Af því veturinn var harður og fénaðinum ætlað helst til lítið fóður um haustið, sýndist helstu forvígismönnum hreppsins ráðlegast, að halda almennan sveitarfund rétt eftir nýárið.Það voru líka ýmis önnur málefni sem nauðsynlega þurfti að fjalla um; fjallskilamál, bjargarskort hjá tveimur fjölskyldum, sem nú þurftu að snúa sér til hreppsnefndarinnar með beiðni um hjálp; "halta Aron", hvernig honum yrði kjálkað niður til vorsins; þá eyddist og langur tími til að ráðgast um hvað snjallast mundi að taka til ráðs í skærum þeim sem hreppurinn átti í við Sandahrepp, en tilefnið var óreiðumaður sem hvorir vildu gefa öðrum, og var sótt og varið með kappi. Fleiri voru þar önnur smærri mál svo ærið nóg var að gera, með því líka, að hér þurfti sem oftar, að samlaga sundurleitar skoðanir og velja bestu ráðin.
Sum málefnin urðu heldur ekki til lykta leidd um daginn, sem var mikils til of stuttur fyrir svo mikið starf; var seint settur fundurinn eins og þar var siðvandi til, og húmið færðist yfir áður en menn varði. Þinghúskytran lága og dimma var hráslagaköld og óvistleg til langdvala, enda fóru ýmsir bændur að sýna á sér ferðasnið og tveir hurfu skyndilega án þess að kveðja þingheiminn.
Ég var ungur og ekki þrautseigur fundarmaður að eðlisfari; satt að segja hafði mér dauðleiðst um daginn - þó skömm sé frá að segja - og hélt besta ráðið að halda heimleiðis líka; enda fann ég vel, að þó ég hefði þagað og morrað í sæti mínu allan daginn, var ég þó í meira lagi liðléttur verkmaður í sveitarfélaginu; vissi vel að skarð mitt í félagshringnum yxi engum í augum; líkast að fáir tækju eftir því, né hirtu hót um það. En nágranni minn, sem hjá mér sat, var miklu skylduræknari og meiri starfsmaður í sveitarfélaginu; hann hefur eflaust séð hvað ég hafði í hyggju, og hvorki viljað tapa af samfylgd minni heim né vanrækja skyldu sína með því að læðast af fundinum:
"Við skulum ekki fara strax, mig grunar að eitthvað sé eftir, sem við viljum ekki missa af," sagði hann lágt og hnippti í mig.
Ég hristi höfuðið. "O, ekki held ég það, nú hlýtur að vera komið að fundarlokum," en ég settist samt.
Skömmu seinna var kveikt ljós, en nú varð að hafa hurðina opna, annars gat ekki logað á lampanum. Þá reis fundarstjóri upp og sagði:
"Svo er það eitt málefni enn, sem ég vil bera upp og verð að skora á menn, að hlaupa ekki strax burtu, ef þeir eru ekki því hræddari við að villast á heimleiðinni ef skyggir að."
Það varð þögn eftir þessi orð fundarstjóra, sumir voru forvitnir og fúsir að heyra borið upp eitt málefni ennþá og flestir betur fallnir til að hlýða "fundarsköpunum" en ég, sem blóðroðnaði.
Nú datt engum í hug að fara í bráðina.
"Hérna í dag var nokkuð minnst á sveitarþyngsli og vandræði," sagði fundarstjóri, "og engum getur blandast hugur um að horfurnar eru allt annað er glæsilegar. Þessi árin fjölgar þurfamönnum alltaf, útsvörin hækka og það svo, að til stórvandræða horfir með að gjalda þau. Það lítur ekki út fyrir að við getum kippt þessu í lag bráðlega; en við verðum að fara varlega; spara bæði eigið fé og hreppsféð engu síður. Og við verðum líka að gæta þess að utansveitarmenn verði ekki að þarflausu handbendi hreppsins; ef við höfum ekki bæði augu opin hugsa ég að innan skamms verði búið að fylla hreppinn hérna."
