Sé nokkur tími lífs manns skemmtilegur, þá eru það þau árin, er maður með ungum og fjörugum anda og líkama helgar sig náminu og mettar sig á menntunarbrunninum. Það eru þá svo margskonar myndir, er breiða sig út fyrir hugskotsaugum vorum, að ég ekki tali um allt það, sem skemmtir hinum líkamlegu. En -- það fá nú fleiri að reyna en við stúdentarnir.Stúdentalífið þótti mér hinn indælasti kafli lífs míns. Ég stundaði vísindin innan lands og utan í tíu ár og minntist þess tíma ætíð með ánægju. Allir lofa æskuna, þó að enginn vilji aftur verða að barni, en ég lofa einkum unglingsárin, þegar hin ytri og innri menntun er að skapa úr fjörmiklum, og stundum ódælum börnum lands og lýða stoða og sóma. Þá er hvíldin og starfinn á víxl, hvorttveggja svo töfrandi. Ég segi fyrir mig, -- ég hlakkaði jafnmikið til að hverfa í skólann að heiman og úr honum aftur heim. Við piltar þóttumst engir smáherrar, er við komum aftur í sveitina, og ég ögraði oft fornkunningjum mínum með frábærri kunnáttu minni. Ég nefndi hvern hlut á latínu, en satt að segja var það gæfa mín, að enginn þeirra skildi neitt í því máli, því að ég kunni varla að hneigja sögn rétt, þegar ég fór að spjalla latínu. Eins og líkaminn endurhressist við fæðið, þannig er virðingin fóður andans, og maður fer smámsaman að halda sig meiri og meiri mann, eftir því sem hann kemst einu og einu stigi ofar á palli viskunnar, án þess að gæta þess, hve ótölulegur stigagrúi er ófarinn, og hið litla sem unnið er, er sem ekkert að telja í samanburði við það, sem eftir er. Og sundli mann af að líta ofan af nokkrum stigum, hvað mundi þá ofan af þúsund þúsunda! Hæð viskunnar er í því lík eilífðinni, að hún er endalaus.
En ég er nú horfinn frá efninu. Vorið 1828 byrjaði ég heimferðina með sex öðrum skólabræðrum mínum. Sú ferð var alveg ævintýralaus að öðru leyti en því, að við sungum og hlógum nær alla leiðina, og á hverjum bæ sáum við einhverja blómarós, er við spjölluðum við og fengum að skilnaði koss hjá. Loksins náði ég heimili mínu fyrstur af öllum, og þó að ferðin væri skemmtileg, varð ég því þó feginn, að koma heim; enda var ekki lengur að bíða en til haustsins eftir nýju ferðalagi. En svo að lesarinn viti hvað ég heiti, ef hann aftur segir einhverjum sögu mína, verð ég að segja honum það og sömuleiðis, hvar ég átti heima.
Ég heiti Jósef og er Hermannsson. Foreldrar mínir dóu, er ég var á unga aldri, og man ég lítið eftir þeim; en þá tók einn frændi minn mig og ól mig upp. Hann bjó að Gili og það var þangað, er ég þeysti heim þetta vor með skólabræðrum mínum. Öllum á heimilinu leið vel. Fósturforeldrar mínir voru við góða heilsu, þó að þau væru nokkuð hnigin á efra aldur, og fóstursystkin mín léku við hvern sinn fingur af gleði yfir heimkomu minni. Mér þótti líka gaman að sjá þau öll, en þó þótti mér í raun og veru vænst um Kristínu. Hún var jafnaldra mín, en stundum setti hún þó óyfirstígandi þröskuld fyrir hégómadýrð mína með því að leiðrétta mig bæði í latínu og öðrum vísindagreinum, sem ég þóttist vera fullfær í. En svo stóð á, að þegar ég var í heimaskóla, nam hún allt, sem mér var kennt, eingöngu af því að hlusta á, og eftir að ég var farinn í skóla, var tveim bræðrum hennar kennt undir skóla, svo að hún var í mörgum greinum jafnvel komin fram fyrir mig, þegar ég kom heim. Óneitanlega kældi þetta að öðru hvoru allar blíðari tilfinningar mínar fyrir henni á þeim dögum, en síðan hef ég litið á