Sýslumaðurinn í Eyjasýslu var á ferð eitt vor í byrjun gróindanna.Hann var skipaður setudómari í máli einu, og kannaði því ókunna stigu; fékk reynsluna fyrir því, að vegirnir hér á landi eru vandfarnir og torsóttir á vorin, meðan aurar og vatnavextir eru til farartálma fyrir menn og skepnur.
Ólafur sýslumaður var orðlagður starfsmaður, ákafamaður í skapi og örgeðja. Hann vildi manna þjóðina, auka atorku og kunnáttu hennar, bæta siðferðið og efla guðhræðsluna, svo fólkinu vegnaði vel í landinu.
Á námsárum sínum hafði hann verið frjálshyggjandi í trúmálum og ekki farið mjög dult með þær skoðanir sínar, skólabræður hans guðfræðinemarnir í Kaupmannahöfn fengu að kenna á því, að hann var kappsamur og óvæginn ef í þær deilur sló.
En eftir komu sína hingað til lands og eftir það, að hann tók við embættisstörfum í Eyjasýslu, örlaði aldrei á þeim skoðunum. Sýslumaðurinn hafði líka kvænst fyrsta embættisár sitt og gengið að eiga unnustu sína, göfuga og sterktrúaða konu, prófastsdóttur, prestkynjaða fram í ættir, en heilsa líkamans var ekki að sama skapi sterk og trúin var föst; lútherska sannfæringin laus við allan efa og allar rýningar annarra trúarbragða.
Ólafur sýslumaður gekk götu kirkjunnar, og þau hjón gáfu nábúum og kunnmönnum gott dæmi með kirkjugöngur og athugun ríkjandi trúarsiða. Kærkomnustu gestir þeirra voru klerkar og kennimenn.
Gálitlir frjálshyggjendur fengu að kenna þess hjá sýslumanninum, ef þeir töluðu ekki svo sem vera bar, með trausti og vissu um þjóðkirkjuna og þjónustumenn hennar. Þá var Ólafi að mæta og hann var hvorki kapplaus né væginn við slíka pilta, sem tóku til að gerast helst til margir í landinu og helst til framhleypnir.
Sál þessa miðaldra sýslumanns var starfsöm og framgjörn, en hinn hæsti höfuðsmiður hafði ekki veitt honum neina heiðingjaheilsu né rammgerðan bústað, sem hún byggi í.
Nú - þetta vor - lá leið Ólafs sýslumanns austur yfir Hraunháls, sem er talinn að vera full dagleið sveita á milli á vorin meðan aurar eru og haglendi lítt sprottið.
Hvorki sýslumaðurinn né Vigfús skrifari hans höfðu nokkru sinni farið yfir Hraunháls. Þeir voru nauðbeygðir til þess, að fá sér leiðtoga.
Og til þessa réð klerkurinn, sem þeir gistu hjá áður á hálsinn skyldi leggja, bónda þann er Þiðrandi hét og bjó á Steinum.
Félagarnir urðu nokkuð síðbúnir um morguninn frá prestsetrinu; en þeir hugðust vinna það upp með harðri reið um daginn; voru svo vel hestaðir, höfðu tvo til reiðar hvor og einn undir töskum.
Þiðrandi hafði aðeins einn hest brúnhöttóttan sem hann nefndi Blika.
Meðan göturnar voru glöggar og greiðar upp að hálsinum, reið sýslumaður á undan en hinir ráku hestana. Vigfús virtist Þiðrandi tómlátur að hvetja hestana og ekki líkur því að vera ötull ferðamaður.
Svo tóku hálsbrekkurnar við og þar var vont að finna vegslitrin meðal klungursins og lækjarseyranna.
"Upp brekkurnar þurfum við að fara hægt," sagði Þiðrandi, "þeir fá samt að vita af hálsinum klárarnir okkar."
"Það er orðið svo framorðið að okkur veitir ekki af, að fara svo greitt sem unnt er, ef svo er langt austur að Höfða og sagt er, og þar hef ég ákveðið að gista." Sýslumaður hottaði á hestana.
"Ég held þeir þoli það hestarnir okkar, þó við ríðum þéttingshratt," sagði Vigfús, hann hottaði líka á hestana.
Þiðrandi steig af baki og teymdi Blika upp brekkuna, hinir ráku nú lestina og voru þaulsætnir í söðlinum, enda var sýslumaðurinn grannvaxinn, holdskarpur og léttur á baki. Vigfús lágur og kútvaxinn svo hann var heldur engum hesti ofraun, þyngslanna vegna.