Fundarstjóri þagnaði og leit dökku augunum yfir okkur bændurna. Enginn tók til máls en ég heyrði þessi orð héðan og handan: "Það er hverju orði sannara." "Ég held nú það." "Víst þarf að gæta að því." "Þetta finnst mér líka." "Það er svo sem auðvitað, að það þarf að gæta almennilega að þessu."
Þá tók fundarstjóri til máls aftur: "Þið vitið að fleiri en einn sem nú þurfa sveitarstyrks eru menn sem hér hafa orðið innlyksa, sem hefur með kænsku verið smeygt hér inn, af því við höfum ekki verið nógu vakandi eða harðskeyttir. Í sjálfu sér er hreppareksturinn illur og skaðlegur, en þegar aðrir ýta af sér með hnúum og hnjám, þá getur hún orðið okkur nokkuð dýr þessi mannúð, þetta meinleysi og friðsemi. En svo ég nú komist að efninu; þá er ykkur það öllum fullkunnugt, að nú skortir ekki nema eitt ár til að hann Sveinn á Hjalla verði hér hrepplægur; að vísu er hann duglegur vinnumaður en ekki græðir hann samt. Meðan hann var einhleypur þurfti síður um að ræða, en nú er hann kominn fast að giftingu, bæði eru bláfátæk og jarðnæðislaus, að því ég hygg. Ég held, að það geti verið varúðarvert bæði vegna þrengsla í hreppnum og annarra sveitarþyngsla, að Sveinn ílengist hér og vil því vara bændur við að ráða þau til sín næsta ár. Þessi aðferð þarf ekki að særa þau, ef með gætni og lagi er farið, enda vil ég forðast það í lengstu lög að særa fólk. Ég vildi gjarna fá að heyra álit annarra um þetta málefni, og satt að segja vil ég ekki gera þetta að kappsmáli, en benda mönnum bara á það, sem mér sýnist skynsamlegast."
Ræðumaður þagnaði og horfði aftur yfir hóp okkar sem í birtunni sátum. Enginn reis á fætur til að tala en aftur heyrðist: "Það sýnist mér nú réttast." "Með þessu móti getur það gengið friðsamlega." "Sveini mundi nú farnast fullt svo vel í Hverfinu, þar er hann kunnugur og miklu léttara að afla heyjanna." "Jú, á því er ég nú líka að þess þurfi."
Raddirnar sem rómuðu þannig uppástungu fundarstjóra gerðu mér illt í skapi - ég verð að játa það. Ég vissi vel að Sveinn hafði lifað hér æsku og þroskunarár sín, fellt sig mætavel við mannlífið og sveitina; að engin von var til að efni hans væru meiri og að hann var enginn eyðslumaður; áður hafði ég ekki hugleitt að Sveinn yrði manna þurfi, heldur sjálfbjargamaður. Nú sá ég að aðrir voru hræddir, og það gat farið svo að þeir yrðu forspárri en ég, ekki síst ef farið yrði að hrekja þau móti vilja sínum um leið og þau færu fyrir alvöru að hugsa um efni sín. Mér fannst þeim gert harðleikið að hrekja þau burtu nauðug því að það vissi ég glöggt, að báðum mundi þvert um geð burtförin. Verið getur að leiðindi mín um daginn og heimfýsi hafi gert mig örari og óskapgæfari; komið mér til að standa á fætur og tala; mér var erfitt um málið, rak að minnsta kosti fyrst heldur í vörðurnar. Ég vildi tala máli Sveins og það held ég menn hafi getað skilið, en dauðans litlar skynsamlegar ástæður hef ég víst fært fyrir því; að minnsta kosti var hæðnisglott á andliti fundarstjóra, það sá ég þegar ég var sestur og mér virtist sviplíku bregða fyrir hjá sessunautum hans.
