til sín, seiðurinn að gagntaka mig," sagði Snæfríður þegar þau komu fjær; hæg glettan bjó aftur í augum hennar.

"Það getur hann þó gamall sé, hann er hundvís og fjölkunnugur. En þú, Ósk, hvað fannst þér?"

"Svimandi leiðslu og dofa yfir vilja og sjálfstæði."

"Hann er viðsjálastur ungum og sveimhuga, fossbúinn -- Lítið á, nú glitrar úðinn í öllum regnbogalitum; hafrænan leikur á móti. Þá er hér fegurst. Nykrarnir láta gullkampana glóa - þeim leika munir til ungra, laglegra stúlkna, sárar kenndir, sem ekki verður svarað. Þeir stynja vesalingar þegar þið farið. Bara sjónin og tómleikinn á eftir."

Rjóði liturinn færðist í kinnarnar á Ósk, Snæfríður fékk þó sterkari og meiri litbreytingu.

Gunnlaugur frá Þingnesi og Eiríkur komu og fóru að dásama fegurð fossins.

"Ef það stæði nú grár hestur skínandi fallegur hjá hestunum okkar þegar við komum til þeirra; það væri gaman. Hvað ættum við þá að gera?" Snæfríður leit nú til Gunnlaugs.

"Beisla folann og fara með hann," sagði Gunnlaugur.

"Ég skyldi ganga til hans og segja: Fallegur ertu en ég nenni samt ekki á bak núna."

"Og viðbragðið, glymurinn og gneistaflugið úr berginu undan hófunum, sá grái þyrði í gljúfrið; hann er vanari því ægilega en við.. Ég bregð mér til hestanna og lít eftir hvort þeir eru ekki búnir að slíta sig lausa." Þorleifur gekk einn burtu.

Þegar hann kom aftur var fólkið að dansa nokkru vestan við fossinn á græntónni; Þorleifur beið þar til lokið var dansinum.

"Hestarnir voru kyrrir; tíminn líður. Það finnst mér, sem ekki kann að dansa. Eigum við ekki að drekka skál fossins og alls þess heiðna sem í gljúfrunum býr?" Þorleifur tók til tösku sinnar.

Um þetta urðu allir sammála og karlmennirnir fóru að bauka í töskurnar sínar, konurnar að ljúka upp ferðaskrínunum. Bikararnir reyndust tíu og jafnmargir bollar, það var farið að renna á þá víninu; hlæja og hjala og stinga sneiðyrðum í stöku stað.

"Portvínið handa stúlkunum - viský og konjakk er fullgott í mig og mína líka, jafnvel þó ekki væri nema brennivín, má bjargast við það upp í auðnum og tröllagljúfrum. Skál Hvítafoss." Þorleifur leit brosandi yfir mannhringinn, andspænis stóðu Eiríkur og Ósk, Gunnlaugur og Snæfríður. Minnið var drukkið; Þorleifur hafði engan bikar né bolla og svo var um aðra fleiri, þeir hringdu með flöskunum.

Svo var sungið; flestir gátu það, þarna rétt við fossdruninn, Þorleifur hafði djúpa bassarödd.

"Fossinn stelur öllu hljóði frá okkur; við skulum syngja í dalnum en lítið hér." Snæfríður leit til Gunnlaugs; hann var bestur söngmaður.

"Satt er það - hér er ósyngjandi, en þar skulum við reyna á raddböndin."

"Minni nykranna og hans Ljóts ókristna undir berginu; að þeim auðnist að komast úr álagahamnum og njóta aftur sólar og víðsýnis líkt og við."

"Rétt er það," sagði Snæfríður. "Þeir eiga bágt hér í kreppingnum."

"Ef þeir þá finna til nokkurs nema metnaðar á ríki sínu og fyrirlíta eigi allt annað," sagði Ósk.

"Nykrunum leiðist einlífið, það er sönnuð sögn; þið drekkið minni þeirra og í nótt slá þeir gullhörpuna og hugsa þráandi um ljósálfana, sem brostu og dönsuðu á berginu. Það verður raunablær yfir þeim hljóm grunar mig."

Minnið var drukkið og síðan farið frá fossinum; viðstaðan hafði því orðið nær þrem stundum.

Hestar voru leystir í snatri, stigið á bak og riðið hvatlega að dalnum. Þorleifur teymdi fyrstur reiðskjótann sinn niður í dalinn, þá voru hinir reknir á eftir, síðan sprett af og hrossunum sleppt lausum á hagann; þau veltu sér, risu á fætur og hristu sig feginsamlega; þá var tekið tönnum til grass svo marrið nauðaði um eyrina þar sem þau kroppuðu. Mennirnir settust að snæðingi: "Allir í hvirfing eins og Þorgils Hölluson og hans félagar; þótt enginn sé hér svo glæsilegur sem Bolli prúði og enginn vígahugur í neinum," Þorleifur og Ósk settust niður og þá hver að öðrum.

Það var glatt á hjalla hjá þeim þarna í dalverpinu; lífsgleðin gerði öll andlit hýr, og hlátursefnin voru stundum ekki mikil þótt dátt væri hlegið.

"Nú fer ég að búa til hlóðin, ég er gamall gangnamaður og fljótur að éta; svo komið þið til að hita kaffið," Þorleifur leit til Snæfríðar, næstur henni sat Gunnlaugur í Þingnesi og brosti við hverju orði sem hún sagði.

"Við komum strax, það er svo húsmóðurlegt og gaman að hita upp á katlinum og veita öðrum, ég er húsfreyjan í dalnum og þið eruð heimilisfólkið," Snæfríður stóð á fætur.

Ketill var settur yfir glæður, eldurinn skíðlogaði, sprekin voru nóg og rétt við höndina, vilji manna góður að afla eldibrandanna, svo allt gekk fljótt og fljúgandi.

"Gunnlaugur dalbóndi, gerðu svo vel og fáðu þér heiðurssætið," Þorleifur benti á mosavaxinn stein við hlið Snæfríðar. "Við hin erum hjúin, aldursins vegna er ég verkstjórinn og fæ í næststærsta bollann. Er ekki svo?"

"Sjálfsagt." Snæfríður hló og flestir aðrir, Gunnlaugur stokkroðnaði og hlátur hans var lágur og óeðlilegur. Þorleifi stökk ekki bros. "Gerðu svo vel, verkstjóri góður," hún rétti honum bollann.

"Þakka þér fyrir -- hum - hum -, þetta er ekki sá rétti - þetta er sá stærsti; bóndabollinn, parið hans Gunnlaugs.. nú, ég hef ekki smakkað á honum svo þetta gerir ekkert til. Þessi er minn," Þorleifur seildist eftir öðrum bolla, hægur og alvarlegur. Nú kom margraddaður hlátur, sem rann hoppandi frá hvers manns brjósti nema einu, þar var hann eitthvað korkulegur. Þorleifur glotti aðeins. Þegar Snæfríður stillti hláturinn leit hún til Þorleifs, snögglega, ljómandi augum. Hann roðnaði, náði í flöskuna og hellti vel í bollann sinn.

"Má ég?" Snæfríður drap fingrum á handlegg honum.

"Já, velkomið, og svo hver að öðrum," hann hvíslaði - "mundu eftir bóndanum; hann er eitthvað beyglulegur núna, hann þarf tvöfalda hjartastyrking."

"Pabbi, ekki að kvelja hann meira, hann er svo feiminn og ófær til að svara." Ósk hvíslaði orðunum.

Vesalingur, uppskafningur, hugsaði Þorleifur. Það er hann í rauninni þó hann viti ekki af því sjálfur.

Snæfríður hellti í bollann og rétti svo flöskuna til þess næsta og svo fór hún mann frá manni.

Fólkið gekk um, virti fyrir sér og dáðist að gróðrinum og friðnum í dalverpinu, sem gróðurlausir grjótmelar allt um kring afgirtu, eða áin skolgrá og straumfext austan við. Án þess mennirnir vissu urðu þeir mildari, blíðari og næmari fyrir öllu fögru; minnstu blómum, blátærri lind, breiðblaðaðri hvönn og gróðurskjótum njóla - en við þá var verst búið; þeir voru eina sælgætið sem þarna freistaði mannanna.

Sólin rann niður undir hálsana norðvestan við og sló rauðum bjarma á vesturloftið, marglitum og breytilega fögrum. Þorleifur gekk meðal hrossanna, virti þau fyrir sér og aðgætti hvort þau væru heilbrigð, flestir aðrir fóru að skoða reyniviðinn; þeir mættu honum skammt frá dalbotninum; aldrei í ferðinni hafði gleðin verið augsýnni né fjörið jafn létt. Gunnlaugur gekk jafnhliða Snæfríði, þau töluðu um söng; voru bæði með gleðibragði og virtust ekki gefa öðru gaum. Um leið og Þorleifur fór fram hjá leit hún snöggvast til hans, og undrun brá sem snöggvast á andlitið; hann gekk hratt og virtist ekki taka eftir neinu öðru en stefnunni upp að klaufinni.

Litlu seinna kom hann ofan í hvamminn til þeirra, staðnæmdist við sönginn og tók eftir.

Nokkru seinna var hætt að syngja.

"Nú fer að koma tími til að búast burtu, taka hestana, leggja á og kveðja dalinn;" Þorleifur tók upp beislin sín.

Þessu var vel tekið og skömmu síðar var allur flokkurinn kominn upp úr dalnum.

Eiríkur bað menn að staðnæmast á dalbrúninni; hann vildi kveðja dalinn með örfáum orðum. Allir stóðu kyrrir, hver hélt í sinn reiðskjóta; lausu hestarnir og þeir sem höfðu töskur eða ferðaskrínur runnu hægt og jafnt vestur eftir; heimleiðis.

"Hvað öðrum hefur fundist veit ég ekki, en mér dettur í hug að það hafi verið svipað því sem mér virtist; fossinn er tröllslegur og hrikalegur; voldugur og fagur að vísu en svo miklu sterkari mér, að eiginaflið varð lamað. Ég varð svo lítill og veikur; mér leið ekki þægilega.

En hérna í dalnum kom ég til sjálfs mín aftur, hér var ljóst og ljúft; gleðin vaknaði; allt vakti mig til lífs og starfs; í dalnum reis sjálfstraustið úr dái, ekki með sjálfbirgingsþótta, heldur mýkra en áður og fúsara til samfélags. Hamingjan blessi Kjarrdalinn." Eiríkur setti upp húfuna. Lófaklappið dundi. Stillt augu mættu hans; Ósk dreyrroðnaði. Bæði gerðu það.

"Hamingjan sé með Kjarrdalnum." Það var karlmannlega röddin hans Þorleifs, sem þetta sagði fyrst og svo rómur hvers manns í flokknum. Síðan var stigið á bak og riðið stighratt á eftir hestunum; hvorki var sungið né hlegið og lítið ræðst við. Flestir renndu hugum yfir kenndir þær sem fossinn og dalurinn höfðu vakið í hugum þeirra.

