SEINGRÓIN  SÁR


eftir Þorgils gjallanda





Hérna, undir stuðlaberginu háu og veggbröttu, vex stórvaxið og fjölskrúðugt blómgresi, dökkgræn taðan er þétt og þroskamikil á Huldutúninu. Enginn skal þó búast við að það sé mikill töðuvöllur sem ég segi frá. Það er ekki annað en grasi gróinn stallur meðfram berginu, sums staðar faðms breiður eða tveggja faðma og ekki meir en tíu faðmar á lengd; neðan við í aflíðandi brekkunni vex blómgresið milli steinanna, lyng og mosi breiðir sig æ meir og meir yfir brekkuna; gróðurinn er að leggja urðina undir vald sitt. Neðan við liggur Blágilsflötin, slétt og loðlent slægjuland en ekki nema rúmar tvær túndagsláttur að stærð. Blágilið liggur niður fellsbrekkuna, það er ekki annað en lækur, sem hefur brotið sér farveg niður í dalinn. Í þurrkum á sumrin er lækurinn lítill, en á vorin þegar snjóa leysir liggur vel á honum, þó hann aldrei sé mikið vatnsfall, til þess er fellið hvorki nógu hátt né bratt, að hann geti færst í ásmegin. Austan við og ofan við Blágilsflötina hendist lækurinn fram af standbergsþröminni, sem girðir flötina að austan, fellur breitt og kembir hvítan vatnsstafninn á urðina neðan við. Sunnan við lækinn er Valsbjargið og þar er skúti inn í bergið, sem valir bjuggu hreiður sitt í meðan friður fékkst fyrir mönnum og byssu. Nú hafa þeir ekki áræði til að byggja þar lengur, en bergið er þó hvítt neðan við dyngjuna og ber vott um að þarna bjuggu víkingar loftsins áður fyrri. Þá lækkar bergið smám saman þegar frá dregur, suðurbrekkan er miklu lægri en hin nyrðri, þar er ekki standberg og fjalldrapinn vex þar niður í brekkuna og bláberjalyngið blánar á hverju sumri af berjagnægðinni sem börnum Snælands þykja svo gómsæt og ljúffeng.

Norður standbergið er bogmyndað, lækkar er vestur dregur og niður undir Duná liggur sniðgata niður suður röðulinn og upp ranann að norðanverðu.

Blágilslækurinn rennur líkt og hæglát lind niður Flötina, bunar niðandi og sker sundur grasi vaxinn bakka árinnar.

Flötin og Huldutúnið eru í góðu skjóli fyrir norðannæðingnum; þar er hlé og vörn fyrir frostsvala vorhretanna. Mér þykir fagurt að sitja á dúnmjúku Huldutúninu vor og sumar, haust og enda oft á vetrum líka, horfa yfir Flötina, fossinn, lækinn og öll sérkenni þau, sem á þessum stað ber fyrir augu mín.

Forðum, - og enda fram á bernskuár mín -, var almenn trú að í berginu byggi huldufólk, og að þar væri kirkja þess, sem bergið er hæst og sléttast. Enginn mátti bera ljá á kafgresið á Huldutúninu, en Flötina var jafn heimilt að slá og hvert annað engi. Gamlar sagnir bárust mann frá manni um ógiftu og líftjón þeirra sem höfðu brotið það boðorðið.

Hjörleifur á Skarði hló að þessum hindurvitnum og sló sjálfur Huldutúnið; skynsemi hans og jafnaldranna braut í bága við hjátrú og huldufólksátrúnað.

Mörgum brá þó í brún þegar Hjörleifur drukknaði í Duná á jólaföstunni veturinn eftir.

Þá var ég á tvítugasta árinu og vinnumaður hjá þeim hjónum á Skarði.

Ekkjan var tuttugu og átta ára gömul, þegar þau tíðindi gerðust. Hún var fríð kona sýnum, skörungur í skapi og ótrauð til búsfjárráða, einörð, ómyrk í máli og kölluð nokkuð ráðgjörn. Þorgerður átti Skarðið, gagnsamt og mikið bú.

Þeim hjónum hafði ekki orðið barna auðið þeirra er á fót kæmust, enda sambúðin ekki lengri en sex árin. Þau höfðu tekið til fósturs náfrænku Hjörleifs og alið upp. Ástríður litla hafði notið föðurástar frænda síns og þetta sjö ára barn grét heitum dótturtárum við gröf hans. Fóstran hafði unnað uppeldisbarninu minna; hún harmaði og syrgði ávallt sveinbörnin sín tvö sem dóu kornung; hafði aldrei lagt elsku á frænku bónda síns. Þorgerður giftist meir að frændaráði en eigin fýst.

Ég réðist vistráðum hjá ekkjunni næsta ár. Roskinn maður var verkstjóri, en húsfreyjan vildi raunar um flest fjalla sjálf, og þegar á árið leið, kvaddi hún mig til flestra ráða með sér þótt verkstjóranum þætti miður. Við skildum fálega þegar hann fór alfari vorið eftir.

Ég mat vinaráðin, auðsvon og metnaðarauka; mér rann hugur til þeirrar konu, sem var fríð sýnum, blíð og fagureyg þegar hún talaði við mig. Ég bað ekkjunnar og giftist henni.

Árin hafa liðið eitt eftir annað. Við hjónin höfum eignast kjörbörnin; bæði eru þau efnileg og við unnum þeim hvort eftir sínu skaplyndi. Búið gengur ekki til þurrðar, þótt Þorgerði virðist svo. Gróðinn er heldur ekki annar en sá að húsakynni og hirðing jarðarinnar er nokkru betri, innanstokksmunir dýrari og sjálegri. Ég er ekki búmaður þó ég búi og virði bændastéttina mikils. Ekki sannur bóndi - þeir eru því miður svo fáir -; hugur minn hefur hvarflað víða og hneigst til sums þess, sem engin fjárvon er að, gróðamönnunum virðist fánýtt og óhollt öllu búaliði.

Ég hef enga trú á, að huldufólk búi hér mitt á meðal vor mannanna; að minnsta kosti er huldutrú mín önnur en sú, sem áður hefur búið í brjósti þjóðarinnar; ég óttast enga hefnd þótt ég slái Huldutúnið, en ég elska gilið og fossinn, túnið og Flötina, blómin, berin og standbergið, kyrrðina og friðinn, lyfgrös Huldu, hörpuslátt fossbúans, þess blíða og milda, sem býr í Blágilsfossi og forna aflið hjá hinum er býr í Fallanda, suður í Kleifunum skammt frá Blágilinu, þar sem Duná hefur rutt sér farveg gegnum hamraþröngina.

Þar ytra dvel ég einn löngum tímum saman. Þar leita ég þess friðar sem aðrir leita eftir í kirkju sinni. Á vorin og sumrin dvel ég lengur en kem þó oft hér á haustin og veturna. Reiðskjótarnir mínir rata að Blágilsfletinum og þar eru þeir furðu hagspakir.

Þar hef ég skrifað blöðin þau arna. Skrifað það sem ég gat ekki við mennina talað. Ekki til þess, að búa til skáldsögu - það væri afkáralegt af mér þumbaldanum, sem aldrei hef komið vísu saman. Hitt er heldur, að ég get ekki þagað með öllu.

Það eru seingróin sárin mín, þau rifna upp og blæða löngum. Hér gróa þau grös, sem best svæfa undirnar.

Þessi blöð get ég ekki brennt - þau eru alin og fóstruð af sorg minni, í einveru og þögn, í sökum við lög og siðvenjur; þau eru ekki til þess að sætta mig við bræður mína og systur, og ég bið ekki um sættir; biðst ekki friðar lífs né látinn.

Ekki fjöldann - mennina, löggjöfina.

Nei.

Ég skrifa utan á blöðin til vinar míns, Rafns í Dal.

Þegar hann sér þau verð ég kaldur nár - eða andlegur vesalingur, sem er dofinn og kaldur gagnvart liðnum tíma og sínu eigin lífi.

Hið fyrra er skuld, sem allir skulu gjalda, það síðara vona ég að aldrei verði.

Það hefur aðeins einn maður séð þessi blöð áður.

Og sá maður þegir.

Tárin og höglin af augum okkar beggja hafa fallið á þau.

Ég get ekki brennt mínar eigin sorgir og ekki hennar harm.

Þitt er að sjá fyrir ævintýrisbrotunum, Rafn vinur.

*

Hvað æskan er óforsjál, galin og framhleypin.

Öll ævi mannsins háð misstigum, brestum og þungum áhyggjum.

En á liðinni leið eru einnig sólroðnir blettir; fagrar stundir og draumblíðar minningar.

Gott og illt, strítt og blítt, synd og sorg - á of margan misverknað, en þó líka betri verka að minnast; þau eru bara helst til fá og smá.

*

Ég hef, ef til vill, ekki haft þau skilyrði manndómsins, sem gera hjónasambúðina lángefna og sæla. Ég er geðríkur, einrænn í skapi og oft bermæltur, ekki árvakur né forsjáll búsýslumaður.

Auðugt bú og hagstæður bólstaður er ginnandi fyrir þann, sem hefur reynt fjárskort og erfið kjör í uppvexti sínum. Fríð kona á þroskaskeiði, - kona sem lítur mann ástaraugum, blíðróma, ljúfleg --. Þetta steig mér líkt og ölvan til höfuðsins, blóðríkum, tvítugum og örgeðja.

Ég vonaði alls hins besta, þótt ég renndi grun til ólíks skapferlis, fjarstæðra framsjóna.

Ég var bókhneigður og frábitinn innanbæjarstörfum.

Hún stjórnsöm og árvökur að skipa til verka, fastheldin á venjur, sköruleg og alvörugefin húsfreyja.

Mér var gjarnt að njóta lífsfagnaðarins, vildi gleðjast með glöðum, en lét miður vel að starfa að kænlegum kaupskap; hún var ráðsvinnari, rosknari og samhugaðri búnaðinum.

Búið og börnin voru henni nógu stórt starfssvið; til þess heimtaði hún sína og mína krafta óskerta. Ég hugsaði dreifðara, lengra burtu og sló slakara við mitt eigið jarðarsvæði.

Samlyndi okkar var deilulítið og vingjarnlegt en ekki eins ástúðlegt og mig hafði dreymt um og hún eflaust vonast eftir.

Nýjar hreyfingar bárust hingað. Breyting á trúsiðum, mannfélagsskipun og hugsjónum. Ég náði í ýmsar bækur, sem boðuðu nýjar skoðanir og las þær með brennandi áhuga. Byltingarfýsnin vaknaði einna óstýrilátust hjá mér. Ég ræddi um þau mál bæði á búi og annars staðar - öllu tíðast þó heima.

Nú kom fyrsti alvarlegi ágreiningurinn milli okkar hjónanna. Þar sem ég sá umbætur virtist henni böl og villa augljós. Þar sem ég trúði að þyrfti að hreinsa til fannst henni eiga að keyra um koll stoðir siðferðis og trúar. Staðlynda, einhæfa eðlið hennar stirðnaði og harðnaði við umbrot mín. Allt mitt ráð varð í hennar augum að draumórum, ungæðisbrekum og óheillavænum byltingum.

Þorgerður hafði þá trú að hún þyrfti að ráða fyrir búi okkar, að mig skorti gæfu og hyggindi til þess; ég lagði það ekki í deilu með innanbæjarstjórnina, en vildi ráða óskorað um heyvinnu, fjárgæslu og önnur utanbæjarstörf. Hana skorti trú til þess að láta svo vera og mig þollyndið að þumbalda mínu fram. Það sem ég hlutaðist til kostaði ég kapps um að hafa fram; þá var ég líka ráðgjarn og fáir hafa troðið mig um tær áminningarlaust.

Nýju hugsjónirnar öfluðu mér ekki vinsælda, hvorki heima né í sveitarfélaginu. Menn gengu ekki í berhögg við mig en ég fann hvernig öldurnar risu og hvaðan næðingnum blés. Skapið harðnaði; sneri sér meir frá fjölmenninu til einstakra manna. - Þá vingaðist með okkur Rafni í Dal. - Ég einangraðist, varð oft þögull og fályndur; tungan varð hvassari, orðin bitrari.

Á tveimur þessum árum kólnaði ást okkar hjónanna, við urðum helst til skarpskyggn hvort á annars vanmátt og óglögg á það sem til atgervis og kosta mátti virða.

Börnin voru elsk að mér í æsku; heimilisfólkið snerist flest og oftast til húsfreyju vinfengisins. Hún var veitul og lagin að ráða yfir því. Af ýmsu orðalagi og viðmóti hlaut ég að ráða í það, að Þorgerði ætti ég að þakka auð og virðingu; öndvegi húsbóndans þar á Skarði.

Það var nokkuð satt í því - en því fylgdi einnig illkvittnislöstur mannanna, öfundarbragð sumra og skuldarkvöðin frá henni, sem mér varð heldur skapþungt af. Ég lét sem mér stæði á sama um dóma og tillögur mannanna, en með sjálfum mér fann ég sárin svíða. Í brjósti mínu vaknaði harðglettan, og þaðan komu síðan á stundum kaldyrði, sem margir mundu mér.

Börnin mín kenndu ekki þessarar skapbreytingar, ég unni þeim hugástum, og ég unni Ástríði. Hún átti hvorki föður né móður á lífi og svo dó fóstri hennar og þá stóð hún ástlaus eftir. Hjörleifur hafði átt efnin í upphafi en Þorgerður gat hvorki fyrr eða síðar fest ást á fósturbarninu. Fyrst aumkvaðist ég yfir þetta einstæða syrgjandi barn, síðan unni ég henni eins og eigin barni mínu. Og hún elskaði mig og gerði mér allt að skapi; Ástríður fjasaði ekki mikið um tilfinningar sínar; hún var oftast þögul og hlutaðist til fás. Ástríður lét ekki jafnaðarlega hugsanir sínar í ljós en ég vissi þó að hún hafði ákveðnar skoðanir; bak við kyrruna bjó fast skapferli, næm tilfinning og heitar vonir. Á bernskuárum hennar varð ég þess oft var, þá talaði hún við mig eins og barn við föður; eftir tólf ára aldurinn gerðist hún dulari gagnvart mér.

*

Tíminn líður; árin fjölga á baki mínu, og hjónabandið er þyngra en mönnunum úti í frá er kunnugt um.

Nú er Ástríður sextán ára, henni er ekki hlíft við heyverkin, og þau fara henni vel úr höndum.

Það var einhvern dag á engjaslættinum, að vott hey átti að binda. Björn kaupamaður skyldi binda þann dag en honum var illt í fingri og hinir piltarnir höfðu tekið seint og lágt undir þegar ég spurði kvöldið áður hver þeirra vildi bæta þessum bindingi á sig. Ég vaknaði snemma þennan morgun og bjóst sjálfur til bindingsins. Lagði á Hamskarp handa Ástríði, lét reipin á einn reiðingshestinn og steig á bak tamningstryppi fjögurra vetra gömlu.

Við byrjuðum snemma verkið; það var flutt á tíu hestum, heimflutningsmaðurinn var jafnaldri Ástríðar, ekki sterkur að jöfnum aldri en kvikur og snar og ötull lestarreki. Sunnanblástur var um daginn og gekk verkið vel fram. Þegar pilturinn fór með áttundu ferðina sagði ég honum að koma með reipin og biðja Björn, sem var við heyþurrk heima, að sækja síðustu ferðina.

"Hefurðu nokkuð á móti því að það bindist einni ferðinni meira í dag en vant er? Eða ertu orðin mjög þreytt?"

"Ekki svo að ég geti ekki hjálpað þér til í veðrinu því arna," sagði hún og roðnaði við.

"En ég hef þyngst á þeirri síðustu."

Hún brosti við - "ég vissi það - vissi það strax í morgun, að þú mundir vilja binda ferðinni meira en Björn gerði í sumar."

"Svo - þú vissir það. Þá hafði ég þó ekki sagt það eða neitt sem benti í þá áttina."

"Ég þekki svo metnaðinn þinn, Hermundur, -- og mér er líka sama þó það sannist, að hér kunni einhver að binda á við Sunnlendinginn."

Ég leit til hennar, hún dreyrroðnaði og tók til að raka dreifina.

Björn sótti síðustu ferðina, við létum upp og síðast á þann hest, sem Trausti hét. Þegar ég tók klakkinn hrataði baggi Björns niður af klyfberafjölinni.

