VEISLAN  Á  GRUND


(8.  JÚLÍ  1362)

eftir Jón Trausta





1. kafli

Snjólfur kanúki sat í stúku sinni og las í gömlum kálfskinnsblöðum. Hann taldi sér ekki saklaust að skrifa lengur, því að Seljumannamessa var að morgni og helgin byrjuð. Og þó að hann hefði engar sérlegar mætur á þessum kvendýrlingum og skildi varla í því, að nokkur kona gæti í raun og veru verið guði þóknanleg, allra síst umfram karlmenn, gerði hann það Sunnefu hinni heilögu svo sem til virðingar, eða þó að minnsta kosti til geðs, að lesa í Seljumannasögu.

Beggja megin við hann lágu kálfskinnsblöð, sum gömul og þéttskrifuð, með miklu rósaflúri á upphafsstöfunum, sum nýskrifuð, með settu letri, mjög bundnu og skammstöfuðu, - því að húsfreyjan vildi láta koma sem mestu á hverja örk, - og sum enn þá óskrifuð. Hann var kanúki frá klaustrinu á Munkaþverá, og jafnframt því að vera heimilisprestur á Grund og skriftafaðir húsfreyjunnar hafði hann þann starfa að afskrifa gömul handrit.

Helga húsfreyja vildi ekki gefa neinum manni mat fyrir ekki neitt, ekki skriftaföður sínum fremur en öðrum. Hún taldi það ekki matvinnungsverk að lesa latínuþulur og skriftamál. Þess vegna fékk hún munkinum þessi skinnblöð til að fást við - og leit eftir því sjálf við og við, að hann svikist ekki allt of mikið um.

Munkurinn var maður um þrítugt, þéttvaxinn, þykkleitur, alrakaður og með rakaða krúnu. Hann var latur og værugjarn, með mjúkar og mjallhvítar hendur. Allur svipur hans og vöxtur minnti á heimasætu í karlmannsklæðum, eða óþroskaðan skóladreng, sem enn hefir enga hugmynd um manndóm sinn og karlmannseðli. - Augun voru skær og djúp og full af einhverri óljósri ævintýraþrá, - löngun í eitthvað, sem væri langt, langt í burtu, eitthvað, sem væri forboðið, syndsamlegt og munkatilverunni andstætt, eitthvað, sem hefði keim af munaði, mannvígum og ránum. Hann vissi vel, að þetta var "fleinninn í holdinu", sem þeir heilögu töluðu um á rósamáli sínu, fleinninn, sem hann hafði lofað að rífa út með öllu. Og þó að hann væri að lesa um sakleysi Sunnefu og heilagleik Seljumanna, sem honum og öðrum áttu að vera til fyrirmyndar, gat hann ekki varist því að hugsa um þessar indælu, siðprúðu meyjar, eins og þær voru á jarðríki, skapaðar til að elska og gleðja og blessa mönnum lífið, en ekki til að taka sig út úr, hafna boðum skapara síns og þorna upp í strembnu helgihaldi og einlífi. Þennan heilagleika, sem söguritarinn hossaði svo hátt, hataði hann, og hefði hann lifað á víkingaöldinni - -.

Hann hugsaði ekki lengra. Undarleg ólga rann um allar æðar hans, eins og áhrif af örvandi drykk. Hann beit saman vörunum og las og las, án þess að skilja nema orð og orð. Sagan flaut fram hjá augum hans eins og árstraumur, rann í gegnum meðvitund hans, án þess að láta þar spor eftir. Hann las um feiknin öll af jarteiknum, sem bein Seljumanna áttu að hafa gert, meðan þau voru að koma mönnum í skilninginn um helgi sína; um ljósið, sem Ólafur konungur sá yfir eynni, þegar hann sigldi þar að landi, og um hadd Sunnefu, sem hann fann ófúinn og blóði storkinn. - Þennan glóbjarta hadd, sem geymdur var í silfurbúnu skríni á altarinu í kirkju þeirri, sem konungurinn hafði byggja látið, þar sem hann sá ljósið, - allt þetta, sem hann vissi, að var haugalygi, sett saman af mönnum eins og honum sjálfum, til að sýna príórnum og biskupunum heilagleik hugsana sinna og ást sína á öllu, sem "heilagt og hreint" væri.

En gegnum lesturinn heyrði hann þung högg, sem féllu með jöfnu millibili og ekki títt. Þau voru eins og leiðtogi hans við lesturinn og táknuðu fallhraðann í þeim syndsamlega söng, sem stöðugt ómaði undir í huga hans. Þessi högg voru honum engin nýlunda. Hann heyrði þau á hverjum einasta degi.

Hinum megin við vegginn var Skreiðar-Steinn að berja fiskinn.

Já - Skreiðar-Steinn og hann sjálfur; þeir voru einu karlmennirnir, sem nú voru heima á stórbúinu á Grund. Annars var bærinn fullur af kvenfólki.

Og að vissu leyti mátti einnig telja þá báða til kvenfólksins. Steinn var örvasa gamalmenni og gerði ekkert annað en berja fisk. Það var meira en nóg erfiði fyrir hans gömlu og lúnu handleggi, og honum voru engin grið gefin við þetta verk, því að búið á Grund þurfti á miklum harðfiski að halda. - Og hann sjálfur, kanúkinn, - hann var ekki heldur talinn nema hálfur karlmaður, enda voru honum engin venjuleg karlmannsverk ætluð. - Þó að þeir, Steinn gamli og hann, væru allan daginn og dag eftir dag með konum einum, fann enginn til afbrýði.

Það lá við, að hann skammaðist sín fyrir munkahelgi sína.


2. kafli

Hurðinni var lokið upp að baki hans, og Helga húsfreyja stóð í dyrunum.

"Góðan daginn, pater," mælti hún. "Trufla ég þig í helgiiðkan þinni?"

"Ekki vitund," sagði munkurinn og stóð á fætur.

Hann leit á húsfreyjuna og sá, að hún var eitthvað dálítið öðru vísi en hún var vön að vera. Hún andaði þungt, og það var sem væri henni órótt í skapi, þó að hún stillti sig. Honum datt í hug, hvort hún mundi vera komin til að skrifta. Það gat varla verið. Hún skriftaði ekki nema einu sinni í mánuði, og það oftast nær aðeins til málamynda. Þetta voru engar skriftir. Hún sagði honum undan og ofan af, lét hann renna grun í ýmislegt og hló að honum á meðan. Að krefja hana sagna í fullri alvöru, - nei, það gerði enginn maður á Íslandi. Þó að erkibiskupinn kæmi sjálfur, mundi hann ekki fá fleiri syndir að vita en henni þóknaðist að láta uppi. Hún var vönust því að skammta allt úr hnefa, syndajátningarnar ekki síður en matinn.

Helga var fríð kona og fönguleg, og enn þá var henni ekki aldur að meini. Hún var full að vöngum og hörundsbjört. Svipurinn var mikill og augun hörð eins og tinna. Samt var þar eitthvað eggjandi og ástríðufullt, eitthvað, sem logaði og laðaði um leið og það drottnaði og skipaði. Þeir, sem vísastir þóttust vera, sögðu, að það væri Oddaverjaarfurinn: vísdómsþrá og fjöllyndi Sæmundar fróða, rausn og ríkilæti Jóns Loftssonar og tign Þóru dóttur Magnúsar konungs berfætta. Helga var stórættuð og konunglunduð. Engin kona var talin göfugri á Íslandi.

"Hvað ber til þess, að mér hlotnast sá heiður - -," stamaði munkurinn með mikilli undirgefni.

"Hefir þú engin tíðindi spurt, pater?"

Munkurinn hristi höfuðið.

"Hvaðan ættu mér að koma tíðindi? Á þessum tíma árs sé ég engan mann daglega, nema griðkonu þá, sem færir mér matinn, og Steina gamla, heyrnarlausan, við fiskasteininn. Hvorugt þeirra ber tíðindi."

Helga brosti.

"Nei, það er rétt. Það ætlar húsmóðirin sjálfri sér að gera. Ég vona, að þú verðir ánægður með það. - Og erindi mitt til þín að þessu sinni er að færa þér tíðindi."

"Þau mundu gleðja mig, ef góð eru," mælti munkurinn. En af svip og óró húsfreyjunnar þóttist hann geta lesið, að þau væru ekki góð.

"Góð eru þau auðvitað, - einkum þeim, sem litlum venjast dagamun, eins og segja má um okkur hér í fásinninu," mælti húsfreyjan með hæðniskeim. - "Hér stendur til veisla í kvöld."

"Veisla -?"

"Höfðingjaheimsókn. - Von sjaldgæfra gesta. - Ég er að láta brugga og baka. - Finnurðu ekki ilminn? Hann leggur um öll húsin."

Munkurinn hafði lengi fundið steikarþef og vínilm, en engan gaum gefið því. Það var engin nýlunda á Grund, þótt góðan matarþef legði um húsin. Oft komu þangað heldri gestir, og ætíð var tekið á móti þeim með rausn og prýði.

"Veisla -? - - Og hverjir eru þessir höfðingjar?"

Húsfreyjan leit niður fyrir sig, eins og henni væri ekki um að gefa greið svör. Síðan mælti hún:

"Smiður Andrésson hirðstjóri, - - Jón Guttormsson lögmaður. - - Hverjir eru í fylgd með þeim, læt ég ósagt."

Munkurinn starði á hana eins og glópur.

"Smiður -? Smiður Andrésson? Hvaða maður - -? Ó, það mun vera hirðstjórinn okkar nýi."

"Sendur af konunginum til að leysa "fjórmenningana" frá starfi sínu og jafna sakir þeirra."

"Fjórmenningarnir" voru fjórir menn íslenskir, sem höfðu haft hirðstjóravald næstu árin undanfarin og skipt landinu á milli sín. Nú var vald þeirra allra fjögra lagt aftur í eins manns hendur, eins og áður hafði verið.

"Smiður Andrésson -," tautaði munkurinn fyrir munni sér. Hann skildi enn ekki til fulls, hvað um var að vera. "Smiður - og - Jón Guttormsson - - Jón skráveifa. - - - Nú fer ég að skilja. - Nú fer ég að skilja."

"Hefirðu frétt, hvað búið er að gera við Árna bónda Þórðarson, frænda minn?"

Hann hafði verið einn af "fjórmenningunum".

"Nei, ég hefi ekkert frétt - alls ekkert."

"Það er búið að taka af honum höfuðið."

Húsfreyjan andvarpaði þungt, er hún sagði þetta. Munkurinn starði á hana, yfirkominn af ofboði.

"Einn af göfugustu mönnum landsins - - einn af bestu mönnum landsins - - - lagður á höggstokkinn! - Er þetta satt?"

"Lögréttumennirnir eru nýkomnir að sunnan með þessar fréttir. - Frjádaginn næstan fyrir Jónsmessu baptista var Árni Þórðarson höggvinn í Lambey, að fyrirlagi Smiðs hirðstjóra og Jóns skráveifu. - Líkið var flutt í Skálholt til greftrunar."

Þau þögðu bæði stundarkorn, eins og þau gætu engin orð fundið tilfinningum sínum.

"Og nú - -?" mælti munkurinn. "Hvað tekur nú við?"

Helga leit harðlega framan í hann.

"Nú kemur röðin að oss Norðlingum og höfðingja okkar. Næst mun eiga að ganga milli bols og höfuðs á Þorsteini Eyjólfssyni. - Hver verður svo næstur? - Og hver þar næstur - og þar næstur? Hvar verður staðar numið? - Hvort mun ekki "skráveifan" hyggja á grimmilegar hefndir fyrir skráveifu þá, er honum var gerð að Þverá í Vesturhópi fyrir ári síðan? - Ekki mun hann viljann vanta. - Þrjú hundruð Norðlendingar eiga nú höfuð sín undir öxi þeirra félaga."

"Og Norðlendingar - -? - - Fljóta sofandi - -?"

Húsfreyjan kinkaði kolli íbyggilega.

"Nei, Norðlendingar eru vakandi. Í þetta skipti eru Norðlendingar vakandi. - Síðan þingmenn komu að sunnan og fyrirætlanir þeirra kóngsmanna urðu kunnar, hafa verið njósnarmenn á öllum heiðum. Og nú hefir spurst til þeirra Smiðs sunnan af Vatnahjallavegi."

"Og þú býst við þeim hingað í kvöld?"

Húsfreyjan brosti gremjulega.

"Hvar skyldu þeir fremur húsa leita en á höfuðbólinu? Mundi þeim ekki þörf á góðri hressingu eftir öræfareiðina?"

"Og Einar bóndi ekki heima -!"

"Einar bóndi að búum sínum vestur á landshorni. Það er ekki í fyrsta skipti, pater, að húsfreyjan á Grund hefir fríar hendur. - Gott og vel. Grund á ég sjálf, og þar vil ég ráða, hvort sem bóndi minn er heima eða ekki. - Hingað til hefir það ekki borið okkur til missættis."

"Og hvað hefirðu í hyggju að gera, húsfreyja?"

"Búa til veislu. - Gera Grundar-gestrisnina orðstírs síns maklega."

"Eitur - -? - - eða eldur?"

Húsfreyjan brosti og hristi höfuðið.

"Nei, pater. Eitri hafa Norðlendingar aldrei beitt við óvini sína. - Og brennurnar á Lönguhlíð og Flugmýri eru svo svartir blettir, að ekki mega fleiri slíkir vansæma Norðurland. Á Grund skal hver maður fá að njóta hreysti sinnar."

Þau þögðu bæði um stund, og munkurinn horfði á hana undrandi og spyrjandi, eins og hann reyndi að lesa út úr henni, yfir hverju hún byggi.

Loks mælti Helga:

"Sveininn Björn hefi ég sent yfir að Munkaþverá bræðrunum til varðveislu. - Hvað sem í skerst, vil ég vita hann öruggan. Og klausturníðingar gerast þeir kóngsmenn ekki, hverjar sem tiltektir þeirra annars verða."

"Það var vel ráðið."

"Húskarlar mínir hafa lagt frá sér orfin og eru farnir að smala -."

"Mönnum -?"

"Nei. - Það gera Eyfirðingar sjálfir. - - Konum."

"Konum -?"

"Ég hefi ekki nægan kvenafla heima til að þjóna í slíkri veislu."

"Konum -!"

"Lána þær eldri burtu í skiptum fyrir aðrar yngri," mælti húsfreyja íbyggilega. "Ég þekki fyrstu og æðstu kröfur þessara pilta. - Vín á ég nóg, og varla mun heldur mjöð og mungát skorta. - - Hér er um að gera, að veislugleðin endist nógu lengi."

"Nú skil ég. - - Nú skil ég!"

"Erindi mitt til þín, pater, var að biðja þig að hafa opna kirkjuna - hvað sem fyrir kann að koma."

"Það skal ég gera."

" - og vera þar sjálfur meðan gestirnir eru hér. Ég hefi þig að láni frá klausturbræðrum þínum og vil ekki vita þig í neinni hættu."

Munkurinn beit á vörina og þagði.

"Gerðu eins og ég legg fyrir þig, pater. Það er þér hollast. Vertu í kirkjunni og taktu alla í vernd þína og grið, sem þangað kunna að leita, hvort sem eru Sunnlendingar eða Norðlendingar, kóngsmenn eða bændur. Veittu öllum prestsþjónustu og fyrirgefning synda sinna, sem þess óska. - Mundu það, að því aðeins er klausturfriður heilagur, að klaustramenn séu hlutlausir í deilum manna."

Munkurinn var myrkur á svipinn og þagði enn. Húsfreyjan bætti við og brosti:

"Já. - Það er sárt að verða þannig af öllum veislukostinum, pater. En hjá því verður ekki komist. Munkalífið er ekki helgað veislugleðinni, heldur bindindi og afneitun. Hlýddu ráðum mínum og flekkaðu ekki hendur þínar á neinu af því, sem hér fer fram. - Settu svo húsmóður þinni vægar skriftir, - ef hún lifir þessa nótt af. En skrifaðu sögu hennar, ef hún fellur."

"En, húsfreyja góð - -!"

Hann langaði til að segja eitthvað meira, en húsfreyjan greip fram í fyrir honum um leið og hún var að fara:

"Ég lít eftir því, hvort þú verður í kirkjunni, pater!"

- Munkurinn fór ekki aftur að lesa Seljumannasögu. Hann gekk um gólf með samanbitnar varir og þrútinn í framan. Blóðið svall í æðum hans.

Enn þá heyrði hann höggin til Steins gamla, hæg og þung. En milli þeirra heyrði hann höggin til slagæðanna í höfðinu á sjálfum sér.

Eftir litla stund hafði hann unnið fullan sigur á sjálfum sér og klausturhelgi sinni. Hann reif bænafesti, með viðfestum róðukrossi, af hálsi sér og grýtti henni út í horn, sópaði skinnblöðunum á borðinu saman í hrúgu, gömlu og nýju, hverju innan um annað, og mælti hálfhátt við sjálfan sig:

"Í dag er ég hvorki munkur né preláti. Í dag er ég karlmaður!"


3. kafli

Lítilli stundu síðar kallaði Helga húsfreyja allar þjónustustúlkur sínar inn í dyngjuna og lét vandlega aftur.

Þar voru saman komnar allar griðkonur hennar sjálfrar og nokkrar af næstu bæjunum.

Helga var hörð á svipinn, svo hörð, að enginn hafði nokkurn tíma séð hana slíka. Griðkonur hennar skulfu á beinunum fyrir augnaráði hennar.

"Ég vil, að þið vitið sjálfar, hvað hér er í efni," mælti hún hægt og alvarlega. "Kóngsmenn og Sunnlendingar koma með ófrið og yfirgang á hendur okkur. Eyfirðingar eru að safna mönnum. Hér dregur ef til vill til mikilla tíðinda.

Nú hvílir heill og heiður Norðlendinga á okkur konum. Ef við bregðumst nú, verða ráðstafanir hinna að engu.

Þessir menn, sem koma, spara oss Norðlendingum enga skapraun og svívirðu. Það ofbeldi, sem við konur gætum ef til vill vikið okkur undan að þessu sinni, mundi yfir okkur koma að nokkrum dögum liðnum, og þá að mönnum okkar, bræðrum eða feðrum vegnum."

Helga þagnaði um stund og leit hvasst yfir hópinn. Augu sumra kvennanna stóðu full af tárum, en allar horfðu þær þó framan í hana, fast og einarðlega.

"En jafnframt því, sem þessir menn eru dýrslegir í grimmd sinni og rángirni, eru þeir einnig dýrslegir í gleði sinni og munaðarfýsn. Góður matur, vín og konur eru þeirra æðstu gæði. Hófsemi og bindindi hafa þeir aldrei þekkt, sjálfsafneitun er eðli þeirra og áformi fjarstæð.

Þennan breyskleika þurfum við að nota fyrir vopn á þá sjálfa. Við verðum að gera þeim dvölina á Grund svo góða, að þeir gleymi stundinni, gleymi hættunni og gleymi því, að þeir séu í óvinalandi staddir. Við eigum að skapa þeim einnar nætur algleymi, með góðu víni, gleðskap og blíðu. Við verðum að halda þeim hér, þar til Eyfirðingar koma.

Þessir höfðingjar heimta konur til sængur með sér á yfirreiðum sínum, hvar sem þeir koma. Auðvitað! - Allir karlmenn eiga að vera þrælar þeirra, allar konur ambáttir þeirra. - Mikið mundi þeim finnast skorta á Grundarrisnuna, væri ekki þetta látið eftir þeim. - Takist okkur ekki að halda þeim uppi við gleðskap nægilega lengi, verðum við að vera við því búnar að fylgja þeim til sængur."

Húsfreyjan þagnaði aftur um stund. Það var sem þyrfti hún að sækja í sig styrk til að geta fylgt fram erindi sínu til fulls. Þegar hún hóf aftur máls, var röddin hörð og hvell eins og stál.

"Það er ekkert smáræði, sem á okkur konur er lagt að þessu sinni. Við eigum að svæfa þennan óaldarflokk við barm okkar. - Við verðum að ganga í návígi við siðleysi og spilling þessarar hryggilegu óaldar í allri nekt sinni. Við verðum að ganga í greipar drukkinna illmenna, sem einskis eru vísir að svífast; við verðum að gera okkur upp blíðu við menn, sem við höfum andstyggð á og gætum með köldu blóði kyrkt í greip okkar, ef við hefðum afl til. - Og við verðum að verja sjálfar okkur fyrir þessum mönnum, með þeim ráðum og meðulum, sem guð hefir lagt oss konum í hendur, - ef ekki á hólmgangan að verða okkur sjálfum til skammar.

Ég ætla sjálf að ganga fram í broddi fylkingar. Ég ætla að leggja mig í hættuna við höfðingja þeirra og sjá, hvernig fer. Engum manni væri honum meiri gleði að geta gert svívirðu en Einari bónda mínum. - Ég ætla að ganga þar fram, sem hættan er mest. Viljið þið fylgja mér?"

