Jafnvel þó að menn séu almennt sannfærðir um, að menn munu geta komist fyrir orsakir og uppruna allra hluta með vísindalegum rannsóknum, þá hefur það hvergi nærri tekist enn við marga hluti. Ekki aðeins er uppruni heimsins oss hulinn, heldur eru margir hlutir í heiminum, sem vér höfum enga von um, að muni nokkurn tíma verða skýrðir. Um ýmsa hluti eru menn ávallt í efa, þar sem sumir neita, en aðrir játa, en þessi ágreiningur mun vara meðan heimurinn stendur. Á meðal þessara hluta er trúin á fylgjur og drauga, eða anda, sem sumir neita þverlega að séu til, en aðrir, og það merkir og sannorðir menn, standa fast á, að þeir bæði hafi séð og reynt. Sögur um fylgjur og þess konar eru alkunnar um land, og þykjast menn nú almennt af því að fæstir trúi þeim, en þó koma hvað eftir annað upp ýmsar undarlegar sögur, sem ekki er gott að vefengja, þótt þær ekki verði skýrðar eftir almennum náttúrulögum. Þessar sögur eru svo alkunnar, að ekki þarf að rita þær hér, en meiri þörf er á að færa aðra sögu í stílinn, sem ekki einungis hefur sér það til gildis, að hún er sönn, heldur sýnir hún einnig, að heimur andanna tekur framförum í sama hlutfalli og því, er vér sjáum í hinum líkamlega heimi.Margir munu hafa heyrt þess getið, að Írafells-Móri hafði áður um langa hríð amað mörgum mönnum og gert af sér ýmislegt illt, enda hafa menn það fyrir satt, að hann muni hafa verið valdur að þeim óhöppum, sem honum voru kennd. Var það ætíð til einhvers ills, er Móri kom fram, og fannst það á, að hann tók engan þátt í menntuninni eða þeim framförum, sem hvarvetna eru í lífinu, þótt víða séu lítil og ómerkileg. En fyrir skömmu urðu þeir atburðir, er ljóslega sýndu, að draugar og fylgjur eiga einnig framförum að fagna, eins og mennirnir, og koma ekki ávallt fram til ills. Þar eð viðkomendur hafa óskað að vera ónefnd, þá er nöfnum þeirra sleppt, en sá atburður, sem hér er ritaður, hefur farið fram svo nýlega, að ekki er vert að geta um neitt ártal.
Á Akureyri bjó ekkjufrú nokkur ásamt með dóttur sinni frumvaxta; hafði maðurinn verið kaupmaður og var andaður fyrir nokkrum árum. Ekkjufrúin var miðaldra kvenmaður, en einkar fríð og fjörug, en um nokkurn tíma hafði hún þjáðst af hjartveiki sem kölluð er, og kalla sumir ímyndunarveiki; hafði læknirinn á Akureyri lengi verið að káka við frúna, en með því hann var alltaf í vindinum í hvert sinn sem eitthvað var að, þá dugði þetta ekkert, og greip hann þá til þess óbrigðula "úníversal"-meðals, að koma frúnni af sér og telja henni trú um, að hún þyrfti endilega að ferðast og komast í annað loft og þar fram eftir götunum.
Þá hafði og nýlega frést út um landið, að baðhús hefði verið stofnað í Reykjavík, og var ekki dregið af lýsingunum heldur en vant er; það átti að vera engu síður en hin rómversku böð, sem Caracalla keisari lét byggja, alsett sölum og allskonar tilfæringum, steypuböð og sprænuböð og marmaralaugar með fáguðum börmum af skíru gulli, bæði heit og köld böð, og alstrípaðir baðsveinar helltu ilmandi lífsins vatni yfir höfuðið á laugafólkinu, svo það reis aftur upp, ekki einungis þvegið og hreinsað af öllum óhreinindum líkamans, heldur einnig læknað af öllum meinum og sjúkdómum, styrkt og endurlífgað til nýrra þrekvirkja í lífinu og flekklaus fyrirmynd ókominna alda og ófæddrar kynslóðar. Þetta hafði ekkjufrúin heyrt, og þótti henni mikið, sem von var, og hugði hún sér nú bót meina sinna, ef hún færi suður til Reykjavíkur og notaði þetta heilsusamlega bað. Frúin var efnuð vel og átti góða hesta, og er nú ekki að orðlengja, að hún heldur til Reykjavíkur ásamt með dóttur sinni og fylgdarmanni. Þetta var nokkuð seint um haust, og var nótt orðin dimm, en einmuna veðurblíða yfir allt land.