Vegurinn varð sléttari og betri; fjörið vaknaði; Nú var farið að ríða hart -, sumir voru óvægnari og riðu frá þeim gætnari. Eiríkur og Snæfríður voru með þeim fremstu og Gunnlaugur, sem hafði ágætan skeiðhest. Hann bauð henni hestaskipti og við þá dvöl náði Ósk og fleiri fararbroddinum. Nokkrir voru spöl á eftir, í þeim hópi var Þorleifur. Þegar kom að Lönguhlíð tóku við grundir sléttar meðfram henni; þá sagði Þorleifur: "Nú verðum við að láta skríða og ná hinum, ég vil ná þeim áður en farið verður upp Klifið og beita hestunum um stund; þar er sá fyrirtaks hagi," um leið hleypti hann á sprett. Mörgum varð að líta aftur þegar hófadynurinn glumdi aftan við. Langt á undan kom Glæðir á flugstökki; hann þaut fram með hópnum. Þorleifur stillti ekki fyrr en hann var kominn fram fyrir; steig þá af baki og hélt í taum reiðskjótans.

"Hér skulum við æja um stund, spretta af og lofa hrossunum að velta sér, við sitjum fyrir þeim við Klifið."

Menn féllust á það; skömmu síðar settist flokkurinn niður í grasið undir Klifbrekkunni; sumir fóru að syngja, nokkrir að spjalla saman og ýmsir hölluðu sér út af. Um leið og Þorleifur ætlaði að leggjast til hvíldar gekk Snæfríður hjá. "Þú ert svo brúnþungur og fálegur, ætlarðu að fara að sofa?" sagði hún.

"Já - ég syng ekki og ég er svo gamall að óttusvefninn sækir fast á mig. Ekki sef ég lengi og það sem eftir er heim vil ég ríða greitt; ekki tefja aðra."

Hún leit rannsóknaraugum á hann, Þorleifur horfði stillilega á móti; Snæfríður skipti litum. Þá kom Ósk og settist hjá föður sínum. Snæfríður gekk burtu til þeirra sem sungu. Ósk lagðist við hlið föður síns.

Þorleifur vaknaði; reis á fætur og horfði á klukkuna, hann hafði sofið hálfa aðra stund. Hér og þar svaf ferðafólkið; veður var blítt og stafalogn; óttan var liðin, sólroðinn stækkaði og hækkaði í norðaustrinu; hestarnir færðust nær og bitu grasið í ákafa. Hann vakti Ósk, svo fóru þau að vekja aðra; mörgum þótti þungt að rísa á fætur, þó varð það áður langt leið.

"Við höfum sofið fulllengi - nú er að búast sem hvatlegast. Nú er gott að vekja sig með víninu; svo förum við piltarnir að beisla hrossin og leggja á."

Gunnlaugur í Þingnesi varð síðbúnastur til smölunarinnar.

"Má ég ekki ætla þér sama hestinn?" Hann beindi orðum til Snæfríðar.

"Þakka þér fyrir - en svo eigingjörn er ég ekki að taka af þér hestinn lengur. Þú gerir vel. Þitt boð er það sama þó mér sami nú best að ríða hestinum mínum." Gunnlaug setti rauðan; hann gekk þegjandi eftir hinum piltunum.

Þegar upp á Klifið kom var ýmist yfir slétta mela að fara eða foksandslægðir, allþéttar undir fæti. Þorleifur og Gunnlaugur höfðu besta hesta, þeir voru oftast fremstir, þó lögðu þeir ekki saman hestana.

"Er það víst, að kvenmaður geti ekki ráðið við hann Glæði, að hann æsist meir undir söðli? Forvitni væri mér á að reyna það," sagði Snæfríður, þau Þorleifur riðu samhliða.

"En ég er trauður til að setja kvenmann upp á hann, í þessum solli yrði hann baldinn og notaði sér reiðtyja- og taumhaldsmuninn."

"Getur verið -- og þér er sárt um hann." Hún leit brosandi og glettulega til hans.

"Sárt er mér um hann, það er satt, og þó miklu sárara ef slys hlotnaðist af honum," hann þagnaði örstutta stund; glotti við og sagði síðan: "En ég skal stuðla til þess, að þú getir fengið vissari hest, fyrirhafnarlítið. Þingness-Skolur er ágætis kvenhestur."

"Ég veit það -- ég er búin að ríða honum lengi og ætla mér ekki að véla hann alveg af Gunnlaugi."

"Fallega er það hugsað - og nú hleypi ég." Hesturinn stökk geystur yfir melinn fram hjá öllum hinum; fram fyrir Þingness-Skol líka, þá stillti Þorleifur.

Rétt fyrir rismál kom flokkurinn heim í byggð; nú fóru vegir að skilja; hver fór til síns heimilis. Loks voru þau fjögur eftir, frá Gilsstöðum og Örlygsstöðum; sólarhiti gerðist sterkur og svefnþreytan færðist að.

"Nú stíg ég af baki og leita í töskunni minni; geispandi og hangandi í hnakknum vil ég ekki koma heim úr skemmtiferð."

Hin stigu af baki líka; tappinn var dreginn úr flöskunni.

"Stúlkurnar fyrst - duglega -, til hressingar; enginn þarf að óttast að þið verðið ölvaðar; ég mundi heldur ekki óska þess. Svo þú, Eiríkur, og seinast ég, hérna er bikarinn." Þau renndu á og tæmdu, stúlkurnar vildu ekki meira en sinn bikarinn hvor og Eiríkur þrjá. Þorleifur setti flöskuna á munn sér; bjó um töskuna og spennti við hnakkinn.

Síðan var stigið á bak. Eiríkur sá um hest Óskar og þá varð Þorleifur að halda í sveif á hesti Snæfríðar.

"Ekki að drekka um of, vinur minn," sagði hún um leið og Þorleifur gekk fram fyrir og að sínum reiðskjóta.

"Þetta bara vekur mig og meira ekki. Ríðið þið nú ekki eins og glannar hérna suður; vegurinn er vatnsgrafinn og ótryggur sums staðar," hann sté á bak.

Eiríkur hleypti strax, rétt á eftir þær; Þorleifur lét hest sinn aldrei ná ferðinni. Glæðir var aftastur; hann stökk háreistur og fnasandi. Kapp kom í hesta þeirra sem þutu heimleiðis samhliða. Hestur Snæfríðar steyptist á höfuðið, þar sem hann fór utan götu; viður lá yfir vatnsgrafningnum.

Eiríkur varð einskis var og hesturinn þaut með Ósk nokkurn spöl áður hún gæti stillt. Þorleifur snöggstillti, stökk af baki og kraup niður að Snæfríði. Hún var hvítföl, og lágar, þungar stunur heyrðust af þeim sem voru fast hjá.

Hún horfði á hann fast og stillilega, sá bleikt andlit hans lúta að sér; dökk, mild og spyrjandi augun færðust nær.

"Hefurðu meitt þig voðalega? Snæfríður, má ég ekki reisa þig betur upp?"

"Jú" - Hann færði hægri handlegginn varlega undir háls hennar og höfuð; tók hana í faðm sér. Hún lokaði augunum. Þá kom Ósk. Eiríkur var löngu sunnar, hafði stillt, sneri hestinum við og horfði til baka; svo kom hann.

"Guð hjálpi mér. Hefur hún meitt sig mikið?"

"Ekki mikið, ég kenni til í höfðinu og herðunum; það líður bráðum frá." En jafn föl var hún; lokaði augunum og lá kyrr. Roðinn færðist í kinnar Þorleifs, hann þagði og hreyfði sig ekki.

"Gefið þið mér vatn," Snæfríður opnaði augun; nú fyrst brá fölum roða fyrir þegar hún leit í þau augu sem enn voru spyrjandi og ástrík.

Ósk hljóp að læk sem rann þar skammt frá.

"Eiríkur, láttu ekki hestana tapast. Þeir rása heim, ég get ekki rótað mér meðan svona er."

Honum virtist höfuð hennar hallast þéttar að, en það gat verið ímyndun, hugur hans var svo reikandi og undarlega veikur og feiminn.

Þá kom Ósk með vatn í flösku. Snæfríður drakk teyg, hún sat uppi og Ósk lagði hendurnar yfir hana til stuðnings.

"Nú hressist ég -- mér batnar. Þetta líður frá. En sá vesalingur ég var;" hún leit til Þorleifs, hálffeimin, hálfforvitin.

Þar var aðeins að sjá föðurlega mildi.

Snæfríður hresstist við vatnsdrykkinn en hvorki losnaði hún við höfuðverkinn né herðaþrautina. Hún hvíldi í mosavaxinni lægð og hallaðist að lynggróinni þúfu; Þorleifur hafði breitt kápuna sína yfir þá þúfu, og sjalið hennar, sem hafði fallið úr söðlinum þegar hesturinn datt, var undir höfðinu. Sólarhitinn varð sterkur þegar sólin rann hærra á loft. Svefn sótti að henni, ferðaþreytan krafði nú ógoldinnar kvaðar.

Ósk fór líka að syfja; þegar hún sá að Snæfríður hafði ekki stórmeitt sig og hafði þolanlega fró; hún hallaði sér niður í lyngið og sofnaði. Nokkur tími leið, og ekki kom Eiríkur. Þorleifur sat og horfði til skiptis á þær og lét skuggann sinn gefa þeim þá forsælu, sem unnt var; honum var þungt í skapi; eins og ferðin hafði verið farsæl og skemmtileg; þá kastaði þetta atvik erfiðum blæ á endalokin. Verið gat að hún hefði meitt sig meira en hægt var að sjá, meira en hana grunaði sjálfa eða vildi láta uppi. Viðkvæmni og dagdraumar færðu leiðslu yfir hann.

Öðru hvoru horfði hann suður eftir; Eiríki dvaldist furðu lengi. Loks kom hann. Þorleifur vakti Ósk og síðan Snæfríði.

"Ertu nokkuð hressari? Mér virðist þú yfirbragðsbetri og hresslegri. Heldurðu þú gætir setið á sporliprum hesti heim?"

"Það vona ég -- ég er viss um það; það væru nú aumleg ferðalok ef ég gæti ekki svo lítið."

Skömmu síðar voru öll stigin á bak. Þau riðu hægt suður að Gilsstöðum, við túnið sneri Þorleifur sér að Snæfríði og sagði:

"Er ekki betra fyrir þig, að hvílast hér og hressast? Það væri þér hjartanlega velkomið."

"Ég veit það og þakka fyrir gott boð - en ég vil komast heim og mér er það engin ofraun. Á morgun verð ég frísk. Nú verðum við að skilja; ferðin sú arna er búin."

