1. kafli
Það var mesta rausnarkona hún Þuríður á Borg, mesti skörungurinn í héraðinu. Hún hafði verið þrígift og lifað menn sína alla og verið jafnt húsbóndi sem húsmóðir fyrir þá alla. Nú var hún komin yfir fimmtugt, en var þó ern og fjörug enn; hún var lág vexti, föl í andliti, en þó þykkleit og hafði verið lagleg kona á yngri árum, en var nú orðin töluvert feitlagin með aldrinum. Þuríður var kona vel fjáð, bæði að fasteign og gangandi fé. Auk jarðarinnar Borgar, sem var stærsta og bezta jörð þar um sveitir, átti hún aðrar minni jarðir. Mest fé sitt hafði hún grætt eftir dauða manna sinna og sýnir það röskleik hennar og búshyggju. Það skein líka rausnin og stórmennskan út úr henni þegar hún gekk um hlaðið á Borg og skipaði fyrir um vinnu og heimilishagi og hóf röddina svo, að glöggt heyrðist út fyrir túngarð, þá var svipur á henni. Ráðsmann hafði hún, er Kristján hét, og gárungarnir kölluðu Kristján fjórða; ekki er gott að vita, hvernig á því stóð; að þeim hafi sýnzt hann líkjast konunginum með því nafni, er ólíklegt, og næst mér er að halda, að þeir kunni að hafa sett hann í eitthvert samband við þrjá menn Þuríðar. Kristján var húsmóður sinni þarfur maður, því hann var eljumaður hinn mesti, fáorður og hlýðinn henni og dugnaðarmaður til allra verka, þótt hann, er saga þessi gerist, sé kominn yfir fertugt. Var því altalað þar um héraðið, að Kristján lifði í góðu yfirlæti hjá ríku Þuríði á Borg, og að hann ætti meira en vinnumanns-atlæti að fagna.
Með seinasta manni sínum hafði Þuríður átt son, er Jón hét; það var einkabarn hennar, og unni hún Jóni mjög. Hún hafði sýnt það, að hún elskaði hann, með því að aga hann í uppvextinum. Hún hafði ætlað að gera hann að fyrirmynd ungra manna að uppeldi, og til þess beitti hún jafnt prédikunum, löngum kristindómsútskýringum og vendinum. Hún vann það líka á, að Jón varð mesta stillingarbarn, sem gerði sig aldrei sekan í ærslum eða nokkurs konar óknyttum, því hann var svo hræddur við móður sína, að hann hélt að hún væri allsstaðar nálægt sér. Þannig liðu vaxtarár Jóns. Nú var hann orðinn 19 vetra piltur, laglegur, en fremur lítill vexti, hinn stilltasti, og kom sér vel við alla.
Sóknarpresturinn þar í sveitinni hét séra Eggert og bjó á prestsetrinu Bakka, næsta bæ við Borg. Hann var maður hniginn að aldri, kominn um sextugt, en þó heilsugóður enn. Hann var kallaður góður ræðumaður og virtur mjög og elskaður af flestum sóknarbörnum sínum. En ráðríkur þótti hann nokkuð um flest héraðsmál, og hin síðustu ár hafði hann orðið að standa í mesta stímabraki í hreppsnefndinni; hann var nokkuð uppstökkur og bráður, ef einhver hafði á móti skoðunum hans, enda hafði hann áður verið óvanur því. En fyrir fám árum var nýr maður kominn í sveitina, er Björn hét og bjó á Krossi; hann var ungur maður, dugnaðar- og iðju-maður hinn mesti og greindur vel. Það var því eðlilegt, að hann væri brátt kosinn í hreppsnefndina, og þar var hann "Þrándur í Götu" séra Eggerts, sem áður hafði öllu ráðið. Það hafði verið vaninn áður, að þegar séra Eggert sagði í hreppsnefndinni: "Okkur Þuríði minni á Borg hefur komið saman um það og það", þá álitu aðrir hreppsnefndarmenn, að ekki þyrfti meira að ræða það mál, en uppástungan var bókuð og samþykkt í einu hljóði. Björn fór nú óðara að fetta fingur út í þetta tal um "Þuríði mína á Borg", því hann sagðist ekki þekkja neinn hreppsnefndarmann með því nafni, og öllum uppástungum séra Eggerts lagði hann eitthvað á móti. Fyrst vann Björn ekkert á, en smátt og smátt fóru menn að gefa orðum hans gaum og þar kom að um síðir, að stundum bar við, að tillögum séra Eggerts og "Þuríðar minnar" var hrundið með atkvæðafjölda. Allt þetta gerði presti gramt í geði, en varð einungis til þess að hann batt enn fastar vináttu við Þuríði, til þess að reka "úlfinn úr hjörðinni", sem hann komst að orði, þegar hann var að tala við Þuríði um það, hvernig bezt mætti koma aftur á "einingu og bræðralagi" í sveitinni. Hann hafði þá skoðun, að allt í söfnuðinum, eins sveitamál og annað, ætti að ganga í kristilegu bróðerni, án þess að nokkurt stríð eða keppni yrði úr, en það var auðvitað, að það var sóknarpresturinn, sem eiginlega átti einn öllu að ráða með ráði hinna beztu og vitrustu manna. En eini maðurinn, sem hann áleit, "beztan og vitrastan" í sinni sveit, var Þuríður á Borg.
Séra Eggert hafði misst konu sína fyrir nokkrum árum og tekið sér það nærri, því að hann hafði unnað henni hugástum. Þau höfðu átt eina dóttur barna, er Guðrún hét og nú var fyrir búi með föður sínum, enda var hún löngu komin af æskuskeiði, á að geta nokkuð yfir þrítugt; ekki var hún fríð kona sýnum; hún var grannleit og skarpleit, nefið hátt og hvasst og munnurinn stór. Allt um það bauð Guðrún prestsdóttir ekki slæman þokka af sér, og kom það af því, að hún hafði blíðasta og mjúkasta málróm og var hin þýðasta í allri umgengni. Hún stóð líka vel fyrir búi föður síns, sem aldrei hafði auðugur verið, því að hann var enginn búsýslumaður. Það var undarlegt, að hún skyldi hafa setið svo lengi heima ógift, því að ekki kom það af því, að hún hefði hafnað biðlunum flokkum saman sökum mannvendni, heldur af hinu, að engan biðil hafði borið þar að garði, svo menn vissu til, en bónorðsfarir og slíkt er vant að kvisast um sveitirnar.
Engri konu unni Þuríður á Borg jafnt sem Guðrúnu á Bakka; það var ekki gott að vita, af hverju það kom; hún var reyndar ljósa Guðrúnar, en það gerði víst lítið til; hitt var það, að Guðrún var kannske hin eina kona, sem sýndi Þuríði nokkura blíðu í orðum og atlotum og hið gamla, stranga hjarta viknaði og komst undarlega við, kannske reyndar mest af því, að þessi vináttumerki komu frá göfugustu stúlkunni í sveitinni. Og Guðrún var heldur enginn hræsnari, hún hafði unnað Þuríði frá æsku; það byrjaði náttúrlega með því, að Þuríður var að færa henni og senda henni alls konar sælgæti og leikföng, sem urðu að peninga og fata gjöfum, þegar Guðrún eltist. Þess háttar ástir eða vináttur eru varanlegar og innilegar, einkum ef gjafirnar fara heldur vaxandi en minnkandi. Og Þuríður var gagnkunnug mannlegu eðli í þá stefnu, svo að hún lét ekki vináttu prestsdótturinnar dofna eða slokkna út af ræktarleysi frá sinni hlið.
2. kafliÖllum ungum mönnum kom saman um það, að hún Anna Sigurðardóttir væri fallegasta stúlkan í sveitinni. Hún var nú 18 vetra gömul og meðallagi há vexti; hún var grannvaxin, en mjúkvaxin og limuð vel, kringluleit í andliti og fremur föl, augun dökk og augnahárin löng og þétt; hún hafði gult hár mikið og frítt, og tók það henni niður fyrir mitti. Móðir hennar, sem hét Björg, dó af barnsförum að henni, og faðir hennar var drukknaður fyrir rúmum mánuði áður, svo að nýfædda barnið átti engan að, svo að menn vissu af, nema Gróu gömlu á Hrauni, sem var alsystir Bjargar. En Gróa var bláfátæk, tæplega sjálfbjarga og gat með engu móti tekið barnið að sér, svo að það var alið upp á sveitinni. Þegar eftir fermingu sína fór Anna í vist til Þuríðar á Borg, og hafði verið þar vinnukona síðan og unað sér vel, enda var tæplega hægt að hugsa sér þann samastað, að Anna yndi sér þar ekki, því að hún var bæði léttlynd og eftir því kát. Það var sannast að segja, að það var ekki á henni að sjá, að hún væri munaðarleysingi, alin upp á sveitinni; hún var alltaf síhlæjandi og gamansöm og hló svo kalalaust og innilega, að það datt engum manni í hug að reiðast við hana. Það var því ekki furða, þó að hún kæmi sér vel við vinnufólkið á Borg, enda var hún líka augasteinn allra og allir vildu vera í verki með henni. Það var orðið að orðtaki, ef duttlungar eða ólund komu í einhvern: "Það er auðséð, að Önnu vantar". Þar sem Anna var, var ætíð nóg um gleði og gamanyrði. Gömlu Þuríði þótti nú miðlungi vænt um þessa kátínu, því að hún hélt að það tefði fyrir fólkinu. En hún fyrirgaf Önnu mikið, því jafnvel hún gat ekki að sér gert að brosa, þegar Anna var að gera eitthvað að gamni sínu. Henni þótti eiginlega bara eitt að henni og það var, hvað hún væri gjöful við flakkara og aumingja. Hún sagði, að það fylgdi því engin blessun að gefa þess háttar hyski, það væri bara að fleygja reytum sínum í sjóinn, og meistari Jón segði, að þeir sem ekki nenntu að vinna, ættu ekki heldur mat að fá. Allt þetta hyski flakkaði, til þess að komast hjá að vinna, og sníkti svo út úr þeim, sem nenntu að taka til einhvers hendinni. Hún minntist oft á og gat aldrei gleymt því, að Anna hafði einu sinni gefið sparipilsið sitt kerlingu, sem kom að Borg eitt haustið, og sagt henni að hafa það á krakkann sinn; en krakki kerlingar var dálítil telpa, sem alltaf var hálfnakin og grátandi og oftast nær skjálfandi af kulda.