Fundarstóri reis á fætur, hvessti á mig augun, tók svo til máls og tætti í sundur það sem ég hafði sagt, var oft napur og hæðinn: "Auðvitað, ef hann væri búinn að ráða að byggja þeim Sveini af jörðinni, væri það fallega gert," eða: "Taka þau fyrir vinnuhjú og kenna þeim að spara og græða, væri það líka gott og blessað, þá þyrfti ekki að gera ráð fyrir að hreppurinn hefði neitt að óttast." Svo lauk hann ræðunni með þessum orðum: "Getur verið að fleiri séu á sömu skoðun og ungi, snjallyrti bóndinn sem talaði næst, en það raskar ekki minni skoðun, ég er nú orðinn gamall og hef oft haft afskipti af sveitarmálum; reynslan hefur kennt mér og þá reynslu á ræðumaðurinn eftir að fá. Það þarf ekki langar umræður um annað eins smámál og ég vil bara biðja þá sem tala að gera með fám orðum grein fyrir skoðun sinni."
Ég vissi vel að ég hafði lítið með vinnufólk að gera og að kotið var ekki til tvískiptanna; ekki svo beysið að það bæri okkur Svein báða. Ég fann sneiðyrðin og stóð hvatlega á fætur, ég þóttist sjá að ekki mundi áorkast fyrir hönd Sveins, vissi fylgismun okkar fundarstjóra, en ég vildi launa lítillega fyrir okkur báða og nú var mér mun léttara um orð. Þegar ég settist stóð fundarstjóri upp og sagðist ekki mundi skattyrðast við þá menn sem strax lentu í ónotum og hnútukasti; hann var eldrauður í andliti þó hann roskinn og ráðinn væri. "Ef fleiri vilja taka til máls áður en gengið er til atkvæða er best þeir geri það strax." Það er tekið þétt á öxl minni en sú hönd fannst mér skjálfa, ég leit upp og horfði beint í andlit Þorvaldi í Teigi. Hann hafði áður setið miklu framar. Mig furðaði hvað fölur hann var og datt strax í hug: "Skyldi Þorvaldur ætla mér þegjandi þörfina líka?" Það var ekki gott að vita hvoru megin hann yrði svo fáorður á mannfundum sem hann var og þurr á manninn.
"Ég skal ekki halda langa tölu og ég skal reyna að gera mína skoðun svo skiljanlega sem ég get. Það þykir ef til vill undarlegt að ég sé á sama máli og ungi bóndinn frá Seli, en það er nú samt svo. Og þó fundarstjórinn og uppástungumaður þessarar merkilegu tillögu reyndi að gera hann hlægilegan, þá breyttist skoðun mín ekkert við það. Ég lýsi því yfir svo allir fundarmenn heyri, að ég tek þau Svein fyrir vinnuhjú ef mér sýnist, eða byggi þeim af jörðinni, ef svo vill verkast. Þess konar samþykktir og félagsskap ætla ég mér aldrei að styðja né gefa atkvæði. Mér liggur í léttu rúmi þó þið, sveitungar mínir, kallið mig þverhöfða og þumbalda fyrir þetta; mig klæja ekki svo mjög eyrun fyrir því. Þó fundarstjórinn líti hvössum augum til mín digna ég ekkert við það. Við tveir þekkjumst dálítið að fornu fari; en nú er svo komið að Ásbjörn í Brekku má hóa eins og hann getur, ég hrekk varla langt fyrir því, og siga svo sem hann orkar, ég verð aldrei hundurinn hans. Mér stendur enginn ótti af féleysi Sveins -, það mun sannast, ef mennirnir ekki hrinda honum og stjaka og ef heilsan endist, verður hann bjargálna maður. Hann hefur enga tilhneigingu til að tildra upp skuldabúi sem velti við fyrsta harðærisstorminn; getur verið að hann hafi hvorki löngun né hæfileika til að búa stórt, velta sér í skuldasúpunni og berast mikið á. Og þó að fundarstjóra geðjist það ekki, þá virðist mér kominn tími til að hægja heldur á þessum hrepparekstri."
