Sigmundur gamli vökumaður var að staulast "út á fjöruna", þangað sem hann átti að fara til að vaka yfir varpinu.Þótt ekki sæi hann vel, sá hann það þó á öllum merkjum, að hann hafði ekki sofið of lengi, "sofið yfir sig", eins og kallað er. Það er svo hætt við því, þegar fjaran er seinni part nætur og vökumaðurinn þarf á fætur um miðja nótt.
Ennþá var flóð alveg upp í árósinn; vaðlarnir voru allir í kafi, og hvergi sá á þang á skerjunum og flúðunum. Grandinn fram í varpeyjuna var líka í kafi, svo að það var breitt sund út í eyjuna, fulldjúpt fyrir meðalhafskip.
Sigmundur gamli var því ánægður. Hann var ekki orðinn of seinn.
Hann sperti upp augun, þegar hann litaðist um, til að rífa úr þeim stírurnar. Svo geispaði hann nokkrum sinnum, ók sér nokkrum sinnum, hristi úr sér hrollinn, tvíhenti prikið sitt og staulaðist á stað. Vaskur gamli lötraði með honum, en nauðugur þó.
Það var glaðbjört vornótt, kyr og fögur, en hráslagaköld, svo að Sigmundi gamla fanst sér ekki veita af að dubba sig vel upp. Hann hafði að vísu ekki miklu til að tjalda, en hann tíndi það utan á sig, það lítið það var. Hann fór í báða buxnagarmana, þá bættu innan undir, þá rifnu utan yfir, tvenna sokka innan undir skinnleistana og tvenna skóræfla þar utan yfir, duggarapeysu utan yfir vestið, og treyjugarm þar utan yfir, trefil margvafinn um hálsinn og niðurbrotna stormhúfu, alla upplitaða. En utan yfir alt þetta steypti hann aðalverjunni, en það var gauðrifinn olíustakkur, sem hann reyrði að sér með snæri um mittið.
Það hefðu því fleiri en Sigmundur heykst við að ganga langt í slíkum týgjum.
En hann átti ekki heldur að ganga lengra en út á tangann, hjá grandanum, og standa þar á verði, þar til flóð væri komið aftur. - -
Annars var ekki rétt að kalla Sigmund "gamlan"; hann var ekki nema fimtugur, og honum fanst hann ekki vera gamall. Það lá við, að honum væri móðgun í því, að honum væri brugðið um aldur; andinn var ennþá ungur, að hann sagði.
En það var honum ekki til móðgunar, þó að hann væri kallaður "aumingi", "bjálfi", "ræfill" eða eitthvað því um líkt, ef það var aðeins gert í meðaumkunarrómi.
Því að hann kannaðist vel við vesalmensku sína sjálfur. Hann hafði verið lítilmenni og heilsuleysingi alla æfi, án þess hann eða aðrir vissu eiginlega, hvað að honum gekk. Sjúkleikinn hafði birst með allskonar einkennum; stundum gróf í honum einhverstaðar, stundum var það liðagigt, oftast var það maginn, sem eitthvað var í ólagi, þá höfuðið, þá útlimirnir, þá bakið - hvað tók við af öðru, svo að Sigmundur var altaf í einhverju ólagi.
Allir skottulæknar í tveim landsfjórðungum höfðu fengist við hann og allir gefist upp. Aðrir læknar höfðu aldrei séð hann.
En hvað um það. Allir sáu, að Sigmundur var bjálfi, hvað sem að honum gekk, og allir fundu það skyldu sína að sýna honum brjóstgæði og víkja góðu að honum.
Sigmundur var fæddur og upp alinn þar í sveitinni. Hann hafði verið væskilmenni strax á unga aldri, lingerður og lítilsigldur og þar að auki latur til vinnu, en þegar hann kom fram yfir tvítugs aldur, fór að bera á sjúkleikum hans. Hann hafði þá leitað burtu til þess að leita sér hægari vinnu og fengist við margt, en ekki felt sig við neitt að staðaldri. Á þennan hátt hafði hann vanist á flakk og flæking, flækst lengi um allar sveitir og lifað á gestrisni manna, án þess að vinna fyrir sér neitt að ráði. Þar til nágrannasveitirnar fóru að kvarta undan honum og hann var að lokum sendur heim á sveit sína og honum bannað alt flakk.
Þegar hér var komið sögunni, var þó heilsa Sigmundar gamla allviðunanleg, og fyrri kvillar hans sýndust hafa dáið frá honum; en svo bættist einn nýr við, og hann illur, því að Sigmundur var að missa sjónina. Annað augað var því nær alveg blint, en hitt var talsvert farið að deprast.
Sjónleysið sáu allir. Aftur voru þeir menn til, sem ætluðu, að talsvert minni brögð hefðu stundum verið að sjúkleikum Sigmundar en hann gerði orð á, þótt vitanlega hefði oft verið á annan veg, og betri heilsa hans nú væri mest að þakka minni ímyndunarveiki og færri smáskamtameðulum. Þessi skoðun var líka ofan á í sveitarstjórninni, því að það þótti óþarfi að gefa neitt sem hét með honum, þar sem margir buðust til að taka hann fyrir matvinnung.
