SÖNGVA - BORGA


SAGA  FRÁ  FYRRI  HLUTA  16.  ALDAR

eftir Jón Trausta





1. kafli

Gleðskapur var á Geitaskarði. Þeir, sem ætluðu burt úr sýslunni til sjóróðra á vetrarvertíðinni, komu þar saman til að létta sér upp og kveðja kunningjana. Það var löng ferð og ill um hávetur suður á Suðurnes eða vestur undir Jökul, og fyrst er þangað var komið, byrjaði sjósóknin á harðasta og veðrasamasta tíma ársins. Búast mátti við, að ekki kæmu allir heim aftur.

Geitaskarð hafði verið valið til gleðskaparins, því að hvergi var stórhýstara og hvergi áttu jafnmargir heima af þeim, sem nú voru að kveðja. - Þar var gamall veisluskáli, dálítið afskekktur frá öðrum bæjarhúsum, en þó áfastur við þau. Fornlegur var hann og að falli kominn, en með mörgum skotum og lokrekkjum og því prýðilega fyrir vikivaka fallinn. Af heimafólki var hann lítið notaður og því gjarnan lánaður fyrir gleðskap af þessu tagi.

Þeir, sem að voru komnir, höfðu flutt með sér bæði vínföng og matföng, og húsfreyjan á Geitaskarði hafði lagt sínum mönnum nóg til af slíku, svo að ekki skorti veislukostinn. Ekki mátti minna vera en menn fengju að gera sér einn dag glaðan, áður en þeir legðu út í slíkar svaðilfarir. Ekki skorti heldur kvenfólk til mannfagnaðar, því að margar vinnukonur í sýslunni höfðu vistráðið sig með því skilyrði, að þær fengju að sækja þessa hátíð. Og það höfðu þær líka fengið.

Gleðskapurinn hafði byrjað kvöldið áður, og um nóttina hafði enginn maður lagst til svefns. Nú var dagur kominn að kvöldi, og vildi enginn maður kannast við, að á honum sæi þreytu. Allan þennan tíma hafði skálinn skolfið af háreysti og fótataki. Allan tímann hafði verið dansað og sungið, stokkið og glímt og stundum tekið saman í hálfkæringi; etið og drukkið og klappað dátt og kysstst fast, eins og til að krydda veislukætina. - Aldrei hafði orðið augnablikshlé á gleðskapnum. Fram að þessu hafði háreystin og fjörið haldið hámarki sínu. Það eitt bar vott um bilun, að nú var farið að verða erfitt að fá nokkurn mann til að syngja fyrir. Allir voru orðnir rámir.

Þegar skyggja fór um kvöldið, sást kvenmaður koma gangandi utan eftir dalnum. Þegar hún kom heim undir bæinn, breytti hún stefnunni, gekk ofan á bakkana við Blöndu og ætlaði fram hjá bænum.

"Söngva-Borga!" var kallað inn í skálann. - "Söngva-Borga er að fara hérna fram hjá."

Hringdansinn hætti á svipstundu, hönd sleppti hendi, allir ruddust til dyranna og kölluðu hver í kapp við annan:

"Blessaðir, náið þið í hana!"

"Borga, Borga!" var kallað af hlaðinu. Margir kölluðu í einu. Kvenmaðurinn niðri á Blöndubökkum nam staðar sem snöggvast og hélt síðan áfram.

"Hún fæst aldrei til að koma hingað heim," mælti einhver ofurlágt. Samt heyrðist það og barst um allan hópinn.

"Ó, hún syngur svo yndislega!" andvörpuðu stúlkurnar hver í kapp við aðra. Karlmennirnir mótmæltu því ekki. En hvernig átti að fara að því að fá Borgu til að koma heim?

Í þessu vandamáli var skotið á ráðstefnu í skyndi úti fyrir opnum dansskálanum, og tveir ungir piltar valdir úr hópnum til að tala máli veislufólksins við Borgu. Öllum kom saman um, að ef hún ynnist ekki á þennan hátt, yrðu menn að verða af söngvum hennar að þessu sinni. Vonlaust var engan veginn um sigurinn, því að Borga var þekkt að því að hafa mætur á ungum og blómlegum piltum.

Piltarnir hlupu allt hvað fætur toguðu ofan frá bænum til að ná tali af Borgu. En söfnuðurinn beið heima með öndina í hálsinum af eftirvæntingu eftir að sjá, hvernig þeim gengi.

- Kvenmaðurinn, sem piltarnir voru að elta, var undarleg að fleiru en einu leyti og öðru vísi en fólk var flest. Hún var undarlega búin, fátækleg, en þó ekki beinlínis illa til fara. Það, sem mest bar á, voru litirnir á fötum hennar. Þeir voru sterkir og skerandi og stungu undarlega í stúf hver við annan. Rauðgult og dökkblátt virtust vera uppáhaldslitir hennar, og þar næst allt, sem var röndótt og rósótt, og þessu var dúðað utan á hana af svo lítilli smekkvísi og þó jafnframt til svolítils skjóls, að varla líktist fullkomlega heilvita manneskju. Höfuðið stóð eins og hnappur upp úr rauðgulum ullarklút, sem vöðlað var um hálsinn, en sjálft var höfuðið bert. Dökkblá þríhyrna huldi bæði herðarnar og brjóstið, en ermarnar, sem út undan henni stóðu, voru með svörtum og rauðum röndum. Framan við ermarnar voru stórir belgvettlingar með alla vega litum rósum. Pilsið var dökkblátt, eins og hyrnan, en svuntan röndótt. Var pilsið stytt með rósaofnum linda, svo að ekki drægist það um of í snjónum. Fótabúnaðurinn sýndi, að þessi manneskja var gönguförum vön, hvernig sem viðraði og hvernig sem færðin var.

Sjálf var Borga minni vexti en meðalkvenmaður, en þéttvaxin og skarpleg og bar sig vel á velli. Andlitið og augun einkenndu hana mest. Hún var mögur í andliti og útitekin eins og beitarhúsamaður, og þó að hún væri ekki gömul, hafði andlitið tapað allri æskufegurð, var orðið jafnlitt og talsvert hrukkótt. Smáfríð hafði hún verið í æsku, og bar andlitið enn þess skýran vott, því að nef og munnur og enni var fagurskapað. Nú var nefið blóðrautt af kuldanum, og kringum munnvikin voru gamlar gremjuviprur, eða grátviprur, - eitthvað, sem líktist munnherkjum, sem ekki hverfa við hitann. Augun voru lítil og dökkbrún, harðleg stundum, en undarlega fljótleg, og svipurinn kringum þau eins og fágætur blendingur meðfæddrar skaphörku og lærðrar auðmýktar. -

Hárið var dökkjarpt og ofurlítið farið að grána yfir gagnaugunum.

Þessi kona hét Vilborg og var dóttir Jóns lögmanns Sigmundssonar, sem nú var dáinn fyrir allmörgum árum. Sú saga gekk, og var henni almennt trúað, að þegar bannfæringin var lesin yfir föður hennar, hefði barninu orðið svo mikið um, að hún hefði orðið brjáluð og aldrei náð sér til fulls eftir það. Nú var Borga félaus, því að svo hafði verið skilið við föður hennar, að ekki fengu börnin mikinn arf. Og eftir að hún hafði misst móður sína líka, hafði hún hvergi átt athvarf. Flæktist hún þá sveit úr sveit, og var víða vel við henni tekið, vegna þess, hve vel hún þótti geta skemmt mönnum með söngvum sínum. Systur hennar tvær voru giftar, en til þeirra leitaði hún aldrei. Á þessu flakki hafði Borga átt eitt barn, sem hún lýsti fátækan dreng föður að, og nú var dáið. - Eftir þær raunir hafði þyrmt mjög yfir hana, og eftir það hélst hún hvergi við og var jafnan á flakki.