Fylgdarmaðurinn hafði dvalið í Reykjavík nokkur ár og var því gagnkunnugur höfuðstaðnum; gat hann því sagt þeim mæðgum frá mörgu, sem þeim þótti nýstárlegt að heyra, því að þær höfðu aldrei komið til Reykjavíkur. Hann sagði þeim frá, hvernig bæjarstjórnin hefði látið gera upp Vesturgötu, ætlaði að gera hana lárétta eins og sjávarflötinn og rennslétta eins og billiarðborð, væri gatan nú orðin svo há, að hún næði upp að húsagluggunum, en fólkið sýndist ganga á himinboganum, svo væri hlaðið fyrir kjallaragluggana hjá Geir og Birni Kristjánssyni og þeim gert ómögulegt að nota kjallarana til annars en kolageymslu; virtist fylgdarmanninum það líklegt, að bæjarstjórnin hefði gruflað einhversstaðar upp, að sá ósiður hefði tíðkast á miðöldunum að múra nunnur lifandi inn í klaustraveggina, og stundum lifandi smábörn, þegar eitthvert hús var byggt svo sem fórn, eða þá bæjarstjórnin hefði lesið Laxdælu og orðið hrifin af því, að Kjartan Ólafsson dreitti Laugamenn inni, það því fremur sem húseigendunum var gert ómögulegt að komast út eða inn nema með því að leggja brýr inn að dyrunum frá þessum himinboga, sem bæjarstjórnin hafði þannig látið gera á götunni.
Við þessa sögu risu hárin á höfði frúarinnar og frökenarinnar, og mundu þær hafa orðið gráhærðar á svipstundu, ef þær ekki hefðu huggast af tilhlökkuninni um að komast í dansleiki við dynjandi hljóðfæraslátt og harmóníkugarg. Þá sagði fylgdarmaðurinn þeim og frá, að bæjarstjórnin bæri nákvæma umhyggju fyrir, að menn ekki villtust í höfuðstaðnum, því Vesturgötu-himinboginn lægi allur í hlykkjum, þegar ofaneftir kæmi, svo að ef menn ætluðu að ganga beint, þá væri ekkert annað en hrapa ofan af götunni og niður í moldina þar fyrir neðan, en annars væri göturnar þráðbeinar og mætti ekki skeika um hálfan þumlung, eins og sæist á húsi Benedikts sótara, sem bæjarstjórnin neyddi til að færa úr stað, af því að munaði einum eða tveimur þumlungum, svo öll fegurð höfuðborgarinnar var í veði. Þá réði hann þeim einnig til að skoða garðshornið hjá húsi Geirs kennara, sem bæjarstjórnin hefði skapað með því að neita um mjóa ræmu annarsstaðar, og mundi bæjarstjórnin þar hafa haft í huganum vísu Eggerts Ólafssonar: "Í horni er best að búa, birtunni undan snúa, það má hliðum hlúa, og hlaunum bæta lúa, þaðan gestir grúa, geta litið frúa, í horn er fínt að flúa, og fám í ljósi trúa" - bætti hann því við, að bæjarstjórnin mundi hafa gert þetta til tilbreytingar, en ekki til þess að menn skyldu halda, að hún væri sjálf hyrnd.
Frúin var guðhrædd mjög og á eftir tímanum að því leyti, að hún trúði á guð, án þess að rýna frekar eftir, og spurði hún fylgdarmanninn að, hvernig messum og þesskonar væri varið, en fylgdarmaðurinn kvaðst lítið vita um það, hann væri ekki kirkjurækinn, en hann hefði samt séð kirkjuna að utan, hún væri öll skjöldótt eins og belja og eins og kameleón eða smokkfiskur að því leyti, að hún skipti litum við hverja skúr, þar væri og ekkert orgel, en söfnuðurinn hjálpaði sér við harmóníum eins og títt væri í sveitakirkjum; sagði frúin þá, að það mundi vera léleg dómkirkja. Margt fleira sagði fylgdarmaðurinn frúnni og stytti henni þannig stundirnar en annars gekk ferðin vel, og segir nú ekki af neinu fyrr en þau fóru ofan Mosfellsheiði.
