FRÁ  GRÍMI  Á  STÖÐLI


eftir Þorgils gjallanda





Það var einn dag skömmu eftir þrettánda, að tveir menn gengu upp eftir túninu á Stöðli; var annar þeirra ungur að aldri svo honum var ekki sprottin grön, grannlegur vexti, fölleitur og skarpleitur; ekki hraustlegur yfirlitum; hann var vel búinn og fötin úr erlendum vefnaði þunnum. Yfirfrakkinn var prýðis snotur, en hann var alls ekki hentugur til að þola snjóbleytu né frostgadd. Hinn mundi vera miðaldra maður, feitlaginn, klofstuttur og ekki frálegur, sá bar bagga allmikinn á baki.

Ferðamennirnir báðu Grím bónda um fylgd vestur yfir heiðina og létu sér títt um ferðina. Grímur færðist undan í fyrstu, taldi illa færð á heiðinni og veður ótrygglegt, enda mundi dagur trauðla endast þeim þótt allhart væri gengið.

Komumenn sóttu málið því fastar, sem Grímur færðist meir undan, og lyktaði með því, að Grímur bjóst til farar; sendi son sinn 12 vetra gamlan eftir fénu sínu og bað hann að hýsa það. Húsfreyja gaf gestunum mjólk að drekka, svo lögðu þeir á heiðina.

Grímur var svo búinn að hann var í grárri hríðarúlpu víðri, og svo síð að tók á kné niður, gyrði hann hana með ól langri og tvívafði um mitti sér; hornsylgja var á öðrum enda ólarinnar; drap hann blöðum hempunnar undir ólina að framan og fór að engu óðlega. Hann var í mórauðum buxum og gráum sokkum, hrossskinnsskó á fótum, gráa belgvettlinga allstóra og svellþæfða á höndum; hettu sauðsvarta á höfði og ekki slitin af lóin. Grímur var lágur maður vexti og rekinn saman, bringubreiður og þykkur undir hönd, breiðfættur og handstór; þykkleitur og yfirlitsdökkur; svartur á hár og skegg og mikið hvort tveggja; gráeygur og inneygur; brúnamikill og söðulnefjaður; seinlegur í bragði og ekki dáfríður. Hann hafði varreku háa í hendi og rauður rekaviður í tindinum, en eik í skákum, varið stálsoðið og traustlega gert. Skíði hafði hann bæði löng og breið og mundu hálfgengin, dró hann þau eftir sér í snæri upp brekkurnar.

Brattabrekka heitir hin efsta af brekkunum austan í heiðinni; þar settust þeir félagar niður, er þeir komu upp á hana, og köstuðu mæðinni; gerði þá kafaldsdrífu og veðurgný mikinn norðvestur í Svörtutindum; Grímur stóð á fætur, litaðist um og fýsti að snúa aftur, ofan að Stöðli, en við það var ekki komandi.

"Þá leggjum við tveir á heiðina, fylgdarlausir," sagði verslunarmaðurinn, hneppti að sér þunna yfirfrakkann sinn og sneri upp eftir röðlinum.

"Fyrst svo er, þá fer ég með ykkur; ókunnugir hafa ekkert með heiðina að gera í kvöld." Grímur gekk fram fyrir þá félaga, dró snærið úr skíðunum og steig á þau. Hinir gerðu slíkt hið sama, og sást þá brátt, að Gunnarsen verslunarmaður var óvanur skíðagöngunni.

Skömmu síðar voru þeir félagar komnir vestur á háheiðina og grenjandi stórhríð brostin á.

Grímur herti gönguna þegar bylurinn brast á; skíðin gengu afar illa, en ókleift færi ef út af þeim var stigið. Gunnarsen, sem var óvanur illviðri og þungri færð, fór að dragast aftur úr.

Það var grimmasti heiðarbylur þetta kvöld, með frosthörku, fannfergi og ofsaveðri.

Svo kom næturhúmið og þar eftir niðsvört nóttin.

Þeir félagar lögðu á heiðina á þriðjudag heldur síðla.

Og á miðvikudaginn í hálfrökkri var guðað á baðstofugluggann á Blámýri, mönnum varð hverft við og þótti furða, að nokkur væri á ferð í slíku foraðsveðri og var skjótt til hurðar gengið.

Það var Grímur á Stöðli og félagar hans, sem nú voru komnir vestur af heiðinni; ofan að Blámýri eins og þeir höfðu ætlað sér.

Gunnarsen var staðþrotinn þegar kom vestur að Kleyfum, en þær eru spölkorn austan við heiðarbrúnina; sá þá Grímur ekki annað ráð vænna en að grafa sig þar í fönnina og láta þar fyrir berast um nóttina.

Þeir urðu á allar lundir að hlúa að verslunarmanninum, sem var veikur af kulda, þreytu og hungri.