Hraunháls var víðast stórgrýttur og illur yfirferðar; litlar eru þar vegabætur ennþá, þótt oft hafi verið rætt um nauðsyn þeirra, og kvartað og bölvað torfærunum af þeim sem yfir hann ferðast. En þeir voru harðfylgnir og ókvalráðir ferðamenn, sýslumaðurinn og skrifari hans; urðu ágætlega samtaka í því, að ríða hart þar sem nokkur tök voru til þess.
Þeir ráku hestana fram fyrir Þiðranda hvað eftir annað, en þá hittu klárarnir ekki stígana og rákust lítið. Þiðrandi fór hægt upp á hálsbrúnina og teymdi allar erfiðustu brekkurnar. Sýslumaður gerðist óþolinn bæði við torsóttan veg og tómlátan leiðtoga.
Á hálsbrúninni steig Þiðrandi á bak og nú tóku við nokkru skýrari stígar og ekki jafn torfærir. Sýslumaður sparði ekki svipuna og Vigfús beindi liðlega að með honum. Klárarnir fóru á þanstökki. Þiðrandi dróst aftur úr.
Eftir sprettinn náði hann þeim á víðiflesjunni.
"Hér ættum við að staldra svolítið. Hestarnir þurfa þess," sagði Þiðrandi og steig af baki.
"En það verður ekki lengi, við komumst ekkert áfram með þessu morri. Þér verðið að herða betur að klárnum, Þiðrandi, ég er staðráðinn í því að hafa mig austur af fyrir náttmálin," sagði sýslumaður um leið og hann fór af baki.
Þetta var örstutt dvöl, hestarnir höfðu enga haga. Sýslumaður og Þiðrandi höfðu báðir gefið gaum að þeim; báðir sátu jafnskjótt í söðlunum. Vigfús hafði kveikt í pípunni og varð lítið eitt seinni, en hann var ekki lengi að jafna það. Og nú var farið svo hart sem unnt var.
Þá varð fyrir þeim fannskafl, sem allir þurftu að fara af baki við.
"Er þetta ekki helst til hart farið svo snemma dagleiðarinnar," sagði Þiðrandi, "vegurinn er það hrak."
"Engin siðuð þjóð mundi kalla þetta veg; það er eins og annað hérna á Slæpingjalandi, engin er mannrænan til að lagfæra nokkuð. Hangsast einhvern tíma yfir. Það er nóg... en ég uni því ekki og hann er nógu stór og feitur sá kúfótti yðar; hann getur að líkindum stigið rúmt einn dag. En hann er kannski ekki mjög harðtækur fremur en sumir aðrir," sagði sýslumaður og blístraði.
"Ég verð að sætta mig við það þó svo sé; en hérna austur yfir Hraunið væri líklega betra að ég færi á undan; þeir rekast varla um vegleysuna hestarnir yðar," sagði Þiðrandi.
Hraunið er alllangur spölur og hið versta yfirferðar, bæði stórgrýtt og þó aurmikið milli klungurs og hnöllunga. Þar urðu þeir félagar að ganga öðru hvoru þótt þeim þætti ferðin miður góð eða þokkaleg.
Löngu austar eru Áfanga-lækir; grænkar þar snemma á vorin og oftast viðfelldnir hestahagar þótt annars staðar á Hraunhálsi sé gróðurlaust eða gróðurlítið. Þar er jarðylur og volgt vatn í sumum lindunum, en kalt í öðrum. Þaðan er skemmra til byggða austur en vestur.
"Hér vil ég æja einn hálftíma," sagði Þiðrandi og spretti af klárnum, "nú er lokið því torsóttasta af háls-skrattanum."
"Já... en þá megið þér reiða yður á það, að ég vil ríða hart alla leiðina austur að Höfða, það er orðið flug-framorðið." Sýslumaður leit á klukkuna sína.
Þeir félagar tóku beislin út úr hestunum; síðan settust þeir allir að snæðingi.
"Mikil bölvuð skömm er það fyrir þjóðina að gera ekki veg yfir hálsinn, og sérstaklega ættu þeir að finna til þess, sem næst búa. Það er eins og annar amlóðaskapurinn hérna; hvers er von þar, sem þjóðin er menningarlaus og siðlaus, annars en þess, að allt sé eins og hjá Skrælingjum. Von er til að mönnum frá siðmenntuðum þjóðum blöskri þegar þeir fara hér um," sagði sýslumaður og hallaði sér að þúfu með smurða brauðið í hendinni.
"Það smálagast bæði með vegina og annað. Hálsinn sá arna verður færilegur að 20 árum liðnum. Það er dýrt að gera hér vegi og við snjóinn ræður enginn maður, ekki þó hann sé hámenntaður." Þiðrandi glotti við.