"Ég ríð með ykkur spölkorn suður eftir."

Systkinin kvöddu Ósk innilega, hún reið heim túngötuna; hin suður veginn. Nokkru norðan við Örlygsstaði nam Þorleifur staðar og mælti:

"Hér kveð ég ykkur; hafið bæði innilega þökk fyrir góða samferð og ágæta skemmtun," hann rétti Eiríki höndina.

"Kæra þökk fyrir leiðsögn og góða gleði."

"Vertu sæl, Snæfríður. Líði þér ætíð vel, vina mín. Ég frétti bráðum eftir hvernig þér líður."

Þau héldust í hendur.

"Vertu sæll og velkominn suður eftir. Þakka þér alla ferðina og ekki síst það síðasta, vinur minn."

Þar skildu ferðafélagarnir með hlýjum hug og góðum endurminningum.

*

Karlar og konur streymdu út úr kirkjunni; jarðarförinni var lokið.

Þorleifur sté upp á hestastein mikinn er stóð í miðju hlaðinu og mælti:

"Má ég biðja alla hér saman komna að hlusta á eitt alvörumál, sem ég skal reyna að flytja með sem fæstum orðum."

Fólkið staðnæmdist í kringum hestasteininn. Það var kyrrt góuveður með frosti nokkru, sem jókst meir undir sólsetrið.

"Við vorum á mjög líku aldursskeiði ég og hann sem nú er genginn til síðustu hvíldar hérna í garðinum; góðkunningjar sem margt reyndum saman, margt ræddum um skoðanir og lífsreynslu okkar. Ég var honum kunnugur og mér var hlýtt til hans, ég hafði reynt drenglyndi hans." Þorleifur ræskti sig og tók síðan til máls aftur, en með fyllri róm og skýrari áherslum:

"Presturinn hefur haft stutt kynni af honum eins og eðlilegt er um hann, sem aðeins er búinn að vera hér fjögur árin og það fannst mér koma fram við og við í líkræðunni; eitt atriði skal ég minnast á: Um barnatrúna hans, fastheldni við allt sem hann lærði í bernsku; það hefði honum verið hjartnæmt og óbreytanlegt til síðustu stundar.

Þetta er mér kunnara en prestinum, og við Steinólfur höfðum eitt sinn lofað hvor öðrum því, að leiðrétta þessa þulu ef hún yrði lesin yfir moldum annars og hinn væri viðstaddur. Sannleikurinn er sá, að hann var enginn kreddumaður, enginn vanans þræll; heldur hugsandi maður og glöggur á allt fúið og steingert. Enginn kirkjutrúarmaður, en trúmikill á framþróun og göfgun og þroska mannanna. Svo hægur og dulur í skapi sem hann annars var kom þetta þó ekki svo sjaldan í ljós og mig furðar raunar að presturinn skuli ekki hafa fengið pata af því, að hann steig miklu lengra fram en faðir og móðir; hafði meira víðsýni; fylgdi sínum tíma eins og þau höfðu verið sínum samferðamönnum háð. Þessi maður hafði sýnt það svo oft, að hann bar reynsluna karlmannlega; þess minnast samtíðarmennirnir og því betur hef ég heyrt þá lofa hann fyrir spaklyndi og geðró.

Presturinn talaði um vanstilling og ofurharm vantrúarmannanna og það er ekki nýtt hjá honum að kveða svo þegar enginn getur svarað; menn stökkva ekki upp til að þrátta um trúmál í kirkjunni eða við gröf andaðra góðvina og það veit hann vel; en mér og mínum líkum - óskapgæfum fráviksmönnum, þeim sárnar að lokum og því segi ég þetta nú í dag. Viðkvæmur að sönnu við vinarmissinn og með fullri samhygð til allra syrgjendanna, en líka heitur og viðkvæmur fyrir að minni sannfæring sé ekki traðkað, ekki misboðið; að hans skoðun sé ekki rangfærð né svert; að ekki sé sagt rangt frá trú hans.

Ég hef lengi þagað en í dag get ég það ekki og vil ekki þegja með öllu; ég kem til dyranna eins og ég er klæddur, mér er fullljóst að vinsældir mínar vaxa ekki við þessa ræðu, að ég óvingaðist við prestinn og fleiri sveitunga mína, en ég set það ekki fyrir mig. Það verður að arka sem vill og ég að hrista mig upp úr því.

Trúin á kenning Krists var Steinólfi hjartfólgin, en hann trúði ekki á endurlausnina né friðþæging hans fyrir syndir mannkynsins; ekki á fórnfæringuna né guðdóm hans; ekki á Jesú dýra dreyra eins og kirkjan útskýrir það; en hann unni og trúði öllu göfugu og mildu bæði hjá heiðnum og kristnum mönnum. Þeir sem breyttu vel og studdu aðra til þess, voru í hans augum lærisveinar og bræður Krists; í þeim var guðdómseðli það sem hann trúði á, vænti að mundi að lokum sigra og signa jörðina og þá sem hana byggja, með blessun og friði og samúð í orði og verki.

Honum þakka ég hreinskilni og drenglyndi, ástmennin bið ég að fyrirgefa bermæli mín og framhleypni; andstæðingunum skal ég svara þegar þeir krefjast þess, en nauðugur þó í kvöld og með það lýk ég máli mínu."

Þorleifur steig niður af steininum, nokkrir þokuðu sér nær honum; en miklu fleiri þangað sem klerkurinn stóð við hlið "frúar" sinnar, þau voru bæði rauð og þrútin og horfðu yfir mennina rannsóknaraugum.

"Slíkum friðarspilli svara ég engu, það er langt neðan við virðingu mína," sagði prestur og eftir það struku hjónin heim til dyra.

"Þakka þér fyrir einurðina og töluna, nábúi minn;" það var Snæfríður sem talaði og mátti vel nema orðaskil heim að dyrunum sem hjónin voru að ganga að. Hún rétti honum mjúka, varma höndina.

"Ó, einurðin mín - hún er nú ekki þakkaverð, en svo má brýna deigt járn, að bíti."

"Verðum við ekki samferða heimleiðis?"

"Gjarnan vildi ég það, en það eru ekki allir sömu skoðunar sýnist mér, nú fór ég með almenningsvináttuna."

"Eiríkur og ég verðum þó þín megin og fleiri."

"Og fleiri -- ég held ekki margir -- ekki svo fáir urðu fegnir að fíflið hljóp á foraðið - en þeir bera þó kápuna augsýnilegar á þeirri öxlinni sem að prestinum snýr; dauðleiðir á tuggunni um barnatrúna, hráir og efagjarnir, þora þeir þó ekki að skjóta skafti móti prestinum, og faðir þinn sýslumaðurinn er vinur hans -- og skoðanabróðir? Einn gamall sperruleggur vegur lítið móti því."

"Komdu strax með hestana, Eiríkur, og svo heimleiðis öll meðan birtan er," það var valdsmannsrödd og ekki mjúk sem skipaði fyrir.

"Vissi ég ekki. Svona sprettur nú grasið þetta vorið. En minn hestur er líka fljóttekinn, ef að því er snúist."

"Og það gerðirðu." Hún leit stóru, björtu augunum til hans, djarflega, hlýtt og vingjarnlega.

Það brá glampa fyrir í augum Þorleifs; þau urðu frán og æskuhlý sem snöggvast, svo bandaði hann höfðinu lítið eitt, leit til kirkjunnar og sagði: "Í dag þér, á morgun mér... Með það söðla ég hestinn og losa kirkjustaðinn við friðarspillinn."

Beitifæri, hjarn, auð jörð og ísar, ísarnir freistuðu til að reyna gæði hestanna, njóta mýktarinnar, fráleikans og fótheppninnar; sýslumaður og kona hans riðu fremst og þau réðu mest áframhaldinu, síðar þau Snæfríður og Eiríkur sem notuðu hvern skeiðsprett og nú hafði hún góðan hest, skeiðlægan og skapfastan. Aftastur var Þorleifur sem ekki virtist hafa skap til að leggja Glæði fram móti öðrum hestum. Eftir einn sprettinn sagði Snæfríður meðan hestar þeirra stigu samhliða: "Tímirðu ekki að hleypa honum einn sprett?"

"Jú - en ég hef síður skaplyndi til þess og ég er orðinn vandari að vegi en fyrrum."

Bláin var öll í einni ísgljá og rétt sunnan við Brúsatjörnina; þá fékk Glæðir að hlaupa, Blána í tveim sprettum og tjörnina í einum.

"Örskiptamaður ertu, Þorleifur, nú þykir mér úr hófi keyra reiðin," sagði sýslumaður, þau hjónin komu nokkru síðar af tjörninni.

"Þið segið svo og ég þræti ekki, mér líkar aldrei langferðamannareiðin."

"Hvenær verður þetta kvenhestur og hvenær fæ ég að koma honum á bak?"

"Að tveim árum liðnum, ef við erum þá heil á hófi." Þau riðu síðust og samhliða, Þorleifur og Snæfríður. "Nú á ég að sigla í vor og fara að menntast hjá Dönum."

"Við því var að búast; og þú hyggur gott til. Er ekki svo?"

"Nei, ég fer nauðug. Ég er alin upp í sveit og til sveitabúskapar langar mig mest. Búa stórt og stýra miklu, það vildi ég helst kjósa."

"Og bóndinn væri sveitarhöfðinginn; héraðsstólpinn?"

"Helst það og sjálegur, gáfaður og menntaður."

"Ekki er nú smátt tiltekið. Það var óheppilegt að síra Guðmundur var ekki ógiftur þegar hann kom, þar var maðurinn. Nú sé ég engan boðlegan."

"Það veistu að prest vil ég ekki; hann er mesti poki og smámenni í raun. Talaðu í alvöru, mér er engin gletta í huga."

"Hamingjan fylgi þér; dveldu glöð hjá Dönum og komdu heil og starfsöm heim til vandamanna og vina, heim til að tala nokkur orð yfir mér liðnum. Nú er mér full alvara..

"Ef ég get, ef ég hef þróttinn til þess... Og lifi þig... Þú átt að lifa lengi enn, ungur í anda og ern og hraustur."

"Hum, hum, enginn verður eldri en gamall og hlægilegur örvasi vil ég ekki verða og þó er nú farið að örla á því... Samleiðin er þrotin... Vertu sæl og þökk fyrir í dag... Þú varst sú eina sem þorðir og vildir standa við hlið mér norður á hlaðinu."

"Og mér var það ljúft, eins og skoðanasystur og vinkonu.. Svolítið sjálfstæði á ég þó til.. bara það væri meira."

Hestarnir brustu á sprett og Glæðir strauk fram fyrir alla hestana. Þorleifur kvaddi með handabandi og síðast Snæfríði: "Vertu sæll; líði þér vel og sjáumst glöð aftur."