En það hlýnaði fljótt í snjóhúsinu, og í bagganum höfðu þeir félagar þurra sokka, vettlinga, nóg af eldspýtum og eina flösku af ákavíti. Ólafur fylgdarmaður hélt það væri réttast, að þeir hresstu sig rækilega á henni; það vildi Grímur ekki samþykkja, tók flöskuna og stakk henni í barm sinn. Eftir það tók hann úr vasa allmiklum innan á hríðarúlpunni tvær flatkökur og hálfan sauðarmagál; helminginn af þessu tók hann og skipti milli þeirra þriggja; afganginum stakk hann aftur í vasa sinn; þeim virtist nesti Gríms fyrirtaks gott og vínið á eftir ágæt hressing. Gunnarsen sofnaði langan og hressandi svefn; þeir ferðamennirnir sváfu furðu vel í snjóhúsinu; Grímur vakti alla nóttina og sá um að ekki yrði loftlaust þar inni, stakk skafti varrekunnar upp í gegnum fönnina og hafði þar holu dálitla, sem alltaf þurfti að gæta að.

Um morguninn gróf Grímur sig út og gætti að veðri; það var sama blindhríðin; þegar hann kom inn aftur sagði hann þeim, að ef þeir treystust að ganga sér til hita, mundi hann vera viss að rata vestur af, til bæja; þeir vildu freista þess; báðum þótti óvistlegt þar í fönninni. Eftir það bjuggust þeir til ferða. Grímur skipti matarleifunum milli þeirra félaga sinna, sjálfur át hann ekkert, eftir það supu þeir á flöskunni, þá setti Grímur upp hatt verslunarmannsins, braut niður börðin og vafði ullartreflinum sínum yfir kollinn og vangana. Gunnarsen varð hettu Gríms feginn.

Þegar út kom bar Grímur bagga þeirra upp á klett á Kleyfinni, svo stigu þeir á skíðin og héldu á hlið við veðrið. Fötin frusu skjótt er þau voru vot og gerðist þeim þá óhægt um ganginn. Á heiðarbrúninni var veðrið grimmast, þar var óstætt á skíðunum og setti Grímur þau öll á eitt snæri og dró þau. Litlu seinna fleygði Gunnarsen sér niður í fönnina, hann var staðþrotinn og frakkinn allur sprunginn og rifinn. Grímur lét hann súpa á flöskunni, svo studdu þeir hann niður að Grásteinsgili, þar varð Grímur að klæða hann í hempuna sína og eggja hann sem fastast að duga nú mannlega þennan litla spöl sem eftir væri. Þaðan urðu þeir að leiða hann og styðja alla leið heim að Blámýri og var þá svo komið að þeir félagar báðir voru að þrotum komnir; Grímur einn var hress og engu seinlegri í bragði en hann átti vanda til.

Snjólfur bóndi tók tveim höndum móti gestum sínum, var þeim Gunnarsen og Ólafi fylgt inn í hjónahúsið, dregin af þeim snjóklæði og hjúkrað sem allra best. Hresstist Ólafur skjótt, en að Gunnarsen sló kölduhrolli og var honum búið rúm og þakinn í dúnsængum. Allir voru þeir félagar ókalnir nema lítillega á eyrum og kinnbeinum.

Grími var búið sæti í fremri baðstofu og þar mataðist hann. Vinnufólkið hafði gaman af að taka eftir hvað Grímur gerði matnum góð skil; það var ungt og gáskamikið Blámýrarfólkið og stúlkurnar mestu hlátursskjátur. Það var nýlega búið að borða og var óþrekað af útivist þennan dag.

"Það var stífasti tveggja manna matur, sem hann Beinserkur hirti núna," hvíslaði Guttormur sauðamaður að einni vinnukonunni og strauk um leið eftir annarri hárfléttunni.

Meira þurfti ekki til að koma pískrinu og flissinu af stað.

Það er óvíst hvort Grímur heyrði það sem Guttormur sagði eða ekki. Vinnukonurnar fullyrtu seinna, að svo mundi hafa verið; strákurinn hefði haft svo hátt.

Grímur tók sér væna tóbakstölu þegar hann var búinn að borða, leit til Guttorms og sagði:

"Var ekki hálf-slæmt færið út á húsin í dag?"

"O-jú, ekki er því hælandi," sagði Guttormur og dreyrroðnaði.

"Það var ekki farið í þau í dag," sagði Jón litli Snjólfsson, átta vetra gamall drengur, sem stóð hjá hinum piltunum.

"Sauðirnir eru held ég jafngóðir fyrir því; alveg í haustholdum og troðfullir í gærkvöldi þegar ég skildi við þá."

"Já, það er svo sem auðvitað," sagði Grímur og spýtti.

Nú fóru vinnukonurnar að stinga saman nefjum og reyna til að byrgja hláturinn, sem mistókst þó eins og svo oft vill verða.

Grímur var svo kátlega dragmæltur og það var svo gaman þetta um Guttorm og beitarhúsin.

Morguninn eftir fór Grímur austur að Kleyfum og sótti baggann; hann var ekki lengi niður brekkuna á skíðunum sínum. Hríðin var miklu vægri og sá til lofts í norðrinu öðru hvoru.

