NÝI  HATTURINN

eftir  Stephan G. Stephansson



Það var liðið undir jólaföstu, og aldrei hafði verið jafn fáförult og fréttalaust í Nýjadal síðan byggðin hófst þar vorinu áður. Dalurinn var varla hálfnuminn og langt milli býlanna, svo þó grannkonurnar hittust, sem ekki var oft, sátu þær nú geispandi helminginn af stundinni sem þær máttu tefja saman. Sagan um það, hvenær hún Hatta bar og hvernig það gekk svo til, og ágiskanir um, hvenær myndi fjölga hjá henni Tobbu hans Sigvalda, urðu einhvern tíma að taka enda eins og allt annað jarðneskt og fallvalt. Bændurnir voru orðnir úrkula vonar að fleiri flyttu í dalinn það árið, dunduðu sér og þegjandi, en bjuggu þó enn yfir óskinni að komast í stærra nágrenni þar sem enginn tæki þó frá sér næstu löndin.

Reyndar höfðu skeð teikn og stórmerki langt úti í heiminum og dalverjar hefðu getað rætt þau með algengri skammsýni og hlutdrægni, því þeir voru menntaðir menn en enginn villilýður, og lásu ævinlega nokkuð af dagblöðum, en margt í þeim jafnvel var engum þeirra hugfast efni og gleymdist er það var lesið. Helst loddi stundum í samræðunum eitthvað úr almennu fréttunum ef þeim fannst það sögulegt, svo sem ef einhver bófinn var sagður að hafa unnið gamaldags glæpaverk með nýstárlegri eða ráðdeildarsamari aðferð en þeir höfðu heyrt getið um áður. Fréttirnar frá friðarþinginu í Haag hlupu þeir yfir, þær snertu hvorki hug né hag dalverja. Jafnvel þarna í dalnum, þessum litla útgróðri í jaðrinum á mennskra manna byggð, stóðu rætur til þess að mannúðar-hagviska einstaklings, sem forlögin höfðu sett í harðstjórasessinn, hlaut að ganga "bónleið til búða" frá stjórnfrjálsri erfðaheimsku sjálfra lýðveldanna. Enginn er frjálslyndur nema hann hafi sjálfur kennt til undir hlekkjunum. Ribbaldasöngvar Kiplings eru kveðnir upp úr huga enskra metnaðarmanna, en mannúðarhugvekjur Tolstojs koma frá hjartarótum Síberíuútlagans. - Mann fram af manni og öld eftir öld höfðu allir forfeður þessara dalakarla lifað einangraðir og langt innan við þessar öfgar mannheimsins. Samband sitt við öll stórmál veraldarinnar lá þeim svo í jafn léttu rúmi eins og hvernig bárufleygarnir hans séra Odds og gufuskipin hans séra Jens hefðu getað æxlast út í kenningu Krists sem kirkjuritið þeirra hafði einu sinni drepið á. Nýdælir voru aðeins lítil skvetta af íslensku útfalli sem nefnist "vesturflutningur", og hún hafði staðnað þarna uppi í botnflatri lægð í sléttuflæminu sem þeir örnefndu Nýjadal.

En þegar fréttaneyðin í Nýjadal stóð þarna hæst var hjálpin líka næst, eins og allténd er nema í dauðans aftökum. Einn af dalakörlunum kom heim úr kaupstaðnum sem eitt fyrir sig var nú merkur viðburður þó sú furða hefði ekki bæst á að hann hafði nýjan hatt á höfðinu. Ekki af því að hattur hefði aldrei sést þar í byggðinni því Nýdælir voru menntaðir menn og hattar voru hversdagsbúningur, en það voru flest gamlir hattar og í upphafi ódýrir, en þessi hattur var nýr og snotur og sýndist vera góður gripur. Enginn kunni hugum um það að hyggja hvílíkt afarverð slík gersemi myndi hafa kostað, og þó að nærri hver karl og kona í byggðinni reyndi að stinga upp á þeirri upphæð eftir besta viti sínu lá það samt eins og sameiginlegt ólán á almennings-meðvitundinni að það voru þó aldrei nema óáreiðanlegar getgátur sem öllum gæti skeikað meira eða minna. Þó þetta væri stór óhamingja sem ekki varð hjá komist, því hatteigandinn varðist að segja neitt ákveðið þó vikrað væri í kringum hann, var þó sú bót í máli að umtalið var byggt á einu sem var óyggjandi, en það var að eigandi hattsins var sárfátækur eins og Nýdælir voru allir í þá daga. Það lá því í augum uppi hvílíka viðbót við vetrarforðann, sem alls staðar var af skornum skammti, hefði verið hægt að fá fyrir hattverðið ef ráðdeildarmenn, eins og þeir voru allir sjálfir, hefðu átt með það að fara.