Anna undi sér vel á Borg; af því kom það auðvitað, að þótt henni hefði tvisvar sinnum boðizt vist og betra kaup, þá hafnaði hún öllum slíkum boðum. Vinnufólkið var nú að hvísla því sín á milli, að það væri engin von, að Anna litla færi frá Borg, því að þangað myndi hún hafa átt erindið, og vinnukonurnar voru brosandi að tala utan að því við hana, að hún byði þeim í veizluna sína, þegar þar að kæmi; en Anna sagði hlæjandi, að þær yrðu víst að bíða lengi eftir þeirri veizlunni, en gat þó ekki að því gert, að hún roðnaði dálítið við.
Þeim kom ofboð vel saman Jóni, syni Þuríðar, og Önnu; það fór oftast nær svo, hvernig sem það atvikaðist, að þegar tvö áttu að gera eitthvert verk, þá urðu það Jón og Anna, sem þegjandi tókust það á hendur. Ef rifja átti flekk, þá hlupu þau tvö á undan öllum, og þegar hitt fólkið kom, þá sögðu þau bæði, að flekkurinn væri svo lítill, að það þyrfti ekki nema þau tvö. Svo rifjuðu þau tvö ein og hálf-flugust á um hvern rifgarð, því Jón vildi ekki fá kerlinguna og Anna vildi ekki fá karlinn. Fengi svo Jón samt sem áður kerlinguna, þá settist Anna niður í miðjan flekkinn og skellihló að honum, þangað til Jón kom til hennar, og sagði að hún væri kerlingin; þá blóðroðnaði hún út undir eyru, stökk upp og hljóp í næsta flekk, svo að Jón gat naumast fylgt henni.
Þannig gripu þau hvert tækifæri, sem þau fengu, til þess að vera tvö ein saman, og voru alltaf að gera að gamni sínu; það kom varla fyrir, að þau töluðu eitt orð í alvöru. Jón var annars hægur og fámálugur, en þegar þau Anna voru saman, þá var öll stilling hans horfin; hann lék við hvern sinn fingur og var svo fyndinn, að Anna hló að hverju orði, sem hann sagði. Aftur á móti var Anna einhvern veginn stilltari eða alvarlegri, en hún átti að sér, þegar hún var ein með Jóni; hún lét hann hafa fyrir að skemmta þeim báðum, og skaut svo endrum og eins stöku gamanyrðum inn í.
Það má geta því nærri, að gamla Þuríður vissi ekkert um það, sem vinnufólkið kallaði "samdráttinn í unglingunum á heimilinu". Öllum var vel bæði við Jón og Önnu og allir vissu það, að Þuríður mundi ætla syni sínum annað kvonfang en sveitarstelpuna. Þess vegna þögðu allir um það við Þuríði og Kristján ráðsmann, sem í öllu var hennar hægri hönd, og einkum var vandur að því við sjálfan sig, að dylja ekki neinar nýjungar um vinnufólkið fyrir húsmóður sinni. En um sveitina fór þetta fljótt að kvisast. Fólkið á Borg þóttist gera nógu vel, þegar það þagði heima, og fannst það vera saklaust, þó kunningjarnir í kring fengju að vita tíðindin líka.
Það var einn dag seint um sumarið, að fólkið frá Borg var að heyvinnu á engjum fram með Laxá, langt frá bænum. Þegar hætt var um kvöldið og menn gengu heim, fór það eins og vant var, að Jón og Anna voru síðast búin til heimferðar, svo að þau urðu samferða, og af því að þau gengu hægt, urðu þau langt á eftir hinu fólkinu.
Þau gengu bæði þegjandi.
"Ég held við séum orðin langt á eftir", sagði Anna.
"Fari það í friði, blessað fólkið", sagði Jón, "en þér leiðist kannske að ganga með mér einum, og þá getum við flýtt okkur og náð því".
"Nei, nei, ég átti ekki við það, að mér leiddist að ganga með þér, en því finnst það kannske undarlegt, að við erum alltaf tvö ein á eftir".
"Ég uni mér bezt, þegar við erum tvö ein; ég vil heldur ganga með þér einni, en öllum hinum".
Anna þagði og leit niður fyrir sig. Þau stóðu nú bæði kyrr.
"Þú veizt það ósköp vel, að ég vil helzt ganga með þér einni".
Anna þagði.
"Viltu lofa mér því að fylgjast alltaf með mér og verða konan mín? Anna, Anna, svaraðu mér", bætti hann við og röddin skalf dálítið.
Anna leit upp og augu þeirra mættust.
Svo settust þau niður. Fyrst gerðu þau ekkert nema haldast í hendur og horfa hvort á annað. Svo fóru þau bæði að skellihlæja að því, hvað þau höfðu verið alvarleg fyrir skemmstu.
"Nú ertu kærastan mín", sagði Jón og þrýsti Önnu að sér og kyssti hana.
"Já", sagði Anna í hálfum hljóðum og lagði annan handlegginn um háls Jóni, en faldi kafrjóða andlitið sitt við brjóst hans, svo gulu lokkarnir komu við kinnina á honum.
Þegar þau komu heim að Borg, var allt fólkið komið heim og háttað, nema Þuríður gamla var á fótum og kallaði á Jón son sinn og sagðist þurfa að tala við hann.
Anna flýtti sér að hátta. Hún vildi sem fyrst geta sofnað, svo að hana gæti dreymt eitthvað um Jón; hún flýtti sér að lesa bænirnar sínar, bað innilega fyrir Jóni og svo sér, og svo lokaði hún augunum. Hún fór að telja, til þess að sofna þess fyrr, en hún komst ekki lengra en að 17.
Jóni var ætíð fremur lítið gefið um að ganga á eintal með móður sinni, en þetta kvöld hafði hann allra sízt biðlund til að taka á móti langri predikun.
Þuríður svaf ein í læstu tveggja stafgólfa herbergi, sem var þiljað af næst baðstofuþilinu.
Þangað fór hún með son sinn, læsti vandlega á eftir sér og sagði svo við hann:
"Hvað eiga þessir útúrdúrar í ykkur Önnu að þýða? Getið þið ekki fylgzt með fólkinu?"
Það fór að fara um Jón, þegar hann heyrði hver sökin var, honum þótti ráðlegast að svara fáu.
"Geturðu ekki svarað móðurmyndinni þinni?" bætti Þuríður við og tók í öxlina á Jóni.
"Það - var ekkert. Við urðum bara seinni til en hitt fólkið".
"Seinni til! Það er altalað um alla sveitina, að þið Anna séuð að draga ykkur saman. Skilurðu það, ættarskarnið þitt? Það er verið að eigna þér sveitarstelpu, sem enginn veit hvort nokkurntímann hefur átt föður eða móður, og á ekki skóbótarvirði. Skilurðu það?" Og um leið hristi hún öxlina á Jóni.
Jón var nú aldrei upplitsdjarfur eða orðmargur, þegar móðir hans þurfti að vanda um við hann, en svona reiða hafði hann aldrei séð hana fyrr. Hann vildi feginn vera kominn langt burtu; en móðir hans hélt í öxlina á honum.
"Svaraðu mér, ætlarðu að eiga þessa skepnu? Þú þarft ekki að búast við að eignast nokkurn hlut eftir mig, ef þú ætlar að eiga þessa órázíustelpu, það sveitarskarn. Svaraðu mér!"
Jón sá þegar, að það var einungis að gera illt verra, að segja móður sinni upp alla söguna, þá þegar, en datt í hug, að allt gæti mildazt og mýkzt með tímanum.
"Nei - nei - mér hefur aldrei - litizt á hana - dottið í hug að eiga hana".
Það var eins og Þuríði rynni dálítið reiðin, hún sleppti öxlinni á Jóni og settist niður. Hún dró andann ofboð þungt og kom tæplega upp nokkru orði.
"Það var þó mikið", sagði hún loksins.
"Þú veizt, að það er kristileg skylda mín, að sjá um, að þú gerir ekki honum föður þínum í gröfinni eilífa skömm. Þú ættir að kunna svo kristindóminn þinn, að þú vissir, að þú átt að heiðra föður þinn og móður. Hvað skyldi hann séra Eggert minn segja, ef hann fréttir þetta? Þetta hyski og pakk hérna á heimilinu er líka ekkert nema munnurinn. Allt, sem það veit, gengur mann frá manni um alla sveitina".
Jón þagði meðan móðir hans lét dæluna ganga. Hann leit niður fyrir sig og laut svo mikið með höfuðið, að móðir hans gat ekki séð framan í hann.
"Þú veizt það, Nonni minn, að ég er ekki svo gerð, að ég fáist um, þó ungt og fjörugt fólk geri að gamni sínu. En ég vil ekki af neinu hneyksli vita. Kristilegu framferði og siðferði hef ég til þessa getað haldið á mínu heimili og ætla að reyna að halda því fram, þangað til drottinn kallar mig héðan. Þess verður nú kannske ekki langt að bíða".
Þegar Þuríður sagði þessi síðustu orð, viknaði hún við og þagnaði.
Í sama bili var komið hægt við snerilinn á hurðinni, og þegar aðkomandi fann að læst var, barði hann ofur hægt á dyr.
Jón lauk upp.
Kristján ráðsmaður stóð þar fyrir utan. Honum varð hálfhverft við að mæta Jóni.
"Komdu inn, Kristján minn", sagði húsfreyja, "þú ætlar líklega að tala við mig um heyvinnuna á morgun"
"Já - það var nú einmitt það - ég ætlaði að spyrja yður, húsmóðir mín góð, hvað yður sýndist um vinnu á morgun".
"Farðu nú að hátta, Nonni minn, og hugsaðu vel um það, sem ég hef sagt þér", sagði Þuríður.
Jón fór út og hurðinni var læst á eftir honum.
Húsfreyja og ráðsmaðurinn þurftu að hafa gott næði til að tala um bústjórnina og heyvinnuna.
