Þegar Skjóni var trippi, var hann bara kallaður litli Skjóni, því hann var fremur lítill, en þegar búið var að temja hann og það kom í ljós, að hann var efalaust bezti hesturinn í sýslunni, og þó víðar væri leitað, þá skírði eigandinn, Jón hreppstjóri á Brú, hann um, og kallaði fræga Skjóna, og því nafni hélt hann.Jón á Brú var nýorðinn hreppstjóri, þegar búið var að temja Skjóna, og þess vegna kom Skjóni vel í gagnið að bera hreppstjórann á embættisferðunum aftur og fram um allan hreppinn. En embættisferðirnar voru margar, fjarskalega margar. Brúarhreppur var langstærsti hreppurinn í sýslunni og Jón á Brú var lang-umsvifamesti hreppstjórinn, sem sögur fóru af þar í hrepp. Hann var líka alltaf á ferðinni. Hann þurfti að koma fyrir sveitarómögum, líta eftir tíundarsvikum, gefa gætur að birgðum bænda, og alltaf var hann á Skjóna, á öllum þessum ferðum. Gárungarnir í sveitinni sögðu, að hann væri að hringla þetta, hreppstjóragarmurinn, til að sýna sig á Skjóna. Það var líka auðséð á öllu, að Jóni var engan veginn leitt að láta sjá til ferða sinna á Skjóna, og hvar sem til þeirra sást, voru þeir alltaf í loftinu.
Jón lagði mikla alúð á, að sitja tígulega á hesti; hann hallaði sér töluvert aftur, teygði fæturna þráðbeinar eins og spýtur fram með bógunum, sló þeim með hægð út í loftið og lagði þeim svo í síður Skjóna, einum og einum í senn, alltaf á víxl. Það var gamall siður með öllum heldri mönnum þar í sveitinni að ríða svona. Sumir yngri menn fóru að taka upp á því að halla sér heldur fram og slá báðum fótum í senn í síðu hestsins, en öllum eldri og heldri mönnum þótti það bæði tilgerð og spjátrungsskapur.
Jóni þótti vænt um Skjóna. Það var líka von, því auk þess sem Skjóni tók öllum hestum þar í grenndinni fram að flýti, þá var hann hesta fallegastur. Hann var gráskjóttur að lit. Og svo sögðu að minnsta kosti Jón hreppstjóri og kona hans, að engin skepna á jörðinni væri vitugri en Skjóni. Það var líka furðulegt, hvað Skjóni virti allt skarplega fyrir sér, sem hann sá, og margir tóku til þess, hvað hann hugði grandgæfilega að mönnum, þegar hann bar hreppstjórann til mannfunda. Hann gat lengi einblínt ljósgráu augunum sínum á sama manninn, um leið og hann reisti upp gráu eyrun. Jón hreppstjóri tók fljótt eftir því, að Skjóna leizt vel á þá menn, sem hann hugði svo vandlega að. Og aldrei var Skjóni ánægðari á svipinn, en þegar þeir menn gengu að honum, fóru að klappa honum á makkann og láta vel að honum.
En Skjóni gerði sér mannamun.
Það voru margir, sem Skjóni leit ekki á, nema allra snöggvast, og það ekki nema með hálfopnum augum, og svo kreisti hann þau undir eins aftur og leit svo á eitthvað annað. Það var ekki til neins fyrir þá menn að láta vel að Skjóna; hann skók hausinn úr höndum þeim, hristi sig allan og krafsaði upp jörðina með hægri framfætinum, svo þeir stukku sem skjótast burtu.
Jón var enginn sérlegur skarpleikamaður og það var almannarómur, að hann treysti betur mannþekkingu Skjóna en sinni eigin. Víst var um það, að honum var lítið um alla þá gefið, sem Skjóna geðjaðist ekki að.
Það mátti Jón eiga, að hann fór vel með Skjóna að öðru leyti en því, hvað hann reið honum mikið. Hann stríðól hann á veturna, og þegar hann á vorin kom heim á honum dauðþreyttum og kófsveittum eftir einhverja embættisferðina, þá sleppti hann honum í túnið og lét hann bíta sig saddan, þar sem loðnast var og Skjóna þótti bezt.