Svo settist Þorvaldur niður hjá mér og ég fann að hann skalf þessi kaldlegi, rammvaxni maður.
"Þá er að ganga til atkvæða ef ekki óska fleiri að taka til máls. Og ég lýsi því yfir í heyranda hljóði, að hver sem heldur Svein næsta ár ber ábyrgð af honum eftirleiðis," sagði fundarstjóri; hann var líka skjálfraddaður. Þorvaldur í Teigi hló kaldglettulega.
Tuttugu og níu atkvæði voru móti Sveini en við hinir urðum aðeins fimm saman.
Ásbjörn á Brekku sleit fundi um leið og lokið var atkvæðagreiðslunni og bjóst snúðuglega brottu, hann var nokkuð gustmikill og hafði fátt um kveðjur.
"Viltu hýsa mig í nótt; ég næ ekki heim til mín í kvöld, og við höfum um stund átt vandræðafélag saman," sagði Þorvaldur við mig um leið og við fórum af stað. Ég tók því glaðlega. Svo fór ég aftur að hugsa um hvað grunnhygginn og ómannglöggur ég var. Nú var svo auðséð, að Þorvaldur hlaut að taka málstað Sveins og rísa öndverður gegn Ásbirni. Það lifði lengi í gömlum glæðum.
Okkur varð fátt að orðum fyrsta spölinn; og við afþökkuðum veitingarnar sem granni minn margbauð okkur. Hitt tafði ekki tímann að dreypa á flöskunni hans. Svo talaði Þorvaldur nokkur orð við hann hljóðlega. Granni minn rétti honum flöskuna, og Þorvaldur stakk henni í hliðartösku sína; svo kvöddum við og fórum.
Rétt norðan við túnið stóð Þorvaldur við, dró upp flöskuna og sagði: "Við skulum hérna á melnum drekka skál minni hlutans í dag. Ekki gerir Ásbjörn og fylgifiskar hans það fyrst um sinn --. Svona, hafðu þökk fyrir að þú lappaðir þó ekki slóðina."
"Vankasauðir ganga vanalega utanslóðar."
"Og líka einþykkar eða framgjarnar kindur, ég hef meiri mætur á þeim en hinum, sem ævinlega eru í halarófunni; lötra brautina."
"En þær eru vanalega fjandi bágrækar, bæði í haga og ekki síður úr honum."
"Það á nú samt betur við mig. Ég tala ekki um vankasauði."
Svo varð stundarþögn. Þorvaldur lét broddstafinn glymja á grjóti og gaddi; hjó honum þéttlega niður og gekk hratt. Allt í einu sneri hann sér að mér og sagði:
"Þér er víst ekki ókunnugt um, að fátt er milli okkar Ásbjarnar þó ekki deilum við að jafnaði. Þú munt líka renna grun í hver tildrögin eru --. Mér var einu sinni sópað héðan burtu, til að létta á hreppnum. Í góðviðrinu í kvöld ætla ég að segja þér söguna af því, sumt hefurðu heyrt öðruvísi, sumt ekki -. Við skulum ganga í hægðum okkar, ekki liggur neitt á -. Já - ég kom hér í dalinn sama vorið og ég var fermdur, og átti ekkert nema fötin utan á mig og þau þó heldur lítil; en ég var hraustur eins og hestur og bráðþroska. Hjá húsbónda mínum hafði ég nóg að gera en líka ágætt atlæti; betra en almennt gerðist þá; strax um vorið gaf hann mér stekkjarlamb svo ég yrði viljabetri við fjárgeymsluna um sumarið. Sú gimbur var ættmóðir minna fyrstu kinda og enn á ég margt fé af því kyni. Eins og flestir heilsugóðir unglingar var ég fjörugur og gefinn fyrir gleði; mér þótti þarna heldur fámennt svo ég hafði vistaskipti eftir þrjú ár og réð mig á annað fjölmennara heimili; þá buðust mér nógar vistir, en kaupgjald var almennt svo miklu lægra þá en nú, að gróðinn var ekki fljóttekinn; helst var að eiga