SÝÐUR  Á  KEIPUM


SAGA  FRÁ  BYRJUN  17.  ALDAR

eftir Jón Trausta





1. kafli

"Yfir hraun og hrjóstur" - yfir bert og blásið landið gnæfir Snæfellsjökull, hið mikla og útbrunna eldfjall, með gíginn í miðju fjallinu, fullan af jökli. Þar stendur þessi mikli og fagri fjallajöfur sem risavaxið minnismerki löngu-löngu liðinna stórviðburða í ríki hljóðrar og þunglyndislegrar náttúrunnar. Hið efra er eilífur jökull, og ber mjallhvítar hyrnurnar hátt, en undan jöklinum kvíslast breiðar hraunelfur alla leið í sjó fram, eins og storknaðir blóðstraumar úr brjósti fjallsins. Umhverfis fjallið eru fangamörk jarðeldanna hvarvetna - leifar gamalla gíga og hver hraunsteypan ofan á annarri. Brimið erjar hvíldarlaust á hraunbrúnunum og brýtur þær upp. Há hraunskör gnæfir meðfram sjónum á löngum kafla, þar sem sjórótið sýður og drynur í kolsvörtum hellum og spýtist upp um gjárnar. Það eru Svörtuloft. Annars staðar er eldgamall gígur kominn í sjóinn, gjallhrúgunni er sópað burtu, en hrauntapparnir standa eftir eins og risavaxin tannabrot. Það eru Lóndrangar.

En Snæfellsjökull er líka minnismerki miklu yngri atburða, atburða í sögu Íslands. Nú er hljótt og dauflegt undir jöklinum að vestanverðu, þeim megin, sem við hafinu horfir, en svo hefir ekki ætíð verið. Á því svæði voru fjölmennustu veiðistöðvarnar fyrr á öldum. Þaðan var skemmst út á fiskimiðin, og þangað sóttu menn úr öllum nálægum héruðum til sjósóknar. Þar var háður ramur hildarleikur við óblíðu náttúrunnar á vetrarvertíðinni. Þangað fóru flestir kvíðandi og með hálfum huga í fyrsta skipti, sem þeir fóru, en jafnan síðan með tilhlökkun og fögnuði, því að þangað sóttu menn kjark og karlmennsku. Sá þótti enginn aukvisi heima í héraði sínu, sem róið hafði "undir jökli". - Þar sigu menn sjálfir á árarnar, en létu ekki gangvélar hræra sjóinn undir sér, og þar öttu menn kappi við brimlendingarnar án þess að lægja löðrið með lýsi eða olíu. Þar varð að duga eða drepast -- og flestum lærðist að duga. Þar gat að líta mannval að hreysti og harðfengi - meðan nokkurt mannval var til meðal Íslendinga. Margs ætti Snæfellsjökull að minnast og betur að hann mætti mæla.

En fámálugir og þunglyndir voru þeir menn, sem ólu aldur sinn undir jökli á vetrarvertíðinni. Fámálugir og þunglyndir voru Íslendingar yfirleitt á liðnum öldum, og enn er það ríkt í eðli þeirra. Gleðimenn voru þeir að vísu á glöðum stundum og gleymdu sér þá í gleði sinni. En eftir slíkar gleðistundir kom þögnin og þunglyndið tvöfalt þyngra en áður, og alltaf voru þær stundirnar langsamlega yfirgnæfandi. Undir jökli var allt skapað til þess að ala og fóstra þunglyndið. - Þögul, hörð og hrikaleg náttúran alls staðar umhverfis: - kolsvört, gróðurlaus hraunin, og himinninn oftast byrgður dimmum regnskýjum, sem lágu lágt og byrgðu allt, sem bjart var á jöklinum, sjórinn dimmblár og sífelldur brimsúgur með fjöruklungrinu. - Allt hart og fúlt og fjandsamlegt, en þó með slíka auðlegð í skauti sínu, að það launaði karlmennsku og kjarki ríkulega. Í slíku umhverfi urðu menn stálslegnir hið ytra, - þögulir og þungbúnir, með sigg í höndunum, hnykla í brúnunum, harðir, illir og óþjálir - en logandi eldur hið innra, eins og fjallið, sem yfir þeim gnæfði. Þetta voru menn, sem gæddir voru magni til að elska og hata - og dylja hvort tveggja vel. Til þess að halda órjúfanlegri tryggð við vini sína og launa hverja eina velgerð með tíu, en hefna þess grimmilega, ef gert var á hluta þeirra, og gleyma því aldrei - þótt hefnt væri. Bregðast við drengilega, ef einhverjum þurfti að hjálpa og hjálpa jafnt vinum sem fjendum, - eða jafnvel fremur fjendum en vinum, en hata þá eftir sem áður. Þetta voru menn, sem ekki blöskraði að horfast í augu við hættuna, menn, sem þá voru fyrst í essinu sínu, er komið var í krappasta dansinn, menn, sem gátu fallið, en ekki flúið. - Meðal slíkra manna hlaut að draga til stórviðburða, og hefir dregið til stórviðburða, fleiri og meiri en nú eru sögur geymdar um. Þess vegna mundu hraunin kringum Dritvík kunna frá mörgu og merkilegu að segja, ef þau mættu mæla.

Meðal þessara manna gerist sagan, sem ég ætla að segja.


2. kafli

Í byrjun 17. aldar gengu um 60 bátar úr Dritvík, eins og oft hafði verið áður og oft var síðan. Þá voru hörð ár og bágindi manna á meðal. En í víkinni var afli og allsnægtir á vetrarvertíðinni. Þar skorti engan mann föng.

Þessi litli vogur, þessi hraunskora, sem sjórinn féll inn í, var fræg um land allt fyrir aflasældina, enda brást hún sjaldan vonum manna. Hrikalegar hraunsteypubyggingar vernduðu hana fyrir briminu. Við þær sogaðist sjórinn upp og niður, sjóðandi og vellandi af hvítu, þungu brimlöðri. Sjórokið gaus hátt í loft upp, þegar holskeflurnar hvolfdust upp að lóðréttum standbjörgunum. Gríðarlegir fossar steyptust fram úr hellunum, þegar út sogaði. - En inni í sjálfri víkinni var sífellt logn og ládeyða. Allur sjórinn var þakinn lifrarbrá og fljótandi innyflum úr fiski. Dauðspakir sjófuglar, nærri því mannelskir, syntu þar um í stórhópum og héldu sér veislu í þessu mikla æti. Hvít ský af mávum og rytum svifu yfir víkinni. Fjöruborðið var allt þakið slógi og dálkum úr fiski, en hausar sáust þar engir, því að þeir voru allir hirtir og verkaðir, til sölu eða heimflutnings. Þegar sjómenn voru í landi, stóðu bátarnir þeirra, hver við annars hlið uppi í mölinni fyrir víkurbotninum, eins og gripir á garða, svo þétt, að tæplega var gengt á milli þeirra. Allir voru þeir svartir, tjargaðir, sumir með málaða borðstokka, aðrir ekki. Í öllum lá mastur með samanvöfðu segli, - rásegli, líku því, sem verið hafði á víkingaskipunum. Í öllum bátunum lágu árarnar ofan á þóftunum, svo margar sem ræði voru til á bátnum, og ein eða tvær til vara, allar hvítar, úr seigri, kvistalausri furu, en mjög misstórar, því að sumar voru ætlaðar einum manni til róðurs, en aðrar aðeins fyrir eina hönd - eða sumar til barnings og aðrar til andþófs, eins og tíðkanlegra var að greina þær sundur. En sjá mátti það á sumum árunum, að engum vesalmennum voru þær ætlaðar.

En í hrauninu fyrir ofan bátana var þéttbýli allmikið af sjóbúðum og hjöllum - heilt hverfi. Engin byggð var þar önnur, því að enginn bær stendur í nánasta nágrenninu við Dritvík; - slíkt ódáðahraun er engra manna meðfæri að græða upp. Sjóbúðirnar stóðu á víð og dreif úti um hraunið, þó svo, að gatan væri sem skemmst til sjávar. Flestar voru þær byggðar í skjóli við einhvern hraunhólinn eða klettinn; einkum var leitað skjóls fyrir norðanáttinni, sem þar er nöprust, eins og annars staðar. Sumar voru byggðar yfir gjótur eða gjár. Allar voru þær hver annarri líkar, og engin þeirra bar verulega af annarri. Allar áttu þær sammerkt í því, að lítið bar á þeim, og varla urðu þær greindar frá hrauninu, fyrr en þær urðu, svo að kalla, fyrir fótum manna. Allar voru þær hlaðnar upp úr hraungrýtinu, sem alls staðar var hendinni næst, allar reftar með rekavið og dyttað að þeim með mosa úr hrauninu og þangi úr fjörunni eftir bestu föngum. Engin þeirra var líkleg til að vera vistlegur mannabústaður, en allar voru þær mannabústaðir engu að síður. Flestar stóðu þær auðar og ónotaðar allt sumarið og haustið, og fór þá um þær sem vildi. En þegar vetrarvertíðin byrjaði, var sem hraunið kringum víkina lifnaði við og allt yrði þar kvikt. En þá var oft rýrt til fanga að byggja upp búðirnar að nýju, og varð þá að tjalda því, sem til var.

Hjallarnir stóðu aftur á móti flestir uppi á hraunhólunum, og bar suma þeirra hátt, því að þar reið mest á því að nota sem best vindinn til þerris. Flestir voru þeir úr rekavið og tilsýndar eins og blásnar beinagrindur úr stórgripum stæðu þar uppréttar. Sums staðar stóðu grindahjallar, byggðir sem hús og læstir með stórum hengilásum úr kopar. Í öllum þessum hjöllum blöktu feitar freðýsur, landfrægar fyrir það, hve ljúffengar þær voru; enda áttu margar þeirra þann frama fyrir höndum að vera reiddar suður í Skálholt og ilma þar á borði biskupsins og vildargesta hans, en fyrir öðrum lá utanför á fund ríkra riddara og aðalsmanna eða jafnvel konunga.

Þannig var víkin - útötuð og fjarri því að vera þrifaleg, en jafnframt talandi vottur um fengsæld og atorku. Sjóföng, sjóföng voru alls staðar, hvert sem litið var. Hjallarnir tóku ekki helminginn af þeim. Hraunið sjálft var notað, enda var það vel til slíkra hluta fallið. Hver gjóta, skvompa og skonsa, sem súgur gat leikið um, var aðstoðarhjallur. Hver hraunstrýta var síbreidd með sjóföngum, og klungrið sjálft, sem gangandi mönnum var tæplega fært um, var notað í sama tilgangi. Yfir að líta var sem hraunið væri alþakið gróðri - sjaldgæfum góugróðri, breiðum af hvítum ætisveppum, eða einhverju því um líku, sem þyti upp úr beru brunagrjótinu. Og í vissum skilningi var þetta gróður, því að þarna lágu margir tugir hundraða í landaurum.