- Borga tók þurrlega kveðju piltanna, er þeir náðu henni, spurði, hvað þeir vildu sér, og vildi halda áfram ferð sinni. Eftir að hún hafði heyrt erindi þeirra, hugsaði hún sig um litla stund, varð þung á svipinn og mælti loks:

"Að Geitaskarði kem ég aldrei."

"Hvers vegna?" spurðu piltarnir.

"Bóndinn kallar mig flökkukind og hótar að láta dæma mig í vist."

"Bóndinn er ekki heima. Hann er að vitja eigna sinna norður um sveitir. Hans vegna er þér óhætt að koma heim með okkur."

"Bóndinn er illmenni. Hann dæmdi ranga dóma höfðingjum til geðs, meðan hann hafði völd til meðferðar."

"Jón Einarsson missti völd sín fyrir það að vera of tannhvass við einn af mestu höfðingjum landsins, og lá við, að hann missti einnig fé sitt og frelsi. Hafi hann dæmt rangan dóm vegna höfðingjahylli, þá hefir hann nú tekið þess grimmileg gjöld fyrir löngu, með því að geta ekki stillt skap sitt, er mest reið á."

"Þetta kann að vera satt. - En af slíkum manni vil ég hvorki þiggja bita né sopa. Og heldur vil ég úti liggja í fönnunum en leita mér skjóls undir þaki hans."

"Þess þarftu ekki heldur. Skálinn er lánaður okkur til að skemmta okkur í. Við greiðum fyrir hann leigu, og á meðan er hann okkar þak. Þar er nóg um rekkjur, svo að ekki mun þig hvílu skorta. Ekki þarftu heldur mat að þiggja á heimilinu, því að við erum vel nestaðir."

"Líka að drykkjarföngum," bætti hinn pilturinn við.

"Hjá okkur er glaumur og gleði, sem ekkert kemur heimilinu við. Þú verður okkar gestur í kvöld og gleður okkur með þínum góðu söngvum og fögru hljóðum. Við skulum annast þig og greiða þér vel fyrir glaðninguna."

Borga virti piltana vel fyrir sér, og smátt og smátt glaðnaði yfir henni. Ákafi þessara unglinga að fá hana heim með sér, fjör þeirra og glaðlyndi hafði góð áhrif á hana. Hún færðist þó enn undan.

"Húsfreyjan er heima," mælti hún. "Ekki er hún bóndanum betri. Enginn þarf að ætla, að um heilt grói með afkvæmum Gottskálks biskups og Jóns Sigmundssonar."

"Húsfreyjan er stoltari en svo, að hún blandi sér í hóp okkar, vermanna og vinnumanna. Þú þekkir þá illa ríkilæti hennar og ættarmetnað, ef þú heldur, að hún gangi að leikjum með okkur."

"En börn hennar -? Þau eru enn á æskuskeiði og munu dragast að sollinum."

"Húsfreyjan er siðavönd og hrædd um, að börn sín kunni að sjá og heyra eitthvað til okkar, sem hætt sé við, að spilli þeim. Vel gæti líka farið svo. Við erum alþýðufólk og kunnum ekki höfðingjahæversku. Við skemmtum okkur svo best, að allur tepruskapur sé rekinn á dyr."

Borga hugsaði sig enn um.

"Líttu heim að bænum. Allur gleðskapur hefir fallið niður. Í dyrum skálans og úti fyrir þeim stendur þröng af ungu fólki, piltum og stúlkum, sem bíða þess með óþreyju að sjá þig koma heim. - Er þér nokkurs staðar á landinu tekið með útbreiddari örmum?"

Borga leit heim að bænum og sá, að þeir sögðu satt. Hún hikaði þó enn við stundarkorn. Síðan mælti hún:

"Ég skal fara með ykkur. - En þið ábyrgist, til hvers kann að draga."

- Miklu fagnaðarópi laust upp heima við skálann, þegar piltarnir leiddu Borgu heim á milli sín.


2. kafli

Inni í einu horninu á skálanum safnaðist heill hópur af ungu og fjörugu fólki utan um Söngva-Borgu, til þess að hressa hana og hlýja henni, svo að hún gæti sem fyrst farið að syngja. Nú var búið að tína utan af henni mestu dúðana. Flíkurnar, sem hún var í innan undir, voru heilar og hreinlegar, en ekki gáfu þær hinum eftir að litaskrauti. Stöku silfurgripi bar hún til prýðis á fötum sínum, en undarlega voru þeir valdir eins og annað, því að sumir þeirra voru einungis ætlaðir karlmönnum.

Matur var nú borinn að henni í óðaönn, miklu meira en nokkrar líkur voru til, að hún gæti torgað. Hver kom með sitt og vildi endilega, að hún þægi eitthvað af sér, bragðaði á því að minnsta kosti. Einn kom með súrt smér framan úr Svartárdal, annar með skyrmorkinn hákarl utan af Skagaströnd, þriðji með þverhandarþykkan magál úr Laxárdalnum o. s. frv. En allir piltarnir og sumar stúlkurnar líka komu með vasapelana sína, - komu með þá glóðvolga úr barmi sínum, hálffulla af rauðu, ihnandi víni, dísætu, og buðu henni að súpa á hjá sér. Hún hýrnaði fljótt og hresstist við slík atlot og hló og masaði án afláts, á meðan hún mataðist og drakk. Þó leyndi það sér ekki, að gleði hennar var öll á yfirborðinu, ekki einlæg eða innileg og engin algleymisgleði. Jafnan er hún hló, var sem broddur styngi hana fyrir brjóstið. Ekki tóku nema fáir eftir þessu. En öllum var það gleði að sjá hana kætast og hýrna, því að allir hlökkuðu til að heyra hana syngja.

"Er þér nú ekki farið að hlýna, Borga mín?"

"Jú, mikil ósköp," sagði Borga og skellihló. "Mér var nú fyrst og fremst brísheitt, þegar ég kom. - Og svo væri ég dauð manneskja, ef mér gæti ekki hlýnað hérna, innan um alla þessa ungu pilta. - Ha-ha-ha-hæ!"

"Þetta er eftir af skarinu enn þá!"

"Skarinu, ha-hæ! - Sýnist ykkur kannske ég vera nokkurt skar? - Ég, sem er kornung enn þá. Ég segi nú raunar engum, hvað ég er gömul! - En þið sjáið líklega, hvort ég get ekki roðnað eins og hinar stúlkurnar, þegar piltarnir líta til mín hýrum augum. - Sannið þið til, telpur mínar. Þið fáið ekki mörg hýr augu í kvöld, fyrst ég er komin!"

"Nei, það segirðu satt."

"Já, víst segi ég það satt." Og Borga skríkti af hlátri eins og hvítvoðungur.

Tvær fallegustu stúlkurnar voru setstar hjá henni, sín hvorum megin. Þær voru búnar engu minna litskrauti en Borga sjálf, þótt öðru vísi væri þar litunum hagað. Í samanburði við þessi unglegu og blómlegu andlit varð andlit Borgu enn þá veðurbitnara og þreytulegra, og í samanburði við gleðisvip þeirra varð uppgerðargleði hennar enn kaldari, gremjan, sem bjó undir kæti hennar, enn beiskari, og glampinn, sem vínið hafði vakið í augum hennar, enn hvassari. Stúlkurnar notuðu dyggilega þessa ágætu aðstöðu til að draga að sér augu piltanna, sem kætin og masið í Borgu dró þangað. Borga vissi vel, að það var ekki hennar einnar vegna, sem piltarnir komu, en hún lét það ekki fá á gleði sína.