"Já - já - já - já -já." - - Flest jáin komu með grátstaf.

Helga leit hörðum augum yfir allan hópinn, hvort allar hefðu svarað. Þegar hún sá, að svo hafði verið, hélt hún áfram:

"Til slíkra hluta má engan kvenmann reka nauðugan. Þær, sem ekki treysta sér, skulu segja til sín í tíma og hrökklast héðan burtu áður en á reynir. - Vitið það, að ég geri harðar kröfur til ykkar. Ég vil ekki vita heimili mínu neina vansæmd gerða. Engin kona er svo örm, að ekki geti hún varið sóma sinn fyrir karlmanni, ef hún vill, - ef hún vill. Vei þeim, sem þiggja feigra manna faðmlög! - Vitið það, að hér skuluð þið standa allar fyrir mér á morgun, - allar, hver ein og einasta, og skrifta - vægðarlaust, ef mér þóknast að krefjast þess. - Viljið þið enn þá fylgja mér?"

Allar stúlkurnar þögðu, en - engin leit undan.

"Gott og vel," mælti Helga. "Svo er eitt að lokum. Hver ykkar, sem gerir þeim aðvart um hættuna - með einu orði, hálfu orði, bendingu eða rósamáli, hver ykkar, sem lætur ginnast af kjassi og fagurgala þessara manna til að ljósta upp leyndarmáli okkar, skal verða lamin í hel hér í dyngjunni að öllum hinum ásjáandi. Það skiptir minnstu, hvernig fer um hverja einstaka af okkur. En eitt ógætnisorð, eitt atvik í hugsunarleysi, getur hrifsað sigurinn úr höndum okkar og sökkt öllu Norðurlandi í eymd og sorg og smán. - Viljið þið lofa fullkominni þagmælsku, fullum trúnaði og leggja við líf ykkar?"

Stúlkurnar játuðu allar hátt og hiklaust.

Það var sem glampi óvæntrar gleði rynni snöggvast yfir svip húsfreyjunnar. Hún leit framan í hvert andlitið eftir annað og sá þar nú hvergi hik eða hræðslu. Flestar voru þetta ungar og óreyndar stúlkur, fáeinar giftar, en menn þeirra langt í burtu. Sumar voru óprúttnar og til í hvað sem vera skyldi, en sumar voru varla komnar af barnsaldri og skildu auðsjáanlega ekki nema til hálfs, um hvað var eiginlega verið að tala.

Meðal annars sá hún Dísu litlu frænku sína, sem hún hafði sjálf alið upp og var augasteinninn hennar. Hún var ekki nema 16 ára og bar af þeim öllum að fegurð. Hún starði á hana stórum, skærum og barnslegum augum, og munnurinn á henni stóð opinn af undrun. Var það ekki allt of mikill ábyrgðarhluti að hætta slíku barni út í aðra eins mannraun?

En svipur húsfreyjunnar harðnaði aftur, og ásetningur hennar stóð fastur eins og bjarg. Hún hikaði ekki við að leggja allt í hættu, líka það, sem henni var kærara en hún var sjálfri sér.

"Þá horfist vel á um allt. - Látið nú sjá og verið hugvitssamar að finna upp ráð til að tefja þeim tímann með. Reynið að lokka frá þeim vopn og hertygi, reynið að svæfa þá, og ef það tekst, þá snúið um annarri hvorri skálm á fötunum, sem þeir fara úr, svo að þeim verði ógreiðara um að klæðast aftur. Gerið þeim allan þann ógreiða, sem þið getið upp hugsað, án þess að flekka hendur sjálfra ykkar í blóði þeirra. Hafið þið skilið mig? Nú eruð þið héðan af sjálfráðar að því, hvað þið hafist að."

Síðan gekk húsfreyjan að tveim gríðarstórum kistum, sem stóðu þar í dyngjunni, járnslegnar mjög og vafðar utan með gráum selskinnum til að verja þær raka - og lauk þeim upp báðum. þar var geymdur alls konar kvenfatnaður og kvenskart. Þar voru hálsmen, sylgjur og armhringar, steinasörvi, silfurfestar, stokkabelti, gullhlöð og gullsaumaðir lindar; kyrtlar, faldar, motrar, slæður, skikkjur, safalaskinn, - allt, sem nöfnum tjáði að nefna af prýðilegum kvenklæðnaði, og nóg úr að velja handa þeim öllum, sem þar voru, og þó fleiri hefðu verið. Í þessum kistum var arfur margra kynslóða, margra alda samandreginn auður í klæðum og kvensilfri.

Hún fékk nú hverri af konunum það, sem henni var ætlað að bera á þessum "heiðursdegi". Hún útbýtti klæðum og dýrgripum á báðar hendur og mátaði á hverja stúlku, hvað henni færi best.

Stúlkurnar réðu sér varla fyrir gleði. Þær voru allar gagnteknar af einum anda, allar hrifnar með af einum og sama mikla og drengilega ásetningi, að bregðast ekki trausti húsmóður sinnar. Þessi einingarinnar andi gerði þær allar að samglöðum systrum. Þær öfunduðust ekki hver við aðra, þótt ein fengi eitthvað fegurra en önnur. Þær dönsuðu í faðmlögum út úr dyngjunni eins og glöð börn. Hættan freistaði. Löngunin til ævintýra laðaði.

Þegar allar voru farnar úr dyngjunni, nema húsmóðirin ein, sneri Dísa litla aftur í dyrunum og gekk til hennar.

"Hvað verður okkur gert, frænka mín?" spurði hún lágt í barnslegum bænarrómi.

"Ekkert, - vona ég," svaraði húsfreyjan þurrlega.

"Segðu mér það, frænka mín! Hvað er hætt við, að þessir menn geri okkur - illt?"

Húsfreyjan leit hvasst á hana.

"Ekkert, - ef þið eruð nógu stilltar og fastar og einbeittar á reynslustundinni og látið þá ekki fara með ykkur eins og þeir vilja."

"Ó, ég er svo hrædd!"

"Hertu upp hugann og vertu sterk og örugg. Þú verður að læra að horfast í augu við aldarandann eins og hann er, læra að bjarga þér og bera ábyrgð á sjálfri þér, hvað sem fyrir þig kann að koma. Annars verður þú aldrei manneskja. - Svona, farðu nú! - Nei, bíddu svolítið við!"

Húsfreyjan tók upp úr kistunni hníf og belti, hvort tveggja silfurbúið, og fékk henni.

"Þetta á Björn minn að fá í afmælisgjöf næst. - Berðu það í nótt, og beittu því fyrir þig, ef á að misbjóða þér, - en ekki nema þér liggi mikið á. Láttu engan ná því af þér. Og ef þú skyldir þurfa að grípa til þess, þá gerðu það svo, að ekki þurfi oft að bregða. En mundu mig um það að misbeita því ekki. Spenntu beltið á þig innanklæða, en þó svo, að þú náir fljótlega til hnífsins. Svona, - nú ert þú því betur vopnuð en við hinar sem því munar, að þú ert í meiri hættu."

Þegar húsfreyjan gekk úr dyngjunni, stóð Dísa enn með hnífinn í höndunum og hugsaði. Svo rétti hún úr sér, dró andann djúpt og gekk út á eftir, - ákveðin í því að mæta forlögum sínum.


4. kafli

Skálinn á Grund var mikill og forn. Það var gamalla manna mál, að Sighvatur Sturluson hefði látið byrja á honum, en Þórður kakali, sonur hans, byggt hann að fullu. En síðan hinn síðarnefndi var uppi voru nú um hundrað ár. Skálinn var gríðarlegt gímald. Tvö hundruð manns gátu hæglega setið þar að borðum, lokrekkjur voru þar fjörutíu og þess utan allmörg legurúm óbyrgð. Enginn mundi svo langt, að hafa séð hann fullsetinn mönnum.

Lokrekkjurnar voru inn með báðum veggjum, á bak við sætin, og voru þær allar gerðar af þiljum. Þær voru stórar og rúmgóðar, eiginlega ofurlitlir svefnklefar. Á skálagólfinu endilöngu hafði staðið stó fyrir langelda, en hún hafði verið tekin burtu og öskunni jafnað út yfir gólfið, og var hún nú orðin að harðtroðinni skán. Bitar afar miklir, af brúnhöggnum stórviðum, lágu um þveran skálann, meira en seilingarhæð frá gólfi. Hvíldu þeir á gildum stoðum, sem stóðu í tvöfaldri röð inn eftir gólfinu, beggja megin þar við, sem langeldastóin hafði staðið. Uppreftið var allt úr tegldum viðum. Hafði það verið hið vandaðasta og prýðilegasta, en var nú orðið mjög blakkt af gömlu sóti. Uppi yfir lokrekkjunum voru hælar með öllum syllum til að hengja á tjöld og refla. Gluggar voru hvergi, nema hátt uppi á rjáfrinu; voru það vindaugu, sem lokað var með hlemmum, og lagði úr þeim litla birtu niður í skálann, þótt opnir stæðu. Á öllum stoðum var umbúnaður fyrir blys og kerti, og hafði sýnilega verið við því búist, að skálinn yrði fremur notaður á nóttu en degi. Yfir dyrum lokrekkjanna voru alls staðar snagar fyrir skildi manna og vopn.

Skálinn sneri út og suður, eftir stefnu dalsins. Á austurvegg nærri norðurgafli voru aðaldyr; voru þær nefndar karldyr og ramlega um þær búið. Fremst var skálinn minnst þiljaður, og engar voru þar lokrekkjur; þar hafði þeim einum verið ætlað rúm, sem minnstir voru að mannvirðingum. Innar en við miðju skálans, hægra megin, stóð gamalt öndvegi, svo rúmgott, að þar gátu þrír menn setið samsíða, án þess að þröngt væri um þá. Gagnvart því hafði verið annað öndvegi minna, sem nú var þar ekki lengur.

Innst var skálinn þiljaður sundur upp að bitum, en rjáfrið óskipt. Var þar öðrum megin mjólkurbúr húsfreyjunnar, en hinum megin stúka heimilisprestsins. Milli þessara klefa lágu göng inn í dyngju húsfreyjunnar og nokkur fleiri bæjarhús. Framan við skilrúm þetta voru dyr á vesturvegg skálans, þeim er til fjalls vissi. Var þar afhús lítið og á því útidyr, sem nefndar voru bakdyr. Úr afhúsi þessu voru einnig dyr inn í mjólkurbúrið og eldaskálann, og þar lá timburrenna út gegnum vegginn, sem notuð var til að hella þar út um skolavatni, og kölluðu menn það í skopi "kamaraugað".

Í afhúsi þessu stóð fiskasteinninn. Þar var Skreiðar-Steinn jafnan að verki sínu, og þar var flet hans í einu horninu.

- Um langan aldur hafði skáli þessi sama sem ekkert verið notaður. Ormar höfðu spunnið vefi sína í næði uppi undir rjáfrinu, og þykkt lag af ryki hafði setst á alla bita. Gluggar höfðu sjaldan verið opnaðir, og loftið var svalt og súrt, fullt af mygluþef. Járnin á hurðunum voru ryðguð, og setustokkarnir farnir að fúna.

En nú var gengið að því röggsamlega að fága þar allt og fegra í einni svipan. Gluggarnir voru opnaðir og nýju lífslofti veitt um allan skálann. Allur var hann sópaður, hátt og lágt, hengt upp það, sem enn var til af tjöldum og reflum, langborði slegið upp á miðju gólfi og bekkjum meðfram því og breiddar glitofnar ábreiður á öndvegið. Sængurföt voru borin í allar lokrekkjurnar og tjöld hengd fyrir dyrnar, þar sem ekki voru hurðir fyrir. Það var sem hinn forni, æruverðugi öldungur, sem staðið hafði af sér stórviðburði Sturlungaaldarinnar, yngdist upp við alla þessa búningsbót. Það var sem brosti hann íbyggilega og segði við sjálfan sig: Þetta átti ég eftir að lifa og - ekki víst, að allt sé búið enn.

Helga gekk sjálf að verkinu með griðkonum sínum og skipaði þeim fyrir. Verkið gekk eins og í sögu. Og þegar búnaði skálans var að mestu lokið, festi hún skjaldarmerki Lofts Hálfdánarsonar, afa síns, og Eiríks riddara Sveinbjarnarsonar, tengdaföður síns, á vegginn uppi yfir öndveginu. Þeir, sem inn kæmu, skyldu sjá, að hér byggju engir kotungar.


5. kafli

"Komdu, - komdu!" sagði Snjólfur kanúki við Skreiðar-Stein og ýtti fast í öxlina á honum um leið. "Komdu, komdu!" Og munkurinn baðaði út höndunum og benti í mesta ákafa.

Steinn sat á þófum við fiskasteininn og danglaði á stóreflis þorski, alveg glerhörðum. Bareflið var stærðar steinsleggja, þannig tilbúin, að gat var höggvið gegnum blágrýtishnöllung og skaftinu stungið inn í það. Steinn gamli var mjög elliboginn, magur og kinnfiskasoginn, en hafði gríðarmikið grátt skegg, sem allt var í flókabendu utan um kinnar og kjálka.

"Komdu, - komdu!" endurtók munkurinn og benti til dyranna. En allt kom fyrir ekki. Skreiðar-Steinn var álíka heyrnarlaus og fiskasteinninn, sem hann sat við. Munkurinn mátti ekki heldur tala nema í hálfum hljóðum, því hann vildi ekki, að til þeirra heyrðist inn í skálann, þar sem kvenfólkið var nú að verkum sínum. Hann hafði gert sér í hugarlund, að karlinn skildi sig, án þess að hann þyrfti að orga í eyrun á honum; en það var nú ekki því að heilsa. Skreiðar-Steinn glápti á hann stórum augum, sýnilega líka eins skilningslaus og fiskasteinninn.

Munkurinn leit flóttalega um opnar dyrnar inn í skálann, hvort húsfreyjan eða þernur hennar tækju nokkuð eftir því, sem þeim færi á milli úti í afhúsinu. Þegar hann sá, að svo var ekki, þreif hann handfylli sína í skeggið á Steini og togaði hann til dyranna með sér. Með hinni hendinni ógnaði hann honum og gaf honum í skyn, að ef hann hljóðaði, skyldi hann fá að kenna á öðru þaðan af verra. Steinn afmyndaðist í framan af sársauka og varð eins og píslarvottamyndirnar í skinnhandritunum, sem hljóða af alefli, þó að ekkert heyrist til þeirra. Hann þorði ekki fyrir líf sitt að hljóða.

Þannig teymdi munkurinn hann á skegginu alla leið út í kirkju.

"Hvað á þetta að þýða?" kjökraði Skreiðar-Steinn, þegar munkurinn sleppti honum í kirkjunni. Augun í honum stóðu full af tárum eftir skeggtogunina, og hann var svo reiður, að hann langaði til að ráðast á munkinn og klóra úr honum augun.

"Það skal ég segja þér seinna," sagði munkurinn í eyrað á honum, um leið og hann læsti vandlega kirkjuhurðinni.

"Ha, hvað segirðu? - Seinna?" mælti Skreiðar-Steinn og skalf af reiði. - "Hvers vegna ekki undireins? - - Hvers vegna fæ ég ekki að hafa frið við verk mitt? - ha?"

Munkurinn ýtti honum undan sér innar eftir kirkjunni.

"Ég steindrep þig, lagsmaður, og það hérna í kirkjunni, ef þú lætur mig ekki ráða. Og ég treð upp í túlann á þér, ef þú þegir ekki. - Hefirðu skilið mig?"

"Hvað á þetta að þýða?" Steinn horfði með mestu skelfingu á munkinn og sá það á honum, að honum var full alvara og hann var til alls búinn. Hann vissi, að munkurinn hafði margfalt afl á við hann, svo að ekki mundi mikið tjá að fljúga á hann.

"Heilaga María!" andvarpaði hann og greip höndunum - þessum mögru og löngu beinapípum - fyrir andlitið.

"Já, biddu fyrir þér. Það er aldrei nema gott, - að minnsta kosti skaðar það engan. En hafðu ekki hátt, hvað sem öðru líður. Svona, - sestu nú þarna niður. Burt með hendurnar frá glyrnunum! Vertu ekki að skæla, karlræfill. Ég er ekkert farinn að gera þér enn þá. - Svona nú, - vertu nú alveg kyrr."

Munkurinn tók upp skæri úr pússi sínum og skellti í einni svipan skeggið af öðrum vanganum á Steini gamla.

"Hvað á þetta að þýða?" orgaði Steinn og braust á fætur.

"Finnurðu til af þessu? - Nei, vertu nú kyrr og góður; ég á hinn vangann eftir, - og svo auðvitað hökuna og varirnar. - Svona, - sestu nú niður aftur. - Hlýddu mér!"

Steinn hlýddi og settist niður og var kyrr meðan munkurinn lauk við að klippa af honum skeggið. En hann æpti upp yfir sig af öllum kröftum og ranghvolfdi augunum af ofboði, þegar munkurinn bar hárbeittan hníf að andlitinu á honum.

"Hvað er þetta? - Þorirðu ekki að sjá hnífsegg? - - Heldurðu, að þú deyir af því, þó að hnífsegg sé strokið um vangabjórinn á þér?" kallaði munkurinn í eyrað á honum. "Vertu kyrr og rólegur, - að minnsta kosti þangað til ég kem að tönnunum."

"Tönnunum, - tönnunum! - - Þú ætlar þó ekki að fara að rífa úr mér tennurnar?"

Þótt Skreiðar-Steinn væri nú hátt á sjötugsaldri og margt væri farið að gefa sig í honum, hafði hann allar sínar tennur heilar.

Munkurinn benti honum á tréskurðarmynd af karlmanni, í rauðum og gylltum rómverskum búningi og með stóran, logagylltan geislakrans utan um höfuðið. Hún stóð þar á sérstöku altari.

"Meira en þetta varð hinn heilagi Laurentíus að líða fyrir syndir mannanna," mælti hann.

"Það varðar mig ekkert um," svaraði Steinn gremjulega. "Mig langar ekkert til að líða fyrir syndir annarra. Ég er enginn píslarvottur. - Hvað á annars þetta allt saman að þýða?"

"En þú hefir aldrei liðið neitt fyrir þínar eigin syndir. - Vertu nú alveg grafkyrr. Ef þú hreyfir þig minnstu vitund, getur það orðið til þess, að ég skeri þig til óbóta. Þú mátt ekki hljóða heldur, því að þá hreyfir þú varirnar - ekki kippast við heldur - ekki kveinka þér. Svona áttu að vera, - alveg grafkyrr."

Hnífurinn sneið prýðilega, en eggmjúkur var hann eiginlega ekki, og engin sápa við höndina til þess að gera húðina hálli. Tárin runnu úr augunum á Skreiðar-Steini af sársauka, en hann beit á jaxlinn og hélt niðri í sér hljóðunum meðan hann gat. Loks benti hann þó munkinum að hætta um stund og gefa sér ofurlitla hvíld. Munkurinn gerði það. Hann var farinn að hálfkenna í brjósti um karlinn undir þessu gráa gamni.

"Ég hélt, að ég væri engin kveif," mælti Steinn og skyrpti út úr sér vatninu, sem sigið hafði í munninn á honum, "en þessi fjandi ætlar alveg að fara með mig. Ertu ekki bráðum búinn?"

"Jú, bráðum, - það er að segja með skeggið. - Mundu eftir hinum helga Laurentíusi, sem þessi kirkja er helguð." -

"Mig varðar ekkert um - -."

"Svona. - Vertu nú kyrr!"

Það var ekkert áhlaupaverk að raka Stein gamla. Að vísu hafði munkurinn rutt því versta úr vegi með skærunum, en hitt var þó nógu illt, sem eftir var. Kinnarnar á honum voru þunnar eins og bókfell, kjálkabörðin skörp og hálsinn ekkert annað en æðar og aflsinar. Munkurinn skóf þetta allt saman einkar vandlega, skildi hvergi hár eftir, og strauk að lokum mjúkri hendinni um hvítan bjórinn.

"Þakka þér nú fyrir. Nú er þetta búið."

Skapsmunir Steins gamla höfðu sefast allmikið við allan þennan sársauka. Hann sat kyrr sem áður, þó að munkurinn sleppti af honum hendinni.

"Nú eru tennurnar eftir," mælti hann.

"Tennurnar. - Já, ég held ég láti þig halda þeim í þetta skipti. Er ekki nóg komið?"

"Jú, víst er nóg komið - og það fyrir löngu. En hvað á þetta allt saman að þýða?"

"Smeygðu þér úr fatagörmunum!"

Steinn leit forviða á munkinn og hlýddi síðan umsvifalaust.