Jökullinn var oft alhvítur ofan að rótum, og hraunbreiðurnar niður af honum aðeins með dökkum dílum, allt annað á kafi í fönn. En í hrauninu næst víkinni festi aldrei snjó. Seltan á grjótinu bræddi hann allan niður, og mannaumferðin hjálpaði til. En þegar hlákurnar komu og hraunin urðu dökk, skinu breiðurnar kringum veiðistöðina eins og silfurgráar, slitróttar fannir. Þá hjálpuðust sól og vindur að því að gera það arðbært, sem á land var komið, en mennirnir voru úti á miðum að sækja meira - meira. Þar var ekki verið að biðja guð um lítið.


3. kafli

Nú verður að segja frá tveim mönnum, sem koma við sögu þessa, öðrum fremur. Það eru þeir Sæmundur í Hraunbót og Sigurður í Totu. Þeir voru kenndir hvor við sína búð, og lágu búðir þeirra skammt hvor frá annarri.

Báðir áttu þeir heima langt uppi í sveitum og sinn í hvoru héraði, svo að engin kynni höfðu þeir hvor af öðrum önnur en þau, sem þeir höfðu í verinu. En sama mátti segja um flesta eða alla þar í víkinni. Þeir sáust sjaldan annars staðar en þar og kynntust hvergi nema þar. Þeir komu úr öllum áttum í vertíðarbyrjun og hurfu í allar áttir í vertíðarlok. Sigurður og Sæmundur höfðu kynnst um nokkra vetur í Dritvík, en hvergi sést þess á milli. Flest kynni þeirra höfðu farið miður en skyldi. Báðir voru þeir formenn og að því leyti líkt á komið fyrir þeim, að þeir höfðu álíka stór skip og álíka miklum mannafla á að skipa. Báðir voru þeir minni háttar útgerðarmenn og skip þeirra minni en margra annarra. Samt sem áður var hvorugur þeirra eftirbátur hinna, sem stærri höfðu fleyturnar, í sjósókn og aflasæld að tiltölu. Báðir voru þeir harðvítugir sjómenn, og þar sem nú svo líkt var á komið fyrir þeim að skipakosti og mannafla, var það eðlilegt, að þeir kepptu hvor við annan. Samkeppnin varð þá með tímanum harðari en góðu hófi gegndi, og jafnframt dró til töluverðs kala þeirra á milli.

Þegar hér var komið sögunni, var Sigurður hættur sjósókn að mestu, en Sigurður sonur hans tekinn við formennskunni. Reri hann með bróður sínum, er Árni hét, og einum háseta á litlu fjögramannafari. En Sigurður vann að aflanum í landi. Sæmundur stundaði aftur á móti enn þá sjóinn, og reri hann með syni sínum uppkomnum, sem Jón hét, og einum háseta, sem hét Salómon og kallaður Salómon hnýtti, vegna vaxtarlýta. Einum manni var því fleira hjá Sigurði í Totu. Samt gekk allt heldur betur Sæmundar megin. Þetta sárnaði Sigurði og sonum hans, en fengu ekki að gert, því að Sæmundur virtist betur liðaður við þriðja mann en þeir við fjórða.

Ekki voru þeir skaplíkir, Sæmundur og Sigurður, og ekki voru þeir líkir í neinu, þegar skip þeirra og útgerð var undanskilin.

Sæmundur var heljarmenni að vexti og burðum, en geðspakur og lét lítið yfir sér. Hann var örlyndur og greiðvikinn og kom sér vel við hvern mann í veiðistöðinni, nema þá Totumenn. Skemmtinn var hann og glaðvær, en þó hæglátur, og talinn var hann sjómaður með afbrigðum. Jón sonur hans var honum líkur að vexti og afli, en lét meira yfir sér. Hann var örgeðja og reiddist illa, nokkuð ofstopafenginn og hafði gaman af að glettast til við menn, einkum þá, sem honum var kalt til fyrir; enda treysti hann karlmennsku sinni við hvern sem var að etja þar í víkinni, og jafnvel tvo eða þrjá af meðalmönnum þar. Enginn þótti hann skýrleiksmaður, síst á við föður sinn. Þótti gaman hans stundum grátt og lítt hugsað fyrir. Var hann ekki svo vinsæll manna á meðal sem faðir hans.

Sigurður var þessum mönnum harla ólíkur. Hann var lítill vexti, rýr og væskilslegur og nú kominn á gamals aldur. Hann þótti nirfill hinn mesti, svo að sagt var, að hann tímdi ekki að éta. Hann hafði mikinn huga á því að græða fé, þótti viðsjáll í viðskiptum og undirhyggjumaður í hvívetna. Geðstirður þótti hann og öfundsjúkur um fengsæld annarra. Var hann sívinnandi til þess að láta ekkert undan ganga og oft úti um nætur. Brýndi hann sonu sína fast, sem ekki voru gæddir slíkum áhuga, og ögraði þeim einkum með Sæmundi og þeim Hraunbótarmönnum, sem væru einum færri, en þó aflasælli en þeir. Var Sigurður jafnan svo önnum kafinn við útgerð sína, að hann gaf sér engan tíma til að þrifa sig og ræsta sem aðrir menn, og var því jafnan óhreinn og illa til fara, með hárið úfið og skeggtoddana í allar áttir. Þótti hann manna ófríðastur og ómannlegastur. Einhver græðgis og gremjusvipur var orðinn samgróinn andliti hans. Hann var myrkur á brúnina og skotraði augunum tortryggilega út undan sér, eins og hann ætti sér jafnan ills von. Allra manna var hann spéhræddastur, enda varð hann oft að kenna á hæðni manna, því að flestum var fremur kalt til hans. Oftast var einhver ólundartota á svip hans, en þegar hann glotti í hefndarhug, dróst totan sundur til beggja kinnanna, og grillti í tennurnar. Kom þá einhver dýrbítssvipur á andlitið. Eftir þessu höfðu vermennirnir tekið, og var hann ýmist kallaður Sigurður tota - sem bæði gat verið dregið af búðarnafninu og svip hans - eða Sigurður dýrbítur. Fékk hann oft að heyra bæði nöfnin, og gerði það ekki hug hans mýkri.

Synir Sigurðar voru honum nokkuð ólíkir og báðir mannvænlegir menn. Sigurður var fullþroskaður, en Árni var enn þá á unga aldri og ekki fullséður. Sigurður þótti ganga Jóni Sæmundssyni í Hraunbót einna næst að afli og atgervi, og var mælt, að þeir hefðu oftar reynt með sér en menn vissu. Skaplíkur þótti Sigurður yngri föður sínum, og geigur þótti mönnum standa af svip hans. Þó var það almælt, að vel mætti lynda við þá bræður báða, ef ekki spillti faðir þeirra þeim.

En einkennilegastur af öllum þessum mönnum var Salómon hnýtti, háseti hjá þeim Hraunbótarfeðgum. Hann hafði tekið sjúkdóm í æsku og bar hans enn þá menjar með því að vera hnýttur og skakkur, einkum í vinstri mjöðminni. Þetta bagaði Salómon mjög á landi, en á sjó gerði honum það ekki mikið til. Og sjómaður var hann svo góður, að öllum lék hugur á að ná honum á skip sitt, enda hafði hann mestan hluta ævi sinnar verið á sjónum, var öllu vanur, sem gera þurfti á skipi, þægur og lipur og notinvirkur, svo að hann átti engan sinn líka. Ræðari var hann meiri en í meðallagi, þrátt fyrir vanheilsuna. Sinarnar í handleggjunum á honum voru fyrir löngu orðnar reyndar og teygðar á árinni, svo að þær voru orðnar harðar og stæltar eins og fuglssinar. Það var sem væri hann orðinn veðurbarinn inn að beini, svo að hvorki ynni á honum kuldi né bleyta. Honum varð aldrei misdægurt, aldrei hikaði hann né möglaði, aldrei æðraðist hann, hvað sem að höndum bar. Meiri geðprýðismann þóttist enginn þekkt hafa. Venjulega var hann þegjandi og brosandi, ætíð hýr og augun greindarleg og góðleg. Aldrei mælti hann orð fram í það, sem aðrir töluðu í kringum hann, nema á hann væri yrt, en ætíð gaf hann skýr og greið svör. Ætíð reyndi hann að miðla málum og koma fram til góðs. Hann hafði verið mörg ár hjá þeim feðgum og var þeim báðum innilega kær, og var þó fáum hent að lynda svo við Jón, að aldrei bæri út af. Nú var hann orðinn þeim svo samgróinn, að svo var að sjá, sem hann mætti ekki án þeirra vera, og þeir þaðan af síður án hans.


4. kafli

Eitt kvöld í vondu veðri var barið á hurðargarminn, sem skýldi dyrunum í Hraunbót. Þegar upp var lokið, skreið inn flækings vesalingur, hrakinn og helblár af kulda, og bað í guðsbænum að lofa sér að vera.

Það var Öxnakeldu-Tobbi, sveitlægur umrenningur þar í hreppnum, heilsulítið gamalmenni og öreigi, - maður, sem allir vermenn í víkinni könnuðust vel við.

Hann var skáldmæltur og níðskældinn, heiftúðugur, ef hann þóttist eiga einhverjum grátt að gjalda, en sérlega þakklátur þeim, sem viku góðu að honum. Flestir voru honum góðir, en sumir ömuðust þó við flakki hans.

"Komdu sæll, Tobías minn, og vertu velkominn!" mælti Salómon, um leið og hann rétti honum höndina og hjálpaði honum inn úr dyrunum. "Ekki verður þér meinað húsaskjólið. En ekki hefir það mikil þægindi að bjóða, eins og þú veist."

"Guð launi öllum fyrir mig, sem gera mér gott," mælti Tobbi, um leið og hann dróst inn eftir gólfinu og heilsaði feðgunum, sem þar sátu við vinnu sína.

Það var hverju orði sannara. Húsaskjólið var ekki á marga fiska. Veggirnir voru úr beru hraungrjóti og mosalög á milli steinanna. Áreftið var lagt á sjálfa veggina og ekki stoðir undir mæniásnum nema til endanna. Raftarnir voru úr ótegldum rekavið og tyrft ofan á þá með fjöruþangi og flötum hellum, hvert lagið ofan á öðru, til þess að reyna að verjast bleytunni og súgnum. Þangið hékk í flygsum niður á milli raftanna, og nú lak hvarvetna úr því bleytan, því að votviðri var úti. Einnig rann sagginn ofan alla veggina, og engin tök voru að ganga svo frá hurðinni, að ekki lemdist regnið inn með henni. Eldstó var við annan vegginn, skammt frá dyrunum, en hálftunnulaupur, botnlaus í báða enda, stóð gegnum þekjuna og var strompur. Fletin voru á bálkum, sem hlaðið var meðfram veggjunum, lagður á þá mosi og loks sauðskinn, en brekán og hærusekkir til að hafa ofan á sér. Á gólfinu og uppi í rjáfrinu var hvarvetna komið fyrir matvælum, veiðarfærum, skinnklæðum og öðrum nauðsynjum vermanna, og snyrtilega um allt gengið. Feðgarnir sátu sinn á hvoru fleti inni við gaflinn og gerðu að veiðarfærum sínum. Á milli þeirra logaði glatt á kolu, sem stungið var inn í stoðina, fullri af hrábræddu lýsi. Var því bjart um alla búðina og furðu hlýtt þar inni.