"Já, hér er karakter þjóðarinnar... það lagast segir hún og mókir,... mókir áratug eftir áratug og er drjúg af sjálfri sér og ímyndaðri menntun sinni. Þykist ósköpin öll ef steinn er tekinn úr götu eða þúfa úr túni," sagði sýslumaður.
"Satt er það, hér er nóg til af kínversku sjálfsáliti og gorgeir, en minna um þrifnaðinn eða fegurðarsmekkinn," sagði Vigfús og leit til Þiðranda.
"Ég þekki ekki Kínverja svo að ég geti borið þá og okkur saman; en ég hef haft náin kynni af mönnum, sem ekki nenna að vinna stritvinnu og þykjast of góðir til þess, að bisa steinum úr leirflagi. Samlanda mína sem minntu á Gísla Þorsteinsson og Gísla Þorgautsson; þetta strjálbyggða land og þessi félitla þjóð þarfnast meir þróttungra manna og nenningargóðra en þvílíkra ofláta; stóryrðin ein gera okkur aldrei menntaða né framtakssama," sagði Þiðrandi og skar niður deigið fyrir hestinn sinn.
"Landið er gott og það gæti verið svo margfalt þéttbyggðara ef þjóðin nennti að vinna, eða kynni nokkuð til þess, væri ekki svona menningarlaus og blind af draumum sínum um miklar framfarir, og svo frábitin öllu praktisku," sagði sýslumaður.
"Því er nú verr og miður, að þjóðin verður heldur lengi að rísa vel á legg. Hún var svo kúguð af harðindum, drepsóttum og illri harðstjórn, að það er ekkert undarlegt þótt svo sé; en hún er að standa á fætur og taka til starfa."
"Og annar eins starfi,... annað eins draumafálm, það er eins og hálfsofandi maður teygi sig og núi stírurnar úr augunum. Það þarf að hrópa hátt og lengi til þess, að þjóðin sú arna vakni; mörlandinn vinni og framkvæmi nokkuð nýtilegt."
"Það verður mörgum á að þykja morgundúrinn sætur. Menntuðu mönnunum engu síður en hinum,... en nú fer hálftíminn að líða og þá er heppilegast að síga eitthvað í áttina." Þiðrandi gekk til hestanna.
"Jú, hálftíminn er liðinn," sagði sýslumaður og reis á fætur. "Hafið þið nú hraðar hendur við að ná hestunum og beisla þá."
Þiðrandi söðlaði hest sinn; Vigfúsi varð allt tafsamt við reiðskjótana þeirra. Sýslumaðurinn kveikti í vindli á meðan, svo teymdi Þiðrandi Blika á götuna, sté á bak og reið austur eftir.
"Sá er góður," sagði Vigfús.
"Já, sá er efnilegur; fullur upp með þverúð og sjálfbirgingshátt. Þessi maður á ekki annríkt og hann verður seinn að vakna."
"Hann dregur ýsur og er ánægður með hlutinn sinn."
"En við skulum pína þá báða, hann og klárinn, til þess að draga af sér slenið, þeir hafa ekki nema gott af því."
Sýslumanninum og skrifara hans virtist svo, sem Þiðrandi væri ekki dásnotur maður. Hann var hár og grannur, að sjá, sívalvaxinn, holdskarpur, sinaber og stórbeinóttur, fölleitur og langleitur, jarpur á hár og skegg, veðurtekinn og yfirlitsdökkur, gráeygur og stóreygur, seinmæltur og fastmæltur og ekki skjótlegur í bragði. Þeim þótti maðurinn heimdragalegur og ekki vel búinn.
"Eru nú stígaskrattarnir glöggir það sem eftir er," sagði sýslumaður um leið og þeir ráku hestana fram fyrir Þiðranda.
"Það má heita svo," sagði hann og glotti við.
Veður hafði verið heitt og hlætt um daginn, sólskin og sunnanblær, en stundu eftir nón gerðist hvasst og kalt, stóð garrinn suðvestan hálsinn, og tók sýslumanni að verða hrollkalt og eggjaði nú fast að herða reiðina.
"Þetta heitir Dysjarfell," sagði Þiðrandi um leið og þeir riðu upp brekkusneiðinginn.
"Það er svo," sagði sýslumaður og benti Vigfúsi, báðir stigu af baki, skrifarinn leysti til hnakktöskunnar og dró úr henni flösku, rétti hana að sýslumanninum með mestu kurteisi og ánægjusvip.
"Okkur veitir ekki af hressingu í þessum bölvuðum stormi," sagði sýslumaður, losaði um tappann og saup á, rétti hana síðan að Vigfúsi og mælti um leið:
"Réttið þeim næsta."
"Hvaða árans grjóthrúga er þetta," sagði Vigfús um leið og hann spennti töskuna.
