Skammdegisnóttin er svo niðdimm þegar loftið lafir hrímgrátt niður að jörðinni, að manni finnst nálega renna saman himinninn og fannaflæmið; lykjast öllu megin að, með þögulu svimandi seiðafli; eins og nóttin, fönnin og loftið leggist öll á eitt til þess, að maðurinn renni saman við sig - hverfi og gleymist. Þegar engin stjarna sést, engin dagsskíma og ekki vottar fyrir neinum vegvísi upp úr fönninni; þegar ásarnir, mýrarnar, melar og sléttur verða að einu öldóttu, kyrrlátu snjóhafi, hafi sem sefur en er þó svo voðasterkt og voldugt í dvalanum - dvalanum, sem enginn kunnugur getur trúað til hlítar, heldur neytir allrar orku til að fara rétt, taka eftir öllu og hraða ferðinni. Það þarf sterkt höfuð og kjark til að villast ekki af stefnunni í slíkri kyrrð og slíku myrkri.Og einmitt í svona veðri og svona skuggaþungu lofti var Svanur litli sendur að heiman og yfir að Ási, til þess að fá lánaðan skírnarkjól; þar var til fallegur kjóll, sá fallegasti í öllum hreppnum, og kjóllinn var heldur aldrei hafður til neins annars en að skreyta ungbörn með honum, rétt þá stundina, sem þau voru ausin vatni og tekin í tölu kristinna manna, svo það var ekki mikið sem hann slitnaði.
Hjónin á Brattalandi voru vel ættuð, laglega efnuð og vinsæl; í "betri hjóna röð" þó þau ekki hefðu búið mörg árin. Þetta var annað barnið, sem þau eignuðust og því var heldur ekki búið ennþá að koma upp skírnarkjól, af því líka að það var hægðin á, að fá fallegan kjól á næsta bæ; yfir á Ási.
Milli Áss og Brattalands er fremur löng bæjarleið; það er heiðarfláki með ásadrögum, víðiþúfum og mýrarflóum, sem allt varð að einni sléttu, með smáöldum á, þegar hausthríðarnar voru búnar að fylla lægðirnar og skammdegisdrífan að leggja þykka blæju af lausamjöll yfir allt saman.
Svanur var 12 vetra gamall foreldralaus drengur, sem gefið var með af hreppnum, það sem skorti á að hann ynni fyrir sér, sem vikapiltur. Hann var slitviljugur að hlaupa, frár á fæti og alvanur að skjótast bæjarleið bæði vetur og sumar.
Húsfreyjan á Brattlandi var í annríki að búa til brauðið í skírnarveisluna og sjá um að það væri bæði mikið og margbreytt og "sómasamlegt í alla staði"; og í öllu því annríki sem var með að búa undir morgundaginn hafði hún gleymt að senda eftir skírnarkjólnum en í rökkurbyrjun rámkaði hún allt í einu við, og þá var Svanur litli sendur vestur eftir. Hann hljóp eins og hann stóð við að byggja snjóhúsið sitt, með röku laskastuttu vettlingana, þröngu buxurnar og treyjuna sem var orðin langt of ermastutt og naumlega hneppandi. Húfan var ekki öllu skjólbetri en kvenhúfurnar voru til forna, áður en farið var að hugsa meir um fegurð og títuprjóna en skjól og gagnsemd. Svanur hljóp eins og fæturnir gátu kafað fönnina tíðast, stefndi vestur að Ási að hann hélt, hlakkaði til morgundagsins og skírnarveislunnar; hvítu dúkanna, brauðdiskanna, ilmgufandi kaffisins, ljósanna, nýþveginna manna og baðstofu nýbreytninnar, gestanna og glaðværðarinnar. Og hann kæmi með fallega kjólinn, legði ekki minna fram en aðrir; fjörið knúði hann á harðahlaup, honum spratt sveiti á enni í kyrra, drungalega loftinu og illu færðinni; hélt í ákafa áfram svo lengi að leiðin fór að verða óvanalega löng að honum fannst.
Niðdimm nóttin grúfði yfir og lognmjöllinni hlóð niður.
Svanur stóð við, litaðist um og kastaði mæðinni, en gat ekkert séð nema fönn og dettandi drífuna, ekki áttað sig á neinu nema myrkrinu og því að hann vissi ekki hvar hann var staddur. Hjartað barðist og titrandi óró þaut eftir hverri taug.
Þá kom fyrsta vindkastið, sneri mjöllinni í rjúkandi kófi framan í hann og þeytti henni upp í myrkrið.