Þá var orðið dimmt, og varð fylgdarmanninum það þá til umtalsefnis, að hann fór að tala um fylgjur og drauga. Neitaði frúin harðlega öllu þesskonar og kvað ekkert hæft í slíkum sögum. Fylgdarmaðurinn leitaðist við að þæfa í móinn, en frúin stóð á móti, gat hvorugt samt fært neinar verulegar sannanir á sitt mál. Þannig héldu þau áfram hægt og hægt í náttmyrkrinu og héldu sér vakandi með þessu karpi, sem ekki leiddi til neins, en frökenin sat dottandi á hestinum.
Fylgdarmaðurinn hafði kúffortahest í taumi, og vildi þá svo til, að hesturinn fór að verða órólegur og vildi ekki áfram. Allt í einu hentust bæði kúffortin upp af klökkunum og hesturinn stökk upp í loftið svo ekkert varð við hann ráðið. Má nærri geta, hvort þau ekki hafi orðið hrædd, ekki einungis mæðgurnar, heldur einnig fylgdarmaðurinn, sem þó var alvanur ferðamaður og hafði oft farið um myrkan veg. Á einhvern óskiljanlegan hátt höfðu mæðgurnar komist úr söðlunum - þær vissu ekki hvernig - og stóðu nú á jörðinni, fylgdarmaðurinn hafði líka farið af baki. "Þarna getið þér nú séð, hvurt ég segi ekki satt," sagði fylgdarmaðurinn, "hér mun Írafells-Móri vera á ferð, því hann hefur lengi leikið hér um slóðir, þó nú hafi ekki borið á honum lengi, en honum mun hafa leiðst að gera engar brellur, því þeim hefur hann lengst af vanur verið." Síðan gekk hann að hestum þeirra mæðgna, og höfðu allar gjarðirnar losnað, eins og þeim hefði verið sprett af. Þeim sýndist eitthvað hreyfa sig í myrkrinu, einhverjir svartir skuggar, en gátu þó eiginlega ekkert greint fyrir dimmunni, loftið var svo þykkt, og hvergi grillti í skímu nema dálitla rönd í vestrinu. Fylgdarmaðurinn fór að gyrða á og reyna til að laga á hestunum, en í því fær hann það slag yfir hrygginn, að hann veltur upp í loft og lá þar afvelta milli tveggja þúfna. Frökenin lá útaf, annaðhvort höggdofa eða liðin í ómegin, en frúin hafði sest á stein og kom engu hljóði upp.
Þá heyrðist hófaglamur, og ríður þar að þeim maður nokkur; ekki sást fyrir náttmyrkrinu, hvernig hann var í hátt, en hann sýndist stórvaxinn og hatturinn einnig ákaflega stór. Hann reið til frúarinnar og sagði hún skyldi vera óhrædd, slíkt vildi oft til á ferðalögum; síðan snerti hann frökenina einhvern veginn, svo hún vaknaði við, en ekki skipti hann sér af fylgdarmanninum. Bað hann þær að koma með sér og leiddi þær lítinn spöl, og var sem allt breyttist: það var eins og myrkurhulu létti af landinu og þó hálf dimmt. Þær mæðgur voru svo sem agndofa og vissu varla af sér: þar var fagur gufuvagn, og lét komumaður þær stíga upp í hann en um leið sáu þær eins og spegilfagrar silfurræmur liggja víðs vegar út um landið, svo langt sem augað eygði - þetta voru járnbrautir til þess að flytja fólkið á með flughraða fram og aftur. "Þið skuluð ekki óttast," mælti maðurinn, "hér brúkum við ekki annað en járnbrautir og raflýsingu, svo enginn þarf að kvarta yfir því, að ekki verði komist áfram og ekki sjáist til, en nú þurfið þið hressingar við og hvíldar, nú skuluð þið koma heim með mér og vera gestir mínir."