Salómon tók nú að glæða eldinn í stónni, til þess að Tobías gæti ornað sér og þurrkað föt sín eftir föngum. Feðgarnir tóku hann tali á meðan og spurðu hann almæltra tíðinda. Tobías var svo illa á sig kominn, að hann gat varla svarað spurningum þeirra, einkum fyrir skjálfta og munnherkjum. Þó fengu þeir svo mikið að vita, að allt væri fremur tíðindalítið, ósjúkt og meinheilt manna á milli, og erindi Tobíasar þangað í víkina væri að kveða formannavísur, sem hann hefði ort, fyrir vermönnunum.

Þetta var nú gott og blessað, og þegar eldurinn var farinn að loga hjá Salómon, færði Tobías sig þangað til að verma sig. Hann hresstist jafnframt því sem honum hlýnaði, og nú sá hann sér til mikillar gleði, að Sæmundur gamli fór að taka til kvöldverð handa þeim öllum fjórum.

"Ég knúði á aðrar dyr, áður en ég kom hingað," mælti Tobbi, allþungbúinn.

"Einmitt það," mælti Sæmundur dálítið glettnislega. "Og hvar var það?"

"Hjá Sigurði í Totu - þeim ríka manni."

"Og var þér úthýst?" gall í Jóni, sem nú fyrst fór að gefa gestinum verulegan gaum. Fátt mæltist verr fyrir í víkinni, þótt ekki væru þar háreist húsakynni, en það, að úthýsa gestum og gangandi, sem þar leituðu sér skjóls.

"Úthýst," mælti Tobbi. "Það var nú það minnsta. Mér voru valin örgustu hrakyrði - og svo var sparkað í mig."

"Hver gerði það?"

"Þeir hjálpuðust að því, feðgarnir allir - og voru vel samtaka. Húsbóndinn beitti munninum - kjaftinum, lá mér við að segja, - yngri sonur hans hló, en eldri sonurinn lagði á mig mannskap sinn."

"Meiddi hann þig?"

"Ég er nú ekki fastur á fótunum, svo að það er ekki mikil mannraun að sparka mér um koll, enda var það gert dyggilega."

"Meiddi hann þig?" - Sæmundur endurtók spurninguna.

"Ekki svo mjög með bölvaðri býfunni. En ég hrökklaðist út í hraunið, og - þið vitið nú vel, hve mjúkt það er við komu."

Tobías fletti nú af sér fötunum og sýndi þeim bláa marblettina á annarri hliðinni á sér. Handleggurinn og mjöðmin höfðu orðið harðast úti.

"Ég fann mikið til," mælti Tobías, "og það var rétt svo, að ég gat staulast að þessari búð."

"Þú ættir að yrkja um hann öflugan skammabrag fyrir þetta," mælti Jón og hló dátt að því, hvað sér hefði nú dottið gott í hug.

Tobías þagði og lagaði á sér fötin.

"Að minnsta kosti ættirðu að minnast hans tilhlýðilega í formannavísunum," mælti Sæmundur og kímdi góðlega.

"Það gerir hann auðvitað þar að auki," mælti Jón og var ákafur. "Nei, þú ættir að yrkja um hann sérstakan brag - tína saman allar hans vammir og skammir og lýsa þeim í smellnum stökum - vera fyndinn og napur, láta sjóða á keipum."

Tobías gegndi þessu engu, en mikið var honum niðri fyrir. Salómon lagði ekkert til málanna.

"Jæja, Tobbi minn," mælti Sæmundur. "Hvað sem þessu líður, þá er þér nú velkomið að hírast hér hjá okkur, ef þú getur gert þér það að góðu, því að formannavísurnar þarftu auðvitað að kveða í hverri búð. Ef þér leiðist hér heima, þegar við erum á sjónum, eða ef þér er lakar við það að vera hér einsamall í nábýli við Sigga totu, þá er þér velkomið að fylgja okkur á sjóinn."


5. kafli

Daginn eftir var langsamlega ófært á sjó. Hrakviðrið, sem verið hafði af landsuðri daginn áður, hafði nú gengið til útsuðurs, og brimið við þennan útskaga var í algleymingi.

Öxnakeldu-Tobbi var ekki fótaferðafær þennan dag. Meiðslin á honum voru nú komin út til fulls, og honum var óhægt að liggja á hörðum bálkinum þannig til reika. Salómon gerði allt, sem hann gat upp hugsað, til að gera honum vistina sem besta, og reyndi að gera honum bælið sem mýkst, með því að tína að honum frá sjálfum sér, þar til svo mátti heita, að hann lægi sjálfur á tómu hraungrjótinu.

Tobbi var í illu skapi og bað Sigurði í Totu og sonum hans hinna verstu bæna, bæði hátt og í hljóði. Salómon gaf því engan gaum, en reyndi að mýkja skap hans með því að láta honum líða betur, ef unnt væri.

Eitt sinn, er þeir voru tveir einir í búðinni, yrti Salómon á Tobba með mestu hægð:

"Láttu það niður falla, sem Jón var að eggja þig á að gera í gærkveldi."

Tobbi varð í fyrstu nokkuð hvumsa við þetta, en áttaði sig þó brátt.

"Hvers vegna?" spurði hann.

"Vegna þess, að það er illt verk."

Tobbi hló gremjulega, en svaraði engu. Salómon hélt áfram:

"Það er illt verk að bera þau vopn á menn, sem þeir hafa ekki sjálfir. Sigurði og sonum hans hefir farist illa við þig, en þér ferst þó enn þá verr við þá, ef þú lætur eggjast til að yrkja um þá níð. Það er það vopn, sem bítur menn sárast. Slíkt vekur takmarkalausan hefndarþorsta, hefndaræði. Og það snýst ekki einungis gegn þér einum, heldur þeim mönnum líka, sem hafa hvatt þig til slíks illræðis."

"Þegar Sigurður og synir hans spörkuðu mér út úr búðinni, út í náttmyrkrið og illviðrið og út í hraunið, sem ég hlaut að meiða mig á, þá beittu þeir mig vopnum, sem ég hafði ekki. Þeir neyttu aflsmunar. Guð hefir gert mig hverjum manni lítilsigldari að líkamlegum kröftum, en til þess að bæta mér það upp, hefir hann gefið mér þetta vopn í hendur, sem þú minntist á áðan. Hví skyldi ég þá ekki beita því?"

"Geymdu guði hefndina fyrir það, sem Sigurður og synir hans hafa gert þér. Ef þú hefnir þín ekki sjálfur, þá hefnir hann þín á viðeigandi hátt. Það er betra að líða óréttinn en gera hann. Taktu vel eftir, hvað ég segi, og hugsaðu út í það. Það er kali milli þeirra Totumanna og húsbænda minna. Lítill neisti getur orðið til þess að hleypa þar öllu í bál og brand. Þessi neisti er nú í þínum höndum, og ef þú ekki gætir hans vandlega, getur leitt af honum meira illt en nokkur okkar sér út yfir. Menn eru skapharðir hér í verstöðinni. Ein móðgun leiðir til annarrar stærri. Hatrið og illskan vex og vex, eins og snjóflóð, þar til hún vex öllum yfir höfuð, verður óviðráðanleg og leiðir til hinna mestu og verstu tíðinda. Það er örlagaaflið í gömlu sögunum okkar og það er óheillafylgja okkar Íslendinga, sem seint mun við okkur skilja. Hafðu nú ráð mín og gerðu ekkert, sem gert getur illt verra."

Tobbi þagði og hugsaði sig um. Það leyndi sér ekki, að hann var farinn að hvika frá ásetningi sínum.

"Vel gæti verið" - hélt Salómon áfram - "að Jón léti þig njóta þess í einhverju, ef þú gerðir þetta fyrir hans orð, og vísa mættirðu eiga vernd hans, meðan hann mætti henni við koma. Honum er illa við þá Totufeðga, og mundi hann hafa gaman af því í bili, að þeim væri einhver skapraun gerð. Hann er skapmikill, en ekki framsýnn og hugsar ekki út í afleiðingarnar. Faðir hans er spakari, enda hvatti hann þig minna."

"Þú segir satt og talar góðgjarnlega," mælti Tobbi. "En þungt var mér í hug til þeirra Totumanna í gær, er ég staulaðist á fætur í hraundyngjunni úti fyrir kofa þeirra, og síst hefði ég trúað því þá, að hægt mundi að telja mig af allri viðleitni til hefnda."

"Hugsaðu út í það, að þú færð ekki verri meðferð en margir aðrir, sem þangað koma. Totumenn hýsa engan mann, alls engan, síst af öllu félausa förumenn. Hingað koma margir tugir fátækra förumanna á hverri vertíð. Einskis manns meðfæri er að hýsa þá alla. Allir verða að úthýsa einhverjum, við líka, þótt ekki sé það húsbónda mínum ljúft. Margir þessara manna kynna sig að þjófnaði og ýmsum óknyttum, en oft erfitt að vita, fyrir hverjum maður opnar hreysi sitt. Margir þessara manna eru afar áleitnir, svo að beita verður hörðu við þá. Totumönnum er því dálítil vorkunn. Þeir þekktu þig ekki í myrkrinu, og vera má, að meira hafi að orðið en þeir ætluðust til, er þeir hrundu þér frá dyrunum."

"Spörkuðu mér -."