Jón sagði það oft og mörgum sinnum, bæði kenndur og ókenndur, að Skjóna skyldi hann aldrei farga. En það heit var nærri því komið út um þúfur einu sinni. Eins og góðum og gömlum hreppstjóra sómir og ber, þótti Jóni hreppstjóra mjög vænt um sýslumanninn sinn, og það var jafnan viðkvæði hans, að "eins og velferð hreppsins væri komin undir því, að hreppstjórinn væri nýtt yfirvald, eins væri velferð sýslunnar komin undir því, að sýslumaðurinn væri duglegur." "Og (því bætti hann við) við vitum allir, hvað ágætt yfirvald við hér í sýslu eigum." Hann gat ekkert um, hvernig yfirvaldið í hreppnum væri, en það var almennt álitið, að honum þætti það ekki síðra en sýslumaðurinn.
Svo var það eitt vor, þegar sýslumaðurinn kom að þinga og gisti hjá hreppstjóranum, að þeir sátu um kvöldið að púnsdrykkju bæði yfirvöldin. Þeir urðu báðir nokkuð mikið kenndir, einkum þó sveitaryfirvaldið. Jón hreppstjóri varð ofboð blíður og óvenjuklökkur og ástríkur, þegar hann var búinn að fá mikið í kollinn. Svo varð líka í þetta sinn, og seinast um kvöldið gaf hann sýslumanninum Skjóna sinn. Sýslumaðurinn þáði gjöfina um kvöldið, en um morguninn eftir var ekki takandi í mál að hann færi með Skjóna, enda lét hreppstjórinn sér vel líka, að sýslumaður þóttist ekkert muna eftir gjöfinni um kvöldið.
En eftir það gaf Jón hreppstjóri engum manni Skjóna, þó hann yrði kenndur og klökkur.
Hann varð reyndar oft góðglaður; já, meira en það; sá sem vissi bezt um það allt, var frægi Skjóni. Hann varð oft og tíðum að hafa vit fyrir þá báða, sig og hreppstjórann, og fór allt vel.
Þegar hreppstjórinn var ekki nema lítið eitt kenndur, þá var eins og Skjóni dillaði undir honum; hann var hjólliðugur og bráðviljugur og fór ýmist á renniskeiði eða harðasta stökki, allt eftir því sem hreppstjóranum bauð við að horfa. Væri hreppstjórinn í meira lagi kenndur, þá fór Skjóni aldrei nema á skeiði og það ofurþýðu skeiði. En væri hreppstjórinn dauðadrukkinn, þá fór Skjóni aldrei nema hóftölt, og hagaði ferðimi eins og hann hefði tvennt fyrir augum, að halda hreppstjóranum vakandi og láta hann ekki detta af baki.
Það var einkum í kaupstaðarferðum, að hreppstjóranum hætti við að taka sér heldur mikið í staupinu, enda var honum einu sinni nærri því orðið hált á því.
Það var eitt kvöld um haustið í niðamyrkri og húðarrigningu, að von var á Jóni úr kaupstað. Hann reið Skjóna eins og vant var. Kvöldið leið og Jón kom ekki. Kona hans var orðin sárhrædd um hann. Hún vakti alla nóttina og lét kveikja ljós í efstu gluggum til að beina honum leið, ef hann kynni að vera orðinn villtur. Þegar komið var yfir aftureldingu, kom Jón loksins heim. Hann var gangandi og holdvotur frá hvirfli til ilja, og þegar kona hans spurði hann, hvað hefði tafið ferð hans og hvað væri orðið um Skjóna, þá svaraði hann engu öðru en því, að Skjóni hefði bjargað lífi sínu um nóttina og nú lægi hann við Brúará, sem var alllangan veg burtu frá bænum, en taldi mjög óvíst að menn fyndu hann lifandi.
Meira var ekki hægt að toga úr hreppstjóranum; svo gekk hann til rekkju og lá rúmfastur hálfan mánuð.