"Má ég líta í lófann á þér, kindin mín?" mælti hún við stúlkuna, sem sat hægra megin við hana.

"Kanntu að spá?" spurði stúlkan með ákafa og rétti fram höndina.

"Nei-nei-nei, það er tóm markleysa."

"Auðvitað kann Borga að spá," gall í einhverjum í hópnum.

Borga leit í lófann á stúlkunni og hugsaði sig um stundarkorn. Allir stóðu á öndinni á meðan.

"Það er þá komið svona fyrir þér."

"Hvernig?" sagði stúlkan, og blóðið þaut fram í kinnarnar á henni.

"Ég segi ekkert meira."

Nú þurfti stúlkan ekki að kvarta um, að ekki hvíldu á henni nógu mörg augu. Þau voru fleiri en hún óskaði. - Hún dró sig hljóðlega út úr hópnum.

Margar hendur voru réttar fram að Borgu í einu. Flestar voru þær karlmannahendur, með sigg í lófunum eftir vinnuna. "Lestu í lófann á mér! Lestu í lófann á mér!" mælti hver í kapp við annan. Borga leit í lófana, hvern eftir annan, og sagði hverjum um sig einhvern spádóm:

"Varaðu þig á lendingunum á Miðnesinu, drengur minn. Þær eru vondar í vestanátt," sagði hún við einn. - "Þú ert kominn svona nærri því að giftast. Það grunaði mig ekki," sagði hún við annan. "Þú færð enga af þeim, sem hér eru inni, skinnið mitt, því að þú átt að giftast ekkju með fjögur börn." - "Varaðu þig, að þú verðir ekki flengdur á vertíðinni." - "Það er nú bærilegt, sem þú átt í vændum; margur mundi óska sér annarrar eins jólagjafar. Ég sé ekki betur en það séu tvíburar." - "Hún er hérna í kvöld, sem þú ert að hugsa um, en hún vill þig ekki." - "Rík bóndadóttir! Skárri er það nú hamingjan, drengur minn. En hjónamunur verður á ykkur, því að þú nærð henni lítið meira en í mitti."

Þannig hélt hún áfram, þangað til hún var búin með allar hendurnar, sem að henni höfðu verið réttar. Ummæli hennar urðu að nýju kryddi í veislugleðinni. Þau urðu efni í endalausa ertni á milli þeirra, sem spádómana höfðu hlotið, og hinna, sem ekki höfðu viljað eiga undir því, hvað Borga kynni að sjá.

"Ég sé það á þér, góða mín, að þú vilt ekki láta lesa í lófann á þér," sagði Borga við stúlkuna, sem verið hafði vinstra megin við hana.

"Nei," sagði stúlkan og faldi hendurnar á bak við sig.

"Það er alveg rétt af þér. Þetta er ekkert annað en marklaust gamanhjal. - En enginn maður skyldi setjast hjá Söngva-Borgu í því skyni að hafa nokkuð gott af því.

"Vegna hvers?"

"Gremjunni og harminum skaut sem snöggvast upp í augum Borgu og svipti af henni glaðværðargrímunni.

"Vegna þess, að hún er bannfærð."

"Bannfærð," sagði stúlkan. "Hvaða vitleysa. Þú ert ekkert bannfærð."

"Þú ert góð og saklaus stúlka, þó að þú sért glettin. Þú veist ekki, hvað það er að vera bannfærð. Þeir, sem umgangast bannfærða menn, þó í sakleysi sé, eða jafnvel af kærleika eða meðaumkun, verða sjálfir bannfærðir. - Ég hefi umgengist bannfærðan mann, - sofið hjá honum, meðan ég var lítil, kysst hann og klappað honum, þjónað honum eftir mætti og hjúkrað honum í banalegunni. - Hann bað til guðs, að bannið mætti ekki bitna á mér, en guð bænheyrði hann ekki. Hann bænheyrir engan bannfærðan mann."

"Góða Borga mín, vertu nú ekki að þessari vitleysu. Þú ert ekkert bannfærð. Ég þori vel að sitja hjá þér. Ég skal sýna þér það með því að faðma þig og kyssa þig. Engin bannfæring hrín á mér."

"Nei, þú ert svo falleg. - Enda hugsarðu hátt.

"Svei, Borga. Þetta er ljótt af þér að segja við þá, sem eru þér góðir. Þú veist ekkert, hvað ég hugsa."

"Þarna sérðu, hvað gott er að koma nálægt mér. Ég sting alla, sem taka á mér, eins og karfinn."

"Flónska. Þú stingur ekkert. Þú gerir þér upp þessa geðvonsku til þess að erta okkur."

Borga hló. "Heyrðu. Á ég ekki að lána þér sparifaldinn minn í kvöld? Ég er viss um, að hann fer þér ljómandi vel."

"Þú þarft að búa þig með sparifaldinum þínum áður en langt um líður, góða mín, og þá bætir það hann ekki að hafa setið á höfðinu á öðru eins skrípi og ég er."

"Hvaða vitleysa. - Lofaðu mér að skauta þér með honum."

"Ég læt aldrei neitt á höfuðið á mér. Ég geng ævinlega berhöfðuð, hvort sem ég er úti eða inni."

"Hvers vegna?"

"Það er ekki til neins að segja þér það. Þú skilur það ekki."

"Jú, segðu mér það - lágt; segðu mér það, svo að enginn annar heyri. Ég skal þegja yfir því, ef það er leyndarmál."

"Það er ekkert leyndarmál. - Það er merki ofan á höfðinu á mér."

"Merki -? Hvaða endemis vitleysa!"

"Merki bannfæringarinnar, sem guð vill ekki láta dylja fyrir sér, þegar hann lítur yfir mannkynið á jörðinni. Ég er brennimerkt."

"Þetta er eintómur þvættingur. Það er ekkert merki á höfðinu á þér."

"Og rauði liturinn á fötunum mínum er litur útskúfunarinnar. Það eru logar - - ."

"Hættu þessari heimsku. - Komdu nú í hringdans með okkur og syngdu fyrir."

"Ég dansa aldrei."

"Hvers vegna?"

"Það er hverjum manni til óhamingju að halda um höndina á mér. - Ég er bannfærð."

"Kemurðu með þessa vitleysu enn þá. - Hvernig viltu þá vera?"

"Á samkomum eins og þessum er venjulega hlaðið einhverju undir mig úti í horni. Þar er mér tyllt upp, eins og hverjum öðrum skrautfugli, og lofað að gala."

"Nú, þá gerum við eins, fyrst þú vilt ekki annað þýðast."

Og óðar voru margar hendur á lofti til að búa Borgu upphækkað sæti inni við gafl í skálanum.


3. kafli

Þegar búið var að koma Borgu fyrir eins og hún vildi vera, tók hún að syngja. Rödd hennar var undur fögur, mikil og mjúk og laðandi, efld eins og stormgnýr, þegar hún tók á henni, og mjúk eins og andvari, þegar hún söng veikt. Hún skalf eins og strá í stormi, en aldrei svo, að minnsta hik væri á laginu. Borga kunni meistaralega að beita henni og breyta henni eftir efni því, er hún söng, og hafði hana að öllu leyti á valdi sínu.