Þó var öllum ant um, að Sigmundi gamla liði vel og honum væri ekki ofþjakað með vinnu. Þess vegna voru allir ánægðir með að vita hann hjá feðgunum á Miðströnd.
Þar var Sigmundur búinn að vera nú um nokkur ár og undi allveg hag sínum.
Sigmundur var þægðarskinn og kom sér yfirleitt vel á heimilinu; dálítið nöldrunarsamur, en þó aldrei geðvondur, og gerði þetta, sem hann gat gert, oftast nær umyrðalítið og trúlega. Og það var ekki næsta lítið, sem hann gat gert. Hann gat fléttað reipi og riðið silunganet og hrognkelsanet á veturna, snúist í kringum kvenfólkið á öllum árstímum, sótt fyrir það vatn og mó og kurlað brenni; hann gat líka setið hjá kvíánum á sumrin, eftir að þær voru orðnar spakar, - og hann gat vakað yfir varpinu á vorin.
Þegar varptíminn stóð yfir og vaka þurfti, var Sigmundi alls ekkert annað verk ætlað. Hann mátti sofa allan flóðtímann eða gera við hann hvað sem hann vildi, ef hann aðeins væri á verði fjörutímann. Þar að auki þurfti hann í raun og veru alls ekki að vera á verði nema á næturfjörunni. Á daginn var altaf fólk á ferli, og þá voru litlar líkur til, að tóan réðist á varpið.
Verkið var því ekki drepandi erfitt. Það var ekki annað en vera frammi á tanganum og gera þar hávaða til að fæla tófuna frá. Hvergi annarstaðar var hætta á, að hún kæmist fram í eyjuna.
Í þessu verki átti Vaskur, sem var gamall búrhundur á heimilinu, að aðstoða Sigmund. Sigmundur átti að orga og siga, en Vaskur að gjamma. Þetta var nóg, því að tóan var svo heimsk að halda, að þá væri hætta á ferðum, og þorði ekki nálægt.
En Sigmundi og Vaski kom ekkert vel saman, og það kom ekki sjaldan fyrir, að Vaskur sveik hann og laumaðist þegjandi heim í bæ. Þá vandaðist málið, því að þá þurfti Sigmundur að taka hlutverk þeirra beggja og siga og gjamma til skiftis. Þetta síðara gerði hann með slíkum trúleik, að meira að segja tófan lét blekkjast af því.
En á flóðinu var Sigmundur oftast heima, til að matast og hvíla sig. Þó kom það ekki sjaldan fyrir, að hann labbaði inn að Instu-Strönd, í stað þess að fara heim, því Eiríkur tók honum ætíð vel, og þar var hann ætíð velkominn. En þangað var álíka langt og heim að Miðströnd. Það kom líka fyrir, að Sigmundur nenti heim á hvorugan bæinn, en svaf allan flóðtímann í byrgi sínu frammi á tanganum. Það var því ekki undrast um hann, þótt hann kæmi ekki heim á flóðinu. -
En þótt Sigmundur væri vesalmenni og rýr í roðinu, bjálfi og bláfátækur, þá hafði hann þó einn eiginleika, sem margir efnaðri og meiri menn öfunduðu hann af og ekki fæst fyrir peninga.
Hann var hagmæltur.
Það hefði verið of mikið að kalla hann skáld, enda gerði enginn það, ekki einu sinni í skopi. Hann gerði heldur enga kröfu til þess sjálfur - ekki ennþá að minsta kosti. En hvort hann hefir verið alveg úrkula vonar um, að sú kæmi tíðin, það er annað mál.
En hagmæltur var hann, því neitaði enginn. Og það laglega hagmæltur, þegar aðrir hagmæltir menn þar í sveitinni voru teknir til samanburðar.
Hann hafði frá barnæsku haft einkar sterka tilhneiging til skáldskapar og innilega löngun til þess að framleiða sjálfur eitthvað af því tagi. En ástæðurnar voru erfiðar, æskumentunin engin og þungur róðurinn til að afla hennar síðar, svo að framfarirnar í ljóðagerðinni voru seinstígar.
Þó höfðu einstakar vísur eftir hann komist á flakk og bárust nú mann frá manni, lærðar og kveðnar í ýmsum áttum, einkum græskulausar skopvísur um einhvern náunga, og heill hvalbragur hafði komist á flot, þótt lágt færi. Var þar sögð kyndug hvalfjörusaga, sem mátti ekki fara hátt, vegna þeirra, sem hlut áttu að máli, þó að margan fýsti að heyra.
En það var fyrst nú á seinni árum, að Sigmundur hafði náð slíkri fullkomnun í ljóðagerð sinni. Hann fann það, að honum gekk með hverju ári betur og betur, og hann fór að hafa góða von um það, að hann mundi ná því langþráða takmarki, að einhver, sem væri að marka hvað segði, kallaði hann skáld, áður en hann legðist í gröfina.
Þessi list hans, þótt fátækleg væri, gerði honum margar glaðar stundir og létti vesaldóm hans. Ef til vill hefir hún átt drjúgan þátt í því, hve heilsan var betri síðari árin, og hennar vegna var það, að hann vildi sem minst hafa af ellinni að segja.