3. kafliJón gat ekkert um við Önnu, að móðir hans væri búin að frétta allt um samdrátt þeirra, né minntist einu orði á samtal þeirra mæðginanna. Það var ekki trútt um, að honum gremdist svona hálft um hálft við sjálfan sig af því, hvað hann hafði verið fljótur til að afneita Önnu við móður sína, og nokkura stund á eftir var hann dálítið undirleitur og orðfár, þegar þau Anna voru tvö ein saman. Anna tók eftir því og fór að verða hálfhrædd um, að Jón væri strax farinn að iðrast eftir allt saman. Það atvikaðist líka einhvern veginn svo, að þau fengu sjaldnar og sjaldnar færi á að vera tvö í verki, og heim af engjunum fylgdust þau alltaf með fólkinu síðan "kvöldið góða". Svona gekk það nokkurar vikur; Anna fór að verða fálát og hætta gamanyrðum og Jón varð hljóður og duttlungafullur. En lengi þoldi "unga fólkið" ekki mátið. Þegar fór að hausta og kvelddimmt var orðið, fóru þau að hittast hér og þar, á ýmsum stöðum og ýmsum tímum, en vöruðust að láta nokkurn vita af eða renna grun í fundi þeirra. Það var þeim öldungis ósjálfrátt að reyna til að hittast, og þegar það einu sinni heppnaðist, án þess nokkur vissi af, var það auðséð, að hægt var að fara þannig að oftar. Jón sagði, að það væri nauðsynlegt að halda öllu leyndu, þangað til hann væri búinn að tala við móður sína. Þeim kom báðum saman um, að gamla Þuríður mundi verða þeim hörð í horn að taka, en Jón sagðist ekki trúa því, að hún léti ekki að bænum sínum, þó að hún kannske kynni að taka þvert fyrir í fyrstu. Anna var alltaf um þessar mundir eins og á glóðum. Hún vildi, að Jón talaði sem fyrst við móður sína, til þess að skúrin gengi sem fyrst um garð; en hún átti svo bágt með að tala um það við hann, því að hún var hrædd um, að honum fyndist sem í því lægi einhver efi um einlægni hans og heityrði. Einu sinni kom hún sér þó að því, en var ofboð rjóð og feimin, og bað Jón, um leið og hún lagði hendur um háls honum, að reiðast sér ekki.
"Mér finnst ég ekki geta á heilli mér tekið, fyrr en ég veit, við hverju við megum búast hjá móður þinni", sagði hún.
Jóni var eins farið. En hann þekkti álit móður sinnar á þessum ráðahag, og honum fannst eins og sér rynni kalt vatn milli skinns og hörunds, þegar hann hugsaði til þess, að fara að fyrra bragði að vekja máls á þessu. En að hinu leytinu þorði hann ekki að segja Önnu frá samtalinu við móður sína forðum. Hann var eins og milli steins og sleggju. Hann reyndi til að telja bæði sjálfum sér og Önnu trú um, að sá tími árs væri illa valinn til þess að tala við móður sína um óþægileg efni. Hún væri, eins og flest þunglynt fólk, uppstökk og erfið í skapi um haustdag og skammdegi, en yrði léttari í lund þegar daginn lengdi og fram á vorið drægi.
Anna gat eða vildi ekki hafa á móti því, sem Jón sagði, og svo leið og beið, að ekkert var talað við Þuríði um sinn.
Enginn á Borg vissi um það, að þau Jón og Anna fundust í leynum. Allir héldu, að það væri "slitnað upp úr" milli þeirra, einkum af því að Anna breyttist töluvert í skapi þetta haust; hún var hætt allri kátínu og fór oft einförum. Jón var líka nokkuð öðruvísi, heldur en hann átti að sér.
Fólkið á Borg tók fljótt eftir þessu og það fór nú að berast um sveitina, að enginn fótur væri fyrir því, að þau Jón og Anna væru að draga sig saman. "Það var bara stelpan, sem var að draga sig eftir honum", bættu sumar ungu stúlkurnar ógiftu við. Og þar við sat. Menn sögðu nú, að Anna hefði um sumarið verið að reyna til að ná í Jón, en þegar hún hefði séð, að það mundi ekki heppnast, hefði hún orðið þunglynd af öllu saman.
Þannig leið veturinn á Borg, að fátt bar til tíðinda, venju fremur. Jón og Anna hittust oft, en engan grunaði neitt.
Það var einn dag seint um veturinn, að Jón var úti í skemmu við trésmíðar. Anna var heldur ekki í baðstofunni og vinnukonurnar voru að tala um það sín á milli, hvar hún mundi vera.
Í sama bili komu þau inn bæði saman Jón og Anna.
Jón var einhvern veginn undarlegur og órólegur útlits, og á Önnu var auðséð, að hún hefði grátið,
Hún gekk að rúminu sínu, settist niður og greip báðum höndum fyrir andlit sitt.
Jón gekk rakleiðis inn í herbergi móður sinnar, og læsti því á eftir sér. Hvað þeim mæðginum hefur farið þar á milli, er enginn kominn til að segja frá. Vinnukonurnar einar voru uppi, og þær sátu svo langt frá herbergi húsfreyju, að þær gátu ekki heyrt nein orðaskil. Fyrst heyrðu þær samt fjarska hávaða í Þuríði; það voru engin samstæð orð, en var líkast ópi í óðum manni. Svo sló öllu í þögn; en eftir litla stund heyrðust þungar grátstunur til Þuríðar; svo var farið að tala saman lágt og með nokkurs konar stillingu, en endrum og eins hóf þó Þuríður röddina, og var eins og hún titraði af gremju og reiði, en orð var ekki hægt að greina.
Svo leið langur tími.
Loksins var herberginu lokið upp; Jón kom út og var svo útlits, að það var auðséð á honum, að hann réð sér ekki fyrir reiði. Hann stökk fram eftir baðstofuloftinu, tók stigann í tveim fetum og hljóp út úr bænum.
Skömmu síðar kom Þuríður fram úr herbergi sínu.
Hún gekk rakleiðis þar að, sem Anna sat á rúminu sínu. Þegar hún sá Þuríði koma, stóð hún upp náföl, studdi sig við rokkinn sinn og leit beint framan í hana.
Þuríður staðnæmdist fyrir framan hana; hún var sótrauð í framan og kom ekki upp nokkru orði fyrir reiði. Sú óskammfeilni þótti henni þó taka yfir allt, að Anna skyldi þora að standa upp og horfa framan í sig. Henni fannst það svo mikil storkun, að hún varð nærri því ráðalaus.
"Burt, burt með þig af mínu kristilega heimili, ólánsgreyið þitt", sagði hún loksins og þreif um handlegginn á Önnu. "Ég vil ekki sjá þig eitt augnablik framar fyrir mínum augum, og aldrei skaltu stíga fæti þínum á þetta heimili framar. En syndakrógann þinn ætla ég samt að taka og annast, svo þú alir hann ekki upp til leikfangs fyrir þann neðsta. Burt, burt með þig héðan".
"Hvað hef ég gert?" sagði Anna; röddin titraði og augun fylltust tárum.
"Hvað hef ég gert? Ég elska Jón, elska hann eins og ég veit að hann elskar mig. Ég hef gefið honum allt, sem ég átti. Ég gat ekki annað".
Svo hneig Anna niður, það var liðið yfir hana.
Vinnukonurnar fóru að stumra yfir henni. En Þuríður skipti sér ekkert af henni. Hún kallaði á Kristján ráðsmann, skipaði honum að tína saman allar reytur Önnu og flytja hana þegar með öllu hennar yfir að Hrauni til Gróu gömlu móðursystur hennar; hún fékk honum 2 tvítugkrónupeninga, og sagði honum að fá Gróu, og bætti því við, að Anna skyldi ekki geta sagt það með sanni, að hún hefði ekki fengið kaupið sitt fullvel úti látið.
Þegar Anna raknaði við og leit í kringum sig sá hún, að Kristján ráðsmaður var að tína saman allt það litla, sem hún átti, og spurði, hvað það ætti að þýða.
"Ég á að flytja þig og allt þitt yfir að Hrauni".
Anna skildi strax, hvernig á öllu stóð. Hún hugsaði sig um dálitla stund. Hún sá, að það var ekkert vit í því að þrjózkast við að fara, og reyna að sitja kyrr að Þuríði nauðugri. Hún huggaði sig við, að þegar fyrsta hríðin væri um garð gengin, þá mundi allt lagast. Hún var viss um ást Jóns, og að hann stæði fast á því að eiga sig, hvað svo sem Þuríður gamla segði eða gerði. Henni gat heldur ekki betur sýnzt, en að Þuríður yrði þó loksins að láta undan, þegar hún betur og betur sannfærðist um, að syni sínum væri full alvara. Henni þótti einungis eitt sárt, og það var, hve mikið Jón yrði að þola af móður sinni fyrir sínar sakir, fyrst um sinn, þangað til allt lagaðist. Hún einsetti sér með sjálfri sér að verða honum góð kona, svo að hann þyrfti aldrei að iðrast eftir það, að hann hefði tekið að sér sveitarstelpuna fátæku og átt hana.
Svo kvaddi Anna allt fólkið. Þuríði sá hún ekki, því hún hafði strax látið söðla hest sinn, og var riðin á stað yfir að Bakka til prestsins.
Önnu sárnaði það, að hún fengi ekki svo mikið sem kveðja Jón, en hún huggaði sig við, að skilnaður þeirra yrði ekki til lengdar.
Nú var Kristján búinn til ferðar og þau héldu af stað. Kristján bar á bakinu koffort eitt ekki stórt. Í því var aleiga Önnu.
4. kafliGróa var miður glöð við komu Önnu, þegar hún heyrði hvernig stóð á málavöxtum. Sjálf þagði Anna að mestu leyti, en lét Kristján hafa fyrir að halda svörum uppi og skýra frá ferð sinni. En þegar Kristján dró upp tvo ljómandi fallega gullpeninga, og fékk Gróu frá Þuríði á Borg, þá fór heldur að hýrna yfir kerlingu. Hún sagði að í öllu væri sjáanleg rausn og höfðingskapur Þuríðar, jafnvel í viðurgerning hennar við óverðuga.
Kristján ráðsmaður fór svo að búast til að fara, og um leið og hann kvaddi Gróu gömlu, sagði hún, að hún skyldi lofa telpu-rýjunni að vera, úr því svona væri komið fyrir henni, það væri hvort sem er kristileg skylda sín, vegna Bjargar systur sinnar, og um leið og hún nefndi nafn systur sinnar, tók hún svuntuhornið og bar það upp að augunum á víxl.
Svo fór Kristján á stað og Anna sat eftir í nýju vistinni.