"Dysið -- það er Nornardysið, sem allir vegfarendur eiga að kasta grjóti að."
"Þekkið þér söguna um það, og ef svo er, þætti mér gaman að heyra hana," sagði sýslumaður.
"Grjóthrúgan sú arna er minnisvarði þjóðarinnar yfir konu, sem sökuð var um galdur, handtekin og dæmd til að brennast. Konan var öldruð en hún slapp samt úr varðhaldinu, strauk frá klerkinum, sem gætti hennar og hafði mestu ráðið um það að hún yrði dæmd sek. Þeir sem leituðu, fundu hana ekki í kolsvörtu náttmyrkri og svo skall á hríð og norðangarður. Svo leið veturinn og fram eftir vorinu, að ekki fannst galdrakerlingin, prestinum og fleiri góðum siðavöndum mönnum til mikils angurs og áhyggju. Þegar hálsinn var orðinn fær um vorið, fóru margir menn vestur yfir hálsinn og einn í þeim hópi var klerkurinn, sem hafði átt að gæta fordæðunnar; og þeir fundu hana sunnan undir "Nornarklöppinni", þar hafði hún leitað sér skjóls og þar hafði líka fokið í það skjólið; hérna helfraus hún, vesalingur, og sveikst þannig undan réttlætisdómi mannanna; undan verðskuldaðri brennu. Þeir kompánar höfðu engin eldfæri - annars hefði presturinn brennt skrokkinn og þóst vinna þarft verk; en einn af þeim hafði hestskónagla, hamar og naglbít, sem nú kom að góðu haldi. - Presturinn rak sína þrjá naglana í hvorn fót á kerlingunni, svo drógu þeir hana hingað, hlóðu að henni grjóti heldur rammlega og presturinn mælti svo fyrir, að hver vegfarandi skyldi kasta steini í dysið og afla sér á þann hátt farsællar ferðar. Því hefur verið fylgt svo vel, sem grjóthrúgan sú arna ber vitni um. Þetta er nú sögnin og venjan hefur haldist við með það, að kasta grjóti í Dysið, en mörgum hefur orðið torfarið um hálsinn samt og margir hafa orðið hér úti, sem höfðu fylgt venjunni."
Sýslumaður greip stein og kastaði að hrúgunni og slíkt hið sama gerði Vigfús.
"Svona... þá ætti okkur að ganga bærilega ferðin," sagði sýslumaður. "Sögnin er gömul orðin og Dysið er orðið stórt,... en ætlið þér ekki að kasta líka Þiðrandi, halda við venjuna og fá lukkulega ferð eins og við hinir." Sýslumaður sté í ístaðið.
"Nei... síðan ég kom til vits og ára hef ég aldrei gert það," sagði Þiðrandi og steig á bak. "Þessi grýting er heimska og mér þykir venjan ill og vitlaus. Það er kominn sá tími nú, að hún ætti að leggjast niður. Auðnuleysingjarnir hafa nógu lengi verið barðir grjóti og dysjaðir. Við getum gert annað þarflegra með grjótið en að hlýða þessum vitlausa og grimma presti og önnur vinna væri okkur nær en sú, að hækka þennan minnisvarðann."
"En sú speki og þessi merkilegheit í yður. Það er eins og þér hafið sósíalista grillur og uppþembing," sagði sýslumaður og glotti til Vigfúsar.
"Ég þekki þá kenningu svo lítið... ég get þess vegna ekki haft neinar slíkar skoðanir,... en satt er það, jafnaðarkenningin er mér betur að skapi en galdrabrennur og myrkur hjátrúarinnar."
"Þér þurfið ekki að dreifa mér við það, að hanga í gömlum og vitlausum venjum, ég verð að frábiðja þess háttar aðdróttanir; framkoma mín hefur verið svo löguð, að menn í þessum landsfjórðungi hafa verið hvattir af minni hálfu meir fram til dugnaðar og menningar en þeim hefur verið hugljúft. En móti vantrú, vitlausu glamri sósíalista, og vindgangi þeirra, sem tala eins og eyru almennings klæjar eftir, til þess að trana sjálfum sér fram, hef ég risið og mun halda því fram hér eftir."
"Það er slæmt hvað veðrið er hvasst, ég heyrði ekki eins vel og ég vildi ræðuna yðar... Vantrúin er ekki góð, en trú hinna skriftlærðu er stundum eins viðsjál. Bókstafstrúin á örðugt að festa rætur og enn örðugra að blómgast og dafna; jafnaðarkenning Krists er fögur, en hún jók honum ekki vinsældir höfðingjanna og henni hefur furðu lítið verið haldið fram af þeim, sem hafa boðað og kennt kristna trú. Prestarnir leggja litla áherslu á hana í ræðum sínum og því minni í háttsemi og félagslífi. Og hjá honum er þó varla að tala um glamur."