Grímur hafði hugsað sér að hvílast á Blámýri þennan dag. Hann hafði gert svo ráð fyrir heima, að fólkið mundi ekki verða mjög hrætt um hann, og satt að segja var hann nokkuð þrekaður eftir volkið á heiðinni.

Úr hádeginu fór veður batnandi, gerði bakkaveður og norðanfroststorm með renningsskriði.

Loftvogin vildi samt lítið stíga.

"Það er lítið að marka," sagði Grímur, "það er ekki öllu vissara en blöðrurnar."

"Ekki jafna ég því saman," sagði Snjólfur, "en hitt er það, það þarf nákvæmni til að þekkja rétt á barometið."

"Það getur nú verið, ég þekki það svo sem ekkert," sagði Grímur.

Svo fór Snjólfur að spyrja eftir ýmsum hreppsmálum austan úr dalnum, eftir útsvörum manna, hvað þessi hefði átt að borga margar krónur og hvað hinn; hvort nokkur hefði klagað; hvað mikið yrði vart við fjárkláðann; hvort allir hefðu baðað eins og var fyrirskipað; um framtal manna og undanbrögð með það.

Grímur gat lítið svarað þessum spurningum: Hann vissi það ekki. Þorði ekkert að segja um það. Ekki hafði hann heyrt þess getið. Þetta voru svörin.

Snjólfi þótti Grímur meir en meðalheimskur; grunaði hann um að vita betur en hann lét, það kom í hann grágletta og svo hugsaði hann sér að gabba Grím svolítið áður en þeir skildu.

Snjólfur var fróður um sveitarmál, ódulur í skapi og heldur kerskinn, og þá nýlega kosinn í hreppsnefnd þeirra Mýramanna.

"Ætlar Gunnarsen að kaupa af þér hempuna og hettuna til að stássa með þar vestra?" Snjólfur talaði í hálfum hljóðum.

"Ekki hefur það neitt komið til orða;... mér veitir ekki af því sjálfum."

Vinnukonurnar fóru að líta hver til annarrar og brosa.

"Heldurðu þú treystir þér einn austur yfir heiðina í kvöld?" Snjólfur leit glottandi til fólksins.

"Ég hef ekki hugsað um það, og hefur oft verið léttara um spor en núna."

"Mönnum er síst léttara um ganginn þegar þeir eru rétt búnir að borða," sagði Guttormur og fleygði húfunni sinni og vettlingum á borðið.

"Hvernig beittu sauðirnir sér í dag? Þeir hafa getað borið sig um?"

"Ég lét ekki sauðina út í þennan bölvaðan bruna; það er líka jarðlaust orðið þar ytra," sagði Guttormur stuttlega.

"Er annars ekki reimt á heiðinni? Hefurðu aldrei orðið þess var," spurði Snjólfur.

"Nei, það er svo fráleitt um það," sagði Grímur.

"Það verður draugalegt í kvöld. Þegar tunglið veður í skýjum, er sagt þeir séu á flakki hérna á heiðinni."

"Ekki er ég neitt hræddur við það. Ætli það geti ekki eins viljað til, að yrði vart við einhverjar skráveifur hérna á Mýrunum."

Þá var kallað á Snjólf, til að borða með verslunarmanninum.

Grímur snæddi við borðið í frambaðstofunni, gekk síðan upp í húsið, þakkaði fyrir matinn, svo kvaddi hann Snjólf.

"Þér farið þó ekki austur á heiðina í kvöld, Grímur minn. Ég ætla að biðja yður fyrir, að gera það ekki," sagði verslunarmaðurinn.

"Ég fer líklega fram í Fell, treysti mér varla austur yfir svona seint."

"Jæja, þá er ég ánægður og verið þér nú sælir, Grímur minn. Guð veri með yður. Ég skrifa yður þegar ég kem vestur, viðvíkjandi því sem við höfum talað um," sagði verslunarmaðurinn og kyssti Grím innilega.

"Þér er velkomið að vera í nótt, Grímur. Ég ætla að biðja þig fyrir að leggja ekki á heiðina í kvöld," sagði Snjólfur.

"Þakka þér fyrir,... mér er óhætt fram að Felli, þar þarf ég hálfvegis að koma."

Síðan kvaddi Grímur fólkið og fór.

Litlu síðar kom Guttormur út og sá að Grímur stefndi ekki suður að Felli, heldur upp heiðarbrekkurnar. Hann sagði ekki frá þessu fyrr en nokkru seinna, og þá hélt Snjólfur, að heppilegast mundi, að geta ekki um það við gestina.

"En ég vona honum sé óhætt, hann er svo ágætur að rata," bætti hann við.

*

Veðrið spilltist ekki; það fór eins og Snjólfur gat til, tunglið óð í skýjum, en engar kynjasjónir bar fyrir Grím.

Mjallrokan stóð í kringum Grím, þar sem hann þaut á skíðunum niður allar brekkur; glaður á svip og þróttarlegur; með hríðarúlpuna á bakinu og uppbrotna hettuna.

Klukkan sló tvö um nóttina þegar Grímur kom upp á baðstofupallinn heima á Stöðli.




Netútgáfan - janúar 2000