FERÐASAGA

eftir  Benedikt Gröndal



"Hvaða skelfilegur skjálfti og hávaði er í borginni núna um morguninn snemma?" sagði Austurríkiskeisari við Metternich; þeir sátu báðir saman uppi á palli og voru að borða litla skattinn: það var dálítið tréborð sem keisarinn hafði keypt á auctioninni eftir Kristján Haagensen sáluga og flutt yfir til Wien á bleikálóttri kapalhryssu sem var vinagjöf frá Árna í Kópavogi. Á borðinu stóð rauð leirskál með slafakonjakki því það er billegra en Charente cognackið í Brussel; so var þar bakarofnsbrauð hálft og stykki af tunglbjörtum Kjósarosti. Metternich þagði en tók ostbita og dreypti á slafakoniakkinu.

"Hvaða helvítis hávaði er þetta?" sagði keisarinn.

"Hvaða andskotans hávaði?" sagði Metternich.

"Hvaða refils ógangur?" sagði keisarinn.

"Hvaða bannsett læti?" sagði Metternich og lét upp í sig heila hrognaköku sem Rússakeisari hafði erft eftir ömmu sína.

"Ja hvaða andskotans ógangur?" sagði keisarinn, "ég er hræddur."

"Ég er líka hræddur," sagði Metternich.

"Kond' út, Metternich, að sjá hvað þetta er," sagði keisarinn.

So gengu þeir út, Metternich og keisarinn, eða keisarinn og Metternich. Metternich bar kórónuna keisarans á bakinu í strigapoka frá Havsteen sem var saumaður til þess, hann hafði veldissprotann í klofinu eins og tréhest en ríkiseplið uppi í sér eins og sykurmola. Sona góður var Metternich við keisarann og sona mikið hélt keisarinn upp á Metternich. En þegar þeir komu út þá var ógurlegt á að líta. Húsin léku á reiðiskjálfi; rennisteinarnir stigu yfir bakka sína og ótal crinoliníseraðir kvenmenn voru þar á sundi og flutu af því loftið fyllti upp crinolinurnar; allir aldingarðar höfðu snúist um so aldinin og grösin sneru niður en kolmórauð moldin upp í loft; Dóná var komin so hátt að hún var ekki lengur á jörðunni, heldur rann hún í loftinu upp yfir borginni og hreytti upp grænúldnum og afgömlum kóleraskrokkum frá Wurtemberg og Baiern so allt fólk gekk með regnhlífar til þess að hlífa sér við líkhríðinni sem dundi úr skýjunum. En þetta var ekki það ógurlegasta. Einhvurstaðar utan úr himninum stóð ógurleg halastjarna og spyrnti í Stefánsturninn so hann skalf allur og gnötraði, og þessi skjálfti gekk um alla borgina.

"Ætli það sé ekki halastjarna?" sagði keisarinn við Metternich.

"Jú, það er sjálfsagt halastjarna," sagði Metternich við keisarann.

"Ætli það sé ekki eitthvurt ókunnugt dýr?" sagði keisarinn við Metternich.

"Jú, það er sjálfsagt eitthvurt ókunnugt dýr," sagði Metternich við keisarann.

"Ætli það sé ekki afturganga?" sagði keisarinn við Metternich.

"Jú, það er sjálfsagt afturganga," sagði Metternich við keisarann.

"Guð hjálpi okkur báðum," sagði keisarinn, og keisarinn krossaði Metternich.

"Guð hjálpi okkur báðum," sagði Metternich, og Metternich krossaði keisarann.

So fóru þeir báðir inn, keisarinn og Metternich, og so tóku þeir sér snaps af slafakonjakkinu og so marga snapsa á eftir og so aftur marga snapsa þar á eftir þangað til Metternich var orðinn fullur. Þá sagði Metternich við keisarann:

"Heyrðu nú, Jósep frændi, nú skal ég fara út og vita hvur andskotinn þetta er, það er ekki annað en drífa þetta bölvað bryntröll til helvítis burt úr ríkinu, því gamla rómverska keisaradæmi. Við skulum hnýta hnúta á rekkjóðina þína, ég veit ráðin."