Um leið og Borga byrjaði að syngja, tengdust menn og konur höndum um allan salinn, og hægur hringdans byrjaði. Menn stigu hægt og nett eftir fallanda lagsins og sungu undir viðlögin, þegar menn voru búnir að læra þau. Að öðru leyti drottnaði hátíðlegur hljóðleiki. Allir hlustuðu hugfangnir á þennan yndislega söng, sem mörgum var ný fegurðaropinberun, en öðrum endurtekning yndis, sem þeir höfðu áður notið og ekki var hætt við, að nokkur maður þreyttist á. Þessi roskna, fátæka förukona, þessi einkennilega randafluga, sem enginn taldi fullkomlega ótruflaða á vitsmunum, þetta kvenlega skrípi, sem mörgum fannst sjálfsagt að hafa fyrir fífl, sýndi sig allt í einu að vera gædd gáfu, sem lyfti henni langt upp yfir allan fjölda manna og gerði hana að veru, gæddri guðdómlegum áhrifum. - Hún hafði meira til brunns að bera en þessa fögru og miklu rödd. Öll meðferð hennar á því, sem hún söng, lýsti djúphyggni og skáldlegum skilningi. Kvæðin, sem hún kunni, voru mörg og löng, svo að mörgum öðrum hefði verið það meira en nóg námsraun að læra þau reiprennandi utanbókar. En Borga gerði meira en það eitt að kunna þau og fara með þau, án þess að fella úr þeim eða brjála þeim í nokkru. Hún skýrði þau í meðferðinni, gaf þeim líf og anda, gerði þau að sínum eigin kvæðum og lét þau lýsa sínum eigin hugsunum og tilfinningum. Margir kunnu það, sem hún fór með, eða höfðu heyrt það áður. Þó fannst öllum þeir heyra það nú í fyrsta skipti.

Flest kvæðin, sem hún söng, voru sorglegs og alvarlegs efnis. Það sakaði ekki veislugleðina. Menn voru vanir við það að stíga dansinn eftir sorglegum strengleikum og vera hljóðir og alvarlegir mitt í hinni mestu gleði. Sorgarsöngvarnir vöktu hjá mönnum angurblíðar tilfinningar. Þeir töluðu mál hjartnanna, gáfu því orð, sem lá falið í brjóstum manna, en tungan hafði ekki tök á. Þeir leystu tilfinningar manna og kvenna úr læðingi og þokuðu því oft fastar saman, sem saman leitaði. Þess vegna voru þeir engu síður vel þegnir en gamansöngvarnir. Og þegar svo var með þá farið sem nú, var sem þeir tendruðu heilagan eld í öllum, sem á þá hlýddu.

Ástarbaráttan var aðalsöngvaefnið. Ástarbaráttan í óteljandi myndum: Ást í meinum, vonlaus ást, svikin ást, fyrirlitin ást, vanþökkuð ást og ást, sem var trygg til dauðans. Og í öllum þessum ástarsöngvum var sem Borga væri sjálf aðalpersónan. Hún var álfamærin vansæla, sem fékk ofurást á Ólafi liljurós og lagði hann í gegn með sverði í örvæntingu sinni, til þess að engin önnur skyldi fá að njóta hans. Hún var Signa, sem sló eldi í höll sína og brenndi sjálfa sig og allar eigur sínar upp til agna daginn, sem Hagbarður, elskhugi hennar, var leiddur til gálgans. Hún var Svíalín, sem átti elskhuga sinn í hrafnslíki og lagði á sig ótal þrautir til að frelsa hann úr álögunum. Hún var Helga kóngsdóttir hin fagra, sem elskhuginn vitjaði á hverri nóttu og leiddi út að gröf sinni til að gráta þar, svo að hann mætti frið fá; hann hafði verið tekinn í rekkjunni hjá henni og höggvinn við rúmstokk hennar. Hún var drottningin fagra, sem flagðið tók börnin frá, jafnóðum og þau fæddust, og lét hvolpa eða kettlinga í staðinn, til þess að rægja hana við kónginn og fá hana brennda á báli. Hún var Hallgerður, sem mundi kinnhest bónda síns, þegar honum lá mest á liðsinni, og hún var Ingibjörg, sem sprakk af harmi, þegar lík Hjálmars hugumprúða var borið á skildi inn í höllina. Yfir allri ástinni, sem hún söng um, hvíldi einhver guðs reiði, bölvun og fordæming, og þó var þessi ást eitthvað háfleygt, heilagt og guðdómlegt, eitthvað, sem gaf lífinu gæði og gildi, - blikandi stjarna í myrkri sorgarinnar og dauðans.

Við og við skipti hún um og söng gamankvæði, eins og til að létta af huganum þessum örlagaþunga, þó ekki væri nema svipstund. Hún söng þá um gamlan maurapúka, sem elskaði svo aura sína, að hann gat ekki dáið frá þeim, en rotnaði niður lifandi ofan á auradyngjunni; um sálina hans Jóns, sem verið var að koma með brögðum inn fyrir hurðina hjá Lykla-Pétri; og um ára, ofurlítið grey, reglulegt helvítisflón, sem sendur hafði verið upp á jörðina til að sækja eina sál, sem húsbóndi hans átti tilkall til. Hann beið eins og tryggur hundur við dyrnar, þorði ekki inn fyrir djáknanum og hafði ekki hugmynd um það, að djákninn hafði sent sálina úr manninum upp um skjágluggann á þekjunni og beint inn í himnaríki; og loks söng hún um dansinn í Hruna, sem gekk með svo ókristilegum algleymingi, að kirkjan sökk.

Þegar hún hafði sungið alla liðlanga vökuna, þagnaði hún og virtist vera þreytt. Fólkið þyrptist að henni til að votta henni þakklæti sitt og aðdáun. Það var sem hún sæi það hvorki né heyrði. Menn buðu henni vín til hressingar. Hún drakk það, en var svo viðutan, að hún hafði varla rænu á að þakka fyrir það. Hún sat þegjandi og hugsandi, og brjóst hennar bærðist ótt og títt. - Sumir héldu, að hún væri orðin uppgefin eða jafnvel veik. Aðra grunaði, að hún ætti enn þá söngva eftir, sem henni sjálfri þætti mest um vert. - Hún gaf engan gaum að hljóðskrafinu í kringum sig. En þegar hennar tími var kominn, stóð hún upp, þurrkaði svitann af enninu á sér og strauk hárið frá því. - Svipur hennar varð myndugri og alvarlegri en hann hafði verið áður. Það var sem hinir söngvarnir hefðu rótað einhverju upp á yfirborðið í sál hennar, sem annars átti heima langt niðri í djúpinu, einhverju, sem var hennar eigið, hennar helgasta og dýrasta. - Þegar hún tók að syngja aftur, var röddin grátklökk, en svo hreimmikil og hljómþung, svo dillandi og laðandi, full af sársauka og kveinstöfum, að hún gekk mönnum gegnum merg og bein. Menn færðu sig ósjálfrátt frá henni, eins og menn sæju lundinn loga, en brenna ekki. Enginn byrjaði að dansa. Menn þyrptust saman við dyrnar, sem lágu inn að bæjarhúsunum, og stóðu þar álengdar, andspænis henni, eins og þeim stæði geigur af henni, en gætu þó ekki slitið sig frá töfrum hennar. - Viðlagið lærðu menn fljótt og sungu það undir í hálfum hljóðum. Annars hlustuðu menn gagnteknir á þennan nýja söng hennar.

Hún söng þetta kvæði um trygglynda konu, sem stundar mann sinn í öllum raunum hans og berst fyrir börnum þeirra í örbirgð og skorti:

Sat hún hjá honum sjúkum.
     - Sólin skín.
Hjúkraði höndum mjúkum.
     - Elskan mín,
     daga og nætur er ég ætíð þín.

Sat hún hjá honum hrelldum.
Söng honum kvæði á kveldum.