Auk þess, sem Sigmundur gamli orti sjálfur, kunni hann öll ósköpin utanbókar af vísum og skrítlum, sem stóðu í sambandi við þær, heilar rímur og heila bragi, sem hinir og aðrir höfðu ort og erfitt var að ná í, og var hann jafnan reiðubúinn að þylja þetta upp fyrir þeim, sem fúsir voru á að hlýða.
Hann hafði líka víða flækst og kunni frá mörgu fáheyrðu að segja, hafði séð marga og jafnvel kynst nafnkendum mönnum í fjarlægum sveitum, svo sem Bólu-Hjálmari og Níelsi skálda og mörgum fleirum. Og þótt enginn efaðist um, að skáldskapargáfa hans kæmi talsvert til skjalanna, þegar hann var að segja frá þessum mönnum, var þó gaman að hlusta á það með köflum, og þó einkum að sjá karlinn, sem þá tókst á loft af ánægjunni, guðmóðinum og andagiftinni, svo að blinda augað glóði eins og ýsuauga í myrkri.
Heima á Miðströnd var lítill jarðvegur fyrir sögur Sigmundar gamla og ljóð hans. Feðgarnir þar voru búnir að fá nóg af því fyrir löngu.
Á Instu-Strönd var hann þar á móti miklu betri. Eiríkur gamli var greindur maður og glöggur á slíka hluti, kunni sjálfur feiknin öll af ýmsu þjóðlegu og skrítnu og var ætíð sólginn í að heyra eitthvað nýtt af því tagi.
Þessi sameiginlegi áhugi á skáldskapnum og sögunum tengdi þá saman, Sigmund og Eirík, þótt kjör þeirra væru annars ólík, því að Eiríkur var efnamaður og rausnarbóndi. Þess vegna var Sigmundur gamli ætíð velkominn til hans, og þess vegna varð honum líka tíðreikað heim að Instu-Strönd.
Eiríkur þreyttist að vísu á því að heyra alt of mikið af ljóðum Sigmundar í einu. En þar sem karlinn var volaður og vesalmenni og þar sem varla fór hjá því, að hann kæmi jafnan með eitthvað, sem gaman væri að, innan um hitt, þá áleit Eiríkur sjálfsagt að taka honum mannúðlega og hlynna heldur að honum.
Sigmundur áleit Eirík eina vininn, sem hann ætti á jarðríki, og elskaði hann af öllu hjarta. Í ljóðagerðinni snerist allur hugur hans um það, hvað Eiríki mundi líka best, og þegar honum hafði dottið eitthvað gott í hug eða einhver góð saga rifjaðist upp fyrir honum, þá var sjálfsagt að fara með það inn að Instu-Strönd og bera það undir Eirík.
Og þegar hann hitti vel á Eirík eða þegar honum hafði tekist að koma með eitthvað, sem Eiríki líkaði vel, þá kallaði Eiríkur á hann fram í stofu, eftir að hann hafði fengið venjulegar góðgerðir, og gaf honum að súpa á vasaglasinu sínu. Þá varð Sigmundur gamli svo hrifinn, að hann gat ekki stilt sig um að rjúka á Eirík og kyssa hann.
Og þegar hann lagði á stað frá Instu-Strönd, eftir slíkar móttökur, og með barminn fullan af mat, sem húsfreyjan hafði gefið honum með sér á fjöruna, svo stóran pinkil, að olíustakkurinn bungaði út á brjóstinu fyrir ofan bandið, eins og baggi væri innan undir - þá var Sigmundur gamli í essinu sínu; þá undi hann tilverunni og fann til gleðinnar af því að vera hagmæltur og sögufróður. - - -
Mörgum varð heldur en ekki starsýnt á Sigmund gamla, þegar hann var að ganga út á fjöruna í búningi þeim, sem áður er lýst. Hann gekk altaf við kollótt prik eða kláruskaft, sem hann tvíhenti fyrir framan sig við hvert skref, en steig aldrei skrefið, fyr en prikið hafði náð festu. Göngulagið var því stöðugir hnykkir og rykkir áfram. Líka mátti sjá það á göngulaginu langt til, hvernig lá á karlinum; þegar vel lá á honum eða þegar hann var í skáldaþönkum sínum, gekk hann eins og berserkur, svo að hnykkirnir og rykkirnir hurfu því nær úr göngulaginu; en þegar illa lá á honum, dróst hann áfram á priki sínu eins og níræður aumingi og stóð alveg kyr á milli rykkjanna.
Í þetta skifti, sem hér segir frá, lá vel á Sigmundi, og hann gekk rösklega fram á tangann.
Aftur á móti lá bölvunarlega á Vaski gamla, þótt hann nuddaðist á stað með honum. Hann labbaði á eftir honum rúman helming af leiðinni, dróst altaf meira og meira aftur úr, sneri svo þegjandi við að lokum og labbaði heim.
En Sigmundur náði á hæfilegum tíma fram á tangann.
Kofinn, sem vökumanninum var ætlaður frammi á tanganum, hefði átt það skilið að komast á veraldarsýningu. Merkilegri bygging er ekki auðfundin, þótt leitað sé heimskautanna á milli.
Annars var tæpast réttnefni að nefna það kofa; nafnið var of virðulegt.