Það var ekki margmennt þar á heimilinu. Maður Gróu var dáinn fyrir mörgum árum, og höfðu þau átt eitt barn, er lifði. Það var piltur, er Þorgeir hét, og var um þetta leyti maður hálfþrítugur. Hann var almennt kallaður Þorgeir óviti, því hann var fábjáni. Hann gat reyndar unnið flesta vinnu, sem fyrir kom, jafnt störf kvenna sem karla, enda var hann manna stærstur vexti og sterkastur, en ef sorg eða gleði kom flatt upp á hann, eða ef hann reiddist, varð hann óður og hamslaus, svo að bönd varð að hafa á honum. Hafði það stundum komið fyrir, að móðir hans varð að flýja til næstu bæja til að leita hjálpar. Meðan æðið var á Þorgeiri, talaði hann ekkert orð af viti. Hversdagslega var hann rólegur og stilltur; talaði fátt, en hætti við að svara út í hött, ef hann var spurður, einkum ef það voru ókunnugir, sem spurðu hann.
Þau mæðginin tvö voru allt heimilisfólkið. Það má geta nærri, að það var ekki skemmtilegt fyrir Önnu, að koma af fólksmörgu og skemmtilegu heimili til Gróu á Hrauni. En henni leiddist ekkert fyrst framan af, því að hún hafði nóg að hugsa. Fyrstu dagana var hún alltaf að vonast eftir, að Jón kæmi yfir að Hrauni að finna sig og tala við sig, eða að minnsta kosti skrifaði sér til. En hvorugt varð. Hún skildi ekkert í því, og tók sér það nærri, en þegar hún hugsaði betur um, þótti henni sjálfsagt, að móðir hans liti svo vel eftir honum, að honum væri ómögulegt að bregða sér bæjarleið eða jafnvel skrifa bréf.
Nokkrum dögum eftir flutning Önnu, kom vinnukona frá Borg að Hrauni og sagði þar tíðindin frá Borg. Jón hafði ekki komið heim fyrr en seint að kveldi, daginn sem Anna var send burtu. Svo höfðu þau mæðginin læst sig sinni í herbergi Þuríðar og talazt þar við mikinn hluta næturinnar. Skömmu áður en Jón kom heim, hafði Þuríður komið úr för sinni til prestsins, og verið töluvert rólegri og með meiru gleðibragði, en þegar hún fór. Daginn eftir höfðu karlmennirnir nóg að gera að skaflajárna hesta og búa allt út í langferð. Snemma næsta morgun höfðu þeir svo lagt á stað, Jón og Kristján ráðsmaður. Hvert ferðinni var heitið, vissu menn ekki fyrir víst, en eftir því sem heyrzt hafði til Þuríðar og Kristjáns, mundu þeir ætla til Reykjavíkur, og ætti Jón að líkindum að vera þar um tíma til þess að menntast.
Það má geta nærri, að Önnu þóttu þessar fréttir allt annað en góðar. En hún lét ekki á neinu bera. Hún vissi líka, að nú gæti Jón þó skrifað sér til, fyrst hann væri kominn frá Borg.
Það var fáförult um á Hrauni, en kæmi þar maður, vonaðist Anna alltaf eftir, að hann væri með bréf til sín. En enginn hafði neitt bréf til hennar. Kristján ráðsmaður kom aftur að sunnan, pósturinn fór um sveitina oftar en einu sinni, en ekkert bréf kom frá Jóni. Menn sögðu, að hann væri í Reykjavík að læra ensku og að honum liði vel.
Þegar fór að líða fram á vorið, fór Anna að verða lasin og því meir sem á leið.
Einn dag, nokkru eftir sumarmálin, sendi Gróa gamla Þorgeir óvita eftir Þuríði á Borg; hún var helzta yfirsetukonan þar í sveitinni.
Önnu gekk vel og fæddi hún meybarn, sem Gróa sagði að væri það fallegasta og efnilegasta barn, sem hún hefði séð á ævi sinni, enda líktist það mjög ömmu sinni í föðurættina.
Skömmu eftir að Anna fæddi, sofnaði hún og hélt hendinni yfir um litla barnið sitt.
Þegar hún vaknaði var barnið horfið.
Þuríður á Borg var farin á stað og hafði tekið barnið með sér.
Anna rak upp óttalegt hljóð, og þegar Gróa sagði henni, að Þuríður sín hefði gert það miskunnarverk að taka barnið, þá kom það æði yfir hana, að Þorgeir óviti átti nóg með að halda henni.
Æðið fór reyndar af henni eftir skamma stund, en hún varð óttalega veik, talaði ekki annað en óráð og hrópaði í sífellu á barnið sitt. Gróa gamla var farin að tala um, að "guð mundi ætla að sýna henni þá náð, að taka hana til sín", en það varð þó ekki.
Önnu fór að smáskána, en þó lá hún rúmföst langt fram á vorið.
Skömmu fyrir túnasláttinn gat hún klæðzt í fötin, en hún var svo óstyrk, að hún gat ekki gengið, og bar Þorgeir óviti hana á hverjum degi út í sumarblíðuna, og frá því fór hún að hressast með degi hverjum. En það var auðséð af öllu, að hún mundi aldrei ná sér að fullu, og aldrei verða aftur söm og hún hafði verið.
Það var eitt kvöld um túnasláttinn, að þær Gróa og Anna sátu úti í hlaðvarpanum. Þorgeir var skammt frá þeim við slátt, og var Gróa að segja honum fyrir verkum, en hélt á prjónunum sínum og var að prjóna um leið.
Anna sat og hélt að sér höndum, horfði út í bláinn og andaði að sér hreina kvöldloftinu.
"Nú ertu þó farin að hressast, blessuð mín", sagði Gróa ofur hlýlega.
"Ójá, mér finnst mér batna með degi hverjum núna", sagði Anna, en útlit hennar var þó allt annað en hraustlegt, andlitið náfölt og kinnfiskasogið, og augun ókyrr og tindrandi.
"Ég brá mér yfir að Borg í morgun; hún Þuríður mín hafði gert orð eftir mér til að tala við mig um ýmislegt. Ég sá líka hana litlu dóttur þína; hún er allra-bezta barn, dafnar með degi hverjum og er eftirmynd hennar Þuríðar minnar".
Anna hrökk við, þegar hún heyrði barnið sitt nefnt, og eins og drakk af vörum Gróu hvert orð, sem hún sagði.
"Heldurðu að ég mætti ekki koma yfir um og sjá hana, þegar ég er orðin nógu frísk?"
"Vertu nú ekki að hugsa um það. Þú mátt, blessuð mín, þakka guði og góðum mönnum fyrir, að þeirri byrði var létt af þér, aumingjanum. Heldurðu kannske, að þú hafir efni eða mátt á, að ala telpuna þína upp eins og Borgarfólkið? Yrðirðu svo heppin að giftast vel, þá gætirðu náttúrlega tekið telpuna til þín".
"Nær kemur hann Jón heim?" spurði Anna ofboð lágt, og um leið sló eldroða á föla andlitið hennar.
"Hann Jón! Þú ert þó ekki að hugsa um hann Jón ennþá, vona ég?" sagði Gróa og var fremur byrst. "Það er ekki til neins fyrir þig, sveitartelpurýjuna, vinnukonugreyið, að vera að hugsa um ríkasta mannsefnið í sýslunni. Ert þú það barn, að þú sjáir það ekki?"
Anna þagði og leit niður fyrir sig.
"Það er líka svo guði fyrir að þakka, að það eru fleiri efnilegir menn til en hann Jón", sagði Gróa. "Þú ættir, bezta mín, að eignast reyndan og ráðsettan mann; það væri þér fyrir beztu".
Svo var þögn nokkra stund.
"Ég trúi líka, að einum manni hafi alltaf litizt svo vel á þig, blessuð mín", sagði Gróa um leið og hún strauk Önnu um kinnina. "Ekki get ég kallað þig forvitna. Hver heldurðu að hann sé?"
"Það veit ég ekki".
"Ekki nema hann Kristján ráðsmaður; það er nú mannsefnið, sem fáar mundu neita".
"Hann Kristján 4.?" sagði Anna. Þetta kom svo flatt upp á hana, að hún sat alveg agndofa.
"Hann Kristján ráðsmaður, já, blessuð mín, víst er það hann. Hún Þuríður mín getur vel komizt af með annan yngri mann sér við hönd, til þess að sjá um búið með henni. Hún er líka svo hugul og sínum vinum sinnandi um allt, blessuð, að henni finnst nú líklega, að Kristján ætti að fara að eiga með sig sjálfur. Ég held hún gerði hann kannske einhvern veginn úr garði. Já, þá stúlku mætti kalla heppna, sem fengi hann".
"Það getur vel verið. Ég vona samt til, að hann komi ekki til mín", sagði Anna.
"Og því ekki það, barn?"
"Mér getur aldrei þótt vænt um neinn mann, nema Jón, og fái ég hann ekki, þá giftist ég aldrei".
"Hvað ertu að fara með, telpa? Heldurðu að manni þurfi að þykja svo fjarska vænt hvoru um annað, þó að maður giftist. Ég held, að það ríði meira á því, að maður fari ekki strax á sveitina".
"Mig langar ekkert til að giftast. Ef guð gefur mér heilsuna aftur, þá tek ég hana Jónu mína litlu, og svo vona ég til, að ég geti verið ánægð, þegar ég hef hana hjá mér".
"Taka hana Jónu litlu; þú heldur kannske, að hún Þuríður mín sleppi við þig barninu, sem hún er búin að taka ástfóstri við, og láti það flækjast með þér úr einni vist í aðra. Nei, þú þarft ekki að vonast eftir því; annað mál væri ef þú giftist ráðsettum manni, þá væri líklegt, að hún sleppti barninu við þig og meira að segja gæfi þér heiðarlega með því. Ekki er að tala um rausnina hennar, blessunarinnar".
"Það á þó ekki að taka frá mér barnið mitt, og lofa mér aldrei að sjá það?" sagði Anna um leið og tárin hrundu niður á hendur henni.
"Taka frá þér, - hvaða dæmalaust vanþakklæti við guð og góða menn. Kallarðu það "að taka frá þér" að létta af þér ómaganum, og ala hann upp eins og fyrirmanns barn? Það er ekki von að vel fari fyrir þér, Anna mín, með þessum hugsunarhætti; vanþakklæti og sjálfbirgingsskapur eru engum manni til farsældar".
Gróa stóð upp og gekk til bæjar, en á leiðinni sneri hún sér við, og kallaði til Önnu:
"Þú ert nú komin á þann aldur, að þú ættir að sjá, hvað þér er fyrir beztu, einkum ef þeir, sem eldri og reyndari eru, sýna þér fram á það. Mundu eftir því".