sauðfé og reyna að næla á því og það gerði ég. Ég hafði séð svo af fátæktinni, að mér var meir í mun að forðast hana; en ég vildi líka eiga eins lagleg föt og hinir piltarnir og nokkuð af kaupinu gekk til þess að verða vel fataður. Ég var líka afbragðs duglegur að slíta fötum, því glímur og áflog eru drjúg að slíta þeim ekki síður en vinnan. Sjöunda árið sem ég var hér lagði ég hug á unga stúlku sem var bláfátæk, en bæði þótti mér hún skemmtileg og falleg; líklega hefur henni líka sýnst að ég væri ekki svo óeigulegur, því ég náði ástum hennar og þóttist hafa himin höndum tekið. Ég kveið ekki fátæktinni; eins heilsugóð og við bæði vorum, trúði ég ekki öðru en við gætum sparað og safnað. Nú leið nokkuð á annað ár, ég fjölgaði fénu og keypti mér hest; en okkur fannst þá báðum að besta ráðið væri að fara að vinna sjálfum okkur og reyna hvort ekki fénaðist fullt svo vel með því móti. Þá giftumst við og ég útvegaði mér húsmennsku hjá Guðmundi gamla í Brekkukoti. Hvergi var hægt þá að fá hæfilegt jarðnæði hér, enda þótti báðum efnin of lítil til að byrja búskap. Eins og þú sagðir um Svein, var ég búinn að binda hugann við dalinn og það af fullri alvöru - hún var hér borin og barnfædd og unni æskustöðvunum. Sjáðu til; ég hefði verið argur hundingi ef ég hefði ekki heldur liðsinnt þeim í dag og reyndi það eftirleiðis; því það er alveg eins ástatt fyrir þeim og var fyrir okkur. En svo ég víki að efninu aftur. Hvorugu okkar kom til hugar að vistferlin væru nokkrum í móti skapi, - æskan er einföld og ótortrygg, - eða þætti vist mín í hreppnum ískyggileg; bótin var samt, að hér voru aðrir nógu reyndir og skynsamir. Þeir Brekkufeðgar sáu ógæfuna sem vofði yfir hreppnum. Þá var Ásbjörn ungur og framgjarn, langaði víst til að láta menn sjá forystuna sem í sér byggi. Hann var ekki aðgerðalaus; karl lagði ráðin og Ásbjörn var sporviljugur í þá daga. Mín ógæfa var að Guðmundur karlinn var landseti þeirra feðga og þegar Ásbjörn hét honum útbygging á næsta ári hlaut hann auðvitað að láta undan. Gamli Guðmundur var heldur niðurlútur, þegar hann sagði mér söguna og satt að segja leið mér heldur ekki vel, en ég leysti hann samt fljótt við loforðið eins og líka var sjálfsagt. Nú bauð ég vist okkar einum, tveimur bændum, sem mér virtist líklegast að þyrftu á hjúum að halda. Báðir voru svo sem búnir að ráða sér nóg hjú. En við þetta stapp komst ég á snoðir um samtök sveitarmanna að bola mér burtu; ég varð bæði hryggur og reiður og kona mín þó enn hryggari. Það er meiningarlaust að fjölyrða um það, hvernig við bárum okkur. Eitthvað varð til ráðs að taka, vegalaus vildi ég ekki vera, því síður handbendi fæðingarhreppsins; ég brá mér yfir í Hlíðina og var svo stálheppinn að fá byggðan fjórða part úr Hóli í tvö ár. Við kvöddum ekki á hverjum bæ hérna í dalnum um vorið, þegar við fórum, en af Sauðahlíð kvöddum við dalinn, meðan féð kroppaði og hvíldi sig. Ég hafði tekið ofan klyfjarnar, þá var öll búslóð okkar á tveimur drógum og var annað lánshross. Kona mín sat og hallaðist upp að fatakistu sinni; hún grét. Ég stóð og horfði yfir dalinn og virtist hann aldrei