Það var grjótbyrgi, hlaðið úr malargrjóti, með tvöföldum veggjum, og sumstaðar lagt þang á milli laganna til að stöðva steinana. Stórum og smáum hnullungum var tildrað hverjum ofan á annan af lítilli verksýni og veggurinn milli hleðslanna fyltur af smágrjóti. Víða var hryggjarliðum úr hval, gömlum og blásnum, hlaðið inn í veggina, því að þeir fyltu upp á við marga steina og gerðu útlitið skringilegt; þessir prýðilegu og smiðslegu veggir mynduðu skakkan ferhyrning, og horfðu dyr móti suðri.
Yfir þessa merkilegu tóft var reft með rekabútum og hvalrifjum, sem lagt var alla vega í krossa og tildrað hverju ofan á annað, svo að sumstaðar bungaði þekjan inn, en annarstaðar voru hnúðar út á við. Ofan á þetta rafta- og hvalbeinatildur voru lagðar hellur úr holtinu fyrir ofan mölina, þá lag af fjöruþangi ofan á hellurnar og síðan grjót og hvalbein ofan á þangið, til að halda því niðri. Öll þessi þekja myndaði að lokum toppmyndaðan hrauk, sem steypti af sér vatni í rigningum fyrst í stað, þar til þangið var orðið blautt, en entist aftur til að leka löngu eftir að rigningin úti var hætt.
Vökumenn þeir, sem þar höfðu verið á undan Sigmundi gamla, höfðu bygt þennan kofa, svo að hann var einskis eins manns verk. Sigmundur hafði bætt hann og dyttað að honum, síðan hann fór að stunda þennan starfa, en prýkkað hafði kofinn ekki í hans tíð. - -
Sigmundur nam staðar hjá þessu fáránlega hreysi og litaðist um.
Veðrið var himneskt. Blæjalogn og sjórinn sléttur svo langt sem augað eygði. Aðeins uppi við fjöruna bærðust ofursmáar öldur, því að aldrei sefur Ægir svo fast, að ekki sjáist lífsmark með honum við fjörusteinana víðast hvar á Íslandi. Þessar kraftlitlu öldur voru að erja á þarabrúk, sem lá eftir endilangri fjörunni og myndaði stall eða þrep fram að flæðarmálinu. Sjórinn náði því ekki nema meðan hásjávað var; um fjöruna var breið fjara framan við brúkið. Nú liðu öldurnar óbrotnar upp í sjálft brúkið og spýttu mórauðu þaramauki í loft upp. Alt þetta minti Sigmund á, hve vel honum hefði tekist að vakna og hve lítið væri fallið út.
Himininn var ekki heiður, en þunn skýjaslæða yfir öllu hafinu, og sást aðeins vottur fyrir sólinni bak við blikuna. Fjöllin hinum megin við flóann voru blá og skír, ennþá með stórum fönnum i öllum giljum, en tindar og hamrar dimmbláir og mildur næturblær á öllu.
Það var allbreitt sund fram í eyjuna, þegar svona mikið flóð var á grandanum, og litlar líkur til, að tófan réði á svo langt sund. Eyjan var tilsýndar sem vaxin allþéttum skógi; það voru hræðustaurarnir með viðarvöndum efst, sem notaðir eru til að hræða flugvarg frá varplöndum og veita varpfuglinum skjól. Alstaðar fyrir ofan flæðarmál var hún vaxin káli og safamiklu töðugresi. Það var sem gulgræn flosábreiða lægi yfir henni allri. Í þessari ábreiðu kúrði fuglinn. Æðarkollurnar sáust ekki úr landi, en blikarnir litu út sem hvítir fífudílar um alla eyna.
Mynd eyjarinnar stóð allskýr á höfði í sundinu.
Kyrð var og friður úti í eyjunni, eins og "eyjarskeggjar" hefðu tekið á sig óvenjulangar náðir. Einstöku kría sást á flögri yfir hræðuskóginum, líklega til að svipaat um eftir morgunbita fyrir utan flæðarmálið. En hún hafði vit á að þegja. - Nokkrir blikar syntu hljóðir og heimspekilegir í dökkgrænum eyjarskugganum, en þeir máttu ekki heldur hafa hátt, - "mamma" lá á eggjunum heima í hreiðrinu, og það mátti ekki minna vera en hún hefði næturfrið. -
Sigmundur varð svo hrifinn af þessari næturkyrð og þessum næturyndisleik, að hann gat ekki með nokkru móti fengið af sér að fara að siga og gjamma. Honum fanst það vera hrein og bein vanhelgun á jafnhátíðlegri vornótt og ótæk truflun á þessum mikla friði.
Hann leit á þetta alt saman hvað eftir annað og ætlaði aldrei að þreytast, einkum kom honum kofinn eitthvað kátlega fyrir einmitt nú.
En það voru einhver umbrot í honum sjálfum, sem ekkert af þessu gat friðað. Hann píndist af einhverri óljósri þrá, sem hann gat ekki hrist af sér. Hún kom eins og með hríðum, kom aftur og aftur og var áleitnari með hverri árás.
Loks fann Sigmundur gamli, hvað það var, sem að honum gekk. Hann þurfti að yrkja. - Andinn var að koma yfir hann.