Óðu klerkar inn á hann.
Sungu yfir honum böl og bann.

Að honum sóttu yfirvöld.
Heimtuðu sektir og heimtuðu gjöld.

Hröktu menn hann sveit úr sveit.
Enginn hana af honum sleit.

Bar hún með honum bannsins raun.
Eru til þyngri ástarlaun?

Sat hún með börnin, og sárt hún grét.
Aldrei hann vita af því lét.

"Hvergi fáum við friðað ból.
Fokið er nú í flestöll skjól."

"Mennirnir tóku af mér allt.
Klæði mig vantar, og von mér sé kalt."

"Til er nú fátt að taka af.
Beltið mitt fyrir mjöl ég gaf."

"Helga mín, svöng ertu hér og þyrst.
Þér líður skár, ef ég læt þig í vist."

"Borga mín, hlauptu með hringinn minn.
Ég sel hann burt fyrir skæðaskinn."

"Greiddu þér og þvoðu, Gunna mín.
Þá sýnist fegurri fátækt þín."

"Börnunum gómurinn blæðir.
Svo fer þeim, sem þurrmetið fæðir."

"Þungur er harmur og þungt er mitt böl.
Líkna mér, guð, fyrir lausnarans kvöl!"

"Hvað verður um þau, ef ég veikist og dey?
Líkna mér, heilaga María mey!"

"Er þér að þyngja, elskan mín?
Vera skal hjartað mitt hinsta hvílan þín."

"Sofnaðu við barm minn hinn síðasta blund.
     - Sólin skín.
Aftur við tengjumst á upprisu stund.
     - Elskan mín,
     daga og nætur er ég ætíð þín."

Engum manni duldist það, að þetta kvæði var um móður hennar, Björgu Þorvaldsdóttur, konu Jóns lögmanns Sigmundssonar. Það voru hinar sorglegu bernskuminningar Söngva-Borgu sjálfrar.


4. kafli

Á meðan Borga söng kvæðið, hafði Kristín Gottskálksdóttir komið í skálann. Börn hennar, þau er heima voru, höfðu verið þar fyrir, innan um hitt fólkið.

Kristín nam staðar við dyrnar og skýldi sér á bak við mannþyrpinguna. Hún hlustaði eins og aðrir hugfangin á þennan fágæta söng. - Aldrei hafði hún heyrt til Borgu fyrri.

En þó að Kristín léti sem minnst á sér bera, kom Borga auga á hana og þekkti hana. Eftir það var sem hún sæi engan nema hana.

Þegar kvæðið var á enda, leit hún ekki heldur af henni. Þá var steinhljótt í skálanum, og stóð hver maður kyrr, þar sem hann var kominn. Kristín líka. Það var auðséð á Borgu, að hún ætlaði að syngja eitthvað meira. Þögnin var ekki nema andartaks-hvíld.

Svipur hennar harðnaði, og augu hennar brunnu sem eldur. Þegar hún byrjaði aftur, var grátklökkvinn horfinn úr röddinni. Nú var hún orðin aflmikil eins og básúnuhljómur, þung og myndug, þrungin af hatri og heift, en þó svo föst og henni svo vel stillt í hóf, að hvert orð og hver hugsun naut sín til fulls. Hún söng þetta kvæði um ævilok Gottskálks biskups Nikulássonar:

Var að veislu staddur
voldugur kirkjuhöfðinginn;
sat þar að borðum saddur
sveina- og klerkahópurinn.
Tjöld á alla veggi voru dregin,
rósum ofin reflabönd
við rjáfur þönd
efra öllum megin.

Birtu logar ljósir
logagylltum stjökum á,
reginfornar rósir
ristar á viðu til og frá.
Öndvegið þó af öllu bar að prýði.
Þar sat biskup. - Breiður svall
um brík og pall.
silkiskrúðinn síði.

Vín þar skein á skálum,
skálin mörg var steinum sett;
mjúkum gleðimálum
mæltu gestir, hljótt og slétt.
Þó var farg á öllum undir borðum.
Hvíldu á öllum augu dimm
og ásýnd grimm.
Gætt var að öllum orðum.

Heimamenn sig hneigðu
höfðingjanum undur djúpt.
Aðalsaugun beygðu
alþýðuskapið, meyrt og gljúpt.
Hvað var um það, þótt hatur byrgðist inni?
Sancti spiriti signd var skál
við sáttamál,
og jómfrúr Maríu minni.

Sat með sorta í augum
á svipinn þungur biskupinn,
hönd með höfgum baugum
hvítri studdi hann undir kinn.
Magur var hann, beinaber og tærður.
Var sem engdist hugur hans,
þess helga manns,
samviskukvölum særður.

Sá hann þá sem í draumi
sýn, er aleinn horfði 'ann á.
Var yfir veisluglaumi
veggjum svipt og rjáfri frá.
Himininn sjálfan sá hann opinn standa.
Drottinn setti dóminn þar,
og dýrðleg var
hirð til beggja handa.

Sá hann föðurinn fríða
í fögru líki göfugs manns,
silfurskeggið síða
svall um alla bringu hans.
Ennið hvelfda guðdómsgeislum stráði.
Ströng var ásýnd hans, en hrein,
af helgi skein,
rík að speki og ráði.

Örlög allra heima
augun geymdu að baki sér.
Guðs er eins að geyma
gátu alls, sem skapað er.
Laut af hugsun höfuðið guðdómsbjarta.
Um hans svip sem eldblær rann,
því undir brann
ást hans heita hjarta.

Hafði oft í anda
áður biskup drottin séð,
séð sig sjálfan standa
sveitum himna björtum með.
Nú var sem hann sárra kenndi nauða.
Eins og sigi að hjarta hans,
'ins harða manns ,
hrelling dóms og dauða.

Frammi fyrir dómi
föðurins á himnum stóð
sá, er hans biskupsblómi
bannfærði mest og niður tróð.
Sá hann nú lögmann sakir lognar kæra.
Hrakningum öllum herma frá
og harma tjá,
sönnur á sérhvað færa.

Hann var nú hvergi hrelldur,
hvatmannlegur með ennið hátt.
Eigi var auðsætt heldur
á honum bann á nokkurn hátt.
Himnafaðirinn hlýddi á, hvað hann sagði.
- Dunaði rödd í skýjum skýr
sem skruggugnýr
og boð fyrir biskup lagði:

"Stefnt er þér, Gottskálk grimmi,
guðs fyrir dómstól þetta sinn.
Hingað er dauðinn dimmi,
dapri og kaldi vegur þinn.
Mæta áttu að fárra nátta fresti."
Sýnin hvarf, - en bleikur á brá
sat biskup þá
og sjónir í sortann hvessti.

Er þér óglatt, herra?"
- auðmjúklega var spurt um það.
"Veit ég, að hér er verra
að veislum en á Hólastað.
- Sjá, hér er kominn sendimaður státinn.
Fréttir að vestan færir hann þér,
sem fagna ber.
Lögmaður Jón er látinn."

Hljóður herrann strýkur
hönd um ennið, köldusveitt.
Síðan úr sæti rýkur,
segir þökk fyrir gæði veitt.
"Nú er ei lengur tími til að tefja.
Söðlið þið hesta, sveinar, skjótt!
Um svarta nótt
heimreið skulum við hefja."

Biskup engu eirir,
ákaflega hleypir skeið.
Hópurinn klára keyrir,
kemst ei slíka þeysireið.
Þegar hann kemur heim til gömlu Hóla,
reiða sér lætur hann rekkju þar
og ráðstafar
stóreign stóls og skóla.