hafa verið jafn fagur og þá í vorblíðunni og fyrstu gróindunum. Svona leið æði stund, við þögðum bæði; ég hét því þá með sjálfum mér, að leggja allt kapp á að verða bjargálna maður, búa eindregið að mínu og komast aftur í dalinn, að Ásbirni og fylgifiskum hans fornspurðum, ef mér entist aldur til þess. Þarna í blíðviðrinu harðnaði og kólnaði skap mitt, alvara, tortryggni og þverúð til mannfélagsins lagðist í huga minn. Á þeim degi varð gagnger breyting á mér, eftir það varð ég svona þurr á manninn. Ekki veit ég hvað langur tími leið, að við þögðum svona; en nú gekk ég til konu minnar, tók í höndina á henni og sagði: "Nú er um að gera fyrir okkur, góða mín, að gera forspá þeirra hérna í dalnum að lygi. Við verðum að vera samhent og sammála, treysta á okkur en ekki á mennina. Við þurfum að græða." Hún reis á fætur, hallaði sér að brjósti mínu og horfði á mig tárvotum augum og sagði svo: "Fyrst af öllu skulum við treysta guði." "Og þar næst sjálfum okkur." Svo kyssti ég hana. Það var langur og innilegur koss. Ólánið kenndi okkur að halda fast saman. Ég ætla ekki að segja þér út í hörgul búskaparsöguna. Heilsa og samlyndi okkar var í besta lagi; ég var miklu harðlyndari og féfastari en hún; að ég ekki er ennþá óvinsælli má þakka henni. Sex fyrstu árin okkar á Hóli var ágætis árferði; efnin uxu furðu fljótt, enda höfum við aldrei haft mikla ómegð. Ég bjó tólf ár á hálfum Hóli og annar besti vinurinn sem ég á er Hallur; það er líkt um aldur okkar; hann hafði tekið við búi vorinu áður en ég fór þangað; tók jörðina í erfð en fátt gangandi fé, og æði miklar skuldir lágu á erfðinni; því fékk ég ábúðina, að honum þótti jörðin ofurefli. Samkomulagið var gott og hann var mér hjálplegur með ýmsa búshluti fyrstu árin, nú vona ég að hvorugur telji til skuldar hjá öðrum. Hinn vinurinn er hann Jónas á Þverá, okkar vinátta er frá æsku og hann festi fyrir mig kaup á Teigi þegar Sigurbjörn fór til Ameríku. Bæði var orðið þröngt um okkur báða á Hóli og svo gekk mér ekki úr huga heitið í Sauðahlíð forðum. Þeim hefur þótt fullgott að hirða útsvarið mitt hérna og hafa hreint ekki hlíft mér með það; þó ég fégjarn sé tel ég ekki að því, hef nærri gaman af að gjalda ekki minna en Ásbjörn sem tók þó svo mikla erfð. Einu sinni klagaði ég samt og bar mig saman við hann; mér þótti hann hlífa sér og var forvitni að heyra hann telja upp skuldirnar, ekki lækkaði hjá mér en það hækkaði hjá honum. Það var spaugilegt; mér sýndist hann taka fjandi nærri sér að telja skuldirnar beint framan í mig. Ég taldi engar. En hann skyldi bera þetta mál upp í dag og búast við samþykki allra.... Það er þetta takmarkalausa sjálfstraust, að ráða einn öllu. Eða hann hefur búist við nógu harðlyndi og fégirni hjá mér. Líklega hvort tveggja. Já, karl minn, það er nú ekki svo afleitt að vera svona í minni hluta eins og í dag, en oftast er það nú samt full ergilegt og ég spái, að þú fáir að reyna það betur. Þú mátt búast við að verða það ekki svo sjaldan, grunar mig."
Þetta hefur orðið sannspá, en hvað er um það að tala. Það þrífst svo best meiri hlutinn að einhverjir séu í minni hlutanum.