"Nei, það er hverju orði sannara; Kristur kom til annars í heiminn en að glamra. Að hann fórnfærði sér fyrir synduga menn er guðdómlegra og aðdáanlegra en svo, að mönnunum leyfist að gera Krist að sameignarpostula, bera hann fyrir draumórum sínum og þykjast breyta eftir hans dæmi þegar þeir æsa fólkið og heimta jöfnuð á fjármunum allra. Prestarnir eru sannkristnir þegar þeir brýna friðþægingarinnar evangelíum fyrir mönnum, hugga fólkið með því, hugsvala því, mennta það og siðbæta. Prestunum er það að þakka að þjóðin hefur snefil af menntun og þeir hafa heiðarlega leiðbeint fólkinu og vísað því veginn, sem það á að ganga."
"Að frjáls menntun sé prestunum að þakka er hæpin ályktun og lítil merki þess hef ég séð um mína daga. Ég tala um stéttina í heild sinni en ekki um heiðarlegar undantekingar, og miða heldur ekki við afrakið, sem þó hefur orðið þjóðkirkjunni hérna til hnekkis og ófrægðar."
"Nú áfram,... áfram... Ég hef enga löngun til þess, að eyða tímanum við að jafnkýta þverhausum. Slæpast hér í fjandans rosanum fram á nótt. Þér Þiðrandi verðið að gera svo vel og halda betur áfram. Hvorki þér né klárinn yðar hafið ennþá sýnt neinn dugnað í þessari ferð; það fer að verða mál til þess nú."
"Göturnar eru nú svo glöggar, að menntaðir menn geta rakið sig eftir þeim, við Bliki reynum eftir megni að hanga á ykkur."
Vegurinn varð þurrari og greiðfarnari austan við Dysjarfellið; minna af grjóti og melum og meira grasgróið land þar á hálsinum.
Og nú þurfti ekki lengur að frýja Þiðranda áframhaldsins.
Vigfús kom nokkru síðar niður á Grjótáreyrar en þeir sýslumaður og Þiðrandi. Hann reið ungum hesti ógefnum, sem ekki þoldi vel langferðir né harða reið dag eftir dag svona snemma vorsins.
Þiðrandi kippti söðli og beisli af hesti sínum.
"Hvaða meining er í því að spretta af? Ég hef hér enga dvöl," sagði sýslumaður.
"Mér sýnist áin óreið. Það er fjarska vöxtur í henni."
"Ekki virðist mér þetta mikið vatnsfall. Ég er viss um að öruggur og kunnugur maður getur fundið fært vað á sprænuskrattanum þeim arna."
"Nei,... hún er ekki reið... ég veit hvernig Grjótá er... ég hef verið hérna frá því ég var barn og þangað til nú fyrir sex árum, að ég flutti vestur yfir. Kunnugur ætti ég að vera, hvað sem öðru líður," sagði Þiðrandi og gekk fram að ánni.
"Mikið helvíti er að teppast við ekki meira vatnsfall en þetta sýnist vera," sagði Vigfús. "Er ekki hægt að hleypa hana þarna á brotinu?"
"Hún er ekki hleypandi örðuvísi en að sundríða, það er ég sannfærður um; en verði ekki allir sofnaðir á Árbakka vonast ég eftir að fá þar ferju. Þar er þó engin lögferja og líklega ennþá sama bölvaða prammkrílið."
"Þá er að bregða við og halda þangað... ég ætla ekki að hanga hérna aðgerðalaus í nótt. Reiðtygin á hestinn í fljúgandi fartinni herra Þiðrandi;" sýslumaðurinn var stuttur í spuna og valdaleg röddin.
"Ég skal sjá um mig og hestinn. Vigfús er ekki búinn að hotta hinum saman."
Þeir náðu aldrei Þiðranda fyrr en hann steig af baki gagnvart Árbakka. Sýslumanni reyndist Bliki drjúgur að stökkva norður bakkana.
Þá var komið fram yfir venjulegan háttatíma, bæjarhurðin á Árbakka lokuð og enginn maður á ferli.
Þiðrandi kallaði þrem sinnum en allt var jafn kyrrt og áður; aðeins tveir hundar stukku á fætur, hlupu geltandi niður túnið og ofan að ánni.
Þegar Þiðrandi hafði kallað um stund sneri hann sér að sýslumanni og sagði:
"Jón er líklega ekki heima fyrst ekki er forvitnast um, hverju þessi hundgá sæti ég held það tiltækilegast verði, að fá sér gisting á Hvarfi þar býr góður bóndi og þrifin húsfreyja."