"Sá er til dauða dæmdur,
drottinn, sem þitt auglit sér.
Ég er nú frá þér flæmdur,
fátt mun til, sem bjargar mér.
Dugaðu mér nú, Guðmundur biskup góði!
Hjálpa mér einnig, herrans þjón,
þú, helgi Jón,"
heyrist hann stynja í hljóði.

Mál og rænu hann missti,
miskunn fékk hann ei né grið,
öll hann angist gisti
undir það hann skildi við.
Létt var að ending af honum lífsins byrði.
Sögðu menn af honum illan daun
við andláts raun,
og svartur er sagt hann yrði.

Þegar þetta kvæði var á enda, stökk Borga ofan af upphækkuninni, sem hún stóð á, og nam ekki staðar fyrr en frammi fyrir húsfreyjunni. - Fólkið hrökk fyrir henni til beggja handa, eins og það sæi eiturnöðru. Kristín ein stóð kyrr og beið þess að heyra, hvað hún vildi sér.

"Þú ert húsfreyjan á Geitaskarði. - Þú ert Kristín dóttir Gottskálks Hólabiskups. Er ekki svo?"

"Jú," svaraði Kristín góðlega og rólega.

"Ég vissi það áður en ég spurði. - Það var til að gera þig að heiman til seinni giftingarinnar, sem jarðirnar voru reyttar af föður mínum sáluga. Hóll og Bessastaðir voru meðal annars í heimanmundinum þínum. Þú átt þær auðvitað enn og nýtur ávaxtanna af þeim með góðu geði. - En faðir þinn tekur út kvalirnar fyrir þær á meðal hinna fordæmdu."

"Það veist þú ekkert um, Vilborg mín. Guð getur hafa verið föður mínum miskunnsamur, eins og ég vona, að hann hafi verið föður þínum."

Ofsinn í Borgu jókst mjög við þessa góðmannlegu rósemi húsfreyjunnar.

"Hann er fordæmdur, fordæmdur! - Guð gaf mér náð til að sjá það, þegar hann var fordæmdur. Ég sá hann standa frammi fyrir dómstóli guðs, ásamt föður mínum. Ég sá guð sjálfan halda á kertinu í hendi sér, sem ljós lífs hans logaði á. Ég sá hann steypa kertinu, um leið og hann kvað upp hina eilífu bannfæringu, og kæfa ljósið í stækri ólyfjan. Þá seildust svartar og sviðnar hendur upp úr undirdjúpunum. Þær kræktu glóandi krókum í föður þinn og drógu hann ofan í reyk og svælu. - Hólabiskupinn hvarf - ha-ha-ha-ha-ha-ha!"

"Guð hjálpi þér, vesalingur, og varðveiti það, sem þú átt eftir af viti!"

"Vesalingur, vesalingur! - Er ekki gaman að geta sagt það? Vesalingur! - Hvers vegna er ég vesalingur? - Ég er bannfærð. Allir; sem líknuðu föður mínum, voru bannfærðir með honum. - Móðir mín var forboðuð fyrir upplognar sakir, áður en ég fæddist, og síðan bannfærð að fullu og öllu, - allt til að svala miskunnarlausri heift og fégirnd Hólabiskupsins. - Líttu á mig, húsfreyja! Ég er bannfærð, bannfærð frá hvirfli til ilja. Það er ekki blettur á líkama mínum, sem ekki er búið að bölva hátíðlega í kirkjunni, með upplyftum höndum og hringdum klukkum. Um leið og faðir minn var bannfærður, var ég bannfærð. Ég hefi aldrei verið leyst, meðan ég er á jörðinni. - Ég á ekkert til, nema það, sem ég stend í. Ég á hvergi höfði mínu að að halla. Þú heldur fyrir mér eignum mínum - og margir aðrir. Bannfærð er ég og hrakin sveit úr sveit. Jörðin er bannfærð undir fótunum á mér, hvar sem ég stíg niður. Iljarnar á mér brenna. Ég hefi hvergi ró, hvergi grið. - Friðlaus og eirðarlaus leita ég mér hælis og athvarfs, sem hvergi er til. Mennirnir hæða mig og hrjá mig á milli sín. Himinninn er lokaður fyrir bænum mínum. Enginn guðs vinur á himnum gætir að mér, því að ég er útskúfuð. Þannig er það, húsfreyja, að vera bannfærð. - En eitt hefir guð þó gefið mér til líknar. Það er söngröddin, sem þú hefir heyrt í kvöld. Hann hefir gefið mér hana til að hefna mín með henni. - Ég hefi gengið um landið á bólgnum fótunum og sungið níð um Gottskálk biskup grimma, - sungið það með öllu afli þeirrar listar, sem guð hefir gefið mér, sungið það inn í sál og hjarta hvers einasta manns, sem orðið hefir á vegi mínum. - Ég hefi farið um allar byggðir landsins eins og brennandi kyndill og kveikt hatur gegn föður þínum. - - Ha-ha-ha-ha-ha. - Nú brennur allt landið af hatri og bölvar hástöfum minningu hans. Geitaskarð brennur líka. Ha-ha-ha-ha-ha-ha-ha!"

"Hættu, Vilborg mín. - Þú hefir sjálf illt af þessum geðofsa."

Hlátur Borgu snerist á svipstundu upp í ofsagrát. -

"Og ástin mín," mælti hún. "Hún var auðvitað bannfærð, eins og allt annað. - Ég fékk brennandi ást á ungum dreng, barni að aldri. - Hann sá sig um hönd eftir fyrstu faðmlög okkar, iðraðist eftir að hafa snert mig, fékk óbeit á mér, forðaðist mig eins og ég væri pestveik, og hvarf mér síðast með öllu. Ég hafði drýgt glæp með því að kveikja ást hjá honum. Barnið, sem af okkur lifnaði, var bannfært, eins og móðir þess. Það var föðurlaust - já, og móðurlaust líka. - Eftir að ég hresstist, bar ég það í fanginu milli bæjanna. Það var veikt frá fæðingunni, linnti aldrei á hljóðum, gat ekki þrifist, ekki lifað. Loks gaf það upp andann í fanginu á mér. - Þá sortnaði allt í kringum mig, húsfreyja. Þá lifði ég í annað sinn þetta óttalega augnablik, þegar bannfæringin var lesin yfir föður mínum og mamma tók mig upp í fang sér, þar sem ég engdist sundur og saman af flogum og missti meðvitundina. - Svona er það að vera bannfærð, húsfreyja. -

Þetta eru börnin þín, húsfreyja. - Mannvænleg börn, eins og við vorum, systkinin. Það yngsta á sama reki og ég var þá. - Hvernig skyldi því verða við að heyra bannfæringuna? - Ég kann hana utanbókar. - "Bölvað sé höfuð hans, augu, nasir, sjáaldur, tennur og tunga, kverkar hans og brjóst, hjarta hans og kviður." - Ha-ha-ha-ha-ha-ha-ha."

Mitt í hlátrinum var sem gripið væri fyrir kverkarnar á Borgu. Hún stóð á öndinni stundarkorn, og augun ætluðu að springa. Svo hneig hún niður meðvitundarlaus.

"Berið hana inn til mín," skipaði Kristín, og var því hlýtt samstundis.

"Hver er það, sem hefir komið henni hingað heim?" spurði hún og leit alvarlega umhverfis sig.

Enginn þorði að kannast við það. Enda voru allir jafnsekir.