Síðan þaut vagninn áfram eins og fuglinn fljúgandi, og fannst þeim hann þjóta þannig alllengi; ljós var í vagninum, og gátu þær nú séð, hvernig maðurinn leit út: hann var stór með svart skegg niður á bringu og glóðu augu hans sem í ketti, en annars var hann myndarlegur að sjá. Hann sat í einu horni á vagninum, en þær nokkuð frá honum. "Skyldi þetta vera Írafells-Móri," hvíslaði frökenin að móður sinni. "Þegi þú," sagði frúin, "hvernig getur þér dottið það í hug? Það er auðséð, að þetta er einhver höfðingi, og megum við vera fegnar, að hann hjálpar okkur í þessum vandræðum. Ég er viss um, að enginn Írafells-Móri er til."
Eftir það sveif yfir þær svefnhöfgi, og vissu þær ekki af sér fyrr en hátt klukkuhljóð barst að eyrum þeirra, vagninn staðnæmdist við stórt járnhlið, vængjahurðirnar flugu upp, og þau óku inn í stóran forgarð og að húsi nokkru, sem allt var uppljómað og ljósum prýtt. Það fundu þær mæðgur, að það mundi vera húsbóndinn sjálfur, sem hefði fundið þær í myrkrinu og nú væri leiðtogi þeirra. Var þeim nú fylgt inn í dýrðlegan sal, sem var fegri en frá megi segja; þar var fullt af skrautklæddu fólki, sem allt var að skemmta sér á ýmsan hátt; sumt sat við smáborð, sem þakin voru ilmsætum kryddskálum og marglitum svaladrykkjum, en á hinu spegilfagra og svignandi gólfi dönsuðu hvítklæddar meyjar og sveinar eins og englar líða í skýjum himins, og var allt svo létt að sjá, eins og það væri uppblásið af "lyftidufti" úr Kvennafræðaranum.
Þá gekk húsbóndinn til mæðgnanna og sagði við þær: "Ég sé það á ykkur, að ykkur furðar á því sem þið sjáið hér, og haldið hér sé einhver tyllidagur, en því er ekki svo varið, því þannig lifum vér hér alla daga" - í þessu glumdi hljóðfærasláttur og lúðurhljómur um allan salinn, svo húsbóndinn varð að þagna. En er það hætti, þá sagði frúin: "Náðugi herra, við vitum sannarlega ekki hvaðan á okkur stendur veðrið, eða hvað við eigum að hugsa um þetta, því að við bjuggumst alls ekki við að hitta slíkt fyrir á þessum stað; þér eruð sjálfsagt einhver barún eða búsettur fastakaupmaður, sem gleður fósturjörðu vora með allri þessari dýrð." "Nei, því fer fjarri," svaraði húsbóndinn, "enginn fastakaupmaður mun leggja hér járnbrautir eða uppljóma landið með raflýsingu, en nú sé ég, að þjónarnir benda mér á, að allt sé tilbúið til að setjast til borðs; en leyfið mér fyrst að láta yður vita saman við hverja þér eruð, svo þér náið að þekkja fólkið, þetta er siður hvarvetna í útlöndum, þó að hér í landi tíðkist enn sá dónaskapur að segja aldrei til slíkra hluta, því hér þekkist engin "præsentation".
Síðan gekk hann með þeim fyrir alla og sýndi þeim landshöfðingjann, biskupinn, amtmanninn, háyfirdómarann og yfirdómarana, bæjarfógetann, landlæknirinn, forstöðumann prestaskólans og hans kennara, rektorinn og kennarana við latínuskólann; ritstjóra blaðanna, stórkaupmenn og smákaupmenn, konsúla og alþingismenn og marga aðra og svo frúr og dætur þessara höfðingja; fannst þeim mæðgum ekkert smámenni hér saman komið, en það var allt mjög álitlegt og vingjarnlegt við þær og talaði við þær eins og kunningjakonur sínar, enda voru þær vel menntaðar og kunnu vel að vera með höfðingjum.