málið með óvilhallari augum. Ég var heima um sumarið og svona gekk ár eftir ár, þar til er ég eftir sex ár útskrifaðist með allgóðum vitnisburði. Ég hlakkaði þá venju fremur til þess að koma heim, því að foreldrar mínir létu mér eftir svo mikla peninga, að ég gat heimsótt Kaupmannahafnarháskóla um haustið, en um sumarið ætlaði ég að hvíla mig heima hjá fósturforeldrum mínum, sem ég og gjörði. Kristín var þá orðin stór og efnileg stúlka, og þegar ég kom heim, var hún feimin við mig, því að ég hafði tekið á mig mikinn mannasvip tvö síðustu árin, er ég ekki hafði komið heim. Mér þóttu umskiptin góð, því að satt að segja var ekkert, sem mér kom verr en að þurfa að vera sífellt óttasleginn fyrir leiðréttingum af kvenmanni. En var þá Kristín frek og framhleypin? eða með öðrum orðum: ómenntuð? Ég spurði sjálfan mig oft að því. Nei, engan veginn! Hún var gáfuð, kurteis og vel innrætt stúlka. Síðar hef ég getað fundið eina eða tvær eða þrjár ástæður fyrir breytni hennar við mig. Sú gat verið ástæðan, að í æsku lærðum við saman spurningakver okkar, þar eð við vorum jafngömul, og sömuleiðis höfðum við hinn sama kennara í skrift og reikningi, því þó að allfáum stúlkum væri um þær mundir kennt slíkt, var hún þó að vilja móður sinnar látin nema það, -- og kepptumst við þá jafnan hvort við annað og þóttist það hinu meira, sem hinu gat sagt til eða leiðrétt það, og hefir þessi vani ef til vill verið henni svo rótgróinn orðinn, að hún ekki mat svo stöðu mína sem tilvonanda embættismanns svo mikils, sem mér þótti hæfa. Önnur ástæðan er sú, og hún er líklega réttari, að henni hefir þótt ég vera nokkuð framhleypinn og raupsamur og hefur viljað venja mig af því. Enn fremur gat það orsakast af fordómum, er lágu á menntun kvenna -- nei, ekki á menntun kvenna, er ávallt hefur verið og er og verður konunnar prýði --, heldur af fordómum, sem lágu á því, að konan væri sér menntunar sinnar og hæfilegleika meðvitandi, þar eð hún á og skal vera manninum undirgefin og má því ekki hafa háar hugsanir um sjálfa sig. Það getur því verið, að þar eð Kristín vissi, að hún hafði svo að segja stolna fjársjóði undir höndum, þar sem lærdómurinn var, þá hafi hún svo sem forherst, og í stað þess, að fela hana undir kurteisisskýlunni, hafi hún reynt að bera hana á borð sem oftast, að minnsta kosti fyrir mig. En svo sem sagt hefur verið, ég þóttist í þá daga enginn skýjaglópur vera og var engan veginn kominn upp á leiðréttingar hennar og tilsögn. Mér brá því þægilega, að sleppa hjá þessu, þegar ég kom heim sem útlærður stúdent.
Við Kristín áttum margt saman að sælda um sumarið og féll vel á með okkur, því að hefði hún ekki svo oft áður sært sómatilfinningu mína og dramb mitt, þá hefði engin stúlka þannig sem hún haft vald yfir hjarta mínu. Síðara hlut sumarsins gaf ég tilfinningum mínum svo lausan taum, að ég festi mér hana fyrir konu og vorum við í sex vikur mjög hamingjusöm í tilhugalífinu. Að góðum og gömlum heldri manna sið gaf ég henni hring og ekkert ský huldi hamingjustjörnu okkar nema hin fyrirhugaða Kaupmannahafnar-ferð mín, sem ekki dugði að fresta. Allan þennan tíma mátti ég hneigja og beygja latínu mína eins og ég vildi, Kristín leiðrétti mig aldrei, enda ætla ég, að ég hafi ekki þá verið orðinn svo mikill bögubósi. Í villu minni hugði ég þetta góðan undanboða hlýðni þeirrar og auðsveipni, er konan er manninum um skyld, og bar alls engan kvíðboða fyrir ókomna tímanum.