"Við skulum ekki fást um það. Ykkur er ekki láandi, þó að ykkur langaði til að heyra söngva hennar, sem svo mikið orð fer af. Hitt vissuð þið ekki, sem ekki var von, að þið voruð að leika ykkur að logandi eldi. Þessari manneskju er ekki sjálfrátt, eins og þið sjáið nú sjálf. Hún hefir aldrei komið að Geitaskarði fyrri, en iðulega farið hér fram hjá. En hingað lá þó leið hennar fyrr eða síðar. - Allar göngur hennar um landið hafa ekkert annað verið en krókaleiðir frá Krossanesi að Geitaskarði, frá banabeð föður hennar til elstu dóttur Gottskálks biskups. - Hverjir aðrir, sem heyrt hafa þessa síðustu söngva hennar, þá hafa þeir fyrst og fremst verið ætlaðir mínum eyrum." -

Að svo mæltu gekk hún inn í bæinn á eftir þeim, sem báru Borgu í yfirliðinu.


5. kafli

Kristín sat sjálf hjá Borgu og hjúkraði henni og hlynnti að henni, bæði meðan hún lá meðvitundarlaus og eftir að hún raknaði við. Hún lét sér eins annt um hana og hún væri systir hennar.

Borga var máttvana eftir yfirliðið, gat ekki hreyft sig og varla talað. Kippir í andlitsvöðvunum og ókyrrð í augunum sýndi best, hvernig taugum hennar var farið. Þetta fór þó allt smádvínandi, og við það að liggja kyrr endurvann hún smátt og smátt þann styrkleika, sem hún hafði áður haft.

"Líður þér betur, Vilborg mín?" spurði Kristín undur blíðlega.

"Já, - mér lí-ð-ur be-t-tur," stamaði Borga, og orðin slitnuðu sundur af ósjálfráðum hreyfingum talfæranna.

Kristín settist á rúmið hjá henni og strauk hárið frá sveittu enninu á henni.

"Vertu ekki hrædd við mig. Þú mátt ekki halda, að ég sé reið við þig, því að það er ég ekki. Ég fyrirgef þér hjartanlega og vil hjúkra þér eins og systur minni, ef þú vilt þýðast það. En fyrst fundum okkar hefir loks borið saman, þó að seint væri, langar mig til að segja þér það, sem mér býr í brjósti. Þú mátt ekki halda, að ég ætli að ásaka þig, því að það ætla ég ekki að gera. Ertu fær um að hlusta á það, sem ég hefi að segja þér?"

"Já," sagði Borga undur lágt.

"Það getur vel verið, að faðir minn hafi misgert við föður þinn og móður þína, og við sjálfa þig líka, án þess að vita, að þú værir til. Það verður svo margur óséður og ókenndur fyrir skakkafallinu, þegar stórmennum lendir saman. En má ég nú ekki reyna að bæta þér það upp, sem faðir minn hefir misgert við þig?"

"Það getur þú ekki," mælti Borga og hristi höfuðið.

"Það skaltu ekki segja. Ég ræð öllu, sem ég vil, á Geitaskarði, og það er gott samkomulag með okkur hjónunum. Hér getur farið vel um þig, það sem þú átt eftir ólifað. Og hver veit nema ég geti fengið manninn minn til að fá þér í hendur jarðirnar, sem þú nefndir áðan."

"Það getur þú ekki."

"Hver veit. Við eigum fáeinar jarðir samt. - Við erum engan veginn blásnauð, þó að þessar jarðir gangi frá. Viltu nú ekki þiggja þetta?"

"Nei."

"Hvers vegna ekki?"

Borga þagði.

"Feður okkar voru óvinir. En hvers vegna eigum við að hatast fyrir það? Hvorug okkar gat nokkurn hlut við það ráðið, sem þeim fór á milli."

"Faðir þinn drap föður minn," mælti Borga, og hatrið logaði aftur upp í veikum augunum.

"Það getur vel verið, að þú segir þetta satt. En hlustaðu nú á það, sem ég segi, og reyndu að vera róleg, því að ég segi það ekki af þykkju eða kala. Ertu nú viss um, að faðir þinn hefði farið vægilegar með föður minn, hefði hann orðið undir? - Þegar tveim mönnum eins og feðrum okkar lendir saman, verður það barátta um líf og dauða. Hver um sig veit, að það gildir lífið. - Það voru ekki þeir einir, sem börðust. Hvor þeirra um sig hafði fjölda af áhangendum og skjólstæðingum, sem áttu alla velferð sína undir baráttugengi þeirra og ýttu þeim vægðarlaust fram í baráttunni. Það var hvorki meira né minna en leikmannavaldið og kirkjuvaldið, sem börðust. Það var gamla flokkaskiptingin frá Sturlungaöldinni, risin upp í nýrri mynd, - flokkaskiptingin, þessi eldgamla bölvunarfylgja Íslendinga, sem aldrei getur við þá skilið og jafnan klýfur þjóðfélagið niður í rætur. Hún er fráleitt búin að gera okkur alla óblessun enn þá. - Í þessari baráttu varð annar hvor að lúta í lægra haldi, og þeim, sem undir varð, var dauðinn vís. Þar var enginn millivegur hugsanlegur. Faðir minn var sterkari. Fleiri studdu hann að málum, og hann hafði það afl yfir að ráða, sem máttugast er á jörðu. Þess vegna kom óhamingjan yfir vesalings föður þinn. En þú veist ekki, hve mikið faðir minn kann að hafa þurft að leggja í sölurnar til að yfirbuga hann, og hvað hann kann að hafa tekið sér það nærri, þótt enginn yrði þess áskynja. Faðir minn var harðvítugur og óvæginn, lét kné fylgja kviði við óvini sína, jafnvel þó að þeir lægju lágt. - Þess vegna var hann kallaður Gottskálk grimmi. En hann var samt maður. Það vissu vinir hans og vandamenn, og mamma vissi það kannske best af öllum, því að hún elskaði hann. - Seinni fylgikona hans unni honum einnig heitt. Hefði hann hrakist frá eignum og völdum, mundi guð hafa gefið honum konuást til að gleðja hann í örbirgðinni og raununum, eins og hann gaf föður þínum; og konuást fær enginn, nema sá, er eitthvað gott á í fari sínu.

Hlustaðu rólega á mig, Vilborg mín. Ég skal ekki særa þig með einu orði. Ég kenni í brjósti um þig, en hata þig ekki. - Ég man eftir því, þegar móðir þín kom heim til Hóla og leiddi tvö börn með sér. Ég veit ekki, hvort þú hefir verið annað það barn. Hún bauð jarðir og lausafé, en hún vildi ekki játa það að skilja við föður þinn, svo að faðir minn forboðaði hana eins og manneskju, sem lifir í opinberu broti. Ég veit ekki, hvort faðir minn, sem var útlendingur, hefir vitað, að hann hafði hana fyrir rangri sök. Prestar hans töldu honum trú um fjórmenningsmeinbugina og sönnuðu þá með eiðfestum vitnum. Það kemur ekki þessu máli við. En þegar hún fór, sendi mamma mig út fyrir garð á eftir henni, til þess að færa henni bæði mat og klæðnað og peninga. - Móðir þín sat grátandi undir garðinum, þegar ég kom. Ég veit ekki, hvort hún hefir nokkurn tíma vitað, að ég væri dóttir biskupsins. En faðir minn vissi af þessu, þó að hann létist ekki sjá það. Og þegar ég kom heim aftur, klappaði hann á kollinn á mér og sagði: Það er hlutverk ykkar, kvennanna, að græða, þar sem við karlmennirnir neyðumst til að særa. Vel hefði getað farið svo, að ég og móðir mín hefðum setið grátandi undir garðinum hjá föður þínum, og þú verið send til okkar með líknargjöfina. - Mundi þér ekki hafa þótt vænt um þá endurminningu?