Þannig varð það að hatt-sagan entist dag eftir dag nærri fram á sólstöður. Á endanum var hún þó rædd samhliða öðru máli sem fór líka að verða þýðingarmikið. Það voru orðnar tæpar tvær vikur til Þorláksdags, en ekki farið að útkljá það hvort nokkur þar í byggð, og ef nokkur hver þá helst, myndi eiga kjötbragð handa sér til blessaðra jólanna.

Hattsins var varla minnst eftir nýár. Allir voru orðnir þreyttir á honum sem umræðuefni; flestir búnir að sjá hann og fannst nú með sjálfum sér að það sæist "ekkert merkilegt á honum". Enginn gat hans þegar hann hvarf, og varð hann þó skammær. Hann fauk af höfði eigandans í öskudagsofsanum árið eftir og var þá orðinn bæði lúður og beyglaður. Eigandinn varð heldur ekki langævur. Tveim sumrum eftir að hattsagan hófst ritaði einn Nýdæla langa grein í eitt íslenska blaðið með fyrirsögn "Fréttir frá Nýjadalsbyggðinni". Fréttir voru ekki nema fimm seinustu línurnar, en þeim mun nákvæmari var inngangurinn sem tók það margsinnis fram að af því enginn inna mörgu gáfuðu og ritfæru manna, sem heima áttu í Nýjadal, hefði enn tekist í fang að fræða heiminn um þá viðburði er þar hefðu skeð, sem væru þó engu óáheyrilegri en annarra sveita tíðindi, þá riði nú greinarhöfundurinn sjálfur á vaðið, en þó með hálfum hug; hann fyndi svo sárt til þess að slíkt vandaverk væri sínum kröftum ofvaxið. Það væri aðeins af því hæfari mennirnir hliðruðu sér hjá því, að nú kæmi sá fram sem síst væri til þess fallinn. Aftan í þetta eintal um hjartanlegt lítillæti bætti hann svo því að nýlega hefði maður þar í byggðinni slasast við þreskivél og beðið bana af. Sá sem við var átt var eigandi hattsins. - Það sýnir yfirburði mannsins yfir dauðu hlutina að um fokinn hatt hugsa fáir nema eigandinn, en mannslátið kemst ef til vill í dagblöðin.

Í öðrum árgangi af Nýjadals fréttunum, sem kom út tólf mánuðum seinna og voru ritaðar af sama höfundi, var þess getið að ekkja mannsins, "hans sem slasaðist við þreskivélina og dó af því," hefði verið gefin í hjónaband af "Reverend séra Baggy" fyrir nokkru síðan. Það hlaut að vísu að vera huggunarfrétt þeim sem hugkvæmdist að ekkjan væri einstæðingur og aumkuðust yfir það.

- - -

Nú á tímum eru hversdags viðburðir eins og það, að hattur fýkur, varla neitt hugvekjuefni. Hefði til dæmis Esekiel til forna getað sagt frá hattfokinu eins og spámannssýn og Páll frá Tarsus nokkrum öldum seinna minnst á ævilok eigandans í sendibréfi, þá hefðu trúaraugu okkar opnast og við þóst sjá leyndarfullt samband milli þessara viðburða, fullvissir um það að einu sinni hefði forsjónin tekið feður okkar tali með bendingamáli. En þó við höfum týnt þeirri postulagáfu að sjá fyrirboða nýrra viðburða í munnmælum fornaldarinnar, þá glöggvum við okkur nú öllu betur á afleiðingum þess sem fyrir kemur í heiminum. Og enginn getur enn séð fyrir endann á eftirköstum þess að hatturinn komst þar upp í Nýjadal. Það eru nú liðin tuttugu ár síðan að hann sást þar fyrst, en áhrifin sem af því stafa verða sífellt stórbrotnari og greinilegri með hverju árinu.