Næturblíðan hafði vakið listaþrána í brjósti hans.
Hann gekk fyrst um stund fram og aftur á mölinni, skrikaði á hnullungunum og hnaut við hvert spor. Slíkt göngulag átti ekki sem best við hugarástand hans; hann truflaðist alt of mikið við það að hnjóta svona oft, og þegar svona skrykkjótt gekk með ganginn, gekk líkt með hugsanirnar. Hann réð það því af að fara inn í kofann og setjast í mjúkan þangbing, sem þar var í einu horninu.
Hann vissi það raunar, að ekki var ætlast til, að vökumaðurinn væri inni í kofanum nema við og við, þegar veður væru verst. En út af þessum fyrirmælum hafði hann oft vikið, án þess orðið hefði að meini, - og nú fanst honum það sjálfsagt, að minsta kosti ofurlitla stund.
Þegar hann var búinn að koma sér fyrir í þangbingnum, búinn að troða þanginu aftur fyrir sig, svo að ekki væri alt of hart við bakið, og rétta út undan sér fæturna, svo að þeir lægju á mjúku, búinn að aka sér og æja um stund og fann til vellíðunar eftir ástæðum, - tók andi hans til starfa.
Hann fann brátt yrkisefnið. Það var kofinn hans og nágrennið, hann sjálfur og vakan yfir varpinu.
Aldrei hafði honum dottið í hug að yrkja um þetta áður, og þó var þetta fyrirtaks yrkisefni. Nú var hann ekki í efa um, að sér mundi takast að framleiða sjaldgæfan brag um alt þetta.
Og ef honum tækist nú vel, einsetti hann sér að rölta heim að Instu- Strönd á næsta flóði. Eiríkur var nýkominn heim úr kaupstaðnum.
Hann lifnaði í öllum æðum við þessa hugsun, og "andinn" fekk beinan byr undir báða vængi.
Hann byrjaði á lýsingu á umhverfinu.
Þar var kofinn hans miðdepill, hlaðinn úr hnullungagrjóti og hryggjarliðum úr hval, reftur með selju, greniröftum, með hvalrif fyrir mæniás, þakinn með hellum, þangi og grjóti, sem haugur fornrar hetju, fáránlegur og skáldlegur, en þó varðbergshöll, varnarkastali og "naust" hans "Fjalars fleyja". Hann gat kent hann við öll þessi einkenni. Hann hét í braglistinni "hvalbeinsljóra-göltur", "náhvels- rifja-naust", "helluborg, þakin hári skervallar", "höll, þar sem Boðnar brim um bekki svall", "varnarrann, reist af risahöndum" o. s. frv.
Hvað skyldi Eiríkur á Instu-Strönd segja -?
En þessi merkilegi, skáldlegi hvalbeina-þang-hellu-hásalur var ekki einn og auður í skáldskapnum; hann var þar sjálfur - hann, varnarhetjan, aðalmaðurinn í allri rímunni.
Hann var landvarnarmaður, eins og Úlfar hinn sterki eða Högni í Andrarímum, hervæddur og alvopnaður, ramur að afli, vígfimur og ofurhugi mikill, tæplega einhamur og tröllaukinn, þegar svo bar undir, og því ekki árennilegur, svo að vargar lofts og láðs hrukku fyrir honum. Það voru kynstrin öll af kenningum, sem hin þroskaða rímlist, með Eddu sjálfa að bakhjarli, lagði honum í hendur og hann gat notað um sjálfan sig. Hann var "skjaldaver", "törguhlynur", "sára-refils- sveigir", "óma-voða-askur", "skálma-beitir", "boga bendir", "Boðnar-mjaðar- buðlungur", "hvalbeins-hallar konungur" og annað enn skáldlegra, ef á þyrfti að halda. Það vildi líka svo heppilega til, að hann hafði verið skírður Sigmundur, en það var Óðins heiti, svo að það eitt út af fyrir sig gat verið mannkenning. Svo varð hann "sólar-ósa-Sigmundur", "sýkja-ljóma-Sigmundur" eða "Sónar-dreyra-Sigmundur", að minsta kosti altaf sá, er barðist og ægði og orti jafnhliða. Olíustakkurinn varð tvöföld hringabrynja, buxnaræflarnir brynhosur, kláruskaftið dragvendill og kylfa til skiftis, eftir því sem á þurfti að halda í efni og rími, og átti fjöldi af Eddukenningum við það í þeim myndum. Vask gamla mátti ekki vanta í sýninguna, þótt hann hefði nú raunar svikið hann og hlaupið heim. Hann stækkaði og varð að tömdum skógarbirni, því að hann þurfti að eiga við hið annað, og meðalhundur var of lítill til að fylgja slíkri hetju. Og þegar "Sónar-lagar-Sigmundur" eða "sára-þvara-Sigmundur" stóð þarna alvæddur, í "brynhosunum" og "hringabrynjunni", með "kylfuna" um öxl og ólman "híðbjörn" við hlið sér - þá var það skiljanlegt, að varpið væri sæmilega varið!
Aldrei hafði honum tekist eins upp.