Snæfríður talaði lágt og röddin titraði, kalda höndin hennar luktist þétt og mjúkt í lófa hans.

"Góða nótt, góða nótt."

*

Maí færir mönnum einstöku sinnum sól og sumar, gróindi og grassprettu, og svo var þetta vor; einmuna hagstætt mönnum og málleysingjum og lofað af öllum.

Og síðla mánaðarins reið kvenmaður norður göturnar frá Örlygsstöðum og stefndi til Gilsstaða, kona þessi leit eftir öllu, nákvæmlega og með glöggu auga kunnugs manns; nú var enginn þóttasvipur sýnilegur; andlitið fölt og angurblíður svipurinn, glettan virtist horfin úr augunum, en skýr og hrein og stór voru þau. Talandi augu eins og ávallt, en nú um harm og skilnað við æskustöðvar og vini.

Sunnan við Gilsstaði hitti hún Þorleif sem var þar að ganga við lambféð sitt svipglatt og bragðlegt. Hann stóð við götuna og beið gestsins; hann þekkti hann langt frá og eftir honum hafði hann beðið dag eftir dag, kvöld eftir kvöld. Með von en engri vissu, með tilhlökkun og þó skerandi sviða þagnar og einveru mitt í öllum gróðri og vorfegurð.

"Komdu sæl, vertu velkomin," sagði hann og rétti fram höndina.

"Blessaður og sæll, vinur minn," hún lagði höndina í lófa hans.

"Þú kemur heim og þiggur eitthvað af karli, spjallar eitthvað áður en þú kveður okkur hérna."

"Þakka þér fyrir; mjólk og konjakk sagði Staupa-Siggi þegar presturinn vildi veita honum þjónustuna."

"Hvort tveggja er til og hvort tveggja velkomið."

"Og svo fylgirðu mér heim á Gerðið í kvöld?"

"Já, það er svo sennilegt að það verði í síðasta skipti. Mér, gömlum manni, finnst sem þú farir alfari héðan - ég fylgi þér."

Það hafði aldrei orðið meira en kunningsskapur með þeim Snæfríði og Ósk þótt líkt væri um aldurinn. Ósk var hæglynd og fálát á manninn en stolt og viðkvæm fyrir sinni eigin virðingu, hún hefði síst af öllu gengið lengra en til hálfs móti dóttur sýslumannsins. Snæfríður var eftirlætisbarn, fjörug og lofuð frá æsku, mikil fyrir sér og bráðhraust. Nú síðustu þrjú árin var breyting komin á hana; þegar áræðið og það að bjóða almenningsálitinu byrginn virtist standa öllum fótum í etu, brá fyrir sorgarblandinni viðkvæmni og svo datt allt í stafalogn, þetta voru álitnir duttlungar, hverflyndi og af sumum köld ástleitni til að dilla hégómadýrð sinni; eiga sem flesta skósveinana. Svo ólíkar meyjar gátu því trautt orðið vinkonur nema stærri atvik leiddu hugina saman, samúðina gegnum þyrnigerði raunanna. Í þetta skipti kvöddust þær samt ástúðlega við túnfótinn og Ósk lagði höndina um háls henni og hvíslaði: "Vertu ávallt sem sönnust og best og líði þér alla tíma vel."

Það mundi margur sem hefði séð þær þarna hafa verið í vafa um hvor sjálegri væri þótt sinni væri hvorn veg farið. "Þakka þér fyrir og vertu líka sem best og blíðust þar sem tilfinningin er þó réttmæt." Ósk dreyrroðnaði, svo kysstust þær aftur og skildu. - Húnn og Héðinn voru ekki komnir af gagnfræðaskólanum.

Þorleifur stóð og hélt í reiðskjótana; nú hjálpaði hann Snæfríði á bak, Ósk horfði á og augu hennar voru tárvot, svo riðu þau suður göturnar en hún gekk heim.

"Svona er það ... svona mikil yfirborðs manneskja er ég.. fyrst núna um leið og við kveðjumst veit ég að Ósk hefði orðið mér besta og hollasta vinkonan og miklu djúpsærri en ég hafði grun um."

"Hún er góð og gegn.. ég hef bara kúldað hana of mikið heima - verið of skammsýnn."

"Enn er hægt að bæta úr því, lofa henni að sjá og reyna fleira.. En það var annað sem ég vildi segja; því grefurðu þig svona niður í hús og heygarða heima? Aldrei hefurðu tóm til að standa við fremra, ekki að tala við Eirík sem þó gæti verið vinur þinn, og aldrei nema út í bláinn og staðlaus hnyttyrði við mig. Veistu, hvað þú hefur elst í vetur, hvað mikið hárið hefur hvítnað?"

"Jú - ég hef svo oft hugað í spegil - ekki eingöngu fyrir hégómaskap samt, og hann segir mér satt - ég er gamall, kominn á fallandi aldur.. ég á að vinna fyrir börnin; komandi kynslóð. Jafnaðarmennskan á svo langt í land, okkur dreymir um fyrirheitna landið en megum til að krafsa gaddinn eða drepast. Enginn spámaður rís upp ennþá og Kristur því síður, Kristur nýja siðarins; hann yrði líka á sinn hátt krossfestur nú, með háði og spotti og fyrirlitning fjöldans... Hvorki faðir þinn né móðir þola skoðanir mínar, og ég er oft svo óforsjálega bitur og ónærgætinn um áhugamál mín að ég vinn ekkert nema það að menn sneiða hjá mér svo sem þeir geta.. Eiríkur er enn óráðinn og ekki hægt að segja hvað úr honum verður, hann er góður drengur og blóðheitur, og mér er ekki óljúft að eiga margt við hann, fleira en aðra flesta... Og þú, við þig hef ég verið hreinskilinn og látið minn innra mann koma til dyranna heldur heimskulega stundum.. Einu sinni svaraðirðu mér þegar vaðalsgállinn var kominn nokkuð hátt og ég vildi líka vita þínar hugsanir: "Hvað er það, sem forvitinn vill ekki vita? Ég vil helst að karlmennirnir skilji sem minnst dýpstu tilfinningar mínar. Að ég sé þeim sem mest ráðgáta." Þetta sagðir þú.. og aldrei á minni ævi hefur eins greinilega verið stungið upp í mig, af engum orðum hef ég fræðst eins mikið og lært að sjá hvaða vingull og skýjaglópur ég var að verða. Ég er nú bestur vinur þinn heima, þegar blað skilur bakka og egg. - Ég er nú aðeins vinur, sem engin forvitni kvelur, sem óskar þér alls hins besta, alls göfugs þroska og jafnvægis."

Meðan Þorleifur hélt töluna horfði Snæfríður á hann, áður var hún föl, nú dreifðist léttur roði um kinnarnar; augun dökknuðu og urðu dýpri, enn fegurri, það sló daggmóðu á þau. En Þorleifur tók eftir engu meðan hann talaði, um leið og hann lauk síðustu orðunum leit hann til hennar og fölnaði enn meira. Svo varð stundarþögn.

"Það voru gömlu falspeningarnir. Þeir, sem eitt atriði frá óþroska æsku minni höfðu vanið mig á að brúka. Hefndargirni í ykkar garð, vani, keipar, duttlungar, leiðindi og missýni. Engum vini bjóðandi, en fullgóðir fannst mér handa fleiprurum og eigingjörnum dandhölum. Ég iðraðist þeirra af því vinátta þín var mér kær og ég vissi, að þú ert svo viðkvæmur undir skelinni, góður á bak við brestina. Ég er einlæg nú á skilnaðarstundinni, mér er meiri harmur í huga en þig grunar um.. Svona, fylgdu mér ekki lengra. Við verðum að skilja hér.. Ég skal manna mig eins og ég get og koma þroskaðri til baka. En æskubyggðinni gleymi ég aldrei, aldrei því, sem ég hef unnað hér. Og þér, vinur minn, mun ég skrifa við og við - ef ég má - og vænta bréfa aftur."

"Ef þú mátt - já - ég bíð þeirra með vinar óþreyju - hærra, hærra, í orðsins besta og æðsta skilningi - það sé stefnan þín. Ef til vill sjáumst við ekki aftur, og aldrei með alveg sömu tilfinningum, en sem vinir þó vona ég. Eins og faðir kveður barn sitt, eins og bróðir systur og vinur vin, eins kveð ég þig nú."

"Ég veit það - enginn árnar mér eins heitt allra heilla - og þú, og fyrr mun ég köld og stirð en ég gleymi þeirri stund, er ég kveð draumana og dalvættina mína."

Hann stóð við hlið hests hennar berhöfðaður með hattinn í annarri hendi, með þeirri hægri hélt hann í hönd hennar, þar sem hún sat á baki.

"Góða nótt." Röddin hans skalf. "Nú fer veturinn norður að Íshafi og vorið situr döggvott í iðgrænu landinu."

Þá laut hún fram í söðlinum, og sagði hvíslandi: "Ég kveð þig með kossi, það er fyllsta vinarkveðjan." Heitur og langur koss, svo skildu þau.

Hún reið hraðstiga suður yfir Gerðishæðina og Þorleifur steig á bak; hann hafði lokið fylgdinni. Lengra átti aldrei að fara.

*

Snæfríður skrifaði rækilega heim. Við skyldfólkið lét hún allvel af veru sinni en bjóst þó ekki við langri dvöl hjá Dönum; foreldrana furðaði á að hún þóttist ekki hafa himin höndum tekið, að hún skyldi ekki una jafn vel hjá bræðrum og systrum við Eyrarsund og þau höfðu gert í æsku sinni.

Bréf þau sem fóru milli þeirra Þorleifs urðu líka nokkuð mörg. En með því þau létu ekki aðra fjalla um þau og gættu þeirra vel, þá hef ég ekki getað komist yfir nema tvo bréfkafla, sinn frá hvoru; þeir eru svona:


"...Heilsan hér í sveitinni er góð; hey tæplega í meðallagi því sumarið var kalt og heldur vott; þú getur nærri, að tæpt var sett á - það er hátturinn hér þó vitlaus sé, en veturinn hefur verið góður það sem af er og lítið gefið. Nú eru tveir dagar til sólhvarfa, þá halda margir að bregði til ótíðar en þú veist að ég hef löngum verið ríkur af vonum - margar hafa þær brugðist og farið forgörðum, sumar hrapallega, samt er nokkuð eftir af þeim ennþá, fáeinar með skynsemis yfirliti og aðrar leiddar af tilfinning og örgeði; það eru þær sem oft verða skammæjar en eru mér þó ljúfar meðan þær lifa; í þeim býr sá skáldneisti, sem við allir mörlandarnir erum svo ríkulega gæddir, og ég hef fengið ofurlítið af; sumum verður sú gjöf til angurs, öðrum til lífsléttis; ég hef fengið bergibita af báðum draumtegundunum -. Ég er að vona - bæði þess að heyin sparist og ég geti lengi notið hreinveðurs, útivistar og ágætis færis, fyrir menn og skepnur; fyrir hann Glæði minn líka - ef ég læt hann bera mig um og hreinsa sál og skrokk, sem oft er nauðsynlegt. Þessar vonir rísa ekki hátt og eru ekki fjarri stöðvum veruleikans - en - hinar, þær sveima víðar og byggja sér bólstað á skýjum; þá yrki ég stökur fyrir mig og kvæðisbrot; við það líður tíminn. Í innsta eðli er ég sveimhuga maður; mest hneigður til skáldgrufls og flingra við það fagurfræðislega í tómstundum mínum - hvorki mér né öðrum til gengis né gæfu þó. Þessi verða oft forlög niðja hraustra ætta, þegar hnignunin er að þokast yfir; og þjóðanna líka, dæmi má finna til þess.