"Helvítis band er hjá þér, bóndi, - ég rak fingurskrattann í þegar þú ruddir mér ofan."

"Það var vitlaust að þú varst að láta upp, svona fatlaður."

"Víst geri ég það; ekki læt ég þá skömm fréttast, að ég láti ekki upp fyrir skurfuskrattanum þeim arna."

Ástríður skaut bagganum í fangið og Björn náði nú strax klakknum; hestarnir lestuðu sig heim göturnar og ég lét Ástríði á bak.

"Láttu nú Hamskarp þruma heim, ég skal reiða hrífuna og hafðu kæra þökk fyrir vel unnið dagsverk."

"Það skal ég nota mér og þakka þér fyrir góðan reiðskjóta."

Þessi dagur hafði verið svo stuttur og bjartur, skap mitt var rótt og glatt við vinnuna - samvinnuna með henni, þeirri einu konu sem kunni að geta í huga minn og gera mér að skapi, breyta svo í orði og athöfn að mér væri geðfellt; hún gerði það þegjandi, greiðlega og þriflega. Ég hafði fundið það fyrri - miklu fyrri -, en það hafði aldrei glatt mig jafn innilega og þetta vor og sumar. Eftir því sem konan mín og heimilisfólkið varð erfiðara og stríðara, því betri þokka fékk ég til hennar, sem gekk ein sína götu, kyrrlát, hispurslaus og frásneidd hávaðamælginni. Stundum virtist mér draumkynjuð sorg hvíla yfir svip hennar og oft brá henni til feimni gagnvart mér, einkum í fyrstu þegar ég yrti á hana.

Ég hugsaði um Ástríði þangað til ég sofnaði -- að henni mundi þroskavænna að fara burtu - menntast að vetrinum til -- fara um tíma frá kuldanum og ósamþykkinu, sem var að ná ráðum á heimilinu. Það var vel mennt og fróð kona húsfreyjan sóknarprestsins - það var einmitt álitlegasti staðurinn, sem ég þekkti, til þess að Ástríður nyti þar tilsagnar. Á milli okkar séra Bersa var heldur fátt, en það var lítil ástæða til þess að láta ekki meira atriði standa í vegi fyrir þroskun Ástríðar. Ég staðréð að minnast á þetta mál við Ástríði áður langt um liði.

Næsta morgun var veður fagurt og þerrilegt loft. Lét ég snemma dreifa votu heyinu. Þorgerður var skapstygg og fólkið gekk tómlega að vinnunni.

Ég gekk heim til að sækja hrífur; á hlaðinu hitti ég Þorgerði: "Því vekurðu ekki Ástríði, hún hefur öll beinin til þess að dreifa engu síður en hinar stúlkurnar," sagði hún og hvessti á mig augun.

Ég horfði á móti: "Hún er þreytt eftir bindinginn, -- þetta er unglingur sem þarf að fá að sofa á morgnana lengur en rosknara fólkið."

"Og eftirlætið þitt - betur það dálætið yrði ykkur að góðu, áður en lýkur."

Ég þreif hrífurnar og snaraðist með þær niður á túnið. Litlu síðar kom Ástríður og tók til vinnunnar: "Vaknaðirðu sjálf - ég hélt þér veitti ekki af að sofa vel eftir bindinginn í gær."

"Fóstra mín vakti mig og sagði að langt mundi komið dreifslunni; og ég er ekki neitt lúin eftir daginn í gær."

Augu okkar mættust; ég fann að ég skipti litum og sá hana dreyrroðna.

Hún hefur verið vakin með miður vingjarnlegum orðum -- hún á ekki ástríkinu að fagna -- það er kalt orðið hér á Skarði og hún má ekki gjalda annarra fáþykkju; hún er of góð og saklaus til þess.

Síðar um daginn, við görðun heysins, spurði ég Ástríði eftir því hvort hana fýsti ekki að fá tilsögn hjá prestskonunni næsta vetur. Hún þagði fyrst og sagði síðan heldur lágt:

"Jú - það vildi ég gjarna -- ef það gæti fengist með góðu geði - en ég veit ekki hvað fóstru minni sýnist."

"Leitaðu þess þegar vel liggur á henni -- mínar tillögur mundu heldur spilla en bæta. Þú veist hvað ég vil í því tilliti og við prestshjónin skal ég tala og gera reikningsskilin. Þú þarft ekki að fá tilsögn í skrift né reikningi - en ég býst við þig langi til að læra dönsku og eitthvað til handanna. Þér kæmi vel að njóta frelsisins meir en raun vill á verða hér heima."

Aftur varð þögn.

"Ég kvarta ekki um það, mér er þungt að biðja og fá afsvar -- en ég geri það nú samt -- þú vilt mér ævinlega allt það besta..."

Þorgerði var ekki að skapi námslöngun Ástríðar, en hún var meiri metnaðarkona en svo, að henni geðjaðist að því ef sagt yrði að Ástríður stæði að baki jafnaldra sinna - fóstrið væri ekki betur veitt en það. Eitthvað ásveigt því gat ég til að sagt mundi verða þar í sveitinni, þegar við hjónin ræddum þetta, væri henni aldrei veitt tækifæri til menningarinnar.

"Ekki skal þurfa að bregða mér því að ég standi á móti að hún verði að manni --; en það er best að þú talir við prestskonuna - þú ert aldrei ánægður með kjör Ástríðar hjá mér - þú trúir á hana."

Ég svaraði því engu.

Ástríður fór til þeirra hjóna um nýárið og var þar fram undir sumarmálin.

Hún kom nokkrum sinnum um helgar heim - mér virtist hún ennþá fálátari og þögulli nú en meðan hún var heima að staðaldri.

Nú gat ég ekki lengur dulið sjálfan mig þess, að ég unni Ástríði - elskaði þessa gjafvaxta mey heitast allra. Skilnaðurinn færði mér órækan sanninn um þær tilfinningar, sem ég áður hafði reynt að vefja og dylja fyrir sjálfum mér.

Ég var enginn heigull á þeim árum; gallhraustur og öruggur til áræðis; en þessi fullvissa veitti mér það sárið sem aldrei síðan hefur gróið.

Ég reyndi það sem ég gat til þess að kefja þessa ást - hún var meinsamleg í mínum augum, efni böls og harma. Mér heppnaðist það ekki. Ég stríddi hér við afl sem mig skorti krafta móti; ég gat ekki slökkt eldinn. Hitt þóttist ég geta; það, að dylja ást mína fyrir öðrum. Vera henni aðeins fóstri og innilegur vinur.

Mér var fullljóst hvað þessi ást var óskynsamleg og fjarstæð siðalögmáli mannanna. Ótrúleg, þar sem ég var svo mörgum árum eldri og fóstri hennar, fóstri með föðurlegri viðkvæmni til einstæða barnsins.

Ég svaf oftast lítið þennan vetur og ég þurfti að vinna mikið að fjárgeymslunni, iðjuleysið hefði gert mig að hjartveiku viðundri. Börnin mín gátu ekki veitt mér þá ást sem ég nú þráði; ekki annað en fró og svölun; ekki afturhvarfið, heilbrigðið né skynsemisjafnvægið.

Ég er brúnþungur og meinlega þurrlyndur þótt ég reyni að sýnast svo glaður sem föng eru á.

Í dag er hálfur mánuður til sumars. Loftið er bjart, það er sólbráð og hagstætt vorveður, gemlingarnir breiða sig sunnan við Blágilið og fagna fullsælu haglendis og hressandi sólarljóss.

Ég sit í Huldutúninu og skrifa ágrip þess sem liðið er, bið guð ljóssins um frið og styrk; hlýði á nið fossanna og horfi á kyrrlátu fegurðina sem vorið drepur úr vetrardrómanum.

Hjartað berst í brjósti mínu -- ég þrái heimkomu hennar, fagna návistinni... Ég get ekki annað. Þó að það kostaði mig þetta dökkjarpa höfuð get ég engu breytt... Á morgun sæki ég Ástríði. Ég verð að neyta orku. Vera heiðvirður vinur. Binda Loka í djúpi huga míns.

*

Vorið og sumarið er liðið. Haustsólin rennur til viðar. Hverfur bak við Jafnafellið.

Hamskarpur kroppar spakur og rór á Flötinni.

Ég minnist þess, sem hefur markað sér dýpst spor á þessu misserinu.

Sjálfur sótti ég Ástríði að Hofgörðum.

Hún er jafn hógvær og áður -, meir draumsvipuð; þroskaðri, litbreytnari. Börnin elska hana og hún þau.

Þorgerður er kröfuhörð og ónærgætin við fóstru sína - en hún svarar stillilega, leitast við að gera henni að skapi. Mér rennur til rifja að sjá Ástríði fölna og roðna við orð húsmóðurinnar og atlot hennar. Ég sé hvað viðkvæm lund á örðugt með að bera krossinn.

Nú er svo vaxið málið, að ég geri ekki annað en kalt kaldara ef ég mæli máli Ástríðar. Þorgerður trúir mér miður vel - hitt er sárara, að hún tortryggir Ástríði ástæðulaust - saklaust, viðkvæmt ungmennið. Hún lætur engan óviðkomandi renna grun í það.

Ég lét byggja mér hús norður úr baðstofunni; þar sef ég - áður var hjónahúsið í suðurenda hennar -, þar hef ég bækur mínar og þangað leita ég þegar harkar um og hugurinn er þyngstur.

Þorgerði var sú bygging þvert um geð. Ég svaraði fáu, en fór mínu fram eins og ekkert væri að.

Einn sunnudag, skömmu fyrir túnsláttinn, kom ég heim norðan úr kaupstað, ég hafði vakað um nóttina og var örgeðja sökum svefnleysis og víns. Þó var ég ekki ölvaður að mun; mér var sá lösturinn ótamur lengst af ævinni. Ég lét klárinn taka skeiðsprettinn heim tröðina. Ástríður stóð á hlaðinu og börnin mín bæði; hún var kafrjóð; ég steig af baki, rétti henni höndina; þær lukust þétt saman eins og sönnum vinarhöndum er eiginlegast; svo kyssti ég Hjörleif og síðan Geirdísi; spurði eftir heimilisfólkinu - það var sumt við messu og sumt á bæjunum þar í grenndinni. Engir heima nema Ástríður, sem var lasin af kvefi, og börnin mín sem hún gætti.

"Ég skal fara með Hamskarp út fyrir túnið," sagði hún.

"Þess þarf ekki - nú er ég húsbóndinn, ég sleppi honum í túnið."

Hún sagði ekkert, leit til mín, gekk svo inn og sótti mjólk handa hestinum.

"Þú bættir úr gleymsku minni... þakka þér fyrir það og svo margt sem þú gerir mér til geðs, huglátlega og skipunarlaust."

Hún roðnaði enn meir og svaraði engu. Ég gekk inn, settist á stól við borðið og hugsaði um það, að ekki voru nema þrjú árin síðan ég hætti að kveðja hana með kossi eins og hin börnin; hvað allt var breytt nú í huga mínum - og huga hennar? Því að mér var ljóst að svo var; en hvað þar bjó og tók sér festu vissi ég ekki. Aldursmunurinn var mikill, en þó grunaði mig það oft, að ég mundi ná ást hennar þrátt fyrir hann - ef mér væri leyfilegt -- ef ég væri ekki bundinn, kvongaður, faðir barnanna sem nú léku sér broshýr að nýju leikfangi.

Þá kom Ástríður með þvottavatnið og mjólkurkönnuna.

"Ég þarf engan mat - bara mjólk og mikið af vatni... Og svo vildi ég mega færa þér eins og stóru og góðu barni þessa bók... ég veit raunar að þú ert fullorðin nú; ég færi þér ekkert glingur, heldur bók sem ég virði mikils, þá bókina, sem ég hef oftast séð þig handleika og vita gleggst hvar vera ætti í skápnum mínum."

Hún tók við bókinni - ljóðmælum Jónasar; leit á titilblaðið, stokkrauð, beit á vörina; svo rétti hún mér höndina, sagði ekki neitt og leit ekki upp. Ég sá þó að augun voru tárvot; þá sneri hún sér við og gekk skyndilega burtu; ég gekk á eftir fram úr húsinu; þá áttaði ég mig, beit saman tönnunum og settist með börnin sitt á hvoru hné.

Ég vann eirðarlaust að heyvinnunni þetta sumar; lúanum fylgir fró og værari svefn - þó lá ég oft andvaka fyrri hluta nætur og hugsaði um þann hnút sem örlögin höfðu hnýtt á lífssnúru mína, rammriðinn og mér óleysanlegan. Oft fór ég löngu fyrr til sláttar en aðrir, ég gerði það ekki til þess að afla með ákafa heyjanna heldur fyrir það að dreifa huganum, sefa þrá sem mér var torveld að ráða við, ástríðu sem ekki gat dvínað né kólnað hvers sem ég leitaði í til þess.

Ég gætti vel orða og gerða gagnvart Ástríði. Við urðum bæði þögulli og fáskiptnari en áður; það særði mig oft að mér virtist líkt því að hún hefði beyg af mér, einkum værum við tvö ein saman. Augnbragðið varaðist ég síst; gætti þess miður en annars - ef til vill var svo fyrir báðum. Við þögnina vöndumst við því, að geta hvort í annars huga, gera að skapi hins í mörgum atvikum sem færðu mér svölun og angurblíða gleði.

Ég var hvorki að eðli né tamningu þollyndur; ógjarn að brjóta og bæla eigin skapsmuni, en á þessu sumri lærði ég að ákvarða þessa ást mína lausa við nautn; kross sem ég hlyti að bera - ef til vill bæði -, án þess að njótast. Andlega ást, órjúfandi en hreina; ofar líkamlegum munaði.

Án þess ég gerði mér grein fyrir því þá var ég sveimhuga; viðkvæmur "blárra blóma" dýrkandi. Margar grátljúfar minningar frá því sumri búa í djúpi huga míns, ég gleymi þeim ekki - vil það ekki. Skáldskaparneisti sá, sem nálega allir menn bera í brjósti, hann sér um það, að lengi lifi í þessum glæðum og metur ekki þann muninn að ástin var "óleyfileg".

Með haustinu og vetrinum vaknaði gleðilöngun unga fólksins. Dansþráin, fýsnin til leikja og margmennisskemmtana laðaði huga þess frá fámennum heimilum og einhæfni þeirra.

Forkólfur þeirra skemmtana hét Ásgeir og var sonur efnaðs og atkvæðamikils bónda þar í hreppnum. Hann hafði verið tvo vetur í gagnfræðaskóla og stóð vel að vígi til þess að vera "hrókur alls fagnaðar" heima í sveitinni sinni.

Ekki var hann mikilmenni að atgervi, snoturmenni í sjón og ógjarn til þrekrauna.

Ásgeir var borinn og uppfæddur til þess að setjast í virðingasæti meðal bændanna og hafa góða bólfestu; tvítugur maður, gleðigjarn og nokkru fróðari en flestir hinir jafnaldrarnir.

Eins og ekki var að undra langaði yngra fólkið frá Skarði til þess að létta sér upp. Þorgerður hafði áður barist gegn þessu sjálfræði og sollgirni, nú hlaut hún að þoka fyrir straumþunga nýrrar stefnu. Ég hafði verið miklu auðveldari í þeirri grein og lagt æskulýðnum liðsyrði. Hún var brúnþung og kaldorð, venju fremur, þegar fólkið bjóst til þeirra ferða, eður kom heim aftur svefnlítið, fölt og þreytulegt. Ástríður talaði fátt en ég sá, að hana fýsti til gleðinnar og æskuleikanna. Það var ekki oft sem ég kom á þessar samkomur og þó duldist mér ekki, að Ásgeir lagði hug á Ástríði; það hefði ekki leynst fyrir þeim, sem minni athygli hefði veitt en ég gerði. Ásgeir var ákaflyndur og hann gekk á lögmætri götu - þurfti ekki að dylja þrá sína.

Í huga Ástríðar var síður hægt að geta; hún roðnaði að vísu, þegar hann spjallaði og spaugaði við hana, en litbreyting æskumannanna er ekki viss mælikvarði um staðfastar tilfinningar, til hennar geta legið svo margháttaðar rætur. Það var heldur ekkert annað en litbreytnin, sem hægt var að draga líkur af - og svo hitt að hann varð þó að teljast öllu glæsilegastur ungu mannanna.