Þú glottir nú um tönn, lesari góður, og ég veit að hverju þú brosir. Þú lest það, sem aðrir hafa skrifað, þeim til umvöndunar og sérð sem er að þarna nærðu í lurginn á stórri tímavillu hjá mér. Friðarþingið var í fyrra; hatturinn kom til sögunnar sama haustið, og þó hafa síðan liðið tuttugu ár í Nýjadal. Fyrr má nú vera skáldskapur. Brjóttu þetta út eins og þú getur, góði minn, en hlífðu mér við einu: kallaðu það ekki "anakrónismu" eða einhverju þessu stóra nafni sem alþýða skilur ekki og er hrædd við, því það gerði út af við mig meðal lýðsins. Auðvitað er það barnaskapur af okkur múgamönnunum að vera svo skelkaðir við lærdóminn að hann þurfi ekki nema að vera hátíðlegur í rómnum til að ógna okkur þó við skiljum ekki orðin. En ekki verður nú aðgert; þetta er arfur sem við megum ekki farga. Við fengum hann frá feðrunum okkar guðhræddu sem hlustuðu með lotningu á það að presturinn sinn særði illu andana út úr hvítvoðungnum, sem hann átti að skíra, í mörgum atlögum af skakkhnykktri latínu. Ef þú lætur nú þetta lítilræði eftir mér, minn góðfúsi og sanngjarni, þá skal ég líka vilna þér ögn í aftur. Lestu ekki lengra en fram að þessari tímatalseyðu fyrr en eftir tuttugu ár, og ég skal veðja við þig spánýjum silkihatti móti hattinum sem fauk, að aldarhátturinn í Nýjadal kemur þá alveg saman við ártalið rétt eins og hann var í gær. Mér er þetta alvara, og ætla ég þó ekki að tapa silkihatti, hvorki lifandi né dauður.

- - -

Torfi og Teitur voru andbýlingar miðreitis í Nýjadal, efnisbændur og mátar, áður en hattfréttin barst út. Vegna afstöðu sinnar í byggðinni og ósérhlífni að taka góðan þátt í almennum umræðum um sveitarmál sluppu þeir ekki hjá að leggja orð í belg í þjóðsögu hattkúfsins. Í upphafi greindi þá á um málavöxtu og fylgdu sinni þýðingu hvor. Torfi þeirri sem almennust var, að hatturinn hefði verið keyptur dýru verði og mesta óhyggindakaup, og sannaði það líka með sögunni af Franklín gamla og hljóðpípunni hans. Teitur sagði að manninum hefði verið gefinn hatturinn af kunningja hans í kaupstaðnum, og væri reyndar aflöguhattur snyrtimanns nokkurs sem hefði ekki þótt hann fara sér vel og sjaldan sett hann upp. Þessa ávænu lést Teitur hafa fengið frá eigandanum sjálfum. Út af þessum meinlausa skoðanamun reyndu þeir Torfi sig einu sinni á orðakasti, fyrst líkindarökum sem fljótt þrutu, svo spaugsyrðum sem náðu heldur ekki langt, og seinast á hnífilyrðum sem urðu endingardrýgst. Hvorugur hafði þó verulega reiðst, en eftir á voru báðir óánægðir með sjálfa sig, hvorugur var sannfærður um að hafa mátt betur og fannst jafnvel vafasamt hvort ekki væri eitthvað óborgað eftir. Þeir hittust og töluðust við glaðlega og illindalaust eins og áður, en frá þeim tíma urðu þeir keppinautar í öllu. Ef Teitur fór til hægri vék Torfi til vinstri í hverju máli sem var. Sama gerði Teitur. Það lagðist í þá óafvitandi, eins og líka var, að leiðirnar til foringjastöðunnar í Nýjadal voru ekki breiðari en svo, að þar komst ekki fyrir nema ein kóróna á hverri, sem var of lítil á tvö höfuð eða fleiri.