Um þessar mundir hélt nábúi okkar virðulega brúðkaupsveislu. Allir heldri menn sóknarinnar voru boðnir og þar á meðal fósturforeldrar mínir og Kristín, því að þótt þau væru í bændastétt, nutu þau almennrar virðingar. Þá var ég líka sjálfsagður, þó að ég hefði eigi notið annarra að. Fóstbræður mínir, sem voru byrjaðir á skólanámi, voru ekki heima þetta haust, og fóstra mín var lasin, svo að þau hjónin fóru ekki, og ekki fóru nema við Kristín. Ég var gefinn fyrir allar skemmtanir og hugði gott til gleðinnar. Kristín var hversdagslega stillt og fáorð og þótti mér það vel, því að stilling er konunnar prýði og allir vissu, að við vorum tilvonandi hjón. Við höfðum góða hesta, og Kristín, sem hafði skemmtun af að ríða, valdi sér fljótasta hestinn, raunar á móti vilja mínum, því að hann var foli og illa taminn. Allt gekk þó vel þar til í mýri einni fyrir neðan kirkjustaðinn. Þar varð hann prataralegur og hljóp til hliðar, en Kristín var ekki við því búin, svo að hún datt af baki. Að undanteknum nokkrum leirslettum, sem hún fékk í reiðpils sitt, var hún þó jafngóð. Ég setti hana aftur í söðulinn og við náðum farsællega heim á prestssetrið, því að það var verið að gefa saman þar. Við höfðum orðið ofurlítið síðbúin. En hvað gjörði það, fyrst við náðum í síðari blessanina, það er að segja, veisluna? Að endaðri hjónavígslu riðum við öll heim að garði brúðhjóna og gengum þar inn. Verður Kristín þess þá vör, að hún hefir ekki trúlofunarhring sinn. Eins og öllum, sem þetta hefði viljað til, varð henni fjarska hverft við, mest sökum hjátrúar þeirrar, sem á því lá að glata trúlofunarhring sínum; það þótti fyrirboði meira missis, en ég hafði eigi trú á slíkri hégilju og hughreysti hana eftir megni og hét henni öðrum fegurri frá Kaupmannahöfn. Engu að síður var henni venju fremur skapþungt, það sem eftir var dagsins.
Veislan fór prýðilega fram. Við Kristín sátum hvort við annars hlið og ég var heldur íbygginn að eiga svona fallega stúlku að unnustu. Eftir máltíð voru ýmsar skemmtanir um hönd hafðar, en þó voru einkum samræður haldnar og ævintýri sögð. Sumt unga fólkið söng, en sumt hið eldra lagðist til svefns, er að nóttu leið. Ég sat eftir í brúðarhúsinu meðal ýmsra kunningja minna og spjallaði. Samræðurnar snerust að kúgan landsins, bæði þá er siðabótin ruddi sér til rúms og undir einokunarverslaninni. Nokkrir boðsmanna fóru um það hörðum orðum og kváðu ekki dæmi slíkrar meðferðar. Ég, sem vissi betur, þóttist nú hafa hið besta færi á að sýna menntun mína og viturleik, og fór að lesa upp úr minnisbókinni ýms hryðjuverk úr veraldarsögunni, bæði á miðöldum og á tíma hinna rómversku keisara í fornöld, og færði þannig tilheyrendunum heim sanninn um það, að víðar hefði ofbeldi verið beitt en á fósturjörð vorri. Lengi hlustuðu þeir á mig með eftirtekt og var ég með miklum spekingssvip að snúa hringnum mínum á borðinu. Kristín hefir líklega verið óþægilega minnt á týnda hringinn sinn og sagði nokkuð stutt:
"Það var ekki Kaligúla, er síðast hafði aðsetur sitt á Kapreu, heldur Tíberíus, því að Kaligúla ríkti með illan leik í fjögur ár, áður en hann var drepinn".
"Kaligúla", endurtók ég til þess að breiða yfir gleymsku mína, "er alltof nafntogaður maður til þess, að ég gleymi honum, þó að aldrei sé nema fyrir skeljaferðina til Englands".
Nú byrjuðu spurningar og svör og leysti ég röggsamlega úr málum, án þess að Kristín gæfi orð inn í, enda áleit ég, að hún hefði þegar nóg aðgjört.
"Merkileg villa má það vera", sagði nú sá, er næstur mér sat, "að láta konungdóminn ganga í erfðir, þegar slíkir afglapar eiga í hlut sem þessi Kaligúla. Hann hefir þó auðsjáanlega ekki verið vaxinn slíkum störfum".
"Nei! Það hefir hann ekki verið", sagði ég, "því að bæði fyrst og síðast hagaði hann sér sem vitskertur maður. Hann var langt frá að vera vaxinn slíkri tign".