So tóku þeir rekkjóðina, keisarinn og Metternich, og hnýttu hnúta á hana. Síðan fór Metternich út og kom inn aftur með stjóra sem hafður var til að stjóra niður með fiskibát keisarans á Dóná. Metternich batt rekkjóðarendanum í stjóraaugað.

"Ja, vissi ég fyrr að þú ert vitur, Metternich," sagði keisarinn, "en nú skil ég ekkert í þínum ráðum."

So gengu þeir út, keisarinn og Metternich, og Metternich bar stjórann á bakinu, en keisarinn hélt í hinn rekkjóðarendann. So komu þeir að Stephansturninum, keisarinn og Metternich; þá sagði Metternich við keisarann:

"Jósep, farðu nú heim."

Þá fór keisarinn heim. En Metternich gekk að turninum, kastaði stjóranum upp í hæsta turngluggann, so hann festist þar; síðan las hann sig upp á rekkjóðarhnútunum og upp á turninn so hann gat gengið út á þennan halastjörnuhala. Halinn var grár og hrufóttur, og Metternich gekk á honum mörg hundruð þúsund mílur út í himininn.

Það var um morguninn klukkan átta. Sólin var nýrisin upp af austurfjöllunum og kastaði ylvörmum geislum út yfir Westphalen, það var svalur febrúarmorgunn, jörðin ylnaði fyrir dagstjörnunni, og hvítt næturhúmið breyttist á svipstundu í vorgrænan ljóma. Ég var kominn á fætur og stóð í glugganum á gestgjafahúsi í Crefeld; ég hafði opnað gluggann og var að horfa út á götuna. Göturnar í Crefeld eru breiðar og beinar og so fallegar sem götur geta verið í borg, húsin eru ekki há so himinljóminn getur skinið ofan yfir bæinn án þess að dökkna fyrir reyk eða annarri gufu. Töluvert af kvenfólki var komið út, þessu kvenfólki sem þykir mest gaman að horft sé á sig, en það fer raunar oft so að þær verða að láta sig sjálfar horfa á sig. So gengu þær og hristu crinolinurnar og óðu í silkikjólum, sem drösluðu hálfa alin eftir hælunum á þeim og brökuðu eins og þegar saxað er hrátt kálrabi á eikarplanka með pálþykku káljárni. Sona stóð ég í glugganum og horfði á þetta með hugsunarlausri forundrun. Ég settist í gluggann og beið eftir kaffi; so þegar ég var búinn að gjalda kvenfólkinu þann skatt sem því heyrir, nefnilega að horfa á það, þá fór ég að horfa á sjálfan mig því hvur er sjálfum sér næstur. Ég var í loðnum yfirfrakka gráum sem ég hafði keypt í Crefeld deginum áður því það var fremur svalt á nóttunni og kvöldin; nú hafði ég farið í frakkann af því hann var nýr, og ég lagði handlegginn út fyrir gluggapóstinn. Síðan kom kaffið og ég drakk það þarna í glugganum. So fór ég aftur út í gluggann og fór að virða fyrir mér þennan grip sem hafði kostað tuttugu dali; sólin skein inn um gluggann og lék í smábrotnum regnbogalitum á frakkaloðnunni. Ég tók þá eftir einu hári á frakkanum sem var lengra en hin, og á þessu hári skreið eitthvurt undurlítið dýr. Ég varð fyrst hræddur því ég hélt það kynni að vera einhvur dálítill eitraður flugdreki, en þegar ég gætti betur að þá var dýrið mjög friðsamlegt og spaklegt. Síðan varð ég reiður og fór að hugsa um hvurt þetta gæti verið lús; en þegar ég gætti betur að þá var það ekki lús; ég gat ekki aðgreint dýrið því það var so lítið. Ég ætlaði að bursta það af, en það dugði ekki, það sat kyrrt. Ég varð hálf hvumleiður yfir þessu; dýrið þæfði ofurhægt upp eftir frakkahárinu, beint áfram.