5. kafli
Þetta bréf fékk Jóni margt að hugsa. Eiginlega hafði Jón ætlað sér að sitja rólega í Reykjavík og bíða betri tíma; hann hugsaði, að móðir sín mundi verða rólegri og vægari, þegar frá liði, og að hún mundi komast að þeirri sannfæringu, að þegar að vel væri að gætt, þá hefði hún þó verið of ströng við einkabarnið sitt og þá stúlku, sem honum þótti vænt um eina. Með bréfum sínum ætlaði Jón sér svo að smámýkja skap móður sinnar, en hlýðnast henni í öllu og skrifa Önnu ekki til; hann vissi það, að yrði móðir sín ekki unnin með hlýðninni, þá tækist það ekki á annan hátt. Eiginlega þótti honum gott að vera svona langt burtu, fjarri öllu stímabrakinu heima; að sitja fjarri í friði og óáreittur og bíða þess, að allt lagaðist af sjálfu sér, var það sem næst var skapferli hans. Hann var enginn styrjaldarmaður.Hrauni, 15. júlí 1880. Elsku-Jón minn!
Ég sezt nú niður og fer að skrifa þér, af því að mér leiðist svo ógnarlega, að fá aldrei að sjá frá þér línu. En þú hefur náttúrlega svo mikið að gera og margt að hugsa, að þú hefur ekki tíma til þess. Mér leiddist líka mest eftir því, meðan ég var veik, en nú er ég orðin svo frísk, að mér leiðist ekkert. Blessað litla barnið okkar kvað dafna svo vel. Ég er viss um, að hún er lík þér. Ég get ekki sagt þér, hvað mig langar til að sjá hana, en ég má ekki koma yfir um. Mig langar til að biðja þig að skrifa móður þinni um það, að ég mætti koma yfir um, þó ekki væri nema einstöku sinnum, til að skemmta mér við hana Jónu litlu okkar. Heldurðu að það verði mjög langt þangað til þú kemur heim? Stundum finnst mér tíðin vera svo lengi að líða, og sumir eru líka að segja mér, að það sé ekkert nema barnaskapur af mér, að vera að hugsa upp á þig. Ég finn líka, að það er hverju orði sannara, að þú tekur langt niður fyrir þig, að eiga mig. En mér þykir bara ennþá vænna um þig fyrir það. Bara að allt færi nú bráðum að lagast, þú kæmir heim og við gætum fundizt. En ég skal samt ekki vera neitt bráðlát, og ég vil að þú farir einungis eftir því, sem þú álítur bezt. Ég veit að þú skrifar fyrir mig móður þinni um Jónu. Helzt vil ég fá að taka hana til mín. Ég er nú bráðum orðin fullfrísk og get unnið fyrir henni. Þá fyndist mér líka eins og ég ynni fyrir okkur bæði fyrir blessuninni litlu. Það væri gaman. Þú skrifar nú móður þinni um þetta allt; að minnsta kosti skil ég ekki í, að hún lofi mér ekki fyrir þín orð að koma stöku sinnum til þess að sjá barnið mitt og okkar.
Fyrirgefðu nú, hvað bréfið er illa skrifað. Ég bið alltaf guð að fylgja þér og vera hjá þér.
Þín elskandi
Anna.
Stödd á Bakka, 12. ágúst 1880.Sonur minn!
Þú skrifar mér núna með póstinum að þú hafir fengið bréf frá þessari siðsemdartelpu, henni Önnu þinni. Svo ert þú að fara fram á það, að ég fari að éta ofan í mig aftur allt, sem ég talaði við þessa skepnu, þegar ég komst að breytni hennar og rak hana af mínu heimili, og stingur upp á því, að ég leyfi henni að koma hingað, til þess að finna telpuna ykkar. Það er auðséð á öllu, að þú hefur nógu snemma orðið faðir; ertu svo blindaður, að þú ætlir að láta þá skepnu taka þátt í uppeldi barnsins? Nei, hún Anna þín skal ekki koma inn fyrir mínar dyr, meðan ég er ofanjarðar, en barnið þitt skal ég eftir veikum kröftum ala upp eins og kristinni konu sæmir. Svo er úttalað um það mál.
Þú segir líka í bréfi þínu, að þú vegna forboðs míns hafir ekki svarað bréfi Önnu. Þá ætla ég nú að tala við þig hreint og beint um allt þetta, sem okkur fer á milli, sonur sæll. Eins og ég sagði þér, þegar við töluðum saman hér heima, þá er ég ekki skyldug til að láta þér eftir eitt skildingsvirði af reytum mínum. Þetta litla, sem þú erfðir eftir föður þinn, ertu löngu búinn að úttaka, og get ég gefið þér fullan reikning fyrir því. Í lifanda lífi mínu get ég gefið allt mitt burtu, eins og það er, og það hótaði ég þér að gera, ef þú létir ekki að orðum mínum, og hættir með öllu að hugsa um þessa Önnu. Á síðasta bréfi þínu sé ég, að þú ert fjarri því að vera hættur að hugsa um hana. Þú tekur á móti bréfum frá henni, og ert svo í bréfum til mín að halda fram hennar máli, á móti mér, móðurmyndinni þinni. Nú skal ég segja þér það, sonur sæll, að ég er farin að eldast, og get burt kallazt á hverri stundu; þetta stímabrak, sem ég hef staðið í fyrir þínar sakir, hefur líka allt annað en lengt daga mína. Falli ég frá nú sem stendur, erfir þú allar þessar reytur, sem ég læt eftir mig. En ég segi þér það með sanni, sonur, að ekki skal þér lánast að bíða rólegur eftir dauða mínum, svo að þú getir þá sóað út arfinum eftir mig í sambúð við ráðlausa og blygðunarlausa sveitarstelpu. Ég hef marga nótt vakað til þess að hugsa um þitt ráð, og nú er ég loksins komin að niðurstöðu. Annað hvort skalt þú giftast, og það bráðlega, þeirri stúlku, sem ég af einlægum móðurhug vel þér, eða ég gef burt allar eigur mínar, svo að þú skalt ekki skildingsvirði af njóta, og ég skal jafnlítið kannast við þig sem minn son, sem þú, með því að neita vilja mínum, kannast við mig sem kristilegt foreldri þitt.
Sú stúlka, sem ég hef valið þér, er vænsta og helzta stúlkan í þessu héraði, hún Guðrún á Bakka, svo að þú getur víst tæplega kvartað undan vali mínu. Þann ráðahag hef ég hugsað mér þér til handa, frá því að þú fæddist, og hefur það verið með vilja og samþykki síra Eggerts míns, og nú hef ég undir fjögur augu, fyrir nokkrum dögum, farið þess á leit við Guðrúnu mína, að hún ætti þig, og hún hefur þá trúað mér fyrir því, blessunin, að henni hafi alltaf þótt vænt um þig, síðan þú komst á legg, og að hún hafi mörgum sinnum grátið yfir þessu með þig og sveitarstelpuna. Svo fór ég til síra Eggerts míns og sagði honum frá öllu, og með hans vitund og aðstoð skrifa ég þér nú þetta bréf.
Ég skal ekki leyna þig því, að neitir þú þessu boði mínu, gef ég Guðrúnu minni á Bakka allt, sem ég á, bæði jarðir og lausafé, þó með því skilyrði, að hún megi aldrei láta þig eitt skildingsvirði af því fá. Hún mun varla amast við mér í horninu hjá sér.
Rúmri viku fyrir réttirnar sendi ég mann með hest eftir þér suður, og verður þú þá að vera búinn að hugsa þig um. Gangirðu að þessu síðasta tilboði mínu til þín, þá skaltu kaupa leyfisbréf hjá amtmanninum og koma svo til okkar, mín og unnustu þinnar. Ég skal taka þér eins og móður ber að taka töpuðum syni, sem hún hefur aftur fundið, og Guðrún mín mun taka þér eins og hennar hjarta segir henni.
Viljirðu ekki hlýðnast orðum móður þinnar, á sendimaður minn að reka hestana lausa heim aftur. Þá erum við skilin.
Þú munt þekkja mig svo, sonur minn, að þú veizt, að ég tala ekki út í bláinn.
Þín mædda móðir
Þuríður Guðbrandsdóttir.
Svo kom bréf móður hans eins og helliskúr úr heiðríkju.
Hann sofnaði ekki mikið nóttina eftir að hann fékk bréfið. Hann hafði frá æsku skoðað sig sem erfingja að öllum Borgarauðnum, og hafði oft skemmt sér við að hugsa um, hvað hann skyldi gera, þegar hann væri orðinn stórbóndi á Borg. Hann mundi vel eftir Guðrúnu prestsdóttur; hún var ófríð stúlka, en alltaf hafði hún látið vel að honum, frá því hann var dálítill hnokki. Hann hugsaði sér Önnu við hliðina á henni, og þá varð lítið úr prestsdótturinni. Nei, við Önnu gat hann ekki skilið, þá var betra að verða af öllum auðnum og halda henni. Því meir, sem hann hugsaði um það, því fastari varð sá ásetningur hans, og með hann í huganum sofnaði hann.
Hann vaknaði ekki fyrr en um miðjan dag. Hann mundi strax eftir ásetning sínum um kvöldið. Honum varð einhvern veginn undarlega þungt fyrir brjósti, þegar hann fór betur að hugsa um það allt. Það var heldur ekkert sældarlíf, sem fyrir honum lá. Hann átti ekkert til og Anna var bláfátæk. Hann mátti til að verða vinnumaður hjá einhverjum vandalausum manni. Hver vissi, hvenær þau gætu reytt svo mikið saman með barn í eftirdragi, að þau gætu gifzt? Yrði það ráðlag ekki báðum þeim til ógæfu? Gæti hann ekki unnið þeim báðum meira gagn og gæfu með því að kasta ekki frá sér Borgarauðnum? Ófríðleiki Guðrúnar prestsdóttur fór líka að smáminnka, þegar hann fór betur að hugsa um hana; hún var blíð í máli og þýð í umgengni; svo var hún líka af góðum og göfugum ættum, og hlaut í öllu að verða manni sínum til sóma. Með því að taka kosti móður sinnar gat hann líka gert barni þeirra ómetanlegt gagn. Var það ekki synd að láta blessaðan krakkann hrekjast með bláfátækum foreldrum frá einni plágu til annarrar? Fyrir Önnu gat hann líka séð á margan hátt, ef hann yrði fjáður maður. Hann gat t. a. m. látið hana vera í húsmennsku hjá Gróu móðursystur sinni með barnið, og séð um, að hún þyrfti lítið fyrir lífi að hafa og ætti góða daga, og svo gæti hann litið þar til hennar og barnsins.