Varpeyjan var konungsríkið, sem hann átti að verja. Æðarfuglakóngurinn var þar konungur, og æðarfuglinn var hirðfólk hans. Þar var meira um fegurð og glæsileik, auð og mildi en hetjuskap. Konungur var friðsamur og lítt hneigður til stórræða, en ríkið eigi að síður í stöðugri hættu fyrir árásum víkinga og ræningja, trölla og óvætta, sem herjuðu þar og tóku strandhögg, svo að ekki veitti af öflugri landvörn, ef duga skyldi.
Krían, sem líka bjó í eyjunni, var illvíg griðka, sem skáldinu var ekkert sérlega vel við, sígeðvond og sínöldrandi, vildi sletta sér fram í vörnina sjálf, en kunni ekki að meta hetjuna og var meira að segja vís til að dríta á hann, ef hún komst í færi.
Það, sem Sigmundur átti í höggi við, var ekki heldur neitt smáræði. Það voru fluggammar, sem ekki varð mikið fyrir að hremma meðalmann og gleypa hann með húð og hári, bryðja vopn og herklæði og mylja beinin. En tófurnar urðu að úlfum, sem þutu í þéttum hópum um holtið og létu ófriðlega. Þar var fremstur bitvargur einn mikill, á stærð við tígrisdýr, en miklu ferlegri, með mannsandlit og stálklær, en tennur, sem engu tali tóku.
Slík ferlíki óðu að Sigmundi á verðinum, og af þeim átti hann að bera, en nærri mátti geta, hvílíkur aðgangur það mundi verða.
Hvað skyldi Eiríkur á Instu-Strönd segja um þetta?
Aldrei hafði ímyndunarafl Sigmundar fengið slíkt flug. Hann var ekki Sigmundur gamli; ekkert var fráleitara. Nú var hann Sigmundur ungi. Slík andans fjörtök voru ekki gamalla manna eðli.
Hann hafði valið sér hagkveðlingahátt; það var erfiðasti bragarhátturinn, sem hann þekti. En það gerði honum ekkert til. Honum skilaði drjúgum áfram yfir allar torfærur. Hendingarnar féllu og smullu saman því nær af sjálfum sér. Kenningarnar settust að honum eins og mýbit; hann hafði varla við að velja þær bestu úr, en í þeim voru listagripin fólgin. Orðgnóttin spratt upp í honum sjálfum og það af slíkum ríkdómi, að hann hefði aldrei trúað öðru eins. Og ef þau orð, sem hann kunni og notuð voru daglega, voru hvimleið viðfangs og fengust ekki til að falla í hleðsluna með góðu, var það gamalt bragð ljóðasmiða að tegla þau til, brjóta af þeim verstu hornin, hnoða þeim saman eða teygja ofurlítið úr þeim, þangað til þau færu vel. Það var skáldaleyfi, sem engan hneykslaði.
Þannig bættist við braginn með hverju augnabliki.
Ef hann aðeins hitti nú vel á Eirík á Instu-Strönd! Best væri að hitta á hann ofurlítið "sætan", því að þá var hann í bestu skapi. Og ef hann sækti vel að honum og Eiríki líkaði vel bragurinn, þá var hann ekki í efa um, hvað hann mundi gera. Hann mundi kalla á hann inn í stofu og ljúka upp grænu kistunni stóru. Þá var auðvitað, hvað á eftir kæmi! Sigmundur karlinn færi þá ekki alveg þurbrjósta á næstu fjöru!
En svo hvarf hann aftur að listinni.
Það var ekki víst, að Eiríki þætti nógu mikill aðgangur í þessu, sem ennþá var komið. Það þurfti að taka í hraukana, til þess að sá gamli fyndi verulega að því bragðið.
Þá fór hann að leita að einhverju, sem aukið gæti lífið í leiknum, og það rétta varð því nær strax fyrir honum - sem sé hafið.
Sjórinn - ekki eins og hann lá núna, steinsofandi, það var ómögulegt að yrkja um hann þannig. Heldur eins og hann var þegar hann fór í almætti sitt.
Allar kenningarnar um sjóinn þutu fram í huga hans. Hann var "jötundreyri". "Mímis æðaflóð", "sollið eyjaband", "sonur Loka" og "Ægis kván í heljarham". Ægir, Rán og dætur þeirra háðu þar samdrykkju og skessuleik til skiftis. Miðgarðsormur byltist í djúpinu, blés eldi og eitri og rótaði upp öldunum, sem óðu grenjandi, hvítfextar og ferlegar upp að hleininni, þar sem sviftingarnar stóðu milli landvarnar-berserksins og óvætta þeirra, sem hann átti í höggi við. Hræsvelgur stóð á heimsenda, lamdi með vængjunum og egndi alla óvætti hafsins til atlögu. Þar komu katthveli, búrhveli, hrosshveli, náhveli, bláhveli, lyngbakar, kembir og rauðgrani og óðu uppi. Beinhákarl og blöðruseli vantaði ekki heldur í lestina. Hafmenn með stór, augnalokalaus augu óðu upp í geirvörtur á tvítugu dýpi, og sjóskrímsli á stærð við meðalkirkjur, öll þakin skeljum og með glerglugga á skrokknum, óðu upp í fjöruna, glentu upp ginin og gláptu á sviftingarnar. - - -
Honum var sem hann sæi framan í Eirík á Instu-Strönd yfir allri þessari lýsingu!