"Ég hef fastráðið að gista í Höfða og frá því vík ég ekki fyrr en fullreynt er, að það sé óframkvæmanlegt. Það er helvíti hart ef hundkunnugur maður getur ekki haft sig yfir ána á einhverju brotinu."
"Einbeittur og kunnugur maður hlýtur að geta það; að minnsta kosti er löðurmennska að reyna ekkert til þess," sagði Vigfús og strauk kampana.
"En einbeitnin er óþekkt og einskis virt hér á landi. Því er verr, þjóðin er huglaus. Ekki hefðu Ameríkumenn eða Englendingar hikað lengi við þessa kvísl; ekki hefði Nansen flatmagað hér aðgerðalaus," sagði sýslumaður og neri hendurnar.
Þiðrandi fölnaði og leit hvössum rannsóknaraugum til þeirra beggja, síðan sagði hann og rómurinn skalf lítið eitt við:
"Eruð þið vanir að sundríða og hafið þið trausta og góða vatnahesta?"
Félagarnir litu hvor til annars og urðu ekki skjótir til svars.
"Auðvitað er ég því ekki vanur. Ég gerði það einu sinni eða tvisvar þegar ég var unglingur;... mér finnst óhugsandi að ekki sé slarkandi vað þarna suður við nestána," sagði sýslumaður.
"Ekki er ég svo hræddur um mig," sagði skrifarinn og brá litum,.. "það er verst hvað hestarnir okkar eru slæptir."
"Ég ætla að skreppa hérna suður í tána og gæta að brotinu þar; það er best þið bíðið hér á meðan; þó ég hafi enga trú á því að þar sé færivað," sagði Þiðrandi. Hann gekk suður á bakkann til hestanna, linaði á söðulgjörðinni og beisliskeðjunni, sté á bak, blístraði og reið hvatlega suður nesið.
"Hann fær varla vað sem honum líkar þetta kvöldið; mig grunar að honum leiki meiri hugur á næturgistingunni á Hvarfi en að bleyta sig í ánni; hann er, eins og fleiri, gætinn með líf og heilsu," sagði sýslumaður.
"Það verður svo, á endanum, að við megum sætta okkur við þann næturstaðinn."
"En sá djöfull, að ríða ekki hraðar í dag, þurfa að skríða hérna inn í kotbæina, hafa það fyrir töfina í lækjar-skröttunum. Hann..." Sýslumaður þagnaði og horfði með athygli suður eftir.
Þiðrandi hafði riðið fram í ána á brotinu, en straumurinn freyddi strax upp á síðu á hestinum; hann sneri klárnum snögglega til sama lands.
"Grunaði mig ekki," sagði sýslumaður.
Rétt fyrir norðan brotið svifaði straumnum að austurlandinu, þar reið Þiðrandi fram af grjóteyrinni, út í ána; þegar hesturinn hafði vaðið fulla lengd sína greip hann sundið; straumurinn velti honum á hliðina í sömu svipan, en Þiðranda varð ekkert hverft við það, hann blístraði og beindi hestinum skáhallt austur yfir; Bliki strokaði frýsandi og beit fast saman tönnunum; tók á öllu afli sínu og sundfimi til þess, að forðast hættuna sem hann barðist við; bjarga þeim báðum á þurrt landið.
Sýslumaðurinn og Vigfús hlupu suðaustur nesið. Það var jafnskjótt að þeir komu á vestri bakkann og Bliki tók niðri við austurlandið.
"Hann gerði það fjandi fallega," sagði sýslumaður og skalf rómur.
"Hesturinn er mesti stólpagripur og óþreyttur; það er munur eða um klárana okkar hungraða og þreytta."
"H-u-m. Ojá! Hann gerði það samt miklu betur en mig grunaði."
Þiðrandi reið hratt heim að Árbakka, lauk upp hesthúsinu, lét klárinn inn og gaf honum hey, svo fór hann heim, vakti fólkið og bað húsfreyju um ferjuna.
Jón bóndi var ekki heima og enginn vaxinn karlmaður, sem var fær til þess, að ferja yfir ána.
Þiðrandi hvolfdi upp pramminum, setti hann fram og reri vestur yfir.
"Komið þér nú sælir. Þetta var rösklega gert," sagði sýslumaður og greip í framstafn prammsins.
"Sælir..." sagði Þiðrandi, dró farið upp á eyrina og hvolfdi úr því lekavatninu. "Nú er að hafa hraðar hendur, smala saman hestunum, spretta af og reka þá í ána."
Vigfús brá fljótt við. Hestarnir komu og Þiðrandi greip töskurnar af, hlóð reiðtygjunum í pramminn og færði hann í flæðarmálið.
"Ég hef þann rauða minn á eftir. Vigfús getur haldið í hann."