"Þarf ég að fara úr öllu?" spurði hann.

"Nei, ekki nema ytri fötunum."

Munkurinn tók einnig að færa sig úr fötunum. Og þegar þeir voru báðir komnir úr, færði hann Stein gamla í munkakuflinn og bretti hettunni fram yfir höfuðið á honum, svo að varla sást í andlitið.

Það af Steini gamla, sem gægðist út úr munkshamnum, líktist ekki nema einu: beinagrind upp úr kirkjugarðinum. Uppandlitið sýndist enn þá blakkara nú, er kjálkarnir voru orðnir mjallahvítir, og augnagjóturnar voru miklu dekkri og shuggalegri en áður. Munkurinn fór nú að færa sig í garma Steins og gat varla varist því að hlæja að þessari sjón, sem frammi fyrir honum stóð. - Steinn hló líka að þessum hamskiptum.

"Hvað á allt þetta að þýða?" spurði Steinn enn þá einu sinni.

"Það á að þýða það fyrst og fremst," mælti munkurinn, "að nú ert þú orðinn munkur og heimilisprestur á Grund, en ég orðinn fiskibarsmíðakarl. Skilurðu nú? - Auðvitað getur enginn munkur verið með gráan skegglubba. Krúnurakaður varstu fyrir, - það er að segja sköllóttur, - svo að nú ertu alveg eins og þú átt að vera. Ég efast um, að heilagir dýrlingar gætu þekkt þig frá reglulegum kanúka."

"En hver er tilgangurinn með þessu öllu saman?"

"Sestu nú niður hjá mér, og svo skal ég segja þér, hvernig í öllu þessu liggur."

Hann sagði nú Skreiðar-Steini allt, sem hann vissi um komu Sunnlendinga og viðbúnaðinn á Grund. Steinn hafði komist að því, þótt hann sljór væri, að eitthvað óvanalegt var í efni. Nú skýrði munkurinn þetta allt fyrir honum og bætti síðan við:

"Húsmóðirin hefir skipað mér að hafa opna kirkjuna og vera hér sjálfur til að taka við þeim, sem hingað kunna að leita. Og hún lítur eftir því, að ég geri það. En ég vil vera henni sjálfri nálægur. Og ég get það ekki, nema ég sé ósýnilegur í minni sönnu mynd. Þú skilur það, karltetur, sem einu sinni hefir þó verið maður, að ég hefi ekki skap til að húka hér úti í kirkju, en vita menn berjast í skálanum. - Húsmóðirin gengur djarft í hættuna og ætlar sér kannske helst til mikið. Henni skal ekki verða misboðið í neinu, meðan ég má mín nokkurs. Snjólfur kanúki mundi fljótt verða hrakinn í burtu, en við Skreiðar-Steini mun enginn maður amast. Nú bind ég mér grátt skegg, fer í garma þína og sit í sæti þínu. Þá er ég ekki húsmóður minni fjarlægur -- og get kannske orðið henni að liði."

"En hvern þremilinn á ég að gera hér?"

"Ég sagði þér það áðan. - Þú átt að vera heimilisprestur á Grund."

Steinn ætlaði að springa af undrun:

"Ég -? - Heimilisprestur -?"

"Já, rétt til morguns. - Heldurðu ekki þú lifir það af?"

"Ég, - sem ekki kann að lesa."

"Lesa -! Heldurðu, að allir prestar nú á dögum kunni að lesaa - Ég treysti mér til að troða í þig einhverjum latínuþulum utanbókar, ef aðeins væri tími til þess. - Líttu nú á, hérna er "breviarium" - -."

"Er - hvað -?"

"Bre-vi-a-ri-um" stafaði munkurinn hægt og skýrt í eyrað á honum. "Það gerir ekkert til. Þú getur ekkert í því lesið hvort sem er. Það er allt á latínu. Þú getur stytt þér stundir við að skoða í því upphafsstafina. Líttu á. Þeir eru snilldarvel gerðir. - Þú átt að láta það liggja opið fyrir framan þig á altarinu og fletta því við og við. Svo geturðu sönglað eitthvað í hálfum hljóðum. - Eitthvað, sem þú kannt."

"Ég kann ekkert, alls ekkert, - eitthvert hrafl úr Helga kviðu Hundingsbana - -."

"Nei, sussu nei, - í öllum bænum. Það stoðar ekki."

"Auðvitað of óguðlegt?"

"Nei. - En það verður að vera eitthvað, sem enginn skilur. Mundu eftir því, að það á að vera latína."

"Latína -? Já, einmitt það."

"Sönglaðu eitthvað, - einhverja vitleysu. Um að gera, að enginn skilji það, - enginn hafi hendur á því. Þá er það latína - handa almenningi. - Kanntu enga latínubæn?"

"O-h, blessaður vertu. - Einhverju var verið að stagla í mig, þegar ég var strákur, en - ég er búinn að steingleyma því."

"Kanntu ekki Ave Maria?"

"Hvernig er það?"

"Ave, Maria, gratia plena, dominus tecum - -" stafaði munkurinn aftur í eyra honum.

"Jú, eitthvað rámar mig í þetta."

"Nú, þá er þér borgið. - Nú skal ég fríska þetta upp fyrir þér. Svo getur þú stagast á því - og fyllt svo út eyðurnar með einhverjum þvættingi úr sjálfum þér."

Munkurinn hafði nú upp nokkrum sinnum Ave, Maria, orð fyrir orð, og lét Stein hafa hvert orð upp eftir sér, þangað til hann var farinn að liðkast talsvert í bæninni.

"Nú skal ég kenna þér meira," mælti munkurinn. - "Notaðu nú einhver af orðunum í þessari einu þulu, sem þú kannt, fyrir upphafsorð, syngdu þau svo hátt og skýrt, að nokkurn veginn heyrist orðaskil. Síðan geturðu dregið svo niðri í þér, að ekkert skiljist, og þá er sama, hvað þú segir. Þetta er gamalt bragð klerka, sem illa kunna. Best, auðvitað, að þessi fáu orð, sem heyrast, séu úr einhverri latínuþulu. - En mundu eftir einu. Þú þarft ekki að syngja, nema einhver heyri til þín."

"En - ef einhver skyldi nú koma, sem þyrfti að halda á verulegri prestsþjónustu, - til dæmis einhver, sem særður væri til ólífis -?"

"Ef hann er hreint að drepast, þá geturðu sullað olíunni á ennið á honum og hellt ofan í hann vænum sopa af rauðvíni, - það er hvort tveggja hérna inni í altarinu. Þetta er olían, og þetta er rauðvínið. - Svo geturðu þulið eitthvað yfir honum, - eitthvað hjartnæmt, - sem enginn skilur, auðvitað, og verið yfir honum meðan hann gefur upp goluna. - Nei, þú mátt ekki drekka rauðvínið sjálfur - -."

"En - allir Eyfirðingar þekkja mig - -."

"Eyfirðingar -," sagði munkurinn og rak upp stór augu. - "Eyfirðingar -! - - Heldurðu, að Eyfirðingar flýi í kirkjuna! Nei, það gera ekki aðrir en Sunnlendingar að þessu sinni. Það máttu reiða þig á, að nú verður saumað að þeim kóngsmönnum svo, að þeir, sem ekki verða strádrepnir, kunna að verða kirkjugriðunum fegnir, og það er þeirra vegna, sem kirkjan er höfð opin. Og Sunnlendingar þekkja þig ekki."

Skreiðar-Steinn þagnaði og hugsaði um þetta veglega og vandasama hlutverk, sem honum hafði verið fengið. Munkurinn hélt áfram:

"Vertu nú trúr og reyndu að gera þetta svo, að ekki verði uppvíst fyrr en seinna. Ég efast ekki um, að húsfreyjan verði þér þakklát fyrir það, og ég skal muna þér það lengi. Ef þú dugar vel í nótt, skal ég sjá þér fyrir hægari vinnu eftirleiðis en þeirri, sem þú hefir hingað til haft."

Steinn virtist hlusta á það, sem munkurinn sagði, eins og í draumi, en þegar munkurinn minntist á vinnu hans, var sem hann vaknaði.

"En - harðfiskinn - -? Hvernig fer um hann?"

"Harðfiskinn ætla ég að berja."

"Þú -?" Andlitið á Steini varð allt að einu spurningarmerki.

"Já, ég -! Finnst þér það nokkur undur? - Eða heldurðu, að ég þykist of góður til þess?"

"Nei, þú kannt ekki að berja harðfisk."

"Jæja, heldurðu það?" mælti munkurinn hálfhissa.

Skreiðar-Steinn rétti úr sér, eins og siðameistari, sem finnur mikið til yfirburða sinna.

"Húsfreyjan er vandlát," mælti hann. "Það er meiri vandi en þú heldur að berja fiskinn á Grund. Þú kannt að þylja latínu betur en ég, en þú kannt ekki betur að berja harðfisk en ég."

"Ég tek þakksamlega allri tilsögn," mælti munkurinn og brosti.

En Steini gamla var full alvara.

"Fyrst á að leggja fiskinn flatan á steininn," mælti hann, "og berja hann með þéttum, jöfnum höggum, undur hægt, svo að fiskurinn hrökkvi ekki upp úr roðinu. Hann má ekki molna, þó að hann sé alveg glerharður. Það verður að mýkja hann - ofurgætilega - gleyma ekki þunnildunum, og umfram allt ekki eyruggunum og dálkstirtlunni. Allt á að berja jafnvel. Svo þegar fiskurinn fer að mýkjast, á að leggja hann tvöfaldan saman og berja hann á roðið. - Berja hann undur hægt, en fylgja höggunum vel eftir, - sjá um það, að ekkert detti úr honum. Berja hann svo, að hann verði allur lungamjúkur. - Ef þú lætur nokkurn mola upp í þig, þá færðu ekki mat þann daginn. Og húsfreyjan vill ekki sjá neina mylsnu kringum steininn."

"Gott og vel. - Er það meira?"

"Ef fiskurinn er ekki svo vel barinn sem húsmóðurinni líkar, þá færðu utan undir með honum, - og svo verður þér skipað að bæta um hann á hvíldartímanum þínum. - Ég þekki þetta - því miður - af eigin reynslu."

"Jæja, - vertu nú sæll, karltetur, og hafðu engar áhyggjur af fiskinum, sem ég ber. - Mundu nú eftir því að gegna prestsembættinu trúlega."

"Og mundu eftir að berja fiskinn vel. - Ekkert má hrökkva úr honum - og hann á að vera lungamjúkur - allur saman - lunga-lungamjúkur."

Á þessu var Skreiðar-Steinn enn að stagast, þegar munkurinn var kominn út úr kirkjunni.

Um kvöldið, þegar Helga húsfreyja gekk um allt, úti og inni, til að líta eftir, hvort allt væri nú eins og hún hafði fyrir lagt, leit hún einnig inn í kirkjuna.

Þar hallaðist "munkurinn" fram á Maríu-altarið, fletti messubókinni og sönglaði eitthvað í hálfum hljóðum. -

Munkakuflinn þekkti hún, en undarlega fannst henni hann fara um herðarnar, og eins kom henni það undarlega fyrir. að munkurinn hafði hettuna fram yfir höfuð, er hann stóð fyrir altarinu.

Þegar hún gekk fram hjá fiskasteininum, sat "Skreiðar-Steinn" þar með síðan flókahatt, togaðan fram yfir andlitið, eins og hann var vanur. Hún leit skarpt á hann, um leið og hún gekk fram hjá. - Hendurnar voru nægilega blakkar og höggin nægilega lin og letileg. - En undarlega var Steinn orðinn breiðleitur.

Hún brosti við og þagði.



6. kafli

Borðið stóð dúkað góðri stundu áður en Sunnlendingar komu. Silfurbúin dýrahorn stóðu full af svalandi miði fyrir sætum allra virðingarmanna. Knífar og forkar voru lagðir hjá hverjum diski. Mundlaugar með hreinu vatni höfðu verið bornar inn í hverja lokrekkju. Hvert, sem litið var, var allt veislubúið, allt dubbað og dýrlegt, ríkmannlegt og rausnarlegt. Þannig stóð það og beið gestanna.

Lengi hafði sést til þeirra. Frammi í Eyjafjarðardalnum þyrluðust upp feikimiklir jóreykir, sem boðuðu komu þeirra, góðri stundu áður en nokkur maður sást. Síðan sást öll sveitin ríða í þéttri þyrpingu framan sléttar grundirnar og fara allgeyst. Hjálmar og skildir blikuðu, fjaðraskúfar blöktu og spjótaoddar brunnu sem blys í skini kvöldsólarinnar, sem nú var að setjast bak við himinháar fjallabrúnir í vestrinu. Skammt suður frá bænum slógu þeir tjöldum og sprettu af hestum sínum. Þar tóku þeir á sig viðhafnarklæði sín, og þar skildu þeir eftir nokkra menn til að gæta hesta og tygja. En rúmir þrír tugir manna gengu fylktu liði heim til bæjarins, allir í litklæðum, allir alvopnaðir og allir í brynjum undir kyrtlunum.

Helga stóð úti, þegar þessi glæsilega ræningjasveit gekk í hlaðið. Hún var í kyrtli bláum og hafði yfir sér skarlatsrauða skikkju, lagða hvítum marðarskinnum um kraga og barma. Steinasörvið blikaði sem hálfkulnaðar glæður á mjallhvítum hálsinum, og silfrið skein eins og speglar á breiðum og hvelfdum barminum. Ennisspöngin reis tignarlega úr dökku hárinu, eins og blikandi jökulskör yfir úfnum hraunsjó, og guðvefjarslæðan liðaði sig fagurlega ofan um axlir og herðar utan yfir hárinu, eins og þýð sumarmóða. Kyrtilermarnar voru víðar, saumaðar allt í kring með silfurrósum. Mjallhvítir, holdugir handleggir sáust upp undir axlir, margbentir gildum baugum. Hendurnar voru vöðvaþéttar og mjúkar, fingurnir jafnt framdregnir og fingurgull á hverjum fingri. Sproti stokkabeltisins náði allt í skaut niður, og undan rósasaumuðum kyrtilfaldinum sá á nettan fót, með silfursylgju þvert yfir ristina.

Hún gekk nokkur spor á móti Smið hirðstjóra og rétti honum hönd sína. Svipur hennar var harður og göfugmannlegur, og kenndi þar engrar auðmýktar. Fas hennar og látbragð var meira en húsfreyjulegt; það var drottningarlegt, - arfurinn frá Oddaverjum.

Smiður laut henni djúpt á hermannavísu, tók um hönd hennar og bar hana upp að vörum sér. Hvorugt þeirra mælti orð frá munni fyrst í stað. Menn hans stóðu hljóðir, - gagnteknir af þessari opinberun kvenlegrar fegurðar, kvenlegrar auðlegðar, kvenlegrar kurteisi og kvenlegrar stórmennsku.

Smiður Andrésson bar af mönnum sínum, ekki svo mjög að klæðaburði, heldur að vexti og framgöngu. Hann var hvasseygður og svipmikill, ekki fríður að vísu, en vel limaður og allur vel á sig kominn. Seinn var hann til svara, og var sem hann vægi orðin. Andlitið var þreytulegt, mótað af hörku og viljamagni, ástríðum og ofnautn. Allur minnti hann meira á sjóræningja en hirðstjóra á landi og handhafa konungsvaldsins.

"Ég þykist sjá, að þér séuð Smiður hirðstjóri," mælti húsfreyjan hægt og hóglega. "Hér er yður fyrirbúin gisting með svo marga menn, sem þér viljið með yður hafa og hús mín geta veitt skýli. Ég vona, að þér afsakið það, sem á kann að bresta sæmilegar viðtökur, og hafið það hugfast, að hér eruð þér ekki í kóngsgarði, heldur á norðlenskum bóndabæ."

Smiður þakkaði henni kuldalega og hæversklega fyrir boðið og mælti síðan:

"Svo er að sjá, sem yður hafi komið frétt af ferðum vorum, húsfreyja."

"Ekki er því að neita," mælti húsfreyjan og brosti við. "Lögréttumenn, sem að sunnan komu, kváðu yðar von norður. Ég gat mér til, að þér munduð ríða Vatnahjallaveg, og gerði yður dagleiðir. Nú sé ég, að áfangar mínir hafa reynst nærri sanni. Sjálfsagt stendur yður nú veisla fyrirbúin í öðrum dölum Norðurlands, og kannske ríkmannlegri en hjá mér. Eigi að síður veitist mér nú sá heiður að hafa yður að gesti mínum fyrst allra Norðlendinga. - Gerið svo vel að fylgja mér í hús mín, sem nú standa yður og mönnum yðar opin."

Hún tók Smið við hönd sér og leiddi hann inn í skálann og þegar til öndvegisins. Menn hans gengu á eftir.

"Þetta sæti er yður fyrirhugað," mælti hún. "Síðan bið ég yður að skipa mönnum yðar sjálfur til sætis, því að ekki er mér kunnugt um mannvirðingar þeirra."

"Það mun ég gera að vilja yðar," mælti Smiður hæversklega. "En fyrst vil ég biðja yður að gera mér þann heiður að sitja hjá mér í öndveginu."

"Þar mun einhver manna yðar verðugri til," mælti Helga með hæverskulegri undanfærslu. "En þér hafið húsbóndavöld meðan þér dveljið hér, og þyki yður nokkurs um vert, skal þetta látið eftir. - Mundlaugar standa mönnum yðar fyrirbúnar í öllum lokrekkjum, og þar geta þeir lagt af sér vopn sín og herklæði, ef þeir vilja, áður en þeir ganga til borðs. - Nú skal ég kalla á þernur mínar, mönnum yðar til aðstoðar."

Við bendingu húsfreyjunnar gekk allur kvennaskari hennar inn í skálann.

Þær voru allar prýðilega búnar og báru slíkt skart og kvensilfur, að enginn hafði séð slíkt fyrr á griðkonum. Rjóðar voru þær og feimnar, er þær komu fyrst inn, og sumar virtust nokkuð óstyrkar og kvíðandi. Húsfreyjan bað þær fylgja hverjum manni til þeirrar lokrekkju, er hann vildi sér sjálfur kjósa, og hjálpa þeim til að þvo sér og greiða.

Smiður hafði litið yfir allan skálann, er hann kom inn, og sömuleiðis hið ríkmannlega búna borð, og ekki látið sér um neitt finnast. Svo var sem fyndist honum slíkur viðbúnaður skyldur og sjálfsagður, er slíkir höfðingjar voru á ferð. En þegar þjónustustúlkurnar komu inn, svo búnar sem þær voru, var sem hann sæi meira en hann hefði búist við. Hann starði undrandi á þennan fríða hóp þjónustusamra anda, sem nú dreifði sér um salinn á meðal manna hans. Einhverju óvæntu skaut upp í huga hans, sem lýsti í augum hans og setti blæ á svip hans. Hann þagði um stund, en það var sem nýtt líf færðist um hann allan.

Húsfreyjan stóð við hlið hans og las svipbrigði hans.

"Þér eruð kvenmargar heima fyrir, húsfreyja," mælti hann.

"Það er ég venjulega," mælti Helga. "En nú ber meira á því en vanalega, þar sem engir karlmenn eru heima. Bóndi minn er ekki heima og engir karlmenn, sem teljandi séu."

"Einar bóndi mun þurfa manna sinna við til fylgdar sér, er hann ríður milli búa sinna," mælti Smiður og glotti við.

"Einar bóndi minn er stórættaður og vill halda við höfðingsskap feðra sinna," mælti Helga skarpt og fast. "Þess vegna verðið þér nú að una þeirri gestrisni, sem við konur einar getum veitt."

"Ekki mun ég sakna þess, þótt bóndi þinn og húskarlar hans séu ekki heima," mælti Smiður og glotti við sem áður. "Ef til vill hitti ég hann síðar og næ þá að kynnast honum - á Alþingi, ef ekki annars staðar. Og síst mundi mér auðnast svo náið samneyti við yður, sem ég geri mér von um að verða aðnjótandi, ef hann væri heima."

Helga beit á vörina og brosti íbyggilega:

"Þegar bóndinn er ekki heima, ber húsfreyjunni að gegna gestrisnisskyldu hans, - að svo miklu leyti sem hún er fær um. Og ekki skal ég láta mitt eftir liggja." Síðan leit hún fast á hirðstjórann og bætti við: "En þess vænti ég fastlega, að engum yfirgangi beitið þér eða líðið mönnum yðar að beita við oss varnarlausar konur. Vitið það, að Norðlendingar eru menn stórgeðja og vandir að sóma sínum, og svo eru konur þeirra líka og engu síður. Þeir mundu hefna þess grimmilega, ef oss konum væri ofbeldi sýnt, hverjir sem í hlut ættu og hverjar sem afleiðingarnar yrðu. Og við konur mundum ekki letja þá."