Hún sat illa á mér afbrýðin. Hvað átti ég með að öfunda aðra fyrir tillit og hugþokka hennar? Ég lét sem ekkert væri, en djöfull afbrýðinnar var mér helst til fylgisamur og ertandi, stóð öndverður gegn hyggjuviti og skyldurækt.

Öndverðan veturinn handleggsbrotnaði ég. Þunglyndið náði því betri tökum á mér; ég var óvanur heilsubresti og meiðslum; þoldi ekki að sitja og liggja aðgerðalaus. Ólíkt skapferli okkar hjónanna kom nú allra skarpast í ljós; ég vildi frið og kyrrð, en mig hefur skort lagni og skapþol til þess; skort ástina. Hún hefur rennt grun í hvað mest brast á og misstigalitla, dómstranga lyndiseinkunnin hennar gat hvorki skilið né þolað það. Ég var þögull oftast og hún þurr og ströng húsmóðir.

Á laugardagskvöld ætlaði fólkið á dansgleðina að Hvammi. Ég var á batavegi; bar handlegginn í fatla og var farinn að ganga til peningshúsa og gæta eftir hirðingu. Þennan dag var mér handleggurinn sérstaklega viðkvæmur og sár; satt að segja var skapið mér þá örðugast - eigingjörn, blind þrá.

Enginn mundi þó hafa séð að mér var skapþyngra en vant var nema sá sem vanur var að geta í huga mér; ég hafði spaugað við fólkið og tekið á mig gleðibragð.

Ástríður var undarlega dapurleg um daginn; síðari hlutann heyrði ég, að hún kvartaði um höfuðverk og tannpínu við stúlkurnar fyrir framan og sagðist ekkert mundi fara. Fólkið þekkti hana of vel til þess að reyna að túlka henni lengi hughvarf; en sú tannpína hefur varla verið langstæð; að minnsta kosti var hún glöð í bragði meðan hún lét Hjörleif litla lesa hjá sér og augun björt, sem hún leit til mín um leið og drengurinn fékk lausn frá lestrinum.

Eftir svefninn fyrri hluta sunnudagsins heyrði ég að stúlkurnar fyrir framan voru að segja frá dansgleðinni og stríða Ástríði á Ásgeiri - bera henni kveðju frá honum og pískra um það, hvað honum hefði brugðið þegar hún kom ekki. Ástríður svaraði fáu en ég heyrði að hún var skjálfraddaðri en vant var. Mér brá við, og þó mátti við þessu búast - hann var álitlegastur þeirra, því skyldu ekki hugir þeirra renna saman. Ég var eigingjarn djöfull sem reyndi að leggja snörur á veg hennar. Viðsjálsmaður og staðlítill í skapi. Ég snaraðist til á stólnum, rak brotna handlegginn í skápröðina og rak upp hljóð við óvæntan sársaukann.

"Gengur nokkuð að?" sagði Ástríður um leið og hún lauk upp hurðinni. "Þarf að laga umbúðirnar?"

"Ekki annað en að ég rak handlegginn í skápröðina um leið og ég seildist eftir bók - það líður strax frá, ég er ólíkur Gunnlaugi og miklu blautgerðari en Þorbrandssynir."

Hún leit til mín spyrjandi augum, ég horfði á móti, þá roðnaði hún og lét aftur hurðina.

Daginn eftir kom Ásgeir og dvaldi fram að dagsetri. Hann spjallaði við mig um stund en erindið var þó annað en hjala við mig, ég sá hvað honum bjó í huga, hitt ekki hvernig henni geðjaðist að því. Ástríður kunni að dylja tilfinningar sínar, og ég er eins og aðrir karlmenn auli að geta í huga þeirra, kvennanna.

Harmur og þrá héldu mér vakandi alla næstu nótt. Mér, verklausum manninum, varð erfiður þessi mánuðurinn. Að honum liðnum þurfti ég hvorki umbúðir né fatla; þá reið ég út að Blágili og á Huldutúninu sór ég eið, og lagði við drengskap minn, að hamla hvorki með orðum né gjörðum sjálfviljugri giftingu Ástríðar. Þann eiðinn sór ég, maðurinn með nýju hlutsæisstefnuna og trúna á því, að ást karla og kvenna ætti að vera frjáls og ófjötruð. Ég sór eiðinn af því ég mat hennar gæfu og orðstír meira en ást mína og þrá. Ást mín gat ekki leitt hana um bjartar leiðir; löghelgaðar brautir. Ég barðist við það að vera drengskaparmaður og vildi forðast að baka þeim böl, sem ég var skyldur að unna.

Ég vissi skammt og reiknaði dæmið rangt.

Síðari hluta þessa vetrar var snæsamur og hörð veðrátta, ég stóð líka í harðri raun með að halda heit mitt; tvisvar skrifaði ég Ástríði bréf - ástarjátning en um leið þá ótvíræðu skoðun mína, að við mættum aldrei njótast; hér gæti ekki um neinn stolinn munað verið að tala. Ég brenndi bæði bréfin og rauf ekki heitið.

Vorið eftir fluttist Ástríður vistferlum að Haga til bróður síns; hún þoldi ekki tortryggni og kulda fóstru sinnar og myrka, fálynda skapið mitt.

Ég sat einn í húsinu mínu þegar hún fór alfari; flest fólkið fylgdi henni út á hlaðið. Þorgerður sléttaði léreft frammi í stofu.

Ástríður lauk hægt upp hurðinni; hún hafði grátið og rauðu blettirnir neðan við augun voru enn augljósari af því andlitið að öðru leyti var svo fölt. Alvarleg ró hvíldi yfir öllu yfirbragði hennar; hún rétti mér höndina, þunna og smáa hönd, trauðla nógu sterklega til strits og sorpróts mannlífsins.

"Vertu sæll, fóstri minn, og þakka þér fyrir allt gott --- allt sem þú gerðir munaðarlausa barninu til geðs." Röddin titraði.

Ég hélt þétt í höndina og sagði:

"Allt, sem mér var sjálfrátt... Guð og gæfan fylgi þér, Ástríður; betur kann ég ekki að biðja;" ég laut að henni og kyssti hana löngum kossi; horfði í tárvot augun og sá roðann færast yfir andlitið. Svo skildum við. Hurðin marraði á hjörunum um leið og hún lagði hana aftur og það marr gekk líkt og sargandi sög til hjartans.

Fyrst sat ég höggdofa.

Hurðin var fallin í klofa á milli okkar. Návistin slitin.

Það var dauðsárt að sjá harm hennar -- var ekki von til þess? Hér á Skarði voru æskuminningarnar; hér hafði hún elskað frænda og fóstra og grátið hann liðinn -- kannski fóstruna líka, að minnsta kosti þráð ást hennar - móðurlaust barnið. Hér hafði hún unnað börnunum líkt og eldri systir --- unnað mér framan af, meðan ég var eins og góðum fóstra sómdi --- Hún unni mér ennþá... Hefur lesið í hjarta mér, fyrirgefið og elskað? En það var þó svo fjarstætt að hugsa svo um hana. Ástin er oft fjarstæð, og blind... Hún fer frá tortryggni og kulda. Fer til að leita yls og friðar. Bráðum frétti ég trúlofun þeirra.

Svo skal böl bæta að bíða annað meira.

Skömmu síðar tók ég mér ferð á hendur vestur í sýslur; þá fyrst á ævinni drakk ég; drakk til að sefa sorgina, gleyma harminum. Auðlærð er ill danska, en fróin er skammvinn, og aldrei blæða undirnar verr en eftir vínneysluna.

Vínið er viðsjált og oftast til böls og skaða.

Skömmu eftir að ég kom heim frétti ég að Ásgeir hefði beðið hennar og fengið afsvar. Sú frétt var eftir góðvini hans þó ekki gæti hann varðveitt launungarmálið.

Ástríður kom sjaldan að Skarði og ég gerði mér ekki tíðförult að Haga, en satt er það, ég veitti henni athygli og sá að lífið bauð henni dapra daga. Við töluðum lítið saman en þó nóg til þess, að ég fann að hún kunni sem áður betur öllum öðrum að geta rétt í huga minn.

*

Eitthvert bölvað skeytingarleysi og trúleysi á manndóm minn festist í huga mínum. Ég henti mér öfugur á glapstigu; píndi sjálfan mig mest en varð öðrum um leið til ógæfu. Þegar ég sá að yfirborðsslétt og deilulaust hjónaband gat ekki lánast þá fann ég, að ég var gæfulítill misendismaður, sem fáum stóð gott af. Mér fannst það en ég þoldi samt ekki öðrum að bregða mér því - þeim gekk illt eitt til og þeim fórst ekki að láta borginmannlega; enda fóru þeir, sem þess freistuðu, sjaldan hlæjandi af þeim fundi.

Konan virti mér flest til lítilmennsku og börnin sveigðust þau árin frá föðurnum til móðurinnar.

Oftast vann ég þó frýjulaust að búnaðinum og gætti ekki svo illa fengins fjár.

Á milli okkar Ástríðar virtist hafa risið upp sá fáskiptnis múrveggur, sem hvorugt mundi yfirstíga.

Ég hafði lagt undirstöðusteinana.

Myrk og hörð liggja þau á huga mínum þessi fjögur ár, sem liðu frá því Ástríður fór frá Skarði og þangað til hún giftist.

Mér þótti hún vangift, þó var bóndinn ungur, allvel efnaður fráleiksmaður, sem hafði ást á konunni. Ég lét þetta ekki við veðri komast og gerði mér far um að vera honum viðmóts og viðskiptis góður en ég unni honum ekki konunnar.

Við frá Skarði vorum auðvitað í brúðkaupinu; ég gerði mér upp gleði þann dag og sá vel við víninu; mér veitti ekki af vitinu og gætninni.

Ég hafði gilda ástæðu til þess að geta farið fyrstur allra manna frá þessu boði; gilda í almenningsaugum; kvaddi brúðgumann í öðrum stað og brúðina þar sem hún stóð yst í mannþyrpingunni og horfði á ösina sem ennþá var kring um púnsborðið, á ölvaða gesti með glaum og háreysti, sem höfðu hneppt brúðgumann að borðinu.

Ég rétti brúðinni höndina og sagði: "Vertu sæl og líði þér eins og ég óska eftir... Dæmdu aldrei órannsakað, og gættu þess sérstaklega við hann, sem nú er orðinn eiginmaður þinn."

"Ég hef lært það helst að dæma varlega. Guð gæti þín... Vínið er viðsjált; sjáðu þá við púnsborðið."

Ég kyssti hana, tók ofan og kvaddi fólkið.

Blágilið var fagurt, en ég naut þess ekki um kvöldið né öndverða nóttina, það var aðeins Hamskarpur sem gladdist við vorgróðurinn.

*

Ég kom af héraðsfundi norðan frá Stað. Hamskarpur gamli hljóp götuna niður nyrðra Blágilssneiðinginn og upp á Flötina; þá reið maður hvatlega niður syðri sniðgötuna; við hittumst, það var Árni í Haga bróðir Ástríðar, harðfrískur og ötull maður.

"Nú er ég illa ríðandi, Hermundur minn, sá grái ber mig ekki eins og ég þarf að ríða; ég er að sækja lækni. Ástríður getur ekki alið barnið."

"Taktu Hamskarp og ríddu meðan hestarnir geta hlaupið. Jón á Velli lánar þér hesta út eftir ef mín orð koma til og þér þykir þess þörf."

Fáir mundu hafa trúað því, að það væri tvítugur hestur sem brokkaði svona léttilega upp að Ranagötunni og þó fór hann nauðugur úr heimahögunum vesalings gamli förunauturinn minn. Nú hafði ég enga eirð að dvelja í Blágilinu; Brokkur var baldinn suður göturnar; ég hafði sótt eftir þessum fola af því hann þótti einþykkur og ógjarn að hlýða þeim sem á sat. Eftir þessa ferð vissi ég að folinn mundi verða gripsval og góður hestur, en skapið var strítt og mikið. Þá var Brokkur fimm vetra gamall, bleikálóttur að lit með mön eftir bakinu og Péturssting beint gegnum hálsinn skammt aftan við kjálkana, mikill vexti, reistur og brúnamikill.

Fólkið var að hirða síðasta flekkinn þegar ég kom heim; það var þurrkur, hreinviðri og mild haustró hvíldi yfir himni og jörðu. Börnin fögnuðu mér og Þorgerður kom fram í stofuna til mín rauð í andliti frá því að brúna steikina. Hún tók fálega kveðju minni, leit út um gluggann og sá Brokk einan rása hneggjandi eftir túninu og spurði hvar Hamskarpur væri.

"Ég lánaði hann áðan til þess að ná lækninum --, Ástríður liggur á sæng, og hér er um lífið að tefla."

"Það er líka auðséð, að þér er brugðið. Þú hefðir varla látið taka tvítugan uppáhaldshestinn þinn til að ná lækni handa mér þó þess hefði þurft."

"Spá er ekki sama og reynd. Það hefur litla þýðingu að deila um orðinn hlut... Hún er þó fósturbarnið okkar, eða sér í lagi þitt. Viltu ekki fara frameftir? Þegar dauðinn ber að dyrum ætti fáleikinn að hverfa."

"Nei, ég fer ekki. Guð og samviska þín vita hvers vegna ég fer ekki."

"Þú ert auðvitað sjálfráð ferða þinna. Við ættum að vera það bæði. Þú minnir stundum á nafn."

"Ef ég minni á harðlyndi Þorgerðar Egilsdóttur, þá hefurðu gert mig svona. Ég gekkst fyrir lit enda hefndist mér fyrir það. Auðvitað ferð þú að finna barnið --, fósturbarnið."

Ég gekk þegjandi út og niður á túnið til Brokks, strauk honum og gaf honum deig, folinn var mannhræddur og framstyggur, mér var meira í mun að vingast við hann, og ekki síst nú eins og mér var innan brjósts.

Allt fólkið snæddi við sama borð og vel var fram borið og ríkmannlega, en ég varð að neyða steikinni ofan í mig, spyrja og svara þvert um geð mitt; mér hefði verið þögn og einvera kærust. Fólkið var ánægt og kátt, það átti sannarlega skilið að borða með nautn og næði; heyannirnar reka fast eftir og gefa litla ró. Ég setti vínflösku á borðið og sótti aðra til þess að gæða með kaffið; sjálfur lét ég aðeins dálítið í bollann minn; ég hef ekki neytt víns til þess að verða ölvaður þau full tvö árin sem hafa liðið frá því ég kvaddi Ástríði í brúðarskartinu.

Hjörleifur og Geirdís voru efnileg, ég held ég hafi elskað börnin mín eins innilega og aðrir feður, en ég elskaði þau ekki með blindri aðdáun, og hugur þeirra sótti meir til hennar, sem til barnanna hafði snúið ofurást og umönnun sinni.

Mér varð ekki svefnsamt þessa nótt. Um síðasta háttatíma horfði sem þyngst, það sagði Böðvar vinnumaður mér, sem ég sendi suður að Haga.

Það sem hafði sett að sárinu rifnaði nú upp. Almennt álit sagði góða ást milli ungu hjónanna í Haga og ég gat ekki efað það þótt það oft særði eigingirni mína, og veikur grunur lægi í huga mínum um það, að hún dyldi þrá sína, gætti skyldunnar og kvensóma svona vel.

Nú - þegar dauðinn stóð við sængurstokkinn hennar var það ástin ein sem réð skapi mínu. Hún spurði ekki eftir öðru en því, að komast til hennar, líða með henni og líkna ef unnt væri. Annaðhvort kann ég enga skilgreining hreins og óhreins eða þessi ást var hrein; - svo sem hún var í meinum, þá var hún viðkvæmasta, angurblíðasta og göfugasta rödd míns eigin hjarta.

Öll glöp mín, misstig mín fyrr og síðar brunnu í brjósti mér. Missýnið og einurðarskorturinn angraði mig. Óttinn fyrir lífi hennar gerði mig viðkvæman og iðrandi. Dauðinn er sterkur og maðurinn svo veikur og vanmegnugur; ég mátti ekki hugsa til þess að hún dæi; færi svo yrði jörðin mér "dauðans skuggadalur"; niðdimm kvalanóttin kenndi mér loksins að skilja þau orð.

Með ljósaskiptunum hægðist skapið, þróttur og hugur beindust að ákveðnu marki; ég klæddi mig, gekk út og lagði reiðtygin á Brokk; að því búnu fór ég inn í dyrnar og mætti Þorgerði þar; allir aðrir sváfu.