Þú veist að ég er bóndi og bý þolanlega, það eru ekki svo mikil brögð að hnignuninni að ég gæti ekki tamið mig til þess; lært það að nurla og smækka með aldrinum, en oft er leitt að hugsa um smækkunina þegar svefninn firrist mig um nætur. Bótin er að það er ekki oft.

Eins og eiginelskur maður, er ég nú búinn að skrifa helst um mig. Vörnin er að hún Eva kom mér til þess; eins og hún er líka göfug þessi vörnin, gömul og ný.

Ef þú ert leið hjá Dönum og í þér er heimþrá, þá komdu heim; hér er nóg að starfa; sá sem vill horfast í augu við starfið, hann hefur nóg að gera hér, mikið að vinna og úr mörgu að ráða; hefurðu svo sterkan hug á bústritinu? Þú "sigld" sýslumannsdóttirin; þá er það eðli, og ekki að miklu leyti uppeldi. Þau líta á embættisstigann foreldrar þínir og undir niðri er sá metnaðurinn drjúgur, þó hægt sé með farið við okkur búkarlana hér upp í dölum.

Þú ert eins og lokuð bók fyrir mér, hvað dýpri hugsanir snertir - undir og ofan af; ekki veit ég hvað er alvara og hvað hálfgletta; úr mér geturðu lokkað margt, sem ég annars hreyfi sem sjaldnast við aðra. Er það nú rétt? Meira má segja og eiga þó nokkuð eftir af því sem dýpst er falið; sem ég á engan rétt á að hnýsa um. Hingað til hefur þótt um of létt að leiða glettuna mína fram; þú verður þá sú fyrsta, sem ég get grafið hana fyrir svo ekki örli á. Þá er nú miður skilist við vináttuna minnar handar en ég óska eftir og vil ef svo fer. Ekki er þetta heiting; hitt er það, ég er svo vandgæfur í lund; forlögin þokuðu mér svo kostgæfilega á glettunnar stigu; ef til vill er líka það, sem Bólu-Hjálmar sagði, ekki fjarri: "upplagið var bölvað".

Ég bæti ekki úr þótt bréfið verði lengra að þessu sinni; spektarleysið stendur of nærri mér núna. Seinna þegar ég fæ sólroð eða önnur góð himintákn þá reyni ég að bæta úr.

Farðu fyrr frá Danmörk en þú megrist og tapir góðum litum.

Mannistu svo að góðu og hollu hyggjuviti, sem gamli vinur þinn óskar, þá líkar

Þorleifi".


Hitt brotið er svona:


"Góði vinur minn.

Því vænna þótti mér um bréfið þitt sem fólkið mitt vanrækti meir en líklegt var að skrifa núna með jólapóstinum. Þakka þér fyrir bréfið, Þorleifur, og gangi þér allt að auðnu á árinu sem nú er runnið yfir. Þú gleymdir nýársóskinni, að minnsta kosti er hún ekki í bréfinu, en það smáræði gengur ekki nærri tilfinning minni.

Hugur minn leitar því fastar heim, sem ég er hér lengur, og bréfið þitt með lýsingunni á vetrarfegurðinni heima, glæddi að mun heimfýsina. Sumt er þó undarlegt í bréfinu þínu, eða óvanalegt hjá þér. Er ég svo dul og óheil við þig? Mér finnst ég segja margt það við þig sem ég þegi um við aðra. Nei - við þig hef ég verið ljósari í orðum en við alla vandalausa, og er óhætt að láta suma venslamennina vera með í hópnum. En ekki er ég laus við forvitnina, sem Eva lét ganga í erfðir niður allar ættir, fremur en suma aðra þá bresti sem við öll fáum. Þú og ég - við höfum ýmsa galla, suma er áreynsla að temja og venja, aðrir vaxa meir í augum venjuföstu og kreddufullu fólki en orðum taki að hlýða því; við vitum af þessum annmörkum og þó trúi ég þér svo vel samt, Þorleifur, af því ég hef reynt þig miklu meir að góðu en hinu. Ég finn hvað þú vilt mér vel, hvað þú óskar einlæglega að ég þroskist sem mest og best; svo blind er ég ekki af sjálfri mér að mér dyljist það, og ekki svo hvikul né vanþakklát að ég meti það skylduskatt, sem mér beri að taka án allrar viðurkenningar. Því kalla ég þig vin minn að ég hef aldrei annað af þér reynt en drengilega vináttu.

Hvað aðrir segja hirði ég ekkert um. Og hvað fólkið talar um mig hefur ekki haft mikil áhrif á þig - held ég -. Er ég nú ekki nokkurn veginn hrein og bein? Segi ég bara undan og ofan af? Ef nú er hula yfir eða óheilindi, þá sé ég það ekki sjálf og get ekki við því gert. Bæði eigum við tilfinningar, sem búa svo djúpt, að hvorugt hreyfir við þeim þó við séum góðvinir. Ekki enn - og líklega aldrei. Þó enginn geti sagt með járnsterkri vissu aldrei, aldrei; eins og lífið fleygir mönnunum aftur og fram, hingað og þangað.

Ævinlega geymir þú þó eitthvað og ég líka. Svo á það að vera - finnst mér; það er persónuleikinn, það dýpsta í manninum, sem ekki hjalar - ef hann kemur í ljós, hugsa ég, að það verði í gjörðum og aðbúð, ósjálfrátt, ef til vill fyrr en mann varir. Þetta ætlar að vera draumkennt fimbulfamb og er best að hætta; annars hristir þú höfuðið og undrast hvernig kollurinn á mér er kominn hér á þessum flatkökueyjum.

Um Dani skrifa ég ekki - frá þeim segi ég þér við fundi. Ekki hafa landar unnið mikið álit hjá mér yfirleitt; þar er ekki ætíð gull sem glóir, og viðsjált er að treysta fagurmælunum þeirra sumra, mitt lán var að ég er ekki trúgjörn að eðlisfari og hafði rennt grun í sollinn og sukkið þar. Ég kem heim óbrennd og ókalin; heimþráin og einfalt sveitalíf, traust og óskir góðvina minna úti á Íslandi hafa stutt mig ef hált hefur orðið svellið. Ekki máttu halda að svona skugga kasti ég á þá alla, margir eru heiðursmenn og líklegir til góðra framkvæmda. Þeir sem drekka -- við skulum annars sleppa þeim og þessu efni líka. Ekki langar mig til að prédika um siðfræði né skrifa um spillingu. Aðeins trúi ég nú miklu öruggar á sveitamenn og sveitalíf en áður, eftir veruna hér. Brestir kunna að finnast og snurður koma margar á - það játa ég; en það er þó einfalt líf hjá okkur, börnum dalanna og sveitanna, heilbrigðara og langtum eðlilegra. Hvernig áhrif heldurðu að þorp, þéttbýli og mannsukk hafi á þjóðina? Mig grunar ill. Þá verðum við sofnuð bæði frá umvési og skarki; þó mun þetta koma áður langt líður..."


Kalt og umhleypingasamt reyndist vorið; erfitt með fjárgæslu og vellíðan búfjárins eins og oft vill verða og margan manninn gerir lotinn og lúinn fyrir örlög fram. Loksins kom þó sumarið og grænt grasið - og óþrotlegt annríki, vökur og ferðalög. Eftir geldfjársmölun og rúning rak Þorleifur fé sitt til afréttar einn saman; hann reið hvatlega heimleiðis og kom fyrir rismál út á Örlygsstaðagrundir; þá fékk Glæðir að hlaupa og nú fékk hann að kenna stjórnandi taumhalds og ásetu; grundin dunaði við skeiðið; fast, hástígt og ákaflega sótt. Hesturinn var tregur að stillast þó hrossin kroppuðu við götuna sunnan og austan við túngarðinn en hann gerði það þó; fjögur sveitt, mjóslegin hross, sem rétt var búið að sleppa. Heima á bænum var farið að rjúka og tveir menn gengu um túnið lítið austan við hlaðið. Karl og kona. Þá voru þau komin. Nú var hún heima. Það voru þau Eiríkur og hún sem þarna gengu; hann sá Eirík taka ofan og veifa til sín hattinum; Gæðir skálmaði norður að grindahliðinu, Þorleifur steig af baki, opnaði hliðið, teymdi hestinn inn fyrir, lokaði, varpaði sér á bak og reið heim brautina.

"Komdu sæll, Þorleifur." Bæði töluðu jafn snemma.

"Komið þið blessuð og sæl! Vertu velkomin heim, Snæfríður;" hann tók fyrst í hönd Eiríks, svo fast og innilega í hennar hönd. Rannsakandi tillit beggja brá roða í kinnar hennar. Þorleifur var svo veðurtekinn og rauður af svefnleysi og glóð morgunhitans að það sást engin litskipting á honum.

Eiríkur snaraðist eftir Glæði sem rásaði niður túnið.

"Danir hefðu heilsað konunni fyrr og honum síðar," Snæfríður leit glottandi til Þorleifs.

"Ég er meir eigingjarn en kurteis - þarna var ég líkur börnunum..."

"Ætlaðirðu að ríða hjá, heilsa ekki nýkomnum sveitunga og góðvin?"

"Nei - en samt kom mér mætavel að Eiríkur gaf mér þessa bendingu. Hugurinn er svo oft orðinn óráðinn, óeinarður og hikandi."

"Ekki þar sem gamalkunnir eiga hlut að. Þú skyldir nú hleypa í þig duttlungum og unglings feimni við mig, sem aldursins vegna gæti vel verið dóttir þín."

Þorleifur leit til hennar og þagði; hann var náfölur. Þá kom Eiríkur með hestinn.

"Þú gerir svo vel og drekkur með okkur kaffið, ég sting klárnum inn og gef honum töðutuggu."

"Þakka þér fyrir," sagði Þorleifur og gekk heim með Snæfríði.

"Grannholda og ósælleg kemurðu heim aftur. Það er eins og þú hafir elst um ein fimm ár, og þó er það aðeins eitt."