Smiður hlustaði á orð hennar með köldum þóttasvip og íbyggilegu glotti og mælti síðan:

"Ekkert er oss slíkt í hug, og ekkert er oss fjær skapi, kóngsmönnum, en ef það skyldi af ferðum okkar spyrjast, að við níddumst á konum. - Hitt er annað mál, að kvenhylli hefir föruneyti mínu aldrei brugðist, hvar sem við höfum komið. Og heldur mundi mér þykja bresta á gestrisnina á Grund, ef húsfreyjan meinaði þernum sínum að umgangast menn mína til almenns mannfagnaðar, - þótt hætt kynni að vera við, að einhver þeirra yrði fyrir örvum hins blinda ástarguðs. - Þar sem vér höfum áður gist, hafa konur jafnan þjónað oss til sængur, og það eins, þótt gnægð karlmanna hafi verið heima."

"Svo skal einnig verða hér," mælti Helga. "Griðkonur mínar eiga sig sjálfar, eftir að dagsverkum þeirra er lokið, og ábyrgjast sig sjálfar. Hvernig þær haga sér gagnvart mönnum yðar, get ég ekki fremur ráðið við en þér getið við það ráðið, hvernig þeir koma fram, hver í sínu lagi. Aðeins vil ég, að við beitum myndugleik okkar, hvort í sínu lagi, til að viðhalda almennu velsæmi. Þess get ég krafist að launum fyrir gestrisni mína."

"Menn mínir eru velsæmi vanir," mælti Smiður, með sömu hægð og áður. "Enginn mun ræna hér eða stela, og enginn mun beita hér ofríki eða ójöfnuði. En hvað menn mínir kunna að hvísla í eyru griðkvenna yðar, læt ég mig litlu skipta. Það fer ekki fleiri á milli en það, sem ég kann að hvísla í eyru yðar, er þér fylgið mér til sængur. - Því að þá sæmd vona ég, að þér gerið mér sjálf."

"Þeirrar sæmdar ann ég ekki neinni af þjónustustúlkum mínum," mælti Helga og glotti við. "En þér hafið enn ekki notað mundlaug, herra minn. Lokrekkja bónda míns stendur yður til reiðu. Má ég ekki fylgja yður þangað?"


7. kafli

Á meðan húsfreyjan sinnti hirðstjóranum, höfðu griðkonur hennar greitt fyrir mönnum hans. Flestir höfðu nú þegar lokið við að þvo sér og komu greiddir og stroknir út úr lokrekkjunum, búnir til að setjast að borði. Allir höfðu látið eftir vopn sín þar inni, og flestir herklæði sín eða nokkuð af þeim, því að óhægt var mönnum að setjast að borði í þeim. Flestir höfðu aðeins pansara. Virðingamenn einir báru hringabrynjur og brynhosur og báru þær undir litkyrtlunum. Ekki var því eins auðvelt að færa sig úr þeim, enda var mönnum liðugra um allar hreyfingar í þeim hlífum en hinum. Pansarinn var ósveigjanlegur sem klakastakkur, en hringabrynjan lagaði sig hvarvetna eftir líkamanum.

Auk Smiðs hirðstjóra voru þeir helstir virðingamenn í flokknum Jón Guttormsson lögmaður, sem einnig var almennt kallaður Jón skráveifa, og Ormur Snorrason, fyrrverandi lögmaður sunnan og austan. Hann var enn þá ungur að aldri, þótt hann væri meira en fullvaxta, en mikils metinn sökum auðs síns og ættgöfgi.

Þessir tveir menn voru svo ólíkir, að erfitt var að skilja, að þeir ættu báðir heima í sama flokki.

Jón skráveifa bar það með sér, að hann var hvort tveggja í senn vesalmenni og varmenni, enda þótti hann hafa kynnt sig að hvoru tveggja. Ýmsu voru menn vanir af höfðingjum þeirrar aldar, en svo hafði rángirni hans og yfirgangur gengið fram af mönnum, að árið áður höfðu Norðlendingar gert samblástur móti honum og rekið hann aftur frá yfirreiðum sínum. Þá hafði hann hrökklast suður á land við lítinn orðstír. Nú var það á allra manna vitorði, að það var hann, sem rægt hafði frá lífi Árna Þórðarson, og hitt líka, að hann réð til þessarar norðurreiðar við fjölmenni, til að ná sér niðri á Norðlendingum og reka þar harma sinna. Smiður var Austmaður og hér öllum mönnum ókunnur, og hafði það eitt sér til óhelgi unnið að hlýða ráðum Jóns. Allir væntu fremur góðs en ills af honum, ef honum gæfist betri ráðunautur. Allir vissu, að vegna Jóns var flokkurinn hataður, og vegna hans eins fór hann yfir landið eins og svipa guðs: rænandi og ruplandi, særandi og svívirðandi, hvarvetna með blóðug spor að baki sér. Jafnvel í sjálfum flokknum var hann hataður, þótt menn óttuðust hann meira en svo, að menn þyrðu að láta tilfinningar sínar í ljós. Allir, nema Smiður sjálfur, sem blindaður var af trausti á honum, kviðu því, að fyrr eða síðar stæði flokknum einhver mikil óhamingja af honum.

Jón var hár maður vexti, en mjór og lotinn, og bar illa hin góðu herklæði. Illa var hann limaður og allur linmennskulegur. Andlitið var þunnleitt og holdskarpt, með djúpar skorur milli augnanna og poka undir augunum, eins og langvarandi uppdráttarsýki hefði sett á það einkenni sín. Augun voru lítil og lágu innarlega; augnaráðið myrkt, tortryggnislegt og fullt fláttskapar. Gjarnt var honum að líta út undan sér, eins og hann ætti jafnan von á einhverju aftan að sér. Allur bar svipurinn vott um eitthvert rándýrseðli: hóflausa sjálfselsku, logandi fýsnir og miskunnarlausa grimmd. Honum var það vel kunnugt, að fáir voru þeir - ef nokkrir voru -, sem höfðu mætur á honum. Hann var fyrir löngu hættur að vonast eftir því, að nokkur mannleg vera elskaði hann. Nú lét hann sér nægja það, að menn hræddust hann og hlýddu honum. Hann fann kuldann og hatrið leggja á sig úr hvers manns augum; það sakaði ekki, ef þrælsóttinn yfirgnæfði. Ef til vill væru allir þessir menn, sem á honum héngu og áttu honum upphefð sína að þakka, hatursmenn hans, ef til vill sætu þeir allir á svikráðum við hann. Það gerði ekkert til. Meðan hann gat notað þá fyrir böðla á aðra, meðan hann hélt hlífiskildi yfir ránum þeirra og ólifnaði, á meðan þeir gátu auðgast og svallað í skjóli hans, - á meðan voru þeir honum trúir. Þegar honum byði svo við að horfa, sparkaði hann þeim og réði sér aðra menn. Valdið eitt var það, sem hann þyrsti eftir, valdið, sem svalað gæti öllum hans ástríðum, traðkað öllum hans óvinum, launað hans fáu, trúu vinum og hulið glæpi hans með gulli og gersemum. Aldrei hafði það náð meiri blóma en nú. Þessu valdi þjónaði nú Smiður hirðstjóri.

Þetta var sá eldur, sem brann í blóði Jóns skráveifu, sá ormur, sem nagaði hann innan og gerði hann magran og tærðan.

Ormur Snorrason var þessum manni harla ólíkur. Hann var maður fríður sýnum, ljóshærður, fullur að vöngum og sléttleitur, vel vaxinn og vel limaður og allur hinn svipfríðasti og drengilegasti. Hann var stilltur í framgöngu, en þó hinn djarfmannlegasti. Það leyndi sér ekki, að hann horfði hátt til fjár og metorða, en hitt ekki heldur, að hann mat mikils sóma sinn. Nú hafði hann verið utan og verið með konungi, því að þangað stefndu allra framgjarnra manna augu, sem konungsvaldið var. Þar hafði honum verið fyrir lagt að styrkja og staðfesta veldi Smiðs hirðstjóra á Íslandi. Það átti hann að vinna sér til konungshylli. Og orð sitt vildi hann ekki brjóta, þótt ekki væri hann blindur fyrir framferði og félagsskap Smiðs og sæi einnig vel, hve óvænlega þetta horfði. Hann reyndi að beita áhrifum sínum á Smið til góðs, en varð lítið ágengt. Þeir Jón skráveifa og Smiður áttu betur en svo skap saman, að orð hans fengju mikla áheyrn. Hann vissi vel, að engan mann hataði Jón svo í flokknum sem hann, og engum mundi hann vilja vinna meira ógagn. Ekki óttaðist hann "Skráveifuna", heldur fyrirleit hana; en ekki vildi hann að heldur slíta við þá félagsskap.


8. kafli

Skálinn fylltist af vínilm og matareim. Griðkonurnar voru að bera mat og mungát inn á borðið. Húsfreyjan gekk um og leit eftir öllu. Stúlkurnar voru orðnar upplitsdjarfari en þær höfðu verið í fyrstu. Þær voru kvikar á fæti og snarar í snúningum. Allar hreyfingar þeirra báru vott um glaðværð og léttlyndi. Þar var dans í hverju spori. Þær smeygðu sér liðlega inn og fram milli gestanna, sem voru á reiki um skálann, brostu hlýlega til þeirra og litu feimnislega niður fyrir sig, ef þær mættu augum þeirra. Þær sóru sig prýðilega í ættina við fyrstu móður sína, Evu. Húsmóðirin gaf þeim auga og líkaði ágætlega við þær.

Jón skráveifa reikaði meðal annarra fram og aftur um skálann. Hann skimaði tortryggnislega út í hvern krók og kima, eins og hann ætti von á því, að her manns lægi þar falinn. Hann nam staðar við dyrnar, sem lágu fram í afhýsið, og horfði hvasst á manninn, - ef mann skyldi kalla -, sem þar húkti og danglaði á harðfiskinum með hægum, afllausum höggum. Hann virtist vega hann og meta, hvað hann mundi vera gamall og hvað mikill dugur mundi vera eftir í honum. Þetta var eini karlmaðurinn, sem fyrir hann hafði borið á Grund. Og ekki leist honum hann hættulegri en svo, að þrjátíu manns mundu fá ráðið við hann. Hann sneri aftur inn í skálann án þess að gefa "Skreiðar-Steini" frekari gaum.

"Því er líkast, sem við séum komnir hér í nunnuklaustur," mælti hann í eyra Smiðs hirðstjóra.

"Láttu þér vænt um þykja," mælti Smiður háðslega. "Nunnur eru öllum konum fýsilegri til faðmlaga. Og svo ert þú veraldarvanur, lögmaður, að ekki mun þér þykja sigurinn sætur, ef engin er fyrirstaðan."

Jón lét sem hann heyrði ekki gamanyrði hans.

"Mér segir svo hugur um, að hér búi eitthvað undir," mælti hann myrkur á svipinn.

"Ætíð sérðu illar vættir í hverju horni," gegndi Smiður glaðlega. "Hvað ætti að búa hér undir? Ertu hræddur við munkana hinum megin við ána? Eða við hvað ertu hræddur? Það hélt ég ekki, lögmaður, að þér lægi heyvisk í hjartastað. Nú er ekki margt manna heima um Eyjafjörð. Ég hefi sannfrétt, að Einar bóndi er vestur á landi með alla menn sína. Og Þorsteinn Eyjólfsson býr nú skip sitt í snatri úti á Eyrum og hyggur á það eitt að vera lagður frá landi áður en vér komum. Það hefi ég líka sannfrétt. Eða heldurðu ekki, að honum sé það hollast? - Við hvað ertu þá hræddur?"

"Oft býr kalt undir kvennablíðu," mælti Jón og vildi ekki fyllilega gleðjast láta. "Mér þykja viðtökurnar hér helst til vel undir búnar."

"Kvenfólkið, vinur minn! - Eins og það verði ekki fegið slíkum gestum sem við erum? - Heldurðu ekki, að því finnist hátíð að þjóna oss til borðs og sængur hjá pví, sem þær eru vanar? Líttu á, hve léttstígar þær eru. Kveneðlið er jafnan sjálfu sér líkt. Meiri glæsimenni en hér eru inni hefir aldrei fyrir þessar konur borið. Vertu viss um, að ekki hlakka þær minna til næturinnar en við. - Ég hefi fyrr til kvenna komið. - Hengdu nú ekki hausinn niður eins og kerling, herra lögmaður. Berðu þig höfðinglega og reyndu að ná í eitthvert af þessum fögru, forboðnu aldinum, sem sveigja hér greinarnar, og kreista úr þeim hinn sæta safa."

Jón skráveifa rétti úr sér, en varp þó enn þungt öndinni. Hann fann, að orðum varð ekki komið við hirðstjórann að þessu sinni til að vekja hjá honum tortryggni. Hann var í slíku skapi, að hann sá ekkert annað en munað og lífsgleði.

Og Smiður var annars hugar en að hlusta á áminningar og aðvaranir. Hann hafði ekki augun af húsfreyjunni, sem stóð skammt frá honum og skipaði fyrir verkum með hógværum myndugleik. Hann laut að eyra Jóns og hvíslaði:

"Líttu á þessa! Húsfreyjuna. Hvar hefirðu séð vænni konu? Drottningarþótti. - Ættgöfgisstórmennska. - Vafin gulli og silfri og dýrum feldum. - Þessi kona lætur ekki smámennum fang sitt falt, - en vel mundi hún láta fara um þann, sem hún hallaði að brjósti sér. - - Þessa óvinnandi borg ætla ég að vinna í nótt."

Jón var hættur að horfa á húsfreyjuna og hlusta á hirðstjórann. Dísa litla hafði gengið fram hjá og orðið fyrir augum hans. Hann fylgdi henni nokkur spor eftir til þess að missa ekki sjónar af henni. Smiður sá, hvað hann hafðist að, og glotti í kampinn.

Dísa fann þessi myrku, hvössu augu hvíla stöðugt á sér og líkt og borast inn í sig. Hún þaut inn og fram í hálfgerðu fáti og vissi ekki, hvað hún átti af sér að gera. En eitt sinn gekk lögmaðurinn í veg fyrir hana og neyddi hana til að nema staðar.

"Ég vona, að þú gerir mér þá gleði," mælti hann blíðlega, "að sitja hjá mér við borðið og skenkja á hjá mér. Ég sit næstur hirðstjóranum."

Augu Dísu fylltust af tárum. Hún leit eldsnöggt allt í kringum sig, hvort sér kæmi engin hjálp. En hún kom ekki auga á neitt, nema andlit húsmóður sinnar, hart og vægðarlaust. Og frammi fyrir henni stóð lögmaðurinn og beið eftir svarinu.

"Já," sagði hún svo lágt, að varla heyrðist.

"Og svo vona ég, að þú fylgir mér til sængur í kvöld."

Dísa var orðin kafrjóð og gat engu orði upp komið. Hún fann eitthvað mjúkt strjúkast um kinnina á sér um leið og hún skaust fram hjá. Það var hönd lögmannsins.

Ormur Snorrason hafði einnig nánar gætur á því, sem fram fór í skálanum. Og þegar hann sá, að Smiður hirðstjóri var laus við lögmanninn í bili, gekk hann til hans og mælti hljótt við hann.

"Ef þér viljið á orð mín hlýða, herra hirðstjóri, vildi ég ráða yður til að áminna menn okkar um að gæta sér hófs í öllu og sýna það, að þeir séu vaxnir því að veita höfðingjum föruneyti. Yðar orð taka þeir betur til greina en okkar hinna."

"Hvað eigið þér við?" mælti Smiður kuldalega og lést ekki skilja.

Ormur varð alvarlegri og einbeittari við undirtektir hans og mælti nokkru fastar en áður:

"Ég á við, að menn vorir láti sín ekki freista of mjög til víns og kvenna. Ég á við, að vér sjálfir og menn vorir sýnum það, að vér séum mannfagnaði og góðum viðtökum vaxnir og kunnum góðra manna hegðan, svo að vér vinnum oss fremur virðingu en fyrirlitningu, einnig í hóp ókunnugra kvenna. Ég á við, að vér sýnum það einnig í gleðinni, að vér séum herrar sjálfra vor, en ekki böðlar."

"Vel farast yður orð," mælti Smiður með kuldaglotti. "En ekki mun ég meina mönnum mínum að gleðjast, þegar gleðin býðst þeim. Svo marga erfiða stund hafa þeir með mér þolað á sjó og landi, og nú síðast uppi á reginöræfum, að illa væri það gert að hamla nú gleði þeirra eina kvöldstund. Að þeirri gleði, sem þeir njóta hér, eiga þeir að búa, hvað annað sem okkur kann að mæta á yfirreiðinni um Norðurland."

"Taumlausir gleðimenn eru oftast bleyðimenn í bardögum og mannraunum. Ekki kæmi mér það á óvart, þótt linir yrðu þeir til sóknar næstu dagana, sem gleymdu sér í gleðskapnum í kvöld."

"Ekki óttast ég það. Þeim höfðingja eru engir menn fylgisamir til lengdar, sem ekki leyfir þeim að njóta gleði sinnar í ríkum mæli. Sameiginleg glaðning og sameiginlegar þrautir, sem hvort tveggja gengur á fremsta hlunn, eru það eina, sem tengir menn óslítandi böndum. - Þér eruð illa til höfðingja fallinn, Ormur. Þér hafið kvennaskap. Allt of mikil samviskusemi er ekki leiðin til valda og vegsemdar."

"Vera má, að svo sé," mælti Ormur, og var honum nokkuð farið að þykkna í skapi. "En vitið þér, herra, hver sú gleði er, sem menn okkar sækjast eftir? - Hún er dýrslegt æði, svölun hinna örgustu fýsna í drykkjuskap, ástum, ránum og blóði. Að svala slíkum þorsta til fulls, er yður um megn. Allt Ísland mundi ekki hafa konur og vín og gull svo að nægði. Og hvert verður svo græðginni snúið, er yður brestur mátt til að afla henni saðningar? Á sjálfan yður, herra. - Beislið varginn, áður en hann er vaxinn yður yfir höfuð. Látið menn yðar kenna á myndugleik yðar í kvöld og haldið þeim í skefjum. Þá mun ferð okkar verða öll betri."

Smiður horfði á hann háðslega og mælti síðan ofurglaðlega:

"Þér eruð ungur og óþroskaður, vinur minn. Þess vegna stendur yður geigur af sjálfri gleðinni. Það er barnakvilli, sem við könnumst allir við, en erum fyrir löngu vaxnir frá. Lítið í kringum yður. Hér eru menn, sem enn getur hitnað um hjartarætur við fegurð og glaðværð. Lítið á lögmanninn okkar. Einnig hans útslitna eltiskinnsandlit er farið að roðna og lifna við. Það er eitthvað komið í augun á honum, sem minnir á gamla glóð. - Þér ætlið þó vonandi ekki að rísa öndverður gegn oss, af því vér njótum gleði vorrar og erum ekki gerðir af eintrjáningum?"

"Það ætla ég ekki að gera. Ég mun fylgja ykkur eftir mætti, þegar á reynir og þið þurfið liðveislu minnar við. Ég mun engu heiti mínu bregðast."

"Þetta er vel sagt. Ég veit það, Ormur, að þér eruð hugstór í mannraunum og allra manna best vígur. Þér eruð oss á við hverja tíu aðra."

"Oflof vil ég ekkert heyra, herra," mælti Ormur svo hátt, að allir nærstaddir heyrðu. "En eitt vil ég segja yður að lokum. Geri menn okkar hér nokkrar óspektir, eða reyni þeir að beita ofbeldi við konurnar, - þá er mér að mæta. Ég mun þá taka til minna ráða að halda aga og góðri skipan meðal manna okkar, og enginn skal koma fram neinni illmennsku, meðan ég fæ nokkru ráðið. - Ekki einu sinni hirðstjórinn sjálfur."

Ormur hneigði sig hæversklega og gekk frá honum. - Smiður stóð eftir, dökkur á svipinn, með samanbitnar varir og þagði. Hér var sú festa og alvara fyrir, að hann stóð máttvana.

Húsfreyjan leysti hann úr vandanum að þessu sinni. Hún kallaði hárri röddu, svo að heyrðist um allan skálann, og bað menn ganga til borðs og þiggja það, sem fram væri reitt. Sjálf gekk hún til hirðstjórans og bað hann blíðlega að fylgja sér til borðsins.

Gleðisvipurinn var á svipstundu aftur kominn á andlit hirðstjórans. Hann laut húsfreyjunni djúpt, rétti henni síðan arm sinn og leiddi hana með sér til öndvegisins.