Teitur var híbýlaprúður, hýsti bæ sinn vel og reisulega og yfir efni fram. Því var hann í skuldakröggum. Rúmur ársarðurinn af öllu búi hans eyddist oft til að borga öðrum vöxtu. Í óáran urðu fjárskyldurnar þyngri en þær sem Gyðingar forðum guldu prestum sínum og Jehóva, tíundi hluti af öllum afurðum, en misærið óskipt í heimatekjur. Teitur átti sífellt í áhyggjuvök að verjast, en honum fannst það meira en tilvinnandi þegar hann leit yfir nýja húsið sitt og bar það saman við gamla kofann hans Torfa hinum megin í dalnum.

Torfi lagði lítinn hug á stórbyggingar. Víðlendir akrar og stór landeign var honum meira í mun. Hvar sem landskiki var falur með góðum kjörum hafði Torfi klófest hann, ekki síst í nágrenni við Teit. Þó honum fyndist stundum að annríkið væri að gera út af við sig að stunda alla þessa akra, varð hann ætíð rólegur ef honum datt í hug að húsið hans Teits eyddist þó og gengi af sér árlega, en lendurnar sínar bæru arð og hækkuðu stöðugt í verði. Gamli kofinn varð honum samt oft til skapraunar. Húsfreyjan sagði honum það svo oft og skorinort, einkum ef gestir heyrðu, að hún ætti það upp á grútarskapinn og smekkleysið hans að eiga ekki eins gott hús eins og konan hans Teits.

Báðar hafa þær húsmæðurnar víst átt marga ánægjustund af fallegu húsnæði og hæstri uppskeru. Þær grunaði líklega aldrei hve mikið það var nýja hattinum að þakka.

Svipað fór um stjórnmálin. Torfi og Teitur voru aldrei flokksbræður. Ef Torfi var íhaldsmaður var Teitur framfaramaður, eða þeir höfðu á því hausavíxl. Torfi var safnaðarstólpi og barst með kirkjustefnunni sem er samkynja og okurfélaganna: að styggja ekki þá stjórn sem er, hvað sem hún heitir, ef hún hefir látið öll hlunnindi þeirra í friði. Lögverndaðar stofnanir hætta ekki sjálfum sér út í tilvonandi samninga við ókomið vald nema þegar afturkippir gera við þær bandalag. Torfi fann þó til þess með sjálfum sér að hann fylgdi íhaldsflokknum sér þvert um geð þegar tollvernd var hæsta markið. Hann var hagsýnn bóndi og sá, að sér var útlát í að borga ríkum mönnum vöxtu þegar hönd seldi hendi, og þó hélt hann því fram og varði það með frekju vísvitandi veiks málstaðar.

Teitur fylgdi frjálslynda flokknum og tolllækkun, en var þó engu ánægðari við sjálfan sig en Torfi. Hann var víðsýnni og sá að því var lofað sem ekki yrði efnt, eins og kunnugir vissu. Venju-stjórnin hafði fléttað útgjaldatöglin til margra ára fyrirfram, og umbótastjórnin sem tæki við yrði að smíða þeim nógu stórar inntekta-hagldir svo ríkissátan færi ekki úr böndunum. Annað var ekki hægt hverju sem lofað var. Honum stóð svo mikill hagfræðingsstuggur af þjóðstjórnarmannvitinu að þegar jafnmikils þyrfti við dygði ekki að kippa því fé öllu af í einu eins og reifunum af sauðunum á vorin. Það yrði að smáklippa ofan af með hægð - fólk trylltist enn meira við að missa þann lagð allan í svipan en sauðirnir - til þess var einhver vörutollur ómissandi handhægð.

Þegar íhaldsflokkurinn varð undir fannst Torfa þó hann verða rólegur með sjálfum sér yfir sinni frammistöðu fyrir hann, og hafa einskis að iðrast, einkum af því Teitur hafði staðið svo fast á móti. Teiti þótti líka vel sem varð og nóg málsbót í því sem hann styrkti að sigri frjálslynda flokksins, hversu Torfi var honum andstæður.