"En langt - og oftast ógeðfellt... Hárið þitt hefur líka hvítnað að miklum mun, að öðru ertu óbreyttur í sjón."

"Ég man það ofurvel að ég er karl - ég ber svo sem ekki á móti því.."

Hún lagði höndina á öxl honum, renndi björtu, stóru augunum til hans og sagði brosandi:

"Vertu ekki svona viðkvæmur, vinur --, nú er mánudagur - - á miðvikudaginn kem ég úteftir, ef ég má..."

"Vertu velkomin - það gleður mig," sem snöggvast brá glampa fyrir í augum hans og gleði yfir andlitið.

Nú kom Eiríkur, þeir gengu til stofu, Snæfríður inn. Örstuttu síðar bar hún þeim kaffi, öll settust að drykkju.

"Ég fæ mér í kaffið líka.. Konjakk; stjörnukonjakk, það er ágætt, nú er ég heima og laus við fjandans teprið, og yfirboðs kurteisina," hún renndi á staupið og svo helming þess í kaffibollann, saup borð á og tæmdi staupið í hann.

Þorleifur spurði tíðinda og hún svaraði af létta. Karlmennirnir renndu á staupin og tæmdu, Snæfríður dreypti aðeins á því sem Eiríkur hafði hellt á. Litlu síðar stóð hún upp: "Nú verður farið að færa pabba og mömmu kaffið, þá laumast ég á eftir og heilsa þeim."

"Og nú fer ég heim að sofa og dreyma," Þorleifur spratt á fætur: "Þakka ykkur fyrir veitingarnar; nú skal klárinn minn fá að hlaupa heim."

"Ég fylgi þér út að gömlum vanda; mig langar til að sjá, hvað Glæðir er orðinn skeiðlægur." Hún opnaði stofuhurðina.

Þorleifur kvaddi Eirík, svo gengu þau tvö norður að húsinu og töluðu um fegurð lofts og láðs. Snæfríður beið úti, meðan hann sótti hestinn inn.

"Í þetta sinn er ekki tími til viðtals, síðar - á miðvikudag. Mig langar bara til að sjá hvernig ykkur semur út melgöturnar."

"O - hann leggur ekki til skeiðið núna; vitlaus í heimfýsi og húskreppu. Vertu sæl," hann rétti henni höndina. "Vertu sæl," hann sleppti ekki takinu.

"Vertu sæll, vinur," hún dró mjúkt og þétt að sér höndina.

Þorleifur lagði tauminn á makkann og greip um leið ístaðið, á sama vetfangi sat hann beinn í söðlinum, tók ofan hattinn og beygði höfuðið til hennar.

"Velkomin heim."

"Þakka þér fyrir - og heill á hesti."

Niður túnið hélt hann klárnum í stilli en örðugt gekk það. Snæfríður gekk heim að kúahlöðunni, þaðan horfði hún eftir þeim.

Neðst á túninu hleypti hann hestinum á stökk en lét hann þó ekki ná þanferð; hafði hann reistan, í hnipri, stefndi norðan við hliðið, á torfgarðinn, ekki háan að innan, miklu hærri að utan. Blístur, örlítil hvatning, hársbreiddar slökun á taum; hátt og langt stökk, yfir garðinn, báðir hurfu augnablik, og svo kom Glæðir á skeiði austur staksteinamelinn, á götuna og norður eftir.

Nú hafði Snæfríður fengið rjóðan lit og björt augu. Stundarótti, þá gleði og svo metnaður. Hvað sem áratölu leið, þá var þetta ekki gamall maður sem svona reið úr garði.

Á hlaðinu mætti hún Eiríki.

"Er búið að færa pabba og mömmu kaffið?" Röddin titraði.

"Það var verið að taka það til."

"Þá fer ég að heilsa foreldrunum," hún gekk inn.

*

Undarlega vafðist fyrir Snæfríði að búast að heiman á miðvikudaginn; hún ætlaði snemma dags, en svo kom hádegið og enn var eftir að fara í reiðfötin; hún gaf sig á tal við móður sína um lítið efni, datt svo frá því, þagnaði eða svaraði út í hött; gekk burtu, út -, inn aftur og fór að taka úr ferðaskrínu sinni ýmislegt og raða því niður í "kommóðu" sína. Öll bréfin í efstu skúffuna, þar var ekki annað en ritföng og bréf; þau voru mörg, sum gömul og gul, önnur ný og bjartari yfirlits. Hún las nokkuð af þeim, stóð á fætur, læsti og lét lyklana í vasa sinn; henni var heitt og andlitið óvenju rautt, þá horfði hún út um gluggann um stund, varp önd og snaraðist í reiðfötin. Sólin stóð yfir Nónhólnum.

Snæfríður reið hægt norður göturnar og þó hafði hún góðan hest; Fífil Eiríks; henni hafði oftar verið brugðið um harða reið og það jafnvel þó að reiðskjótinn væri heimantregur; nú hefði enginn látið sér þau orð um munn fara. Ef til vill hefur hún verið að virða fyrir sér sérkenni sveitarinnar, fegurð bernskustöðvanna, en ekki er það þó annað en getgáta. Hún var sokkin niður í hugsanir; henni lá ekki á.

Nokkru sunnan við Gilsstaði var Þorleifur að verki; að hagræða áveituvatni um flæðuna rétt austan við veginn; hann var sokkinn niður í vinnuna og gaf ekki gaum að öðru.

"Góðan daginn; komdu sæll, Þorleifur."

"Komdu sæl," hann stakk niður rekunni og gekk til hennar: "Ég er ekki sérlega fínn né fágaður - þetta eru viðbrigði, þeir ytra svo gljástroknir og ég verkkarlinn í forarvætlunum; ég slæst nú í förina með heim samt. Þér er hægt um að ríða frá mér, hvenær sem vill, ég er ekki fóthvatur maður."

"Fífill gæti það, ekki er reiðmæðin í honum, en svo drambsöm er ég ekki að geta miður metið vinnuna en uppskafninginn. Hvernig er vísan, sem þú ortir þegar Glæðir bar þig út fyrir garð og norður mela um morguninn?"

"Ég gerði enga vísu," Þorleifur roðnaði, því hún var til og hann mundi hana mætavel.

"Það var gapalega riðið. Þú mátt treysta honum vel, að hleypa svona að raunarlausu í torfærur."

"Já, honum treysti ég; það verður ekki Glæðir sem vinnur slys á mér." Þungum alvörusvip brá fyrir á andliti Þorleifs.

Ósk tók með allri alúð á móti gestinum, hugir þeirra leiddust til meiri samúðar við nánari kynning. Þær voru mikið saman um daginn; önnur frétti eftir mönnum og háttum þeirra, byggingum, söfnum og menning erlendis; hin eftir stærri og smærri tíðindum heima; svo mikið höfðu þær aldrei rætt saman áður; dagurinn leið fyrr en þær varði; stundum var Þorleifur við viðtalið; þess á milli starfaði hann að viðgerð amboða og reiðinga úti í skemmu, veitingar voru bornar í nýja bjarta stofu og við borðið sátu þau þrjú; synir Þorleifs voru ekki heima.

Eftir náttmál kom Þorleifur til þeirra upp á túnið, þær gengu um á Dagsláttunni, þar var víðsýni mest, niður frá lá túnið slétt og iðgrænt; fíflar og sóleyjar glóuðu við kvöldsólinni.

"Hér hefði mér þótt fallegast bæjarstæði, héðan sést svo vel yfir dalinn."

"Þeim sem hér byggðu fyrst hefur líklega þótt meiri hætta fyrir hvassviðri og næðingssamara á Dagsláttunni; ef til vill hafa þeir ekki haft jafn glöggt auga fyrir útsýn og við, og nokkuð brýnni þörf til að hafa hlýlegt við bólstaðinn. Þeir höfðu ekki ofna né eldavélar eins og við, Snæfríður."

"Miklu er hér fallegra en í framdalnum, brekkurnar lægri og dalurinn breiðari; rýmindalegra, jafnbjartara."

"Finnst þér það?" Þorleifur leit til gestsins, föstum augum: "Suðurdalurinn er engu síður búsællegur en svo þröngur og krappur; hjá Örlygsstöðum breikkar og fríkkar en landkostir hlíðanna eru magrari."

"En engið meira og grösugra," sagði Ósk.

"Nú er að nótt komið. Þá þarf ég að fara heim."

"Og ég að sinna kvöldverkunum; mér skildist á Þorbjörgu gömlu í dag að ég væri of laus við verkið."

"Viljirðu fylgja Snæfríði þá er þér velkomið að sitja á honum Glæði suður eftir. Þú ferð fáar léttiferðirnar, barnið mitt."

"Þakka þér fyrir -- þá þarf ég að hraða mér fyrst við skömmtunina," hún roðnaði af gleði.

Og Snæfríður var líka rjóð; hún leit allra snöggvast til Þorleifs; var spurn eða undrun í þeim augum? Á því gat hann ekki glöggvað sig og nú rann honum roði í kinnar.

Þau Snæfríður og Þorleifur gengu til stofu, Ósk inn og Láfi litli fór að sækja hestana.

Snæfríður hallaði sér til hálfs út af í legubekknum; hinum megin borðsins sat Þorleifur. Fyrst varð þögn..

"Þú --- þú, Þorleifur, átt sem húsráðandi að vekja samræðuna og halda henni uppi," glettu brá fyrir í rómnum og þó var eitthvað hikkennt um leið.

"En ég er svo gamall og tornæmur; mér festist ekki kurteisin í hug þó vel sé kennt. Þó það sé þú sem kennir. Ung, betur mönnuð og betur fáguð en ég... Milli mín og þín stendur nokkuð það, sem tefur tunguna, sem leggur höft á mig, sem þjáir mig og sem ég þó óskaði ekki eftir að væri horfið." Hann horfði til hliðar við hana út í gluggann.

"Ef þú ert lengur að tala um ellina þína þá reiðist ég. Gamall er sá sem ekki þorir né þolir að hleypa hesti, sem segir sögur frá liðnum frægðardögum en þorir ekki að slá teiginn móti æskumönnunum; hann sem er hættur að skilja gleðina, æskuna og vonirnar til lífsins, en nöldrar og tefur og heiglar öllu, sem æskan vill framkvæma. Sá sem óbifanlega trúir að hann sé gamall og finnur til þótta af öldungsaldrinum." Hún sat bein og þrekvaxin móti honum, lagði hægri höndina á borðið; ekki þunna og mjóa, þróttlega, en mjúka. Horfði blóðrjóð hvasslega til hans.

"Þig vantar öldungs trúna. Þú hefur ungra þrár, metnað og gapaskap æskunnar."

Þorleifur réttist í sætinu, hann horfði beint í augu henni fast og einarðlega, glampinn óx.