"Því mótmæli ég. Fleytuskrattinn er fullsetinn af okkur og reiðtygjunum þó ekki sé hafður hestur á eftir." Þiðrandi var venju fremur fastmæltur.
"Það gerir ekkert þó hann Rauður minn sé hafður á eftir. Ég vil ráða því lítilræðinu."
"Ég hef ábyrgð á pramminum og hvernig tekst að ferja; það verður ekkert af því, það er óþarft kapp þetta."
"Hver djöfullinn! Svo þér berið mig ráðum! Þér njótið þess, að ég hef engan tíma til að þrasa og að þér riðuð ána rösklega."
"Hestana alla fram í," kallaði Þiðrandi byrstur; kippti beislinu af Rauð og sló hann á lendina með því. Rauður stökk fram í og hinir allir á eftir. Sýslumaður dreyrroðnaði. Þiðrandi flotaði pramminum. Hestarnir syntu allir vel nema Gráni, hann kom síðastur af ánni og á að giska 30 föðmum norðar en hinir, var þá orðinn svo djúpsyndur að hann nasaði aðeins upp úr, þegar niðri tók að austan.
"Ég vissi það," sagði Vigfús, "að hann mundi ekki geta synt með mann á bakinu sá grái."
"Hinir hefðu gert það, ef rétt var setið og ekkert tálmað fyrir þeim. En hitt grunaði mig að áin væri ykkur lítt fær," sagði Þiðrandi og settist við árar.
Þiðrandi beit á vörina og reri rammlega yfir ána, og þó mátti ekki seinna vera með landtökuna; prammurinn svona hlaðinn hriplak og nú var hvorugur farþeginn rjóður þegar þeir stigu á land.
Þiðrandi greip í framstafninn, kippti pramminum upp á eyrina, hellti vatninu úr og hvolfdi honum síðan.
"Ekki dugar þessi djöfull. Hestarnir standa í túninu og Vigfús er ekki mjög fóthvatur að elta þá," sagði Þiðrandi við sýslumanninn, sem var að bjástra við töskuna sína.
"Nú hjálpið þér honum þá!"
"Það get ég gert, því mér virðist menningarlítið að horfa bara á að hestarnir spilli túninu, en ekki var ég ráðinn til að vera hlaupastrákur ykkar í dag, þó svo hafi nú farið á endanum."
Þiðrandi rak hestana úr túninu með Vigfúsi; gekk síðan að hesthúsinu, tók Blika og söðlaði, leysti til hnakkpoka síns og dró úr honum vínflösku, saup niður úr öxlunum, batt pokann, steig á bak og blístraði; reið síðan niður á eyrina til þeirra ferðafélaga sinna.
"Það er lítil meining að leggja á þann gráa, sýnist mér; þið hafið til skiptanna og viljið nú líklega ríða hart, það sem eftir er."
Vigfús tók annan hest.
Þiðrandi vildi ekki vín, þó sýslumaður byði honum það, þakkaði fyrir, en sagðist ekki hafa nema illt af því í þetta skipti.
Svo hnappaði hann hestana á melgötuna sunnan við túnið og rak þá á þanstökki. Sýslumaður náði honum fljótt og sparaði nú ekki lengur þann rauða sinn. Vigfús dróst aftur úr.
Þiðrandi linaði ekki á reiðinni, en nú fór Rauður að linast og letjast.
"Þér megið ekki ríða alveg svona illa, Þiðrandi, Vigfús er orðinn langt á eftir og hesturinn hans er víst farinn að lýjast."
"Nú þarf ekki að eggja mig lengur; ykkur hefur þótt ég daufur í dag og slóðalegur; hestarnir ykkar sýna nú hvort það mátti bjóða þeim meira en gert hefur verið. Þó ég sé, eins og þið hafið látið mig ótvírætt skilja í dag, heimdragalegur og ekki menntunarmikill, þá hefur þó lífsreynslan kennt mér að nota heilræði Flosa, það er hann kenndi félögum sínum, þegar þeir riðu til brennunnar á Bergþórshvoli. Mér er hlýtt í hug til klársins míns, þessa þrautgóða, þolinmóða starfsfélaga, sem ég þarf svo oft að bjóða mikla raun og harðar þrautir, ég vil ekki sýna honum eintóma frekju og þussalega meðferð. Ég hef líka lært að þekkja Grjótá í vorvexti, lært að sundríða hana og ferja. Til þess þurfti engan skólalærdóm, enga erlenda siðmenningarfyrirlestra. Í þessu læt ég engan sveifla mér aftur og fram, hversu stórlega sem hann lætur. Ég gengst ekki fyrir hörðum orðum og læt ekki eggja mig til að stofna öðrum í bersýnilega lífshættu. Ofurkapp og stóryrði eru ekki einhlít til að mennta okkur alþýðumennina, það þarf líka forsjá og mannvit til þess."