Loksins fór ég út á járnbrautina; fólkið þusti í kringum mig, crinolinur brökuðu, kvenfólk kvakaði, karlmenn æptu, conducteurarnir orguðu, gufuvagnarnir hýluðu, kúskar pískuðu og smelltu með svipunum, hestar hneggjuðu, kýr bauluðu, kindur jörmuðu, þrumur öskruðu, flöskur glömruðu, póstar lúðruðu, en ég heyrði ekkert af þessu. Ég var so sturlaður út af dýrinu að ég var eins og í leiðslu, ég keypti billet, sat hjá fallegum kvenmanni sem ég sá ekki, talaði við hana mál sem ég skildi ekki, svaraði upp á orð sem ég heyrði ekki. Því ég var sturlaður út af dýrinu. Gufuvagninn brunaði áfram, staðir og skógar hringuðust fram hjá í snarkringlu, en höfuðið á mér var fullt af undarlegum hugmyndum.

Ég kom til Gladbach. Þar steig ég út úr vagninum og drakk hálfa flösku af öli. Síðan tók ég annan billet til Aachen. Það er staðið við 5 sinnum á leiðinni frá Gladbach til Aachen; í Linnich tók ég eftir því að conducteurarnir voru að tala um að vagninn gengi eitthvað dræmt en kenndu því um að vagnrunan væri so löng, það voru eitthvað 50 eða 60 vagnar. Á leiðinni frá Linnich til Geilenkirchen tók ég sjálfur eftir því hvað allt gekk seint; þar sá ég stjörnu á leiðinni og mundi eftir því að ég hafði hrækt þar einu sinni áður á dálítinn eikirunn.

Nú þegar komið var að Geilenkirchen þá voru allir orðnir forviða; ekkert var að neinu, heldur allt í reglu; so var öllu fólki skipað út úr vögnunum til að reyna hvurt það væri af þyngslunum að vagnarnir gengi ekki áfram, allir stigu út nema ég, ég nennti því ekki; þá kom vagnstjórinn og sagði að ég yrði að fara út, en ég fór samt ekki út og sagði að það væri ekkert lokomotiv sem ekki gæti dregið einn mann. Síðan fór vagnstjórinn burtu fussandi og lék auka afl locomotivsins með þrjú hundruð hesta krafti, en vagnarnir gengu ekki eitt fet áfram. Þá kom hann til mín aftur og sagði ég yrði að fylgja boði hans eins og hitt fólkið; so fór ég út. En óðar en ég var skroppinn ofan úr vagninum þá ruku allir vagnarnir áfram með braki og brestum, beljandi og hvæsandi yfir foldina, og urðu ekki stöðvaðir; þeir ruku yfir stationina í Aachen og mölvuðu öll hús þangað til þeir stöðvuðust á ráðhúsinu. Ráðhúsið fór í smámola og það leið yfir mynd Karls mikla sem stóð á torginu í Aachen, og hefur hún aldrei risið upp síðan. Gufuvagninn lærbraut þar kerlingu, sneið höfuðið af einhvurri atlasklæddri fröken með hjólinu, tvíhenti Biblíuna útúr höndunum á erkibiskupnum af Cöln sem var kominn til Aachen til að lesa messu; hellti út úr kaffibolla fyrir borgarmeistaranum so hann varð vitlaus eftir það, sprengdi í sundur gullkeðju á hálsinum á aðalokurkarli bæjarins og gerði hálfa borgina jafna jörðunni, eins og Scipio gerði Carthago.

Á meðan þetta gerðist var ég í Geilenkirchen. Vagnarunan hafði þotið út úr höndunum á vagnstjóranum og hann og allt fólkið stóð eftir logandi hrætt, og sumt af kvenfólkinu varð svo frá sér að þær hlupu út á hlandforir eins og Guðrún Gjúkadóttir hljóp á sæinn, og so létu þær berja crinolinurnar niður með harðfisksleggjum og bareflum af því vindurinn hljóp í þær og hélt kvenmönnunum á lofti nokkra stund í hlandforunum. Sumir lögðust á bæn og hétu á hinn heilaga Cantipratanus, Rodbertus og Cassiodorus, sumir fóru inn á kneipur og heimtuðu skriffæri til að gera sín testamenti. Vagnstjórinn kom til mín og var auðséð á svipnum að hann ætlaði að skamma mig, en þegar hann ætlaði að tala þá fékk hann krampa í vinstra kjaftvikið og delirium í nefið so það skalf og hristist eins og skítkaldur kúasmali um þorranótt á Sprengisandi. Vagnstjórinn gekk burt frá mér og grét fögrum tárum. Eins og þegar Venus finnur aftur Adonis og sólvakinn ylblær líður yfir lönd og sjó, þegar döggvarnar hristast með geislandi brosi á meyjarhreinum rósalaufum, en ástargyðjan hallar hinum dúnmjúka vanga upp að brjósti þess sem hún ann og fellir margullin tár. Eins grét vagnstjórinn. Ég gekk burtu og var að hugsa um hverju allt þetta gegndi, ég var orðinn so sturlaður að ég trúði öllum Fróðárundrum. Þetta var ekki langt frá Aachen so ég réði það af að ganga því allir vagnarnir voru brotnir.