Skjóni fannst liggjandi á árbakkanum; hann var lifandi, en svo var hann þrekaður, að hann gat nær því í engan fótinn stigið, þegar hann ætlaði að standa upp.
Mönnum varð harla tíðrætt um þennan atburð í sveitinni. Sumir héldu, að hreppstjórinn hefði átt við sjóskrímsl um nóttina, en þeir voru fleiri, sem héldu, að draugarnir á Brúarsandi mundu hafa viljað draga hann í sjóinn. Fyrir Brúarsandi hafði farizt hákarlaskip með 12 mönnum fyrir eitthvað 10 árum, og það var alþýðu trú, að þar væri í meira lagi reimt síðan.
Aftur héldu aðrir, að þetta áfall Skjóna og hreppstjórans hefði atvikazt miklu náttúrlegar. Þeir töldu víst, að hreppstjórinn hefði verið í meira lagi kenndur og flengt út í Brúará í náttmyrkrinu beint á móti Brúarbænum, en þar er Brúará svo straumhörð og breið, að það er ekki fyrir færustu hesta að synda þar yfir, enda eru háir bakkar þar að ánni beggja megin.
Hvað sem þessu leið, þá var hreppstjórinn orðinn albata eftir hálfan mánuð og sagði hverjum manni frá því, að Skjóni hefði bjargað lífi sínu um nóttina, en ekkert vildi hann frekara segja frá ferðum sínum.
En Skjóni náði sér aldrei eftir þetta. - Svo leið og beið. Jón hreppstjóri fór að eldast og Skjóni ekki síður.
Þegar Jón var búinn að vera hreppstjóri í 15 ár, varð hann dannebrogsmaður fyrir dugnað sinn í þeirri stöðu. Gárungarnir létu reyndar í veðri vaka, að Skjóni hefði fullt eins vel átt krossinn skilið og hann, og eftir það var Skjóni kallaður dannebrogs-Skjóni.
Jón hreppstjóri bar dannebrogskrossinn á brjóstinu á öllum helztu mannfundum. Hann var í meira lagi virðingagjarn og hvergi nærri laus við að vera dálítið hégómagjarn. Hann var nú líka kominn á þann aldur, að hann með réttu gat krafizt þess eftir guðs og manna lögum, að menn sýndu elli sinni fulla virðingu. Hann fann vel til þess, að hann hafði varið miklum hluta ævi sinnar til þess að stýra sveitinni með ráðum og dáð, og það var engin furða, þó hann ætlaðist til þess, að sveitungar sínir fyndu það líka.
En það var eins og gárungum sveitarinnar yrði meira og meira uppsigað við hreppstjórann, eftir því sem hann eltist og virðing hans og álit óx. Það bætti ekki heldur um, að það var almennt álit, að hreppstjórinn væri fjarskalega spéhræddur; en það er eins og öllum sé uppsigað við slíka menn.
Hreppstjóranum duldist ekkert af þessu, og hann tók það mjög sárt. En ekkert gramdist honum þó meira en sú frétt, að Skjóni væri kallaður dannebrogs-Skjóni. Honum fannst sem Skjóni kastaði einhvern veginn skugga á virðingu sína; og þó undarlegt væri, þá var ekki trútt um, að dálæti hans á Skjóna færi að smáminnka. Hann fór nú að sjá, að Skjóna var mikið farið að förla og honum fór stöku sinnum að detta í hug, að sljákka mundi í háðfuglunum, ef hann hætti að ríða Skjóna.
Skjóni var enginn maður, því síður hreppstjóri. Hann gat hvorki eftir guðs eða manna lögum heimtað virðingu fyrir sinni elli.
Einn góðan veðurdag, sunnudag, um sumarið reið Jón hreppstjóri til kirkju á Skjóna sínum.
Margt fólk var komið á undan honum til kirkjunnar; það stóð á hlaðinu á kirkjustaðnum og hjá kirkjugarðsveggnum og horfði á ferðir manna.