9. kafli

Mildur, hreinn og hlýr streymdi blærinn sunnan af auðum heiðunum, tær eins og ljósvakinn, eftir að hafa skilið öll skýin eftir á jöklunum í suðrinu, blíður eins og barnsandi, eftir að hafa drukkið í sig sólskinið allan sumarlangan daginn. Sjálfur fór hann hljótt, svo að hvergi heyrðist skóhljóð, en hann bar með sér fossaniðinn framan úr dalnum, blandaði saman kliðnum úr hverju gili beggja megin dalsins í sætan, mjúkan, hjalandi hreim, og lét Eyjafjarðará leika undir, hægt og þungt.

Blikurnar teygðu sig langt upp á loft yfir heiðarbrúnunum í suðrinu og austrinu, mildar eins og bláfjallaðir blævængir. Í norðrinu og vestrinu var allur himinninn skrýddur pelli og gulli - nei, brennandi eldi. Hvassar fjallahyrnurnar bar dimmbláar í slíkan meginloga. Sólin var gengin undir, en skin hennar breiddi sig um hálfan himininn. Hvergi var skin á jörðu og hvergi heldur skuggi. Fjöllin og heiðarnar stóðu í þýðum húmkuflum og bar við kvöldbjartan himininn, dalurinn lá í blíðu, bláleitu húmi, nokkru dimmri en heiðarnar. Öll litabrigði runnu saman, svo að hvergi sá skör né skil. Allur Eyjafjörður var sveipaður einhverri yndislegri, draumkenndri værðarblæju, með miðnæturskinið hátt uppi á norðurloftinu, miðnæturhúmið djúpt niðri í dýpstu gljúfrum og öllum blæbrigðum þar á milli jöfnuðum mjúklega yfir allt héraðið.

Heilaga Seljumannavaka -!

Með slíkum hátignar- og helgiblæ eru næturnar í fyrstu vikum júlímánaðar hvergi á jörðunni nema í Eyjafirði.

- Þessa Seljumannanótt var óvenjulega hljótt í dalnum, svo hljótt, að hljóðara hefði ekki getað verið, þótt Svarti- dauði hefði verið búinn að eyða héraðið. Hvergi heyrðust smalar hóa í hlíðunum, því að það var komið langt fram yfir mjaltamál og ærnar búnar að bæla sig fyrir löngu út í nátthögunum. Hvergi heyrðist hundgá, því að hundarnir lágu fram á lappir sínar uppi á bæjarhúsunum og sváfu; enginn var á ferð, sem ástæða væri til að gelta að. Hvergi heyrðist hnegg í hesti, því að óvíða voru hestar heima. Hanarnir gólu ekki, því að ekki var enn komin ótta. Kýrnar lágu á básunum sínum og jórtruðu. Og manneskjurnar -? Þær lágu auðvitað inni í bólum sínum og sváfu.

Nei, ónei -! Þessa Seljumannanótt svaf engin mamneskja í Eyjafirði. - Engin einasta.

Þó að lítið bæri á, var allt héraðið vel vakandi, glaðvakandi, og stóð á öndinni af ótta og eftirvæntingu.

Allir vissu, hvílíkir vogestir voru komnir í héraðið. En það mátti ekki hafa hátt, svo að ekki yrði vargurinn vakinn í ótíma. Af leitum og húsaþökum skimuðu menn heim til Grundar, - hvort þeir væru þar enn, - hvort þeir væru þar enn, - hvort nokkuð gerðist þar sögulegt, - hvort bærinn væri farinn að brenna - eða hvort þeir væru ekki farnir að smala saman hestum sínum og búa sig til brottferðar. Ef þeir skyldu nú sleppa! - Ef þá skyldi nú fara að gruna eitthvað - - . Ótal augu hvíldu á Grund í öllum áttum úti í næturhúminu, ótal augu full af ótta og óró.

Hestar voru þandir á harðaspretti fram og aftur um héraðið, en ætíð var farið í langan sveig fram hjá Grund, - höfuðbólinu mikla í miðju héraðinu. Leiðirnar fram með fjöllunum voru þræddar, því að þar var skuggasælast. Grjóteyrarnar voru ekki riðnar, því að ekki einu sinni hófadynur mátti heyrast heim að Grund þessa nótt. - Gangandi menn læddust að bænum frá fjallinu, skriðu og iðuðu áfram eins og sniglar, sátu um hann eins og pestarbæli, sem enginn þorði þó að koma nálægt, - allt í von um það að hafa þaðan einhverjar njósnir og geta gefið fólkinu þar einhverjar bendingar. Þetta tókst að lokum með lagi. Einhver komst alla leið heim að bakdyrunum, án þess að vera séður af þeim, sem ekki áttu að sjá hann. Gráskeggjaður karl, lotinn og hrumur, lagði frá sér fiskasleggjuna, skreið fram í dyrnar og talaði nokkur orð í hljóði við komumanninn, sem undireins þaut eins og kólfi væri skotið á bak við útihúsin og síðan eitthvað út í buskann.

Langmerkilegustu tíðindin, sem bárust út frá Grund þessa merkilegu Seljumannanótt, voru þau, að "Skreiðar- Steinn" væri búinn að fá fulla heyrn aftur!

Gamla Grund! Margs átti hún að minnast frá fyrri dögum. En aðra eins nótt og þessa hafði hún aldrei lifað. Miklar og ríkmannlegar höfðu veislur þeirra Sturlunga venið, en nú tók þó út yfir. Veisluglaumurinn ómaði langt út frá skálanum í allar áttir, og sjötíu gráðugir langferðahestar dreifðu sér um túnin og engjarnar, sem stóðu í fullum blóma og biðu þess að verða slegin. Það var veisla á Grund, - einnig fyrir hestana.

Kirkjan stóð opin upp á gátt. Kertaljósin fyrir framan dýrlingamyndirnar blöktu og ruku í nætursúgnum. Þar inni í hálfdimmunni sást eitthvað í mannslíki. Þaðan heyrðist líka ámátlegt gaul, eins og sofandi maður væri að öngla.

- Inni í skálanum sátu karlmenn og konur á víxl og drukku tvímenning. Í öndveginu sat húsfreyjan við hlið hirðstjórans og drakk honum til hverja skálina eftir aðra. Hún var orðin heit og rjóð af vínblöndunni og hitanum; hún var orðin ung í annað sinn, og hirðstjórinn var svo gagntekinn af fegurð hennar og fjöri, að hann mátti einskis annars gæta.

Jón skráveifa glampaði í framan eins og nýfágað látún. Dísa litla lét ekki á sér standa að skenkja á skálarnar fyrir hann. Hann hélt hendinni utan um mittið á henni og hallaði henni fast upp að sér við og við. Hún leyfði honum það. En ef hann ætlaði að kyssa hana, færðist hún ætíð undan.

Sami leikurinn endurtók sig með ýmsum breytingum fram með öllu borðinu. Alls staðar var glettni og glaðværð og ástarumleitanir.

Einn maður drakk lítið, sat löngum hugsi og gaf gætur að öllu. Það var Ormur Snorrason. - Enginn gaf honum gaum, og hann skipti sér heldur ekki af neinum.

- En frammi í afhýsinu sat Snjólfur kanúki í gervi Skreiðar-Steins og barði fiskinn. Hann hafði gert sér allt far um að líkjast Steini gamla nógu nákvæmlega, ekki einungis í útliti, heldur einnig í vinnulagi og öllu látbragði, og tekist þetta svo vel, að engin manneskja á heimilinu, að undantekinni húsmóðurinni sjálfri, hafði hugmynd um hamskiptin. Það var ekki vandi heimafólksins á Grund að skeggræða við Stein gamla. Heyrninni hans var svo farið, að fáir kærðu sig um að segja meira við hann en það allra nauðsynlegasta. Hvort sem hann lá í bólinu sínu, sem stóð þarna rétt við gangveginn, eða sat og nuddaði við fiskasteininn, gengu menn venjulega fram hjá honum eins og rakka. Hann skipti sér ekki af neinum, og enginn skipti sér heldur af honum. Hann var eins og utan við veröldina, þó að hann væri enn þá í henni að nafninu, - lifandi lík, sem át mat og barði fisk, en hafði ekkert annað samneyti við aðra menn. Hann var sinn eiginn húsbóndi, barði fiskinn, þegar honum þóknaðist, hvort sem var á nóttu eða degi, og hvíldi sig, þegar honum þóknaðist. Var ævinlega vís, - fór aldrei annað en út í skreiðarskemmuna til að sækja fiskinn og inn í búrið til að leggja hann frá sér. Hvað sem á gekk á Grund og hvernig sem allt breyttist þar og byltist, var Skreiðar-Steinn ætíð hinn sami.

Nú kom þetta allt saman munkinum að góðu haldi. Heimilisfólkið virti hann ekki viðlits, fremur en það var vant. Það heyrði á höggunum - þó lin væru -, að hann var enn þá með lífsmarki, og á meðan var ætíð von á börðum - meira að segja afbragðsvel börðum - fiski. Áður en gengið var til borðs, var stöðugur pilsaþytur fram hjá honum. Menn þeirra Smiðs voru þá á reiki fram og aftur um skálann og komu hver eftir annan fram í dyrnar til að virða fyrir sér þetta viðundur og henda gaman að því. Þeir spurðu stúlkurnar, sem um gengu, hvaða skepna þetta væri, og fengu það svar, að það væri hálfheyrnarlaus karlvesalingur, sem húsfreyjan hefði í gustukaskyni og léti vinna þetta verk, - sem eiginlega þótti ekki sérlega virðulegt. Þetta létu þeir sér nægja, og enginn lagði illt til gamalmennisins við fiskasteininn.

En Snjólfur hafði bæði augun og eyrun hjá sér. Inn um dyrnar, sem ætíð stóðu opnar, sá hann yfir væna skák af innri hluta skálans og sá og heyrði allt, sem þar gerðist. Hann sá húsmóður sína í svip, hvað eftir annað, er hún gekk á milli gestanna, prúðbúin, hýr og brosandi. Aldrei á ævi sinni hafði hann séð hana fegri. Aldrei á ævi sinni hafði hann séð neina konu, sem eins hafði gagntekið huga hans. Hann sá einnig Smið hirðstjóra, þennan glæsilega ræningjahöfðingja, með ofstopa og óskammfeilni í hverjum drætti í svipnum, sá hann gera sig blíðan við hana og aldrei líta af henni. - Þegar allir settust að borðinu, missti hann sjónar af þeim báðum og öllum öðrum, en heyrði masið, hnífakliðinn og skálaskvaldrið.

En hann sá þau bæði fyrir því. Húsfreyjan vék aldrei frá innri augum hans, og Smiður var alltaf einhvers staðar í nánd við hana. Þessi kona var orðin honum ímynd allra kvenlegra kosta og allrar kvenlegrar prýði. Aldrei hafði hann fundið það fyrri, hve innilega vænt honum þótti um hana. Aldrei hafði honum verið það eins kært og nú að mega vera auðvirðilegasti þjónn hennar. Hann langaði til að tilbiðja hana eins og dýrling, - kasta sér fram fyrir fætur hennar og segja: Vertu mér náðug. - Blóðið sauð og svall í æðum hans, er hann hugsaði um hana. Hann tvíhenti sleggjuskaftið, og það lá við, að hann gleymdi því, að hann væri Skreiðar-Steinn. Hann réð sér ekki fyrir óró, fyrir einhverri kitlandi þrá eftir því að mega leggja lífið í sölurnar fyrir þessa konu, sem hann vissi nú í hættu stadda, og sýna henni það, hve hjartanlega dýrmæt hún væri honum. - Honum fannst afbrýðin ætla að gera sig örvita. Hann hataði þennan glæsilega hirðslána, sem var að gera sig stimamjúkan við hana. - Ó, að helvískur hausinn á honum væri kominn þar á milli steinsins og sleggjunnar.


10. kafli

Það var komið fram yfir miðnættið, þegar staðið var upp frá borðum.

Nóttin var björt að vísu, en Helga lét samt kveikja á nokkrum blysum í skálanum, eins og til að gera þar allt hátíðlegra. Birtan að utan rann undarlega saman við blaktandi bjarmann frá blysunum og fyllti skálann af einhverju undarlega draumkenndu töfraljósi.

Borðin voru tekin upp og borin burtu úr skálanum og bekkirnir færðir út undir veggina, svo að gólfið var autt í miðjunni og ágætlega til þess fallið að dansa á því.

Sunnlendingar voru allmikið drukknir, er þeir stóðu upp frá borðinu, og reikuðu og skjögruðu til og frá um skálann. Margir þeirra voru líka þreyttir eftir nærri því þriggja daga reið í óbyggðum, en enginn vildi láta á því bera. Sumir þoldu illa mjöðina og mungátið og þurftu að læðast út fyrir skálavegginn til að "afferma". - Það var sárt að sjá blessaðan matinn fara þannig forgörðum, en við því var ekkert að gera, annað en bera sig mannalega. Og inni í skálanum stóð enn þá gnægð af vínum og ölföngum, svo að hver mátti fá eins og hann vildi.

Helga stakk nú upp á því við Smið, hvort hann vildi ekki, að þeim, sem tjaldanna gættu, væri einnig send einhver ofurlítil glaðning, og féllst hann á það. Skömmu seinna lagði heil hersing á stað til tjaldanna: stúlkur, sem báru heitan mat í byrgðum ílátum, svo að hann kólnaði ekki, og nokkrir af mönnum Smiðs, sem báru rjúkandi, ilmandi vínblöndu. - Þeir í tjöldunum urðu fegnari en frá þurfi að segja.

Á meðan gekk húsfreyjan til dyngju sinnar og kom þaðan aftur að vörmu spori með eitthvað stórt í fanginu, sem fæstir af gestunum könnuðust við.

Það var harpa.

Hún var gerð til að standa á gólfi og skorin út í drekalíki með gínandi höfði. Útskurðurinn hafði eitt sinn verið gylltur og málaður fagurlega, en var nú farinn að mást. Þó sást enn skýrt, hvernig allt hafði verið litt. Tennurnar í gininu höfðu verið gylltar, en tannholdið rautt. Augun voru úr dökkrauðum blóðsteinum og hvarmarnir utan með rauðir, svo að dýrið hafði allferlegan grimmdarsvip. Hreistrið var dökkgrænt og gyllt á bakinu, en nokkuð ljósara á kviðnum. Bægslin glenntu sig út og voru um leið aðalfótur hörpunnar. Frá bægslunum hóf skrokkurinn sig dálítið bogadreginn beint upp og mjókkaði þá jafnt. Nærri því mannhæð frá gólfi beygðist stirtlan aftur fram á við og hélt uppi strengjunum. Fremst á henni breiddi sporðurinn sig.

"Þessa hörpu hefir Magnús konungur berfætti átt," mælti húsfreyjan brosandi við hirðstjórann. "Hingað til lands fluttist hún með Þóru dóttur hans, og síðan hefir hún jafnan verið í ætt Oddaverja. Jón Loftsson hefir átt hana og kunni að leika á hana af mikilli list. Sæmundur í Odda hefir einnig átt hana og kunnað með hana að fara, og eins Hálfdán á Keldum. Nú er hún í minni eigu, en hefir þagað helst til lengi. En hvenær skyldi hún hljóma til mannfagnaðar, ef ekki nú, er slík stórmenni eru gestir á Grund?"

Húsfreyjan snart strengina þýðlega, og mildur hreimur rann um skálann, líkt eins og þá er blær þýtur í grenitrjám.

Menn söfnuðust nú utan um hörpuna til að dást að henni. þessi gamli, virðulegi ættargripur vakti ósjálfráða lotningu. Haglegra smíði þóttist enginn hafa séð. Slíkt listaverk bar það með sér, að það var konungsgersemi.

Húsfreyjan jók strengjakliðinn, en spurði um leið, hvort enginn væri sá í hópnum, sem kynni hörpuslátt.

Enginn svaraði. - Smiður hirðstjóri stóð sem bundinn og horfði á þetta furðuverk. Það var þó ekki harpan sjálf, sem svo mjög hreif huga hans, heldur miklu fremur höndin gullbúna, sem leið eftir strengjunum.

Þegar húsfreyjan sá, að enginn ætlaði að gefa sig fram til að leika á hörpuna, og hætt var við, að öll gleði mundi þá þegar niður falla, mælti hún við hirðstjórann svo hátt, að vel mætti heyrast út í afhúsið:

"Ég kann því miður ekki hörpuslátt, herra; en hér er á heimilinu karlgarmur, sem var orðlagður fyrir hörpuslátt á yngri árum sínum. Nú er hann gamall og hrumur og ekki vel fallinn til samneytis við unga höfðingja og glæsimenni, eins og hér eru. En ef þér viljið leyfa, herra, að hann húki hér í einhverju horninu og slái hörpuna, okkur öllum til skemmtunar, mun ég reyna að fara þess á leit við hann."

Smiður leyfði það fúslega. Hann hugsaði gott til að stíga dansinn við húsfreyjuna, því að enn hafði hann lítið getað leitað fyrir sér um hug hennar til sín. Hann sá það líka á mönnum sínum, að eitthvað svipað var þeim í huga, þó að þreyttir væru þeir.

"Skreiðar-Steinn" var nú kallaður inn í skálann.

Munkurinn stóð upp seint og hægt, eins og hann gæti sig varla hreyft fyrir gigt og stirðleika. Hann nöldraði eitthvað geðvonskulega í barm sinn og nuddaðist síðan inn í dyrnar. Þar tóku þau á móti honum, Smiður og húsfreyjan.

"Hvað á ég að gera?" spurði hann hálfönugur og hallaði við eyranu til að heyra svarið.

"Þú átt að slá hörpu fyrir okkur," kallaði húsfreyjan í eyrað á honum, "og slá hana vel, svo að okkur verði skemmtun að, annars skaltu engan mat fá á morgun."

Smiður horfði á hann hvasst og rannsakandi, en gat ekkert tortryggilegt við hann fundið. Birtan var ekki góð, því að allur skálinn var fullur af flöktandi villuljósi, og þar, sem þau stóðu, var birtan minnst. Auk þess var hirðstjórinn fyrir löngu hættur að sjá skýrt.

Munkurinn var seinn til svara, að dæmi Skreiðar-Steins, en eftir nokkra umhugsun mælti hann:

"En fiskurinn -? Á ég að hætta að berja fiskinn?"

Þetta var svo innilega líkt Skreiðar-Steini, að húsfreyjan gat ekki varist því að hlæja hátt. Smiður skellihló líka að því, hve karlinn væri barnalegur.

"Fiskurinn," kallaði húsfreyjan í eyrað á honum. - "Fiskurinn má bíða. Það er nógur fiskur til barinn núna í bráðina. Og þú getur haldið áfram að berja fiskinn, þegar við erum hætt að skemmta okkur. Gerðu nú eins og húsmóðir þín segir þér."

"Ég er nú ekki þesslegur, að vera innan um höfðingja," mælti munkurinn og leit niður eftir sér.

"Nei, það er hverju orði sannara," mælti húsfreyjan. "Það er aldrei annað en skömm að þér. En herrarnir eru náðugir og lítillátir, og fyrst þú kannt nú þetta, en aðrir ekki, verður að nota þig til þess. - Þú getur verið hérna frammi við dyrnar. Þar ber minnst á þér."

Munkurinn iðaði af ánægju innan í dulargervinu. Þarna gat hann verið í skugganum og þó inni í sjálfum skálanum og séð allt, sem fram fór. Þetta var allt snilldarlega hugsað, þó að það væri gert á augabragði, og engri manneskju líkt nema húsfreyjunni sjálfri.

Harpan var færð til hans, og hann byrjaði að leika.

Hörpusláttur var talsvert iðkaður meðal klaustramanna á þeirri öld, og Snjólfur kanúki var engan veginn sístur í þeirri list. Fyrstu tónarnir, sem hann sló, komu þungir og strjálir, með löngum skjálfandi hreim, eins og vatnshnyklarnir í útjaðri fossins, sem draga vatnshalann eftir sér í fallinu. Svo urðu tónarnir þéttari og aflmeiri, eins og hörpunni færi að svella móður.

Fyrst var eins og allir væru feimnir við þessa nýbreytni og enginn kynni eiginlega að nota hana. Smiður hirðstjóri byrjaði. Hann var ýmsu vanur og þar á meðal einnig hirðmannahæversku. Hann laut húsfreyjunni djúpt, tók síðan í hönd henni og steig með henni hægan, nettan dans eftir fallanda hörpuhreimsins. Ormur Snorrason og Jón skráveifa voru einnig höfðingjasiðum vanir og fóru að dæmi hirðstjórans. Aðrir fóru að reyna þetta líka og tókst furðanlega. Eftir litla stund voru allir farnir að dansa.

Framan af stýrði Smiður dansinum og sagði þeim til, sem tornæmastir voru. Hann var ekki klæddur til að dansa, í hringabrynju frá hálsi ofan á hæla og með hjálm úr stálblikki, en hann bar sig hermannlega og steig dansinn hægt, en með léttum limaburði. Sama gerði Ormur, nema hvað hann var enn þá karlmannlegri og fegri á velli en hirðstjórinn. En Jón lögmaður var stirður sem staur í brynju sinni og bolaðist í dansinum, eins og hann væri að glíma.