Nú lagði ég á stað í frakkanum; en ég var naumast búinn að ganga hálfan tíma fyrr en ég var orðinn so þreyttur að ég mátti til að setjast niður og hvíla mig. Það var eins og ég bæri einhvurn ógurlegan þunga á bakinu; ég reis upp aftur en þá datt ég. Ég tók eftir því að allt fólk sem gekk fram hjá mér fór að hlaupa, og kvenfólkið spennti fæturna so langt í sundur að pilsin rifnuðu so ég er viss um að það hefur ekki verið eitt heilt pils í öllu Prússaveldi, og var það mér að kenna saklausum. Frakkinn var ógurlega víður og í einhvurju hugsunarleysi mjakaði ég mér úr honum; en undir einsog ég var kominn úr frakkanum, þá var ég léttur eins og sumarfuglarnir hans séra Árna. Þá ætlaði ég að taka frakkann á handlegg mér og bera hann, en hann var so þungur að ég gat ekki hrært hann úr stað. Loksins gat ég safnað saman tvö hundruð og fimmtíu bændum sem ætluðu á alþing í Aachen, þeir báru allir fyrir mig frakkann en forsómuðu þing og föðurland sitt.

Þannig bárum við nú frakkann yfir til Aachen, og var ég ýmisshugsi um þessa hluti, eins og nærri má geta. Mér fór dýrið aldrei úr fötum, og réði ég það af að leita að því á frakkanum því ég áleit víst að þetta væru gerningar, og mundi allt þetta vera því að kenna. Ég lét þá hundrað menn snúa loðnunni á frakkanum upp og breiða hann út, og var verið að því heilan dag með lyftistöngum, kviktrjám og dúnkröftum. Sona lá nú frakkinn um nóttina og varð döggu sleginn. En ég fór inn á gestgjafahús og svaf sætlega eftir þessar dagsins þrautir.

Um morguninn rann Helíus upp á hið eirsterka himinhvolf til að lýsa ódauðlegum guðum og dauðlegum mönnum á hinni kornfrjóvu jörð. Fuglarnir vöknuðu upp úr hreiðrum sínum en gátu aldrei fundið lagið sem þeir voru vanir að syngja; allar eldastúlkur í Aachen skemmdu matinn sem þær áttu að elda, skenktu kaffið í svunturnar sínar í staðinn fyrir bolla og rifu utan af sér pilsin og skóna og kyntu þeim undir kötlunum í einhverju ofboði. Ýmislegt annað vildi til og boðaði einhver ósköp sem áttu að verða um daginn. Ég fór þá á fætur og fór strax að hugsa um frakkann. Ég fékk mér lækni með ógurlega stór gleraugu sem voru álíka stór og botnar í brennivínstunnu og nú fórum við til frakkans.

"Drottinn minn," sagði læknirinn þegar hann hafði hugað að frakkanum nokkra stund, "drottinn minn, það er maður."

"Hvaða maður?" sagði ég.

"Það er solítill maður sem gengur á einu frakkahorninu og er nú að komast að rótinni á hárinu."

Ég tók gleraugun af lækninum og leit á. Þetta var þá Metternich; hann var að klifra á frakkahárinu og var kominn upp að rótum á því.

"Ja, nú furðar mig andskotann ekki þó ég væri þungur," sagði ég, "því hvur mundi ekki vera þungur með Metternich á bakinu. En ég skil ekki í því hvurnin í fjandanum stendur á því að Metternich skuli hafa farið upp á mig sona án þess ég viti af því."