Heim að kirkjustaðnum lágu rennsléttar melgötur og var það vani manna að spreyta klárana þar á melunum. Jón hreppstjóri tók þar sprett að vanda sínum, en hann fann vel, að Skjóna tókst ekki spretturinn í það sinn, og hann sá glöggt, að flokkur af unglingum, sem stóðu á hlaðinu, leit undan, þegar hann kom á Skjóna kófsveittum og másandi; hann gat ekki betur heyrt en sumir háðfuglarnir færu að flissa.
Hreppstjórinn tók ekki vel eftir ræðunni í það sinn; hann var að hugsa um spottið í gárungunum, og hann hét því með sjálfum sér, að láta Skjóna sýna hvað hann gæti, þegar riðið væri frá kirkjunni.
Svo riðu menn frá kirkjunni. Ungur bóndi reið fimm vetra gömlum fola, sem var sagður afbragð annarra hesta. Hreppstjórinn bauð honum að reyna folann við klárinn sinn.
Þeir voru skammt komnir, þegar folinn fór fram úr Skjóna og dró Skjóni þó ekki af sér. En hreppstjóranum sárnaði þetta svo, að hann sló Skjóna með afturhólknum á stóru, koparbúnu svipunni sinni eins fast og hann gat á milli eyrnanna.
Skjóna svimaði strax við höggið; hann datt og hreppstjórinn hraut á höfuðið fram af honum.
Mestur hluti kirkjufólksins reið rétt á eftir; allir sáu ófarir hreppstjórans, og þegar hann var að standa upp, heyrði hann hláturinn í unglingunum og sá hvernig kvenfólkið veltist um á hestunum.
Skjóni var strax staðinn upp og var grafkyrr meðan hreppstjórinn var að komast á fæturna. Hann hengdi hausinn niður og horfði einhvern veginn svo raunalega á húsbónda sinn, alveg eins og hann sárskammaðist sín yfir því, hvernig til hefði tekizt.
En nú var hreppstjórinn reiður; hann stökk á bak Skjóna og lamdi hann hvað eftir annað miskunnarlaust á báða bóga, en í þetta sinn beitti hann þó ólinni.
Þegar hann kom heim, var Skjóni í einu svitalöðri og másaði eins og hann ætlaði að springa á hverri stundu.
Hreppstjórinn var alltaf vanur að sleppa Skjóna í túnið, þegar hann kom heim á honum. En í þetta sinn spretti hann af honum í snatri, teymdi hann sjálfur út traðirnar út á móana, tók fram úr honum beizlið og skildi hann þar eftir; svo lokaði hann vandlega traðahliðinu á eftir sér og gekk heim án þess að líta aftur til Skjóna.
Það var eins og Skjóni væri öldungis hissa; hann stóð grafkyrr og horfði á eftir húsbónda sínum, þangað til hann hvarf inn í bæinn. Svo einblíndi hann heim á túnið, en beit ekki nokkurt strá þarna úti í móunum. Hann gerði ýmist að leggja kollhúfur eða reisa eyrun undir eins og hann heyrði eitthvað heima við bæinn.
Svo gekk hann að traðahliðinu, nuggaði hausnum við hliðlokið og hneggjaði hvað eftir annað, eins og hann vonaðist eftir, að húsbóndinn kæmi og lyki upp fyrir sér.
En hann kom ekki, og Jón hreppstjóri kom Skjóna sínum aldrei á bak eftir þetta. Hann fór daginn eftir og keypti sér folann góða, sem farið hafði fram úr Skjóna, og hann lagði mú sama ástfóstur við folann eins og hann hafði lagt wið Skjóna á frægðardögum hans.
Skjóni varð nú reiðhestur Sveins litla, sonar hreppstjórans. En nú var honum aldrei sleppt í túnið og á veturna átti hann miklu verra en áður. Hann var nú kominn yfir tvítugt og fór að verða fjarskalega rösull, enda reið Sveinn illa, eins og unglingum hættir við.
Þegar Sveinn var búinn að ríða honum í tvö sumur, þorði faðir hans ekki að láta hann ríða honum lengur.