"Það var þó ræða! Og í fullri alvöru og þykkju töluð, virðist mér. En þó yður tækist liðmannlega að sundríða áðan, þá er ekki ástæða til að miklast af því og ætla að kenna mér hverjum tökum eigi að taka á fólkinu hérna á Íslandi, til þess að drífa það eitthvað áleiðis; ég fer eftir því sem mér sýnist best sjálfum; mér dettur ekki í hug að smjaðra og lofa alþýðuna, dorga mér stundarvinsældir með því; það þarf að reka hana áfram til að starfa, til að menntast og til að trúa. Ekkert er skaðlegra fyrir þjóðina en þessi efasemi og vantrú, sem hálfmenntaðir sjálfbirgingar og glamrarar leitast við að útbreiða, bara til þess að gera sig gilda og kjafta sig áfram."
"Nú fer Gráni yðar ekki öllu lengra í nótt, nema trú yðar geri kraftaverk, sem ég raunar efast um; það er þá næst að bíða Vigfúsar og lofa hestunum að grípa hérna niður á meðan. Nú er hlemmigata heim að Höfða og örskammt, ég þarf því ekki lengra og mér mundi ekki sæma að skattyrðast um trú og guðsótta við lærðan mann, sem er eflaust brennandi heitur kirkjutrúarmaður og laus við hræsni og allar efasemdir. En ég er nú samt sem áður ekki trúaður á að öll ritningin sé sönn og heilög bók. Þar eru þjóðsögur og goðsagnir, hindurvitni og hégiljur."
Í því bili kom Vigfús og var allþungur á svipinn.
"Andskotans klárinn er svo treiskur að hann fer ekki nema í hálfu skeiði og þið ríðið eins og fantar..." Vigfús fór af baki.
"Þér voruð ráðnir til að fylgja mér að Höfða, Þiðrandi, og þangað skuluð þér fara, nema ef yður sýnist að bregða loforði yðar. Gráni verður að vera hér eftir í bráðina," sagði sýslumaður og gekk að honum.
"Það var ekki meining mín að bregðast undan fylgdinni og ef hún verður ekki talin gild þó ég fari ekki lengra, þá skal það ekki standa í vegi. Heim að Höfða skal ég fylgja ykkur."
Sýslumaður og Þiðrandi ráku hestana í einum spretti heim í hlaðið á Höfða, án þess að tala eitt orð saman.
"Nú er ég búinn að fylgja yður heim að Höfða og fer ekki lengra, ég ætla vestur að Árbakka aftur í nótt."
"Þér vekið hérna upp fyrst og svo borga ég yður fylgdina."
"Ég er búinn að gera eins og ég lofaði. Vigfús getur vakið upp þegar hann kemur."
"Allt ber að sama brunni fyrir yður, herra Þiðrandi, en ekki þar fyrir, þér megið gjarnan fara fjandans til fyrir mér. Hérna eru tíu krónur eins og þér settuð upp fyrir fylgdina og aðrar tíu krónur fyrir að sækja ferjuna."
Þiðrandi tók peningana, stakk ellefu krónum í peningapyngjuna en rétti sýslumanni aftur níu krónur.
"Ég tek bara það umsamda, og svo eina krónu til að borga ferjuna á Bakka, því ég veit yður sýnist það ekki of mikið. Fyrir að sækja ferjuna tek ég ekkert."
"Jú það gerið þér, ég skyldi auk heldur borga það betur."
"Ég sel það ekki."
"Og ég tek ekki við krónunum aftur, það megið þér reiða yður á."
"Svo, það er nú líklega dagsatt, að þér gerið það ekki, en þá er líka næst, að hvor geri eins og honum sýnist!" Þiðrandi tók eina krónu úr pyngjunni en kastaði tíu krónunum á hlaðið.
Sýslumaður fölnaði við. Þiðrandi kvaddi án þess að rétta honum höndina; tók hestinn og sté á bak. Sneri við í varpanum og horfði beint framan í sýslumann:
"Ef ég nú yrði bráðdauður í nótt, herra sýslumaður; þá kemur yður vel að haldi, að þér eruð guðhræddur maður. Þér getið líklega, í hjarta yðar, vitað með vissu, hvort ég fer til fjandans eða ekki. Góða nótt!"
Sýslumaður stóð við þilið og hristi svipuskaftið. Þiðrandi beið ofurlítið. Þeir horfðust í augu. Það kom glettubros á andlit Þiðranda; svo sneri hann hestinum við og reið hægt vestur túngötuna.