"O-jæja, - spörkuðu þér. Ég geri lítinn mun á því, hvort á mér er tekið með höndum eða fótum, og fremur mundi ég kjósa mjúka fætur en harðar hendur. - Veistu, hvers vegna ég er svona hnýttur? - Það er eftir manna hendur. Ég var ódæll og ófyrirleitinn, þegar ég var ungur, og í sífelldum erjum og áflogum. Loks fékk ég eitt sinn bláan belg fyrir gráan. Það var úti á víðavangi, og ég hefi engum manni frá því sagt. Ég skreiddist heim og í rúmið, lá lengi og stóð loks upp svona hnýttur. Þetta varð mér til góðs. Síðan hefi ég alls staðar komið mér vel og alls staðar verið velkominn. Síðan hefi ég ekki átt í illdeilum við nokkurn mann. En maðurinn, sem misþyrmdi mér, varð enginn gæfumaður. - En veistu nú, hvert hlutverk mitt hefir verið síðan ég kom hingað í Dritvík? Ég hefi verið að afstýra illindum milli Totumanna og þeirra húsbænda minna. Ef til vill er það ætlunarverk, sem forsjónin hefir falið mér. Margir neistar hafa hrotið hér á milli búðanna, síðan ég kom, sem vel hefðu getað kveikt bál, hefðu þeir hitt fyrir þau eldfimu efni, sem þeim var ætlað að hitta. Hingað til hefir mér tekist að kæfa þá alla. Margsinnis hefi ég verið sendur með ónotalegar kveðjur út í Totu, en ég hefi vikið þeim öllum til betri vegar. Oft hefir mér verið fyrir lagt að skila hreytiyrðum, en ég hefi aldrei skilað þeim. Oft hafa þeir Totumenn kastað til mín illum orðum, sem mér hefir verið ætlað að bera hingað heim, en ég hefi aldrei borið þau. Þegar þeir hafa hitst sjálfir, hafa slík illyrði venjulega legið niðri, þótt stuttar hafi verið kveðjur. Öðru vísi hefði verið, hefði ég borið allt á milli, sem mér var ætlað. Jóni hefir stundum gramist þetta við mig, en faðir hans hefir jafnan virt það við mig, og sama hefir Jón gert, þegar frá leið."

Tobbi hlustaði þegjandi á þessa tölu og hafði ekki augun af Salómon á meðan. Hingað til hafði hann litið á þennan þögula þjón eins og eitt af veiðarfærunum, sem hann sá þar í búðinni, ekki gefið því minnsta gaum, að hann væri maður, síst sjálfstæður maður og góður maður, sem vann í kyrrþey að því að afstýra óhöppum og vandræðum. Hann virti fyrir sér þennan hnýtta vesaling - sem hann sýndist vera - þennan hálfkryppling, sem skakklappaðist milli bálksins, sem hann lá á, og eldstórinnar, meðan hann talaði um fyrir honum, - hugsaði stöðugt um þarfir húsbænda sinna og skylduverk sín, jafnframt því sem hann bar framtíðarheill þeirra og frið fyrir brjósti, alltaf glaðlegur og góðlegur, eins og sá maður er ætíð, sem hefir góða samvisku, kvikur á fæti og snar í snúningum, þrátt fyrir aldur og þreytu og líkamslýti, og svo góðgjarn og skilorður. - Þannig hafði hann aldrei séð Salómon fyrri og engan mann honum líkan. Nú fór honum að þykja vænt um hann og tók ráð hans til nákvæmlegrar íhugunar.

- "Hvernig líður þér, Tobbi minn?" spurði Sæmundur, þegar þeir feðgar komu inn í búðina.

"O-o, svona-svona, - ekki sem verst," mælti Tobbi.

"En hvernig gengur þér að yrkja?" spurði Jón.

Tobbi þagði og leit til Salómons. Hann þagði líka, en úr augum hans skein góðleg aðvörun.

Jón tók ekkert eftir því, en neri saman höndunum af ánægju.

"Láttu nú helvítið hafa það," mælti hann og beit sundur orðin. "Láttu nú sjóða á keipum!"


6. kafli

Seinna um daginn lagði Sæmundur þá lækningu á Tobba, sem hann hafði margsinnis reynt bæði við sjálfan sig og aðra og jafnan gefist vel. Hann smurði marblettina úr sjálfbræddu þorskalýsi og nuddaði því vel inn í húðina bæði á blettunum sjálfum og í kringum þá. Hann var mjúkhentur, en þó laghentur, og nuddaði þangað til hold og hörund var orðið mjúkt og þvalt. Eftir á dró öll eymsl úr marinu, og Tobbi fór í föt og settist framan á bálkinn.

Þegar dimma tók af kvöldi, kveiktu þeir ljós í búðinni, lokuðu dyrunum vandlega og bjuggust þar um sem best, svo að þeir hefðu sem minnst af óveðrinu að segja, sem enn geisaði úti. Tók þá hver til innivinnu sinnar, en Tobbi fór að kveða fyrir þeim formannavísurnar, sem hann hafði ort og tekið með sér sem andlegt vegabréf. Ekki hafði hann þær skrifaðar, en kvað þær eftir minni og kvað við raust. Ekki máttu vísurnar lakari vera. Voru þær bæði efnisrýrar og illa kveðnar, hver vísan endurtekning af annarri með einhverjum lítilsháttar breytingum, sama Eddukenninga hnoðið í þeim öllum, vöðlað og hrúgað utan um nafn formannsins og nafn skipsins, ef nokkurt var, og sama lofið borið á alla fyrir sjókænsku, hreysti og hugrekki. Vísuna um þá Totufeðga hljóp hann yfir. Hún hafði verið lofkviðlingur eins og hinar, en nú þurfti hann að breyta henni. Fyrir þennan andlega gróður átti nú Tobbi vísan einn fisk af hverju skipi í víkinni. Það voru skáldalaun hans.

Þegar Tobbi hafði lokið formannavísunum, fór hann að fara með fleira eftir sig, og var sumt af því stórum betra en formannavísurnar. Var það undir léttari háttum, og átti hann þá hægra með að koma því fyrir, er hann vildi segja. Var þar meðal annars særingarljóð gegn skoffíni, kröftugt mjög og kjarnyrt, sem hann kvað engum bregðast mundu. En skoffín var sending í tófulíki, mögnuð mjög, og talin hin versta sending viðfangs, sem nokkrum manni gæti komið, svo að lallar og skottur voru mestu meinleysingjar hjá því. Hljóp þessi fjandi stöðugt í hring í kringum menn, en þrengdi stöðugt hringinn, þar til það hvarf inn í menn, fyrr en þá varði. Urðu þeir þá ærir og fóru sér sjálfir að voða. Skoffín kvað hann vera komið úr eggi, sem hani hefði orpið, en ekki hæna, en galdramaðurinn sjálfur ungað út og lesið yfir hina römmustu formála. - Annað kvæði var um það, hvernig gera mætti galdraveður að Spánverjum, sem voru þar mjög tíðir við land og illa þokkaðir. Kvað hann það engan hægðarleik, því að Spánverjar væru uppaldir í rammagaldri, og bæru að minnsta kosti skipstjórar þeirra langt af hérlendum mönnum í kunnáttu. Þó væru til brögð, sem Spánverjar kynnu ekki að varast. Voru þau leyndardómsfyllri en svo, að hann léti þau uppi, en kvæði það, er átti að fylgja þeim, kvað hann við raust. - Enn fremur var þar kvæði, sem lýsti loftsýn, sem maður inni á Mýrum hafði séð. Hafði hann séð dómsdag settan í skýjum himinsins og mörg undur og stórmerki, sem þar gerðust. Allt var þetta - auðvitað - heilagur sannleiki, og fór Tobbi með efnið og kvæðið með hinni mestu lotningu, sem væri hann að fara með guðdómlega opinberun. Hinir, sem í búðinni voru, höfðu allir heyrt um loftsýnir getið, bæði þessa og aðrar, og efuðust ekki um, að þær væru sannar, og væru jafnframt spámannlegar vitranir og fyrirburðir.

Margt var það fleira, sem Tobbi hafði að færa, en allt var það þrungið af trú og lífsskoðun þeirrar aldar, fullt af kynngi og kynjum, - þessum einkennilega andans gróðri, sem vex upp af myrkursjúkri ímyndunargáfu. Fyrir innri augum Tobba var loft og lögur, hólar og steinar, berg og brunnar - allt fullt af ósýnilegum öndum, sem um var að gera að ná í þjónustu sína, ýmist til að verja sjálfan sig illu eða ná sér niðri á andstæðingum sínum. En til þess að hafa hemil á slíkum þjónustupiltum, voru ráðin ekki auðfundin. Tobbi kunni þó eitt, þótt aldrei hefði hann notað það. Það var ráðið til að ná sér í sagnaranda. Maður átti að leggjast upp í loft í forsælu og snúa sér í norður. Átti maður að gapa svo mikið sem maður gæti, en hafa kapalskæni fyrir vitunum. Þá kæmi loftandi og vildi fara ofan í mann. Lenti hann í skæninu og væri þá auðtekinn. Síðan átti að vefja utan um hann skæninu, láta hann í eikarbauk, hafa hann með sér næst, þegar maður yrði til altaris, og spýta þá yfir hann vígða víninu. Að því búnu sagði hann eigandanum allt, sem hann vildi vita.

Þegar menn fóru að þreytast á þessu skrafi, hneig talið að öðrum hlutum, sem nær lágu og verulegri voru, og að lokum að atburði, sem gerst hafði fyrir fáum árum og enn var mönnum í fersku minni þar um sveitir með öllum þeim skelfingum, sem við hann voru bundnar, en sá atburður var líflát Bjarnar í Öxl.

Björn Pétursson í Öxl, eða Axlar-Björn, hafði verið tekinn af lífi á Laugarbrekkuþingi skömmu fyrir aldamótin fyrir mörg launmorð, fleiri en nokkur maður vissi með vissu. Og aftakan hafði farið fram með slíkum ódæmum, að enginn hafði heyrt slíks getið fyrri. Maðurinn hafði verið beinbrotinn á útlimum og klipinn með glóandi töngum, áður en hann var leystur frá lífinu, en síðan brytjaður niður og líkamshlutarnir settir á staura. Og til þess að horfa á þetta, var öllum almúga stefnt saman úr nærliggjandi sveitum, því að til þess voru víti Björns að varast þau. - Þeir feðgar og Tobbi sögðu nú söguna um afdrif Bjarnar, eins og þeir höfðu heyrt hana, hvorir um sig, og bar ekki sem best saman, því að þó ekki væri lengra liðið, voru sagnirnar þegar farnar að verða ýkjukenndar og aflagaðar. Salómon hnýtti lagði fyrst um langa stund ekkert til málanna. En loks greip hann þó fram í og mælti með mestu hægð, eins og honum var lagið:

"Ég var við, þegar Björn í Öxl var líflátinn."

Samstundis hvíldu augu þeirra allra á Salómon, eins og enginn þeirra hefði tekið eftir honum fyrr en nú.

"Blessaður segðu okkur þá frá því," mælti Jón. Hann furðaði sig ekki svo mjög á því, að Salómon hafði aldrei minnst á þetta, því að það var svo margt, sem Salómon þagði yfir.

Hinir báðu hann líka með augnaráði sínu.

"Ég var hér í sveitinni, þegar þetta kom fyrir," mælti Salómon. "Og þegar fólkinu var sópað saman til að sjá og heyra dóm Bjarnar og afdrif hans, fylgdist ég með öðrum, án þess að hafa hugmynd um, hvað ég ætti að sjá og heyra."

"Og hvernig gekk þá þetta til?" spurði Sæmundur.