En þetta féll alt prýðilega inn í braginn. Aldrei hafði honum tekist eins snildarlega. Aldrei hafði list hans hafið sig eins hátt!
Hann nam staðar við og við, leit yfir það, sem hann var búinn með, og rifjaði það upp fyrir sér. Honum var sönn nautn að því öllu saman.
En svo hélt hann áfram með vaxandi algleymisákafa, hrifinn af velgengni sinni og andans auðlegð. Það var eins og ljóðadísin sjálf birtist honum í náð sinni og dýrð, opnaði honum heima sína og laðaði hann æ lengra og lengra inn í veldi hinnar ódauðlegu íþróttar. - - - - - - - - - - - -
"Líttu á helvítis karlinn! Hann sefur!"
Sigmundur hrökk saman og leit upp. Andlitið á Grími var komið í kofadyrnar. Rétt á eftir birtist hausinn á Þorvaldi gamla, með gráan lubbann undan húfunni og grátt kragaskegg, á sama staðnum við hliðina á syni hans.
"Út með þig, svikahundur!" æpti Þorvaldur gamli öskuvondur. "Þú ættir skilið að vera laminn, þangað til ekkert bein tyldi saman í helvískum skrokknum á þér!"
Sigmundur brölti ofan úr þangbingnum, kom furðanlega fljótt fyrir sig fótunum, þótt stirðir væru, og kom út til feðganna, hvað sem þar tæki við.
Þar dundu á honum skammirnar og spurningar um leið. En ekki voru beinlínis lagðar á hann hendur.
Þetta kom alt saman yfir Sigmund gamla svo óviðbúinn, að honum varð algerlega ráðafátt. Það var svo sem auðvitað, að óhræsis vargurinn hafði nú leikið á hann, meðan hann var að yrkja. Hann vissi það, að ekki var til neins að segja feðgunum hið sanna um starf hans. Það mundi gera ilt verra. Hann reyndi að fara að afsaka sig eða þó að minsta kosti að biðja sér vægðar. Honum vafðist tunga um tönn. Hann byrjaði á öllu, sem honum hugkvæmdist, og hætti við það hálfsagt. Fátið á honum var svo mikið, að hann var alveg ruglaður. Hann stamaði nokkra stund og rak í vörðurnar, og loks fór hann að hágráta. - -
Það, sem gerst hafði frá því meðvitund Sigmundar kvaddi þennan viðsjála heim og þar til hún vaknaði við þessa óblíðu kveðju, var í stuttu máli þetta:
Tófan, sem var enginn úlfur, ekkert ferlíki, heldur aðeins glorsoltin, grensmogin læða, hafði skriðið út frá hvolpum sínum í greninu þar uppi í Urðarhálsinum og farið að leita sér bjargar. Hún hafði auðvitað skollahlustirnar með sér, eins og vant var; en þótt hún beitti þeim vel, þá heyrði hún alls ekkert, sem hún gæti haft beyg af. Hún hafði leitað sjávarins, því að þar var helst von um eitthvað ætilegt. Svo varð henni reikað meðfram sjónum, þar til hún kom í nánd við eyjuna. Hún hafði oft komið þar áður um líkt leyti nætur, en þá altaf orðið einhvers þess vör, að henni þótti ekki ráðlegt að hætta sér nær.
Nú nam hún staðar uppi í holtinu og horfði fram til skrúðgrænnar eyjarinnar, kvikrar af fugli og þéttsettrar af hreiðrum. Hún var freistandi!
Hún sperti augun og bretti eyrun, en hún gat ekkert heyrt né séð, sem vakið gæti hjá henni ótta eða tortrygni. Þá sigraði freistingin hana. Hún hljóp léttilega ofan holtið, fram tangann á bak við kofa Sigmundar, steig gætilega á mölinni og gætti þess vel, að enginn steinn hreyfðist svo, að hávaði yrði að, og stökk síðan út í sundið.
En þótt lágfóta væri skarpskygn og gædd góðum hlustum, þá sást henni þó yfir ofurlítinn pramma inni í landsskugganum skamt frá Miðströnd. Þar voru feðgarnir Þorvaldur og Grímur að vitja um hrognkelsanetin.
Þeir höfðu farið óvenju snemma á fætur, því að Grímur ætlaði að ganga upp á heiði, þegar þeir væru búnir við netin, og svipast um eftir grenjum. Í tilefni af því lá hlaðin byssa í prammanum.
Það varð djöflagangur í eyjunni, sem engu tali tók, þegar lágfóta kom þar á land. Blikarnir björguðu sér fyrst og þutu í allar áttir, svo að það varð stórt svæði blikalaust í nánd við varginn. Æðarkollurnar flugu hver eftir aðra, gargandi og hljóðandi, af hreiðrunum sínum í mestu dauðans skelfingu og það áður en tófan kom nálægt þeim. Ein kollan þaut upp með slíku írafári, að hún gætti ekkert að, hvað hún gerði, en flaug með öllu afli sínu á einn hræðustaurinn og steinrotaði sig!