"Hann var almennilegur maður í átta mánuði og var álitið að hann hefði orðið svona upp úr sóttveiki", greip Kristín fram í, um leið og hún stóð upp, en allir litu stórum augum til mín, eins og þeir vildu segja: "Já, já! þú ert þá ekki betur fræddur en svo, að kvenmaður rekur þig hvað eftir annað í vörðurnar".
Ég segi það satt, að ég hefi aldrei reiðst jafnmikið hvorki fyrr né síðar. Síðar hefi ég oft bæði í samsætum og í heimahúsum leiðrétt mér meiri menn og sömuleiðis verið leiðréttur af þeim. En að vera leiðréttur af konu, sem hvergi hafði lært, svo að nokkur vissi, -- ég, útlærður stúdent! -- Það kom öllum tilfinningum mínum í suðu. En síðan hef ég litið nokkuð öðruvísi á það. Menntun og vísindi eru fögur, og konan er einhver hin fegursta skepna í sköpunarverkinu. Hún er útbúin viðkvæmum, næmum og skynugum hæfilegleikum. Hvar geta þá gimsteinar menntunarinnar átt betur heima? Og beri menntunin svo blessunarríka ávexti meðal vor karlmannanna, getur hún þá umbreytt svo eðli sínu, að hún verði að ólyfjan í höndum og huga kvenmannanna? Er það ekki heldur svo, að hjörtu, bæði karla og kvenna líkist ófáguðum gimsteinum, meðan menntunina vantar? Sé fágunin fengin, þá fyrst er hann það, sem honum var ætlað að verða. Og eins og einn maður hefur nóg að gjöra allt líf sitt, að fága einn einasta demant, þannig hefur maðurinn fullt í fangi allt líf sitt að mennta, fræða og hreinsa eigið hjarta sitt. Háleitir eiginlegleikar og menntun eiga í allra höndum að vera frjáls fjársjóður. Guð gefur góða hæfilegleika opinberlega, og því eigum vér að neyta þeirra opinberlega, og konan þarf ekki framar en karlmaðurinn að fara með þá í neina launkofa. Svona hugsa ég nú orðið, en þá hafði ég aðra skoðun. Já, ég var reiðari en frá megi segja og ég ásetti mér að gefa Kristínu alvarlega og eftirminnilega ofanígjöf fyrir framhleypni sína, því að framhleypni var það að minnsta kosti, hvernig sem á var litið. Ef hún auðmýkti sig þá undir mína voldugu hönd, ætlaði ég að taka hana aftur í sátt, en gjörði hún það ekki, var ég staðráðinn í að fá henni aftur hring sinn.
Ég stóð sömuleiðis upp, kvaddi brúðhjónin og vini mína með mestu virktum, því að síðara hluta vikunnar ætlaði ég alfarinn úr héraðinu um langan tíma, og, ef hamingjan vildi því svo til haga, fyrir fullt og allt.
`Blað skilur bakka og egg', en blaðið reynist oft breitt. Verst af öllu þótti mér sneypa sú, er ég þóttist hafa orðið fyrir af völdum Kristínar, og því urðu kveðjurnar miklu kaldari, en annars hefði orðið. Þegar ég kom út, var búið að leggja á hestana, og áttum við ekki annað eftir en stíga á bak og það var fljótgjört. Einn nágranninn slóst í förina og gátum við Kristín því illa talað saman á leiðinni nema með augunum, sem í þetta skifti töluðu ekkert ástarmál. Við riðum því öll þegjandi að mestu, þar til er vegirnir skiptust. Annar lá yfir mýrina, sem við fórum áður um, en hinn yfir holt nokkurt og var sá lengri. Hann vildi samferðarmaður okkar ríða, en Kristín vildi ríða mýrina, til þess, ef auðið yrði, að við fyndum hring hennar í tunglsljósinu, því að hún þóttist vita, hvar hann hefði dottið. Hún varð að ráða og reið ég náttúrlega með henni. Er við vorum ein orðin, gat ég ekki lengur setið á dreng mínum og mælti:
"Þú hagaðir þér miður kvenlega í kvöld".
"Og þú reglulega spjátrungslega!" sagði hún. "Þú munt eiga við, þá er ég leiðrétti þig?"
"Já! Þú máttir vita, að ég vissi það eins vel og þú, þó að það ruglaðist svona fyrir mér. En ég álít mjög ókvenlegt að grípa fram í, þegar karlmenn tala. Það er eins og þú þykist af menntun þinni".