"Eins og þið hafið heyrt sagt frá því í öllum verulegum atriðum," mælti Salómon, "nema hvað ég sá ekki, að Björn væri klipinn með glóandi töngum. Það getur hafa verið fyrir því."

"Jú, hann var klipinn, hann var klipinn," mælti Tobbi. "Það hefir maður sagt mér, sem var þar við."

"Jæja, þetta getur vel verið," mælti Salómon, "en ég sá það ekki. - Lögmaðurinn var sjálfur við aftökuna og sveinar hans, allir í litklæðum og vopnaðir. Pyndingarnar fóru fram í laut sunnan undir kirkjugarðinum, en fólkið var látið standa uppi á kirkjugarðinum og hólunum í kring. Tveir menn voru settir til að halda konu Bjarnar, svo að hún liti aldrei undan. Flestum öðrum varð það á að líta undan. Fæstir munu hafa þolað að horfa á aðra eins sjón."

"En hvernig barst Björn af?" spurði Jón.

Salómon hugsaði sig dálítið um, áður en hann svaraði:

"Ég heyrði meiri kveinstafi til mannfjöldans en til hans sjálfs, sem þó var verið að pína. Ég heyrði hann aldrei kveinka sér. Hann bar sig að sem væri verið að lækna hann, en ekki lífláta. Hann rétti sjálfkrafa fram limina undir sleggjuna, sem átti að beinbrjóta þá. Hann beit saman vörunum, og andlit hans var myrkt og hart. Hann bað sér engrar vægðar, - mælti ekki eitt einasta æðruorð. Það var sem bæri hann svo mikla kvöl í sálu sinni, að hinar ytri pyndingar væru honum svölun og lækning, og dauðinn, sem færðist nær og nær með hverju beinbroti, væri það eina, sem hann þráði."

Salómon þagnaði og hinir þögðu líka stundarkorn. Eftir litla þögn bætti hann við:

"Slík geta kjör manna orðið, að dauðinn sé hinn eini þráði vinur. - Ég hefi oft hugsað um þetta síðan. Ég er viss um, að Björn í Öxl hefir framið morðin í einhverri brjálsemi, einhverri óviðráðanlegri trylling, sem ég get ekki gert mér grein fyrir, en kvalist af slíkri sálarangist þess á milli, að engin orð fá því lýst. Þess vegna hefir hann hlakkað til dauðans, og hinar líkamlegu þjáningar verið honum smáræði á við hinar andlegu."

"Þeim er mein, sem í myrkur rata," mælti Tobbi.

"Já, guð minn góður!" mælti Sæmundur. "Ef slík ósköp kæmu fyrir mig eða mína að verða manni eða mönnum að bana, þá mundi ég heldur setja upp seglið á bátnum mínum og sigla til hafs. Hvað er það að deyja í sjónum hjá því að vera píndur til dauða með jafnguðlausri grimmd? Sætur er sjódauðinn, segja menn, og það er sá dauðdagi, sem við sjómennirnir eigum jafnan yfir höfðum okkar og höfum vanið okkur við að hugsa um. Þann dauða kysi ég mér og mínum þúsund sinnum heldur en dóm og hegning Jóns lögmanns á Reynistað."

Eftir þetta samtal varð hljótt í búðinni nokkra stund, svo að enginn mælti orð frá munni. Þetta, sem talað hafði verið um síðast, hafði tekið hugi manna fastari tökum en forneskja og hjátrú Tobba. Að vísu var enginn þeirra laus við að leggja á það nokkurn trúnað, sem Tobbi fór með, en sagan um Axlar-Björn var yfir allan vafa hafin. Þar stóðu mönnum fyrir sjónum svo sorgleg og alvarleg sannindi, svo beisk og sár, að þau brenndu sig inn í meðvitund manna og gerðu jafnvel hina kjarkmestu lamaða af skelfingu.

Jón varð fyrstur til þess að hrista þessi áhrif af sér. Hann mælti til Tobba með nokkuð hranalegri glettni:

"Nú-nú, Tobbi, hvernig gengur þér með braginn um þá Totufeðga?"

Tobbi varð seinn til svara, en gaut augunum til Salómons. Jón tók eftir því og mælti:

"Láttu ekki Salómon telja kjark úr þér. Hann er huglaus og vill, að aðrir séu sér líkir."

"Hefirðu oft reynt mig að hugleysi?" mælti Salómon með hægð, en þó keim af talsverðri þykkju.

"Aldrei á sjó, en alltaf á landi," mælti Jón og sneri þessu upp í gaman. "Þú skelfur á beinunum, ef þú sérð framan í Totuna."

Tobbi hló dátt að þessu, og Sæmundur brosti.

En Salómon var alvarlegur.

"Hlæið þið að hugleysi mínu eins og þið viljið," mælti hann. "Það er satt, að ég hefi varað Tobías við að yrkja þennan brag. Ég hefi hug til að reyna að afstýra því, sem illt er, meðan ég get. En hug mundi ég einnig hafa til að frelsa þig, Jón minn, úr járngreipum yfirvaldanna, ef þú rataðir í líka villu og Axlar-Björn, og þó minna kvæði að, og leggja líf mitt við þitt, ef ekki yrði hjá því komist."

Að svo mæltu haltraði Salómon til hvílu sinnar og lagði sig fyrir. Það leyndi sér ekki, að honum var þungt í skapi.

Hinir voru einnig hljóðir, því öllum þótti þeim miður að hafa angrað Salómon, og þó einkum Jóni, sem orðið hafði til þess.

Úr þessu gengu þeir allir til hvílu og slökktu ljósið.

Morguninn eftir mælti Tobías og blés við:

"Undarlega dreymdi mig í nótt."

Þeir feðgar báðu hann að segja sér drauminn.

"Mig dreymdi, að ég sá skrokkinn af sjálfum mér vera að hrekjast í briminu hér inn með hraunbrúnunum."

"Brim er fyrir afla," mælti Sæmundur.

Tobbi lét sem hann heyrði það ekki.

"Ég stóð á hraunbrúninni," mælti hann, "og horfði á þetta. Þá sá ég ykkur líka á bát úti á sjónum. Ég þekkti bátinn og þekkti ykkur alla á honum. Það var rok af landi, og þið höfðuð seglið uppi og siglduð beint undan - beint til hafs."

"Líka fyrir afla," mælti Sæmundur. "Úfinn sjór er ætíð fyrir afla."

"Þið létuð, svei mér, sjóða á keipum. - En undarlega voruð þið fljótir að hverfa."

Þögn.

"Er tunglið vaxandi eða minnkandi?" spurði Tobbi.

"Vaxandi."

"Þá á þessi draumur ekki langan aldur - hvað sem hann þýðir."


7. kafli

Tobbi gekk búð úr búð og kvað formannnavísurnar, hlýddi á lofsyrði manna og lét eggja sig til tilræðis við þá Totufeðga. Flestum var eitthvað í nöp við þá þar í veiðistöðinni, að minnsta kosti gilti alla einu, þótt eitthvað væri gletst til við þá í kviðlingum, ekki síst þar sem Tobbi átti sín nokkuð að hefna.

Salómon sá, að Tobbi væri genginn sér gersamlega úr greipum og ekki mundi tjá mikið fyrir sig að letja hann framar. Hann leiddi því þetta hjá sér, eins og svo margt annað, jafnvel þótt grunur legðist í hann um það, að hér mundi illt eitt af hljótast.

Jón eggjaði Tobba fast, eins og hann hafði áður gert, og Sæmundur studdi það með hægðinni. Fyrr en varði kom þar að, að Tobbi var búinn með braginn.

Nú vantaði ekkert annað en að fá gott færi á Sigurði til að kveða fyrir honum vísurnar. Það varð helst að vera svo, að ekki væru synir hans við, því að þá voru vísar harðar sviptingar, sem ekki var víst, að allir slyppu ómeiddir úr. Hins vegar var best, að sem flestir aðrir væru við, sem tekið gætu undir hrópið og háðið, því að það mundi Sigurði svíða sárast.

Málið fór dult í víkinni, svo að Sigurður og synir hans skyldu engar njósnir af því hafa. Þó vissu nægilega margir af því til að stuðla að því, að þessi ágæta skemmtun kæmist í framkvæmd.

Tækifærið kom fyrr en varði. Einn sunnudag fóru þeir til kirkju Sigurðarsynir. Þá voru hafðar góðar gætur á Sigurði, og hann gaf brátt færi á sér. Hann fór um daginn til kunningja síns, Ólafs Örnólfssonar, til að sníkja sér þar brennivín. Ólafur vissi um, hvað til stóð, og lét í té brennivínið með góðu geði.

En skömmu eftir að Sigurður var setstur niður, komu þeir í búðina Hraunbótarfeðgar og Tobías með þeim. Sigurði varð ekki mjög um komu þeirra, en tók þó kveðju þeirra og lét allt vera kyrrt. Feðgarnir settust sinn hvorum megin við hann, en Tobías gagnvart honum.

Innan skamms fylltist búðin af mönnum, og fleiri voru úti fyrir en inn komust.

Tobías bað nú um leyfi Ólafs til að kveða formannavísurnar, og var það auðfengið.

Sigurður vildi þá upp standa og út ganga. En nú sá hann, að það var með ráði gert, að þeir feðgar höfðu setst næstir honum sinn til hvorrar handar, því að þeir héldu honum í klemmu á milli sín. Umbrot stoðuðu ekkert, því að ekki hafði hann helming afls við annan þeirra, hvað þá báða. Hann grunaði nú þegar, að Tobías mundi eiga annað og meira erindi en kveða formannavísurnar, og setti sér að taka því, sem að höndum bæri, á þann hátt, sem honum þótti best við eiga.

Að formannavísunum loknum hóf Tobías níðbraginn og brýndi nú raustina. Minntist hann þar fyrst úthýsingarinnar og fór um hana mörgum hæðilegum og hraklegum orðum. Því næst jós hann yfir Sigurð öllu því versta, sem um hann hafði verið sagt, brá honum um svíðingsskap, ágengni og hvinnsku, kvað hann nota sunnudagana sér til ávinnings, en fara aldrei í kirkju, kvað hann ganga sníkjandi milli búða, en gera aldrei neinum manni gott, kvað hann ýmist sníkja sér brennivín eða stela því, því að ekki tímdi hann að kaupa sér það. Útlit hans og vesalmennsku hæddi hann mjög, og síst gleymdi hann totunni og dýrbítssvipnum, spéhræðslu hans og tortryggni. Einnig kvað hann Sigurð spilla sonum sínum og egna þá til illverka. Öllum væri hann hvimleiður, guði og góðum mönnum, og engum til geðs nema fjandanum.

Auðheyrt var á öllu, að einhver, sem Sigurði var kunnugri en Tobías, hafði lagt honum orð í munn, því að sumt af þessu var satt og kom því við kaunin.