Í þessu augnabliki stóð Metternich við hliðina á mér, eins stór og hann á að sér að vera, og sagði við mig:

"Það er ekki von en ég skal útskýra það fyrir yður, Gröndal minn. Ég er nú nývaknaður úr slafakonjaksroti sem ég drakk í mig í Wien, en með þessu móti hef ég samt gert þá uppgötvun sem mun gera mörgum náttúrufræðingi kinnroða. Við héldum allir í Wien að það væri komin halastjarna því það stóð einhver grár djöfull utanúr himninum og í Stephansturninn og hristi alla borgina so við drukkum okkur fulla, hann Jósep minn og ég, en það má segja að in vino veritas því drukkinn hef ég fundið þann stóra sannleika að hárið á frakkanum yðar hefur náð frá Crefeld og yfir til Wien og skelft mig og marga aðra góða menn. Altso, þessi halastjarna var engin halastjarna heldur hárið á frakkanum yðar. Nú ætl' ég að biðja yður að gefa mér í staupinu, Benedikt minn, ég er so andskoti þreyttur, rétt eins og þegar ég var að arga á verstu friðarkontórunum fyrir hann Jósep minn."

"Nú, ég get gjarnan gefið yður í staupinu, Metternich minn," sagði ég, "en ég hef nú ekki so mikla peninga að ég geti boðið yður það sem yður sé samboðið. Viljið þér ekki hjálpa mér til að selja þennan andskotans frakka, og so skulum við drekka hann upp á einhvurri búlu og ég skal gefa yður afganginn til að fara á hóruhús fyrir."

"Jú, ég vil selja frakkann fyrir yður," sagði Metternich, "so getum við báðir farið á hóruhús á eftir."

"Ég fer aldrei á þessháttar staði," sagði ég, "ég skal drekka með yður á eftir."

"Nú jæja, jæja," nöldraði Metternich og so fórum við út og Metternich með frakkann á bakinu. Nú gengum við lengi lengi þangað til við komum í eina þrönga götu sem var ekki breiðari en so að Metternich varð að ganga á undan og ég mátti til að stinga með höfðinu í rassinn á Metternich. Að þessu vorum við í þrjá tíma, þá rak Metternich við framan í mig.

"Ja, ég er nú ekki kominn til þess að hafa nefið í rassgatinu á yður, Metternich minn," sagði ég.

"Það gerir ekkert, ýtið þér, ýtið þér," sagði Metternich, og ég hélt áfram að stanga af öllu afli. Loksins leiddist mér þetta, við vorum ekki komnir inn í götuna nema so sem hálfa alin eftir fjóra tíma, og nú gekk skrokkurinn á Metternich hvurgi.

"Ja, nú eru góð ráð dýr," sagði Metternich, og mjakaði sér í kring so hann stóð á rönd í götunni með magann að annarri húsaröðinni en rassinn að hinni, og nú hóf hann þar þann andskotans fretgang að undrum gegndi.

"Hvað ætlið þér yður með þessum látum?" sagði ég.

"Ég ætla að oka húsunum úr stað," sagði Metternich.

"Það er ómögulegt," sagði ég.

"Jú, þau láta nokk undan gasudviklingunni," sagði Metternich og frat aftur so hátt að það sprungu upp hurðirnar á þremur húsum.

"Það dugar nú lítið þetta," sagði Metternich, "það er ekki hér sem við eigum að fara inn, það er í miðri götunni.

"Það er best fyrir okkur að fara inn um hinn endann á götunni, hann er breiðari," sagði ég.

"Nei, það má andskotinn gera," sagði Metternich, "þar er hundur sem hefur einu sinni ætlað að bíta mig og ég þori ekki að ganga þar," og nú byrjaði hann þá orrahríð að allt skalf og gnötraði, rúðurnar í húsunum ýmist glömruðu eða brotnuðu, þaksteinarnir hrundu niður, og Metternich æpti við hvurn fret eins og gladiatorarnir á Circus.

"Er þetta eins heróiskt og skothríðin á Malakoff?" sagði ég.

"O, biðjið þér guð fyrir yður, það er miklu hærra," sagði Metternich og setti hendurnar af öllu afli í aðra götuhliðina, en hælana og þjóhnappana í hina hliðina á móti og sló fret ofan í fret; allar buxurnar voru gengnar í sundur, axlaböndin héngu í slitrum ofan með lærunum, frakkinn var rifnaður undir báðum höndum og skyrtan lafði ofan á magann. Þessi fretgangur var hvurki líkur skothríð eða þrumuhljóði heldur var það líkast eins og vitstola trésmiður skrubbar eikarplanka skrælþurran nema milljón sinnum hærra; hljóðið skóf svo innan eyrun á okkur báðum að það blæddi úr. Loksins sló Metternich so háan fret að pólitímeistarinn kom og spurði hvað þetta væri.