Þá kom einhver ungur herra til húsbóndans og beiddi hann í nafni unga fólksins, að það mætti dansa lengur áður en gengið væri til borðs, og leyfði hann það þegar, sagði samt um leið hálfkímilega, að seint mundi þessu unga fólki verða ofboðið; hófst nú aftur hljóðfæraslátturinn og dansinn, og stóð svo um hríð.
Landlæknirinn hafði sest hjá frúnni, og fór hún að segja honum frá hvers vegna hún hefði tekist þessa ferð á hendur; innti hún greinilega frá kvilla sínum og kvaðst hafa verið hjartveik áður, þótt hún nú sem stæði ekki fyndi til þess; mundi þessi skemmtunardýrð kannske eyða tilfinningunni um stund, en líklega ekki til langframa. Landlæknirinn féllst algerlega á þetta, en sagði hún hlyti umtalslaust að láta taka sér blóð. Frúin varð hrædd og sagðist með engu móti þora það, það hefði aldrei verið gert við sig. "Það hjálpar ekki," sagði landlæknirinn, "meira að segja verður að gera þetta nú þegar í stað, því undir eins og þér komið héðan, þá mun hin snöggva breyting valda því, að þér fáið annaðhvort hæmopericardium, sem við köllum, eða þá öll circulationin ruglast í yður og allur fluxus sanguinis snýst upp í ólæknandi pyæmi; hér er ekkert annað að gera fyrir yður en að fara úr sokkunum og láta slá yður æð, ég skal gæta þess, að engin stór slagæð skal laskast" - síðan kallaði hann á kennarana við læknaskólann og nokkra stúdenta, sem þar voru, og bað þá að vera við. Varð frúin nú að fara úr sokkunum, þó henni væri ekki um það, og hjálpuðu læknarnir til að draga af henni sokkana, en samt gekk það ekki mjög greitt, því frúna kitlaði ógurlega í iljunum, og kom það mest fram af því, að einum stúdentinum varð á að snerta við þar, en það leiddi það af sér, að frúin valt ofan af stólnum og á gólfið; varð af þessu skruðningur mikill, og þustu menn til hvaðanæva úr salnum til að sjá hvað á gengi. Læknarnir höluðu frúna nú aftur upp á stólinn, og gekk það þó ekki alveg slysalaust, því þá rifnaði silkikjóllinn frúarinnar eitthvað, en þó ekki til muna. Þá kom þjónustustúlka með vatn og handklæði, en landlæknirinn tók upp stóran bíld og sló frúnni æð þarna framan í öllum og lét blæða svo sem einn pela; síðan var bundið um, og varð frúnni ekki meint við þetta, heldur en ekkert hefði við borið, fannst henni nú léttar um hjartað en áður. Ekki var að sjá, að neinum brygði við eða neinn furðaði sig á þessu, þeirra sem í þessari veislu voru, það var eins og öllum þætti þetta sjálfsagt og eitthvað hversdagslegt, og það þó að frúin fletti upp á mitt læri, eins og hún varð að gera af medicinskum eða pathologiskum ástæðum.