"Viltu ekki fara með mér fram að Haga -- að við vitum bæði hvernig þar líður nú?"

"Nei, ég get það ekki --- og þó hefur mér ekki orðið svefnsamt í nótt. Sorgin þín er of augljós til þess, að ég geti horft á hana og mega svo kannski búast við því, að menn glotti að þrekleysi þínu og einfeldni minni."

"Þá fer ég einn. Dómar þeirra hérna skulu ekki hefta för mína," sagði ég, gekk út og steig á bak.

"Og nú eru fósturböndin skorin sundur..." Meira heyrði ég ekki, sem líklega hefur verið best fyrir okkur bæði.

Í þetta skipti varð Brokkur að hlýða, ég var nógu harður í horn að taka; hann skálmaði suður götuna og blés mæðinni eftir sprettinn. Ég ætlaði hiklaust að biðja um leyfi til þess, að ganga að rekkju Ástríðar, loka herberginu og biðja hana að lifa - væri hún ekki önduð. Á þeirri stundu treysti ég almætti þeirra orða fremur öllu öðru; vissi að hún mundi skilja mig, verða mér samhuga. Það var afl elskunnar, sem nú réð. Væri hún látin, mundi ég kveðja hana í síðasta sinn. Horfa á hana um hríð og bera svo þá minningu í brjósti mínu þangað til ég hefði einnig greitt mína skuld, sofnað draumlausum svefni.

Þá mætti vinnumaður Helga mér og rak Hamskarp. Hann sagði mér góð tíðindi; það var fjölgað; læknirinn hafði náð barninu síðari hluta nætur og gaf bestu vonir um líf og heilsu beggja.

Þá þurfti ég ekki lengra. Hún lifði.

Það birti í lofti; héraðið lá búsællegt og fagurt í friðarmildri haustkyrrðinni. Líf hennar birti mér fyrir sjónum, - þrátt fyrir allt - þrátt fyrir það, að samvistunum var slitið og viðtalið sama og ekki neitt; hugrenningar og tilfinningar hennar voru mér huldar.

Hamskarpur og Brokkur fengu sér góða kropptuggu við Varmalækinn. Það var furða hvað lítið sá á karlinum eftir svo harða reið, en hann var æði mjósleginn og leirstokkinn. Það var satt, mér hefði fallið þungt að láta hann hafa svona hlaup fyrir flesta aðra.

Ástríður náði heilsu svo sem frá leið, en hún var tilfinnanlega föl þegar ég sá hana mánuði síðar. Þýð í máli við bónda sinn og móðurlega elsk að sveininum litla, sem dafnaði vel. Það var eins og vera átti, eins og mér bar að óska eftir, og þó fann ég til stingandi sársauka þegar ég sá hana brosa og líta fögru augunum sínum til eiginmannsins.

Mörk eiginelsku og sérgæða voru aftur risin á legg.

*

Tvíbýlið í Haga lánaðist ekki til lengdar. Ástríður lét sem minnst til sín taka þótt bróðir og bóndi stæðu oft öndverðir. Ég tók eftir því, að einhverjum köldum blæ blés að henni, markaði sér spor, sló fölva á vangana, setti roskins svip á andlitið fyrir tíma fram. Fyrir mér gat hún ekki dulið sorgar einkennin, né það, að hún hefði grátið; auðsjáanlega vildi hún dylja mig þess en ég hef stundum glögga aðgætni og hvassa sjón.

Hvar skórinn þrengdi vissi ég síðar. Sambýlis sundurlyndi er oftast þreytandi og lúalegt til lengdar. Sama orð fór af samlyndi þeirra hjóna; þau eignuðust ekki fleiri börnin en þennan eina dreng; bæði unnu Gesti litla hugástum, og ekki þrengdi efnaskortur að þeim.

Svo kom Vesturheims hugur í Helga þegar tvíbýlið lánaðist ekki; ég vonaði að skapferli Ástríðar mundi aftra för þeirra úr sveitinni. Nágrennið við hana færði þó oft fró, Vesturheimsferð hennar var drepandi.

Efri árin færðu mér afturför eins og flestum öðrum; þrekið þvarr og þolleysið jókst, angur og gremja urðu mér alltof tíðir förunautar.

Einn góðan veðurdag skömmu fyrir sumarmálin kom Helgi til mín og sagði mér þau tíðindi að hann hefði fest kaup á Hvoli og ætlaði sér að flytja þangað vistferlum í komandi fardögum. Bóndinn þar ætlaði til Vesturheims. Helgi þurfti að taka lán og bað mig að vera einn af ábyrgðarmönnunum fyrir því; ég reyndi að letja hann kaups og brottferðar. Mér leist ekki á sveitarbraginn þar austur í Tungunum. Þeir voru áburðarmenn þar eystra, lifðu ríkmannlega og meir á skuldabúnaði en góðu hófi gegndi. Helga skorti sjálfstæði og þrótt til þess, að brjóta bág við sveitarvenju og hætti hreppsbúa; honum var ekki happ heldur óhapp að vistferlunum. Og Ástríður mundi aldrei una anda og venjum manna þar; hún mundi sakna æskusveitarinnar, minninganna, vina og kunningja; aldrei sætta sig við tískuna í Tungunum; einangrast og slíta þreki sínu með leyndum harmi.

Fortölur mínar höfðu engan árangur; Helgi bjóst til brottfarar - auðvitað neitaði ég ekki ábyrgðinni, það hefði verið meinbægni og stirfni af mér, engu breytt með bólstaðaskiptin. Kunnugir sögðu að Ástríður væri ánægð með skiptin engu síður en bóndinm; ég þekkti hana betur, mig grunaði annað, en ég lét svo sem þeir segðu dagsatt. Satt að segja, gerði ég mér erindi að Haga, til þess að sjá með eigin augum - þeim treysta flestir best. Nei, hún bar harm í huga; hún lét hann ekki við veðri komast; duldi hann fyrir öðrum; fyrir mér dugði það ekki og henni lék sjálfri grunur á því, að ég sæi betur en flestir aðrir. Hún roðnaði þegar ég heilsaði og forðaðist svo sem unnt var að ég sæi framan í sig. Ástríður óttaðist rannsóknar augun mín, og mér féll sárt að sjá það.

Ég þurfti alvarlega að gæta orða minna og ræða við Helga af skynsemi. Honum hló hugur við jörðinni og sveitarháttunum eystra. Hvað hann gat verið grunnhygginn, að sjá ekki hvernig henni var gefið um loftkastalana og skýjaborgirnar sem hann byggði. Í hjarta mínu fyrirleit ég hann, en lét ekki á því bera. Mig skorti þrótt hreinnar vináttu til þess að segja honum til syndanna.

Þessum manni var Ástríður gift, að eigin vilja. Undarleg ráðgáta. Ástir og giftingar eru öðrum úti í frá oftast ráðgátur.

Ástríður kom með kaffið og bauð okkur það; örstutta stund mættust augu okkar, ég sá hún hafði grátið; hún dvaldi ekki lengi í húsinu hjá okkur. Ég hafði séð nóg; ég var ölvaður af harmi og gremju og ást, sem aldrei lét kúgast.

Rétt þegar við höfðum lokið við kaffið kom vinnumaður Helga og sagði gest kominn, sem ætti erindi við hann. Helgi gekk út. Gestur litli lék sér að leggjum á gólfinu. Laglegur drengur - líkari samt föðurnum -, augun móðurinnar hafði hann ekki fengið.

Þá var gengið um - ég þekkti fótatakið. Ástríði varð hverft við þegar hún sá okkur Gest tvo eina inni; laut niður að barninu, ég reis upp af stólnum.

"Því ferðu austur, Ástríður - því ferðu?"

Hún rétti sig upp og leit á mig kafrjóð.

Ég fann að ég bliknaði en töluð orð verða ekki aftur tekin þótt vitlaus og ógætin séu.

Röddin titraði þegar hún svaraði: "Ef vandamönnum semur ekki þá verður að þoka um sess - hér er ekki jarðir að fá; okkur þótti þess þurfa."

"En þú festir þar aldrei yndi."

"Ég verð að gera það ---, ég venst þar við og drengurinn hjálpar mér til þess, ef hann lifir með heilsu."

Mér varð orðfall; það varð stundarþögn, svo rétti ég henni höndina: "Guð varðveiti þig, Ástríður."

"Okkur bæði."

Varir okkar mættust. Hún var dökkeyg þá og sorgin auðsæ... Ég greip hattinn og hraðaði mér fram.

Úti á hlaði kvaddi ég Helga og gestinn; það var eitthvert skuldaþref milli þeirra.

Ég gekk hægt norður brekkurnar og hugsaði um skammsýni mína, misskilning, hugleysi og þrekskort. Um bláu blómin sem ég hafði heillast af í æsku... að "rómantíkin" hefði búið í hugskoti mínu, þrátt fyrir það, þótt ég hefði síðar þóst realisti. En mest iðraði mig nú vitlausa eiðsins í Huldutúninu.

Óljóst hugboð var orðið að vissu, hún hafði unnað mér og gat ekki gleymt þótt hún gjarnan vildi. Báðum blæddu sárin. Ég var frumkvöðull alls þessa böls -- meira böls. Ég var hvorki heill né hálfur... og hennar sorg skar mig þó allra sárast; særði viðkvæmast hjartað.

Það kvöld datt mér í hug að ganga norður að Blágili og henda mér fram af Valsbjarginu, þar var baninn vís. Ég gekk ofan við bæinn á Skarði og festi ætlun mína í huganum. Þar rakst ég á Hjörleif minn, sem var að ganga við ærnar, við fórum skömmu síðar báðir heim.

Örvæntingarinnar djöfull hafði tapað taflinu.

*

Nú eru þau farin austur; ég hef kvatt hana, við sögðum ekkert, en skilnaðurinn staðfesti fullkomlega stundarvissuna, sem stuttu áður festist í huga mínum, huga beggja.

Héðan af fækkar um fundi. Kjalfellið liggur líkt og sverð á milli okkar. Í sveitinni minni finnst mér allt hafa misst líf og lit við burtför hennar.

Svo leið árið og við Ástríður sáumst ekki. Það voru langar skammdegisnæturnar, og þorrastormurinn gnúði ömurlega, héðan og handan. Ég get ekki gert ljósa grein fyrir því hvers vegna hugur minn hneigðist til fjárafla þetta árið; ef til vill kapp að skila meiru en ég tók við; kosta börnin til menningar, styðja mig við afl efnanna og hafa eitthvað að starfa, sem dreifði þungum áhyggjum.

Ég hef lesið allmikið þessi árin, skoðanir mínar hafa í sumum greinum þroskast, en þær þykja einhæfar. Það stendur eflaust einhver jökulsvali af mér, því eru félagarnir svo fáir; kunningjarnir hverfulir. Er ég misendismaður? Eða ólaginn og þverlundaður? Ég veit það ekki. Hér er á tvær hliðar að líta.

Kalt og napurt hjónaband slítur því mildara og sanngjarnara úr eðli mínu og Þorgerðar.

Hjörleifur fer á gagnfræðaskólann, honum veitir ekki af að litast víðar um en heima á Skarði. Og Geirdís þarf einnig að sjá fleiri hliðar félagslífsins.

Því var ég sá glópur að sverja eiðinn... Hvað varðar mig um almenningsálitið og venjur manna? Hvorugt er réttlátt, hvorttveggja skammsýnt.

Ég stend með annan fótinn á landi liðna tímans og hinn á velli komandi starfsviðs. Aðra eins menn og mig tekur stormsveipur nýrra skoðana og rekur þá á urðir og klungur, því ber ég höggnar hlífar.

Til þess hlutskiptis verða ætíð einhverjir að falla, þegar tímamótaveðrin blása. Ég geri mönnum það ekki til geðs að bogra milli búða og biðja um vináttu höfðingjanna. Dauðinn er betri en vesalmennskan.

*

Milli Laugardalsins sem ég bý í og Tungnanna þar sem þau Ástríður og Helgi búa hafa löngum verið samgöngur, vistferla- og búsetuskipti; því er vinátta og frændsemi milli margra manna í þeim hreppum. Sveitametnaðurinn hefur látið örla á sér, yfirborðið er oftast slétt, en rígurinn sefur sjaldan með báðum augunum.

Þangað austur var okkur hjónunum frá Skarði boðið um vorið. Þorgerður vildi ekki fara og lét illa við för minni; sagðist hafa grun um að ég sækti þangað litla gæfu né heimilisheill. Ég lét ekki spá hennar aftra för minni og þó fann ég að hún hafði nokkuð til síns máls.

Ég var ekki sá garpur að renna sköpum þeirra norna er hér röktu vefinn.

Aðrir boðsmenn úr dalnum fóru degi fyrr en veislan átti að standa; heiðin er löng milli hreppanna og margir áttu þar vinahúsa að vitja. Það kvöld gerði æðiveður, hláku fyrst og siðan útsynning, veðrið stóð fram undir rismál, svo lygndi og gerði fagurt veður, þá bjóst ég að heiman; mér þótti eins gott að vera einn, og svo var Brokkur á þeim árum erfiður í samreið; ég þekkti hvernig þeir riðu sveitungar mínir.

Ég reið vægilega og áði lítið eitt á tveimur stöðum þar sem haglendi var best; stillti svo til að ég þyrfti ekki lengi að bíða kirkjugöngunnar; ég sá fólkið þyrpast þangað þegar ég kom á leitið skammt fyrir utan. Ég sleppti Brokk í hestasafnið, fór úr reiðfötunum og gekk í kirkju. Þegar ég hafði setið litla stund litaðist ég um, augu okkar Ástríðar mættust, föla andlitið roðnaði, svo leit hún niður, sveipaði herðaklútnum til hálfs fyrir andlitið og drúpti höfðinu. Ég varð þess ekki var, að hún liti oftar til mín meðan setið var í kirkjunni.

Hvað mér varð þungt fyrir brjósti af því að sjá hana gráta - hún gat ekki dulið mig þess -, sjá yfirbragð hennar lýsa trega og harmi. Mig varðar lítið um vígslu-guðsorðið; það var gamli grauturinn þeirra, eldaður upp, ofurlítið af "sírópi" og nokkuð af lygi til ábætis. Það var aðeins hún ein, sem ég hefði viljað gráta með -- ekki framan í fólkið þarna í kirkjunni, nei - það var fjarri því; úti, í einverunni, fyrir augum sólarguðsins. En mér hafa ekki stokkið tár af augum síðan ég sór eiðinn í Blágilinu forðum.

Þessi háa grannvaxna kona var að vísu fríð sýnum, en ég hef séð fegurri konur og þær hafa engum skapbrigðum valdið mér. Jarpa hárið fór vel og þó var það farið að þynnast; hún virtist helst til nefstór nú, síðan hún varð svona grannleit; sællegi roði vanga hennar var horfinn, hakan orðin hvassari, ennið var bjart og slétt, brýrnar bogmyndaðar og lítið eitt ljósari en hárið, varirnar rauðar og mjúklegar. Augun stór, móbrún, djúp, stillileg og dreymandi; það voru þau, sem aldrei gengu úr huga mínum, þau fegurstu augu sem ég hef séð, og þau munu fylgja mér alla götu eins og yndisþokkinn og kvenlega prúðmennskan henni.

Þetta sá ég og skildi á svipstundu, í guðshúsi, og fyrir þá syndina geri ég enga iðran, en ef fólkið í kirkjunni vissi, hvað í hjartanu bjó þá hefði það barið sér á brjóst og þakkað fyrir að vera betra en ég.

Vesalings fólkið.

Ég þekki það. Hef séð réttlæti fjöldans og kristilegu trúna hans.

Eftir að gengið var úr kirkju, dreifðust menn um kirkjugarðinn, hlaðið og túnið; fáa fýsti inn í góðu og kyrru veðri. Jón á Heiði heilsaði mér og tók að spyrja almæltra frétta og síðan að geta um ný tíðindi úr sínu byggðarlagi.

"Björn í Svellatungu liggur alveg fyrir dauðanum. Sá sem læknis vitjaði var fljótræðis auli og gat engu lýst um veikindin. Þegar Snorri kom sá hann strax að það var svæsnasta lungnabólga og þá vantaði það meðalið, sem honum hefur gefist best. Nú er von á þeim, sem með honum fór, í dag með meðulin; það er eina vonin."