Þeir, sem á hlýddu, hlógu mjög að þessu og gerðu hark mikið í búðinni með hrópum og hlátrum, þegar eitthvað kom hjá Tobba, sem þeim þótti Sigurði maklegt. Jón hló eins og berserkur að hverju orði, og Sæmundur kímdi.

En sá, sem hló mest af öllum, var Sigurður sjálfur. Hann hló svo hátt og hjartanlega, að svo var að heyra, sem enginn skemmti sér líkt því eins vel og hann. Og hann lét ekki verða lát á hlátrinum, því að svo var að heyra, sem hann mundi springa. Hann hló að öllu, sem Tobías kvað, hversu illt sem það var, og hló einnig mest, þegar aðrir hlógu mest.

Við þennan hlátur Sigurðar fataðist Tobíasi mjög. Fannst honum orð sín engin áhrif hafa og hefnd sín verða að engu. Hann herti því jafnt og þétt á hljóðunum til að lemja því inn í hausinn á Sigurði, sem hann vildi láta hann heyra. En allt kom fyrir ekki. Sigurður hló því meira. Hláturinn snerist smátt og smátt á hendur Tobíasi sjálfum, því að hann var búinn að rífa sig ráman, áður en hann var búinn með braginn, og orðinn að athlægi vegna ákefðar sinnar. Loks fór að draga niður í flestum hláturinn, nema Sigurði. Hann hló sem áður.

Niðurlag bragsins voru hinar sárustu óbænir yfir Sigurði og sonum hans, og þar sem Tobías var af mörgum talinn ákvæðinn og trúði því sjálfur, að svo væri, mátti nærri geta, hvernig það væri að verða fyrir þeim ósköpum. Þennan kafla hafði Tobías sett síðast, og átti hann að reka smiðshöggið á verkið. En nú var Tobbi búinn að slíta svo kröftum sínum á því, sem á undan var komið, að þessar heitu bænir urðu að kattarhvæsi, og heyrðist varla orðaskil.

Þegar bragurinn var á þrotum, tóku menn að dreifast úr búðinni. Þá stóð Sigurður upp, og þrengdu þeir feðgar þá ekki að honum lengur. Hann þakkaði nú Tobíasi fyrir skemmtunina, eins og ekkert hefði í skorist, og bauð honum að koma til sín og þiggja feitan bringukollsbita að kvæðislaunum.

Að svo mæltu gekk hann úr búðinni.

Tobías var í illu skapi, því að honum fannst þetta allt hafa tekist öðru vísi en til var stofnað. Annaðhvort hafði Sigurður ekki skilið orð hans eða látið sér standa hjartanlega á sama um þau. Að minnsta kosti var hann viss um, að ekkert þeirra hefði náð að særa hann svo, sem hann hefði viljað.

Þeir Hraunbótarfeðgar voru ekki heldur sem ánægðastir með árangurinn, þótti Tobbi hafa kveðið lint og klaufalega, svo að eigi hefði verið nógu napurt og svíðandi. Þeir voru þó ekki á því, að ekkert hefði hitt Sigurð í hjartastað, því að þeim hafði stundum fundist hann skjálfa lítið eitt. Litaskipti hafði enginn séð á andliti hans, enda var illt að sjá Sigurð bregða litum, því að mjög var hann veðurbarinn og þvoði sér aldrei í framan. Hinu gátu þeir aftur á móti ekki trúað, að Sigurður fengi dulist svo vel.

Brátt færðist þetta í fyrningu hjá þeim, eins og hátíð, sem hjá er liðin.


8. kafli

Þegar þeir Sigurðarsynir komu heim um kvöldið, sat faðir þeirra einsamall í búðinni í hálfrökkri, því að þar týrði aðeins á lítilli kolu, sem hann hafði stungið inn í stoðina skammt frá sér. - Hann grét ekki, en hann skalf eins og hrísla og mátti varla mæla fyrir geðshræringu.

"Þið hafið hlýtt á messu í dag," sagði hann, "en ég hefi hlýtt á aðra messu. Þið hafið fengið blessunina, en ég hefi fengið aðra blessun, hinni engu máttarminni. - Þið sitjið í kirkju og hlustið á einskisvert hégómaskraf á meðan faðir ykkar er níddur og svívirtur af örgum flækingi í áheyrn margra manna og honum haldið á meðan."

Bræðrunum kom þessi kveðja nokkuð ókunnuglega fyrir, sem von var. En brátt fengu þeir skýringuna, því að Sigurður sagði þeim nákvæmlega frá því, sem gerst hafði um daginn.

Þessi frétt var bræðrunum meiri harmasaga en þeir höfðu nokkurn tíma áður fengið. Að vísu bjuggust þeir við illu af Tobba, og jafnvel fleirum, en ekki svona illu. Hvað var það, þótt Tobbi hefði sett saman um þá einhvern leirburð og gengið með hann milli búðanna, hjá þessu? Hvað var það, þótt einhverjir níðkviðlingar væru að læðast í kringum þá og skjóta upp höfðinu við og við, hjá þessu? - Föður þeirra var gerð opinber svívirðing í margra manna áheyrn og vel undirbúin. Gremja þeirra snerist ekki svo mjög að Tobba, því að hann hafði þó átt dálítils að hefna. Hún var miklu beiskari í garð þeirra Hraunbótarfeðga, sem haldið höfðu föður þeirra undir þessa níðskírn, og sömuleiðis í þeirra garð, sem höfðu safnast þar saman til að auka á skapraun hans með hlátrum og hrópi.

Árna gekk þetta svo nærri, að hann fór að gráta, enda var hann unglingur og lítt harðnaður í skapi. En Sigurður yngri sat myrkur á svipinn og þrútinn og mælti ekki orð.

Eftir að Sigurður hafði lokið sögu sinni, leið nokkur stund svo, að enginn þeirra mátti mæla.

Sigurður eldri tók þá kistil lítinn, sem stóð hjá hvílu hans, opnaði hann og tók upp úr honum hárauða skotthúfu.

"Þið vitið ekki, hvað ég hefi hafst að í dag, síðan þetta bar til tíðinda," mælti hann. Ég hefi búið mér til þessa skotthúfu úr gömlu skyrtunni minni."

"Hvað ætlarðu að gera með þetta, faðir minn?" spurði Árni kjökrandi.

"Hafa það á höfðinu."

"Þetta -? Ætlarðu að gera sjálfan þig að athlægi?"

"Það er ég þegar orðinn og verð það ekki meira, þó ég gangi með þessa rauðu skuplu. - Upp frá þessu ætla ég að hafa hana á höfðinu hvern dag, þar til full hefnd er fram komin. Daglega skal hún minna ykkur, syni mína, á það, ef þið eigið eitthvað ógert eða vangert."

"Þá skaltu ekki þurfa að bera hana lengi, faðir minn," mælti Sigurður yngri og stóð á fætur.

"Hvert ætlarðu?"

"Finna þá Hraunbótarfeðga."

"O-nei, ekki í kvöld. Hefndinni mun svo best í verk komið, að ég fái að ráða. Fljótfærni stoðar hér ekki. Ég hefi hugsað ofurlítið um þetta, en þið ekkert."

Sigurður yngri lét sér segjast og settist niður.

Nokkra stund sátu þeir allir þegjandi. Þá mælti Sigurður gamli:

"Munduð þið treysta ykkur til að þekkja þessa húfu utan af sjó, ef þið væruð ekki mjög langt frá landi?"

Bræðurnir játtu því báðir, en störðu spyrjandi á föður sinn.

"Gott og vel," mælti Sigurður gamli, "þá sjáum við hvað setur. Öxnakeldu-Tobbi er nú undir vernd þeirra Hraunbótarfeðga, og líklega hafa þeir tekið að sér ábyrgð á lífi hans og limum, þar til hann kæmist til næstu mannabyggða. Þeim mundi því þykja lakar en ekki, ef í hann næðist áður. Ég býst nú við, að ekki verði hann látinn fara héðan fylgdarlaus, ef þið eruð í landi, og kannske ekki hvort sem er. En verið gæti, að húfan mín gæti sýnt ykkur úr landi, hvort hann fer inn með sjónum eða út með honum og hvort hann er einn eða maður með honum. - Til dæmis ef ég róla inn með sjónum og hvíli mig einu sinni, er maður með honum, en ef ég hvíli mig aldrei meðan þið sjáið til mín, er hann einsamall. Munduð þið skilja þetta?"

Bræðurnir kváðu já við því.

"Gott og vel. Þá látum við þetta liggja okkar í milli að sinni og látum á engu bera. Ef til vill náum við þá seinna í þá Hraunbótarfeðga, þótt sterkir séu, og getum auðmýkt þá ofurlítið. - Svo væri ekki úr vegi að þakka honum Ólafi mínum Örnólfssyni ofurlítið fyrir búðarlánið. Það megið þið gera undireins, ef þið skylduð þurfa að hafa úr ykkur mesta glímuhrollinn."

- Sama kvöldið réðust tveir menn grímuklæddir á Ólaf gamla Örnólfsson, er hann var úti staddur, bundu fyrir munn honum, báru hann út í hraunið og flengdu hann svo eftirminnilega, að hann var varla sjálfbjarga heim til sín.


9. kafli

Hlátri miklum laust upp í verstöðinni, þegar Sigurður í Totu sást fyrst úti með rauðu húfuna, enda var hann líkari apa en manni eftir slíka búningsbót. Var nú látið heita svo, að Öxnakeldu-Tobbi hefði kveðið á hann þennan ósóma. Sumum datt þó einnig hitt í hug, að Sigurður væri orðinn eitthvað geggjaður.

En Sigurður sannfærði menn brátt um það, að hvorugt var rétt. Hann var ekkert orðinn geggjaður, og hann notaði húfuna af frjálsum vilja. Aldrei höfðu menn séð liggja betur á honum en þessa dagana. Hann skaut við grönum og glotti, er menn hæddu hann mest fyrir húfuna, og hann, sem þekktur var að því að vera allra manna spéhræddastur, lét nú ekkert spé á sér hrína. Hæðnin út af húfunni dróst upp og dó á fám dögum.

En svo barst það út, þótt lágt færi, að Ólafur gamli Örnólfsson hafði orðið fyrir misþyrmingum. Við það sljákkaði í sumum hláturinn, því að nú vissu menn það, ef menn höfðu ekki vitað það áður, að þeir Totufeðgar hefndu harma sinna grimmilega.

Þegar þeir hittust, Totumenn og Hraunbótarmenn, töluðust þeir við eins og þeir höfðu áður gert, rétt eins og ekkert hefði á milli borið. Þeir höfðu aldrei verið óþarflega orðmargir hvorir við aðra og voru það ekki heldur nú. En kveðjur þeirra voru ekki styttri en þær höfðu verið.