Þú þekkir örbirgðina, fyrirlitninguna og valdaleysið, Vilborg mín. En hefirðu nokkurn tíma hugsað út í, hvílík bölvun valdið er? - Nei, auðvitað ekki. - Allir líta á það sem mestu blessun og keppa stöðugt eftir því. Faðir minn hafði vald, meira vald en nokkur maður hafði á Íslandi um hans daga, - þetta vald, sem föður þínum reið að fullu. En til þess að staðfesta þetta vald, hefir hann sjálfsagt unnið sín allra verstu verk. Ég skal segja þér eitt til dæmis, þó að ég vilji ekki sverta minningu föður míns, sem mér er kær og heilög. - Barnunga gaf hann mig burtu frá sér, gaf mig einum voldugasta höfðingja landsins, sem þá hafði misst fylgikonu sína - gömlum drykkjusvola, sem ég hafði andstyggð á, manni, sem spilltur var af allri spillingu samtíðar sinnar. Ég var barn að aldri og vissi ekki, hvað við mig var gert; enda gat ég engu um það ráðið sjálf. En hann vissi það. Hann elskaði mig, og hann fórnaði mér fyrir valdið. Hann vissi, að þessi maður mundi misþyrma mér, að minnsta kosti með ástaratlotum sínum, sem mér bauð við; en hann vissi líka, að hann var lögmaður sunnan og austan og yfirdómari allra dómara landsins, og þar að auki gamall vinur Stefáns biskups í Skálholti. Með mér var keypt og tryggð vinátta með tengdum milli voldugustu manna landsins. - Þetta hefir Gottskálk biskup lagt á mig, dóttur sína, og samt hefi ég fyrir löngu fyrirgefið honum af hjarta.

Ég veit, að þú ert góð stúlka, Vilborg mín. - Þú hefir erft eðli móður þinnar, sem var góð kona, en þú hefir verið ólánssöm. Og mesta ólánið þitt er það, að þú hefir aldrei fundið til þess, hve sælt það er að fyrirgefa. Þú hefir lifað í hatri og hefndarþrá alla ævi þína, og þetta hatur hefir spillt þér sjálfri og öllu lífi þínu. - Systur þínar hafa megnað að hrinda af sér hatrinu og fengið hlutskipti ástarinnar og heimilishamingjunnar að launum. Ég þekki þær báðar og hefi mætur á þeim, og þær rækja engan fjandskap við mig. Þú ein hefir, eins og þú sagðir sjálf áðan, farið um landið eins og brennandi kyndill og kveikt hatur gegn minningu föður míns, dæmt hann og fordæmt hann og fengið aðra til að gera það sama. Ertu nú viss um, að þetta hafi verið það besta, sem þú gast gert? Ertu nú viss um, nema það sé einmitt þetta, sem hefir gert þig að ólánsmanneskju, gert þig bannfærða, eins og þú kemst sjálf að orði? - Ég tala um þetta við þig eins og systur mína og vil ekki særa þig. En veistu nú nema það hafi verið guð sjálfur, sem lagði hönd á þig áðan, þegar þú ætlaðir að kalla bölvun yfir börnin mín?"

Borga hlustaði þegjandi á alla þessa tölu og skildi hana til fulls. En áhrifin, sem hún hafði á hana, voru undarleg og óvænt. Henni fannst hún vera að hrapa. Henni fannst sem þessi kærleiksríku orð og atlot húsfreyjunnar kippa undan sér fótunum, svipta sig því magni, sem fram að þessu hafði haldið henni uppi, og nú væri hún að hrapa, - hrapa viðstöðulaust eitthvað niður, án þess að geta minnsta viðnám veitt. Nú skildist henni það á svipstundu, að allt líf hennar hafði verið eitrað af hatri, allt starf hennar, síðan hún komst á legg, samanhangandi glæpur haturs og hefndargirni, og vitfirring hennar hatursvitfirring. Og það setti að henni óstöðvandi grát.

"Gráttu ekki, Vilborg mín," mælti Kristín blíðlega. "Nú skulum við sættast heilum sáttum og fyrirgefa hvor annarri. Þá er allt, sem okkur hefir farið á milli, gleymt á svipstundu. - Viltu það ekki?"

"Nei," sagði Borga og varði sig mitt í grátinum.

"Jæja, lofaðu mér þá að minnsta kosti að ala önn fyrir þér, meðan við lifum báðar."

"Nei, nei, - aldrei."

"Vertu þá að minnsta kosti hjá mér, þangað til maðurinn minn kemur heim."

"Nei. Ég verð hér ekki einu sinni í nótt," mælti Borga og braust á fætur úr rúminu. - "Ég er þess ekki verðug," bætti hún við í hálfum hljóðum.

"Hvaða vitleysa. - Ég skal láta fara vel um þig. Viltu ekki gera það fyrir mig að vera hjá mér eina nótt?"

"Nei. - Ég ætlaði fram að Holtastöðum til gistingar, þegar ég lenti hingað heim, - sem aldrei skyldi verið hafa. Og nú fer ég þangað."

"En veistu ekki, að það er komið langt fram yfir háttatíma?"

"Það er sama. Ég fer þangað samt. Mér er aldrei úthýst þar."

Þær horfðu um stund hvor á aðra þegjandi. - Loks mælti Borga upp úr grátinum:

"Neyddu mig ekki, - ég bið þig svo hjartanlega um það. Við getum ekki verið undir sama þaki. Ekki einu sinni eina nótt. - Ég er vond, en þú ert góð. - Ég er bannfærð, fordæmd í lifanda lífi til ævinlegrar óblessunar. - Allt, sem menn vilja gera mér gott, snýst mér til ills. - Lofaðu mér nú að fara."

"Ég læt vinnumann fylgja þér fram að Holtastöðum, - hvað sem þú segir."

"Já, það eitt skal ég gera þér til geðs að þiggja."


6. kafli

Vinnumaðurinn, sem fylgt hafði Borgu, kom heim undir morguninn og sagði sínar farir ekki sléttar.

Borga hafði grátið viðstöðulaust alla leiðina milli bæjanna, og henni hafði auðsjáanlega ekki verið sjálfrátt. Stundum hafði hún ætt svo áfram, að hann fékk varla fylgt henni eftir, og þess á milli hafði hún ætlað að hníga niður af þreytu.

Þegar þau komu að Holtastöðum, var auðvitað allt fólk í fastasvefni. Vinnumaðurinn þurfti upp á skjáinn til að vekja upp.

En á meðan gekk Borga honum gersamlega úr greipum.

Það var hægviðri með dálitlu fjúki og miklu frosti. Engin tök voru að finna hana í náttmyrkrinu.

Nú voru mennirnir, sem Borga hafði skemmt með söngvum sínum um kvöldið, rifnir upp úr fastasvefni og teknir til að leita að henni. - Undireins og dagaði var leitin hafin af mörgum mönnum.

Slóðin hennar sást út á Blöndu, sem var stállögð. Þar töpuðu menn henni á glærum ísnum og fundu hana ekki aftur.

Allan daginn var leitað árangurslaust. Loks daginn eftir fannst hún langt uppi í ásunum handan við Blöndu. Þar hafði þessi ólánssami vesalingur lagst til hinstu hvíldar.

Það voru harðsporar eftir hana, sem loks leiddu menn að líkinu. Það leyndi sér ekki, að hún hafði hlaupið í einhverri örvilnunartryllingu, hlaupið eins og hún væri að flýja sjálfa sig, þangað til kraftar hennar voru þrotnir og hún hafði hnigið niður af þreytu.




Netútgáfan - ágúst 1999