"Þú tekur mig til bæna, eins og reiður prestur vantrúa söfnuð. Jú, eggjan get ég tekið, en þá er ég líka óbilgjarn og ekki auðmjúkur. Þá hugsa ég ekki um afleiðingarnar," hann stóð á fætur, gekk fyrir borðið og settist í bekkinn hjá henni; fölur og fastmæltur sagði hann svo um leið og hann lagði höndina yfir hana: "Nú bið ég í heitustu alvöru um ást þína, um þessa hönd," um leið tók hann þétt hægri höndina: "Og þetta hjarta," höfuð hans laut niður að brjósti hennar.

"Og ég gef það sem þú beiðist eftir," hún hallaðist að honum.

Hvort heldur er karl eða kona sem les söguna þá hugsið ykkur nú orð og atvik eins og þið sjálf viljið þangað til Ósk kom með mjólkina og kökurnar á skutlinum. Þá sat Þorleifur á stól sínum og Snæfríður í hvílubekknum; þau ræddu um sumargæðin og dalinn sinn, fagran og búþriflegan. En svo var svipur þeirra heiðbjartur og tungutakið mjúkt að Ósk grunaði þegar hvað til hafði borið.

Litlu síðar riðu þær úr hlaði; Þorleifur settist við stofuborðið með ritföng sín. Það voru fagnaðarljóð ástarinnar sem bættust við í bókina hans þessa vornótt. Bókina, sem ætíð var geymd í sama læsta hólfi skattholsins. Þann lykil er að því gekk skildi hann aldrei við sig.

*

Múgur og margmenni safnaðist saman á Þingnesi á Jónsmessu, veður var stillt, skýjað loft og spaklegt. Svipaðir vorfundir höfðu verið haldnir þar áður og þótt góð skemmtun að.

Fyrst var söngur, þá steig sýslumaður í stólinn og mælti fyrir Íslandi, það var löng ræða, þunglamaleg og endurtekin um of síðari hlutinn, en rómur var mikill gerður að henni og nífalt húrra á eftir. Hann kunni vel lagið á því ungi læknirinn, sem kominn var þangað til að gleðjast með glöðum; Einar Vigfússon var snyrtimenni í sjón og háttum, raddmaður, söngvinn, danskær, sléttmáll og gefinn fyrir vín, án þess þó að drekka sig ofurölva. Nóttina áður hafði hann gist á Örlygsstöðum og hélt sig mjög að því skylduliði. Við hann var sýslumaðurinn sérlega glaður og Eiríkur og Einar voru ástúðlegir vinir sem lítið máttu skilja.

Næst steig læknirinn í stólinn og hélt glæsilega ræðu um Jón forseta Sigurðsson, starf hans og afrek. Þeirri ræðu var tekið með einróma fögnuði, síðan var glímt; þá fengu menn sér hressingu í tveim tjöldum er til þess voru gerð.

Rétt fyrir utan tjaldið hittust þau Snæfríður og Þorleifur; hún vék honum afsíðis:

"Sýnið þið nú að í ykkur sé dugur í dag; látið þið ekki lækninn dansa á ykkur og draga allt lofið til sín. Hann leggur Fálka sinn fram til skeiðsins í dag; ef Glæðir dugar ekki gerir enginn hestur hér það."

"Glæðir er svo vanstilltur með skeiðið; það væri hundaheppni ef ég festi hann á því; til þess vil ég ekki hætta."

"En ég bið þig þess, ég treysti ykkur eða engum til að taka þar á móti."

"Þá verð ég að hætta til en sigurinn tel ég mér ekki líklegan." Þau skildu.

Næst var dansað og það leyndi sér ekki að Einar kunni að stíga sporið betur en dalbúarnir; hann og Snæfríður, Eiríkur og Ósk, það var heldur bert fram gengið. Þorleifur varð þyngri á svipinn.

Að því loknu steig presturinn í stólinn; hann hafði sinn kirkjulega framburð; ræðan var um vorn konunglega föður, konunginn og ættfólk hans, og lokaorðin þannig: "Guð haldi sinni verndarhendi yfir vorum ágæta, elskulega konungi og öllu hans húsi. Guð blessi konunginn."

Nífalt húrra.

"Þetta var auma ræðan, bæði að efni og orðum," Þorleifur sneri sér að sonum sínum: "Og þið, skafningarnir, þið voruð með. Fyrir lýðveldinu hefðu fáir eða engir æmt eða skræmt -- Svei."

Aftur læknirinn.

Um vorið og gleðina; glæsileg og íburðarmikil ræða, sléttorð, rennandi, með meiri æfingu og list flutt en venja var til og hiklaust.

"Hann verður hrókur alls fagnaðar hér í dag, læknirinn. Og svo eru sýslu- og dalræðurnar eftir." Þorleifur klappaði á öxl dóttur sinnar um leið og hann sagði þetta.

Hestarnir voru leiddir fram reiðtygjaðir, fjórir stökkhestar og Glæðir sá fimmti.

Þegar að merkinu kom brustu allir jafnt af stað og Hrafn frá Ási fram úr, hinir þrír máttu teljast jafnir, Kots-Lýsingur varð á eftir, þannig hálfnaði leiðin, þá var Glæðir kominn hestlengd fram úr hinum; Hrafn nálægt fjórum föðmum framar. Þorleifur lyfti sér lítið eitt til, beygðist meir fram og þá fór að drýgjast skriðurinn - á hlið við Hrafn - framar, fram úr; Hrafn var þremur hestlengdum aftar er að skeiðsenda kom.

"Mikill fantur er hann þessi fölrauði hestur - hlaupafantur, sé skeiðið viðlíka held ég það sé eins og segir í Karla-Magnússögu, "djöflar kvikir í honum"."

Það var Hesta-Leifur, fylgdarmaður Einars læknis sem talaði.

Vekringarnir komu næst. Fífill, Hremsa, Fálki og Glæðir. Lækninum var brátt að ljúka skeiðinu af.

"Þorleifs hestur verður að blása vel mæðinni fyrst," sagði formaður dómnefndarinnar.

"Hann er til - ekki skal þurfa að bíða mín lengur," Þorleifur steig á bak.

Þrjú hrossin náðu skeiðinu strax; Hremsa og Fífill nett og tíð, snarvökur og jöfn, Fálki stórfetaðri, mestur vexti og nokkru framar. Þau fóru árbakkann, Glæðir var austastur, hann náðist ekki niðri um leið og farið var hjá markinu. Fáum föðmum norðan við var grafningur úr hálfdeigjunum ofan við niður að harðbakkanum, á hann stefndi Þorleifur og lét stökkva yfir; brá hestinum til skeiðs og stefndi norðvestur að hinum; fram hjá þeim tveimur, nær og nær lækninum, samhliða. Þorleifur blístraði, læknirinn sló sinn hest.

"Ekki að slá blessaða skepnuna, ekki bætir það," Þorleifur blístraði aftur og nú skildi með hestunum. Hann reið yfir markið og þrumuna norður eftir bakkanum.

"Ekki er skeiðið lakara." Leifur starði á hestinn. Fleiri og fleiri komu að og horfðu aðdáunaraugum á þann gripinn sem sigurinn hafði unnið.

"Ég vonaði það, að Glæðir yrði drýgri; líttu á, það er enginn sigursvipur yfir lækninum núna," Snæfríður horfði brosandi til Þorleifs; þau höfðu mæst lítið utan við mannþyrpinguna.

"En það skall hurð nærri hælum; hann er svo tregur á skeiðið; heldurðu mér hefði liðið vel ef hann einn þeirra allra hefði orðið hlutrækur."

"Vogun vinnur - vogun tapar; það er nú mín skoðun og núna heppnaðist allt ágætlega. Ætlarðu ekkert að segja í dag? Á hann einn að skemmta; einn að voga - og vinna?"

Svo var sungið um hríð og dansað eina klukkustund. Næst komu frjáls ræðuhöld.

Hann var fölur, sá ræðumaðurinn, sem fyrstur steig í stólinn, og skjálfraddaður í byrjun; fann ekki fljótt orðin og rak í vörðurnar. Í einni slíkri þögn hvörfluðu augun til Snæfríðar; innileikinn, hvatningin og ástin ljómaði úr hennar augum. Roði færðist í andlit Þorleifs og nú komu orðin, heit og áköf, hvatning og áminning til allra sem dalinn byggðu, að drýgja dáð; vinna í sameining; mannast og þroskast. Enginn mætti liggja á liði sínu; enginn þykjast vaxinn yfir það, enginn telja sig of smáan og liðléttan; hvorki karl né kona. Þá yrði dalurinn fagur og góður, þegar sannfrjálsir menn kostuðu kapps um að prýða og bæta; hús og heimili, tún og engi og haga.

Dalurinn væri - frá náttúrunnar hendi - góð búsældarsveit og fagur. Hann benti með hendinni eins og til að sýna hverjum manni allt fallegt, smátt og stórt. Svo yndislegur væri hann, að einn af sonunum sem annars væri ekki skáldgæddur maður hefði ekki getað orða bundist, þá hefði þetta litla kvæði fæðst. Við sólarlagið - þegar náttúran hefði hvílst í heilagri ró og sælu. Örstutt stund, augu þeirra Snæfríðar mættust, þau skildu ein hvað hér lá falið.

Kvæðið lét vel að lestri; það finna allir sjálfrátt eða ósjálfrátt um hrynhenduna.. Röddin var óvenju mjúk, skalf örlítið. Þessa stundina lifði Þorleifur aðeins fyrir þá kennd og fegurðarheill sem kvæðinu hafði gefið líf og lit. Að kvæðinu loknu hóf hann meira raustina og sagði:

"Gæfan og gleðin blessi dalinn okkar og allt sem hann fæðir og nærir."

Dynjandi lófaklapp.

"Guð blessi dalinn." Það var presturinn sem þetta sagði hátt og alúðlega - enginn minnsti keimur af prédikunarhreim yfir orðunum.

Og fjöldi radda:

"Guð blessi dalinn."

Háðsglottið hvarf af andliti læknisins; en heillegt gat þó naumast andlitið heitið þegar hann samrómaði með sýslumanninum og samþýddi rödd sína fjöldanum.

Þorleifur mætti þeim Ósk og Snæfríði utan við þysinn; þær þökkuðu honum fyrir dalkveðjuna og kvæðið.

Nú var hann fullviss að hann hafði ekki misstigið sporin í stólnum. Þrenns konar ánægja fyllti brjóst hans unaði. Hann var munklökkur og fagnaðarölva.

Söngurinn rauf klið mannamálsins.

"Þú bláfjalla geimur með heiðjökla hring" fyrst; "Dalvísur" Jónasar; "Vorið er komið".

Eftir það fjórðungsminnið.

Nú tók læknirinn á því, sem til var; fagurmáll og orðfimur og sléttorður; en hólið varð of ákaft, það fundu allir skynsamir menn og því urðu áhrifin ekki hjartföst; engan eld lagði eftir æðum manna.