Svo kyrrði aftur. Svanur þaut áfram það sem honum virtist vera leiðin í Ás; efinn og óttinn knúðu hann fram, skírnardýrðin færðist fjær en myrkur og fönn og tvísýnið að ná Ási var allt umhverfis. Þá rauk önnur vindhviðan á, bæði lengri og harðari en hin, sló í logn dálitla stund og rauk síðan á með öskrandi norðanbyl og hörkugadd; svipti mjöllinni í rjúkandi kafaldi af holtum og hryggjum, hlóð henni niður í dældirnar svo engri skepnu varð hægt að kafa áfram, heldur annaðhvort að veltast eða svamla fram úr snjódyngjunni. Vindurinn æddi beljandi og rak upp háan hvin öðru hvoru. Svanur hljóp í dauðans ótta á hlið við veðrið. Bara hann næði Ási - bara hann næði Ási. Þetta var dauðinn, sem hvein í bylnum, þeytti fönninni og grúfði helkaldur og biksvartur allt í kring. En lengst frá - ljós og hiti og líf.
Veðrið bægði honum sunnar og sunnar, það sást ekkert fyrir snjóroki og náttmyrkri. Frostið herti og vindurinn varð að blindbyl, orgaði í eyrað, læsti sig um hendur og úlnliði, upp handleggina, inn í brjóstið. Svellið festist við vangann, sveið og píndi, færði svo svima og deyfandi drunga yfir höfuðið. Skórnir gaddfrusu við sokkana og sokkarnir við fæturna. Kuldinn lagðist upp lærin og yfir kviðinn, færði sig hægt og hægt innan í. Frostgaddurinn var búinn að taka fastatökum og hann er svo miklu sterkari en tólf vetra gamall piltur, að leikslokin eru sjaldan tvísýn. Svanur fór riðandi eitthvað áfram, og seinast undan bylnum. Datt á hálu hjarnbörðu holti; hélt enn áfram nokkurn spöl og rakst þar á stóran stein, sem fönninni hafði svifað frá. Hnipraði sig undir steininn og þekkti um leið að það var Huldusteinn. Þá var hann langt frá Ási, langt frá öllum bæjum; - hnipraði sig aftur fyrir rjúkandi hviðu, sem þaut suður af hryggnum með þyrlandi snjóroki og æddi yfir steininn og drenginn, og beljaði svo niður í dragið sunnan og neðan við.
Hér varð hann að setjast að, setjast undir þennan stein, sem hann kunni svo margar sögur af og hafði heldur forðast að vera við síðari hluta dags; en nú dreifðust allar sögurnar, runnu burtu - í fjarlægð og fyrnsku. Það var þreytan og máttleysið og frostið, sem lagðist fast og þröngt að honum líkt og líkkista; vissan um endinn á þessu stríði, örmagn óttans á undan og öll þessi sviplega vonasvipting, sem rann saman í huganum í dimmri, dapurlegri, svimandi móðu, en ekki huldan í steininum, sem hugurinn hvarflaði til. Hann þjáðist ekki lengur af bítandi sviða frostgaddsins, hendur og fætur dofnuðu, höfuðsviminn og svefnþyngslin jukust, hjartslátturinn hvarf, en köld ró færðist yfir hann þarna í skjóli við steininn.
Svo lagði hann höfuðið að steininum; fann svefninn koma hægan og sígandi, og með svefninum dauðann; hann fann að hann kom, án þess að hugsa það þó reglulega; en nú var dauðinn ekki orðinn neitt voðalegur, bara geysistórvaxinn alvarlegur maður, í mjallhvítri yfirhöfn, - í "rykkilíni" eins og presturinn; hann langaði til að hann tæki sig í faðm sinn og sveipaði um sig "rykkilíninu" - að hann svæfði sig. Svo sat hann í fangi móður sinnar í kirkjunni og sumarsólin skein um hana alla; hann horfði í augun á henni, þau stóðu full af tárum; þá rétti presturinn upp hendurnar og blessaði fólkið - en það var ekki presturinn, heldur stórvaxni maðurinn í fannarfeldinum, og hann laut yfir hann -- öllu sló í mjúksvalt logn og frið. Hvítt ómælilegt tjald yfir og hvít mjúk sæng undir - en yst, utan við sængina rennslétt svell, sem máninn í fyllingu stafaði geislum á; skein gegnum tjaldið, eða rann fölur meðfram svellinu, en iðandi geislabaugurinn snerist umhverfis hann, þarna lengst frá, þar sem allt rann saman í eitt - í eina auðn.
Og náttúran sveipaði tólf vetra gamla barnið sitt í mjallarmöttul, hvítan, hreinan og froststerkan.
Allt var kyrrt undir Huldusteini, sem vindurinn og snjórokan þutu suður af, og beljuðu svo niður í dragið sunnan og neðan við.
*
Fólkið á Brattalandi hélt að Svanur hefði haft sig yfir að Ási áður en bylurinn skall á; þá var öllu óhætt. Húsfreyjan var hálfhrædd, en umsvifin við að búast sem best við morgundeginum höfðu þó þau góðu áhrif, að hún varð ekki nema hálfhrædd.
Bóndanum var óvanalega tíðförult út það kvöld og fólkið mundi varla eftir honum jafn orðfáum.
Hann var að sækja lömbin þegar Svanur var sendur eftir kjólnum.
Morguninn eftir var kalt og bjart; mórauður bakkinn læddist niður við í norðrinu. Þá var sent vestur að Ási eftir skírnarkjólnum og Svan, sem kom svo seint.