Þuríður á Borg hefði ekki þurft að bíða fram undir réttirnar með það að senda mann eftir syni sínum. Hann var löngu búinn að hugsa sitt ráð, og hafði gengið með leyfisbréfið í vasanum marga daga.
6. kafliÞað var stórrigning daginn sem að átti að gefa þau Jón og Guðrúnu saman, hvasst veður og hryssingskalt. Laxá, sem rann eftir dalnum fyrir neðan Borg og Bakka, óx á hverri stundu, valt fram kolmórauð og flóði yfir alla bakka fram að sjó. Þegar veizlufólkið var komið saman á Borg um morguninn, töluðu menn um, að Laxá væri lítt fær og yrði sjálfsagt ófær að kvöldi; en kirkjustaðurinn, sem Borg átti kirkjusókn að, lá hinum megin við ána og voru nú flestir á því, að ekkert yrði úr brúðkaupinu þann daginn. Menn töluðu náttúrlega ekki hátt um það, en skeggræddu svona um það sín á milli. Sumum þótti illt að verða af veizlunni, en ekki var trútt um, að sumum þætti gaman að, að ekkert yrði úr neinu, og sögðu að síra Eggert og Þuríður hefðu efni á því að efna til veizlu á ný. En síra Eggert og Þuríði kom strax saman um, að það væri bezt, að gefa brúðhjónin saman í stofunni á Borg, úr því að eigi væri fært til kirkjunnar fyrir óveðrinu. Og Kristján ráðsmaður var sendur "út af örkinni" til stofu, þar sem veizlufólkið var saman komið, og tók hann að búa þar allt undir hjónavígsluna. Og eftir litla stund kom síra Eggert í embættisskrúða, og þar á eftir Þuríður og brúðhjónin, og hin helga athöfn byrjaði þegar.
Síra Eggert sagðist prýðilega. Það var auðvitað, að hann hafði yndi af öllum sínum embættisverkum og hann gerði þau með stakri samvizkusemi, en sjálfur sagði hann í hjónavígsluræðunni, að þetta embættisverk hefði hann gert með mestri ánægju á ævi sinni. Og það var satt. Hann talaði með innilegri sannfæringu og mikilli mælsku um æskuástina, sem byrjaði hjá börnunum, yxi svo með ári hverju og yrði að brennandi elsku, sem fyrst fengi frið í kristilegu hjónabandi. Þannig sagði hann að þessi "sín elskuleg börn" í dag helguðu æskuást þá, er þau frá blautu barnsbeini hefðu borið hvort til annars, með innsigli kristinnar kirkju og guðsorðs. Að endingu minnti hann þau á allar skyldur þeirra og lagði þeim ýmis kristileg heilræði.
Brúðurin sat, eins og brúði sæmdi, grafkyrr og horfði í gaupnir sér á meðan á ræðunni stóð; en þegar faðir hennar fór að tala um æskuást brúðhjónanna, þá setti að henni óstöðvandi grát; hún hélt klútnum fyrir augun, og var nærri eins og hún ætlaði að missa öndina af ekka.
Brúðguminn var rjóður í andliti, eins og sveitapiltar gerast, en þann dag var hann venju fremur fölur. Hann þurfti oft undir ræðunni að þurrka framan úr sér svitann, og þó var ekki á honum að sjá, að það væri hitanum að kenna.
Þegar hjónavígslunni var lokið, þyrptust allir utan um brúðhjónin, til þess að óska þeim gæfu og blessunar. Gamla Þuríður kyssti fyrst Guðrúnu og svo Jón sinn, og því næst mælti hún svo hátt, að allir heyrðu:
"Á þessari hátíðlegu stundu gef ég ykkur jörðina Borg með öllu búinu bæði utan húss og innan; ég vona til að þið lofið mér að hírast í einhverju horninu hjá ykkur".
Þetta kom flatt upp á alla, því að engum datt í hug, að Þuríður mundi fara að bregða búi svo bráðlega, þar sem hún var enn að sjá, með fullu fjöri og umsvifamikil um alla búsýslu.
Það kom síra Eggert eins óvart og öðrum, og hýrnaði svo yfir honum, að boðsmenn þóttust ekki hafa séð hann í annan tíma með jafn-innilegum ánægjusvip. Hefði hann vitað tíðindin fyrir hjónavígsluna, mundi honum hafa tekizt enn betur upp á þessu sínu "ánægjumesta embættisverki".
Veizlan fór fram í sömu stofunni sem hjónavígslan var haldin í; sú stofa var í þrem stafgólfum og skipuð borðum og bekkjum horna á milli. Síra Eggert byrjaði borðsálminn með snjallri og skærri rödd, og var hann sunginn til enda með aðstoð ýmsra boðsmanna.
Svo var farið að borða.
Fyrst var almenn þögn á, en þegar steikin var búin og komið að kökunum, voru þeir, sem næst dyrunum sátu, orðnir töluvert hýrir og nokkuð háværir; nógu mörg brennivínsstaup höfðu eigi verið til, og í stað þeirra voru svo púnsglös fengin þeim er fremstir sátu. Ekki heyrðust menn fást um það. Þeir fylltu drjúgu glösin sín tíðum, og tæmdu þau jafn-oft, og voru jafnvel farnir að orða það við Gunnlaug gamla í Botni, að syngja "Annars erindi rekur", áður en staðið væri upp frá borðum; en Gunnlaugur sagðist þurfa að fá sér svo sem í einu hálfu enn, svo að söngurinn fórst fyrir um sinn.
Þegar staðið var upp frá borðum, voru borð og bekkir bornir burt úr stofunni og því næst farið að dansa. Brúðhjónin dönsuðu saman fyrst, og allir tóku eftir því, að svipur brúðgumans var allur annar nú, en undir hjónavígslunni: Hann var svo rösklegur og karlmannlegur, að það var eins og hann hefði lifað ár síðan hjónavígslan var haldin yfir honum, og honum hefði farið fram á hverri viku á þeim tíma.
"Það hefur glaðnað yfir mörgum fyrir minna, en alla Borg og allt Borgar-búið", hvíslaði Gunnlaugur í Botni að kunningja sínum, en svo hátt, að allir heyrðu í stofunni, því að hann hafði fengið sér rúmlega í einu hálfu til.
"Fyrir það skyldi ég giftast öllum skrímslum á Íslandi, lagsi", bætti hann við jafnhátt.
Til þess að firra hneyksli, var nú það ráð tekið, að láta Gunnlaug og nokkura hina óæðri menn fara yfir í herbergi þiljað, er gagnvart var stofunni. Þar fóru þeir að drekka púns allfast. Og svo var farið að syngja. Það var með tvísöng og fór Gunnlaugur upp; en eftir því sem leið á kvöldið, fjölgaði röddunum, og loks urðu þær jafnmargar og nefin voru, því að hver söng með sínu.
Í stofunni fór dansinn að smáminnka; menn fóru að fá sér í staupinu og tala um ýmis héraðs- og sveitamál. Það var talað um, að þar sem svo margir væru saman komnir, ættu menn að stofna eitthvert fyrirtæki, eða styrkja einhvern bágstaddan. Það var Jón brúðgumi, sem fyrstur vakti máls á því.
"Ég sting upp á því, að við bændamyndirnar, sem hér erum saman komnir, sendum honum Birni á Krossi sína ána hver í fyrramálið", sagði nefndarbóndi einn. "Hann missti meir en helming af ánum sínum úr bráðasótt í fyrravetur, og þó hann sé mestur dugnaðarmaður af okkur öllum, þá réttir hann aldrei við, ef hann fær enga hjálp; og það er nauðsynlegt að gera það strax, því annars kemur hjálpin kannske of seint".
Það var góður rómur gerður að þessum orðum; allir könnuðust við, að Björn væri hjálparþurfi, og að hann ætti fyllilega hjálpina skilið fyrir dugnað sinn og framtakssemi.
Síra Eggert fannst það líka, og hann sagði, að enginn skyldi verða fyrri til að gefa honum, en hann. En því bætti hann við, að hvenær sem hann gerði eitthvað gott, þá léti hann sig það ætíð miklu varða, að gjöfin væri meðtekin með því rétta hugarfari, með sannri auðmýkt og hræsnislausu þakklæti við sinn sannkristna bróður, er gjöfina gæfi, og gjafarann allra góðra hluta. Hann sagðist ekki þekkja hugarfar Bjarnar, nú sem stæði, en seinast þegar þeir hefðu komið saman í hreppsnefndinni og átt þar saman að sælda, þá hefði hann fullkomlega fundið það, að þetta mótlæti hefði ekki haft þau áhrif á hann, sem það hefði átt að hafa; allt mótlæti og alla reynslu sendi forsjónin mönnum til þess að mýkja hjartað og vekja elsku til bræðranna. Hvorugt þetta sagðist hann hafa fundið hjá Birni, og sitt ráð væri það, að láta mótlætið reyna Björn dálítið meira, svo að hann kæmist inn á þann rétta veg. Það mundi verða honum og sálarvelferð hans affarasælast.
Þuríður varð strax á máli prestsins, og vinir beggja tóku undir með þeim, svo að þeir, sem Birni vildu hjálpa, voru svo ofurliði bornir, að ekkert varð úr samskotunum.
Menn fóru nú að verða töluvert kenndir. Síra Eggert og Þuríður sátu á eintali úti í horni, og töluðu svo innilega um börn sín, sveitarstjórn og kirkjumál, að báðum vöknaði um augu; síra Eggert hafði reyndar drukkið töluvert af púnsi áður, og Þuríður hafði líka hresst sig dálítið; hún þurfti, eins og eðlilegt var, að drekka prestinum sínum til. Kristján sat á bekk alllangt frá, hann teygði frá sér fætur og hallaði sér með hendur í vösum upp að veggnum og einblíndi stórum augum í hornið, þar sem hann endrum og eins heyrði til foreldra brúðhjónanna, en ekkert sá hann, því sjónin var orðin svo döpur, þegar á kvöldið leið.