"Hefi ég ekki leyfi til að þykjast af minni menntun, eins og þú þykist af þinni, þar sem þú hefir þó verið settur til mennta, en ég hefi orðið að verða mér sjálf úti um hana? eða má ég ekki hafa málfrelsi, af því ég er kvenmaður? Raunar var það ekki af monti, að ég leiðrétti þig, heldur af því, að ég áleit skyldu mína að leiðrétta hið ranga, og það jafnvel þó að annar eins herra og þú ættir í hlut. Ég álít hvorki mig né aðra kvenmenn andlega eða líkamlega þræla ykkar karlmannanna. Allar skyldur vorar eru heimtaðar að okkur. Og þið hafið nóg að gjöra að standa skil á ykkar. Ég hygg, að þið rækið þær engu betur en við".
"Þú ert hið mesta forað af konu", hrópaði ég, "og ef þú lægir ekki seglin, þá --".
Ég sagði ekki meira, en Kristín skildi hálfkveðna vísu og sagði:
"Þú ætlar þá að kenna mér lífsreglurnar, en sparaðu þér það ómak, alténd þangað til þú átt yfir mér að segja. --"
"Nei! Ég ætla að fá þér þennan aftur og -- það, sem honum fylgir. Það er ekki mitt meðfæri né neins sjálfstæðs manns".
Um leið og ég sagði þetta, tók ég af mér trúlofunarhringinn og brá honum fyrir augu hennar, ekki í því skyni að afhenda henni hann þá þegar, því að það var í sannleika meira en augabragðs verk, heldur til þess að auðmýkja hana, því að ég vissi fullvel, að hún elskaði mig frá æskuárum. En við vorum nú komin fast að dýinu, þar sem hún hafði áður dottið af baki.
"Gott og vel! Fyrst ég er orðin svona brotleg, er best að gefa þessum gisting hjá lagsbróður sínum", sagði Kristín og þreif um leið af mér hringinn, án þess að ég gæti aðgjört og kastaði honum í dýið.
Þessi dæmalausa óskammfeilni blöskraði mér svo mjög, að ég kom engu orði fyrir mig, og mátti segja, að ég vissi hvorki í þennan heim né annan, fyrr en við vorum komin í hlaðið heima. Við fórum af baki. Ég spretti af hestunum og við fórum inn hvort í sínu lagi, en ekki kom mér dúr á auga alla nóttina, svo mikið fékk þetta atvik á mig. Um morguninn snemma reið ég af stað, svo að enginn vissi af, að leita að hringunum, en kom jafnnær heim aftur. Eftir þetta áttum við Kristín lítið saman að sælda og töluðum einungis blátt áfram hvort við annað, þar til er ég fór. Enginn varð áskynja um, hversu sárt mér féllu þessi málalok, eða hvað okkur bar í milli. Ég duldi harm minn vel. Ekki gat ég þó brotið odd af oflæti mínu og skildum við án nokkurrar sáttatilraunar.
Mér gekk ferðin furðuvel um land og haf, og komst ég í tölu háskólastúdenta. En þó að allt léki í lyndi, hvarflaði þó hugur minn við og við heim til ættjarðar minnar og horfinna æskudrauma. En að ég hefði hagað mér eins og mér bar að gjöra, það efaði ég aldrei. "Nei! Heldur vil ég vera ókvæntur alla ævi en eiga slíka konu", hugsaði ég með mér og huggaði mig við það. Einungis gramdist mér það, hvað allt gengi öfugt til í heiminum, hvernig allar skepnur reyndi til að komast upp í þann sess, sem þeir væri ófærir í, alveg eins og guð hefði eigi vitað, hvað hann gjörði, þegar hann niðurraðaði öllu í náttúrunnar ríki. Einstöku sinnum brá samviskan mér um drottnunargirnd og um það, að ég misskildi bæði guðs og manna lög, en það var mjög sjaldan.