Svo varð Skjóni áburðarhestur; en í raun og veru átti hann miklu verra en áburðarhestarnir, því þegar ekki var borið á honum, þá var vinnufólkið látið ríða honum. Allir vildu líka ríða Skjóna, því alltaf var hann viljugur og alltaf var hann þýður, þó hann væri farinn að eldast. Og þegar ekki var borið á honum og vinnufólkið reið honum ekki, þá stal smalinn honum og smalaði á honum.
Eitt haust skömmu eftir réttirnar segir Jón hreppstjóri, að það sé bezt að skjóta Skjóna á morgun.
Um nóttina gerði versta veður, norðanhríð með stórviðri. Skjóni var einn sér í gamla hesthúsinu sínu, því fyrir nýja reiðhestinn var búið að búa til nýtt hesthús. Hús Skjóna var orðið harla fornfálegt. Það hafði ekkert verið við það átt í mörg ár, því vinnumennirnir á Brú höfðu annað að gera, en að dytta að húsi fyrir húðarklár, og hreppstjórinn hafði annað að hugsa en að hlynna að Skjóna. Það fennti líka inn um báðar hurðargættirnar, hvenær sem hríð kom, þakið var götótt og af hurðinni var önnur hjaran brotin. Dyrnar á húsinu sneru mót norðri, og áður langt var liðið á nótt, var stormurinn búinn að brjóta hurðina frá húsinu, fleygja henni út á völlinn, taka hana svo í háa loft aftur og einhenda henni á fjósdyrnar, svo kýrnar fóru að baula inni fyrir af hræðslu. Það var eins og bylurinn hefði ekkert að leika sér að á Brú nema hurðina frá húsi Skjóna, enda var nú Skjóni gamli alveg hlífðarlaus fyrir og kafaldsstrokan stóð beint inn á hann.
Jón hreppstjóri vaknaði um nóttina við storminn og hríðina og vakti vinnumenn sína til að líta eftir húsum og heyjum.
Þeir fóru út, en engum datt í hug að líta eftir Skjóna eða húsinu hans.
Hann skalf af kulda; þegar hann var orðinn þreyttur að standa, lagðist hann niður og lá þangað til fennt var yfir hann. Svo stóð hann upp jafnnötrandi og hann lagðist niður og reyndi til að hrista af sér snjóinn. Stundum þefaði hann í stallinn, sem var orðinn fullur af snjó, og rótaði þar upp öllum snjónum, en þar var ekkert að finna, nema gamla moðið frá kúnum. Svo fleygði hann sér niður aftur, sneri hausnum undan bylnum, kreisti aftur augun og lét svo fenna yfir sig.
Morguninn eftir var komið bærilegt veður og Jón hreppstjóri kom með vinnumanni sínum að sækja Skjóna.
Skjóni var svo stirður eftir nóttina, að þegar þeir leiddu hann út, datt hann um þröskuldinn og stóð ekki upp aftur.
Jón ýtti hægt við honum með fætinum og sagði:
"Stattu upp, klárgrey."
En Skjóni stóð ekki upp.
En þá varð hreppstjórinn reiður og sparkaði í hausinn á honum svo fast sem hann gat:
"Stattu upp, klárfjandi."
Og Skjóni staulaðist á fætur, en svo var hann stirður, að það var eins og hann væri haltur á öllum fótum.
Svo fóru þeir með Skjóna út á völlinn. Hreppstjórinn fór nú að láta vel að honum, klóra honum undir eyrunum, klappa honum á makkann og strjúka honum um hausinn - til þess hann stæði kyrr meðan vinnumaðurinn var að miða á hann.
Hreppstjórinn hafði ekki sýnt Skjóna nein velvildaratlot í mörg ár, og Skjóni varð eins og utan við sig af ánægju af þessu öllu. Hann einblíndi ljósgráu augunum sínum á Jón, eins og til að ganga úr skugga um, að þetta væri gamli húsbóndinn, sem hann hafði marga bratta borið.
Svo lagði hann flipann sinn ofur hægt í hönd hans, ánægður og öruggur.
Og hreppstjórinn strauk honum mjúklega og hlýlega eins og í gamla daga og Skjóni stóð grafkyrr.
En svo reið kúlan af og Skjóni féll.