Brúðurin var að tala við konurnar; hún hló dátt, þegar þær gerðu eitthvað að gamni sínu við hana, og gleðin skein út úr henni. Þær voru svona að fleygja því, að nú mundi bráðum mál að hátta. Stundum gekk hún út í hornið til föður síns og Þuríðar, og þá kysstu þau hana á víxl. Guðrún hafði aldrei verið eins lagleg og þann dag; brúðarskartið fór henni svo vel, og gleðin gerði hana svo unga, að hún leit ekki út fyrir að vera meira en um tvítugt.
Þegar komið var yfir miðnætti, bauð Þuríður "í nafni brúðhjónanna" öllum gestunum að vera um nóttina; "nú væri varla fært um sveitina fyrir illviðri, enda væri nú komið kolniðamyrkur", og sagðist hún ekki vilja, að "nein slys, hversu lítil sem væru, hlytust af þeim gleðiviðburði, sem hér hefði orðið í dag".
Allir gestirnir tóku boðinu með þökkum, og þótti boðið rausnarlegt og Þuríði líkt.
Hinir óæðri menn fóru nú að koma inn í stofuna aftur, því að þeim fannst, að hinir meiri mennirnir væru nú orðnir svo, að hvorugir sæju á öðrum, og var sú hugsun víst á rökum byggð, því að allt fór fram í mesta bróðerni.
Gunnlaugur fór að tala við brúðgumann:
"Hvað skyldi hana dreyma núna hana Önnu, aumingja rýjuna hana Önnu? Hún er aumingi núna. Ha! Ha!"
7. kafliAnna vissi allt um brúðkaupið á Borg. Gróa hafði reyndar ekkert sagt henni um það. En Þorgeir óviti sagði henni allt, sem hann hafði heyrt, einu sinni þegar þau voru tvö ein úti á túni. Henni brá ekki svo mikið við það; hún gat ekki orðið fölari en hún var, og áður hafði smám saman verið að færast yfir hana einhver doðadrungi; hún tók eiginlega ekki eftir neinu, og talaði svo sem ekki neitt. Allt, sem henni var sagt að gera, gerði hún eftir því sem skipað var, en þó svo, að það var eins og hugur hennar væri langt burtu og kæmi ekki nálægt neinu, sem í kringum hana var. Þegar Þorgeir óviti sagði henni þessar fréttir, horfði hún á hann lengi og fast, eins og hann væri að segja henni eitthvað, sem hún ekkert skildi í. Hún spurði ekki um neitt og sagði ekki neitt, og aldrei minntist hún á brúðkaupið einu orði.
Brúðkaupskvöldið á Borg sátu þær Gróa og Anna inni á baðstofulofti, og bjuggust til að fara að hátta. Það hafði verið einhver ókyrrð yfir Önnu um daginn, svo að Gróu var farið að gruna, að einhver kynni að hafa sagt henni frá brúðkaupiuu, þótt hún reyndar gæti ekki skilið, hver það ætti að vera, því ekki datt henni í hug, að Þorgeir sonur sinn hefði haft vit á að taka eftir því, sem hann hafði heyrt talað um það.
En eftir því sem á daginn leið, varð Anna rólegri, og um kvöldið var Gróa orðin fullviss um, að enginn hefði sagt henni neitt.
Anna sat á stól við borðið undir glugganum á baðstofuþilinu og studdi hönd undir kinn, og einblíndi út í regnið. Það dundi á glugganum, og regndroparnir runnu í lækjum niður eftir rúðunum. Það var líka allt af að hvessa og stormurinn næddi inn, en Anna fann ekkert til kuldans; hún sat grafkyrr og einblíndi út.
"Það er skemmtilegt veðrið að tarna", sagði Þorgeir óviti um leið og hann kom upp á loftið. "Hún Laxá er ófær hverri skepnu. Kannske allt veizlufólkið drukkni þar í nótt", og um leið og hann bætti því við, hló hann bjánalega, en þó einhvern veginn svo grimmdarlega, eins og hálfvitar stundum gera.
"Hvað ertu að þvaðra, aulinn þinn?" sagði Gróa. "Farðu strax að hátta".
Anna hrökk við, þegar hún heyrði það, sem Þorgeir sagði. Hún stóð upp og gekk til rúms síns. "Drukkna í Laxá - drukkna í Laxá", sagði hún í hálfum hljóðum; og svo fór hún að hátta.
Þegar Laxá var mikil, heyrðist niðurinn og straumfallið um allan dalinn.
Anna gat ekki sofnað; hún lá vakandi og sneri sér á ýmsar hliðar; árniðurinn hljómaði í eyrum hennar, töfrandi, seiðandi.
"Drukkna í Laxá, - drukkna í Laxá".
Hún reis upp í rúminu og hlustaði til Gróu og Þorgeirs. Þau voru bæði löngu sofnuð og Þorgeir hraut hátt.
Hún sté fram úr rúminu, fór í nátt-treyjuna sína og utanyfirpilsið sitt og lét svo á sig skóna, allt ofur hægt. Síðan læddist hún ofan stigann, gekk fram göngin og opnaði bæinn.
Það var hellirigning, haustrigning, bitur og köld, stormur var alltaf að vaxa og kolniðamyrkur var á. Hún stóð dálitla stund við í bæjardyrunum og starði út í myrkrið; það var eins og hrollur færi um hana alla.
Það var ekki nema eitt augnablik; hún fór út, lokaði bænum á eftir sér og hljóp út í myrkrið, eftir niðnum í ánni.
Loksins datt hún; hún þoldi ekki að hlaupa og nú var hún orðin örmagna. Hún lagðist niður á þúfu, sneri sér upp í loft og lét regnið lemja sig í framan.
Hún hresstist við það, svo að hún gat staðið upp, og svo hélt hún áfram; en hún gat ekki hlaupið, hún gekk hægt og hægt; hún var orðin gagndrepa, og pilsið lamdist og vafðist um fætur henni í óveðrinu. Stormurinn lék sér að gula hárinu hennar, fleygði því til og frá, barði því framan í hana og kastaði því svo aftur á bakið. En hún tók ekki eftir neinu og fann ekki til neins.
"Drukkna í Laxá - drukkna í Laxá", hljómaði í sífellu fyrir eyrum hennar.
Hún nam staðar. Hún var komin að ánni.
Hún sá í myrkrinu, hvernig áin svall og streymdi fyrir framan fætur hennar. Skammt frá henni var hringiða og gaus upp snjóhvítum öldunum, sem urðu einhvern veginn enn voðalegri og draugslegri í náttmyrkrinu. Áin flóði yfir bakkana og kastaði endrum og eins stórskvettum upp á grundirnar, eins og til að vita, hvað hún gæti náð langt.
Anna stóð á bakkanum og horfði út í ána. Hún nötraði af kulda; hún hafði farið berhöfðuð að heiman, og hárið var nú orðið alvott, og regnið rann í straumum niður eftir andlitinu.
Hún settist niður og einblíndi út á ána.
"Drukkna í Laxá - drukkna í Laxá".
Hún mjakaði sér eftir bakkanum nær ánni, svo horfði hún niður fyrir fæturna. Það var ekki nema eitt fet að ánni.
Hún stökk upp, horfði út í strauminn og stóð kyrr svo sem eitt augnablik. Svo lokaði hún augunum og fleygði sér áfram.
Eftir litla stund kom nábleikt höfuð upp úr hringiðunni. "Hjálp, hjálp!" var hrópað með örvæntingu út í myrkrið; svo hvarf höfuðið föla og allt var kyrrt, nema stormurinn og regnið.
8. kafliMorguninn eftir var komið bezta veður, logn og heiðríkja, og regndroparnir glitruðu í sólskininu um túnin og engjarnar, enda eru sveitirnar aldrei eins fallegar og þegar sólin skín skært eftir regnnótt.
Boðsmennirnir á Borg tóku sér árbita, og fóru svo að búast til ferðar. Brúðguminn reið á leið með þeim eins og venjulegt er. Laxá var hlaupin fram og fær hverri skepnu, og boðsmennirnir frá Borg riðu nú eftir eyrunum og höfðu gaman af að reyna klárana.
Þegar þeir riðu fram hjá eyrarodda einum, sem náði langt út í ána, tók einn eftir því, að einhver svört hrúga lá þar úti á oddanum. Menn stóðu nú við, stigu af baki og fór að gæta að þessu.
Það var Anna frá Hrauni.
Hún lá á hliðinni uppi á oddanum með fæturna úti í ánni. Nátt-treyjuna hafði straumurinn rifið frá og skein í ber brjóstin. Munnurinn stóð opinn og var fullur af grænu slýi úr ánni, og á aðra augabrúnina hafði höggvist gat. En augun stóðu opin og störðu nú, þegar búið var að snúa henni við, með voðalegri ró á brúðgumann og boðsmennina frá Borg.
Allir þögðu. Brúðguminn var stiginn af baki. Hann var náfölur. Það fór hryllingur um hann allan, svo að hann skalf og þurfti að styðja sig við hestinn sinn.
Svo heyrðust köll uppi á eyrunum.
Menn litu við. Maður stór vexti og þreklegur kom hlaupandi. Það var Þorgeir óviti.
Hann stökk þar að, er menn stóðu kring um Önnu, ýtti þeim frá, er næstir stóðu, og svo stóð hann kyrr og horfði ofan á líkið.
Hann beygði sig niður að því og tók það upp í fang sitt. En þegar hann leit upp, varð honum litið framan í brúðgumann, sem hann hafði ekki fyrr komið auga á.
"Þú heldur kannske að ég sleppi henni Önnu, til þess að þú getir drepið hana aftur?"
Svo hljóp hann spölkorn burtu með byrðina sína í fanginu, sneri sér við, leit á brúðgumann og mannþyrpinguna, og skellihló þann heljar-kuldahlátur, að það var eins og öllum rynni kalt vatn milli skinns og hörunds.
Hann fleygði svo hattinum sínum á eyrina, og gekk berhöfðaður með líkið á leið heim að Hrauni. Hann gekk hægt og stillt, en bar þó byrði sína svo léttilega, eins og hún væri fis.
Brúðguminn stökk á bak hesti sínum, tók ofan hattinn og kvaddi þannig boðsmennina alla í einu, sló í klárinn og reið í einum spretti heim að Borg.
En boðsmennirnir héldu áfram leiðar sinnar, og varð tíðrætt um viðburðinn.
Þegar Jón kom heim að Borg, spurði hann strax eftir móður sinni og síra Eggert, því að hann var ekki farinn á stað. Svo lokuðu þau sig þrjú ein inni í stofu og sátu þar langa hríð. Þegar Jón kom út þaðan, var hann töluvert rólegri en fyrr.