Ég lauk vel guðfræðinámi mínu og eftir það hafði ég ofan af fyrir mér með ýmislegum störfum, eftir því sem mér gafst færi á í það og það skipti. Loksins tók mig þó svo að fýsa heim til föðurlandsins, að ég réð ekki við mig. Skotsilfur til skemmtiferðar var ekki á reiðum höndum og því réð ég af að sækja um prestakallið Stað, því að þótt það væri lítið, var ekki annað laust fyrir mér, og svo gjörði ég mér líka góða von um, að nábúapresturinn, séra Einar, myndi þá og þegar hrökkva upp af klökkum, eins og að orði er kveðið. Hann var þá sjötugur að aldri, og var honum mjög farið að förlast minni og heilsa hans mjög á förum. Ég bjóst við, að geta komið mér í mjúkinn hjá honum, og tæki hann mig fyrir aðstoðarprest, vissi ég, að mikið var við það unnið. Líka var ég háskólakandidat með besta vitnisburði. Það ríður vanalega baggamuninn.
Ég sótti um Stað og fékk hann. Þá voru liðin fimmtán ár, frá því er ég fór að heiman, og hafði þar margt umbreyst á þeim tíma. Fósturforeldrar mínir voru dánir, fóstbræður mínir báðir kvongaðir embættismenn og Kristín var búin að vera gift kona í tíu ár. Maður hennar var séra Einar, er fyrr var nefndur, og var hann ekkjumaður, er hann átti hana. Þau áttu saman þrjú börn, en hann fjögur áður. Meira vissi ég ekki um þau. En nú var tími til þess að rifja upp gamlan kunningsskap, og satt að segja -- langaði mig til að vita, hvernig Kristín kæmist af við mann sinn.
Jæja! Ég fór af stað heim til Fróns og sá blessað landið mitt aftur, glaður í anda og þakklátur forsjóninni fyrir að lofa mér það. Ég vitjaði brauðsins, en af því að ég hafði ekki í hug að kvongast, byggði ég jörðina öðrum og var sjálfur í fæði og þjónustu hjá leiguliða mínum. Ég var nærri daglegur gestur hjá séra Einari og varð okkur Kristínu aldrei sundurorða, enda höfðum við minna saman að sælda nú en til forna. Mig undraði stórum regla sú og eindrægni, sem ríkti á heimilinu. Allir, háir sem lágir, voru sem einn maður, og sjálfur gamli karlinn, gráhærður, sagði einlægt í öðru hvoru orði við konu sína: "Er það ekki svo, heilla mín?" Hún sagði þá álit sitt alveg sjálfstæð og ófeimin.
"Hversu víkur þessu við?" sagði ég einu sinni við hreppstjórann, er var mér þar samnátta. "Þér sögðuð mér, að séra Einar hefði verið strangasti kvenna-harðstjóri, er hann átti fyrri konu sína, sem þó var merk kona og góð, en nú þykja honum engin ráð ráðin, nema kona hans, sem nú er, sé til kvödd".
"Ég veit ekki", svaraði hreppstjórinn. En `karl gamall og kvinna rjóð -- kærleik trú ég þau geymi'. Það var satt, að það orð lék á, að hann hefði þústað fyrri konu sína, og er vel, að hann hefir séð að sér, karlsauðurinn, enda er þessi kona honum íleppur í annan skóinn. Prestur sagði mér sjálfur eitt sinn, er hann var kenndur, að hann hefði fyrir löngu verið búinn að segja af sér, ef hann hefði ekki átt þessa konu. Hún semur og skrifar ræðurnar fyrir hann, því að hann er orðinn ærið sljór. En söfnuðinum þykja þær nú hjartnæmari en nokkru sinni áður hjá honum, er hann var upp á sitt hið besta. Hún semur allar skýrslur og reikninga með honum og er í stuttu máli önnur hönd hans. Í staðinn fyrir það er séra Einar henni hinn ástúðlegasti eiginmaður og dregur ekki dulur á verðleika hennar né stelur af henni heiðrinum, eins og sumir gjöra, sem ekki einungis láta konuna bera einsamla hennar áhyggjur, heldur leggja þar á ofan sínar áhyggjur á hana líka og halda henni svo þrælbundinni sem skynlausu vinnudýri. Ekki fer ég þó svo með mína konu".