Líkt fór um næstu kosningar. Þá var Torfi samt orðinn frjálslyndur af því sú stjórn sat í völdum. Hann hafði gefið klukku til kirkjunnar; svo var honum hringt með henni. Teitur var líka orðinn íhaldsmaður. Hann fann ekki að landshagur hefði breyst til batnaðar við mannaskiptin í ráðhúsinu, nema veðurátt var góð og uppskerubrestur erlendis sem hann þakkaði annarri stjórn en þeirri sem ráðin er með almennum kosningum. Það stóð á sama hverjum megin flokkslandamerkjanna maður bjó, þjóðsamtíningurinn var eins, sveitarsvipurinn líkur, litunum í flöggunum var aðeins öðruvísi hagað. Svo var Torfi kominn yfir í frjálslynda flokkinn. Hvorugur var þó enn alls kostar ánægður með afstöðu sína. Hatturinn hafði að vísu mannað þá andlega upp sem dugandis atkvæðasmala í sinni þinghá, en þeir höfðu enn ekki náð þessum pólitíska fullþroska sem "gefur sinn skilning fanginn" undir allt sem flokkurinn manns býr til, sem skiptir upp stjórnmálaheiminum svo fyrirhafnarlaust fyrir sjálfan mann í ina rértlátu, mann sjálfan og flokkinn manns, og ina ranglátu, bófana og illmennin, alla sem ekki greiða atkvæði með manni. Þeir höfðu enn ekki getað losað sig alveg við að hugsa og álykta fyrir sig þó þeir gerðu það þegjandi. Þó það sé órækur vottur um dálitla skynsemi í flestum málum á það illa við flokkspólitík. Torfi vissi það af eigin reynslu að frjálslyndi flokkurinn hafði svikið að létta tollana, sem hann sá að hefði orðið sér stjórnarbót, drengilega efnt; það var því fjær sanni að fylgja þeim flokki nú heldur en þegar Teitur studdi hann. Teitur kunni heldur ekki við sig í sínum íhaldshóp. Þó lítið munaði var það samt ögn ógeðslegra að vinna þeirri hliðinni sem heitstrengdi að stjórna gagnstætt því sem manni sjálfum virtist betur fara, heldur en þó að fylgja hinni sem samsinnti álit manns og lést myndi framkvæma það, jafnvel þó maður vissi að það loforð reyndist tál.

Það er enn ekki útséð hverjar stjórnarbyltingar verða raktar til þess að sá hattur kom í Nýjadal.

Torfi var kirkjumaður og safnaðar-forráð. Teitur var utankirkjumaður og únítari. Torfi lagði sig fram um kirkjubygging, safnaðarlöggjöf og prestkosningu og var óslítandi við fjárreyting í því skyni. En þar endaði hans trúarlíf. Hann lét því, sem hann kallaði kristindóm, það í té sem efni voru til: féstyrk og forgöngu sína. Innra trúarlíf átti hann ekki til. Þegar hann leit yfir sléttuhallann, upp til hans nágranna síns, Teits únítara, gat hann ekki varist að hugsa um það að óprýði væri það fyrir sveitina hinum megin að þar sást engin kirkja. Þá ásetti hann sér ævinlega að hafa næsta "offrið" ögn hærra en hann hafði hugsað sér áður, svo kirkjan sín megin gæti keypt vandaða klukku eða fallegan predikunarstól. Þó hann ekki tryði kenningunni um eilíft helvíti út í ystu æsar, af því hann var Íslendingur og reyndar góðmenni, og verði hana af allri sinni andlegu illfylgni aðeins þegar á hana var ráðist (eins og nútíðar prestur) og fyndi að hann varð að hleypa í sig hörku til þess, gat hann ekki hrakið það úr hjarta sínu þegar hann leit heim til vantrúarmannsins beint á móti, að ritningin talar um "óslökkvandi eld" og "ódauðlega orma". Að minnsta kosti hlaut að vera til stór munur. Hvert gagn var að hafa eflt guðsríki um mörg hundruð dollara og aldrei brugðist "barnatrúnni", ef öllum yrði gert jafn hátt undir höfði að lokum?

Hatturinn hafði auðvitað aldrei komist upp á að gera teikn og kraftaverk neitt svipað eins og skrínið hennar sankti Önnu. Furðanlega hafði hann þó styrkt kirkjuna í Nýjadal þó fáir vissu, hversdagshattur eins og hann hafði verið og liðið undir lok hjá trúarflokk sem ekki hirðir um helga dóma.