"Og lífslöngunin - ég vona hann vilji lifa," sagði ég og leit ósjálfrátt yfir um, þar blasti Svellatunga við austan árinnar.

Gagnvart mér stóðu Hvolshjónin; ég gekk til þeirra og heilsaði þeim.

"Eiga þau erfitt uppdráttar, Svellatunguhjónin, og fyrir mikilli ómegð að sjá?" spurði ég.

"Þar er skuldabú, en Björn hefði samt haft sig áfram ef heilsan hefði ekki bilað. Deyi hann, bjargast það varla af eigin rammleik." Helgi gekk heim að dyrunum, þar kallaði einhver til hans.

"Börnin eru sex og það elsta á fjórtánda árinu --- það er hart að hugsa til þess, að Björn deyi frá barnahópnum, en aðrir, sem fyrir litlu hafa að sjá og ekkert liggur eftir, þeir verða fjörgamlir."

"Og vildu gjarna losna á kristilegan og skaplegan hátt við það að klifra ávallt í hömrum."

Hún fölnaði og þagði ofurlitla stund, síðan sagði hún:

"Til þess er þrekið gefið, að mennirnir beri sig vel í öllum raunum."

"Sumum er gefin harka og vanstillt skap, öðrum þolinmæði og þrautgæði; ég held, að hið síðara verði farsælla til að styðjast við."

Hún leit sem snöggvast til mín spyrjandi, angurværum augum.

Það var líkt og eldur brynni í brjósti mínu þegar Ástríður gekk til bónda síns og ávarpaði hann blíðlega. Ég fékk varla stillt mig frá því að ganga til Helga og reka honum löðrung; nema Ástríði brott fyrir augum mannfjöldans, storka þeim með því að brjóta öll lög og velsæmisreglur sem það trúði á... En það var svo ráðlaust flan; leiddi bæði til böls... Svo vissi ég ekki um hve sterkar tilfinningar hennar voru... Ráðþroti og angri þyrmdi yfir mig; ég gekk niður á túnið, burt frá mönnunum. Skammt austan við ruddist Kaldá dunandi og mórauð norður eftir. Hún rennur um mikil og snjóþung öræfi og safnast í hana margar smærri ár og lækir á þeirri leið. Öndvert sumarið er hún sjaldan reið sökum vatnsmegins og straumhörku, en þegar öræfin eru runnin, fönnin leyst úr dölum og drögum þar syðra, þá er hún ekki torveld yfirferðar. Vatnsniðurinn sefaði æsta skapið, ég fann að áin seiddi mig til sín; hún hafði aflið til þess að bera mig - stráið - burtu; frá þrautum og ástríðum; bera mig út til hafsins; til algleymis og eilífs friðar.

Helsingjahópur flaug yfir höfði mér; röddin er ófögur og lét illa í eyrum. Ég horfði á þessa þéttbyggðu, frjálsu fugla sem nú voru að halda til sumarsælu og lífsgleðinnar á landi Eiríks rauða. Síðan horfði ég austur að Tungu, þar barðist Björn við dauðann og hér stóð ég og hugsaði helstu fróna í köldu örmunum hans. Mig syrgðu fáir, hann mörg börn og harmandi kona. Hann þurfti að lifa og starfa, ala önn fyrir ástvinum sínum. Ég átti einnig að lifa og vinna. Að ráða sér bana er vesalmennska, uppgjöf, flótti af vígvellinum, þrotslýsing til nágrannanna og mannfélagsins. Nei - svo langt er ég ekki leiddur; þrekið ekki svo þrotið. Annað er að tefla á tvíhættu; sigra eða bíða bana.

Hitinn var ákaflega sterkur; sólarglóðin ætlaði að örmagna mig. Æskufjörið er farið, áræðið bilað, oftast er ég helst til ragur og varfærinn; það hafa sveitungar mínir rennt grun í; sá orðasveimur hefur borist að eyrum mér og gramið geðið... Skal ég þá aldrei fá tækifæri til þess, að sýna þeim, að gambrið þeirra er eins og froða... Líkast til ekki. Mér fer hnignandi og ráðlaust flan í torfærurnar og síðan uppgjöf, það er ekki annað en heimska og staðlaust stærilæti.

Þá er kallað til mín; veislan byrjar; ég skal sýnast glaður, og forðast vínið; ekki veitir mér af vitinu og gætninni í dag.

Helgi unir sér vel í félagi við þá Tungumenn; hér er gleði og glaumur, borist mikið á; straumurinn ber hann með sér; það er öðruvísi með Ástríði - eins og mig grunaði -, hún er einlyndari, fastnæmari; henni geðjast ekki fjölyrðin og glamrið. Hún festir hér ekki rætur - hugurinn er annars staðar, henni er harmur í hug, þó alþýða manna sjái það ekki.

*

Það er komið kvöld. "Púnsið" svífur á menn og því verða skálaræðurnar helst til margar og helst til hégómlegar. Ég þoli ekki ösina og hávaðann. Glaumurinn hér og fársjúkur maður þarna fyrir handan ána; hlátrar og mælgi og seingrónu sárin mín eru svo sundurleit að ég verð feginn að svala mér einn saman í hressandi hafrænunni, ég geng norður fyrir fjóshlöðuna og horfi vestur að Kjalfellinu. Heiðin verður löng og heimkoman köld; gleðibragði mínu er brugðið... Skal það vera maðurinn sem lækninum fylgdi, þessi, er nú kemur norðvestan göturnar á staðþrotnum hesti?

Nokkrir menn gengu að hlöðunni og inn í hana, ég ætlaði að ganga heim og gekk suður fyrir hlöðuna, þar stóð ég við og horfði aftur á manninn, sem barðist um og knúði vesalings uppgefna klárinn. Ég heyri manna best og nú bárust mér orð til eyrna úr hlöðunni.

"Hvaða fjandi er að sjá hvað honum Hermundi hefur farið aftur; hvað amar að honum?" Það var Helgi sem spurði.

"Líklega hans óþjála lund og stolt... svo fer úlfúðin milli hjónanna í vöxt, segir kunnuga fólkið." Svarið kom frá Magnúsi nágranna mínum.

"Það særir hann eitthvað, sem þið rennið ekki grun í þorskarnir," sagði Finnur gamli lausingi.

"Það getur verið -- hitt vitum við, að honum þykir við vera lítilmenni og ragir, hann skefur ekki utan af því -- sjálfur gætir hann þess vel að lenda ekki í miklum hættum. Hann er víst að verða geðveikur; og undarlega er hann ómannblendinn," aftur var það Magnús sem talaði.

Ég gekk burtu, mig fýsti ekki að heyra meira... Svona var það, ég var á orði meðal sveitunganna fyrir geðveiki og enn sveimurinn um varfærnina... Gefist tækifærið þá skuluð þið fá að reyna hvort ég hopa á hæli fyrir ykkur eða hleypi ykkur á undan mér í háskann. Ég verð samferða heim og þá skal reynt hvort ég þori að hleypa hesti eða ekki; tekin af tvímælin um það.

Ég gekk beint upp á loft til kjallaramannsins, tók opinn gluggann, sem var á framstafninum og sagði: "Nú skal ég þiggja eitthvað sem er skárra en ófétis "púnsið"."

"Gerðu svo vel - konjakkið er skárra - þú gerir mér ekki ómökin í dag."

Svo leit ég út og niður á hlaðið; þar stóð vandræðaþing. Ferjan hafði fokið og brotnað í spón í útsynningsveðrinu síðastliðna nótt; áin var á hrokasund; enginn komst til veislunnar þennan morgun af þeim fjórum bæjum, sem standa austan ár, og því síður var hún reið nú eftir sólarhita dagsins. Presturinn var hniginn á efri ár en hafði fyrrum verið hraustur og harðger maður; hann taldi ána hleypandi af þeim, sem kynni að sundríða ef hann hefði reyndan og öruggan vatnahest. Menn játtu því, stungu saman nefjum, ýttu hver að öðrum en enginn fékkst til fararinnar. Ástríður stóð með öðrum konum lítið eitt frá, hún þagði og beit á vörina; þá vissi ég að henni var ekki rótt í skapi.

Ég stóð kyrr og hlýddi á, mér var ljóst að hér var um tvíhættu að ræða, en líf manns lá við; meðulin þurftu að komast austur að Tungu; nú gafst tækifærið til þess að reka af sér ragmælið.

Presturinn bauð Grána sinn fram, en sagðist ekki treysta sér til þess, að sitja á honum sjálfur. Hreppstjórinn hélt að ungu og framgjörnu mennirnir ættu helst að ráðast til fararinnar: Hesturinn var orðlagður traustagripur og sundhestur.

Ástríður litaðist um, ég sá hún kom ekki auga á það sem hún skyggndist eftir.

Ég tók af mér hálslínið, það ætlaði að kyrkja mig.

Þá kom Finnur lausingi að og sagði: "Ég er gamall og fyllisvín eins og þið segið; ég skal reyna að ríða ána; í mér er enginn mannskaði og ég þori að yfirgefa ketkatlana."

Það var ekkert vit; skömm fyrir okkur hina, að gamall og slitinn drykkjumaður, sem nú var nokkuð ölvaður, væri látinn ríða ána, enda varð nú steinþögn á hlaðinu. Ég snaraðist ofan loftstigann og út á hlaðið, lagði höndina á öxlina á Finni og sagði: "Nei, Finnur minn; þú getur það kannski en það er þó ekki víst; þú ert orðinn gamall, gerðu það fyrir mín orð, farðu ekki; ég skal sjá um að maður fáist."

"Þá ætlarðu sjálfur - en varaðu þig; áin er straumhörð, hestinn hrekur mikið," Finnur laut að mér og talaði lágt.

"Ég ætla að reyna að fá hann Halldór á Árbakka til þess og bregð mér ofan eftir; ekki þori ég að ríða ána."

Um leið og ég sagði síðustu orðin leit ég til Magnúsar og Helga, sem stóðu saman, þeir skiptu litum.

Ég tók við meðulunum; það voru nokkrir "skammtar" í glasi og korktappi í; stakk því í vasa minn, söðlaði Brokk í réttinni, teymdi hann austur úr hlaðinu og ætlaði að stíga á bak; þá kom Ástríður: "Skilaðu fyrir mig að Seli," við gengum lítið neðar: "Þú ætlar að ríða ána... Guð veri með þér; mettu nú lífið eins og karlmenni sæmir... þá sjáumst við aftur."

"Vertu óhrædd... undrastu ekki þó ég fari af hestinum -- bara til að létta sundið. Guð veri með þér."

Svo snaraðist ég á bak; lét stíga hratt niður að ánni, steig þar af baki, spennti gjörð og keðju nokkru lausar, tók af mér stígvélaskóna og hattinn, lagði svipuna ofan á hann og steig á bak; miðaði landtökuna að austan - hún var góð næði ég henni, norðar var grasivaxinn bakki, þar gat verið holbekkt; ég reið lítið eitt sunnar og þar fram í. Hesturinn tók sundið, þegar hann hafði vaðið einar tvær hestlengdir, honum miðaði vel austur að straumhryggnum í miðri ánni; þá sóttist seint og hrakti óðum; ég lagðist forstreymis með hestinum, hélt mér í faxið rétt framan við hnakkinn og blístraði. Hesturinn vissi um hvað hér var teflt -- nokkur hamrömm tök, drunandi frýsstrokur og við vorum sloppnir austur úr röstinni; þá sóttist sundið vel, okkur bar að grjóteyri örskammt sunnan við svartbakkann. Mannþyrpingin stóð hinum megin. Það er rennslétt upp að túninu í Tungu og hann var fljótur með þann spölinn þá hann Brokkur minn, honum var kalt og feginn fjörinu; nú lét hann til skeiðið og ég var nógu stærilátur til þess, að taka það fyrir augum þeirra, sem stóðu fyrir handan ána.

Ég tafði þriðjung stundar í Tungu, hesturinn fékk mjólk og bithaga í túninu; drengur gætti hans. Björn var heldur þjáningarminni það kvöldið; ég fór vongóður þaðan og það var sannarlega beðið vel fyrir mér í Tungu þegar ég kvaddi. Mér var óvenju skaplétt meðan ég reið niður að ánni. Það var því líkast sem sólin brosti við mér um leið og hún rann friðarmild og kvöldblíð undir Kjalfellið. Sundið sóttist vel vestur að straumhryggnum; okkur bar svo að, að hér féll straumurinn öndverðari. Hestinn hrakti en vann lítið vestur yfir; ég hlaut aftur að leggjast með honum. Nú var þér frýjað hugar, vinur minn; þú barðist fyrir lífi okkar beggja, en ég lá kyrr og blístraði; þú barðist eins og afrekshetja; vannst að lokum vestur úr röstinni, þá var hættunni lokið; báðir urðu fegnir landtökunni og báðir skulfum við þá. Okkur hafði hrakið mun meira norður eftir og verið lengur í jökulvatninu.

Það skorti ekki, mér var fagnað af fólkinu; mönnum var alvara þá; en gum og hól láta mér ætíð illa í eyrum; illa þótt það sé um sjálfan mig; skapið harðnaði og ég hef víst orðið hálfþurrlegur og vandræðalegur þar sem mennirnir þyrptust að mér meðan ég fór í skóna og setti upp hattinn.

Ástríður sagði ekkert, hún stóð lítið eitt fjær, föl og ró að sjá. Gleðin gerði svipinn heiðan og augun skær, þegar ég horfði í þau rétt kominn af ánni; roðinn rann sem snöggvast yfir andlitið, hún yngdist um mörg ár þá stundina.

Klerkurinn gekk að mér, lagði höndina á öxl mína og sagði:

"Þetta var karlmannlega gert, Hermundur minn, og þér eigið líka fyrirtaks grip að gæðum og þreki. Það gleður mig ævinlega þegar ég sé að mennirnir geta eitthvað meira á sig lagt en vaða elginn og bulla í blöðunum."

"Það má þakka hestinum það en ekki mér; fyrir hann er ég hér kominn; að lafa í faxi er enginn garpskapur."

Finnur gamli strauk hestinum og skoðaði hann vandlega:

"Ég hefði drepið mig, það er hér um bil víst ---, karlslytta, eins og ég er orðinn, þolir ekki svona svaðilför. Ég hefði farið á heimleiðinni - og þá gerði það lítið... en súptu nú á, það er konjakk, ég er ekki fullur nú, ölvanin rann af mér, ég gat ekki um annað hugsað en hvernig þér reiddi af. Auðvitað munur að þú ert vel syndur; ég hef löngun til þess að kyssa bæði þig og hestinn, en þú ert ekki líkur því að hafa gaman af karlakossum svo að ég læt mér nægja að faðma hestinn."

Mér var fjandi kalt og mun örari í skapi en vant var, ég tók flöskuna og drakk niður fyrir axlirnar, ylur færðist eftir mér öllum: "Heyrðu Finnur," sagði ég, "þú mátt ríða honum heim; ríða eins og þér best líkar, en svo verðurðu að láta hann í gott hús og dekra við hann þangað til úr honum er hrollurinn."

"Þakka þér fyrir; þetta var betra en konjakk, svo blessað sem það þó er," sagði Finnur, laut að mér og hvíslaði: "Það svíður þetta sárið --- forðastu andskotans vínið - það varð fótakeflið mitt."

Finnur steig á bak, sat beinn og þreklegur í söðlinum. Brokkur þaut á stökki upp eyrina og grundina að lækjarfarveg grýttum, mér varð hverft við, klárinn gat verið harðskiptinn og óvæginn ennþá; hættan var engin, Brokkur lá á snarpa-skeiði heim í túnið, þar fór Finnur af baki. Hér hefur vínið komið snoturmenni á kné, eins og svo oft áður -- honum vildi ég geta rétt bróðurhönd; hann er ekki líkur fjöldanum - ruslinu, sem svo mikið ber á.

Síðari hluta nætur riðum við sveitungarnir heimleiðis. Föt mín höfðu verið þurrkuð og voru þó heldur kaldrök, en ég vildi ekki annað en vera í mínum eigin fötum, það var nóg að skarta klæðisfrakkanum prestsins um nóttina og öðrum lánsfötum hans. Norðanstorm og rigningarkalsa gerði með rismálunum og sló að mér kuldahrolli og óhægð þó ég léti ekki á því bera við samferðamennina; nú fengu þeir að reyna hvort ég þyrði að hleypa hesti eða ekki, og Brokk mátti bjóða harða reið, hann var ómæðinn og brjóstheill; nú fékkst vekurðin og nú sparaði ég ekki að heimta hana. Metnaðurinn lækkar ekki við ölvanina og harmurinn gerir mig ekki grátbljúgan.