Og ekki voru þeir Hraunbótarfeðgar í miklum vafa um það, að Sigurður og synir hans hefðu allan hug á að hefna sín. Þess vegna voru þeir varir um sig, en einkum höfðu þeir vakandi auga á Tobba. Aldrei var hann látinn vera einsamall, og aldrei skildu þeir hann eftir í búðinni, er þeir fóru á sjó. Annaðhvort fóru þeir með hann með sér eða þeir fólu hann einhverjum öðrum til varðveislu, sem í landi var, og lögðu fyrir hann að vera varan um sig.

Eftir rosa þá, sem gengið höfðu um það leyti, sem Tobbi kom í víkina, kom blíðviðriskafli og góðar gæftir. Var þá sjórinn sóttur af ákafa, og keppti hver við annan að draga sem mestan afla á land. En nú brá svo við, að þeir Totubræður reru aldrei lengra en á grynnstu mið fram undan víkinni og voru jafnvel oft inni undir landi að fuglaveiðum. Þetta þótti því undarlegra, sem þeir höfðu áður róið allra manna lengst. Enda öfluðu þeir nú lítið. Var margt um þetta talað og þeir oft spurðir að því, hverju þetta sætti. Tóku þeir því ætíð vel, en báru ýmsu við. Einkum voru það Hraunbótarfeðgar, sem gerðu hróp að þeim fyrir þetta, kváðu þeim nú genginn hug, er þeir þyrðu ekki að sækja á djúpmið sem aðrir menn, og brýndu þá fast. Sigurðarsynir tóku þessu með jafnaðargeði.

Salómon hafði orð á því leynilega við þá feðga, hvort ekki mundu þeir bræður sitja um Tobías, er hann færi þaðan. Þeir kváðu það engri átt geta náð, því hæglega gæti einn maður farið allra sinna ferða um hraunið án þess að sjást nokkurn tíma frá sjónum, og þótt hann sæist einhvern tíma, yrði hann alls ekki þekktur. Salómon fann, að þessi skýring var á nokkrum rökum byggð, og talaði ekki meira um þetta.

Loks kom að því, að Tobías þóttist ekki mundu verða fleiri gæða aðnjótandi í víkinni og bjó sig til brottferðar. Daginn, sem hann hafði ákveðið til fararinnar, var besta veður. Reru þeir feðgar þá tveir einir, en Salómon mæltist til að fá að vera í landi og fylgja Tobba úr garði, - trúði engum betur til þess en sjálfum sér, þótt ekki væri hann mikill fyrir sér. Létu þeir feðgar þetta ljúflega eftir.

Þeir Sigurðarsynir höfðu róið um morguninn, eins og vant var.

Tobías varð síðbúinn, því að nú þurfti hann að tína saman fiska þá, sem honum höfðu gefist fyrir formannavísurnar, og koma þeim í hirðingu; hafði það orðið í undandrætti fyrir honum þar til nú, þótt ekki ætti hann annríkt. Að því búnu þurfti hann að tína saman pjönkur sínar og búa sér bagga. Fór hann ótrúlega hægt að öllu, enda var hann ekki tilbúinn fyrr en komið var undir rökkur. Dag hafði hann þó nægan, því að ekki ætlaði hann nema að Einarslóni um kvöldið.

Þegar þeir gengu á stað, sáu þeir Sigurð í Totu úti við hjá einum sjófangahjalli sínum, og hafði hann rauðu húfuna að vanda. Leit hann við þeim og glotti, en lagði ekkert til þeirra.

Salómon fylgdi nú Tobíasi góðan spöl inn eftir hrauninu. Þar skildi hann við hann, því að engin hætta fannst honum hugsanleg. Lagði hann þó fyrir Tobba að þræða heldur lægðir í hrauninu, svo að sem minnst bæri á för hans, og hraða sér heldur, svo að hann lenti ekki í myrkri.

Á heimleiðinni sá Salómon, hvar Sigurður var enn hjá búð sinni. En skömmu eftir að hann kom heim, gekk Sigurður á stað í hægðum sínum. Hann fór þó ekki á eftir Tobba, heldur rólaði hann ofan að sjó og inn með honum, eins og hann væri að leita sér að morkeflum í eldinn.

Salómon fór í humátt á eftir honum og hafði gát á honum, en þegar hann sá, að Sigurður sneri við aftur og gekk heim, varð honum rórra, því að hann þóttist þá sjá, að ekki væri hann að hugsa um Tobba.

Bát þeirra bræðra hafði Salómon séð um daginn nokkuð langt frá landi, og sá hann enn, um það leyti, er hann var að gá að Sigurði. En síðar missti hann sjónar af honum, því að illt skyggni var undir sólsetrið og rauðan kvöldhimininn, en því betra til landsins.

Um kvöldið, þegar bátarnir komu að, hafði enginn orðið var við þá Sigurðarsyni. Ekki lentu þeir fyrr en seint um kvöldið í myrkri. Höfðu þeir þá aflað lítið, en fengið nokkra fugla.

- Tobías kom ekki að Einarslóni um kvöldið og að engu af kotunum né sjóbúðunum þar í kring.

Ekki var hans þó saknað og farið að spyrja um hann fyrr en eftir nokkra daga, því ekki þóttu það mikil tíðindi, þótt flækingur hyrfi. Engir héldu spurnum fyrir um Tobba að þessu sinni, nema þeir Hraunbótarmenn. Og þegar það fréttist, að hann hefði ekki til byggða komið, fengu þeir menn í lið með sér og hófu leit eftir honum.

Tobbi fannst þá rekinn af sjó undir hraunbrúnunum spölkorn fyrir utan Einarslón. Svo var líkið skaddað af marfló, að ekki var unnt að sjá, hvort á því væru nokkrir áverkar.

Hraunbótarmenn tóku sér þetta mjög nærri, og þó einkum Salómon, sem fannst hann vera sekur um að hafa fylgt Tobba slælega og séð illa við þeim Totumönnum. Hann var nú ekki í efa um, að Sigurður hefði gefið sonum sínum eitthvert merki og þeir síðan róið inn með landinu og hleypt þar manni á land til að fyrirkoma Tobíasi. Þetta var því sárara, sem allir vissu, að hér var um manndráp að ræða, og eins hverjir valdið höfðu, en engin leið að sanna það.

Upp frá þessu snerist ímugustur sá, sem Víkurmenn höfðu haft á Sigurði og sonum hans, upp í algerðan óþokka, og vildi enginn hafa neitt saman við þá að sælda.


10. kafli

Vertíðin leið, og var komið fram undir jafndægur. Veðráttan var farin að hlýna, en jafnframt orðin umhleypingasamari. Sunnanvindarnir voru orðnir tíðari, og hraunin kringum Dritvík voru orðin svört, því að snjór var þar hvergi nema í lautum og dældum.

Síðan um veturinn að Öxnakeldu-Tobbi hvarf, hafði skipt nokkuð um framferði þeirra Totumanna. Eftir því, sem óþokkinn á þeim varð almennari, urðu þeir sjálfir mannblendnari og kátari og leituðu meira eftir samneyti við aðra menn. Það var ekki aðeins, að þeir létust ekki sjá óvild manna, heldur var sem þeir storkuðu almenningsálitinu og segðu við alla: Kærið okkur, ef þið þorið, og sannið upp á okkur glæp, ef þið getið.

Einkum mátti heita, að þeir Hraunbótarmenn yrðu fyrir áleitni af þeirra hálfu. Þeir létu ekkert tækifæri ónotað til að yrða kunnuglega á þá og slá upp á glensi. Þeir umbáru það með dæmalausri stillingu, þótt hinir tækju þessu fálega eða jafnvel svöruðu illu. Hvað eftir annað dróttuðu þeir Hraunbótarmenn því að þeim, að þeir hefðu drepið Tobías. Meira að segja annar eins geðprýðismaður og Salómon gat ekki stillt sig um það, enda hataði nú enginn þá Totufeðga meira en hann. Ætíð tóku þeir þessu með stillingu og fyrtust aldrei við það, heldur hlógu því meir, sem berar var talað um þetta efni.

Og nú höfðu þeir Totumenn tekið upp sjósóknina á sama hátt og áður og kepptu nú einkum við þá Hraunbótarmenn, alveg eins og þeir höfðu áður gert. Brýndu þeir nú Hraunbótarmenn fastar en nokkurn tíma áður að leggja sig fram til móts við þá og gerðu að þeim hróp mikið, ef þeir létu ekki brýnast. Féll Hraunbótarmönnum þetta afar illa, en þó einkum Jóni, sem tók sér nærri frýjunaryrði þeirra.

Eitt kvöld var mjög dimmt í lofti og skuggalegt. Skýin voru blásvört og mikill veðurhvinur til fjallanna. Var auðséð, að veður gekk upp af landsuðri. En í þeirri átt er mjög ládautt í Dritvík, og stendur veður af landi.

Eftir að dag þraut, var koldimmt úti, svo að varla sá handaskil. Voru þá flestir inni í búðum sínum og bælum, því að enginn hugði til róðra fyrr en lýsa tæki og hægt væri að sjá, hversu viðra mundi.

Þessa nótt var Sigurður gamli í Totu úti við eftir að menn hans voru lagstir fyrir. Slíkt var engin nýlunda, því að oft var hann að gaufa eitthvað úti við í náttmyrkrinu, þegar aðrir sváfu, og ætíð vakti hann sonu sína, þegar honum þótti tími til kominn að róa. Var almælt í víkinni, að hann hefði kattaraugu og sæi best í myrkri. Víst var um það, að Sigurður var ekki náttblindur.

Einhvern tíma næturinnar kemur hann inn og ýtir við Sigurði syni sínum. Sigurður vaknar og spyr þegar, hvernig veðrið sé.

"Hann er skolli landsynntur og svartur í öllu austrinu," mælti Sigurður gamli.

"Heldurðu að verði róið?"

"O-jæja, ekki til mikils fengs. Ég býst við, að hann gangi upp með deginum. - En það er réttast að róa samt, svona til að stríða mönnum."

Svo lækkaði Sigurður róminn og mælti hljótt:

"Ef þið getið komið þeim Hraunbótarmönnum til að róa í dag, þá verðið þið að muna mig um það að vera ekki langt frá þeim á sjónum og vera ætíð viðbúnir, ef þeir skyldu þurfa einhvers með.

"Hvers vegna?" spurði Sigurður yngri.

"Við skulum ekki hafa hátt um það. - En mér segir svo hugur um, að eitthvað kunni að bila hjá þeim. Og það er ekki víst, að þeim þyki það betra en hvað annað, að þið róið undir þeim í land."

"Hvaða verkfæri ertu með í höndunum, pabbi?"

"Það er sagarskriflið mitt og hamar og naglbítur. Ég var að gera við svolítið úti hjá hjallinum mínum."