Ég hafði nú heyrt nóg til þess að hugsa um fyrra hluta næturinnar, eftir að hreppstjórinn var sofnaður. Hann átti efnilega og fallega dóttur, sem ég var hálft um hálft að hugsa um að biðja mér til handa, en ég sló því hjá mér fyrst um sinn. Tilfinningar mínar til Kristínar voru ýmislegar. Stundum fannst mér sem ég elskaði hana og virti, en stundum fannst mér hið gagnstæða, og mér fannst þá sem hún hefði ekki einungis staðið mér í ljósi fyrir mörgum æskilegum ráðahag, heldur og ýmsum öðrum gæðum, með breytni sinni við mig forðum. Mynd hennar stóð mér þá æ fyrir hugskotssjónum, er síst skyldi. Það var hvorttveggja, að ég var aldrei mikill vinur kvennamenntunar, enda gafst hún mér eigi vel. Séra Einari gafst hún betur. Án hennar hefðu þau öll verið komin á vonarvöl, því að ekki var þar auðurinn fyrir, -- og það, sem einhver hefir gagn af, er ekki gagnslaust. Ég fór nú fyrst alvarlega að vega það, sem var með og móti, og loksins komst ég að þeirri niðurstöðu, að við menntun konunnar væri mikið unnið en engu tapað, og að menntuð kona gæti eigi síður en hin ómenntaða sýnt auðmýkt og undirgefni, eigi með þrælslegri hlýðni, eins og hin ómenntaða, heldur hreina, kurteisa og þægilega undirgefni, og að hún væri þar að auki miklu skemmtilegri. Þorbjörg dóttir hreppstjórans var nú allt í einu orðin of ómenntuð í mínum augum, þó að hún kynni nokkurn veginn skrift og dönsku og hinar fjórar aðalgreinir í óbrotnum reikningi, sem var þó talin mikil menntun. Ekkert vissi hún úr veraldarsögunni, ekkert um dvöl Tíberíusar á Kapreu og ekki kunni hún að verja Kaligúlu. Mundi ég geta látið svo fávísa konu koma fyrir auglit lærðra manna, er sæktu mig heim? Nei! -- Ó! Nú óskaði ég hjartanlega, að týndu hringarnir væru aftur komnir þar, sem þeir voru fyrst, -- á fingur okkar Kristínar. En nú var orðið um seinan að leiðrétta það.
Eitt ár leið nú viðburðalítið, en þá tók séra Einar sótt, er leiddi hann til bana. Eftir því sem ég hafði þekkt hann betur, þeim mun betur geðjaðist mér að honum, því að hann var bæði frábærlega hreinskilinn og viðmótsþýður. Héraðsprófastur jarðsöng hann og hélt ræðu við kistu hans. Ég hafði sem sjaldnast gefið mig neitt að Kristínu, meðan maður hennar lifði. En er hún var orðin ekkja, lét ég alla þrákelkni falla fyrir tilfinningum mínum og studdi Kristínu eftir mætti. Raunar var hún eigi svo mjög á flæðiskeri stödd, því að stjúpbörn hennar voru öll uppkomin og farin að búa og elsti sonur hennar var kominn í skóla, -- og hafði hún sjálf að miklu leyti kennt honum undir hann.
Eins og ég hafði lengi ætlað mér, sótti ég um prestakall það, er séra Einar hafði þjónað, eftir fráfall hans og fékk það. Eftir tveggja ára ekkjudóm Kristínar fékk ég og hennar, og urðum við hin hamingjusömustu hjón. En það, sem lesaranum ef til vill kann að þykja undarlegast, er það, að við höfðum okkar gömlu trúlofunarhringa, sem árið áður höfðu af hending verið fiskaðir upp með sortu, er tekin var í mýrinni. `Skín á gull, þótt í skarni liggi', segir máltækið, og það er satt. Þeir voru jafnfagrir og nokkru sinni áður.
Við Kristín eigum tvö börn, lagleg og mannvænleg, sem enn eru ung. Tveir synir Kristínar og séra Einars eru í skóla og þykja efni í mestu menntamenn. Þó að ég sé enn eigi af mér genginn fyrir elli sakir, hefi ég þó oft notið, ekki einungis ánægju, heldur og gagns af menntun konu minnar, -- að ég ekki tali um börnin, sem hún kennir að mestu leyti. Ég hefi í sannleika fengið endurborgaða skapraun þá, er veraldarsögulesturinn hennar olli mér forðum, og nú á kvennamenntunin, og yfirhöfuð kvenfrelsið, ekki einlægara vin en mig, þó að ég því miður lítið geti starfað að efling þess.
Fæstir þekkja þetta ungdóms-ævintýri mitt, og enginn man nú eftir því, að ég hafi einu sinni svikið Kristínu mína, sem ég nú má ekki af sjá, -- og það einmitt sökum hinnar sömu menntunar og hreinskilni, sem nú sykrar mér ellidagana, en -- `margt er ónumið -- mönnum í ungdæmi' segir sagan.