Síðan var gengið til borðs, og röðuðu menn sér niður þannig, að karlmaður sat hjá kvenmanni, eins og siður er til. Húsbóndinn einn var kvenmannslaus og fyrir miðju borði, þar sem hann gat séð yfir allt fólkið. Frúin hlaut sæti hjá einhverjum kaupmanni ekki alllangt frá húsbóndanum. Tóku menn nú til matar og drykkjar; þar voru allskonar kræsingar: steiktir "snúðar", "buff", "karbónaði", "frikase", "heilagfiskisbuff", "grautarsnúðar", "franskbrauð", "kúrennukökur" og "pönnukökur", og allt gagnþeytt af "lyftidufti" eftir reglum "Kvennafræðarans" og auðsjáanlega samansoðið af útförnum eldabuskum; hófust brátt fjörugar samræður um ýms málefni, bæði þau er landið allt snerti og svo um einstaka menn. Urðu allmiklar kappræður um sum efni og stundum engu minni rimma en á alþingi út afjárnbrautunum. Eftir nokkra stund sljákkaði í þeim aftur, og þá fór frúin að hjala við kaupmanninn um ferðina, hversu allt hefði gengið vel, þar til slysið hefði viljað til þarna á heiðinni. "Það hefur sjálfsagt verið Írafells-Móri," sagði kaupmaðurinn. "Því trúi ég ekki," sagði frúin, "ég hef enga trú á forynjum eða draugum." "Þér vitið þó, að margar sögur eru til, sem sanna hið gagnstæða," sagði einhver af gestunum. "Það er hið sama," sagði frúin, og í því tók önnur kona fram í og mælti: "Ég get samt vel trúað því, ég hef alltaf heyrt, að Móri væri hrekkjóttur, þó hann sé ekki tilkomumikill, því hann er ekki annað en dálítill strákhnokki og illa klæddur, en hann hefur orðið mörgum að fótakefli áður fyrr meir, og hefur þetta slys líklega verið fylgdarmanninum að kenna, á einhvern hátt." "Já," sagði frúin, "það getur verið; en hafi þetta nokkurn tíma verið til, þá er það ekki lengur til nú, allt þesskonar heyrir eldri tímum til; þesskonar verur þola ekki glaum og straumiðu framfaranna, þær verða á eftir tímanum og deyja út af í strauminum."
Húsbóndinn horfði alvarlega á frúna á meðan hún var að tala, en þegar hún þagnaði, þá sagði hann: "Það er samt ekki vert að fortaka neitt, hver getur sannað að nokkuð sé til, sem alveg hverfi eða deyi, þó að mennirnir ekki geti fylgt því? Verður ekki margt fyrir vorum eigin augum, sem enginn getur skilið? Hver getur sannað, að ekkert andlegt líf sé til, eða andlegar verur, sem séu öðrum lögum háðar en þeim, sem vér þekkjum? Eru þess ekki mörg dæmi, að úr lítilmótlegum draug hafi orðið mikill maður? Geta engar framfarir hugsast í andanna heimi?" Við þetta þögnuðu allir og litu á húsbóndann, þangað til einn af gestunum sagði, að hann hefði heyrt það seinast sagt frá Móra, að hann hefði slegist upp á einn merkisbónda þar í sveitinni og farið uppá hann á hverri nóttu í svefni og sagt hann skyldi aldrei láta hann í friði á meðan hann byggi þar; hefði bóndinn þá orðið leiður á þessari martröð og flutt sig og farið að gefa sig við járnbrautum og járnbrautarsálmum, sem ætti að taka upp í nýju sálmabókina til að afstýra járnbrautarslysum.
Þannig var nú talað fram og aftur um ýmsa hluti, þangað til allir voru orðnir svo saddir af steikunum og kræsingunum, að þeim þóknaðist ekki meira, og var þá staðið upp frá borðum, og hvíldu menn sig á mjúkum legubekkjum og í fjaðurmögnuðum hægindastólum við indælan söng og hljóðfæraslátt; var frúin alltaf að impra á því við sessunauta sína, hver þessi húsbóndi mundi vera, sem ætti alla þessa dýrð og hefði slíkt boð inni; þótti henni sem annað væri óhugsandi en þetta væri einhver búsettur fastakaupmaður, því æðri tign og gagnlegri föðurlandinu gat hún ekki ímyndað sér.
Svo er ekki þar um að orðlengja, að loksins var gengið til svefns, en landlæknirinn réði frúnni fastlega til að komast nú í ró og kyrrð og sofna vel, svo áhrif glaumsins og gleðinnar ekki kæmu henni aftur í óreglu. En frúin kvaðst litla von um það hafa, hún hefði ætíð verið vandgæf með svefn, og sagðist hún ekki vonast til að sofna fyrr en með morgninum. Læknirinn sagði það hjálpaði alls ekki, hún mætti til að sofna, var þeim mæðgum síðan fylgt til sængur og hrært saman morfín og klóralsaft í flöjelsgraut og þetta gefið þeim inn, og sofnuðu þær þegar.