11. kafli

Þegar lýsa tók um morguninn, stóðu margir vermenn niðri á mölinni hjá bátum sínum og voru að bera sig saman um það, hvort þeir skyldu róa. Veður var þá fremur kyrrt, en mikið skýjafar af landsuðri og við og við komu snarpar kyljur ofan af jöklinum. Mörgum þótti veðrið ískyggilegt og sögðust hvergi mundu fara. Öðrum þótti vel fært og töldu líklegt, að veðrið mundi halda sér eins og það væri. Þeir bjuggu sig þá og hrundu fram í skyndi, og utan við víkurmynnið sást hvert ráseglið eftir annað koma upp og hvert fleyið eftir annað lagði sig á keipa og rann fram á miðin.

Meðal þeirra, sem reru, var Ólafur gamli Örnólfsson.

Þeir Totumenn og Hraunbótarmenn hittust hjá bátum sínum og voru eins og aðrir að bræða það með sér, hvort þeir skyldu róa. Sæmundi leist veðrið ótryggilegt, og Salómon, sem aldrei var vanur að leggja neitt til slíkra mála, latti fremur fararinnar.

Sigurður gamli var á stikli kringum bát þeirra Hraunbótarmanna, og meðan þeir voru að gá til veðurs og spá í skýin, steig hann gætilega á ofurlitla bletti af hvítu sagi, sem voru á steinunum, og tróð þá ofan í mölina. Enginn tók eftir þessu. Sigurður var í besta skapi, síglottandi, og hafði rauðu húfuna á höfðinu.

"Ætlið þið ekki að róa?" spurði Sigurður yngri.

"Ég veit nú ekki," svaraði Sæmundur með hægð.

"Líklega hræðist þið ekki golunepjuna þá arna," mælti Sigurður yngri og hló storkunarlega. "Ekki dettur okkur í hug að sitja í landi í svona veðri."

"Ólafur gamli Örnólfsson skýtur ykkur ref fyrir rass," hrópaði Árni í strákslegum storkunarrómi, "því að hann er róinn."

Á meðan athugaði Sigurður gamli árarnar í bát þeirra Hraunbótarmanna. Árar þeirra feðga voru stærri og sterklegri en dæmi voru til, og ein varaár var í bátnum af sömu stærð og styrkleik. Tvær minni árar voru ætlaðar Salómoni. Sigurður sneri fyrir sér árunum og skoðaði þær í krók og kring, eins og hann hefði aldrei séð þær fyrri. Loks mælti hann:

"Það er þó hægt að taka ofurlítinn barning með þeim þessum! - Ég fer að smíða ykkur svona árar, strákar. Þið hljótið nú að fara að verða menn til að valda þeim."

"Gerðu það ekki, pabbi," mælti Sigurður yngri með napurri hæðni, "því að þá er vísast, að við missum kjarkinn og þorum aldrei á sjóinn. Til hvers eru miklar árar, ef þær liggja í landi?"

Jón Sæmundsson skildi skeytið, og setti hann dreyrrauðan. En Totumenn fóru að skinnklæða sig.

"Hvað sýnist þér?" mælti Sæmundur við son sinn.

"Við skulum róa - róa, - hvað sem það kostar."

Salómon varp öndinni mæðilega, en fór undireins að bera í bátinn nauðsynjar þeirra, þegjandi, eins og hann var vanur.

Totumenn urðu fyrr tilbúnir og lögðu á undan Hraunbótarmönnum út úr víkinni. Þar settu þeir upp seglið og sigldu fram á mið. Sama gerðu Hraunbótarmenn. Nokkra stund sigldu bátarnir þannig hver á eftir öðrum beint undan vindinum. Þegar frá landi dró, var veðrið hvassara og jafnara og sjór mjög grafinn. Loks felldu Totumenn seglið og bjuggust til að renna færum. Hraunbótarmenn sigldu út fyrir þá, spölkorn, og felldu þar seglið. Þá sáu þeir bát eigi alllangt frá sér og þóttust þekkja þar Ólaf gamla Örnólfsson.

Þeir feðgar renndu þá færum, en Salómon settist í andþóf, því að svo var þá hvasst og kröpp kvika, að halda þurfti bátnum upp í, og var það ærin mannraun.

En þegar þeir eru nýsetstir að færum, koma Totubræður og sigla út fyrir þá. Það vissu þeir Sæmundur, að gert var þeim til skapraunar.

Nokkra stund keipuðu þeir og urðu varla fisks varir, enda hrakti bátinn svo, þrátt fyrir andþófið, að færin lágu langt út í sjó.

Veðrið fór heldur vaxandi.

"Við skulum hætta þessu og róa í land, áður en það er orðið of seint," mælti Sæmundur og dró inn færið sitt.

Jón hlýddi föður sínum þegjandi.

Þeir feðgar settust nú að róðri og tóku til hinna miklu áranna, því að veðrið stóð um hnýfil í land.

En við fyrstu áratogin hrökk árin í sundur undir skautunum í höndum Sæmundar.

Hann fleygði þá brotunum inn í bátinn og þreif varaárina.

En ekki höfðu þeir lengi róið, er árin í höndum Jóns fór alveg á sömu leið.

Sæmundur reif þá af henni skautana til að sjá hverju þetta sætti. Sá hann þá, að árin hafði verið söguð nærri því í sundur undir skautunum og skautarnir síðan negldir yfir aftur, svo að ekkert sæist.

Þeir athuguðu nú árina, sem brotnað hafði fyrst, og var hún eins. Með varaárina hafði verið farið á sömu leið, og var hún þegar farin að gefa sig um skautana.

Þeir feðgar litu hvor framan í annan, en sögðu ekki neitt. Nú voru ekki aðrar árar í bátnum en árar Salómons, og með þeim einum var vonlaust að ná landi í slíku veðri. Ekki lá því annað fyrir þeim en að hrekjast til hafs.

Meðan þeir eru að þessu, róa þeir Sigurðarsynir fast að þeim. Sigurður yngri stendur þá upp í bát sínum og hrópar til þeirra, allháðslega:

"Nú vantar illa Öxnakeldu-Tobba til að yrkja ykkur kraftakvæði!"

"Níðingar!" hrópaði Jón, æfur af reiði, og spratt á fætur. "Ekki er furða, þótt þið eggjuðuð okkur fast til sjósóknarinnar í morgun, er svo var allt í garðinn búið. - En aldrei skuluð þið hafa heiðurinn af að bjarga okkur."

Og áður en nokkurri hindrun varð við komið, þreif hann stjórann úr bátnum og slöngvaði honum af heljarafli yfir í bát þeirra Totumanna.

Steinninn skall í botninum á bátnum og braut gat á hann. Báturinn fylltist á lítilli stundu og sökk. Mennirnir skoluðust úr honum út í sjóinn.

Á meðan bar bátana svo í sundur, að þeir Hraunbótarmenn náðu ekki til hinna til að bjarga þeim.

Þeir Sigurðarsynir drukknuðu báðir, en háseti þeirra hékk í bátsflakinu.

Jón starði á þetta hreyfingarlaus, höggdofa, eins og hann væri stirðnaður af skelfingu við það, sem hann hafði sjálfan hent. Sæmundur faðir hans var fölur sem nár.

Í því sáu þeir Ólaf Örnólfsson koma róandi og bjarga hásetanum.

Á meðan hafði Salómon lagt inn árarnar þegjandi og reisti nú siglutréð á bátnum. Þótt siglutréð væri þungt og Salómon hnýttur og skakkur, var hann orðinn þessu svo vanur, að honum veitti það létt, þótt kvikan væri mikil og báturinn flatur fyrir á meðan.

Enginn þeirra mælti orð frá munni.

En þegar Sæmundur sá, hvað Salómon hafðist að, settist hann við stýrið, eins og hann var vanur. Jón horfði fyrst undrandi á þá til skiptis. En svo skildist honum líka, hvað þeir ætluðu sér. Þótt enginn þeirra segði neitt, minntust þeir þess allir í huganum, sem þeir höfðu talað um út af lífláti Axlar-Bjarnar.

Seglið þandist út, og Sæmundur tók stefnuna norður og vestur í haf, djúpt af Bjargtöngum.

Þá fékk Jón ákafa gráthviðu og grúfði sig ofan að þóftunni. Skelfingin fyrir dauðanum og löngunin til lífsins réðust á hann með því feikna afli, sem bjó í hans mikla skapi. Hann grét með ofsa og ákefð, eins og hann ætlaði að springa.

En það var einmitt hans líf, sem alls engin von var um að bjarga. Og í landi biðu hans ef til vill klip og kvalir og smánarlegt líflát á Laugarbrekkuþingi.

Sæmundur sat við stýrið, fölur, með samanbitnar varir, en fastur og einbeittur, eins og hver sá maður er, sem tekið hefir óbifanlegan ásetning.

Salómon færði sig til Jóns og lagði höndina blíðlega á öxlina á honum. Jón leit upp og minntist þá þessa trúa, góða þjóns, sem ævinlega hafði lagt gott til allra mála og nú fylgdi húsbændum sínum með glöðu bragði á hinni síðustu siglingu - inn í eilífðina.

Hann faðmaði Salómon að sér hjartanlega, eins og góðan bróður. Og í þeim faðmlögum hölluðu þeir sér út í kulborðið og biðu þess, sem koma ætti.

- Á meðan Ólafur Örnólfsson og menn hans sáu til þeirra Hraunbótarmanna, sigldu þeir svo að - sauð á keipum.


12. kafli

Sigurður gamli í Totu var meðal annarra, sem staddir voru niðri á mölinni, þegar háseti hans var borinn upp úr bát Ólafs Örnólfssonar og inn í búð hans. Hann frétti þá, að synir hans og Hraunbótarmenn hefðu átst illt við á sjónum, að synir hans væru báðir drukknaðir, en Hraunbótarmenn hefðu hleypt til hafs.

Að slíkri fregn fenginni gekk Sigurður þegjandi heim í Totu sína og lokaði sig þar inni.

Háseti þeirra Totumanna hjarnaði við fyrir góða aðhjúkrun í búð Ólafs, svo að hann mátti mæla. Játaði hann þá grátandi hlutdeild sína í hvarfi Tobíasar frá Öxnakeldu. Þeir höfðu skotið Sigurði yngra á land til að vinna á honum, en beðið Sigurðar á floti fyrir framan landsteinana.

Einnig sagði hann nú frá því, að hann hefði vakað síðastliðna nótt og heyrt samtal þeirra feðganna, er Sigurður gamli vakti son sinn.

Nú var sent til hreppstjórans til að taka Sigurð í Totu fastan.

En þegar að var komið, þurfti að brjóta upp búð Sigurðar, og fannst hann þar dauður í fleti sínu. Svo hafði honum orðið mikið um sonamissinn, að hann hafði lagt hönd á sjálfan sig.

En í öskustónni fundust hálfbrunnin slitur af rauðri húfu, sem hann hafði fleygt í eldinn.




Netútgáfan - júlí 1999