Maðurinn kom aftur með kjólinn og þau tíðindi, að Svanur hefði ekki komið að Ási. Mönnum varð hverft við og bóndinn sendi strax báða vinnumennina til að leita, var gert ráð fyrir að þeir hittu hina tvo, sem höfðu farið frá Ási um leið og maðurinn, sem kom með kjólinn.
Presturinn og kona hans komu seint, og allt boðsfólkið - í það skipti var það satt, að það var færðinni að kenna. - Leitarmennirnir komu ekki, bóndinn var nálega alltaf úti við fjárhirðingu. Við úthall var þó loksins sest niður að drekka kaffið; menn voru bæði lágtalaðir og fámæltir þó þeir gerðu það. Skírnarkjóllinn lá hvítur og strokinn á litla saumaborðinu rétt við hliðina á húsfreyjunni, sem hagræddi og leitaði barninu sínu værðar, hún var bæði viðkvæm og hrædd, hrædd um Svan - en hún leit samt við og við til kjólsins á litla borðinu. Ljómandi var hann fallegur og mundi klæða barnið hennar svo prýðilega.
Lengur mátti ekki bíða, barnið var fært í kjólinn af móðurinni, prestskonunni og einni enn - góðri vinkonu húsfreyjunnar. Presturinn jós barnið vatni. Athöfninni var lokið. Um leið og menn byrjuðu að bæna sig stukku hundarnir upp með gelti; bóndinn snaraðist fram. Um leið og bæningunni var lokið gengu leitarmennirnir inn, þeir höfðu fundið líkið undir Huldusteini. Mönnum brá í brún og setti hljóða; flestir gengu út; þar stóð bóndinn við skemmudyrnar með líkið í fanginu og var að ljúka upp hurðinni. Prestinum sýndist líkt og tvö högl stykkju niður með nefinu þegar hann kom, að öðru leyti var hann jafn alvarlegur og fár og um daginn. Menn skoðuðu líkið og kom saman um að ekkert líf gæti leynst með því. Svo var búið um líkið í snjó, og presturinn sagði að best væri að þíða það í vatni, en það mætti bíða morguns.
Kaffið beið og mátti ekki kólna, allir gengu inn til að njóta þess; síðastur allra gekk bóndinn á Brattalandi frá líkinu og var furðu lengi að læsa skemmuhurðinni í það skiptið.
Þögnin lá þung yfir meðan menn settust að borðinu, en þegar menn voru hálfnaðir úr bollunum fór að liðkast um tungutakið; og á eftir sátu menn og skröfuðu um hitt og þetta eins og vanalegt er í skírnarveislum eftir að kaffið er búið að liðka á mönnum málbeinið. Það var aðeins bóndinn á Brattalandi sem sat þögull og horfði niður fyrir sig; hann gat ekki hugsað um annað en hvað það hefði orðið dýrt að ná þessum kjól; um hvað Svanur litli var frálegur þegar hann kom hlaupandi frá að reka lömbin í fyrra morgun, rjóður og brosandi eftir sprettinn; eftir því sem hann hugsaði lengur eftir því varð hann rauðari í andliti.
Þeir sem biðu fyrir framan og ekki komust að í fyrsta hring, ógnuðu sér, "yfir þeirri vogun að senda börn í kafaldi og myrkri. Það var so sem auðséð hvernig veðrið yrði." "Ég vissi það nú upp á mína tíu fingur að hann gengi í blindbyl." Allir vissu það "upp á tíu fingur" nú, og allir töluðu lágt og horfðu upp í húsið, því þangað átti samtalið ekkert erindi. En þeir komust líka að kaffiborðinu og samtalið breyttist og varð léttara, - miklu léttara og ljúflegra.
Húsfreyjan horfði á barnið sitt, sem svaf vært og var farið að skipta svo vel litum, brosti að einhverju sem prestskonan sagði, horfði yfir á skírnarkjólinn sem aftur lá á saumaborðinu og hugsaði sér að koma upp kjól, sem væri ennþá vandaðri og fallegri en sá frá Ási. Henni fannst til um hvað þessi tilburður var sviplegur, datt líka í hug að hann var munaðarlaus pilturinn og tekinn af hrepp, hafði haft gott atlæti hjá henni; hvað hér verður sviplegt um fjölda manna; og svaraði brosandi einhverju sem prestskonan yrti á hana.
Það logaði vel á nýja olíulampanum í húsinu, samtalið var "lifandi" og innilegt, þarna í þægum baðstofuhitanum. En samt sat bóndinn á Brattalandi dreyrrauður og þögull og hvessti augun á skírnarkjólinn sem lá á saumaborðinu; ljósbirtan varð svo skær á honum, að hún skar bóndann í augun, en hann horfði því hvassara og fastar þangað yfir og gætti ekki að svara því sem presturinn talaði til hans.
Mönnum virtist líka bóndinn á Brattalandi vera allt of stirður og kaldur; að húsfreyjunni geðjaðist miklu betur, hún var svo lipur og viðfelldin.