Teitur var ekki algerður únítari heldur. Hann varð að taka sér þetta nafn til aðgreiningar frá Torfa sem nefndi sjálfan sig "kristinn" í öðru hverju orði eftir að hann fór að fást við kirkjubygginguna. Svo átti Teitur marga andlega fylgifiska, bæði innan og utan safnaðárins, sem trúðu því með sjálfum sér að Teitur færi beinasta og viðkunnanlegasta veginn til eilífs lífs þegar öllu væri á botninn hvolft, þó þeir kinokuðu sér að taka á sig únítara-nafnið.

Þó ólíklegt væri, þá varð hatturinn samt fyrsti frömuður biblíufræðinnar í Nýjadal, en ekki presturinn.

Það mættu ókunnugir ætla að fréttaritarinn, sem ég gat um, hefði orðið andlegur leiðtogi í Nýjadal næstur Torfa og prestinum, en ekki Teitur. Byrjun fréttagreina hans sýndi að hann var líklegur til höfðingja. Alþýða ber virðingu fyrir þeim mikla lærdóm sem til þess þarf að skrifa fréttagrein í blað, og hún hænist að lítillætinu sem metur sjálfan sig öllum ófærri í menntalegu atgervi; það sýnir að lærdómurinn getur verið hrokalaus og alþýðlegur. En svo kom annað fyrir þegar fram í sótti; fréttaritarinn hafði ekki leitt hjá sér hattmálið þegar það stóð hæst, en samt ekki gengið eindregið í hvorugan flokkinn. Þegar hann var staddur austanvert í dalnum, í nágrenni Torfa, voru skoðanir hans um hattinn svipaðar eins og þær sem þar lágu í landi. Kæmi hann vestur yfir, á kjálkann til Teits, breyttust þær í líkt horf eins og þar átti best við. Þessi alheimsborgarabragur þótti grunsamlegur í útskekklabyggð eins og Nýjadal. Þegar svo það bættist við að í sumum fréttagreinum sínum hafði fregnritaranum mistekist að segja nákvæmlega frá veðurátt og uppskeru yfir alla byggðina, hafði t. d. talið meðaluppskeruna af ekrunni 15 bushel þegar hún var þó hárrétt reiknuð 16 5/8 að almennu meðaltali, en hvergi 15 nema á "blettinum" hans, mislíkaði öllum mjög við hann, þótti hann gera byggðinni opinbera minnkun sem von var. Þótt Nýdælir hygðu að lærdómur en ekki skilvísi væri undirstaða almennrar fréttagreinar, fundu þeir að þessu og sórust síðan undan forustu fréttaritarans í flestu.

Hatturinn hafði á merkilegan hátt gert menn fátæka og ríka í Nýjadal og lækkað þá og upphafið.

Að vísu þversynjaði Teitur fyrir að hann tryði eilífri útskúfun þó hann aftæki ekki með öllu að þjálfa þyrfti til einstaka mannssál í heimi andanna hinum megin. En oft þegar hann gekk hjá landspildu, sem lá við jörðina hans og Torfi hafði tekið með löglegu fjárnámi af fátækling einum gat Teitur ekki að því gert að honum flaug stundum í hug að betrunarvinna Torfa í öðru lífi kynni að verða nokkuð löng.

- - -

Áhrif hattsins á sálarlíf dalverja eru stöðugt að útbreiðast, og hver getur sagt hvenær þau hverfa. Það er víst að Nýidalur þykir nú ganga næst þeim byggðum Vestur-Íslendinga sem blómlegastar eru taldar og mest er hrósað fyrir andlegt líf. Hatturinn í hendi forsjónarinnar hefir nú rótað svo um í sálunum í Nýjadal að þegar pólitík og guðrækni getur orðið að beinum bjargræðisvegum sumra heldri mannanna, sem bráðum verður þar eins og annars staðar í þessu framfaralandi, þá verður Nýdælum óhætt að stæra sig af áhugamálum og hugsjónum eins og merkari byggðirnar hyllast nú til að gera.




Netútgáfan - maí 1998