Menn þeirra höfðu áður lagt af sér þyngstu hlífarnar, svo að þeim var léttara um allar hreyfingar, og eftir því sem þeir komust betur upp á þessa nýju skemmtun, urðu þeir sólgnari í yndi það, er hún veitti. Tónar hörpunnar gengu þeim í blóðið, fylltu þá einhverri þægilegri þrá, hærri og hlýrri en þeir höfðu nokkurn tíma fundið til áður, gerðu þá glaðari í skapi og léttari í spori. Og nú kynntust þeir í fyrsta sinni nýrri hlið á því laðandi yndi, sem hverjum ungum kvenmanni er áskapað. Stúlkurnar voru mjúkar í hreyfingum og léttstígar, roðinn í kinnum þeirra varð fegri en hann hafði áður verið, og glampinn í augum þeirra varð bjartari. Varirnar á þeim voru blóðrauðar og hálfopnar, eins og boðnar fram til kossa. - Hendurnar, sem þeir héldu um, voru hlýjar og rakar, og mittin, sem þeir gripu um, iðuðu af lífi og fjöri. Andardráttur þeirra var orðinn heitari og tíðari og glettnin í svip þeirra innilegri. Þær gáfu undir fótinn með hverri hreyfingu, hverju viðviki, hverju augnatilliti, en voru þó styggar eins og hindir. Þær drógu og löðuðu, örvuðu og eggjuðu, en voru þó gengnar þeim úr greipum áður en þeir vissu af, - horfnar, og komnar aftur. Þær gerðu þá æsta og örvita, kveiktu og kyntu logandi þrá, lofuðu öllu fögru og sviku það í sömu andránni.

Eitt sinn stóð húsfreyjan, eins og af tilviljun, svo nálægt munkinum, að hann gat skotið að henni orði, án þess að láta hlé verða á hörpuslættinum.

"Þrjú högg í röð á fiskasteininn," mælti hann svo lágt, að hún ein gat heyrt. - "Þrjú högg í röð á fiskasteininn og hvíld á milli, - hvíld á milli hverra þriggja högga, - taktu eftir því. - Þá eru Eyfirðingar að koma."

Helga stóð kyrr og sneri að honum bakinu. Hún leit ekki við, en hann vissi samt, að hún heyrði. Rétt á eftir var hún aftur komin inn í hina dansandi hringiðu, með stálklæddan arm hirðstjórans utan um mittið á sér.

Dísa litla var hálfhrædd og óróleg. Rándýrsaugu Skráveifunnar hvíldu stöðugt á henni, hvar sem hún var og hver sem hélt um höndina á henni. Hvenær sem hún varð þess vör, leit hún niður fyrir sig, og augu hennar fylltust af tárum.

En hún tók ekki eftir öðrum augum, sem ekki hvíldu þó sjaldnar á henni. Það voru augu Orms Snorrasonar.

Eitt sinn, er hann bar að henni, tók hann um hönd hennar og hvíslaði lágt í eyra hennar:

"Fylgdu honum ekki til sængur í kvöld. - Fylgdu mér heldur. Ég skal ekki misbjóða sakleysi þínu í neinu."

Áður en hún gat áttað sig á því, hvað hann hafði sagt, var hann kominn frá henni. Hún horfði stórum undrunaraugum á eftir honum. Hún vissi ekki til fulls, hvað hann átti við.

En upp frá því gat hún ekki haft augun af honum. Hún leitaði hans, hvar sem hann var í hópnum. Hann lést ekki sjá hana og nærri því fól sig fyrir augum hennar. Hún fór að efast um, að hún hefði heyrt rétt, hvað hann sagði. Hún virti hann fyrir sér hátt og lágt, vó hann og mældi með augunum og dáðist að því með sjálfri sér, hve fagur og riddaralegur hann væri. Hjá slíkum manni var ekkert, sem ekki verðskuldaði traust og virðingu. - Hún vonaði, að hún hefði heyrt það rétt, sem hann sagði.

Jón skráveifa hafði ekki tekið eftir því, er Ormur hvíslaði að henni. En hann var ekki lengi að gefa því gaum, hvert augu Dísu stefndu. Hann gaf Ormi nánar gætur, og þegar hann sá, að hann tók ekkert eftir þessum stóru, barnslegu augum, sem stöðugt hvíldu á honum, varð hann rórri.

Munkurinn sló hörpuna harðara og fastara, og dansinn varð villtari og trylldari með hverri stundinni, sem leið. Hæverskubragurinn, sem hafði verið á honum í byrjun, hvarf smátt og smátt. Sunnlendingar urðu háværir og gáfu sig gleðinni á vald. Þeir sveifluðu stúlkunum í kringum sig, lögðu undir sig gólfið í stórum stökkum og kváðu við raust, án þess að hirða um hreiminn frá hörpunni. Þeir mæddust fast og slokuðu ákaft bjórinn, sem ætíð var við höndina. Þeir voru drukknir og örir og æstir og gleymdu sér í taumlausri gleði. Fyrirmennirnir voru snortnir af þessu sama öngþveiti, allir nema Ormur. Smiður var orðinn svo drukkinn, að hann reikaði, og augun í Skráveifunni stóðu í blárauðu andlitinu eins og í frosnum froski. Skálinn skalf af glymjandi raustum og dunandi fótataki. En úti í skugganum við afhúsdyrnar brunnu augu munksins undir sporði drekahörpunnar. Tónarnir, sem hrutu af strengjum hans, voru neistar, sem kveiktu óslökkvandi bál, - bál lífsgleði og lífsnautnar, bál ástríðu og tryllds munaðarþorsta, og seiddu menn í algert algleymi.

Hann var farinn að gera sér von um, að hann mundi geta haldið þessum eldi brennandi nógu lengi, en svo varð þó ekki.

Smiður kallaði hárri röddu:

"Nú er nóg komið. Nú skulu allir ganga til sængur. Gleymið því ekki, að við eigum að leggja á stað héðan fyrir hádegi á morgun."

Hann hafði ekki hugmynd um, að morgunninn var þegar kominn. Nóttin hafði liðið fljótar en hann sjálfan varði.

Orðum hans var hlýtt á svipstundu. Dansinn hætti.

"Þakkir fyrir skemmtunina, karltetur," mælti Helga glettnislega. "Farðu nú aftur að berja fiskinn, svo að nóg verði til á borðið í fyrramálið. En mundu eftir því að hafa ekki mjög hátt, svo að gestirnir geti sofið."

Munkurinn færði hörpuna út að þilinu, svo að ekki stæði hún á gangveginum, og staulaðist síðan þegjandi fram að fiskasteininum. Þar settist hann niður og tók þar til, sem fyrr var frá horfið.

Upp fyrir þröskuldinn á útidyrunum gægðist gætilega skegglaust unglingsandlit og mælti lágt:

"Þeir koma bráðum."

"Segðu þeim að flýta sér," hvíslaði munkurinn byrstur.

Unglingsandlitið hvarf úr dyrunum, en hæg högg fóru að heyrast frá fiskasteininum.

Smiður skjögraði fram að skáladyrunum, lokaði þeim vandlega og skaut sterkum slagbrandi fyrir hurðina. Hann spurði ekki um dyr að húsabaki, og húsfreyjan sagði honum ekki heldur frá þeim.

Helga stóð skammt frá öndveginu og horfði hvasst um allan skálann. Hún mætti í svip augum allra þjónustukvenna sinna, sem allar litu spyrjandi til hennar, og allar mættu sama einbeitta hörkusvipnum. Svo tóku þær hver sinn mann að sér. Á svipstundu var sem skálinn hefði ekkert annað að geyma en nýgift hjón.

Jón skráveifa hafði náð í Dísu litlu og færði hana með kattarlegri blíðu að lokrekkju sinni. Dísa þorði ekki að stritast á móti, en leit niður fyrir sig og fór að gráta. Hún leit til fóstru sinnar, en fann þar enga meðaumkun. Í einhverri örvæntingu fór hún að þreifa eftir hnífnum, sem hékk við belti hennar innanklæða.

Það var sem áfergjan logaði upp í augum þessa drukkna rándýrs við að sjá þessi tár, þennan vott barnslegs sakleysis. Því sætari var nautnin sem hún var sárari; því ógleymanlegri sem hún var dýrkeyptari. Grimmúðlegt sigurglott breiddi sig um eltiskinnsandlitið. Hægt og miskunnarlaust, hvíslandi einhverjum blíðuorðum, ýtti hann Dísu undan sér að lokrekkjudyrunum.

Þá bar þar að Orm Snorrason. Hann hafði engin orð, en þreif með heljarafli um hendur lögmannsins, reif Dísu af honum og fleygði honum eins og vettlingi upp að lokrekkjudyrunum. Síðan færði hann Dísu til sinnar lokrekkju, og þangað fór hún óneydd.

Þetta varð með svo skjótri svipan, að lögmaðurinn áttaði sig varla á því fyrst í stað. En þegar hann sá þau Orm og Dísu hverfa inn í lokrekkju hans og hurðina lokast á eftir þeim, sá hann, að Ormi var full alvara. Það lá við, að hann gréti, - öskraði, rasaði af reiði, en það varð þó ekki af því. Hann hafði líka vit á því, þótt hann drukkinn væri, að hætta sér ekki í hendurnar á Ormi. Og kæra þetta tiltæki fyrir Smið var ekki til annars en gefa honum efni til óstöðvandi hláturs og gera þessa smánarmeðferð heyrinkunna um allt liðið. Hann afréð að bíða og hefna sín heldur seinna. Hann leit allt í kringum sig til að gá að, hvort nokkur maður hefði veitt þessum atburði eftirtekt. Svo var að sjá, sem allir hefðu nóg annað að hugsa. Og þegar hann var sannfærður um, að þetta væri leyndarmál milli þeirra þriggja, fór hann að svipast um eftir einhverri annarri til að hugga sig við að þessu sinni. En nú voru allar stúlkurnar farnar. Þær voru einmitt einni færri en karlmennirnir. Og hann treysti sér ekki til að hrifsa af neinum manna sinna. Svartur á svipinn og illur til augnanna réð hann það af að snauta inn í lokrekkju sína og byrgja sig þar inni.

Helga húsfreyja stóð kyrr og fylgdi því með augunum, er stúlkur hennar leiddu og studdu þessa drukknu, munaðarsjúku víkinga og hurfu með þeim inn í lokrekkjurnar. - Ekki ein einasta dró sig í hlé.

Þegar skálinn var orðinn tómur, slökkti hún síðasta blysið, tók hlýlega um hönd hirðstjórans og leiddi hann inn í lokrekkju hans.


11. kafli

Ömurlegur hljóðleiki ríkti nú í skálanum, - ömurlegur hljóðleiki, sem stakk mjög í stúf við glauminn og ærslin, sem þar höfðu verið fyrir lítilli stundu.

Enn glórði í eld í bröndum blysanna, og skarþefurinn hafði jafnað sig um allan skálann. Hin flöktandi skíma var horfin, en stöðugt hálfrökkur komið í staðinn. Sólin var að vísu komin langt upp á loft, en hún var hulin á bak við blikurnar í austrinu, og ljósið úr gluggunum svo hátt uppi nægði aldrei til að gera verulega bjart í skálanum.

Það helsta, sem heyrðist, voru höggin frá fiskasteininum úti í afhúsinu. Þau gerðu ekki mikinn hávaða. Það voru jöfn, þung dump, líkust hveradunum langt í burtu.

En þessi hljóðleiki var ekki nema á yfirborðinu. Skálinn var fullur af lágu hljóðskrafi, - kossum og kjassi, einhverri ískrandi suðu, sem barst frá öllum veggjum og minnti á, að menn væru nálægir, þó að þeir sæjust ekki.

Æsandi, ástríðuþrungið hljóðskraf, sem smaug gegnum merg og bein, þungt eins og fossaniður djúpt í jörðu, - heitt eins og eldhafið undir rótum Íslands, sem ógnar með að sprengja jörðina og rífa hana sundur í tætlur, - þeyta fjöllunum í loft upp eins og hismi.

Í lokrekkju hirðstjórans og húsmóðurinnar stóð höfuðorustan, - orustan um hina, óvinnandi borg", sem hirðstjórinn hafði talað svo karlmannlega um að vinna þessa nótt.

" - - Uss-s, ekki þetta! - - Seinna. - Haldið þér, herra, að nokkur kona faðmi að sér hringabrynju! - Hérna er snagi fyrir sverðið - - hjálminn líka. - - Nú skal ég hjálpa yður. - Hérna hanga herklæðin rétt hjá yður, - þér getið gripið til þeirra á augabragði. - - Verið þér nú góður og látið mig ráða. - - Minnist þess, að ég hefi ráðið á Grund síðan ég var barn að aldri, hvort sem bóndi minn hefir verið heima eða ekki. - - Uss-s, nei, - enga vanstillingu. Við erum engin börn. - Hníf og belti! - Hvað ætlið þér, herra, að gera með hníf og belti ofan í rúmið? - Haldið þér, að nokkur kona leggist út af hjá beittum rýtingi, sem hæglega getur runnið úr slíðrunum? - Ég skal spenna það af yður. - - Nei - nei - nei! - Enga kossa, - ekki strax. Ég þoli ekki víndauninn fram úr yður. - Verið þér nú góður og hlýðinn og leggist þér út af. - Ég verð hérna hjá yður, - ég fer ekki fet. - Minnist þess, að fólkið er enn þá vakandi í skálanum. - Það heyrist til okkar. - Ég skal breiða ofan á yður. - Brjóstin á mér megið þér kyssa, - hendurnar, - handleggina. - Svo eigið þér að sofna, - sofna ofurlítinn dúr, svo að ölvíman renni af yður og vínþefurinn minnki. - Ég sit hjá yður. - Ég fer ekki fet. - Bráðum - bráðum hátta ég líka - -."

Það hafði ekki gengið stríðlaust að koma hirðstjóranum í rúmið. Hann hafði beðið, grátbeðið, ógnað og jafnvel reynt að beita aflsmunum. Hann hafði faðmað hana að sér með ástríðuákefð, eins og hann ætlaði að kreista hana í sundur, og kysst hana hvar sem hann gat komið á hana kossum, kysst hana eins og hann ætlaði að éta hana. - Hún fann, að hún hafði ekki afl til móts við hann, en samt var hún örugg og óhrædd um sjálfa sig. Hún fann, að hún hafði vald yfir honum. Hann þorði ekki að misbjóða henni. Hann var hræddur um, að ef hún kallaði, mundu margir af hans eigin mönnum koma henni til hjálpar, að minnsta kosti Ormur. Hann vildi vinna hana, en ekki ræna henni. - Hún vék sér með lagi undan kossum hans og faðmlögum, losaði sig mjúklega úr hinum æstu, föstu tökum, dró tímann á langinn og fékk hirðstjórann að lokum til að hlýða sér. Fet fyrir fet hafði hún megnað að þoka honum og loks komið honum þangað, sem hún ætlaði sér: - ofan í rúmið. En þá fannst henni líka kraftar sínir vera alveg að þrotum komnir. Hún sat fyrir framan hann og hálfhélt honum niðri í hvílunni. Hún leyfði honum að toga sig ofan að sér, spenna handleggina um herðar sér af öllu afli og kyssa sig, kyssa sig, hvar sem hann gat fundið hana bera fyrir. Hún heyrði blóðið fossa um æðar hans og fann, hvernig hann þrútnaði og svitnaði af geðshræringu. Faðmlög hans voru eins og dauðahald drukknandi manns, kossarnir logandi heitir, eins og þeir væru gefnir í óráðsórum megnasta hitasjúkdóms.

Þessu drukkna dýri varð hún nú að halda í skefjum, - hver vissi hve lengi. - Öllum þessum ódaun, sem lagði upp af honum, varð hún að anda að sér. Í þessu skrúfstykki varð hún að láta klemma sig, hver vissi hve lengi. - Maðurinn frammi við fiskasteininn var búinn að gefa merkið einu sinni eða tvisvar. Norðlingar voru að koma. - En þeir komu þó ekki. Henni fannst þessi augnablik vera eilífð, sem aldrei ætlaði að líða. Hún hlustaði, - hlustaði, - hlustaði með hverri taug í líkamanum, - hlustaði um leið og hún var að þagga niðri í hirðstjóranum og reyna að svæfa hann við barm sinn. Einu sinni eða tvisvar heyrðist henni hringla í beislum einhvers staðar í nánd. Síðan heyrðist ekkert. Það hlaut að hafa verið vitleysa. Henni heyrðist líka hún heyra óm af mannamáli einhvers staðar langt burtu. - Ofheyrnir, - ímyndun. - Það var blóðið í æðum hennar sjálfrar, sem hún heyrði til. Það var hjartað í brjósti hennar sjálfrar, sem barðist svo ákaft.

Úr hinum lokrekkjunum heyrðust stunur og stimpingar, suða af hvísli og hálfkæfðum hljóðum, hlátrar eða grátur. - Það var varla þekkt sundur af hljóðinu. Þar háðu nú griðkonur hennar sama hildarleikinn og hún sjálf. Hún fann kjör þeirra liggja sér á hjarta eins og bjarg. Var það ekki glæpsamlegt að hafa leitt þær út í slíka raun sem þetta? - Hvernig sem um þær færi, bar hún ábyrgðina, hún einsömul. Hún hafði brýnt það fyrir þeim eftir megni að standast hverja raun og gefast aldrei upp. Hún hafði slegið á með því, sem hún vissi, að var þeim sárast, að þær ættu að skrifta á morgun fyrir henni sjálfri. En hún þekkti, hvað kvenhjörtun eru viðkvæm og veik á freistingastundinni, hve inngróið það er kveneðlinu að fórna sinni eigin heill, láta undan kröfum annarra, án þess að hugsa um afleiðingarnar. Henni lá við að gráta, er hún hugsaði um þessar veslings stúlkur, fátækar og umkomulausar, sem nú börðust með henni fyrir heill og velferð héraðs síns, lögðu sóma sinn, velferð sína og kannske líf sitt í sölurnar og - biðu ef til vill ósigur. Hvers vegna komu Norðlendingar ekki? - Hvers vegna voru mennirnir svona lengi?

En frá fiskasteininum heyrðust höggin, alltaf þrjú og þrjú í röð, með hvíldum á milli, - eins og slög lífæðar, sem ætlar að springa.

- - Högg á karldyrahurðina, svo máttugt, að skálinn gnötraði. Annað til, rétt á eftir, engu minna en hið fyrra.

Helga sleit sig lausa úr faðmlögum hirðstjórans og hljóp fram úr lokrekkjunni. Þar nam hún staðar og hrópaði:

"Takið þið nú mannslega á móti, piltar! Nú eru Norðlendingar komnir til veislunnar."

Að svo mæltu ætlaði hún að flýta sér til dyngju sinnar.

Í sömu svipan hentist hirðstjórinn hálfnakinn fram úr lokrekkjudyrunum, með brugðið sverðið í hendinni.

"Helvítis norn!" öskraði hann. "Þetta bjó undir blíðu þinni og kvenna þinna!"

Augnablik leit svo út, sem húsfreyjunni yrði engrar undankomu auðið. Hurðin, sem hún þurfti að opna, gekk inn í skálann og var þannig í vegi fyrir henni, og nakið sverðið stefndi á hana milli herðanna.

En þá kom fiskasleggja í hendingskasti úr dyrum afhússins og stefndi beint í fang hirðstjórans. Hann vék sér undan þessum voðalega vígahnetti, en sleggjan kom í sverðið, svo að það hraut úr hendi hans. Síðan hélt hún áfram yfir þveran skálann og skall í einu lokrekkjuþilinu hinum megin með slíku afli, að það brotnaði.

Hirðstjórinn varð ókvæða við þessa óvæntu kveðju, og ekki minnkaði undrun hans við að sjá "fiskibarsmíða-karlinn" standa keikan í dyrunum, logandi af vígahug.

Meðan þessu fór fram, slapp Helga inn fyrir hurðina. Þar stóð hún í gættinni, horfði fram eftir skálanum og hafði hurðina fyrir sér eins og skjöld.

Smiður stóð sem höggdofa dálitla stund. Hann var að ráða við sig, hvað næst lægi að gera: taka sverðið upp og reka það í gegnum munkinn - eða húsfreyjuna - eða fara að klæða sig og búast til varnar.

Hið síðasta réð hann af. Hann tók upp sverðið, kallaði hátt til manna sinna, kvað ófrið vera kominn og hét á þá að verjast. "Við erum sviknir í tryggðum," hrópaði hann. "En verjum okkur hraustlega." Síðan snaraðist hann inn í lokrekkjuna og tók að klæða sig.