Þuríður gamla sendi Kristján ráðsmann eftir Gróu á Hrauni. Þegar Gróa kom, hélt hún klútnum sínum upp að augunum á víxl og sagði ekki neitt. Þegar Þuríður kom til hennar, setti að henni grát mikinn. Hún kyssti Þuríði þrjá kossa, og þakkaði henni grátandi fyrir sig og sína fyrr og síðar.
Þuríður talaði fátt, en sagði Gróu, að þau mæðginin, hún og Jón sinn, ætluðu að sjá um útför Önnu heitinnar, og sagði, að hún skyldi ekkert hugsa um það.
Gróa blessaði hana margfaldlega og sagði, að ætíð væri hún eins með rausnina og manngæzkuna. Hún þurrkaði sér um augun, og það var eins og bráði af henni við þennan kostnaðarlétti.
Þegar Gróa fór á stað, hitti hún í bæjardyrunum vinnukonu, sem hélt á Jónu litlu, barni Önnu heitinnar.
"Og blessaður unginn, mikið mátt þú þakka, þegar þú fær vitið til", sagði hún, "að fá að vaxa upp á þessu blessaða kærleiksheimili og það í foreldrahúsum. Og mesta lukkan þín er þó kannske, að hún móðir þín er dáin. Hún var ólánstetur og aumingi, sem aldrei hefði orðið þér til gæfu".
"Kysstu hana ömmusystur þína, Jóna litla", sagði vinnukonan, og svo kyssti óvitinn Gróu gömlu, eins og til að þakka henni ummælin.
Bezti trésmiðurinn í sveitinni var fenginn til að smíða um Önnu, og var vandað til alls.
Ungi bóndinn á Borg var um þessa dagana fátalaður, og eins og hugsi, en þó var hann stilltur vel.
Prestinum og móður hans hafði tekizt að telja honum hughvarf, þegar hann morguninn eftir brúðkaup sitt kom inn í stofuna til þeirra og sagði hátt:
"Hún Anna á Hrauni er drukknuð; ég veit vel hvernig á því stendur, og þið vitið það líka".
Þeim hafði þó tekizt að telja hann ofan af slíkri vitleysu, sem þau kölluðu það, að hann ætti nokkurn þátt í dauða stúlkunnar.
En hann var ekki full-sannfærður. Hann gat ekki hugsað um annað en þetta eitt, og það var alltaf það sama, sem ósjálfrátt datt honum í hug: Hefði ég átt hana, hefði þá ekki allt farið öðruvísi? En hefði hann átt hana, þá hefði það dregið þann dilk á eftir sér, að hann hefði orðið að sleppa Borg og öllu tilkalli til arfs eftir móður sína. Var það rétt eða kristilegt að fleygja því frá sér, sem forsjónin með guðs og manna lögum hafði svo að segja fengið honum í hendur? Hann hugsaði um allt þetta aftur og aftur, og alltaf var hann í sama efa, óttalegum efa um það, hvort hann hefði breytt rétt. Hann átti oft tal við síra Eggert um þessar mundir. Síra Eggert sagði honum skýlaust, að hann hefði hvorki eftir guðs eða manna lögum átt rétt á, að fleygja frá sér og eftirkomendum sínum Borg og Borgarauðnum; hann sagði, að honum færist sem dánumanni, þegar hann léti nú grafa Önnu sæmilega og halda ræðu yfir henni, og gæfi barni þeirra kristilegt uppeldi. Jón gat reyndar ekkert haft á móti þessum orðum prests. En það var eitt að; síra Eggert hafði sagt tengdasyni sínum þetta undir fjögur augu. Jón hafði eins og margir aðrir í sveitinni þá trú, að það væri allt heilagur sannleikur, sem presturinn segði í prédikunarstólnum eða í kirkjunni; um það væri ekki hægt að efast neitt. En utan kirkju skoðaði bæði hann og aðrir sóknarprestinn sinn eins og hvern annan veikan og ófullkominn mann, sem bæði gæti yfirsézt, og líka sagt svona smá-ósannindi, ef á þyrfti að halda.
Jón var ekki það sem menn kalla léttúðugur maður. Hann vildi, að það stæði ljóst og skýrt fyrir sér, að hann þyrfti ekki að gera sér neina samvizku-sök út af Önnu. Hann var nú orðinn stórbóndi í sveitinni, og einsetti sér að verða stólpi þessa héraðs eins og móðir hans hefði verið, styrkja allar sannar framfarir og hjálpa öllum, þeim er bágstaddir væri og í sannleik væru verðir hjálparinnar. Í því atriði var hann á máli tengdaföður síns, að þeim einum bæri að hjálpa, er í sannleik væru þess verðir.
Svo kom fráfall Önnu rétt í því bili, að nýtt líf rann upp fyrir honum.
9. kafliÞað var kalt veður daginn sem Anna var grafin, norðan fjúk og dálítið frost. Líkmennirnir voru fjórir, og fóru þeir snemma um morguninn á stað með líkið til kirkjustaðarins. En Jón bóndi og presturinn komu þangað nokkru síðar.
Jón hafði látið gefa líkmönnunum góðan morgunverð, áður en þeir fóru á stað, og svo fékk hann þeim tvær þriggja pela flöskur af brennivíni, til þess að hafa í nesti um daginn.
Undir eins og þeir voru búnir að bera líkið inn í kirkjuna, fóru þeir að taka gröfina, en fóru sér hægt og voru mjög fátalaðir fyrst framan af.
Svo fóru þeir að súpa á flöskunum og verða smátt og smátt skrafhreyfnari. Þeir voru að tala um rausn og tryggð gömlu Þuríðar, og hvað henni hefði farizt vel við Önnu heitna, að taka barnið hennar, eins og bezta móðir, og gera nú að síðustu útför hennar heiðarlega og höfðinglega.
"Og ég segi ykkur satt, hann Jón er sonur hennar móður sinnar", sagði Gunnlaugur í Botni, um leið og hann saup á flösku og rétti þeim, sem næstur honum stóð.
Þeim kom öllum saman um það, að Jón væri mesta og bezta mannsefnið í sveitinni.
Eftir því, sem minnkaði í flöskunum, fóru þeir að verða viðkvæmari og guðræknari. Þeir töluðu um, hvað lífið væri fallvalt, og þeim vöknaði um augu, þegar þeir voru að raða hauskúpunum, sem upp úr gröfinni komu, á grafarbarminum. Svo leituðu þeir líka með báðum höndum í moldinni að dauðra manna beinum, og sögðu, að mest riði þó á því, að allt kæmist kristilega í vígða mold.
Gunnlaugur gamli var niðri í gröfinni að moka upp úr, og fór að raula fyrir munni sér: "Mín lífstíð er á fleygiferð".
Þegar búið var að taka gröfina, komu þeir síra Eggert og tengdasonur hans til kirkju, og hélt síra Eggert þar snjalla og hjartnæma ræðu.
Hann minnti á, að Anna heitin hefði verið upp á manngæzku og kristilegan kærleika komin frá æsku, enda hefði hvorugt nokkru sinni brugðizt henni. "Hún var alin upp á sveit, og svo var hún svo lánssöm að komast á hið siðprúða og kristilega heimili rausnarkonunnar Þuríðar á Borg, sem er sannkallað kærleiksheimili þessa héraðs. Með móðurlegri elsku umbar þessi heiðurskona allan veikleika og breyskleika hinnar látnu systur vorrar. Hún sýndi hið stakasta umburðarlyndi, og sonur hennar hina stökustu rækt í því máli Önnu heitinnar, sem margir aðrir mundu hafa snúizt öðruvísi við. Það var auðvitað, að hún bar ekki lengur gæfu til að vera hjá velgerðamóður sinni; en að kristilegur kærleikur og ræktarsemi þeirra mæðgina hafi fylgt henni alla leið, um það ber þessi vandaði síðasti bústaður vott, sem nú bráðum á að síga ofan í gröfina. Um það ber öll þessi umönnun vott, sem hér er sýnd hinum jarðnesku leifum hennar. Öll manngæzka er takmörkuð af lífinu; enginn mannkærleiki nær til jarðnesku leifanna, sem orðnar eru herfang dauðans, því þær eru ekki lengur menn heldur aðeins lík. Þá tekur hinn kristilegi, hinn ekta kristilegi kærleiki við; hann er það sem býr um hinn síðasta hvílubeð, sem lætur sannleikans orð hljóma þar í síðasta sinn, og breiðir svo moldina, hina vígðu moldina, ofan á hina látnu. Já, mínir elskanlegu bræður, það er hinn sanni kristilegi kærleiki, sem hér vinnur eitt elskuverkið, því hann er það, og hann einn, sem tekur út yfir dauðann, út yfir gröf og dauða. Amen".
Jón bóndi hlýddi með mestu athygli á ræðu prests, allur efi hans og veikleiki hvarf eins og mjöll fyrir sólu, undir ræðunni. Það var eins og prestur hefði valið hvert orð, til þess að kippa sálarástandi hans í rétt horf, sýna honum villu þá, sem hann hafði vafið sig inn í, og sanna honum í embættisnafni, að þegar skoðað væri frá hinu eina sanna sjónarmiði, þá væri allur viðurgerningur þeirra mæðgina hinn eini rétti, og fullur af kristilegum kærleika.
Hvernig gat Jón efazt lengur? Og hann gerði það heldur ekki. Það var eins og stóru bjargi væri létt frá brjósti hans. Allt sálarstríð hans var nú ekki orðið nema hugarburður, hann renndi eitt augnablik augunum yfir framtíð sína: hann var sveitarstólpi, athvarf allra sannþurfandi manna, styrkur allra góðra fyrirtækja.
Jón var enginn söngmaður, en Gunnlaugur gamli í Botni var talinn bezti söngmaður. Þeir skiptu svo með sér verkum; Gunnlaugur söng með prestinum, en Jón gerði líkmannsverk Gunnlaugs.
Þegar hann bar líkkistuna út eftir kirkjugólfinu, fannst honun nýtt líf streyma um allar æðar sínar, eins og nýtt þrek og nýr styrkur væri runninn upp í brjósti hans.
Hann mokaði rösklega ofan í gröfina; honum var svo létt um hjartaræturnar, að hann vildi vinna öll sín verk með dugnaði og samvizkusemi.
Svo var öllu lokið.
Anna frá Hrauni hvíldi í gröf sinni, fyrir líkn "hins ekta kristilega kærleika, sem hafði fylgt henni út yfir gröf og dauða".