Þessi sýsla væri best mennt og sjálfstæðust, svo mikið þyrði hann að fullyrða; margar sveitir væru vel mannaðar og fagrar; en þennan dal teldi hann hjarta hennar bæði að fegurð og kostum hans og atgervi mannanna og menntun þeirra.

"Þar sigldi hann skipinu á gamla skerið," Þorleifur laut að þeim Snæfríði og Ósk sem stóðu samhliða syðst í mannþyrpingunni.

"Fyrr má nú rota en dauðrota," sagði Snæfríður og brosti við.

"Ætli fjöldinn gleypi samt ekki við fleskinu eins og hann ætlaðist til," hvíslaði Ósk.

"Lifi og blómgist fjórðungurinn og allra best þessi yndislegi dalur."

Læknirinn hneigði sig mjúklega.

"Lifi fjórðungurinn, blómgist og blessist," hrópaði sýslumaðurinn og margir umhverfis hann en margir þögðu utar í hringnum. Það hafði ekki kviknað í gjörvöllu fólkinu.

Læknirinn var varla eins léttur í spori þegar hann gekk til söngflokksins og fyrr um daginn en jafn skær var röddin og áður.

Eftir þann söng gekk Þorleifur í ræðustólinn. Hann litaðist um hægt og rólega.

"Stutt skal ræðan verða; í dag er margt búið að segja, mikið og vel hefur verið sungið, gott hefur veðrið verið og óvenju mikil gleði og skemmtun. Ég get aðeins þessa af því ég finn það og fjöldinn finnur það einnig. Þó er það annað, sem ég ætla sérstaklega að þakka. Þakka einum manni, einum gesti, sem hefur tekið þátt í allri gleðinni með okkur; verið, svo að ég sé meira forn en nettur að nútíma venju, hrókur alls fagnaðar. Ég þarf ekki að nefna hann, allir vita við hvern ég á. Ekki er það maður kynjaður úr þessum dal né sýslu né fjórðungi, þó hefur hann verið hér ein tvö ár og haft mikil kynni af mönnum - að minnsta kosti yfirborðs kynni. Hann hefur haldið hér tölur í dag af meiri list en við eigum að venjast heimalningarnir; hann hefur hælt okkur hér, svo við megum varast drambsemina, sem er svo fljót að bjóða sér inn ef lofið opnar hurðina; reynum heldur að vaxa upp í skikkjuna, sem hann sneið okkur við vöxt; verða stærri í orðsins besta skilningi.

Hver efast um að honum hafi litist jafn vel á byggð og menn og hann sagði? Enginn mun svara því neitandi. Jafn snyrtilegur maður og fús til félagsins segir auðvitað það sem honum virðist satt og rétt; hver mundi væna unga lækninn okkar um gullhamra eða óheilleik? Ekki sé ég menn til að játa því. Hann sér ljósu hliðina og talar um hana og fyrir okkar allra hönd þakka ég það að verðleikum; óska að við verðum færir um að sýna honum hana sem oftast. Vegsamlegu orðin um okkur eru góð en ekki hefði ég, sem hér er fæddur og kunnugur, getað sagt þau; ég hef svo oft séð þoku draga upp hið ytra og él festast hið vestra; skuggunum bregða á manndómslíf okkar. Ekki er það mér nein vissa né sannfæring, að þessi dalur sé hjarta sýslunnar; það hjarta væri þá stundum nokkuð veikt og hvikult, en svona kemur honum þetta fyrir sjónir; honum sem ekkert fjórðungsdramb, sýslumetnaður né einhliða fæðingarsveitarást villir sýn. Maðurinn er drengilegur sýnum og orðrómurinn um heilhuga og alvöru svo mikill að ekki er að efast um það - enginn grunar lækninn um græsku, þótt Hvamms-Sturla yrði að sætta sig við þau ummælin. Þetta veit ég menn mundu verða sammála um, ef til atkvæða yrði gengið núna; þess er engin þörf og ætti ekki við". Lítil þögn, Þorleifur renndi augum yfir, glott lék um varir læknisins en andlitið var fölt: "Ég þakka þessum manni - fyrir ágæta skemmtun í dag - fyrir þann heila hug sem hann hefur sýnt. Ég óska að hann og héraðsmenn verði ávallt jafn vinveittir í hugum og augljóst hefur orðið í dag.

Að menn láti samhug sinn í ljós fyrir Einari lækni Vigfússyni, þess þarf ég varla að biðja lengi; enginn villist á ófimlegu orðunum mínum og því sem ég hef bent á. Langorðari má ég ekki vera, af því þau eru þó skiljanleg, þrátt fyrir heimdragasvipinn sem markar þeim skorður."

Glymjandi lófaklapp; Þorleifur gekk hægt niður úr stólnum; mörg rannsóknaraugu litu til hans, en þar var ekkert svar hægt að sjá, sami gleðisvipurinn lá nú yfir þessu andliti og verið hafði áður um daginn.

Læknirinn þakkaði með örfám orðum fyrir virðinguna. Svo gekk hann upp að veitingatjaldinu, beinn og léttur í spori, broslaus og þögull þó málvinir mættu honum.

Skömmu síðar mættust þau Snæfríður og Þorleifur, fólkið var farið að dreifast, engar líkur voru fyrir fleiri ræður.

"Nú var ég hrædd um þig -- að þú mundir verða of gráglettinn."

"En - hvað?"

"Þú slappst - þó líkaði honum ræðan illa - hann er eins viðkvæmur fyrir sér og háðið er á takteini við aðra."

"Nú fer að líða á daginn; bráðum fer ég heim, við dansinn skemmti ég mér ekki til lengdar. En þú?"

"Pabbi fer bráðum, ég vildi helst hann segði okkur að vera með - en það verður varla. Þó hef ég gaman af dansi eins og áður, og nú er nýtt um að stíga sporið, ytra sagðist ég ekki kunna - þá sjaldan til kom, þar gat ég varla orðið samstiga. .. þú veist, að ekkert er að óttast; ég er heilhuga. Þakka þér fyrir daginn í dag, Þorleifur."

"Þakka þér fyrir vináttuna, og allan þann unað sem þú hefur veitt mér; fyrir djörfung þá sem þú hefur vakið hjá mér."

*

Seint á einmánuði vetrinum eftir reið Þorleifur suður að Örlygsstöðum; skömmu síðar kom sýslumaður fram og bauð honum til stofu; hann var með yfirvaldssvip og fálegur.

Þorleifur bar upp bónorðið. Fyrst varð þögn, sýslumaður sat brúnþungur og rauður, loksins tók hann til máls:

"Hvernig gat þér dottið þetta í hug, gömlum manni? Ég verð að trúa og þó er sagan ekki sennileg. Hvað heldurðu mér sýnist: að neita; koma vitinu fyrir hana, barnið? Það er best að ráða þessu til lykta sem fyrst. Ég kalla á mæðgurnar." Hann fór.

Stutt stund leið, þá komu þau fram. Þorleifur heilsaði; ekki heyrðist að húsfreyja ansaði. Snæfríður tók fast í hönd hans og nam staðar hjá honum. Fyrst þögnuðu allir, síðan tók Snæfríður til orða:

"Pabbi og mamma; ég veit ykkur geðjast ekki að þessari ráðabreytni minni. En satt er það samt, við Þorleifur erum sammála, okkur verður ekki talið hughvarf; ég hef horft á miseldrið og það með skynseminnar augum; hitt var sterkara - ástin á honum. Þetta er ekki stundarhiti, það er alvara."

"Þú, Snæfríður, að verða þessi vesalingur. Þú neitar Einari lækni í sumar, ungum og álitlegum manni, og tekur gamlan, efnalítinn bónda fram yfir hann, mér er skyldast sem móður, að telja þér hughvarf eða þá, ef það ekki tekst, að taka af þér ráðin; þetta er bara barnaskapur, sem þú ferð fram á. Það er hann, sem hefur ginnt þig til loforðs sem þú ert ekki nógu sterk til að slíta."

"Ég sagði áðan að mér væri alvara; Þorleifur hefur aldrei ginnt mig til loforðs, ég gaf það frjáls og fús. Mér verður ekki talið hughvarf og ekki snúið með hótunum."

"Þá segi ég ekki meira og fer inn; ekki færðu mitt samþykki." Hún reis á fætur.

"Það er satt, að ég er roskinn og ég er bara bóndi; von er til að ykkur líki miður ráðhagurinn; en við erum bæði þrá í skapi og höfum prófað hugi okkar svo vandlega, að ekki gefumst við upp; ég er ekki auðmjúkur að eðlisfari, en ætti ég von á betri sigri með því móti, mundi ég fúslega biðja fyrir okkur bæði. Mér yrði þungt að sjá Snæfríði kúgaða, vináttu okkar sundrað. Ég get ekki sleppt henni."

Húsfreyja hafði gengið til manns síns og hvíslað nokkrum orðum að honum; þegar Þorleifur þagnaði sagði hann:

"Hér eiga geðstórir menn í hlut á báðar hliðar, ég sé ekki annað en aðrir hvorir verði að slaka til. Þorleifur gerir það trauðla og Snæfríður aldrei. Þau hafa rétt elskurnar, það sé ég nú að er satt. Þau giftast hvað sem við segjum; ekki uni ég því að tapa málinu og standa í úlfúð við barnið mitt. Nauðugur geri ég það, en þegar ég segi já, þá reyni ég að standa við það; reyni að allt verði bærilegt. Ég samþykki ráðahaginn. Það gerir þú líka, góða mín."

"Ekki í dag - þú ræður, hvað þú gerir fyrir mína hönd." Með það gekk húsfreyja burtu.

"Elsku pabbi." Snæfríður gekk að honum, lagði hendur um hálsinn og kyssti hann heitum kossi.

"Taktu í höndina á mér, Þorleifur, guð gefi ykkur hamingju og vináttu, sem aldrei slitni." Þeir tóku höndum saman.

"Þetta var föðurlega og vel gert. Því mun ég aldrei gleyma. Von var til að þér litist þunglega á ráðahaginn. Fáir mega sköpum renna, það sannast á mér og þér, á okkur öllum."

"Nú fer ég inn og reyni að tala um fyrir henni og hugga hana - - henni þótti svo óstjórnlega vænt um þig, barnið mitt."

Þegar sýslumaður hafði lokað hurðinn tók Snæfríður í hönd Þorleifi, leiddi hann að hvílubekknum og sagði: "Þetta var erfitt morgunverk; við skulum hvíla okkur, elsku vinur. Nú er ævintýrið á enda."

"Nú byrjar sagan, samverusagan; við skulum reyna af megni að hún verði góð, að vináttan og traustið dvíni aldrei."




Netútgáfan - mars 2000