Um morguninn kom þjónustustúlka inn til þeirra með kaffi og kökur, en síðan klæddust þær og hittu húsbóndann í forgarðinum; ekki sáu þær neitt til gestanna né nein merki til, að nokkurt samsæti hefði verið. Fylgdi húsbóndinn þeim út fyrir járnhliðið og kvaddi þær, en er þær litu við, þá var allt horfið; hestarnir stóðu þar og fylgdarmaðurinn lá á milli þúfna og hraut fast.
Þær mæðgur voru svo örvinglaðar og frá sér numdar, að þær höfðu ekki eðli til að hræðast, það var eins og þær vöknuðu úr einhverjum undarlegum draumi, en þær vissu vel, að það var enginn draumur, þær höfðu verið glaðvakandi og verið saman við landshöfðingjann og biskupinn og alla höfðingja og þeirra frúr, og þetta veitti þeim ekki litla innri ánægju. Þær fóru nú að vekja fylgdarmanninn, og tókst það ekki nema með því að kippa í axlirnar á honum og hrista hann allan og skekja, og urðu þær svo þreyttar af þessum átökum, að þær óskuðu sér aftur í hægindastólana í veislusalnum. Loksins tókst þeim að vekja fylgdarmanninn, en hann vaknaði eins og úr roti og var ákaflega úrillur, og lést fyrst ekki þekkja þær. Samt sem áður reis hann upp og tygjaði hestana til, og var nú haldið af stað til Reykjavíkur, og segir ekki af þeirri ferð. Frúin átti nokkra kunningja þar í staðnum, sem þekktu hana frá Akureyri, og hélt hún sér til þeirra.
Þegar til Reykjavíkur var komið, þá stóð einmitt svo á, að verið var að halda samsæti fyrir Heimdalli; hafði Þjóðólfur gengist fyrir, að það yrði gert í þakklætisskyni fyrir dugnað á móti botnvörpuþjösnunum, en samt þótti Þjóðólfi þetta lítil og ómerkileg hjálp, en því miður var hann ekki búinn að búa alveg út þann herskipaflota, sem hann ætlaði að senda fiskiveiðunum til varnar, og hlaut því að gera sér gott af Heimdalli, þótt lítill væri, en hann þakkaði það því betur í orði. Var frúnni og dóttur hennar þegar boðið í þessa veislu, sem haldin var á Hótel Reykjavík. Þar fann frúin einmitt sama fólkið, sem hafði kynnst við hana í hinni veislunni um nóttina, og þótti henni gaman að komast svo skjótt aftur í vinahóp. Hún gekk til landshöfðingjans og kvaddi hann kunnuglega og sagði það gleddi sig að sjá hann aftur svo skjótt, en landshöfðinginn brást ókunnuglega við og mundi ekki til, að þau hefðu nokkurn tíma áður sést. Frúin hélt þetta væri misminni og sneri sér að biskupinum og sagði: "Nú, við sjáumst þá hér aftur! Hvernig líður yður síðan við sáumst seinast?" Biskupinn vissi ekki, hverju hann átti að svara, en eyddi því einhvernveginn, og þannig fór fyrir frúnni hvað eftir annað, enginn kannaðist við, að hann hefði séð hana nokkurn tíma. Hún lét þetta samt ekki fá á sig, en hugsaði, að fólkið sinnti sér ekki vegna veisluglaumsins. Loksins fann hún landlæknirinn og þakkaði honum innilega fyrir lækninguna. "Ég veit ekki til, að ég hafi nokkurn tíma séð yður," sagði landlæknirinn. "Hvað er þetta," sagði frúin, "munið þér ekki, að þér hafið tekið mér blóð og látið mig fara úr sokkunum framan í öllu þessu fólki, sem hér er nú?" Læknirinn hristi höfuðið og þagði; hann hélt, að konan væri ekki með öllum mjalla. En svo leið þetta hjá, og fóru þau að tala um annað, og var þá ekki að sjá, að neitt væri að frúnni. Hún sagði frá því, sem henni hafði viljað til, og efaðist ekki um, að það hefði verulega átt sér stað, og ekki var til neins að leitast við að sannfæra hana, en menn stungu saman höfðum og hvísluðu í laumi sín á milli, að henni hefðu verið gerðar sjónhverfingar, og sá, sem væri valdur að þeim, gæti enginn annar verið en Írafells-Móri.