"Það er ég," sagði Metternich.

"Nú, það er gott," sagði pólitíið og fór.

"Funduð þér ekki núna dálítinn mun?" sagði Metternich. Ég sansaði mig því ég var orðinn hreint forviða af þessu og sá virkilega að húsaraðirnar voru gliðnaðar út af undirstöðunum til beggja hliða so við gátum gengið fram hvor á eftir öðrum.

So héldum við áfram þangað til við komum að þröngum dyrum, líkum þeim sem vanar eru að vera á fliðruhúsum. Þar fórum við inn og upp á fimmta sal, stigarnir voru so dimmir að ég mátti til að halda í skyrtuna Metternichs til þess að missa ekki af veginum því ég var hræddur um að ef ég yfirgæfi hann þá mundi hann drekka og hóra upp allan frakkann einn og ég mundi ekkert fá af honum. Við komum loksins að dyrum og Metternich lauk þeim upp. Þar var herbergi og þar inni var kvenmaður, blindfullur og gat valla staðið. Metternich kyssti hana og skipaði mér að gera það líka, en ég bað andskotann og sagðist hafa verið meira kræsen á að kyssa kvenfólk en so.

"Hér er frakki sem ég vil hafa fimmtán dali fyrir," sagði Metternich.

"O, eruð þér með vitinu," sagði hún.

"Tíu dali," sagði Metternich.

"Fimm dali skal ég sletta í yður," sagði hún.

"Átta dali," sagði Metternich.

"Jæja, ég get gert það í þetta sinn," sagði kvenmaðurinn og borgaði M. átta dali fyrir frakkann. So fórum við ofan og út á búlu, þar sátum við til kl. 2 um nóttina og drukkum púns og öl á víxl, og so gaf ég Metternich dal til að hóra fyrir þegar við skildum.

Um morguninn fór ég frá Aachen til Maastricht, og sat í vagninum við hliðina á fliðru sem hafði fransós á nefinu. Nefið á henni var svo langt af fransósnum að það náði ekki einasta út úr vagninum heldur dróst það tvær vikur sjávar á eftir honum; ég proponeraði fliðrunni að ég skyldi skera af henni nefið með pennahníf, en hún skelldi á lærið og hristi höfuðið. Hún var í níu pilsum og fimm hnjáskjólum með kálfskinnsþvengjum og tinknöppum á endunum, hún hafði eyrnahringi með stórum emailléruðum steinplötum og á aðra var málaður Prjápur en Bacchus á hina. Við drukkum lengi saman konjak sem ég hafði með mér og töluðum um hvurnin best væri að koma í veg fyrir fjárkláðann; hún talaði skynsamlega og af mikilli reynslu á öllum útslætti og kláðakenndum sjúkdómum. Ekki kysstumst við þegar við skildum. Frá Maastricht kom ég til Louvain. Á leiðinni sá ég hund sem var að hlaupa kapphlaup við gufuvagninn og var hálflíkur Jóni Atla í framan eða einhvurju dýrakyni af familíunni glires (rottur og mýs), hundurinn gaut augunum við og við upp á vagninn, en stúlka sat í vagninum og grét blóði því hún átti hundinn; loksins varð að stöðva vagninn til þess við skyldum ekki öll drukkna þar inni í blóðinu, en ég draslaði út með stúlkunni til að gá að hundinum, við fundum hann loksins milli tveggja hundaþúfna og var hann þá sálaður. So fórum við aftur upp í vagninn, þá var stjarna í nónsstað og eftir einn tíma komum við til Louvain. Þá flýtti sólin sér so mikið upp á himininn að hún kom upp klukkan ellefu um kvöldið og tíminn gekk aftur á bak, en fólkið rauk upp úr rúmunum alstrípað og út á göturnar, crinolinurnar glömruðu, belgiskir munnar brostu, kampavínsflöskur kímdu: ég var í Louvain.




Netútgáfan - mars 1999