Högg Norðlendinga dundu á hurðinni jafnt og þétt, og nú var farið að heyrast brothljóð í henni.

Nú varð allt með skjótum atburðum.

Nokkrir menn stukku alklæddir fram úr lokrekkjunum með það af vopnum, sem fyrir þeim hafði orðið í fátinu, og hlupu til dyranna til varnar.

Hinum tafðist eitthvað við að klæða sig.

Stúlkurnar hlupu eins og byssubrenndar út úr lokrekkjunum og stefndu til dyngjunnar. Sumar héldu saman að sér fötunum, sem höfðu verið rifin og slitin utan af þeim. Húsfreyjan leit hvasst á þær, hverja fyrir sig, um leið og hún hleypti þeim inn hjá sér. Langflestar gátu mætt augum hennar með sigurdrjúgu brosi, jafnvel þótt það skini gegnum tárin.

Mitt í þessu kom Ormur Snorrason frá lokrekkju sinni og leiddi Dísu við hönd sér eins og brúði. Hann fylgdi henni hægt og prúðmannlega að dyngjudyrunum, eins og það, sem var að gerast í skálanum, kæmi honum ekkert við. Hann var albrynjaður, eins og hann hafði verið um kvöldið, og með sverðið við hlið sér. Þegar hann hafði komið Dísu á óhultan stað, gekk hann fram til dyranna til að stýra þar vörninni.

"Það er Oddaverja-blóð í þessum manni," hugsaði húsfreyjan, er hún horfði á eftir honum fram eftir skálanum.

Jón skráveifa kom einnig albrynjaður fram úr lokrekkju sinni. Við dyrnar snerist hann um stund á hæl og hnakka, eins og hann væri að hugsa um, hvort ekki mundi nú vera réttast að fela sig í lokrekkjunni eða verjast þaðan.

Karldyrahurðin lét undan höggum Norðlendinga. En um leið og hún brast, ruddust nokkrir menn inn í skálann frá bakdyrunum, og komu þeim, er vörðust, í opna skjöldu.


12. kafli

Nú tókst bardagi um allan skálann.

Fleiri og fleiri af mönnum Smiðs hlupu fram úr lokrekkjunum og höfðu náð vopnum sínum og hertygjum að mestu eða öllu leyti. Meðal þeirra var Smiður sjálfur.

Jafnframt höfðu Norðlendingar hrundið vörninni frá dyrunum og sóttu nú sem ákafast inn í skálann. Þar var fremstur í flokki aldraður maður, axlabreiður og karlmannlegur, vel búinn að vopnum og klæðum. Það var Benedikt Kolbeinsson, einn af mestu höfðingjum Norðlendinga. Annar maður var þar einnig, sem mikið bar á. Hann var nokkru yngri en Benedikt, skrautlega búinn og vel vopnaður, og gekk svo fram, að ekkert stóð fyrir honum. Það var Þorsteinn Eyjólfsson frá Urðum í Svarfaðardal, fyrrum einn af hinum fjórum hirðstjórum og nú nýkosinn lögmaður.

Báða þessa menn höfðu þeir Smiður og Jón skráveifa ætlað sér að heimsækja, en nú urðu þeir fyrri til að veita þeim heimsókn. Menn höfðu verið látnir verða á vegi þeirra Smiðs langt frammi í Eyjafjarðardalnum og segja þeim, að Þorsteinn Eyjólfsson byggi nú skip sitt í skyndi úti á Eyrum og ætlaði sér að verða lagður frá landi áður en Smiður kæmi í byggðina; svo væri hann og aðrir Norðlendingar hræddir við Smið og lið hans. Þessu höfðu þeir Smiður trúað og fundist það eðlilegt. En nú stóðu þeir þar, hver gagnvart öðrum á skálagólfinu, félagarnir frá fyrri árum, Jón skráveifa og Þorsteinn, báðir vopnaðir og við því búnir að gera upp sín á milli, og þótti Jóni það verra en ekki.

Lið Norðlendinga var rösklegt og ágætlega búið. Voru þar margir ungir menn, vaskir og vopnfimir og ótrauðir til sóknar. Þó voru þeir ekki bardögum eins vanir og sumir af mönnum Smiðs. Varð því viðtakan snarpari en þeir höfðu búist við, og sóttist þeim seint inn eftir skálanum, enda var örðugt aðstöðu að koma við liðinu þar frammi við dyrnar.

Menn féllu þegar af hvorum tveggja, og margir særðust. Hróp voru mikil og vopnagnýr, því að hver eggjaði annan fast, en í orustukliðinn blandaðist vein helsærðra manna, sem engdust á gólfinu í blóði sínu og þvældust fyrir fótunum á þeim, sem uppi stóðu og börðust.

Þrátt fyrir illvíga vörn Sunnanmanna þokuðust þeir jafnt og þétt innar eftir skálanum, og komu þá hinir meira bolmagni við að framan. Jafnframt hlupu menn við og við inn úr bakdyrum skálans, komu Sunnanmönnum á óvart og gerðu þeim hinn mesta óleik.

Helga húsfreyja stóð enn í gættinni og horfði á leikinn, því að engan veginn var enn útséð um forlög hennar. Það var sem augu hennar, sem stöðugt hvíldu á bardaganum, ykju Norðlendingum, er sneru andlitunum við henni, þrótt og djörfung og gæfu þeim vopnagengi. Bak við hana sáust við og við gægjast fram andlit, afmynduð af skelfingu. Það voru griðkonur hennar. Þær gátu varla stillt sig um að sjá þá nú berjast, sem svo fast höfðu leitað eftir blíðu þeirra um morguninn. Nokkrar þeirra sáu nú "fylgimönnum" sínum blæða til ólífis, og aðrar fengu varla borið kennsl á sína fyrir sárum og blóði.

Þegar Ormur sá, að ekki varð viðnám veitt, kallaði hann hátt til manna sinna og bað þá fylgja sér. Stefndi hann þá til dyranna, sem lágu út í afhúsið, því að þaðan hafði hann séð þá menn koma, sem komu að baki þeim, og vissi, að þar mundu dyr vera. Smiður kallaði jafnhátt og bað menn standa fast og hopa hvergi. Menn þeirra voru tvíhuga um, hvorum þeir skyldu heldur hlýða. Þó varð það úr, að allur fjöldinn fylgdi Ormi, einkum þó þeir, sem orðnir voru sárir eða búnir að fá nóg af leiknum. Í þessum hóp var Jón skráveifa.

Norðlendingar æptu að þeim, að þar brysti flóttinn.

Ormur lét engin hróp á sig fá, en fór til bakdyranna.

Munkurinn stóð í dyrum afhússins, og vék hann úr dyrunum fyrir Ormi og nokkrum mönnum hans, sem honum fylgdu fastast eftir. En þegar hann sá Jón skráveifu í hópnum, óð hann fram og laust hann svo fast, að Jón hrasaði á fiskasteininn og féll um hann, svo að fótum kastaði fram yfir höfuð. Varð af falli hans skarkali mikill og líkastur því sem járnskriða hryndi, því að hátt lét í hlífum og hertygjum Skráveifunnar.

Í sömu svipan fékk munkurinn högg mikið við eyrað, svo að hann svimaði og féll upp að veggnum.

Menn þeir, sem settir höfðu verið til að gæta útidyranna, hrukku fyrir þeim Ormi. Komst Ormur út og allmargir menn með honum, og stefndu þeir þegar til kirkjunnar. Mátti rekja blóðferil þeirra alla leið frá dyrunum og út í kirkju, því að margir voru mjög sárir í hópnum.

En áður en allir væru komnir út, sem Ormi höfðu fylgt, kom Norðlendingum liðstyrkur, svo að þeir hlupu aftur fyrir dyrnar og stöðvuðu útrás Sunnanmanna.

Þegar munkurinn kom að fullu til sjálfs sín, var barist af mikilli grimmd í afhúsinu hjá honum, og veitti Norðlendingum það betur, að leikurinn þokaðist inn eftir gólfinu.

En hvernig sem hann litaðist um meðal þeirra, sem börðust, sá hann nú hvergi Jón skráveifu. Hann var viss um það, að út hafði hann ekki komist með þeim Ormi. En þótt jörðin hefði gleypt hann lifandi, gat hann ekki verið ósýnilegri. -

Norðlendingar hrundu Sunnanmönnum alla leið inn í skálann. Þar var bardaginn enn þá í algleymingi.

Smiður hafði lesið sig upp á skálabitana og varðist þaðan. Stökk hann bita af bita og hjó og lagði niður fyrir sig með einstakri vopnfimi. Var illt að fá færi á honum neðan af gólfinu, nema með spjótum einum, sem ekki hrinu á herklæðum hans.

Smiður kom auga á húsfreyjuna, hvar hún stóð í gættinni, og hafði hann enn fullan hug á að launa henni næturgreiðann. Skaut hann þá að henni spjóti. Spjótið hitti ekki. Kom það í þilið utan við dyrnar og gekk af falnum.

"Svo geigar spjótum yðar, herra, sem öðrum fyrirætlunum," kallaði húsfreyjan storkandi.

Norðlendingar kölluðu þá til hennar og báðu hana standa ekki í slíkri hættu og gera sig að skotspæni. Kváðu nú útséð um leikslokin.

Helga kvaðst standa þar, sem henni sjálfri sýndist, og fór hvergi.

Í þessu var lagt spjóti upp til Smiðs. Rann lagið upp eftir brynjunni á brjósti hans og kom síðan í beran hálsinn. Skar fjöðrin allmikið sár upp með eyranu, og nam spjótsoddurinn af honum hjálminn.

Sárið blæddi mjög, og linaðist vörn hirðstjórans nokkuð við þetta.

Ungur, vaskur Norðlendingur, vopnaður með blikandi breiðexi, hafði nú lesið sig upp á skálabitann og sótti að Smiði.

Smiður hopaði fyrir honum og stökk inn á innsta bitann í skálanum, þann er þiljað var upp undir. Missti hann þá fótanna og greip báðum höndum um bitann; varð honum þá laust sverðið, og féll það niður. Fljótt sem leiftur bar Norðlendinginn að honum, og hjó hann af hirðstjóranum höfuðið við bitabrúnina. Höfuðið féll inn fyrir skilrúmið, en búkurinn, með blóðstraumana fram úr strjúpanum, féll ofan á skálagólfið, skammt þar frá, sem húsfreyjan stóð.

Norðlendingar lustu upp sigurópi miklu.

Þeir, sem nú voru eftir af mönnum Smiðs í skálanum, gáfu þegar upp vörnina og báðu sér griða. Voru þeir sviptir vopnum og teknir til fanga.

En þegar lítið eitt kyrrðist um vopnagnýinn inni í skálanum, hrópaði maður nokkur utan úr afhúsinu og bað menn koma þangað sem snarast.

Menn þyrptust þangað. Benti þá maðurinn á mannsfætur með gullnum sporum, sem stóðu út úr rennu þeirri, er nefnd var "kamaraugað". Innar í rennunni sá á fald á rauðum skarlatskyrtli.

Þessi sýn vakti hlátur mikinn. Nokkrir ýttu við þessum mannlega neðri hluta með spjótum sínum og fundu, að þar var járn fyrir, en fæturnir tóku kippi við hvern sting, og ámátlegt gaul heyrðist utan úr hinum enda rennunnar. Maðurinn virtist ekki hafa varast það, að rennan var þrengri að utan en innan.

Þetta var mönnum um stund hin mesta skemmtun. En loks réðu menn þó af að fá að vita eitthvað meira um manninn en þessir fætur gátu frá skýrt. Var þá tekið fast um fæturna og maðurinn togaður allómjúklega út úr rennunni.

Það var Jón skráveifa.


13. kafli

Skreiðar-Steinn hafði gert sínar sakir prýðilega.

Hann hafði ekki sofnað fram á altarið, - heldur aðeins geispað og nuddað augun. Hann vissi það, að þó að hann gæti barið fisk sofandi, - því að það hafði hann oft gert -, þá var ekki víst, að hann gæti sungið latínumessur sofandi, svo að nokkurt lag væri á, því að það var sitt hvað. Hann streittist við af öllum kröftum að halda sér vakandi og vera alltaf sönglandi eitthvað, sem gæti líkst messu, ef nokkur hlustaði á það. En það var meira en meðalraun að halda þessu áfram alla liðlanga nóttina. - Til "óttusöngsins" hjá honum kom enginn maður.

Til allrar hamingju rifjaðist nú upp fyrir honum töluvert hrafl af einhverjum latínuþulum, sem honum hafði verið kennt, þegar hann var drengur, og hann hafði aldrei á ævi sinni skilið nokkurt orð í. Í 50-60 ár hafði þessi latína legið einhvers staðar niðri á botni í huga hans, sjálfsagt þar, sem dýpst var. Nú gruggaðist þetta dót upp á yfirborðið, einmitt þegar honum lá mest á, og bauð sig til þjónustu. Og hann hirti það og kastaði því með karlmannlegri öldungsrödd út í auða og tóma kirkjuna. Honum stóð á sama, hvort það átti við eða ekki, hvort hann hafði það rétt yfir eða ekki. Það var að minnsta kosti latína, og öll latína var honum eins. Þar flaut hvað innan um annað: Hendingar úr "Te deum laudamus", "Ave, regina coelorum", "Defensor noster" og "Alma redemptoris", - sem sé sitt hvað af þessu, sem biskuparnir í hans ungdæmi höfðu heimtað og gengið ríkt eftir að mönnum væri kennt.

En um morguninn, þegar Sunnanmenn flýðu úr bardaganum og leituðu í helgi kirkjunnar, var sem öldurnar af því, sem gekk á inni í skálanum, skoluðust alla leið inn til Steins gamla.

Sunnanmenn tóku sér stöð frammi við dyrnar og gáðu út, hvort þeim væri veitt eftirför. Allur hugur þeirra var utan dyra, hjá félögum þeirra, sem ekki höfðu enn náð kirkjugriðunum, og á bardaganum, sem þeir vissu, að enn var í algleymingi inni í skálanum. Enginn þeirra kom innar eftir kirkjunni, og enginn þeirra sinnti "prestinum" eða söngli hans fyrst í stað.

En Steinn gamli varð komu þeirra var og vissi þá, að til einhverra stórtíðinda hafði dregið inni í bænum. Hann heyrði ekki, hvað þeir töluðu sín á milli, en hann sá þá binda um sár hvern á öðrum og sá læki af blóði renna eftir kirkjugólfinu. Til allrar hamingju var þó enginn þeirra svo sár, að veita þyrfti honum hina síðustu þjónustu, en Steinn stóð þó á glóðum af angist fyrir því, að slíkt kynni að koma fyrir. Hann sá það, að allir, sem inn í kirkjuna höfðu komið, voru ókunnugir menn; hann þekkti engan þeirra. - Allt hafði einnig að þessu leyti farið eins og munkurinn hafði fyrir sagt: Sunnlendingar einir þurftu á kirkjugriðunum að halda. Af því mátti ráða, að Norðlendingar höfðu yfirhöndina í bardaganum.

Steinn gamli lifnaði í öllum æðum við þessi tíðindi, sem Sunnlendingar færðu honum með komu sinni einni. Gamalt manndómsskap vaknaði í honum. Feginn hefði hann nú viljað vera nokkrum árum yngri og hafa mátt vera þar, sem meiri var mannraun. En þar sem hann var nú gamall og örvasa, fann hann til þess með stolti og gleði, að hafa þó getað gert eitthvert gagn, stuðlað að sigrinum á einhvern hátt, og geta eignað sér sína hlutdeild í honum, þótt lítil væri. Og nú varð honum "embætti" sitt kærara og kærara með hverju augnabliki. Nú lá við, að hann blessaði munkinn á hvert reipi fyrir að hafa rifið af honum skeggið og sett hann í þessa heilögu stöðu, sem einu mátti gilda hver gegndi, eins og nú stóð á. Hann efaðist ekki um, að munkurinn hefði einhvers staðar orðið að liði, - og sú liðsemd var nú honum að þakka.

Við þessar hugsanir greip Stein slíkur guðmóður, að hann fór að syngja með meiri ákafa og innileik en áður. Það var ekki laust við glímuskjálfta í röddinni, en það átti einmitt prýðilega við sönginn; því meira líktist hann prestslegu bænakvaki. Jafnframt fylgdi nú söngnum meira og meira af prestslegum tilburðum: knéfalli, handauppréttingum, krossunum og beygingum, sem Steinn minntist nú að hafa oft séð til presta, þegar þeim þótti mikils við þurfa. Og þótt mestallur söngurinn væri gersamlega óskiljanlegt þvogl, heyrðust þar innan um skýr latínuorð, sem gerðu hann að gildri vöru. - Sunnlendingar voru fastlega sannfærðir um, að presturinn bæði fyrir þeim og öllum öðrum, sem nú áttu bágt, - bæði með þeim mætti og innileik, sem einkenndi dyggustu þjóna orðsins á stund hinna miklu hörmunga, - glímdi í bæninni við helga menn, skoraði fast á þá að stíga nú niður og stöðva bardagann, og bæði jafnframt heitt um miskunn til handa sálum þeirra, sem fallnir voru. Slíkan prest höfðu þeir aldrei fyrir hitt fyrri. Slíka bænarákefð og andagift höfðu þeir aldrei heyrt. Þeir fylltust helgum bænarhug og fóru að taka undir bænirnar með honum í hljóði, jafnframt því, sem þeir voru á verði gegn óvinunum.

Og þar lauk, að öll kirkjan var orðin hrifin af einum bænaranda, sem Steinn gamli söng fyrir. Þar var ein hjörð og einn hirðir.

En þá kom ofurlítið babb í bátinn.

Tveir menn af Norðlendingum ruddust með fasi miklu inn í kirkjuna. Þeir gengu rakleiðis inn í kórinn til prestsins og lögðu hendur á axlir honum.

"Deyjandi maður þarfnast prestsþjónustu," mælti annar þeirra. "Komdu fljótt!"

Steinn heyrði að vísu ekki, hvað þeir sögðu, en vissi þó, hvað þeir vildu. "Þar kom að því," hugsaði hann.

"Komdu fljótt, - fljótt!" endurtóku mennirnir.

Steinn reyndi að láta þá skilja, að ekki mætti trufla hann svo í miðri bæninni. En það varð árangurslaust; það var ekkert undanfæri. Mennirnir tóku sinn undir hvorn handlegg á honum og toguðu hann út úr kirkjunni.

En ekki fóru þeir að athuga, hvað þeir voru með á milli sín, fyrr en þeir komu út fyrir kirkjuvegginn. Þá vaknaði hjá þeim einhver grunur um, að hér væri ekki allt með felldu, svo að þeir fóru að gægjast framan í "munkinn", og loks sviptu þeir munkahettunni aftur af höfðinu á honum.

Það höfuð, sem þá kom í ljós, var svo nauðaljótt, að þeir gátu ekki varist hlátri. Steinn skotraði til þeirra illum augum og var hvort tveggja í senn, reiður og sneyptur.

"Hver ert þú?" spurði annar maðurinn. Steinn hváði og lagði við eyrað. - "Hver ert þú?" endurtók maðurinn, sýnu byrstari en fyrr, og færði sig nær eyranu á honum.

"Ég er, - - ég er, - -," stamaði Steinn og vissi ekki, hvað hann átti af sér að gera. - "Sjáið þið ekki, hver ég er?"

"Svaraðu umsvifalaust, þrjóturinn þinn," mælti maðurinn og hristi Stein óþyrmilega til. "Hver ert þú? - Ert þú heimilisprestur á Grund?"

"Ég -? Heimilisprestur -? Já, - það er að segja -."

"Það er að segja - hvað? Hvað ertu? - Hvað varstu að gera þarna inni í kirkjunni?"

"Ég -? -. Ekki neitt."

"Hvað eiga þessar vöflur að þýða? - Við vitum, hver þú ert. Þú ert einn af Sunnlendingum. Þú ætlar að villa okkur sýn með því að látast vera prestur og heilagur maður. - En nú ertu genginn í gildruna, lagsmaður. Nú skaltu ekki sleppa."

Nú vandaðist málið. Steinn skildi svo mikið, að hans auma líf var í mestu hættu, því að svo var nú hatrið gegn mönnum Smiðs magnað, og svo voru nú hugir manna æstir, að þeim var dauðinn vís, sem í alvöru var grunaður um að hafa fyllt þann flokk.

"Ég - Sunnlendingur?" stamaði hann og ranghvolfdi augunum af skelfingu. Ég, - sem er fæddur og uppalinn hérna í Eyjafirði og hefi verið hér allan minn aldur."

"Þú lýgur þessu öllu saman," mælti Norðlendingurinn og reiddi upp hárbeittan hníf fyrir framan andlitið á Steini. Jafnframt leit hann glettnislega til félaga síns.

Steinn seig niður á knén af örvæntingu og skalf eins og laufblað.