Krían stygðist líka upp af hreiðrunum sínum. En henni var alt annað í hug en flýja og forða sér. Hún hafði skap til að ráðast á þennan óboðna gest og gera það lítið ilt, sem hún gæti. Og þótt ein kría megi sín ekki mikils, þá er samt öðru nær, þegar margar gera það sama. Og lágfóta, skömmin, komst í mestu vandræði undir allri þessari kríuþvögu. Hún hafði varla frið til að lepja úr 2-3 æðareggjum, þá var farið að blæða úr skrokknum á henni eftir hvöss kríunef.
Feðgarnir tóku þegar eftir ókyrðinni í eyjunni. Þeir sáu líka undir eins, að það var tófa, en ekki flugvargur, sem var honum valdandi, og sáu hvar hún var, því að krían var yfir henni eins og skýstólpi. Hver um sig af þessum litlu, gráu skapvörgum flaug hátt upp í loftið, rendi sér svo gargandi af öllum kröftum með opið nefið beint niður á tófuna og bjó sig síðan til nýrrar atlögu.
Þeir reru því þegar upp í eyjuna og komu kríunni til hjálpar.
Þegar lágfóta varð vör mannaferða í eyjunni, sá hún þegar, að henni væri ekki til setu boðið, og tók til fótanna. Hana langaði til að hafa rotuðu æðarkolluna með sér og lagði á stað með hana, en sá sitt óvænna, svo að hún slepti henni og stökk á kaf í sundið.
Hún var ekki komin nema fáa faðma frá landi, þegar skotið reið. Höglin ristu vatnsskorpuna rétt við trýnið á henni, en ekkert þeirra hafði hitt hana.
Hún tók sprett og stökk áfram í sjónum, en það var óþarfi fyrir hana að láta sér óðslega, því að það var ekki hlaupið að því að hlaða framhlaðinn dátabyssugarm af nýju.
Hitt var miður álitlegt, að sjá prammann koma á eftir sér á sundinu.
En nú var hún farin að þreytast og gat enga spretti tekið.
Hvít, freyðandi hrönn var framan undir súðinni á prammanum, og hann flutti kerlingar eftir lygnum sjónum. Hann gekk vel, meðan Þorvaldur gamli seig einn á árarnar, en þó jókst honum skrið, þegar Grímur fór að stinga á hjá honum.
Það dró því furðufljótt saman, en þó reru þeir ekki fram á lágfótu, fyr en rétt uppi við fjöruna. Dauðans skelfing fór um mórauða skinnið, þegar hún sá Grím reiða upp árina, en nú gat hún ekki hert sig til undankomu, því að kraftarnir voru nær þrotnir. Árarhlummurinn skall á skottinu á henni, sem dróst í hálfu kafi á sundinu, svo hún sárkendi til; síðan skall árin á stein í botninum og hrökk í sundur með háu braki.
Áður en Grími veittist tóm til að reiða upp hina árina, skreið lágfóta upp í fjöruna, og þótt hún væri þrekuð af sundinu, var það ekki meðfæri þeirra feðganna að hafa við henni, þegar hún hafði fast land undir löppunum.
Þar skildi með þeim. Lágfóta komst undan, en svo skelkuð, að hana hlaut að reka minni til fyrst um sinn. Og eflaust hefir hún varað sig aftur á táli næturkyrðarinnar.
Þegar feðgarnir voru búnir að missa tófunnar, fóru þeir að svipast um eftir Sigmundi og létu gremju sína bitna á honum.
"Snáfaðu nú heim, bannsettur hrappurinn þinn! Þér skal aldrei framar verða trúað fyrir þessu verki!"
Sigmundur lét sér þetta að kenningu verða og labbaði heim á leið.
Hann var ekki burðugur fyrsta sprettinn af veginum, þar sem hann dróst áfram á priki sínu hálfkjökrandi og hugsaði um ekkert annað en aumingjaskap sinn. Nú fanst honum hann vera alstaðar veikur og öllum kvikindum vesalli.
En eftir því, sem á veginn leið, hægðist honum um hugann. Hann vissi, að þótt feðgarnir hefðu verið gramir við hann nú, eins og vonlegt var, úr því svona slysalega hafði til tekist, þá mundu þeir þó ekki rækja þá reiði lengi. Og þegar hann kæmi til þeirra og bæði þá fyrirgefningar á yfirsjón sinni, þá væru þeir ekki þeir menn að hrekja heilsulítinn aumingja frá sér eða neita að þiggja vinnu af honum.
Og þótt þeir gerðu það, þá var hann ekki í efa um, að Eiríkur sinn á Instu-Strönd mundi eitthvað greiða fyrir sér, þegar hann leitaði hans í slíkum raunum.
Og þegar hann var kominn á miðja leið, var hann farinn að ganga jafnara og nokkurn veginn eins og hann átti að sér.
En verst af öllu þessu mótlæti var það, að hann hafði steingleymt öllu því, sem hann var búinn með af þessum hrikalega brag. Þetta, sem fyrir hafði komið, hafði truflað hann svo gersamlega, að nú var honum ekki unt að rifja upp meistaraverk sitt í ljóðagerðinni. Sambandið milli þess og hugsana hans nú var algerlega kubbað í sundur.