*

Heimkoman var köld - ég skrifa lítið um hana; mér hefur reynst spá Þorgerðar sönn, ég sótti ekki rósemi austur eftir, og það vissi ég spásagnarlaust. Kaldárhrollurinn vill ekki með öllu hverfa - þoli ég þá ekki meira en þetta, eru ellimörkin að færast svona vesallega yfir mig?

Ég tek mér hest og ríð út með hlíðinni; til þess að gæta að lambfénu, segi ég heima, en raunar fer ég þess erindis að sitja í Huldutúninu, forðast mennina og leita fróunar.

Kvöldsólin stafar á mig geislum og veðrið er sumarmilt; þó er mér svalkalt.

Glópur var ég þegar ég sór eiðinn; mig skorti þrekið til þess að brjóta á bak aftur ástina sem vaknað hafði á fullþroskaárum mínum. Mér var ekki veitt gæfa til þess að gleyma henni, festa yndi við konu og börn; í hjarta mínu bjó önnur þrá, sterkari en mig hafði grunað. Mig skorti sjálfsafneitun og þolinmæði; ég kann ekki að prédika aftur í mig ást þar sem hún er horfin; get ekki leikið ánægðan og auðsveipan bónda, eftirlátan og síglaðan föður. Þorgerði stendur böl og gremja af mér; börnin bera merki kuldagustsins og skuggans sem hefur mörg ár hvílt yfir Skarði.

Og Ástríður - hún syrgir og saknar, en hún er best, gæflyndust og þolinmóðust okkar; ber byrðina best. Ég ætti að óska þess og vænta, að hún ynni manni sínum hugástum - gleymdi mér; en ég er ekki svo góður maður, ekki svo óeigingjarn; ég þrái ást hennar og vona hún geti ekki gleymt mér. Fyrst ég gat ekki drepið þessa ást mína forðum, ekki slitið mér þá, svo að ég yrði þreyttur, kaldur, dofinn og sljór, þá er ekki um gleymsku né græðslu að hugsa. Gæfulítill var ég þá og þó held ég hún hafi fyrigefið. Hún er svo stillt og mild; sú kona hefði leitt mig á betri götu, til hlýrri heimilisvistar.

Hvað það var helsárt að sjá hana náföla þegar við kvöddumst; finna höndina kalda, sorgina augljósa; heyra röddina titra og mega þó til með að þegja eins og stokkur eða steinn; geta enga sampíning né hluttöku sýnt. Það tvöfalda böl er þungt: að finna, hvað hefði getað orðið, og hitt, að mega enga hluttekning sýna, ekki rétta vinarhönd. Að standa líkt og gaur og stara á sorg hennar, það er grátlegt gæfuleysi.

Ég sver ekki - það hefur mér til skapraunar orðið - en ég ætla mér að strita og elja, slíta kröftunum sem fyrst. Rétta lítilmagnanum og raunamanninum hjálparhönd þegar ég get; standa aldrei höllum fæti né boginn í baki fyrir stórlæti né hégómadrambi.

Ég hef enga vissu um tilveru guðs; allra síst líkt því sem mér var kennt að trúa og treysta; en ég bið samt: Guð varðveiti þig og hugsvali þér, Ástríður! Bænarorð barnsins koma ósjálfrátt á varir mínar; guð er mér það fagra og hreina, mildin og gæskan. Heitari bæn á ég ekki til í brjósti mínu.

*

Árin líða; ellimörkin festast; ég hef stritað og lúð mig, þó er blóð mitt heitt, skapið örgert; tvíhætta lífs og gæfu ginnir mig ennþá. Styttri leiðin yfir skóginn þótt þar kunni torfæra að finnast verður mér ávallt fýsilegri en alfaravegurinn utan við og þó er þar sæluhús og eldur á arni.

Þorgerður er ern og sköruleg húsfreyja, einhæfari með efri árunum, dómstrangari og réttlátari. Milli okkar er mikið djúp staðfest þótt við búum saman. Hjörleifur verður búsýslumaður og ráðgjarn, hann er augasteinn móður sinnar - það er best að lofa þeim að ráða mörgu, en það, sem ég hlutast til fyrir alvöru, því fer ég fram hvað sem þau segja. Ég keypti Haga þegar Árni fór til Vesturheims og byggi hann bóndanum þar til árs og árs, okkur semur vel og hann situr varla mér til meins þegar ég óska eftir að hann fari. Hjörleifur vill taka engjapart frá Haga og leggja undir Skarð; það tek ég ekki til greina. Við gætum fengið þar keyptan heyskap þegar þarf, en ég búta ekki af Haga til þess að leggja við Skarðslandið. Geirdís er mýkri í lund og okkar hugir falla betur saman.

Ástríði sé ég sjaldan og við tölum fátt saman. Eitthvað amar að henni og í Tungunum festir hún aldrei rætur. Sárið svíður ekki jafn sárt, en það grær þó ekki. Þráin sofnar ekki og viðkvæm hluttaka í kjörum hennar býr í hjarta mínu. Líklegast virðist mér að hún hafi sigrað ást sína til mín - hafi það nokkurn tíma verið annað en missýni, sem mín eigin þrá vakti; en henni er þó vel til mín og barnanna. Hjörleifur er fár og strangur á svip; Geirdísi þykir vænt um hana. Kali Þorgerðar gerir Ástríði ófýsilegt að vitja æskustöðvanna.

Ávallt þegar ég sé Ástríði staðfestist sú þrá mín að mega tala við hana, segja hvað í brjósti mínu hefur búið. Tækifærin gefast fá og mér er torvelt að byrja máls á því, sem við hjarta mitt hefur búið svona mörg ár, þar hefur dulin ást til hennar numið sér óðal og verið fóstruð af heitustu og næmustu tilfinningum mínum.

Áður en ég dey hlýt ég að gera það - ég get ekki dáið með þetta launungarmál, hvað sem á eftir kemur. Og dauðinn getur tekið mig í kvöld eða á morgun. Nú er ég fimmtugur maður og sá heilsubrestur er mér nú orðinn auðfundinn, sem fyrr eða seinna ræður mér bana ---, taki ekki atburðirnir fyrir hendur honum.

*

Ég hef talað við hana. Hún hefur elskað mig og ekki getað gleymt ljúfdreymi fyrstu ástarinnar. Það er ást sem fylgir báðum til grafarinnar. Sú ást er hrein og ósaurguð - hvað svo sem alþýðurómurinn mundi segja um hana. Hann hefur lengi getið, farið nærri og logið við. Það er hart að hugsa til þess, þegar fólkið fer að búa til söguna, fleygja munablóminu okkar bláa út á hræsibrekku.

Í dag sit ég á græntóinni í Huldutúninu og lifi upp ævintýrið frá síðustu dægrunum. Mig vantaði illa til fráfærnanna og því lagði ég einn austur á heiði í ærleit; auðnaeinveran á vel við mig, ég fór löngu fyrir rismál og reið austur í Seldal, þar hefur til skamms tíma verið selstöð frá Skarði og stundum frá Haga og Mel, nágrannabæjunum. Dalurinn og heiðin þar í kring er í landeign Skarðs, nú er selstaðan aflögð en þar hef ég vor og haust haft fullorðið sauðfé. Hagi er þar grösugur og kjarnmikill; eftir dalnum liggur kaupstaðarvegur Tungumanna og æja þeir ýmist í Lambhaga eður við Selið nokkru norðar. Seldalur er fagur í vorgróindum og fegurst þó við Selið og kringum það. Selslækurinn rennur rétt vestan við kvíarnar, hoppar niðandi niður Selleitið, niður í hvamminn og svo í Þvottatjörnina.

Fyrst leitaði ég um dalinn sunnan við Selið og fann þar fjórar ær, þá reið ég norður í dalbotn og fann þar fimm, ég rak ærnar suður að Selinu og hleypti þeim vestan við Selið niður að tjörninni til hinna. Það var komið nær miðaftni en nóni og mér þótti mál að hvíla Brokk um stund. Í hvamminum kroppaði rauðskjóttur söðulhestur, ég spretti af og lét Brokk draga beislið, gekk síðan að hestinum, ég þekkti hann; ofar, að læknum, yfir drag sem hann beygði fyrir, þar við bununa sat Ástríður, hún vissi ekki af mér fyrr en ég sagði:

"Ástríður! Ertu veik, hjartans vina?"

Hún hrökk lítið eitt við og leit á mig tárvotum augum; henni varð ekki fljótt til svars.

"Nei, fóstri.. nei, Hermundur --, það rifjuðust upp fyrir mér gamlar minningar, ég var hér tvö ár léttastúlka í Selinu og þetta var eftirlætisstaðurinn minn."

Ég hafði tekið hægri hönd hennar, um leið og hún þagnaði laut ég niður og kyssti hana. Ástríður stóð á fætur og horfði á mig hún dreyrroðnaði; bæði þögðu nokkur andartök, hún dró að sér höndina.

"Ertu ein á ferð?"

"Já, -- samferðafólkið - það frá Krossi og Múla fór í gærkvöld, ég varð ekki snemmbúin í morgun... Þó ég hefði tapað samfylgdinni hætti ég samt ekki við, ég rata þó ég sé ein."

"Má ég ekki tala við þig... nú gefst tækifærið... ég get ekki drepist svo að ég ekki skýri þér frá huldustu hugsunum mínum... Allar mínar heitustu, innilegustu og bestu tilfinningar búa hjá þér, fylgja þér, hafa fylgt og munu gera það meðan ég lifi."

Hún horfði á mig munardökkum augum; nú var hún föl; ég sá hvernig hún titraði.

"Ó, það er ekki mikið.. úr mér er slitið allt það besta,.. gallarnir ekki, þeir endast og....

"Þú ert miklu betri en þú segir sjálfur."

"Trúirðu því?"

"Já, og trúðu því líka... talaðu ekki um dauðann, þú ert ekki svo gamall, getur lifað og starfað lengi ennþá."

"Ég - það besta væri, að Brokkur dytti og dræpi mig. Ég er saddur lífdaganna."

"Segðu það ekki... Láttu mig ekki þurfa að frétta nein voðatíðindi.. Ég get borið ýmislegt mótdrægt en það yrði mér um megn."

"Ég væri verri en hundur ef ég kveldi þig með því líka. Vertu óhrædd, mér er enginn sjálfsbani í huga, síst nú... annað er tvíhætta, hana get ég ekki forðast. Ég lofa því, að forða þér frá þeim tíðindum eins og ég get drengskapar míns vegna... Þú hefur lesið tilfinningar mínar eins og letur á bók. Þú veist að ég ann þér heitast og mest allra manna... en hvernig líður þér?"

"Ég kvarta ekki, mér líður bærilega."

"Það er ólíkt þér að kvarta; en þér er ekki til neins að dylja mig; ég tek vandlega eftir þér og veit þér er oftast skapþungt. Þú unir aldrei þar eystra. Hlíðin laðar hug og hjarta; minningarnar vaka og þær eru angursefni."

"Já, það er satt þær eru erfiðar."

"Og... hverjar tilfinningar berðu til mín; segðu mér það, vina mín."

"Þú segist hafa veitt mér eftirtekt.. og þá geturðu þeim nærri."

"En að geta er ekki sama og vita; ég er efamaður... Hefðirðu barist með mér forðum... ekki hopað þó hart yrði stríðið?"

"Já, ég hefði gert það."

"Og ég bölvaður aulinn, sem þagði. Nú væri friðurinn fenginn, þránni náð."

"Það er eins og ráðist hefur... engu verður þokað. Við verðum að sætta okkur við það sem orðið er, vera þolinmóð."

"Ég er ekki þolinmóður, því er miður... Og þú getur ekki gleymt?"

Hún þagði um stund.

"Nei, ég gat það ekki; og þó hefði ég átt að gera það."

"Við því var að búast, með þínu skaplyndi... Besta, góða vina mín, fyrirgefðu mér alla þá kvöl sem ég hef bakað þér."

"Ég hef ekki mikið að fyrirgefa. Við tilfinningarnar ræður hvorugt - það er dagsatt - en við verðum að bera byrðina líkt og áður, enga bylting gera."

"Þú hefur glöp mín að fyrirgefa - en það tilfinnanlegasta gerði ég þó í besta tilgangi -; ég veit að nú getum við ekki hafið stríðið... ég er gamall og farinn þegar minnst varir.. bæði gift - bæði gift -, ástlítið hjónaband beggja og í því er ég í skuld."

"Væri um skuld að tala, er það misstig beggja. Ég var svo einföld, þegar mér datt í hug að leita græðslu og sefa söknuðinn; felldu ekki of þungan dóm á þig."

Svo varð þögn, það var örskammt á milli okkar; við störðum hvort í annars augu. Ástríður - eins og hún var þá - yfirgefur mig hvorki í vöku né svefni síðan. Haust mannlífsins var auðsjáanlega að færast yfir hana, en angurblíði sæmdarþokkinn fór henni svo fagurlega; dökku, djúpu augun voru svo hrein og mild, að mér fannst líkt og allar betri hvatir mínar lifnuðu á ný. Ást mín hefur aldrei verið hreinni og falslausari en á þeirri stundu. Sorgin bægði fýsn og munaði fjarri.

"Þú ert að fara í kaupstaðinn einsömul; má ég ekki fylgja þér; það verður líklega ekki oft sem ég geri það; ekki oft, sem við tölum saman."

"Ég get ekki neitað því - og þó ætti svo að vera. Guð minn góður, hvað mennirnir eru veikir fyrir, þegar um heitustu hjartans mál er að skipta. Við hljótum að gæta skyldunnar; það verður ekki meiri raun en Kaldá var um vorið."

"Ef til vill ekki í þetta sinn, en það er þó sú raunin sem flestum hefur á kné komið ef lengi skal freista... Nú skulum við fyrst horfa hérna yfir fjalldalinn og sjá hvernig blessuð kvöldsólin skín í heiði og signir allt sem býr í honum - okkur líka - og svo skulum við ríða hvort við annars hlið eins og hjartkærir vinir; tala um fornar minningar einlæglega og afdráttarlaust."

Ég rétti henni höndina og leiddi hana niður í hvamminn; hún skalf þó sólin stafaði geislum sínum yfir hana.

"Ég hef hestaskipti við þig; þó að Brokkur sé farinn að reskjast er hann samt allgóður hestur ennþá. Þú hefur aldrei komið honum á bak."

"Þakka þér fyrir," sagði hún ofur lágt. Við þögðum bæði meðan ég söðlaði hestana; svo hjálpaði ég henni á bak. Kaldir svitadropar stóðu á enni mínu; um leið og hún settist í söðulinn strauk hún hendinni um það, hvað mér fannst höndin mjúk og líknandi. Við riðum upp að Selinu og norður göturnar.

"Góða Ástríður -, ég er eins og múlbundinn; þið konurnar kunnið svo miklu betur að vekja samtalið en við."

"Þá er ég undantekning. Þú veist að ég er oftast þögul."

Við töluðum þó margt saman -, um fyrstu óljósu draumana, þegar vissan vaknaði, um misskilning, efa og harm; trega skilnaðarins og langstæðan söknuð. Hestarnir stigu hratt; á tveim stöðum hleypti Ástríður á sprett, eftir þann síðari sagði hún og brosti við:

"Mér þótti sannarlega vænt um Hamskarp og þó enn vænna um Brokk; hann er sá skínandi gripur."

"Síðan hann synti Kaldá?"

"Já -. Ó, hvað ég var hrædd þá og himinglöð þegar hann braust vestur úr straumhryggnum."

"Ég sá það þegar ég kom á land. Það var ein skammvinna vissustundin mín. Ég ann þessum hesti, okkur ætti ekki annað að skilja en dauðinn. Sá skjótti þinn er lintækur, honum tryði ég ekki til harðfaranna. Þú ættir að hafa betri reiðskjóta."

"Ég vildi það fegin - en ég fer lítið og vil ekki gera neinar óhófs kröfur. Hann er enginn hestamaður -- og efnin ganga saman. Eyðslan eystra sneiðir ekki hjá Hvoli."