"Drepið mig ekki, - drepið mig ekki!" hrópaði hann. "Ég hefi þetta allt af fjandanum honum Snjólfi. Hvers vegna var ég líka að láta hafa mig út í þetta? Hvern þremilinn hafði ég með það að gera að látast vera prestur? - Mér hefði verið skammar nær að sitja á mínum stað og berja fiskinn."

Í þessu kom Snjólfur að. Hann hafði komist að því, að búið var að senda eftir prestinum, og vissi, að nú var komið í hin mestu óefni, svo að hann flýtti sér allt hvað af tók til að bjarga þessu máli.

"Ég fékk Skreiðar-Stein fyrir mig til að gegna prestsembættinu," mælti hann, "til þess að geta verið í bardaganum með ykkur. Ég reytti af honum skeggið, til þess að gera hann dálítið prestslegri, og - þetta hefir allt saman tekist ágætlega. En þetta má enginn maður vita. Ég vona, að þið launið mér liðveisluna með því að þegja yfir þessu."

Mennirnir könnuðust nú við Snjólf kanúka, er þeir sáu hann í sinni réttu mynd, þótt enn þá væri hann í tötrum Steins. Skeggið, sem hann hafði bundið sér, var hann búinn að rífa af sér. Þeir minntust þess líka að hafa séð hann í skálanum, og nú skildu þeir, hvernig í þessu öllu lá.

"Skreiðar-Steinn prestur!" sögðu þeir og hlógu. "Annað eins skrípi hefir víst aldrei staðið fyrir altari!"

"Steinn gamli er síst meira skrípi en biskupinn, sem við Norðlendingar höfum nú á Hólum," (Jón skalli) mælti munkurinn alvarlegur og togaði Stein úr höndum þeirra. - "Komdu nú, Steinn minn. Þú ert búinn vel að gera. Nú skulum við flýta okkur að hafa hamaskipti aftur."

Að svo mæltu teymdi hann Stein með sér í skyndi inn í afhúsið, þar sem fiskasteinninn stóð.

"Ég vildi, að ég hefði aldrei látið þig hafa mig út í þennan fjanda," nöldraði Steinn og var í illu skapi. - "Hvað skyldi húsmóðirin segja?"

"Húsmóðurina þarftu ekki að óttast. Hún veit vel um, hvað við höfum hafst að. - Svona, vertu nú fljótur!"

"En fiskasteinninn -! Allur löðrandi í blóði. - Og fiskurinn! - Sér er nú hver sóðaskapurinn! Ég hefði betur verið hér sjálfur."

"Hér hafa þeir þorskar verið barðir í nótt, sem ekki voru þitt meðfæri, Steinn minn. - En tefðu mig nú ekki með þvættingi."

Steinn var svo hneykslaður yfir útlitinu á öllu inni hjá sér, að hann gat engu öðru sinnt. En munkurinn hafði hraðar hendur. Hann smeygði sér á augabragði úr görmum Steins, fletti síðan af honum munkakápunni og fór í hana sjálfur. Steinn stóð enn á nærklæðunum og litaðist um, þegar munkurinn var horfinn.

"En sá endemis sóðaskapur," nöldraði Steinn við sjálfan sig, á meðan hann var að færa sig í garmana sína. "Að sjá fiskasteininn! - Og gólfið, - gólfið líka! - Eins og ekki megi drepa menn án þess að svína allt út, - svona líka greinilega. - Og fiskurinn - nýbarinn - á gólfinu, traðkaður ofan í blóðforina. - Er ekki von, að gangi fram af mér? - Að trúa svona manni fyrir því að berja fisk! - Og fletið mitt -! Eins og það sé ekki eins og allt annað? - Hvar á ég nú eiginlega að setja mig niður? - Og garmarnir mínir - allir blóðstokknir. Nú, munkurinn var þó hvergi sár. Skyldu þeir hafa velt honum upp úr blóðugu gólfinu? - Víst hefði honum verið það meira en mátulegt. - En sleggjan -? Hvar er nú sleggjan? - Sleggjan sést hvergi nokkurs staðar. Ó, þessi bannsettur munkur ! - Sleggjuna hefir hann líklega étið - - - -."


14. kafli

Það var Jón skráveifa, sem verið var að búa undir burtför sína.

Þó að fullur sigur væri nú unninn og Smiður hirðstjóri fallinn, var hatri og hefndarþorsta Norðlendinga ekki líkt því svalað. Jón lögmaður Guttormsson skyldi fara sömu förina. Hverjum manni í hópnum hefðu Norðlendingar verið fáanlegir til að gefa grið öðrum en honum. Smiði líka, hefði hann fallið lifandi í hendur þeirra. Flestir hinna höfðu það eitt til saka unnið að hafa fylgt þeim. Eiginlega var það gegn Jóni lögmanni einum, sem gripið hafði verið til vopna. Að eiga slíkan mann yfir höfði sér, hverju sem hann lofaði sér til lífs og griða, fannst engum takandi í mál. Nú höfðu þeir hann á valdi sínu, og forlög hans voru fyrirfram ráðin og innsigluð. Þar var enga vægð að nefna. Jón hafði beðið sér griða, beðið og grátbeðið, boðið allt á vald þeirra, allar eigur sínar, réttindi sín og landsvist, - allt, sem hann gæti af hendi látið, fyrir það eitt að halda lífinu, en alls enga áheyrn fengið. Það eina, sem látið var eftir honum, var, að hann mætti ná prestsfundi.

Nú kraup hann frammi á hlaðvarpanum, með hendurnar bundnar fyrir aftan bakið og fæturna bundna saman. Norðlendingar stóðu vopnaðir í kringum hann. Fram undan honum lá höggstokkurinn.

Jón skráveifa var ekki lifandi nema að hálfu leyti og kannske tæplega það. Hann var nær dauða en lífi af hræðslu og hugarkvöl. Hann var mjög víða sár, þótt ekki væru sárin stór. Spjótaoddar höfðu gengið gegnum hringana í brynjunni og nokkuð inn í hold hans; það gátu ekki stór sár kallast hjá þeim, sem margir aðrir báru nú, en þau sviðu þó og blæddu, og þar sem þau voru víða, drógu þau mjög dáð úr honum. Auk þess hafði hann orðið fyrir þungum kylfuhöggum í bardaganum, sem höfðu kramið hann og marið og sums staðar að kalla rekið hlífarnar inn í hann sjálfan. Nú lá hann bundinn frammi fyrir höggstokknum og þoldi í sárabætur hróp og hæðni vægðarlausra óvina fyrir það, hve ókarlmannlega hann bæri sig.

Munkurinn gekk til hans hljóður og alvarlegur. Það lá við, að hann kenndi í brjósti um hann, þó að hann illur væri. Svo aumlega kom nú lögmaðurinn honum fyrir sjónir.

"Hvers þarfnist þér, herra?" spurði hann.

"Skrifta," stundi lögmaðurinn.

"Skrifta!" gall einhver við í hóp Norðlendinga. "Blessaður, láttu hann ekki fara að skrifta. Hann yrði aldrei búinn. - Hann, sem tvisvar eða þrisvar hefir verið dæmdur á konungs miskunn fyrir illvirki. Við megum ekki vera að bíða eftir allri þeirri syndaskrá."

"Við kunnum hana utanbókar," mælti annar. "Rógur, illmælgi, - rán, manndráp, nauðganir; - er það ekki það helsta? - Og svo auðvitað ofát og ofdrykkja, ófriðargirni og óhóf í öllu. Þess konar smámuni getur hann geymt sér að telja upp, þangað til hann hittir einhvern í hinu lífinu."

"Ég vil skrifta," stundi lögmaðurinn aftur.

"Heilög kirkja neitar engum um að létta samvisku sína fyrir andlátið," mælti munkurinn alvarlega. "Vel kann að vera, að þessi maður hafi eitthvert það leyndarmál, sem hann vill leggja í hendur hins heilaga valds, áður en hann skilur til fulls við heiminn."

Norðlendingar virtu alvöru og einbeitni munksins og þokuðu sér fjær, án þess að mæla á móti. Víður mannhringur stóð utan um lögmanninn og munkinn.

Munkurinn laut nú með eyrað að vörum lögmannsins, til að heyra leyndarmál hans.

"Það er satt," mælti Jón skráveifa með veikri röddu. "Það er satt - því miður - allt saman, sem um mig var sagt áðan. - Ég hefi verið breyskur - allt of breyskur, pater, - mesti syndaþrjótur. - Það eru ósköpin öll af glæpum, - ja, ég nefni það glæpi, eiginlega eru það ekki annað en syndir, - algengar syndir nú á dögum, - og nú skal ég bæta það allt saman upp. - Nú skal ég verða góður maður og gera öllum gott. - - Frelsaðu mig! - Frelsaðu mig!"

"Er það ekki annað en þetta - -?"

"Frelsaðu mig, frelsaðu mig! - Ég bið þig grátandi. - Þú getur haft einhver ráð. Þeir treysta þér. Þeir gera allt fyrir þig. - Segðu þeim, að ég ætli að ganga í klaustur, verða heilagur maður, þjóna guði til æviloka. - Segðu þeim, að upp frá þessari stundu heyri ég kirkjunni til. Það sé hennar skaði að missa mig. - Segðu þeim eitthvað, - eitthvað, sem þér dettur í hug. - - En frelsaðu mig. - Gerðu það vegna guðs - - ."

"Lesið þér "De profundis", (Kaþólskur iðrunarsálmur. Sbr. 130. sálm Davíðs.) herra. Tíminn er naumur."

"Ekki strax. - - Frelsaðu mig. - Ég skal gera þig ríkan. Ég skal gefa þér Reykholt, - 20 hundraða jörð, - eða - - ."

"De profundis, herra," mælti munkurinn ósveigjanlegur og hélt róðukrossinum upp fyrir augu lögmanninum. "Lesið De profundis. - Ævistundir yðar eru augnablik, sem telja fljótt af sér."

"De profundis, - de profundis. - - Ó, ég man það ekki. Allt hringlar í höfðinu á mér, - allt hringsnýst í kringum mig. - De profundis, - mér hefir aldrei verið um þessar latínubænir. - - Heyrðu, pater. - Ég á líka Hól í Bolungarvík. - Það er vænsta jörð, 36 hundruð, - - og svo á ég Arnarstapa og Einarslón. - Nei, ekki Einarslón, - ég gaf Kolbeinsstaðakirkju það fyrir sálu minni. - Ein sálumessa á viku, það er ekki mikið fyrir aðra eins jörð. - De profundis, - og svo er ég hræddur um, að ekkert gagn sé að þessum sálumessum. - En ef þú vilt Einarslón heldur, pater - - -. Já, já, - de profundis - hvað kemur svo?"

"- clamavi ad te, domine," minnti munkurinn hann á.

"Clamavi - ad te, - domine. - Ég kunni þetta einu sinni á fingrunum, en nú er ég snarruglaður í því. - Allar jarðirnar, pater, ef þú getur frelsað mig. - Heyrirðu það? - Allar jarðirnar, - hundrað hundraða í jörðum. - Clamavi ad te -. Heyrirðu það, pater? - Skerðu af mér böndin, svo hleyp ég. - Þeir skulu ekki ná mér, - ekki einu sinni á hestum. Enginn skal ná mér - - ."

Munkurinn lét sem hann heyrði ekki.

"- - Domine exaudi vocem meam."

"Domine, - exaudi - vocem - me-am," át lögmaðurinn eftir, en gerði um leið tryllda tilraun til að slíta af sér böndin.

"Nú er nóg komið," hrópaði einn af höfðingjum Norðlendinga og gaf um leið bendingu um það, hvað gera skyldi.

Munkurinn flýtti sér að smyrja hinni síðustu olíu á enni lögmannsins og lesa hina lögboðnu latínugrein. Síðan færði hann sig frá honum, um leið og hann þó rétti honum róðukrossinn til að kyssa hann.

Lögmaðurinn fann, að öll von var úti. Grátandi og skjálfandi kyssti hann fætur myndarinnar á róðukrossinum.

Sterkar og harðar hendur læstust í hári hans og teygðu höfuðið fram yfir höggstokkinn svo fast, að vöðvarnir aftan í hálsinum stóðu stríðþandir. Lögmaðurinn hljóðaði upp af sársauka og skelfingu, en það tók snöggt fyrir þau hljóð. Sama breiðöxin, sem fyrr hafði orðið Smið hirðstjóra að bana, gekk nú einnig milli bols og höfuðs á Jóni skráveifu.


15. kafli

Inni í skálanum var ægilegt um að litast. Þar lágu 13 menn dauðir, og gólfið flaut allt í lifruðu blóði. -

Helga húsfreyja gekk þar um með þjónustustúlkum sínum og batt um sár manna. Hún líknaði öllum, sem hún fann, að hjálpar þörfnuðust, hvort sem þeir voru að sunnan eða norðan, hvort sem þeir höfðu barist með henni eða móti. Og þá, sem verst voru haldnir, lét hún bera út í kirkju til frekari hjúkrunar.

Að lokum gekk hún um endilangan skálann og tók á hinum föllnu, til að vita, hvort úti væri um alla lífsvon. Hún hélt að sér kyrtlinum, stiklaði gætilega í blóðpollunum og steig yfir líkin. Hugur hennar og kjarkur var hinn sami í líknarstarfseminni sem í baráttunni og hættunni.

Eyfirðingar komu inn í skálann eftir aftöku Jóns lögmanns. Munkurinn var í för með þeim.

"Eigum við ekki að ryðja skálann, húsfreyja?" spurði einn af fyrirliðum þeirra.

"Ekki að svo stöddu," mælti hún. "Ekki fyrr en Björn sonur minn er kominn heim. Ég hefi sent eftir honum. Ég vil að hann sjái, hvað móðir hans hefir að unnið í nótt."

"Og spjótsoddurinn þarna skal standa í þilinu, þar til Einar bóndi minn kemur heim," mælti hún enn fremur. "Ég fyrirbýð öllum að hreyfa hann. - Það er ekki á hverjum degi, að spjóti sé stefnt á konu."

Hún var nú komin að dyrunum, sem lágu út í afhúsið, og skyggndist þangað inn. Þar sat Skreiðar- Steinn auðum höndum og japlaði skegglausum skoltunum yfir fiskasteininum.

"Og vesalings Steinn gamli hefir fórnað sínu fagra, gráa skeggi okkur til sigurs. - Ég þakka þér fyrir, Steinn minn. Fórnin hefir komið að góðu haldi. Og ég skal reyna að láta þig eiga gott, - að minnsta kosti meðan skeggið er að vaxa aftur."

Skreiðar-Steinn leit upp og glápti á húsmóður sína um stund. Hann skildi ekkert í þessari hlýju kveðju. Loks mælti hann:

"Mér þykir verst af öllu að finna hvergi nokkurs staðar sleggjuna."

"Sleggjan er vís," mælti húsfreyjan og brosti við. "En það verður ekki barinn fiskur með henni framar. Hún verður geymd inni í dyngju minni sem helgur gripur. - Þú skalt bráðum fá aðra sleggju."

Steinn skildi hvorki upp né niður í þessu.

En húsfreyjan tók hörpuna sína í fang sér og bar hana inn í dyngju sína. Hún var ötuð blóði, eins og allt annað í skálanum.

Þegar húsfreyjan var komin inn í dyngjuna, kom Dísa litla á eftir henni og rétti henni hnífinn og beltið.

"Ég þurfti ekki á því að halda," mælti hún feimnislega.

"Það var gott, barnið mitt. Fórst þessum manni vel við þig?"

"Hann sat hjá mér eins og góður bróðir og hélt um höndina á mér. Hann háttaði ekki og fór ekki úr herklæðunum. Hann sagðist bíða og hlusta, hvort enginn þyrfti síns liðsinnis við. - Hann sagðist vona, að ekki yrði farið illa með neina af okkur stúlkunum, því að eiginlega væri það ekki nema einn maður í hópnum, sem hann vissi, að einskis svifist. En hann hlustaði samt með athygli eftir hverju hljóði, sem hann heyrði."

Dísa þagnaði um stund, og augu hennar stóðu full af tárum, en Helga sá það á henni, að henni var enn þá eitthvað niðri fyrir. Loks kastaði Dísa sér grátandi um háls henni og mælti:

"Láttu gefa þessum manni líf, fóstra mín. Hann er svo góður og göfuglyndur, - og mér þykir svo vænt um hann. Gerðu það fyrir mín orð, elsku fóstra. Láttu gefa honum líf."

"Hann verður ekki drepinn," mælti Helga. "Hann er frændi okkar í framættir. Vertu óhrædd. Hann verður ekki drepinn. - Það verður enginn maður drepinn af þeim, sem nú hafa gengið til griða."

Dísa hoppaði upp af fögnuði.

"Hreinsaðu nú hörpuna mína, Dísa mín. Hún hefir orðið okkur að ómetanlegu liði, - enda ber hún þess merki."

Dísa var svo glöð, að hún vildi allt gera húsmóður sinni til þægðar, - líka það að þurrka upp mannablóð. En svo mælti hún allt í einu:

"Hver var það, sem sló hörpuna í nótt? - Það var ekki Skreiðar-Steinn."

Húsfreyjan varð hugsandi.

"Það var maður, sem forsjónin sendi mér eins og verndar- og hjálparengil, þegar mér lá mest á. Þeim manni fæ ég aldrei að fullu launað."

Samtal þeirra varð ekki lengra, því að ein af griðkonunum kom með gríðarlegu írafári inn í dyngjuna.

"Hvað gengur á?" spurði húsfreyjan.

Stúlkan stóð á blístri af skelfingu, og augun ætluðu út úr henni. Hún gat engu orði upp komið, en benti og baðaði út höndunum.

Húsfreyjan sá, að eitthvað var mikið á seyði, og fylgdi stúlkunni eftir inn í mjólkurbúrið.

Þar lágu mjólkursletturnar um allt gólfið, en niðri í einu mjólkurtroginu lá höfuð Smiðs hirðstjóra. Það, sem eftir var í troginu, var rautt af blóði.

Það var sem húsfreyjunni yrði bilt við í svip, er hún sá þetta höfuð, sem hvílt hafði við barm hennar um nóttina. Svo varð svipur hennar harður sem stál, og hún hló kuldalega.

"Er það ekki annað en þetta, sem komið hefir fyrir?" mælti hún. "Einhvers staðar varð höfuð þetta að lenda, fyrst það hrökk inn fyrir bitann."

"En, húsfreyja -?" mælti stúlkan ráðþrota.

"En - hvað? Þetta höfuð kallaði mig "helvítis norn" í morgun. - Og nú liggur það þarna."

Síðan ætlaði hún að ganga fram í skálann, en stúlkan kallaði á eftir henni:

"Á ekki að fleygja mjólkinni?"

Helga sneri sér við í dyrunum og mælti hvatlega:

"Fleygja mjólkinni? - Hvers vegna ætti að fleygja mjólkinni? - Má ekki slá henni saman við hitt til grautargerðar? - Að minnsta kosti má þó kasta henni fyrir kálfana."

Að svo mæltu gekk hún fram í skálann, en lét griðkonuna eina um það, hvað hún gerði við höfuð hirðstjórans og mjólkina.

"Nú standa menn þessir allir fyrir dómstóli drottins," mælti hún hátt við munkinn. "Syngdu sálumessu, pater. Ekki mun af veita." Rétt á eftir laut hún að eyra munksins og mælti hljótt: "Bráðum get ég búið mig til suðurgöngu, pater, þegar Björn minn vex betur upp. Lengi hefir mér leikið hugur á að sjá Rómaborg. Hingað til hefir það hindrað mig, að ég hefi ekkert sögulegt haft til að segja hinum heilaga föður, páfanum. Illt var að gera sér og honum slíkt ómak fyrir smáyfirsjónir einar. - Hvað segirðu um það, pater, að slást í förina?"


--------

Skömmu seinna hóf munkurinn sálumessu í sjálfum skálanum, yfir blóðugum valnum. Eyfirðingar og Sunnlendingar þeir, sem gengið höfðu til griða og rólfærir voru fyrir sárum, voru þar inni og hlýddu á hina hátíðlegu kirkjuathöfn.

Munkurinn var skrýddur öllum prestsskrúða og bar stóran róðukross og reykelsisker. Hann veifaði reykelsiskerinu yfir líkunum og söng með þýðri, karlmannlegri röddu:

"Requiem aeternam dona eis, domine,
et lux perpetua luceat illis - - ."

Latínusöngurinn og reykelsisilmurinn fylgdust að um skálann sem boðberar hins heilaga, eilífa og óskiljanlega valds, leggjandi friðandi og friðþægjandi, en þó myndugar móðurhendur á hinar æstu öldur í hugsunum manna og tilfinningum, vaggandi þeim til værðar og jafnvægis.




Netútgáfan - júlí 1999