"Mig grunaði það, seljið þið jörðina. Ég byggi ekki Haga nema til árs; hann bíður þess að þið flytjið þangað. Óttastu mig ekki, ég skal reyna að bera mig þolinmóðlega þó þú komir í nágrennið."

"Ég vona það um okkur bæði, og þó fylgir því áhætta - tækifærin, orðasveimurinn, lygar og last. Ég vil ekki svíkja manninn minn meir en orðið er; með því að geta aldrei gleymt þér og aldrei elskað hann eins og átti að vera. Sannleikurinn er sá - ég þrái sveitina okkar og návistirnar... en ég læt hann ráða um bólstaðina... ég er of veik fyrir, ég átti að þegja og dylja þennan sannleikann."

"Þú getur ekki varnað hug mínum að fylgja þér í blíðu og stríðu og ekki gramist fyrir það."

"Nei, ég get það ekki... Ég var heimsk og skammsýn að gifta mig eins og mér var innanbrjósts. Nú er mér ljós ósigurinn; það er langt síðan - þó sá ég það of seint. Ég veit líka að hann finnur blíðuskortinn, að hann vantar ylinn sem vermir óbeðið, ósjálfrátt og brosandi."

"Það er þungur harmur kveðinn að okkur. Þessi sárin gróa varla. Ekki er það eingöngu eigingirni og hverflyndiseðli mitt, sem þessu veldur. Góða, fyrirgefðu mér - þér vildi ég aldrei til ógæfu verða."

"Hermundur! Þú veist um hug minn; vertu þér ekki þyngri dómari en ég mun reynast. Mundu loforð þitt áðan. Ég treysti drenglyndi þínu. Kærasti vinur minn; þín kvöl er mín kvöl, þitt angur mitt angur. Guð styrki þig og styðji."

Ég fylgdi henni langan veg; norður að Vegásnum - þar norðan við koma saman kaupstaðarvegir Tungumanna og okkar Laugardælanna; þar stigum við af baki; hún sat á grasgrónum götubakka meðan ég hafði söðlaskiptin og sneri sér undan, ég vissi að hún grét og fór tómlega að verkinu, ég vildi að henni gæfist ró til þess að sefa sorgina áður en við kveddumst. Það var þögn, sólin seig að sævi; vorkvöldið fagurt og friðsælt hvíldi líkt og helg náð yfir jörðinni. Ég gekk til hennar, kraup á kné, tók báðar hendurnar og sagði:

"Ástríður; þú ert sú eina kona sem ég hef kropið auðmjúkur og biðjandi fyrir... nú verðum við að skilja... Líði þér eins og ég ann þér - eins og ég best get beðið."

Hún reis á fætur og horfði á mig gegnum tárin; ég leiddi hana til hestsins og studdi hana á bak.

"Mér er skapléttara nú; blessuð nóttin björt og kyrr gefur mér ró og frið... að mér gengur varla meira en vant er. Guð blessi þig, elsku vinur."

Hún kyssti mig og reið norður götuna.

*

Meðan ég hafði getgátur, hvikulan grun og reikula vissu um ást hennar blæddi sárið ekki jafnt og stöðugt; það gat ekki gróið en ég gat þó talist fær maður og hlutgengur til lífsstarfsins fyrir því. Nú finn ég að mér blæðir til banans. Ég verð ekki rótt og sljótt gamalmenni - sjálfsbani verð ég heldur ekki, það er fjarri eðli mínu, fjarri gefnu loforði og skyldu. Dagsönn vissan um harm hennar eykur kvöl mína. Við höfðum bæði misskilið lífsstefnuna en mín misstig eru stærri og þyngri; ég átti þó að hafa meiri reynslu, betri sjón og tamdara þrek. Því þagði ég forðum? Því sór ég eiðinn? Af því ég þekkti ekki aflið sem ég átti að berjast við, ekki minn eigin veikleik og ekki hægfara, staðföstu, djúpu ástarþrána sem hafði í æsku hennar hneigst til mín; sterkari af því hana hafði vantað móðurástina í bernsku og svo lítið notið foreldrablíðunnar á uppvaxtarárunum. Ástríður hefur þá kosti sem gera hjónasambúðina farsæla og glaða, hún þurfti aðeins að elska bónda sinn; með henni hefði ég búið betri, ánægðari og nýtari maður þótt efnin hefðu verið miklu minni. Ég þarfnast oftar en ætlað er mildi og blíðu. Ef umburðarlyndi og sáttfýsi geta ekki leitt mig til hins betra þá er lögmáls fastnæmið langt frá því. Það, sem vekur þverúðina og kaldglettuna.

Hér hafði ég miklu fórnað á altari vanans. Arftaka fornra arftekta og siðalærdómur afa og langafa villtu mig vegarins. Almenningsálitið hefur beygt mig. Það -- það sem er þó svo voða hvikult, rannsóknarsnautt, kaldbrjósta og skammsýnt.

Mér eru ef til vill makleg örkumbl og sár en hún hefur ekki verðskuldað pínu og harm.

*

Nú eru þau Helgi og Ástríður flutt að Haga. Sveitarsiðir þeirra Tungumanna höfðu höggvið skarð í efnin; hann er starfsmaður en sjálfstæðið skortir að því skapi. Ástríður er sparsöm, þrifin og hyggin húsmóðir. Það hefur verið þungt fyrir hana að sjá allt færast saman og ganga til þurrðar, aðeins sökum heimskulegs og henni ógeðfellds eyðsluvana; fyrir glaum og fánýtar nautnir. Þau eiga ekki nema þennan eina dreng og unna honum bæði. Sambúðin er friðsöm og deilur varla neinar. Ástríður kann að stjórna skapi sínu og bera harm sinn í hljóði og Helgi kann að meta prúðlyndið og umhyggju hennar. Ég hef ekki séð Ástríði nema tvisvar síðan við skildum við Vegásinn í fyrra sumar og ekki talað við hana nema örfá orð. Hún ber harm sinn í hljóði eins og ég; ber hann með meiri stilling og prýði. Við óttumst bæði einmælið og þorum varla að treysta styrkleikanum svo, sem við viljum hann sé og verði.

Finnur gamli hefur þessi síðustu ár verið heimilismaður hér á Skarði. Þorgerði líkaði illa það ráð mitt, en hann er svo viðskiptisprúður og góðlyndur að það hefur farið vingjarnlega og vel milli þeirra. Nú drekkur hann örsjaldan og fer lítið af heimili. Þó grunar mig, að hann hafi ráðið Helga til bústaðaskiptanna þegar hann fór austur yfir í fyrra haust. Finnur þrætir þess við mig; hann veit meira um hagi mína en hann hefur orð á; ég finn það þó að við ræðum aldrei um þetta atriði. Haga byggingin hefur orðið Þorgerði öruggt vopn til þess að gremja skap mitt. Ég fór mínu fram, skattyrðist ekki um það; hún segir sumt satt; heiftarorð og öfgar þær sem fylgja, verð ég að reyna að bera eins og karlmanni sæmir.

Og Hjörleifur fylgir móður sinni. Bíddu við, sonur minn, þangað til körin eða gröfin taka við mér. Fyrri sel ég þér ekki ráðin í hendur svona óskorað og öll.

*

Ég hef staðið yfir moldum Finns í dag og með kvöldinu gert mér erindi norður að Blágili. Mér er harmur að burtför hans; hann kunni manna best lag á því að spjalla við mig, létta skapið og gera mér til geðs. Almannarómurinn kallaði hann auðnuleysingja og drykkjurút. Mín reynd var sú, að hann væri góðmenni og margt vel gefið, fáorður og sannorður. Ég minnist þín ætíð með viðkvæmu geði, breyski og ljúflyndi bróðir.

Það voru ekki margir sem táruðust við gröfina hans; engir náfrændur því hann var úr öðrum landsfjórðungi og hafði ekki bundið vináttu við marga þau árin sem hann dvaldi hér og hvar norðanlands. Það gerði ég ekki heldur þótt ég tregi hann, gamla góðkunningjann minn. Ég hef sterkan grun um það að ég muni áður langt um líður ganga til hinstu hvílu við hlið hans. Ástríður gat ekki tára bundist og ég veit hvers vegna tárin hennar streyma; hún grætur sorgarævi hans og harmar ógæfu mannanna, sitt og mitt böl. Tárin eru auðsjáanlega fylgisöm henni og þau tár brenna á samvisku minni; ég er frumkvöðull þeirra. Ég hef ekki verið gæfumaður þótt ýmislegt hafi látið mér vel í heimsins augum.

Nú vil ég þó lifa. Hugurinn er bundinn fastar við börnin en móðurina eða þau sjálf grunar, sérstaklega við Geirdísi, sem er blíðlynd og ekki hraustbyggð né hörð í skapi. Ástríði yrði lífsleiðin örðug ef dauðinn tæki mig. Það yrði þyngsti harmurinn fyrir bæði, ég veit það. Sá aðskilnaðurinn svíður sárast þó að honum þoki og ekki dugi að bera sig vesallega fyrir augum fjölmennisins.

Heilsubrestur minn verður æ ljósari, mig órar fyrir snöggum umskiptum. Bráðdauða. Ég þarf að forðast að sofa á vinstri hliðinni. Eða er það sjúkt ímyndunarafl? Getur verið - en það vinnur líka og það meira en margur hyggur.

Meðan ég fæ haldið í hönkina móti dauðanum þá geri ég það svo sem megnið vinnst til.

Þegar ég kvaddi Ástríði í dag, sagði hún: "Hann bróðir okkar þarna austur í garðshorninu var meiri einstæðingur en við, og þó var hann oftast glaður og spaugsamur." Við stóðum norðvestan við kirkjugarðinn, ég hélt í hægri höndina og með hinni benti hún á moldarkumblið rétt innan við.

Svo fór ég - þá kom ég engu orði fram af vörunum.

*

Hún hefur lesið blöðin þau arna - þau voru hjá henni um tíma í haust; ég bað um nokkur orð með þeim aftur; það er ekki langt mál sem hún skrifar en þau mýktu ótrúlega sárin sem rifna upp nú með haustnóttunum.

Ég bæti því við brotin mín, sem nú fer bráðum að lykta.

"Besti og kærasti vinur minn!

Ég hef lesið söguágripið þitt og hef grátið yfir því eins og þú munt sjá merki eftir. Ég veit að þú hefur hrasað - eru ekki allir því undirorpnir? En þú gerir of mikið úr því; treystir of lítið þínu betra eðli, sem ég hef svo oft tekið eftir og glaðst yfir. Þú varst mér, einstæða barninu, blíður og innilegur; þær minningar eru sólskinsblettir bernskuára minna. Og þú hefur gert svo margt, sem hefur borið vott um drengskap og manndáð - ég hef tekið eftir því og glaðst yfir því. Ást okkar verður að takmarkast innan vébanda vináttunnar - það samir báðum best og þess óskum við bæði. Þú gerir mig betri en ég er í raun og veru og fullkomnari; sjálfum þér ertu þyngri dómari - of þungur, það segi ég þér satt.

Aldursmunurinn var enginn í mínum augum; tilfinningar mínar heftust ekki hans vegna, nema að því leyti sem þú varst maður fóstru minnar og fóstri minn; það sverðið hékk í hári yfir höfði mínu, af því stóð mér beygur. Ég hefði gengið sporin með þér forðum ef þess hefði verið beðið, en ég duldi samt, eins og ég gat hvað mér bjó í brjósti. Tölum ekki meira um það. Ég hef haft einlægan vilja til þess, að vera þeim manni góð eiginkona sem ég giftist af frjálsum huga - raunar var hann það ekki, því ég var sjálf svo blind að leita mér fróunar við hlið þess manns sem unni mér og engir meinbugir lágu á. Á þeim dögum var ég þér hrygg og gröm; mér var varla sjálfrátt þegar ég lofaðist Helga. Skömmu síðar opnuðust augu mín en ég vildi ekki bregða heiti mínu, ég treysti um of á þolinmæði mína og sigursælan vilja. Ég hef beðið ósigur, æskudraumurinn gat ekki gleymst; vináttu og umönnun megnaði ég að veita föður drengsins míns, ástina ekki. Ástaratlot hans lúðu mig og þjáðu. Guð fyrirgefi mér þá yfirsjón að giftast með svona hugarfari; þann breyskleik að elska þig ávallt, vonlaust og í meinum. Ég átti engum að gefa hönd og hjarta, því þú áttir hvort tveggja, það sá ég ekki eins vel í æsku og nú; reynslan kennir. Þér ann ég meðan ég lifi, en ég vil ekki svíkja öll loforð og með engu spilla göfginu, sem draumar mínir hafa svo lengi sveimað kringum. Andleg verður ást okkar að vera, haustmyrkur munaðarins má ekki drepa þann drauminn minn. Þetta er kannski dagdrauma sérviska mín en hún er mér dýrmæt þó að svo sé. Sé líf eftir þetta líf, sem ég vona að sé; þá erum við bæði frjáls, laus við synd og sekt. Þar þrái ég að halla höfðinu að hjarta þínu; fyrir handan gröf og dauða er ég Ástríður þín og einskis annars. Lífið og mistökin eru erfið fyrir okkur, en skammt er eftir, elsku vinur. Á lífsins landi bægja ekki mistökin, skammsýnin og þrekleysið okkur frá sambúð og ást. Þar en ekki hér megum við njótast; þar verðum við göfugri og sælli, laus við jarðneskar ástríður.

Trúðu mér, hjartans vinur, eins og ég trúi þér og treysti. Það birtir hvert él um síðir; mannlífið er strítt en það er ekki langt, "nú er meir en hálfsótt haf" fyrir okkur. Guð sendi þér líkn og fró, hjartans vinur minn."

*

Svona eru nú atriðin úr hjónabandssögunni minni.

Ég náði ekki takmarki farsællegs hjúskapar; mig skorti gæfuna, geðlempnina og rólyndið til þess að búa með konunni, sem ég hafði gifst ungur og einfaldur. Það eru margir sem villast á tilfinningum sínum; það er annað að "vera skotinn" eður, að elska af öllu hjarta; fyrir þá villuna hefur margur átt um sárt að binda, margur, bæði karl og kona, farið meir eftir lygum skáldanna og ástargyllingum en sönnum dæmum og raungæfri lífsþekkingu. Síðar brast mig þrekið; ég var háðari venjum og lífsstefnunni gömlu en ég vissi sjálfur. Angur og döpur lund hafa fylgt mér langan tíma. Ég felli strangasta dóminn á sjálfan mig. Þorgerður hefur haft ógæfu af samvistunum við jafn óskaplíkan mann og ég var.

Mér fer líkt og Ástríði. Vonarneisti jarðneskrar sælu býr um sig á landinu fyrir handan hafið mikla. Eigi ég nokkra ódauðlega önd þá bíð ég þín í lundinum á Ódáinsakri, þar er okkur leyft að unnast, Ástríður. Munurinn er aðeins sá, að hún hefur örugga von, ég fróandi en hvikandi draumsjónir. Hvorugt okkur hefur náð takmarkinu og ánægju hjónabandsins, báðum er það ljóst; okkur kemur ekki til hugar að ljúga því að okkur, að við höfum sigrast í þeirri fjallgöngunni. Orðasveimurinn er kominn á flakk, hann verður varla mjúkur dómur almennings er hann sér þetta ágrip, hvað þá, ef fólkið getur sótt málið eftir eigin geðþótta, borið vætti og dæmt síðan.

Það skal ekki verða að ég krjúpi um lyng fyrir mönnunum samt - en hún hefur ekki unnið til þess ranglætis, sem vænta má af því þingi.

Þrátt fyrir allt og hvað sem sagt verður fyrr eður síðar, þá er ást okkar sú innilegasta og dýpsta sem við höfum reynt um ævina - ósaurguð -. Ég get óhikað gert sömu skýrslu og Guðrún Gjúkadóttir fyrir Þiðrik konung, eður Indriði fyrir Sigríði Erlingsdóttur.

Hvað þá hún.

Meðan svo er, stend ég ekki bleikur frammi fyrir fjöldanum, hvorki fyrir hennar né mína hönd. Mér hefur oftlega yfirsést; ég hef brugðist vonum og kröfum konunnar minnar svo lánlaust og illt sem það er. Ástríði varð gæfufátt þegar hún giftist Helga, þeir sem eru sjálfir hreinni en hún kasti fyrsta steininum.

Enginn ræður þeim forlögum, sem fæðing, uppeldi, atvik og tími skapa mönnunum. Okkar forlög voru þau að unnast, geta ekki gleymt og ekki dulist atlota né orða þeirra, sem heitasta vinátta og atvik knúðu til.

Innan vébanda þeirra, sem siðameistarar, klerkar og kristin kirkja hafa haslað réttlátu og hreinu líferni hjúskaparins, eru svo mörg dæmin dekkri, og þó hlutlaus látin, saurugri, og þó samþykkt. Hreinsið Agíasarfjósið og minnist þess sem Kristur kenndi. Til dóms hans, meistarans mikla, skýt ég máli mínu og hennar, undir úrskurð sannra sporgöngumanna hans.

Ann ekki öðrum þess og viðurkenni aldrei annan dómstól né aðra dómendur.

*

Mér blandast ekki hugur um hvað gera skal. Ég sit við sjúkrabeðinn hennar meðan þess þarf. Enginn aftrar mér frá því nema dauðinn. Veikin er þung. Það er kvöl að horfa á hana þjást svona. Það er tvennt, sem angrar mig: óttinn um líf hennar og líkindin, að ég hafi ekki heilsu til þess að hjúkra henni. Hann gerir ekki boð á undan sér dauðinn þegar ég á að ráðast til ferðar með honum.

Viljinn megnar meir en ég ætlaði, en það sverfur fast að kröftunum. Mér er sama um dóma manna. Nú er enginn tími til skrifta og kvartana.

Hún er önduð og ég lifi. Eftir að hafa drukkið þennan sorgarbikar er þögnin ein viðeigandi. Rafn! Láttu eftir barnaskap mínum, láttu mig hvíla hjá henni. Ég grét, barnið, yfir Hjálmari og Ingibjörgu; nú er ég orðinn barn aftur. Mig bindur ekkert við lífið nema Geirdís og umhugsunin um hann Gest.

Fái ég frestinn svo langan, að ég geti fylgt henni til grafar, séð þig og talað það sem ég þarf við Geirdísi; þá hef ég lifað nógu lengi.

Ég hef verið hrösull og þó harmar þú mig, og hún, vesalings barnið. Jón "flak" harmaði enginn maður. "Læjandi skal ek deyja".


VIÐBÆTIR RAFNS

Ég sendi þér ágrip raunasögu Hermundar, góðvinur minn.

Þú þekkir ekki mennina, sem þar er sagt frá en þú kannast við örlögin, ástríðurnar og ættarbragðið. Þú kastar ekki grjóti að gröf þeirra Hermundar og Ástríðar fremur en ég, þótt hvorugur sé kristinn kallaður, og við vitum best báðir, hvað mikið okkur skortir til þess, að vera sannir sporgöngumenn Krists.

Ég fæ ekki betur séð en söguágripið mætti birtast almenningi; sé nöfnunum breytt verður trauðla getið rétt til um hjónin á Skarði né Haga, og þá ætti fólkið að þola efnið, úr því það þolir og þrífst fyrir sínum og annarra dæmum.

Og þoli mennirnir ekki söguna fyrir það, að hún fjallar um ást, sem óleyfileg er kölluð, þá geta þeir þess innilegar þakkað forsjóninni fyrir sinn hreinleik, og siðferðisþrótt. Það slítur þeim ekki mikið að segja: "fussum fei."

Þú hefðir átt að sjá þau á blómaárum sínum Hermund og Ástríði; bæði voru sjáleg; hann maður vasklegur og vel á sig kominn, og hún kvenleg og prúð. Það var ekki nein furða þótt hugir þeirra hneigðust saman. Hermundur var oftast vel stilltur; hitt var satt, að hann var geðríkur, skapið stolt og viðkvæmt; ástríðurnar þungar á riðunum þar sem þær náðu fastatökum.

Eflaust var honum ljóst um heilsubrest sinn, vissi að hjartað var bilað. Mér var kunnugt um það, að hann var meir en lítið lasinn sumarið eftir að hann reið Kaldá, læknirinn taldi það þá brjósthimnubólgu og réð til hóglífis, en Hermundur treysti hörku og hreysti sinni; hann þoldi verst iðjuleysi og rúmmeltu, einkum eftir það, að reynslur og áhyggjur lögðust á skaplyndi hans. Hann bjóst við skyndilegum dauða, það hafði ég skilið á honum þótt ekki hefði hann orð á því við aðra. Hitt grunaði hann varla að Ástríður yrði svo skammlíf sem raunin varð á.

Einhver umrenningur flutti taugaveiki að Haga öndverðan veturinn. Fyrst lagðist Helgi og svo Gestur litli, síðast Ástríður; vökur og þreyta veittu lið til þess, að hún veiktist þyngst þeirra. Unglingspiltur sá um hirðing gangandi fjár og vinnukonan komst ekki yfir að vinna bæjarstörfin og þjóna þremur sjúklingum.

Þeir í Laugardalnum voru menn gætnir og varfærnir gegn veikindum. Mislingarnir höfðu brennt þeim þá díla, sem þeir mundu eftir; nágrannarnir vissu vel að hjálpa þurfti til þess að hjúkra sjúklingunum en þeir hugsuðu svo: það á Björn bróðir að gera frekar en ég. Hermundur var sá sem ekki mat muninn; hann vissi um tilgátur manna og fór þrátt fyrir kaldyrði þeirra mæðginanna; hvert það verk sem hann tók að sér leysti hann ætíð vel og liðmannlega af höndum, en sjúkrahlynnir var hann þó ekki að eðlisfari.

Vinnukonan var jafnframt vinkona Ástríðar, ung að aldri - og hafði Ástríður tekið hana úr fátækt þrettán vetra og haldið hana síðan eins og hún væri barn hennar, það var réttorð stúlka, fáorð og athugul; hún sagði mér síðan frá því hvað Hermundur hefði verið viðmótsgóður og gjörhugall, hve vel hann sá um alla sjúklingana og ráðfærði sig ítarlega við lækninn, þegar hann kom, um hirðingu og sóttvarnir. "Aldrei hefði ég trúað því að hann hefði jafn þýðan róm og þegar hann talaði til sjúklinganna, sama var nú raunar með okkur hin líka. Feðgarnir lágu í norðurhúsinu en Ástríður var flutt í suðurhúsið. Þau Helgi og Ástríður höfðu lengst af óráð, Gestur var vægast haldinn; af þeim feðgum létti fyrr sóttæsingunni, þeir lágu í dvalamóki sem varla varð vart við að hugsaði um neitt. Þótt Ástríður þekkti hvorki mig né piltinn þá þekkti hún ævinlega Hermund, það var auðséð á öllu, að hún taldi hann sjálfsagðan við veikindabeðinn sinn.

Eftir tólf daga legu fékk hún fulla meðvitund einn morgun. Þann dag hirti ég um feðgana að mestu, Hermundur vék lítið frá rekkjunni hennar; þau töluðust hljótt saman þann dag, mér virtust batamerkin sjást, en þetta kvöld andaðist hún. Ég hef aldrei séð jafn fölan mann á ferli og Hermundur var þá; nóttina eftir vitjaði hann oft um feðgana, að öðru leyti var hann þarna hjá henni andaðri. Augu mín opnuðust og ég grét þá nóttina, það voru sorgartár og saknaðar, engin beiskja né gremja. Yfir minningu hennar og hans hvílir enginn skuggi í huga mínum.

Daginn eftir var lík hennar borið fram í stofu; Hermundur veitti sjálfur allan umbúnað; hagræddi feðgunum og dvaldi tvo daga ennþá, nú var batinn augljós, svo fór hann heim, en kom síðan á hverjum degi, hlynnti að sjúklingunum og sagði fyrir verkum. Hann tjáði þeim frá andláti hennar, huggaði þá og hughreysti, sem var léttara af því báðir voru óvenju dofnir eftir veikindin og Gestur hafði þessa góðu gjöf æskunnar að geta grátið og huggast. Í stofunni dvaldi hann ætíð um stund, ég vissi að þessi maður sem gekk beinn og ólotinn og hughreysti aðra, hann hafði þó þyngstu sorgina að bera, þann harm, sem enginn maður mátti snerta við til að mýkja eða sefa."

Tárin stóðu í augum hennar, vinnukonunnar, þegar hún sagði mér þetta að hálfu öðru ári liðnu.

Hermundur sendi einn vinnumann sinn gagngert með bréf til mín og bað mig að vera við jarðarför Ástríðar.

Frá Skarði var séð um jarðarförina, í raun og sannleika gerðu þau það, Hermundur og Geirdís. Þorgerður hélt löngum við rúmið; heilsa hennar var tæp orðin á elliárunum og Hjörleifur kom þar hvergi nærri.

Veikin breiddist ekki út; Hermundur hafði ekki kvellisjúkur verið; sofið fram í stofu á Skarði og sótthreinsað sig vandlega. Hvorugur feðganna frá Haga hafði heilsu til þess að vera við jarðarförina. Helgi var ennþá dofinn og sljór eins og þeirri veiki fylgir með marga.

Jarðarfarardagurinn var bjartur og kyrr þorradagur, færi gott og fjölmennt þá í Hofgarðakirkju. Líkræðan fékk almennings álit, þó að mér geðjaðist sumt miðlungi vel; og ég vissi það einnig um Hermund; ræðan var til kirkjunnar barna töluð. Hermundur var rór að sjá, en ég, sem þekkti hann svo vel, vissi að í dag fylgdi hann til grafar þeim er ást hans var bundin heitast og viðkvæmast við.

Ég gisti á Skarði og svaf í húsinu hjá Hermundi - það kvöld flutti hann sig aftur inn þangað -; Geirdís gekk um beina, Þorgerður hafði ekki klæðst þennan dag, lasleikinn gerði svip hennar mildari og ég hafði ekki fyrr séð bregða fyrir jafn mjúklegu yfirbragði á fyrirkonulega, svipmikla andlitinu hennar. Hjörleifur fór þennan sama morgun að heiman til Fjarðar, hann ætlaði að sigla með milliferðaskipi síldveiðimanna meðal Noregs og Fjarðarins; kynna sér háttu manna og vera kannski í búnaðarskóla þar.

Hermundur talaði litla stund við konu sína áður en við gengum til rekkna og svo mun lengur við Geirdísi í húsinu sínu. Hún hafði fellt tár við þá samræðu, þessi fagra og mildilega dóttir, - eftirlætið hans hin síðari árin -.

Þegar við komum inn í húsið, lauk hann upp einni skrifborðsskúffunni, tók úr henni innsiglaða bók þunna og rétti mér, meðan ég las utanáskriftina til mín hafði hann sett konjakksflösku og tvö staup á borðið, og hellti á þau þótt höndin riðaði óvenju mikið. "Góði geymdu lestur skræðunnar þeirrar arna í kvöld, og helst lengur. Þú lifir mig - mér væri kærast, að það biði þangað til ég er allur. Skál, vinur minn, og þakka þér fyrir trygga og einlæga vináttu, þá vináttu, sem mér hefur svo sjaldan auðnast að ná og njóta. Leiðbeindu henni Geirdísi minni ef hún stendur foreldralaus uppi - hún er góð, en helst til viðkvæm eins og lífið lætur mönnum. Hjörleifur er öflugur og sér um sig og móðurina; hann er ókvalráður að nota sér jörðina og réttur að búa hérna í dalnum ---. Og honum Gesti litla líka, ef unnt er - hann er þó sonur hennar og hún bað mig fyrir hann... Þú hefur séð rétt, vinur minn, ég unni henni og hún mér... ég stend ekki bleikur þótt ég segi þér það, þú færð hvort sem er að vita það seinna. Skeð getur að ég lifi mörg ár ennþá og þá vasast ég í því sjálfur;" hann reyndi að brosa en það kom engin broshýra á föla andlitið, sem nú var svo þreytulegt og torkennilegt.

Við drukkum úr staupunum og hann hellti á þau aftur.

"Gerðu nú eitt, vinur, farðu með mér á morgun; léttu þér upp, þú þarft þess. Daladrunginn leggst æði þungt á þig eftir alla þessa áreynslu."

"Það er ekki svo fjarri - verði ég frískari, ég er þreyttur og lasinn núna. Undanfarinn tími hefur tekið meira á mig en ég vil viðurkenna fyrir öðrum úti í frá, nú finnst mér starfinu lokið og mig langar til að hvílast. Hérna í legubekknum er þér ætlað að sofa og þarna er flaskan og skemmtileg bók ef þú getur ekki fest svefninn. Ég get varla haldið mér uppi. Á morgun skulum við spjalla margt saman, vinur minn; hafðu þökk fyrir allt." Hann rétti mér höndina og hélt lengi og þétt í hana; mér var brísheitt en honum var óvenju kalt svo handheitum manni.

"Góða nótt," sagði hann svo, nokkuð skjálfraddaðri en vant var.

"Góða nótt, góða fró, Hermundur minn," sagði ég og fór að afklæðast.

Við gengum báðir til hvílu, Hermundur sneri sér að þili og mér virtist hann sofna bráðlega. Ég var svefnþurfi og slökkti því ljósið bráðlega. Oftast er ég svefnþungur og svo var nú, ég svaf í dúrnum fram að dagrenningu; þá glaðvaknaði ég, ræskti mig og þreifaði eftir flöskunni; mig undraði, að ekki bærði á Hermundi, sem var þó svo árrisull maður, ég hlýddi til og heyrði engan andardrátt; þá var ég ekki lengi að kveikja og ganga yfir að rúminu hans. Hann sneri sér að þilinu og lá á vinstri hlið eins og í gærkvöld... Hermundur var andaður.

Ég lagði hann á bakið og lokaði augunum, skýrlegu gráu augunum hans, sem mér höfðu aldrei sýnst kaldleg; nú voru þau brostin. Svo strauk ég hárið frá enninu og virti fyrir mér andlitið. Friður liðins manns hvíldi yfir því. Hárið var orðið silfurgrátt fyrir hærum; þykkt ennþá og hrökk í liði; ennið slétt og fallegt; meira nú síðan hann varð vikóttur nokkuð; skeggið var lítið eitt hæruskotið, það huldi og mýkti þá drætti, sem lífsskeiðið hafði markað heldur harðlega.

Það logaði vel á lampanum. Ég sat á stóli við rúmið og virti hann fyrir mér um hríð; tárin hrundu niður kinnarnar - ég duldi þau ekki þarna einn við banabeðinn hans. Þegar ég reis upp laut ég að honum og sagði með sjálfum mér: Þrátt fyrir allt, varstu þó miklu meir góður en slæmur; mér falslaus og einlægur vinur. Verði þér hvíldin vær, kæri félagi minn. Svo kyssti ég köldu varirnar löngum skilnaðarkossi.

Fólkið fór að klæða sig. Ég hlaut að flytja sorgarfregnina. Þorgerður grét mikið þennan dag. Dómur um hinn liðna mun hafa mýkst og orðið viðkvæmari þar sem hún renndi huganum yfir lífsleið þeirra í þögn og ró. Geirdís sneri sér til mín eins og fóstra eða föður; hún bar vel harm sinn en hún gleymir honum seint; þannig mun skapi hennar farið.

Læknirinn staðfesti vissu mína um það, að Hermundur væri örendur. "Hjartað hefur hætt að starfa. Ég skoðaði hann fyrir rúmu ári síðan og við vissum báðir að sá var endirinn líklegastur," sagði hann.

Heimkoma mín frestaðist - drengirnir sjá svo sem um búið -, hér hef ég nóg að starfa, styrkja syrgjandi dóttur og þungbúna konu; búa undir greftrunina.

Með lagi og þoli kom ég minni tillögu fram þó Þorgerði væri það í fyrstu um geð, og margt verði ef til vill um hana sagt. Geirdís, það námennið, sem honum var hjartfólgnast, varð mér fljótt sammála. Hún hefur minni hleypidóma en títt er um kvenfólk og hún mun hafa farið nærri um hvar skórinn hafi skorpnað fastast að fæti föðurins.

Í kirkjugarðinum á Hofgörðum er steinsteypuhella mikil í norðvesturhorninu og annað ekki. Þar undir er nyrst kista Finns, þá Ástríðar og syðst þín, vinur minn.

Ykkar gröf er ein. Nú hvílið þið saman.

Guð alnáttúrunnar veitir öllum friðinn um síðir.

Sofið rótt.




Netútgáfan - janúar 2000